Hæstiréttur íslands
Mál nr. 86/2017
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
- Skuldabréf
- Kröfuréttur
- Útivist
Reifun
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2017. Hann krefst þess að rift verði greiðslu sinni til stefnda 1. október 2008 að fjárhæð 118.222,94 bandaríkjadalir og stefnda gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki tekið til varna fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms.
I
Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi lét áfrýjandi, sem þá bar heitið Kaupþing banki hf., frá sér fara útgáfulýsingu 19. júlí 2007 vegna fyrirhugaðrar lántöku með skuldabréfum samtals að fjárhæð allt að 10.000.000.000 bandaríkjadalir. Var ætlunin að skuldabréfin yrðu gefin út á síðari stigum í áföngum með skilmálum, sem tilgreindir væru annars vegar í þeirri lýsingu og getið yrði hins vegar í svonefndum verðviðaukum, sem gerðir yrðu við hverja útgáfu. Áfrýjandi gerði slíkan verðviðauka 25. febrúar 2008 vegna skuldabréfs að fjárhæð 900.000.000 bandaríkjadalir með lokagjalddaga 28. febrúar 2015 og átti það að bera 7,625% ársvexti, sem greiddir yrðu á sex mánaða millibili, í fyrsta sinn 28. ágúst 2008, en höfuðstóllinn skyldi greiddur í einu lagi á lokagjalddaga. Óumdeilt er í málinu að skuldabréf var gefið út á þessum grunni til bandarísks félags með heitinu Cede & Co. Í útgáfulýsingunni var vísað til þess að áfrýjandi hafi gert samning við Deutsche Bank Trust Company Americas, sem nefndur er forgangsvörslusamningur í þýðingu á texta útgáfulýsingarinnar, og skyldi sá samningur eiga við í þessu tilviki. Verður á sama hátt og í hinum áfrýjaða dómi að ganga út frá því að sú tilvísun hafi átt við fyrirliggjandi samning áfrýjanda við það félag frá 12. apríl 2006. Í honum var Deutsche Bank Trust Company Americas meðal annars falið í þágu eiganda skuldabréfs að taka við og koma til skila greiðslum frá áfrýjanda á vöxtum af því og höfuðstól, svo og að leita eftir atvikum fullnustu á kröfum samkvæmt því. Í skilmálunum og samningnum, sem hér um ræðir, var gengið út frá því að tiltekin alþjóðleg fjármálafyrirtæki myndu kaupa hlutdeild í skuldabréfinu til að miðla áfram sjálf eða fyrir milligöngu annarra fjármálafyrirtækja í heild eða að hluta til fjárfesta, en hlutdeild, sem myndaðist á þennan hátt, yrði að vera að lágmarki 100.000 bandaríkjadalir og fjárhæð hennar, færi hún fram úr því, að öðru leyti í þúsundum dala. Skráður eigandi skuldabréfsins, Cede & Co., mun hafa verið tengdur öðru bandarísku fyrirtæki með heitinu Depository Trust Company, sem hafi fengist við verðbréfaskráningu og annast eða haft yfirumsjón með rafrænni skráningu á eignarhaldi að hlutdeild í skuldabréfinu. Slík hlutdeild var framseljanleg á verðbréfamarkaði, en skráður eigandi hennar á hverjum tíma naut réttar til að fá frá Deutsche Bank Trust Company Americas sinn hluta af greiðslum, sem áfrýjandi myndi inna af hendi til þess banka vegna vaxta af skuldabréfinu og höfuðstól þess. Ekki verður séð af skilmálum fyrir skuldabréfið að skráður eigandi hlutdeildar teldist að öðru leyti en þessu eiga kröfu á grundvelli hennar á hendur Deutsche Bank Trust Company Americas, Cede & Co. eða Depository Trust Company. Í útgáfulýsingunni og samningi áfrýjanda við Deutsche Bank Trust Company Americas voru jafnframt efnislega samhljóða ákvæði um að áfrýjandi mætti hvenær sem er kaupa á verðbréfamarkaði eða öðrum vettvangi hlutdeild í skuldabréfi, sem gefið yrði út með stoð í fyrrgreindum heimildum. Eftir slík kaup gæti áfrýjandi ráðið því hvort hann ætti hlutdeildina til frambúðar, endurseldi hana eða afhenti hana til Deutsche Bank Trust Company Americas til að fá hana fellda úr gildi.
Í málinu liggur fyrir samningur, sem stefndi gerði 24. júní 2004 við félag að nafni Legg Mason Asset Management (Asia) Pte Ltd. um eignastýringu þess síðarnefnda í þágu stefnda. Eins og getið er í hinum áfrýjaða dómi mun vera óumdeilt í málinu að það félag hafi í skjóli ákvæðis í samningnum falið öðru félagi, Western Asset Management Company, að veita stefnda þjónustu við eignastýringuna. Í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi á þessum grunni haft svonefnt eignasafn til umsýslu hjá Western Asset Management Company, en meðal fjárfestinga hans í því safni hafi verið „140.000 nafneiningar“ í fyrrnefndu skuldabréfi áfrýjanda. Ekki var þess getið nánar í greinargerðinni hvenær stefndi hafi eignast þessa hlutdeild í skuldabréfinu eða fyrir hvaða verð, en í málinu liggja þó fyrir tölvubréf, sem fóru milli Western Asset Management Company og áfrýjanda 16. apríl og 5. maí 2008, þar sem sá fyrrnefndi lýsti áhuga á að kaupa hlutdeild í bréfinu og sá síðarnefndi kvaðst reiðubúinn til að selja hana á genginu 83,746. Lagt hefur verið fram bréf 9. september 2008, þar sem stefndi gaf Western Asset Management Company fyrirmæli um að selja tiltekna tegund verðbréfa, sem ekki voru nánar tilgreind í einstökum atriðum. Nokkru eftir það átti Western Asset Management Company í tölvubréfaskiptum við áfrýjanda dagana 25. til 30. sama mánaðar, sem snerust í byrjun um hvort áfrýjandi hefði áhuga á að kaupa hlutdeild í skuldabréfinu að nafnvirði 140.000 bandaríkjadalir, því næst virðist áfrýjandi hafa gert boð í þessa hlutdeild á genginu 83,746, félagið hafi síðan samþykkt það, áfrýjandi óskað eftir staðfestingu um viðskiptin og félagið svo látið hana í té. Í málinu hefur verið lögð fram nóta, sem virðist stafa frá Western Asset Management Company, um tilhögun viðskipta, sem hafi komist á 26. september 2008 um hlutdeild í skuldabréfinu að nafnverði 140.000 bandaríkjadalir. Seljanda var ekki getið þar, en áfrýjandi tilgreindur sem kaupandi og kaupverð hlutdeildarinnar sagt vera 118.222,94 bandaríkjadalir að meðtöldum áföllnum vöxtum. Einnig liggur fyrir nóta vegna þessara viðskipta, sem stafar frá áfrýjanda, og var Western Asset Management Company getið þar sem seljanda en kaupandi ekki nefndur. Kaupverð hlutdeildarinnar var tilgreint það sama, dagsetning viðskipta var sögð vera 26. september 2008 og uppgjörsdagur þeirra 1. október sama ár. Í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi er staðfest efnislega að hann hafi átt þessi viðskipti við áfrýjanda, en í þeim hafi Western Asset Management Company haft milligöngu fyrir hans hönd í skjóli samningsins um eignastýringu. Óumdeilt er að áfrýjandi hafi innt af hendi kaupverðið á umsömdum uppgjörsdegi 1. október 2008, en í málinu eru ekki gögn um hvernig sú greiðsla var framkvæmd.
Áfrýjandi hefur lagt fram í málinu yfirlýsingu endurskoðanda, þar sem staðfest er að við færslur um framangreind kaup á hlutdeild í skuldabréfinu í bókhaldi áfrýjanda hafi skuldir hans verið færðar niður um 140.000 bandaríkjadali eða sem svarar nafnverði hlutdeildarinnar. Af gögnum, sem fylgdu yfirlýsingunni, verður ráðið að sama fjárhæð hafi jafnframt verið færð sem eign áfrýjanda á bókhaldslykli fyrir verðbréfaútgáfu, svo og að mismunurinn á nafnverði og kaupverði, 21.777 bandaríkjadalir, hafi um leið verið færður áfrýjanda til tekna á bókhaldslykli með heitinu: „Gangverðsbreyting buyback“. Eftir gögnum málsins neytti áfrýjandi ekki áðurgreindrar heimildar samkvæmt útgáfulýsingu fyrir skuldabréfið og samningi sínum við Deutsche Bank Trust Company Americas til að afhenda þeim banka hlutdeildina í skuldabréfinu til að fá hana fellda úr gildi. Þess í stað mun áfrýjandi hafa átt hana enn þegar Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Slitameðferð áfrýjanda, sem fór síðan í hönd með frestdegi 15. nóvember 2008, var lokið með nauðasamningi 23. desember 2015.
Meðan á slitameðferð áfrýjanda stóð höfðaði hann mál þetta 21. og 25. júní 2012 til riftunar á greiðslu skuldar að fjárhæð 118.222,94 bandaríkjadalir, sem hann telur hafa falist í áðurgreindum kaupum á hlutdeild í skuldabréfi, svo og endurheimt á sömu fjárhæð, sem hann lét af hendi í þeim viðskiptum, en málsóknin er reist á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Í héraði beindi áfrýjandi þessum kröfum aðallega að Western Asset Management Company, en til vara stefnda. Þeir voru báðir sýknaðir af kröfum áfrýjanda með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi skaut málinu sem áður segir til Hæstaréttar 8. febrúar 2017 og beindi hann áfrýjun sinni að báðum gagnaðilunum með sömu kröfum og hann hafði gert í héraði. Lögmenn áfrýjanda og Western Asset Management Company tilkynntu réttinum með bréfi 28. september 2017 að sátt hefði tekist milli þessara málsaðila um að fella niður áfrýjunina gagnvart nefndu félagi, svo og að þeir féllu frá kröfum um málskostnað fyrir Hæstarétti hvor á hendur öðrum. Í bréfinu var einnig tekið fram að áfrýjandi héldi til streitu kröfum sínum á hendur stefnda og óskaði eftir að dómur gengi í málinu að því leyti.
II
Svo sem áður var getið hefur stefndi ekki tekið til varna í málinu hér fyrir dómi. Samkvæmt fyrrnefndri 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 leiðir þetta til þess að líta verður svo á að stefndi krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Slík krafa lýtur hér sem endranær að því að Hæstiréttur staðfesti aðalniðurstöðu héraðsdóms, svo sem hún birtist í dómsorði hans, en felur á hinn bóginn ekki í sér að stefndi teljist fella sig í einu og öllu við úrlausn dómsins um einstakar málsástæður. Í því sambandi verður að gæta að niðurlagsorðum fyrrnefnds lagaákvæðis, þar sem fram kemur að Hæstiréttur kveði við aðstæður sem þessar upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna án munnlegs málflutnings. Ber því að líta til allra varna, sem stefndi hélt uppi í greinargerð í héraði, og taka eftir atvikum afstöðu til þeirra, sbr. einnig niðurlagsorð 3. mgr. 96. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991.
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að aðalstefndi í héraði, Western Asset Management Company, hafi einungis haft á hendi milligöngu um viðskipti stefnda og áfrýjanda, sem hafi falist í fyrrgreindum kaupum áfrýjanda á hlutdeild stefnda í skuldabréfi 26. september 2008. Með því að stefndi hafi þannig verið viðtakandi greiðslu áfrýjanda var Western Asset Management Company sýknað vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður ráðið af greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi að hann hafi svo að máli skipti vefengt nokkuð það, sem að þessu lýtur. Verður því að leggja til grundvallar þá niðurstöðu héraðsdóms að kröfum áfrýjanda sé réttilega beint að stefnda.
Samkvæmt því, sem áður greinir, komst á samningur 26. september 2008 um kaup áfrýjanda á fyrrgreindri hlutdeild í skuldabréfi af stefnda og verður að byggja á því að áfrýjandi hafi 1. október sama ár staðið skil á kaupverðinu, 118.222,94 bandaríkjadölum. Greiðsla þessi fór þannig fram innan sex mánaða fyrir frestdag við slit áfrýjanda, sem eins og fyrr segir var 15. nóvember 2008. Skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslu samkvæmt ákvæðinu er því að þessu leyti fullnægt.
Með viðskiptunum, sem um ræðir, keypti áfrýjandi hlutdeild í skuldabréfi, sem greiða átti upp í einu lagi á umsömdum lokagjalddaga 28. febrúar 2015 að því er höfuðstól varðar. Um leið greiddi hann vexti, sem fallið höfðu á þessa hlutdeild í skuldabréfinu á tímabilinu frá síðasta gjalddaga vaxta 28. ágúst 2008 fram til uppgjörsdags viðskiptanna 1. október sama ár. Gjalddagi þeirra vaxta hefði ella verið 28. febrúar 2009. Greiðslur þessar voru þannig að öllu leyti inntar af hendi fyrir umsaminn gjalddaga og þar með fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Er því einnig að þessu leyti fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir riftun greiðslunnar.
Hér að framan var lýst nokkrum meginatriðum í skilmálum, sem giltu um skuldabréfið sem áfrýjandi keypti hlutdeild í af stefnda og komu ýmist fram í útgáfulýsingu 19. júlí 2007, verðviðauka 25. febrúar 2008 eða samningi áfrýjanda við Deutsche Bank Trust Company Americas 12. apríl 2006. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið af þessum skilmálum en að áfrýjandi hafi borið greiðsluskyldu samkvæmt skuldabréfinu við Deutsche Bank Trust Company Americas í þágu skráðs eiganda þess, Cede & Co. Þessa skyldu hafi áfrýjandi á hinn bóginn ekki borið við þá, sem eignast höfðu hlutdeild í skuldabréfinu. Hann hefði því ekki getað losnað undan skyldunni með greiðslu beint til eiganda hlutdeildar í skuldabréfinu og hefði eftir sem áður borið hana óskerta við skráðan eiganda þess þótt hann hefði innt af hendi slíka greiðslu. Þá verður ekki annað ráðið af þessum heimildum en að eigandi hlutdeildar í skuldabréfinu hafi ekki sjálfur getað snúið sér beint til áfrýjanda og krafið hann um greiðslu sér til handa, heldur hafi aðeins verið á færi Deutsche Bank Trust Company Americas í þágu skráðs eiganda skuldabréfsins að krefja áfrýjanda um greiðslu í einu lagi handa öllum eigendum hlutdeildar í því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. október 2011 í máli nr. 398/2011. Í þessu ljósi stóð áfrýjandi því hvorki í skuld við stefnda né átti stefndi kröfu um greiðslu úr hendi áfrýjanda og hafði þannig ekki myndast milli þeirra kröfuréttarsamband í skilningi meginreglna fjármunaréttar. Til þess verður á hinn bóginn að líta að heimildin í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu á skuld er ekki háð því að hún hafi farið fram við aðstæður, þar sem beint réttarsamband hefur staðið milli kröfuhafa og skuldara, heldur getur ákvæðið einnig tekið til ráðstöfunar, sem í raun leiðir til þess í senn að kröfuhafi fái efndir á kröfu sinni og skuldari losni undan greiðsluskyldu sinni. Í máli þessu háttar svo til að ráðstöfun áfrýjanda var í þeim búningi að hann keypti af stefnda hlutdeild í skuldabréfi, sem áfrýjandi bar greiðsluskyldu á, en með því fékk stefndi í raun efndir á kröfu sinni, sem hann felldi sig við að gefa eftir að hluta með því að í viðskiptunum var ekki greitt fullt nafnverð hennar. Eftir þessi kaup hefði áfrýjandi getað kosið sem fyrr segir að fá kröfu Cede & Co. á hendur sér samkvæmt skuldabréfinu fellda niður að því marki, sem svaraði til hlutdeildarinnar í því sem hann hafði eignast með þessari ráðstöfun, en með því hefði hann losnað að þessu leyti undan skuld sinni. Þá leið fór áfrýjandi ekki, heldur valdi hann að eiga áfram hlutdeild í skuldabréfinu, svo sem heimilt var samkvæmt skilmálunum sem giltu um það. Þetta val hafði í raun þá afleiðingu að hann hefði á hverjum gjalddaga þurft að standa Deutsche Bank Trust Company Americas skil á fullri greiðslu samkvæmt skuldabréfinu, en fengið síðan fyrir atbeina milliliða til baka þann hluta af þeirri greiðslu, sem svaraði til hlutdeildar hans sjálfs í skuldabréfinu. Með þessu var áfrýjandi nánast eins settur og ef hlutdeild hans í skuldabréfinu hefði verið felld niður og hann losnað að því leyti undan skuld sinni. Að þessu öllu virtu getur engu breytt gagnvart skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að þessi ráðstöfun hafi farið fram beint milli áfrýjanda og stefnda í stað þess að greiðsla færi á þeirri leið um hendur annarra, sem kröfuréttarsamband var á milli. Er því jafnframt fullnægt því skilyrði ákvæðisins að ráðstöfun áfrýjanda hafi falið í sér greiðslu á skuld við stefnda.
Eftir 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki komið fram riftun á greiðslu skuldar, þótt öllum framangreindum skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt, ef greiðslan hefur virst venjuleg eftir atvikum. Eins og fyrr greinir var ætlast til að viðskipti gætu farið fram á verðbréfamarkaði með hlutdeild í skuldabréfinu, sem áfrýjandi hafði gefið út, og verður ráðið af gögnum málsins að sú hafi einnig verið raunin. Í skilmálunum, sem giltu samkvæmt áðursögðu um skuldabréfið, var beinlínis tekið fram að áfrýjandi gæti sjálfur átt slík viðskipti, bæði með því að kaupa hlutdeild í því og selja hana á ný. Liggur jafnframt fyrir að það hafi hann gert í talsverðum mæli með því að eiga viðskipti með hlutdeild í þessu skuldabréfi og mörgum öðrum, sem sams konar skilmálar giltu um, svo og að viðskipti af þessum toga hafi verið alvanaleg í tilvikum annarra fjármálafyrirtækja, bæði innlendra og erlendra. Þegar af þessari ástæðu verður að líta svo á að fyrir liggi að viðskiptin milli áfrýjanda og stefnda, sem málið varðar, hafi verið venjuleg eftir atvikum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda.
Að því verður að endingu að gæta að mál þetta er eitt af fjölmörgum, sem áfrýjandi hefur höfðað til riftunar á sambærilegum viðskiptum, lokið hefur í héraði með dómi um sýknu og áfrýjandi hefur skotið til Hæstaréttar. Með tveimur dómum réttarins, sem kveðnir voru upp í slíkum málum 11. maí 2017, hæstaréttarmálunum nr. 189/2016 og 621/2016, voru gefin fordæmi, sem styðjast hefur mátt við til að ráða örlögum flestra hinna málanna, sem hér um ræðir, en með fáum undantekningum hafa þau verið felld niður hér fyrir dómi. Svo var þó ekki gert hér að því er varðar stefnda, sem kröfum var þó upphaflega beint að til vara við áfrýjun héraðsdóms. Fyrir þeirri afstöðu áfrýjanda verður ekki séð nokkur ástæða, enda gat honum ekki annað en verið algerlega ljóst að virtum dómi Hæstaréttar í máli nr. 189/2016 hver úrslit þessa máls myndu verða. Með því að stefndi hefur ekki haldið uppi vörnum fyrir Hæstarétti verður honum ekki dæmdur málskostnaður. Ber því að fella hann niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 6. október sl., er höfðað 21. júní 2012 af Kaupþingi hf., Borgartúni 26 í Reykjavík, á hendur aðalstefnda Western Asset Management Company, 385 East Colorado Boulevard, Pasadena, California 91101, Bandaríkjum Norður-Ameríku, og 25. júní 2012 á hendur varastefnda Singapore Labour Foundation, NTUC Centre, No.1 Marina Boulevard #11-01 One Marina Boulevard, 018989, Singapúr.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til aðalstefnda, dags. 1. október 2008, að fjárhæð 118.222,94 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta, dags. 26. september 2008.
Í öðru lagi krefst stefnandi þess að aðalstefndi greiði stefnanda 118.222,94 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 6. september 2012 til greiðsludags.
Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í varaaðild:
Í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til varastefnda, dags. 1. október 2008, að fjárhæð 118.222,94 Bandaríkjadollara, vegna viðskipta, dags. 26. september 2008.
Í öðru lagi að varastefndi greiði stefnanda 118.222,94 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.
Í þriðja lagi að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Aðalstefndi krafðist þess í öndverðu að öllum kröfum stefnanda yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2013. Að því frágengnu krefst aðalstefndi þess aðallega að hann verði sýknaður en til vara að kröfufjárhæð stefnanda verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Varastefndi krafðist þess einnig í upphafi að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með framangreindum úrskurði. Að því frágengnu krefst varastefndi aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst varastefndi málskostnaðar.
Eftir að frávísunarkröfum stefnenda var hafnað fór fram umfangsmikil gagnaöflun, einkum af hálfu stefnda. Þorri skjala er á enskri tungu og hefur gagnaöflun því kallað á mikla vinnu við þýðingar.
II
Atvik máls þessa eru þau að 19. júlí 2007 birti stefnandi útgáfulýsingu (e. Offering Circular) fyrir 10 milljarða Bandaríkjadollara skuldabréfaútgáfu. Í útgáfulýsingunni eru umfangsmiklar upplýsingar um starfsemi og fjárhagsstöðu stefnanda. Þar eru einnig gefnar allítarlegar upplýsingar um fyrirhuguð skuldabréf og viðskipti með þau. Í upphafi þeirrar lýsingar kemur fram að hún feli í sér almenna skilmála þeirra skuldabréfa sem gefin verði út, en að sérstakir skilmálar hvers skuldabréfs muni koma fram í svonefndum verðviðaukum (e. Pricing Supplement). Segir þar að verðviðaukarnir skilgreini nánar hvaða almennu ákvæði útgáfulýsingarinnar gildi um skuldabréfin.
Meðal skuldabréfa sem heimilt var að gefa út á grundvelli útgáfulýsingarinnar voru svokölluð „Senior Notes“ sem í þýðingum löggiltra skjalaþýðenda eru kölluð forgangsskuldabréf. Í útgáfulýsingunni kemur einnig fram að slík skuldabréf verði gefin út samkvæmt sérstökum samningi um forgangsskuldabréfin (e. Senior Indenture) milli stefnanda sem útgefanda og Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA) sem vörsluaðila (e. Trustee). Í útgáfulýsingunni er jafnframt gert ráð fyrir því að DBTCA gegni hlutverki svonefnds umsjónaraðila greiðslna (e. Paying Agent), ásamt Fortis Banque Luxembourg S.A. samkvæmt samningi um umsjón greiðslna í Lúxemborg. Þar segir einnig að skuldabréf, sem verði í boði fyrir hæfa stofnanafjárfesta (e. Qualified Institutional Buyers) í Bandaríkjum Norður-Ameríku, í samræmi við þar gildandi löggjöf, verði í formi eins eða fleiri bandarískra allsherjarskuldabréfa (e. U.S. Global Notes). Utan Bandaríkja Norður-Ameríku skyldu slík bréf vera í formi alþjóðlegra allsherjarskuldabréfa (e. International Global Notes).
Í lýsingunni er gert ráð fyrir því að skuldabréfin verði í skráðu formi nema annað sé tekið fram í verðviðauka. Átti að leggja allsherjarskuldabréf, „sem standa fyrir skuldabréf í tilteknum flokki“, inn hjá vörsluaðila (e. custodian), The Depositary Trust Company (DTC), þar sem allsherjarskuldabréfið yrði varðveitt „í þágu þátttakenda í DTC“. Þá er þar tekið fram að unnt sé að framselja eignarhlutdeild í allsherjarskuldabréfum í samræmi við skilmála útgáfulýsingarinnar um rafræna eignaskráningu. Í þeim skilmálum er við það miðað að vörslufyrirtækið Depository Trust Company eða DTC sé „verðbréfavörsluaðili allsherjarskuldabréfanna“ (e. securities depositary for the Global Notes), en að þau verði gefin út sem „skráð verðbréf í nafni Cede & Co“ sem DTC hafi tilnefnt. Í útboðsskilmálunum eru nánari fyrirmæli um rafræna eignaskráningakerfið. Þar er vísað til þess að svonefndir beinir eða óbeinir þátttakendur í kerfinu haldi utan um eignarhlutdeildir viðskiptavina sinna.
Auk framangreindrar útgáfulýsingar liggur fyrir í málinu ítarlegur samningur milli stefnanda og DBTCA, dags. 12. apríl 2006, sem ber yfirskriftina Senior Indenture. Í þeim þýðingum sem liggja fyrir í málinu ber samningur þessi jafnan yfirskriftina skuldabréfasamningur, en stefndu kalla hann rammasamning í greinargerðum sínum. Verður þýðing löggiltra skjalaþýðenda lögð til grundvallar í dóminum. Ganga verður út frá því að þessi samningur sé sá samningur sem vísað er til í útgáfulýsingunni. Þar er nánar kveðið á um lögskipti milli útgefanda skuldabréfanna og vörsluaðila sem og umsjónarmanns greiðslna.
Á grundvelli þessara gagna gaf stefnandi út verðviðauka 25. febrúar 2008 vegna samtals 900 milljóna Bandaríkjadollara forgagnsskuldabréfa, sem skyldu bera 7,625% vexti og var tilgreindur gjalddagi þeirra 28. febrúar 2015. Átti að greiða vexti tvisvar sinnum á ári, 28. febrúar og 28. ágúst ár hvert. Í verðviðaukanum var kveðið á um að skuldabréfin væru ekki innleysanleg (e. redeemd) að vali útgefanda fyrir tilgreinda gjalddaga nema af skattalegum ástæðum. Eigandi gæti þó krafist þess að útgefandi innleysti skuldabréfin að hluta eða að öllu leyti fyrir tilgreindan gjalddaga á svokölluðum valkvæðum endurgreiðsludögum, sem áttu að vera 28. ágúst 2010 og 28. febrúar 2013. Var endurgreiðsluverð þar sagt vera 86,901% af höfuðstól 28. ágúst 2010 og 92,368% af höfuðstól 28. febrúar 2013. Þessi skuldabréf bera alþjóðlega skráningarnúmerið ISIN nr. US48632FAE16 fyrir bandarísk allsherjarskuldabréf og ISIN nr. US48632GAE98 fyrir alþjóðleg skuldabréf. Í verðviðaukanum er DBTCA tilgreindur útreikningsaðili (e. Calculation Agent). Þá kemur þar fram að bréfin yrðu í fyrstu boðin út á 83,746% af höfuðstól.
Aðilar máls þessa virðast í ýmsum atriðum vera sammála um hlutverk og stöðu framangreindra aðila samkvæmt útgáfulýsingu og öðrum gögnum málsins. Þannig eru aðilar sammála um að við hverja útgáfuröð hafi stefnandi aðeins gefið út eitt skuldabréf á pappírsformi. Fyrrgreint fyrirtæki, DTC í New York, hafi tilnefnt Cede & Co. sem skráðan handhafa þess skuldabréfs. Eftir sem áður hafi DBTCA, sem fjárvörsluaðili, farið að stórum hluta með hlutverk Cede & Co. í samræmi við samning fyrirtækisins við útgefandann og útgáfulýsingu. Sem umsjónarmanni greiðslna og fjárvörsluaðila hafi DBTCA meðal annars verið falið að taka við greiðslum frá útgefanda og leita, eftir atvikum, fullnustu á kröfum samkvæmt skuldabréfunum. Eftir að skuldabréfin höfðu verið gefin út og skráð í rafrænt eignaskráningarkerfi DTC hafi miðlarar, sem voru þátttakendur í kerfinu, selt hluti í hverju bréfi. Kaupendur þessara hluta eru í gögnum málsins kallaðir „Beneficial Owners“ en það hugtak er ýmist þýtt sem raunverulegir eigendur eða hagsmunaeigendur í þeim þýðingum sem liggja fyrir. Ágreiningslaust er að þeir eru endanlegir móttakendur á greiðslu vaxta og höfuðstóls af hverju skuldabréfi í samræmi við eignarhlut sinn í því.
Í umfjöllun um rafrænt eignaskráningarkerfi í útgáfulýsingu kemur fram að fyrrgreint vörslufyrirtæki, DTC, geymi „í vörslum sínum verðbréf sem þátttakendur þess („þátttakendur“) leggja inn hjá DTC“. Þá annist DTC einnig greiðslujöfnun og uppgjör viðskipta þátttakenda sinna með bréfin með rafrænum eignaskráningum á reikningum þátttakenda. Þar segir enn fremur að beinir þátttakendur í DTC séu ákveðnir verðbréfamiðlarar, bankar, vörslufyrirtæki, greiðslujöfnunarfyrirtæki og ákveðnar aðrar stofnanir. Aðrir aðilar hefðu þó aðgang að kerfi DTC ef þeir gerðu upp viðskipti í gegnum beinan þátttakanda eða væru í vörslusambandi við slíkan aðila. Kveðið var á um að kaup allsherjarskuldabréfa eða allsherjarkvittana í gegnum kerfi DTC skyldu ávallt framkvæmd fyrir milligöngu beinna þátttakenda og væru allsherjarskuldabréfin og allsherjarkvittanirnar færðar þeim til eignar í skrám DTC. Hins vegar væri eignarhlutur „eiginlegs kaupanda“ þeirra skráður hjá viðkomandi beinum eða óbeinum þátttakanda. Var til þess ætlast að hagsmunaeigendur í allsherjarskuldabréfinu fengju staðfestingu um einstök viðskipti og yfirlit frá viðkomandi þátttakanda. Þá var þar kveðið á um að framsal eignarhluta í allsherjarskuldabréfinu skyldi fara fram með skráningu í bókum þeirra þátttakenda sem kæmu fram fyrir hönd hagsmunaeigandans.
Í útgáfulýsingunni segir að skuldabréfin og „vörslusamningar“ skuli túlkuð í samræmi við lög New York-ríkis að undanskildum ákvæðum „víkjandi vörslusamnings og víkjandi skuldabréfa og eiginfjárvörslusamnings og eiginfjárskuldabréfa um víkjandi rétthæð“, en þau ákvæði skyldu túlkuð í samræmi við íslensk lög. Undantekningar þessar ná samkvæmt framansögðu ekki að neinu leyti til svonefndra forgangsskuldabréfa (e. Senior Notes) og er því ljóst að lög New York-ríkis gilda um túlkun allra ákvæða um þau. Þetta er áréttað í framlögðum samningi milli stefnanda og DBTCA (e. Senior Indenture), en þar segir: „THIS INDENTURE AND THE NOTES SHALL BE GOVERNED BY AND CONSTRUED IN ACCORDANCE WITH THE LAWS OF THE STATE OF NEW YORK.“
Hlutdeild í skuldabréfi sem stefnandi hafði gefið út á þessum grundvelli gat gengið kaupum og sölum á markaði. Í útgáfulýsingunni eru ákvæði um endurkaup útgefanda á slíkum hlut. Þar segir orðrétt að hann geti „hvenær sem er keypt skuldabréf á hvaða verði eða verðum sem er á frjálsum markaði eða á annan hátt“ (e. The issuer may [...] at any time purchase Notes at any price or prices in the open market or otherwise). Sérstaklega er tekið fram að útgefandanum sé heimilt að eiga þau áfram, endurselja þau eða að eigin vali skila þeim inn til viðkomandi vörsluaðila til ógildingar (e. Notes so purchased may be held or resold or, at the discretion of the Issuer, surrendered to the applicable Trustee for cancellation).
Nánast samhljóða ákvæði er að finna í grein 10.9 í skuldabréfasamningi stefnanda við DBTCA frá 12. apríl 2006. Þar er einnig kveðið á um niðurfellingu eða ógildingu skuldabréfa í grein 3.9. Kemur þar fram að stefnanda sé heimilt hvenær sem er að afhenda aðalumsjónaraðila greiðslna skuldabréf til ógildingar, óháð því hvernig félagið hafi eignast það, og skulu slík bréf þá þegar í stað felld úr gildi „sem þannig eru afhent“.
Mál þetta lýtur að kaupum stefnanda á hlutdeild í skuldabréfaflokki með alþjóðlega auðkennisnúmerið ISIN nr. US4863FAE16, að nafnverði 140.000 Bandaríkjadollarar. Stefnandi hefur lagt fram skjal sem hann nefnir kaupnótu og telur vera til marks um sölu aðalstefnda á umræddri hlutdeild. Heiti aðalstefnda er efst á nótunni. Þar fyrir neðan segir undir yfirskriftinni „Reikningur“ í íslenskri þýðingu: „Eignasafn 1539 / Heiti eignasafns / Singapour Labour Foundation.“ Af kaupnótunni virðist mega ráða að stefnandi hafi 26. september 2008 samið um kaup á hlutdeildinni fyrir 83,746% af nafnverði eða 117.244,40 Bandaríkjadollara. Við þá fjárhæð bættust áfallnir vextir að fjárhæð 978,54 Bandaríkjadollarar. Samtals nam umsamin greiðsla því 118.222,94 Bandaríkjadollurum. Fram kemur á kaupnótunni að uppgjörsdagur (e. settlement date) væri 1. október 2008.
Í málinu liggur fyrir samningur, dags. 24. júní 2004, milli Legg Mason Asset Management (Asia) PTE Limited og varastefnda. Þar tekur sá fyrrnefndi að sér að veita varastefnda fjárfestingarþjónustu eða „discretionary investment management service“ og að gerast umsjónaraðili fjárfestinga (e. investment manager) með eignum varastefnda á tilteknum reikningi. Í samningnum var umsjónaraðilanum veitt heimild til þess að fela nátengdum aðila (e. affiliate) að veita varastefnda þá þjónustu sem samningurinn kvað á um. Ágreiningslaust er að aðalstefndi er systurfélag Legg Mason Asset Management (Asia) PTE Limited og var falið að annast varastefnda umrædda þjónustu. Samkvæmt a-lið greinar 4.1 í samningnum fólst þjónustan í meginaatriðum í því að stjórna, fjárfesta og endurfjárfesta í eignunum fyrir hönd og á ábyrgð varastefnda (e. for and on behalf of the Client and at the risk of the Client).
Með bréfi varastefnda, dags. 9. september 2008, var aðalstefnda falið að selja öll skuldabréf í eigu varastefnda á reikningum sem gæfu reglubundnar tekjur (e. „all fixed income portfolios within the SLF portfolio“). Starfsmaður aðalstefnda óskaði eftir því með tölvuskeyti 25. september 2008 að stefnandi gerði kauptilboð í „140k KAUP ´15“ sem skírskotar til þeirrar hlutdeildar sem um ræðir. Í svari starfsmanns stefnanda sama dag var gert tilboð sem nam „83.746“ sem vísar til hlutfalls af nafnverðinu. Starfsmaður aðalstefnda samþykkti tilboðið með tölvuskeyti 26. september 2008. Staðfesting á viðskiptunum var einnig send með tölvuskeyti frá aðalstefnda til stefnanda 30. september 2008. Þar kemur fram að um sé að ræða eignasafnið „W1539“. Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að uppgjör viðskiptanna hafi farið fram á umsömdum uppgjörsdegi í hinu rafræna uppgjörskerfi DTC þar sem varastefndi, eða Citibank Singapour sem vörslubanki og aðili að DTC, var tekinn af skrá DTC yfir hagsmunaeigendur í allsherjarskuldabréfinu og hin umsamda fjárhæð var millifærð yfir á reikning varastefnda. Fram kemur í stefnu og yfirlýsingu endurskoðanda stefnanda að í kjölfar viðskiptanna hafi skuldir stefnanda verið færðar niður um sem nam 140.000 Bandaríkjadollurum í reikningum bankans.
Eins og rakið er í stefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009. Stefnanda var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og er frestdagur við slitameðferð stefnanda 15. nóvember 2008. Fram kemur í stefnu að við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðarinnar sé gildisdagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 lá fyrir dómsúrskurður um slitameðferð stefnanda.
Í mars 2012 höfðaði stefnandi mál á hendur aðalstefnda fyrir gjaldþrotarétti New York-ríkis í því skyni að afla gagna og upplýsinga um endurkaup stefnanda á hlutum í allsherjarskuldabréfi af aðalstefnda. Fallist var á kröfur stefnanda og aðalstefnda gert að afhenda stefnanda umbeðin gögn. Með bréfi 30. apríl 2012 sendi aðalstefndi stefnanda gögn um þau viðskipti sem félagið hafði tekið þátt í á tilteknu tímabili. Í svarinu kemur meðal annars fram að aðalstefndi hafi komið fram fyrir hönd eiginlegra rétthafa skuldabréfanna í viðskiptunum. Þá gaf aðalstefndi upp viðskiptaskrár og netföng þeirra aðila sem hann kom fram fyrir hönd.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi rökstyður aðild sína að málinu með vísan til þess að hann sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Bendir hann á að samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, megi við slitameðferð stefnanda krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi við slitameðferðina með sama hætti og við hefðbundin gjaldþrotaskipti.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að greiðsla sem hann innti af hendi til aðalstefnda hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var, en slíkar greiðslur séu riftanlegar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þau þrjú skilyrði sem tilgreind eru í ákvæðinu séu fyrir hendi.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að greiðslan hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur við slitameðferð stefnanda sé 15. nóvember 2008. Stefnandi hafi greitt skuld sína við aðalstefnda 1. október 2008 og þannig hafi greiðslan átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Leggur stefnandi áherslu á að það tímamark sem miða beri við samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 sé þegar afhending fjármuna fari fram.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Stefnandi tekur fram að aðalstefndi hafi verið rétthafi skuldabréfs í útgáfu stefnanda nr. US48632FAE16, en skuldabréfið hafi verið á gjalddaga 28. febrúar 2015. Stefnandi hafi greitt aðalstefnda skuld sína samkvæmt bréfinu að fullu 1. október 2008. Aðalstefndi hafi þannig fengið kröfu sína samkvæmt skuldabréfinu greidda rúmlega sex og hálfu ári fyrir gjalddaga. Stefnandi byggir á því að skuld sem greidd sé fyrir gjalddaga teljist almennt hafa verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi ítrekar enn fremur að 8. október 2008 hafi stjórn stefnanda sagt af sér og að 9. sama mánaðar hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og sett yfir hann skilanefnd. Hafi stefnandi verið tekinn til slitameðferðar í kjölfarið. Stefnandi heldur því fram að ef ekki hefði komið til hinnar riftanlegu greiðslu hefði aðalstefndi aldrei fengið kröfu sína greidda á gjalddaga, hvorki í heild né að hluta. Aðalstefndi hefði þess í stað eignast kröfu við slitameðferð stefnanda. Ljóst sé að við slitameðferð stefnanda muni almennar kröfur ekki greiðast að fullu og ekki fyrr en löngu eftir gjalddaga. Bendir stefnandi á að það raski jafnræði kröfuhafa við slitameðferð stefnanda ef sumir þeirra, sem með réttu hefðu átt að eiga kröfu við slitameðferðina, fá kröfur sínar greiddar að fullu. Með því hafi stefnandi mismunað kröfuhöfum. Þannig hafi greiðsla stefnanda verið til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti fyrir aðalstefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Með því að rifta greiðslunni leitist stefnandi þannig við að skapa jafnræði milli kröfuhafa. Gangi kröfur stefnanda eftir muni aðalstefndi njóta jafns réttar á við sambærilega kröfuhafa.
Í þriðja lagi telur stefnandi ekki liggja fyrir að greiðslan hafi verið eðlileg eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur að þessi liður greinarinnar feli í sér undantekningu sem beri að skýra þröngt, auk þess sem hann leggur áherslu á að aðalstefndi beri sönnunarbyrðina um að hún eigi við.
Stefnandi tekur fram að til þess að undantekningin í 134. gr. laganna um að greiðsla „hafi virst venjuleg eftir atvikum“ geti mögulega átt við hafi greiðsla sem þessi, þar sem skuld er greidd löngu fyrir gjalddaga, m.a. þurft að vera venjuleg í viðskiptum milli aðila. Uppgreiðsla skuldabréfa fyrir gjalddaga hafi ekki verið venjuleg í viðskiptum milli stefnanda og aðalstefnda.
Af hálfu stefnanda er á það bent að jafnvel þótt hann hafi haft heimild til þess að kaupa skuldabréfið samkvæmt skilmálum þess þá breyti það því ekki að greiðslurnar séu riftanlegar. Ákvæði sem heimili skuldara að kaupa eigin skuld hafi sömu réttaráhrif og uppgreiðsluheimild. Ekki sé hægt að fallast á að ákvæði í skuldabréfi, um að þrátt fyrir tilgreindan gjalddaga megi eða beri ávallt að greiða upp skuldina fyrr, gangi framar riftunarreglu 134. gr. gjaldþrotalaga. Ef sú væri raunin væri ávallt hægt að semja sig undan riftunarreglunum.
Stefnandi tekur fram að með þessu sé því ekki haldið fram að innlausnar- og endurkauparéttur sé almennt ólögmætur í skuldabréfum. Að sjálfsögðu sé lögmætt að áskilja slíkan rétt, bæði fyrir skuldara og kröfuhafa. Slík samningsákvæði víki þó fyrir riftunarreglum gjaldþrotalaganna. Þá skipti ekki máli gagnvart riftunarreglum gjaldþrotalaganna þó að greiðsla á skuld myndi almennt teljast lögmæt að öllu leyti. Ráðstöfun geti verið riftanleg á þeim grundvelli jafnvel þó að hún hafi ekki verið ólögmæt, sviksamleg eða saknæm af hálfu þeirra sem stóðu að henni.
Stefnandi bendir jafnframt á að riftun á greiðslu skuldar sé ekki ætlað að ógilda skuldabréfið eða aðra löggerninga sem hafi verið grundvöllur að því að skuld stefnanda við aðalstefnda var greidd fyrir gjalddaga. Riftunin beinist eingöngu að því að hnekkja greiðslunni sjálfri og endurheimta í peningum hagnað eins kröfuhafa sem sé á kostnað annarra og raski þannig að óbreyttu jafnræði kröfuhafa.
Stefnandi getur þess einnig að riftunarregla 134. gr. gjaldþrotalaga sé hlutlæg regla sem leiði til riftunar þrátt fyrir að löggerningar að baki greiðslu skuldar hafi verið lögmætir og allir aðilar hafi verið í góðri trú. Meginreglan sé sú að huglæg afstaða skuldara eða kröfuhafa skipti engu máli fyrir riftun greiðslunnar.
Stefnandi telur að ráða megi af öllu framangreindu að uppgreiðsla skuldarinnar sex og hálfu ári fyrir gjalddaga hafi ekki verið „eðlileg eftir atvikum“. Ekkert í viðskiptasambandi aðila hafi gefið tilefni til að ætla að slík venja væri í gildi og þess háttar uppgjör skulda hafi ekki tíðkast áður milli stefnanda og stefnda. Þá hafi engin skylda hvílt á stefnanda, hvorki samkvæmt lögum né samningum, til að greiða bréfin fyrir gjalddaga þeirra. Það sé stefnda að sýna fram á að greiðsla skuldarinnar, sem óumdeilanlega hafi verið innt af hendi fyrir gjalddaga, sé þrátt fyrir allt venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi kveður kröfu sína um endurgreiðslu byggja á 142., sbr. 143. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi telur að greiðsla kröfunnar 1. október 2008 hafi orðið til þess að stefndi hafi auðgast um sem nam 118.222,94 Bandaríkjadollurum. Stefndi hefði ekki fengið kröfuna greidda á gjalddaga. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð og auðgun stefnda. Skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga séu því fyrir hendi.
Stefnandi tekur fram að samkvæmt skilmálum í útgáfulýsingu hafi stefnandi ekki átt að greiða endanlegum rétthöfum höfuðstól og vexti beint, heldur fjárvörsluaðilum. Hafi fjárvörsluaðilinn síðan átt að greiða rétthafa samsvarandi fjárhæðir. Fjárvörsluaðilinn hafi því verið milliliður við greiðslu höfuðstóls og vaxta. Jafnvel þó að litið yrði svo á að stefnandi og stefndi hafi þannig ekki verið í beinu skuldarsambandi breyti það því ekki að stefnandi hafi innt greiðsluna af hendi, sem krafist er að verði rift, beint til stefnda. Krafa samkvæmt skuldabréfinu hafi verið felld niður og stefnandi lækkað útistandandi skuldir sínar. Niðurstaðan hafi orðið sú að krafa sem stefndi hafi átt vegna skuldabréfanna hafi verið greidd. Hafi stefndi fengið greidda peninga beint frá stefnanda og því hafi hann óumdeilanlega haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun.
Stefnandi minnir í þessu sambandi á að riftunarreglum gjaldþrotalaga sé ekki ætlað að ógilda samnings- eða skuldarsambönd aðila. Riftun samkvæmt 134. gr. gjaldþrotalaga þurfi þannig ekki endilega að beinast að þeim sem hafi verið samningsaðili þrotamanns. Riftuninni sé beint að sjálfri greiðslunni burtséð frá því í hvaða formi hún hafi verið. Riftunin beinist að því að endurheimta greiðslu stefnanda sem óumdeilanlega hafi farið til stefnda, jafnvel þó að formlegt samningssamband hafi verið við fjárvörsluaðila.
Stefnandi tekur fram að þegar riftun fari fram með stoð í 131. til 138. gr. gjaldþrotalaga skuli sá sem hafði hag af hinni riftanlegu ráðstöfun greiða þrotabúinu fé í kjölfar riftunarinnar, sbr. 142. gr. gjaldþrotalaga. Hafi hann fengið peninga greidda skipti notkun peninganna engu um kröfu þrotabúsins. Stefndi hafi verið móttakandi greiðslna frá stefnanda og því sé riftun og kröfu um endurgreiðslu réttilega beint að honum þangað til sýnt verði fram á annað.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá og með þingfestingu málsins. Dráttarvaxtakrafan eigi sér stoð í III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun skuli samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 greiða þrotabúi fé í kjölfar riftunar sem eigi sér stoð í 131. til 138. gr. laganna. Hafi hann fengið peningana greidda skipti notkun þeirra engu um kröfu þrotabúsins. Stefnandi staðhæfir að aðalstefndi hafi tekið við greiðslunni frá stefnanda og því sé kröfu um riftun réttilega beint að honum þangað til sýnt verði fram á annað.
Stefnandi tekur fram að aðal- og varastefndi hafi gert með sér samning þess efnis að fyrrnefnda félagið taki að sér fjárstýringu fyrir varastefnda. Verði litið svo á að viðskiptin hafi verið gerð á grundvelli þess samnings og að varastefndi hafi verið hinn raunverulegi rétthafi bréfanna og móttakandi greiðslunnar sé varastefnda stefnt til vara.
Stefnandi tekur fram að skilyrðum 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm gerir stefnandi sömu kröfur á hendur varastefnda. Sömu málsástæður og lagarök eigi við um varastefnda og um aðalstefnda. Kveður stefnandi varastefnda hafa fengið kröfu sína greidda fyrr en eðlilegt var, enda hafi hún verið innt af hendi sex og hálfu ári fyrir gjalddaga. Því sé greiðslan riftanleg á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Um nánari rökstuðning fyrir kröfum sínum á hendur varastefnda vísar stefnandi til umfjöllunar um kröfur sínar á hendur aðalstefnda. Stefnandi tekur fram að krafist sé sömu dráttarvaxta og gagnvart aðalstefnda og með sömu rökum.
2. Helstu málsástæður og lagarök aðalstefnda
Aðalstefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Byggir hann á því að hann hafi einungis séð um eignastýringu fyrir hönd varastefnda á grundvelli eignastýringarsamnings frá 27. október 2005. Kveður hann skuldabréfið, eða hagsmunaeignina í allsherjarskuldabréfinu, hafa verið fært frá reikningi varastefnda í vörslubanka hans inn á vörslureikning stefnanda í Citibank, en þessir vörslubankar séu beinir aðilar að DTC-uppgjörskerfinu. Fjármunirnir, þ.e. kaupverðið, hafi verið millifærðir með sama hætti milli DTC-reikninga frá stefnanda til varastefnda. Þannig hafi verið gengið frá viðskiptunum beint í gegnum DTC. Aðalstefndi hafi hvorki tekið á móti greiðslu né eignum.
Aðalstefndi telur sig því eingöngu hafa komið að viðskiptunum sem umboðsmaður, en ekki sem samningsaðili. Hann geti því ekki verið réttur gagnaðili í riftunarmáli. Um það vísar aðalstefndi m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 27. september 2012 í málinu nr. 702/2011. Vegna uppbyggingar skuldabréfanna telur aðalstefndi einnig að öllum kröfum í tengslum við innlausn eða endurgreiðslu hafi átt að beina að fjárvörsluaðilanum, sem hafi verið réttur viðtakandi slíkra greiðslna. Því verði að sýkna hann á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Að þessu frágengnu byggir aðalstefndi á því að viðskiptin hafi ekki falið í sér snemmbúna endurgreiðslu skuldabréfanna, líkt og stefnandi haldi fram, heldur hafi verið um að ræða einföld viðskipti með hagsmuni í allsherjarskuldabréfi á frjálsum markaði. Ekki hafi verið gerð tilraun til þess að sýna fram á að með greiðslunni hafi stefnandi endurgreitt skuld sína. Hafi stefnandi m.a. ekki lagt fram nein sönnunargögn um lög New York-ríkis sem þó gildi um skilmála bréfanna. Aðalstefndi færir nánari rök fyrir þessu í greinargerð, meðal annars með því að skírskota til ákvæða skuldabréfasamningsins og útgáfulýsingar þar sem greint sé á milli innlausnar (e. redemption) og kaupa (e. purchase). Telur hann að ákvæði um kaup hafi gilt um umrædd viðskipti. Þau gefi til kynna kaup stefnanda á hlutdeild í allsherjarskuldabréfi sem hann gaf út geti ekki valdið því að skuldin falli sjálfkrafa niður. Þá bendir hann á að heildarkröfu á grundvelli allsherjarskuldabréfsins hafi verið lýst við slitameðferð stefnanda af hálfu fjárvörsluaðilans (e. Trustee), en það sýni að skuldin hafi ekki verið afskráð. Allur höfuðstóllinn sé því enn þá útistandandi.
Aðalstefndi byggir einnig á því að því meginskilyrði riftunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, að henni sé beint að þeim aðila sem hagnaðist af viðkomandi ráðstöfun, sé ekki fullnægt, enda hafi aðalstefndi aldrei haft umrædda hlutdeild í sinni vörslu og ekki hagnast á neinn hátt af viðskiptunum.
Aðalstefndi telur einnig að skilyrðum 134. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt. Byggir hann í fyrsta lagi á því að viðskiptin geti ekki talist til „greiðslu skuldar“, þar sem ekkert skuldarsamband hafi verið milli stefnanda og aðalstefnda á þeim tíma sem greiðslan fór fram. Í öðru lagi byggir hann á því að hin umþrætta greiðsla hafi ekki verið greidd fyrr en eðlilegt var, enda um staðgreiðslukaup á hlutdeild í allsherjarskuldabréfi að ræða. Í þriðja lagi er á því byggt af hálfu aðalstefnda að greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Aðalstefndi færir ítarleg rök fyrir þessum málsástæðum í greinargerð, en ekki er tilefni til þess að lýsa þeim nánar í dómi þessum.
3. Helstu málsástæður og lagarök varastefnda
Varastefndi hafnar því alfarið að þau viðskipti sem málið snúist um hafi falið í sér mismunun kröfuhafa eða hafi á ótilhlýðilegan hátt verið honum til hagsbóta á kostnað kröfuhafa stefnanda. Krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda og telur að skilyrðum 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé ekki fullnægt.
Varastefndi byggir í fyrsta lagi á því að greiðslan hafi ekki falið í sér greiðslu á skuld heldur hafi verið um sjálfstæð viðskipti að ræða. Í því sambandi vísar varastefndi til þess að það hafi ekki verið tilgangur viðskiptanna að greiða skuld, enda séu kaup og sala útgefanda skuldabréfa á eftirmarkaði alþekkt. Heldur varastefndi því fram að líta verði á ráðstöfunina sem sjálfstæð viðskipti á opnum markaði, en kaupverðið hafi verið innt af hendi gegn því að andlag kaupanna, réttindin í heildarskuldabréfinu, væri afhent stefnanda.
Varastefndi heldur því fram að ekkert skuldarsamband hafi verið milli hans og stefnanda. Réttarsamband aðila byggi á ákvæðum skuldabréfaútgáfunnar og fari auk þess eftir lögum New York-ríkis og skuli túlkað í samræmi við þau lög. Kveður varastefndi stefnanda ekki hafa sýnt fram á að samkvæmt réttarreglum New York-ríkis hafi skuldarsamband stofnast milli aðila. Varastefndi leggur og áherslu á að stefnandi hafi haft heimild til þess að kaupa réttindin hvenær sem var og af hvaða ástæðu sem var. Varastefnda hafi ekki verið kunnugt um hver kaupandinn væri enda skipti það hann ekki máli. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að stefnanda hafi ekki heldur verið kunnugt um hver væri eigandi réttindanna og því ljóst að engin skuld gagnvart varastefnda hafi verið skráð í bækur stefnanda. Þannig geti fullyrðing stefnanda í stefnu um að hann hafi lækkað skuld sína við stefnda ekki átt við rök að styðjast. Hvort sem stefnandi hafi bókfært greiðsluna til lækkunar á útistandandi skuldum í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eða ekki breyti það ekki þeirri staðreynd að slík endurkaup á skuldum séu alþekkt hjá félögum sem þessum og séu fyrst og fremst gerð til þess að stuðla að virkum eftirmarkaði með skuldabréf. Í þessu tilviki megi leiða líkur að því að stefnandi hafi hagnast vel á að kaupa umrætt skuldabréf, og önnur bréf af sama toga, á hagstæðu verði, skapað þannig hagnað í bókum bankans og geymt þau á sölulager í Voginni þar til fýsilegt hafi verið að endurselja þau.
Varastefndi vísar til þess að í útgáfulýsingu segi að nýti útgefandi rétt sinn til endurkaupa sé honum í sjálfs vald sett hvort hann haldi á bréfunum, selji þau eða felli þau niður. Í greinargerð skoraði stefndi á stefnanda að framvísa afriti af tilkynningu hans til fjárvörsluaðila eða öðrum gögnum sem staðfesti að bréfin hafi verið felld niður í kjölfar viðskiptanna og fjárhæð heildarskuldabréfsins lækkuð sem nemur nafnverði umræddra réttinda. Þá telur stefnandi að með þessum áskilnaði í útgáfulýsingu, sem hafi veitt honum óskorað ákvörðunarvald um það hvað hann gerði við skuldabréfin eftir að hafa keypt þau, sé ekki hægt að líta svo á að um greiðslu á skuld hafi verið að ræða.
Varastefndi kveður tilgang aðila með umræddum viðskiptum ekki hafa verið að gera upp kröfu samkvæmt skuldarsambandi, heldur hafi verið um almenn kaup að ræða. Hafi stefndi ákveðið að selja fjárfestingu sína og falið banka sínum að annast söluna. Stefnandi hafi keypt þessi réttindi á opnum markaði og greitt umsamið kaupverð gegn því að eignin væri afhent honum. Ekkert liggi fyrir um hvað stefnandi hafi gert við bréfið í kjölfar þessara viðskipta.
Varastefndi byggir enn fremur á dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. október 2011 í málinu nr. 398/2011. Í því máli, sem hafi varðað ágreining um afstöðu slitastjórnar stefnanda til kröfulýsingar vegna skuldabréfaútgáfu sambærilegri þeirri sem hér um ræði, komi fram kröfugerð og málsástæður af hálfu stefnanda sem samrýmist ekki málatilbúnaði hans í þessu máli. Í málinu hafi stefnandi byggt á því að sóknarðaðili, sem hafi verið eigandi hagsmuna (e. beneficial owner) í allsherjarskuldabréfi, útgefnu af bankanum, ætti ekki lögvarða kröfu á hendur bankanum og að engu skuldarsambandi væri til að dreifa á milli aðila á grundvelli viðskiptanna. Ætti sóknaraðili eingöngu kröfu á grundvelli síns „beneficial interest“ gagnvart næsta lagi fyrir ofan, og svo koll af kolli, allt til handhafa skuldabréfsins, Cede & Co., eða DBTCA, sem fjárvörslu- eða umsýsluaðila. Þessu til stuðnings vísaði stefnandi til samræmdra viðskiptalaga New York ríkis svo og til ákvæða skuldabréfasamnings stefnanda og DBTCA frá 12. apríl 2006 (e. senior indenture).
Varastefndi byggir einnig sýknukröfu sína á því að greiðslan hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var eins og áskilið sé í 134. gr. laga nr. 21/1991. Þó að gjalddagi hafi verið tilgreindur 28. febrúar 2015 hafi verið skýrlega gert ráð fyrir heimild stefnanda til að kaupa eigin bréf á opnum markaði hvenær sem er og á hvaða verði sem er. Með því að stefnanda hafi verið heimilt að bjóða í hagsmunaeign í skuldabréfaflokknum þegar hún væri boðin til sölu verði að líta svo á að lausnardagur kröfu væri kominn.
Varastefndi byggir enn fremur sýknukröfu sína á því að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Bendir varastefndi á að ákvæði þessu sé ætlað að ná til greiðslna á skuldum sem hafi farið fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Þar sem stefnandi hafi áskilið sér rétt í skilmálum útgáfulýsingarinnar að kaupa skuldabréf á opna markaðinum hvenær sem er og á hvaða verði sem er verði að telja að sú ráðstöfun falli undir það að vera venjuleg eftir atvikum, eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Eins og hér standi á geti engu máli skipt hvort viðskiptin hafi verið venjuleg milli stefnanda og stefnda, eins og haldið sé fram í stefnu. Áréttar varastefndi í þessu sambandi að fjárhagslegir hagsmunir stefnanda liggi til grundvallar áskilnaði af þessum toga.
Varastefndi telur að þessum áskilnaði verði ekki með neinum hætti jafnað við heimild til uppgreiðslu eða innlausnar enda hafi heimildin veitt stefnanda algert sjálfræði um hvað hann gerði við bréfin í kjölfar kaupa á þeim með tilliti til þess hvar hann taldi hagsmuni sína liggja. Byggir varastefndi á því að stefnandi hafi tekið ákvörðun um viðskiptin vegna þess að hann hafi metið það sem svo að hann hagnaðist á því á þessum tíma. Í ljósi óhagstæðrar þróunar á skuldatryggingaálagi íslensku bankanna á árinu 2008 megi leiða líkum að því að fjárhagslegur ávinningur stefnanda af kaupunum hafi verið umtalsverður, en stefnandi hafi kosið að leggja ekki fram nein gögn um ástæður kaupanna.
Varastefndi bendir á að í kjölfar fyrstu vaxtagreiðslu hafi hann ákveðið að selja fjárfestinguna. Hafi bréfið verið boðið til sölu á opna markaðnum og þar hafi stefnandi keypt það. Í þessu sambandi áréttar varastefndi að eðlilegt sé að útgefandi sé sjálfur þátttakandi á virkum eftirmarkaði með útgefin skuldabréf og séu slík endurkaup og endursala á skuldum alþekkt hjá félögum eins og stefnanda.
Varastefndi bendir á að í framlögðum gögnum komi fram að stefnandi hafi átt í umtalsverðum viðskiptum með eigin skuldabréf frá því í júní 2008 og verður með vísan til þess að telja að þessi tiltekna ráðstöfun hafi verið venjuleg eftir atvikum. Í greinargerð varastefnda kemur fram að hann hafi ekki haft möguleika á að leggja fram gögn sem sýni hversu algeng slík viðskipti hafi verið umfram það. Slík gögn séu til staðar hjá stefnanda og skoraði varastefndi á stefnanda í greinargerð að leggja fram tæmandi yfirlit og staðfest gögn um endurkaup og endursölur stefnanda á eigin bréfum frá byrjun árs 2006 til 9. október 2008.
Til vara krefst varastefndi umtalsverðar lækkunar á kröfu stefnanda. Sú krafa er á því reist að stefnandi hafi ekki sýnt fram á ætlað tjón sitt. Hafnar varastefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni vegna viðskiptanna. Hafi stefnandi ekki endurselt hagsmunaeignina í kjölfar viðskiptanna verði það að vera á hans eigin ábyrgð, en þá hafi hann ekki takmarkað tjón sitt. Ýmsar ástæður kunni að hafa legið til grundvallar þeirri ákvörðun að selja ekki eignina á lægra verði. Vísar varastefndi t.a.m. til áhrifa þess á skuldatryggingarálag bankans, en þar hafi ráðið tiltekið hagsmunamat þar sem minni hagsmunum hafi verið fórnað fyrir meiri.
Varastefndi hafnar því að sama skapi að hann hafi auðgast við viðskiptin. Hefði stefnandi ekki keypt bréfin hefði annar kaupandi keypt þau, hugsanlega á lægra verði og eina mögulega auðgunin sé mismunur á því og raunverulegu kaupverði. Varastefndi vísar enn fremur til 145. gr. laga nr. 21/1991, en með vísan til alls ofangreinds telur hann að lækka megi eða fella niður kröfu stefnanda á grundvelli þess ákvæðis.
Varastefndi byggir einnig á 146. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem ekkert beint skuldarsamband hafi verið milli hans og stefnanda og varastefndi hafi verið algerlega grandlaus um að stefnandi væri kaupandi eignarinnar, sem og um þá fjárhagslegu stöðu stefnanda sem síðar hafi komið í ljós, geti stefnandi ekki beint kröfu að varastefnda.
Varastefndi hafnar einnig dráttavaxtakröfu stefnanda og krefst þess að upphafsdagur vaxta verði í fyrsta lagi miðaður við dómsuppkvaðningu komi til þess að krafa stefnanda verði samþykkt.
Kröfu sína um málskostnað styður varastefndi við 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Eins og rakið hefur verið greiddi stefnandi 118.222,94 Bandaríkjadollara með einni greiðslu 1. október 2008. Stefnandi hefur lagt fram svonefnda kaupnótu um þau viðskipti sem lágu að baki þessari greiðslu. Jafnframt liggja fyrir tölvuskeyti þar sem samið er um viðskiptin 26. september 2008 milli starfsmanns aðalstefnda og stefnanda sem og tölvuskeyti sem staðfestir umrædd viðskipti. Af þessum gögnum má ráða að starfsmaður aðalstefnda hafi selt stefnanda hlutdeild í allsherjarskuldabréfi með auðkennisnúmerið ISIN nr. US4863FAE16 að nafnverði 140.000 Bandaríkjadollarar. Kaupverðið nam 117.244,40 Bandaríkjadollurum, en með áföllnum vöxtum er falla skyldu í hlut hlutdeildareiganda, samtals 978,54 Bandaríkjadollurum, nam fjárhæð kaupanna 118.222,94 Bandaríkjadollurum.
Stefnandi krefst riftunar á framangreindri greiðslu á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði þetta gildir við slit fjármálafyrirtækis samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þegar ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 eru í XX. kafla laganna sem fjallar um riftun ráðstafana þrotamanns. Þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að greiðslan sem krafist er riftunar á hafi falið í sér greiðslu á skuld sem innt hafi verið af hendi fyrr en eðlilegt var.
Ágreiningur er uppi um hvort aðalstefndi sé réttur aðili að málinu til varnar. Stefnandi telur rétt að beina riftunar- og endurgreiðslukröfunni að aðalstefnda þar sem hann sé tilgreindur gagnaðili stefnanda á kaupnótu og öðrum gögnum málsins. Aðalstefndi kveðst aftur á móti hafa komið fram í viðskiptunum sem umboðsmaður viðskiptavinar síns á grundvelli eignastýringasamnings frá 31. mars 2006. Hafi stefndi hvorki haft umrædda hlutdeild í sinni vörslu né tekið á móti hinni umdeildu greiðslu.
Í kafla II var vikið að samningi Legg Mason Asset Management (Asia) PTE Limited við varastefnda frá 24. júní 2004. Á grundvelli þessa samnings annaðist aðalstefndi eignastýringu tiltekinna eigna varastefnda þar á meðal þeirrar hlutdeildar í allsherjarskuldabréfi sem hér um ræðir. Leggja verður til grundvallar að sala þessarar eignar varastefnda hafi farið fram á grundvelli þessa samnings samkvæmt fyrirmælum varastefnda frá 9. september 2008 og þau gerð upp með færslum á reikningum í kerfi DTC, en ekki fyrir reikning aðalstefnda. Þar sem aðalstefndi kom þannig einungis fram í viðskiptunum sem milligönguaðili verður hann þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Eins og rakið hefur verið er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar sex mánuðum fyrir frestdag á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, meðal annars ef hún er innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Frestdagur við slitin er eins og áður segir 15. nóvember 2008 og því ljóst að greiðslan sem um ræðir fór fram á síðustu sex mánuðum fyrir þann dag. Aðila greinir hins vegar á um hvort unnt sé að líta svo á að með henni hafi stefnandi greitt skuld fyrr en eðlilegt var og ef svo er hvort hún hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi var skuldari samkvæmt því allsherjarskuldabréfi sem hlutdeildin, er stefnandi keypti af varastefnda, tilheyrði. Ekki verður annað ráðið af framlögðum skjölum, sem lýst hefur verið í kafla II, en að eigandi hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu hafi því aðeins átt kröfu á hendur þátttakanda í DTC að stefnandi hafi áður innt af hendi greiðslu samkvæmt skuldabréfinu. Í lýsingu á rafrænu eignaskráningarkerfi í útgáfulýsingu segir til að mynda að útgefandi beri ábyrgð á greiðslu höfuðstóls og vaxta til DTC, en að DTC beri ábyrgð á „úthlutun slíkra greiðslna til beinna þátttakenda“ í hinu rafræna eignaskráningarkerfi og að þátttakendurnir beri síðan ábyrgð á „úthlutun“ (e. disbursement) greiðslnanna til raunverulegra eigenda. Þá segir í grein 3.10 í skuldabréfasamningnum milli stefnanda og DBTCA að ekkert í samningnum verði túlkað á þá leið að umsjónaraðila greiðslna beri skylda til að inna af hendi einhverja greiðslu til eiganda skuldabréfs áður en greiðsla hafi borist frá stefnanda. Samkvæmt framansögðu áttu greiðslur stefnanda á grunni allsherjarskuldabréfanna að renna til raunverulegra eigenda (e. Beneficial Owners) fyrir milligöngu fyrrgreindra aðila.
Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 tekur einungis til þess þegar skuld er greidd. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið þykir ljóst að stefnandi var í skuld á grundvelli allsherjarskuldabréfsins þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi. Jafnframt verður að leggja til grundvallar að raunverulegir eigendur (e. Beneficial Owners) hafi hver fyrir sig átt hlutfallsleg kröfuréttindi um peningagreiðslu á hendur þeim aðila er hélt utan um viðkomandi eignarhluta í kerfum DTC að fenginni greiðslu útgefanda. Ekki er í 134. gr. laga nr. 21/1991 beinlínis áskilið að greiðsla á skuld sé innt af hendi til þess sem er samningsbundinn handhafi kröfunnar ef hún gengur í raun til lækkunar eða fullrar greiðslu á skuldinni. Skiptir þá ekki máli þó að samið hafi verið á þann veg að milligönguaðili eigi einn rétt á því að hafa uppi kröfu á grunni skuldabréfs á hendur útgefanda. Fær dómurinn ekki séð að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 398/2011 breyti þessu.
Af dómafordæmum verður ráðið að ekki beri að skýra ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 svo þröngt að endurkaup útgefanda skuldabréfs á kröfu á hendur sér á grundvelli skuldabréfsins geti ekki falið í sér greiðslu skuldar, enda leiði kaupin til þess að skuld hans gagnvart kröfuhafa lækki eða falli niður. Þannig hefur í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 162/2010 og 163/2010, sem og í dómum réttarins í málum nr. 702/2011 og nr. 545/2013, verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla í tilefni af því að útgefandi kaupir kröfu samkvæmt skuldabréfi eða öðrum skuldaskjölum sé greiðsla á skuld í þessari merkingu, enda falli krafan þá niður þar sem réttindi og skyldur eru þá á sömu hendi. Á það jafnvel við þó að greiðslan sem slík sé annarrar og lægri fjárhæðar en sem nemur lækkun á skuldbindingu útgefandans.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ræður það fyrst og fremst úrslitum um niðurstöðu málsins hvort greiðslan sem deilt er um hafi í raun gengið til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt allsherjarskuldabréfi því sem áður er getið. Við úrlausn á því verður að taka mið af réttarstöðu útgefanda gagnvart handhafa skuldabréfsins sem og stöðu raunverulegra eigenda hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu samkvæmt fyrirmælum í fyrirliggjandi útgáfulýsingu og skuldabréfasamningi. Með því er verið að heimfæra raunverulegar aðstæður undir þau atriði sem þýðingu eiga að hafa samkvæmt fyrirmælum 134. gr. laga nr. 21/1991, en ekki að játa aðilum heimild til að semja sig frá riftunarreglum gjaldþrotalaga.
Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að sú greiðsla sem stefnandi innti af hendi var endurgjald fyrir hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi sem Cede & Co. var skráður handhafi að, en DBTCA var fjárvörsluaðili þess fyrir hönd skráðs handhafa, eins og rakið er í útgáfulýsingu og skuldabréfasamningi. Fól greiðslan því ekki í sér efndir á skuldbindingu útgefanda allsherjarskuldabréfsins gagnvart handhafa þess. Einungis fjárvörsluaðili gat lýst kröfu á hendur útgefanda vegna skuldbindinga á grundvelli allsherjarskuldabréfsins, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 398/2011, en ekki einstakir hagsmunaeigendur. Í málinu liggur fyrir að DBTCA lýsti heildarkröfu vegna allsherjarskuldabréfsins við slit stefnanda, eins og öll krafan væri útistandandi. Gögn málsins bera með sér að slitastjórn stefnanda hafi samþykkt kröfuna að öðru leyti en því að hann féllst ekki á að tilgreind vaxtakrafa væri almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í útgáfulýsingunni og skuldabréfasamningnum sem þar er vísað til voru ákvæði sem virðast samkvæmt efni sínu taka til endurkaupa útgefanda á hlutdeild í allsherjarskuldabréfum sem gefa átti út á grundvelli þeirra. Þar er vikið að réttaráhrifum slíkra viðskipta og því lýst að útgefandi geti í kjölfar þeirra ákveðið að eiga hlutdeildina áfram, selja hana eða skila henni inn til vörsluaðila allsherjarskuldabréfsins til ógildingar. Þá er því lýst í grein 3.9 í skuldabréfasamningi stefnanda og DBTCA að síðarnefnda aðilanum beri að fella úr gildi þau skuldabréf sem útgefandi afhendir honum til ógildingar.
Í samræmi við afdráttarlaus ákvæði í ofangreindum skjölum verður að taka mið af löggjöf New York-ríkis við túlkun þessara ákvæða. Þegar litið er til gagna sem lögð hafa verið fram um það efni verður að draga þá ályktun að þar gildi ekki afdráttarlaus regla um að kröfur á grundvelli skuldabréfs falli niður við það eitt að réttindi og skyldur samkvæmt þeim færist á sömu hendi. Fer það eftir ásetningi aðila að baki viðskiptunum hvort kröfuréttindin eigi að falla niður í kjölfar slíkra viðskipta. Þegar skýr ákvæði eru í skilmálum sem gilda um viðskiptin eru þau talin vera til marks um þann ásetning. Má um þetta vísa m.a. til álitsgerðar prófessors Ronald Mann frá 2. október 2014 og álitsgerðar Edward Wildman Palmer LLP frá 23. apríl 2013. Sú ályktun er ekki í andstöðu við almennar reglur íslensks kröfuréttar enda ekkert því til fyrirstöðu að aðili skuldbindi sig á þann veg með samningi að vikið sé frá meginreglu kröfuréttar um að krafa falli sjálfkrafa niður við samruna réttinda og skyldna.
Í þessu ljósi og með vísan til framangreindra skilmála verður að leggja til grundvallar að með endurkaupum stefnanda á hlutdeild í umræddu allsherjarskuldabréfi hafi stefnandi eignast kröfu á hendur þátttakanda í DTC um greiðslu höfuðstóls og vaxta. Sú krafa fól í sér eign sem stefnandi gat ákveðið að eiga áfram eða selja hana öðrum, allt eftir eigin mati á því hvað honum þótti hagfellt. Greiðsla vegna endurkaupa á slíkri hlutdeild gat hins vegar ekki gengið til lækkunar á skuld útgefanda nema að hann færi sérstaklega fram á það við vörsluaðila. Það gerði stefnandi ekki í kjölfar endurkaupanna í september 2008 og því var allur höfuðstóll skuldabréfsins ógreiddur þegar mál þetta var höfðað. Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 um greiðslu á skuld verður að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Heimild sem skuldari kýs að nota ekki til lækkunar á skuld í kjölfar endurkaupa á hlutdeild í skuldabréfi getur samkvæmt ákvæðinu ekki falið í sér greiðslu skuldar. Af framansögðu leiðir að skuld samkvæmt umræddu allsherjarskuldabréfi var ekki greidd á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Því getur ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 ekki átt við í máli þessu.
Þessu til viðbótar telur dómurinn nægilega fram komið að greiðslan sem um ræðir hafi virst venjuleg eftir atvikum. Því til stuðnings er vísað til þess sem að framan greinir, að greiðslan fól einungis í sér endurgjald fyrir hagsmunaeign í tilteknu allsherjarskuldabréfi. Sérstaklega var gert ráð fyrir því í þeim skilmálum sem giltu um viðskiptin að hagsmunaeign af þessum toga væri framseljanleg og að útgefandi skuldabréfsins, stefnandi, gæti keypt slíka eign á frjálsum markaði. Áskildi hann sér þá rétt til þess að ákveða hvað hann gerði við hana, eins og rakið hefur verið. Viðskiptin viku því ekki frá því sem samið var um í öndverðu. Kaupverð þessarar hagsmunaeignar var jafnt útboðsverði, eða 83,746% af nafnverði. Ekkert er heldur fram komið um að kaupverðið hafi verið óeðlilegt miðað við markaðsverð. Þá var ekkert sem gaf seljanda hagsmunaeignarinnar til kynna að stefnandi hygðist með viðskiptunum greiða skuld sína fyrr en eðlilegt var þannig að jafnræði kröfuhafa væri raskað. Þvert á móti höfðu viðskiptin á sér yfirbragð venjulegra staðgreiðsluviðskipta með fjármálagerning, þar sem hvorugur aðila vissi raunar hver gagnaðili sinn var.
Í málinu liggja fyrir samtímagögn um að stefnandi hafi á árinu 2008 talið hagfellt að nýta laust fé bankans til endurkaupa á hlutdeildum í eigin skuldabréfaútgáfum. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi virðist stefnandi hafa talið sér heimilt að lækka skuldir í kjölfar slíkra endurkaupa og bókfæra muninn á endurkaupsverði og nafnverði sem hagnað. Slík ráðstöfun gat einnig stuðlað að því að skuldatryggingarálag á bankann lækkaði. Ákvörðun um slík endurkaup virðast því hafa byggst á ákveðnum, viðskiptalegum forsendum samkvæmt mati stjórnenda bankans á því hvernig best væri að bregðast við hættumerkjum sem meðal annars birtust í háu skuldatryggingarálagi.
Þess ber þó að geta að endurkaup af þessu tagi höfðu einnig tíðkast hjá bankanum árin 2005, 2006 og 2007, en þau fóru vaxandi milli ára. Þannig námu þau um 35 milljónum evra að nafnverði árið 2005, um 120 milljónum evra árið 2006 og um 170 milljónum evra árið 2007. Þegar bankinn féll í október 2008 hafði hann keypt eigin skuldabréf að nafnverði tæplega 400 milljónir evra á því ári. Á þessu fjögurra ára tímabili munu endurkaup af þessu tagi hafa farið fram í samtals 493 sjálfstæðum viðskiptum. Þar sem slík endurkaup höfðu tíðkast hjá stefnanda reglubundið og í þó nokkrum mæli fyrir árið 2008, án þess að séð verði að þau tengist fjárhagsvandræðum bankans, er alls ekki hægt að útiloka að viðskiptin sem hér um ræðir hefðu átt sér stað án tillits til þeirra hættumerkja sem uppi voru í rekstri stefnanda um það leyti sem greiðslan var innt af hendi. Þá verður ekki annað ráðið af framlögðum gögnum en að endurkaup skulda fjármálastofnana séu ekki óalgeng á alþjóðlegum fjármálamarkaði.
Leiða má líkur að því að aukin endurkaup stefnanda á eigin skuldum á árinu 2008 eigi rætur að rekja til erfiðleika í rekstri stefnanda og þverrandi tiltrúar á honum sem birtist meðal annars í háu skuldatryggingarálagi. Ekki liggur þó fyrir að seljandi hlutdeildarinnar hafi á þeim tíma er hann ákvað að selja hana gert sér grein fyrir því að greiðsluþrot stefnanda væru yfirvofandi. Ýmsar opinberar upplýsingar um stöðu stefnanda á því ári gáfu annað til kynna, svo sem ársreikningur bankans fyrir árið 2007 og afkomutilkynning sem birt var 31. júlí 2008, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hafði gefið út tilkynningar, síðast 14. ágúst 2008, um að allir íslensku bankarnir hefðu staðist álagspróf samkvæmt reglum nr. 530/2004. Þá bentu lánshæfiseinkunnir matsfyrirtækja til þess að lítil hætta væri á vanskilum stefnanda þegar samið var um kaup stefnanda á hlutdeildinni.
Þegar litið er til framangreindra atriða og þau metin heildstætt telur dómurinn að greiðslan sem um ræðir hafi virst venjuleg eftir atvikum. Þetta, ásamt því að greiðslan gekk í raun ekki til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt umræddu allsherjarskuldabréfi, leiðir til þess að stefnanda er ekki unnt að bera riftunarreglu 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir sig. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber að sýkna varastefnda, ásamt aðalstefnda, af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar aðalstefnda verður að líta til þess að stefnandi höfðaði samtals sjö mál á hendur honum vegna hliðstæðra viðskipta og mál þetta lýtur að. Eitt mál var fellt niður að kröfu stefnanda án kostnaðar 29. júní 2015. Dómar hafa þegar fallið í fjórum málum þar sem aðalstefndi hefur verið sýknaður og stefnanda gert að greiða honum málskostnað samtals að fjárhæð 12.500.000 krónur. Taka verður fram að aðalstefndi hefur haft umtalsverðan kostnað af rekstri þessara mála. Á móti kemur að varnir aðalstefnda hafa verið þær sömu í öllum þessum málum. Síðustu tvö málin á hendur aðalstefnda hafa verið dómtekin og er það mál sem hér er til umfjöllunar annað þeirra. Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til þess að frávísunarkröfu aðalstefnda var hrundið með úrskurði 24. júní 2013 en ákvörðun málskostnaðar um þann þátt málsins látinn bíða lokaniðurstöðu málsins. Með úrskurði 23. september 2015 var jafnframt hafnað kröfu aðalstefnda um að dómkveðja matsmann og ákvörðun málskostnaðar vegna þess þáttar málsins einnig látinn bíða lokaniðurstöðu málsins. Í þessu ljósi þykir rétt að stefnanda verði gert að greiða aðalstefnda 500.000 krónur í málskostnað. Varastefndi krafðist einnig frávísunar en þeirri kröfu var hrundið sem fyrr segir með úrskurði 23. september 2013 og ákvörðun málskostnaðar látinn bíða lokaniðurstöðu málsins. Í því ljósi og að teknu tilliti til umfangs málsins og reksturs þess fyrir dómi þykir rétt að stefnandi greiði varastefnda 1.750.000 króna í málskostnað.
Dregist hefur fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 að kveða upp dóm í máli þessu. Aðilar og dómari töldu ekki efni til þess að endurflytja málið.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Aðalstefndi, Western Asset Management Company, og varastefndi, Singapore Labour Foundation, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Kaupþings hf.
Stefnandi greiði aðalstefnda 500.000 krónur og varastefnda 1.750.000 krónur í málskostnað.