Hæstiréttur íslands
Mál nr. 690/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2016 þar sem nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi var framlengd í allt að tólf vikur með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í málavaxtalýsingu úrskurðarins segir ranglega að B geðlæknir hafi gefið skýrslu fyrir dómi og staðfest þar fyrirliggjandi vottorð sitt. Að því athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2016.
Með beiðni, sem barst dóminum 29. september sl., hefur sóknaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að nauðungarvistun varnaraðila, A kt. [...], til heimilis að [...], í 21 sólarhring frá 12. september sl., verði framlengd til 12 vikna með rýmkun, sbr. 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015. Um aðild sóknaraðila er vísað til 20. gr. laga nr. 71/1997.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst skipaður verjandi hennar hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Krafa um framlengingu nauðungarvistunar til 12 vikna er sett fram í framhaldi af nauðungarvistun varnaraðila í 21 sólarhring, sem samþykkt var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 12. september sl., og rennur því út 2. október sl.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi verið öryrki vegna geðsjúkdóms meira og minna frá árinu 2000. Árið 1996 hafi varnaraðili lent í alvarlegu geðrofsástandi sem leiddi til innlagnar hennar á geðdeild. Lagðist varnaraðili ítrekað inn á geðdeild á árunum 1996-2002 og var greind með aðsóknargeðklofa. Náði varnaraðili eftir þetta nokkru jafnvægi með aðstoð geðlyfja.
Varnaraðili hóf að draga úr töku geðlyfja sinna í nóvember 2014 og hætti alveg að taka þau sl. vor. Í kjölfarið varð vart við vaxandi ranghugmyndir hjá henni um líkamlega sjúkdóma, samsæriskenningar og heilunar- og miðilshæfileika. Síðustu vikur fyrir núverandi innlögn hafi ástand hennar versnað hratt og hún sýnt undarlega hegðun. Varnaraðili mun ekki hafa verið til samvinnu og innsæislaus og hafi því verið kallað á borgarlækni 9. september sl. Mat hann varnaraðila í geðrofsástandi og var henni fylgt á bráðageðdeild. Þegar þangað kom mun varnaraðili hafa orðið mjög fjandsamleg og reynst nauðsynlegt að fá aðstoð varnarteymis og nauðungarsprauta hana með geðrofslyfjum.
Vegna veikinda sinna hafi varnaraðili verið nauðungarvistuð á geðdeild 12. september í 21 sólarhring á grundvelli 19., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og hafi sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkt þá beiðni samdægurs. Þá ákvörðun hafi varnaraðili kært til héraðsdóms sem staðfesti nauðungarvistunina með úrskurði sínum 26. september sl.
Krafa sóknaraðila nú byggist á heimild í 29. gr. a laga nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, og er rökstudd með því að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða eða að verulegar líkur séu á að svo sé og að framlenging nauðungarvistunar sé óhjákvæmileg til verndar lífi hennar og heilsu. Bati varnaraðila hafi gengið hægt og hún hafi verið algjörlega innsæislaus í veikindi sín. Hún sé enn haldin miklum geðrofseinkennum og reyni mikið að lækna aðra sjúklinga með heilun, gegn þeirra vilja. Þá hafi hvorki náðst samvinna varðandi lyfjameðferð né áframhaldandi innlögn að 21 dags vistun lokinni. Telur sóknaraðili að nauðsynlegri læknishjálp eða öðrum meðferðarúrræðum verði ekki við komið með öðrum hætti en áframhaldandi nauðungarvistun varnaraðila.
Í málinu liggja fyrir tvö ítarleg læknisvottorð. Annars vegar frá B geðlækni, dags. 10. september sl., sem lagt var fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu þegar samþykkt var beiðni sóknaraðila um nauðungarvistun varnaraðila í 21 sólarhring sem síðar var staðfest með áðurnefndum úrskurði héraðsdóms. Hins vegar frá C geðlækni, dags. 28. september sl. Er þar lýst sjúkdómssögu varnaraðila, meðferð og framgangi sjúkdómseinkenna hennar í núverandi legu. Í niðurlagi vottorðsins kemur eftirfarandi fram: Vaxandi geðrofseinkenni í sumar og var orðin verulega veik með mikil geðrofseinkenni og „aggresjon“ við nauðungarvistun á geðdeild 09.09. Bati hefur gengið hægt og hefur X verið algjörlega innsæislaus í þörf sína fyrir lyfjameðferð og sjúkrahúsvist. Það er því ljóst að áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur er nauðsynleg til að tryggja bata X. Með vottorði læknisins fylgdi einnig yfirlýsing hennar um að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi við varnaraðila og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun hennar. Báðir læknarnir staðfestu vottorð sín fyrir dóminum og svöruðu nánari spurningum um ástand varnaraðila. Fram kom í máli C geðlæknis að ástand varnaraðila væri enn alvarlegt. Bati hennar væri hægur og geðrofseinkenni ekki í nægilegri rénun. Óhjákvæmilegt væri því að hún yrði áfram nauðungarvistuð.
Krafa sóknaraðila byggist á því að skilyrði til nauðungarvistunar hafi verið, og séu enn, fyrir hendi. Óhjákvæmilegt sé að framlengja nauðungarvistun varnaraðila til að tryggja henni nauðsynlega læknismeðferð.
Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt þar sem skilyrði nauðungarvistunar séu ekki fyrir hendi. Gæta þurfi meðalhófs við skerðingu svo mikilvægra mannréttinda.
Varnaraðili kom fyrir dóminn og ítrekaði kröfu sína um að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Kvaðst hún ekki eiga við geðsjúkdóm að stríða og hvorki þurfi á meðferð né innlögn á sjúkrahús að halda. Hún búi yfir skyggni- og heilunarhæfileikum sem leitt hafi til misskilnings um að hún sé haldin geðsjúkdómi. Hún kveðst ekki þurfa á lyfjum að halda.
Niðurstaða.
Varnaraðili hefur verið nauðungarvistuð frá 12. september sl. á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Fram er komið í málinu að varnaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar með mikil geðrofseinkenni og ranghugmyndir. Varnaraðili er með sjúkdómsgreininguna ofsóknargeðklofa en framgangur sjúkdómsins og líðan sjúklings er mjög háð lyfjameðferð. Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafi átt við áðurnefnd veikindi að glíma í 20 ár en jafnvægi hafi verið í líðan hennar sl. 14 ár en á þeim tíma hefur hún tekið lyf við sjúkdómi sínum. Hún hafi alveg hætt lyfjainntöku sl. vor. Þá er einnig komið fram að ástand varnaraðila var mjög alvarlegt fyrstu daga innlagnar á bráðgeðdeild. Varnaraðili er enn mjög veik en ástand hennar fer batnandi. Hún er þó enn innsæislaus í veikindi sín og telur sig ekki þurfa á meðferð að halda og er ekki til samstarfs um lyfjameðferð. Er vonast til að hún fáist til samvinnu þegar lengra er liðið á tíma nauðungarvistunar og innsæi hennar aukist.
Með vísan til gagna málsins og vættis C geðlæknis fyrir dóminum þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði áfram nauðungarvistuð á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð, meðferð og eftirfylgni svo færa megi líðan hennar til betri vegar. Við lok núverandi nauðungarvistunar er geðrænt ástand varnaraðila enn alvarlegt, hún er enn í geðrofi og innsæi hennar skert. Hefur því ekki tekist að ná nægilegum tökum á ástandi hennar og ljóst að meiri tíma þarf til að ná utan um sjúkdómseinkenni hans. Getur góður vilji varnaraðila og fullvissa hennar um að hún glími ekki við geðsjúkdóm ekki dregið úr vægi þeirra læknisfræðilegu gagna sem liggja fyrir í málinu. Þá verður ekki talið að við þessar aðstæður dugi önnur eða vægari úrræði til að tryggja heilsu og batahorfur varnaraðila. Er það því niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a í lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, til að verða við kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga. Þá er ekki heldur talið raunhæft að marka framlengingunni skemmri tíma í ljósi alvarleika veikinda varnaraðila, innsæisleysis hennar og skorts á samvinnu um meðferð.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, um að framlengja skuli til allt að 12 vikna nauðungarvistun varnaraðila, X, kt. [...], á sjúkrahúsi, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis.
Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.