Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2004


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. júní 2004.

Nr. 10/2004.

Einar Björgvin Knútsson

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

Ryðvörn Þórðar ehf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Vinnuslys. Skaðabætur. Örorka. Gjafsókn.

E, sem starfaði hjá R ehf., krafði fyrirtækið um skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir við vinnu sína. Hélt E því fram að slysið hefði mátt rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu auk þess sem verkstjórn hefði verið ófullnægjandi. Tekið var fram að öryggisútbúnaður sem hefði getað komið í veg fyrir slysið hefði ekki verið í notkun en ríka skyldu yrði á leggja á vinnuveitanda að hafa slíkan búnað til reiðu til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Þar sem það var ekki gert og látið viðgangast hvernig E bar sig að við verkið bar R ehf. skaðabótaábyrgð á tjóni E. Í ljósi þess að umrætt verk var mjög einfalt, E hafði mikla reynslu í starfi og hafði margsinnis unnið það, mátti honum vera ljós hættan. Var hann því látinn bera helming tjónsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. janúar 2004. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 4.633.823 krónur með vöxtum af 1.400.000 krónum samkvæmt 1. ml. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. júní 1998 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 19. júlí 2002, með vöxtum af 3.233.823 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, frá 24. júní 1998 til 19. júlí 2002, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 4.633.823 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Tryggingamiðstöðinni hf. var stefnt til réttargæslu en engar kröfur voru gerðar á hendur félaginu.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi slasaðist áfrýjandi við vinnu sína hjá stefnda 24. júní 1998. Áfrýjandi hafði unnið við ryðvörn frá árinu 1991 lengst af á sama vinnustað, þar af  hjá stefnda í að minnsta kosti  eitt og hálft ár, þegar slysið varð. Áfrýjandi vann við undirvagnsþvott bifreiða á útisvæði fyrirtækisins til að undirbúa þær fyrir ryðvörn, sem fór fram innanhúss. Bifreiðunum var ekið upp á sliskjur, um 7 metra langar járnrásir, sem lágu yfir um 90 cm háan búkka og ultu um ás fyrir miðju sliskjunnar, líkt og vegasalt. Sé bifreiðin sett á réttan stað á sliskjunni svo að jafnvægi náist, getur einn maður velt sliskjunni til og hallað bifreiðinni fram og til baka, þannig að unnt sé að þvo hana bæði að framan- og aftanverðu.

Slysið varð með þeim hætti, að framkvæmdastjóri stefnda ók bifreið upp á sliskjuna en áfrýjandi stóð vinstra megin við hana og hélt við járnrásirnar til þess að finna rétta jafnvægispunktinn. Bifreiðinni var ekið of langt þannig að sliskjan sporðreistist og þurfti að bakka bifreiðinni til þess að finna jafnvægið. Þar sem bifreiðin stöðvaðist ekki á réttu augnabliki skelltist sliskjan til baka og áfrýjandi varð undir henni með fæturna og slasaðist. Áfrýjandi taldi meiðsl sín vera smávægileg og afþakkaði sjúkrabifreið, og var málið ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins fyrr en 12. ágúst 1998.

Að kvöldi slysdags leitaði áfrýjandi til slysadeildar, þar sem meiðsl hans voru könnuð. Samkvæmt matsgerð læknanna Leifs N. Dungal og Jónasar Hallgrímssonar 19. júní 2002  var varanlegur miski talinn vera 15% og varanleg örorka 10%. Málinu var vísað til tjónanefndar vátryggingafélaga og úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og var niðurstaðan á báðum stöðum sú, að bótaskylda væri ekki fyrir hendi.

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því, að stefndi beri ábyrgð á framangreindu vinnuslysi, en það megi rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu þar sem umrædd sliskja hafi verið vanbúin auk þess sem verkstjórn hafi verið ófullnægjandi. Stefndi telur, að ekki sé við aðra að sakast en áfrýjanda sjálfan, sem hefði getað komið í veg fyrir slysið með lágmarksaðgæslu.

II.

Í málinu er fram komið, að framangreindri sliskju hafi fylgt búkki, sem ætlaður var til þess að setja undir sliskjuna framanverða til þess að varna því, að hún sporðreisist, þegar bifreið er ekið fram yfir jafnvægispunktinn. Með skýrslu réttargæslustefnda 4. nóvember 2000 fylgdi teikning af sliskjunni þar sem gert er ráð fyrir búkka undir að framan. Þar segir, að búkki gegni því hlutverki að taka á móti sliskjunni, þegar bifreið er ekið upp á hana. Þegar jafnvægispunkturinn er fundinn sé búkkinn fjarlægður. Menn eigi ekki að koma nálægt sliskjunni meðan bifreið sé ekið upp á hana hvort sem búkki sé notaður eða ekki. Framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi, að sliskjunni hefði fylgt búkki, er hún var keypt, en hann hefði aldrei verið notaður. Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Jóhanni Oddgeirssyni, sem var meðeigandi að fyrirtækinu á árunum 1983 til 1996, þar sem fram kemur að sliskjunni hafi fylgt búkki, sem setja átti undir hana að framanverðu til þess að taka á móti sliskjunni ef ekið væri of langt, en sá búkki hefði aldrei verið notaður. Algeng starfsaðferð hefði verið, að starfsmaður stæði við hlið sliskjunnar og héldi í hana aftanverða, þegar ekið væri upp á hana til þess að finna jafnvægispunktinn. Þessi aðferð hefði verið viðhöfð að óþörfu þar sem komast hefði mátt hjá henni með því að nota búkkann. Einnig liggur frammi yfirlýsing frá Jóni Rúnari Ragnarssyni fyrir hönd Bílaryðvarnar hf. um vinnuaðferðir þess fyrirtækis við þvott á undirvögnum bifreiða. Þar segir: „Sliskjur Bílaryðvarnar eru á tveimur búkkum, annars vegar búkki sem er undir miðri sliskju, eins og vegasalt, og hins vegar er búkki sem tekur á móti sliskjunum er bíllinn er kominn uppá, þannig að bíllinn er í láréttri stöðu ofan á sliskjunum. Starfsmenn standa hvorki fyrir framan né aftan við sliskjurnar meðan bifreið er ekið uppá, enda er engin þörf á því, þar sem sliskjurnar eru þannig uppbyggðar að starfsmenn þurfa ekki né eiga að vera nálægt þeim.“

Nokkrum dögum fyrir slys áfrýjanda, eða 15. júní 1998, hafði annar starfsmaður stefnda slasast við framangreinda sliskju. Vinnueftirlit ríkisins var kallað á staðinn og segir í bréfi þess 30. mars 1999 vegna slyss áfrýjanda, að í framhaldi af fyrra slysinu hefði verið farið á staðinn og krafa gerð um það, að enginn kæmi nálægt sliskjunni meðan bifreið væri ekið upp eða niður af henni. Það sama kom fram í skýrslu réttargæslustefnda 4. nóvember 2000 þar sem sagði, að öll nálgun við sliskjuna þegar verið væri að aka bifreið upp á eða niður af henni væri með öllu óþörf og beinlínis hættuleg.

Eins og að framan er lýst fylgdi fremri búkkinn með sliskjunni, er hún var keypt, og var til þess ætlaður að setja undir hana að framanverðu til þess að koma í veg fyrir það, að hún sporðreistist. Hér var um öryggisútbúnað að ræða, sem hefði getað komið í veg fyrir slys áfrýjanda. Verður að leggja ríka skyldu á vinnuveitanda að hafa slíkan búnað til reiðu til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Þar sem það var ekki gert og látið viðgangast, að áfrýjandi stæði við hlið sliskjunnar og héldi við hana, þegar bifreiðinni var ekið upp á hana, verður stefndi að bera skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Verk það, sem áfrýjandi vann við, var mjög einfalt og hann hafði mikla reynslu í starfi þar sem hann hafði unnið við ryðvörn frá árinu 1991. Hafði hann margsinnis unnið það verk, sem hann var að vinna í umrætt sinn. Honum átti að vera ljós sú hætta, sem því var samfara að halda undir sliskjuna, þegar bifreið var ekið upp á hana. Verður hann því óhjákvæmilega að bera hluta tjóns síns sjálfur. Að öllu virtu er hæfilegt að hann beri helming tjónsins.

III.

Eins og að framan getur mátu læknarnir Leifur N. Dungal og Jónas Hallgrímsson örorku áfrýjanda 19. júní 2002. Áfrýjandi fékk talsverða tognunaráverka við slysið á bæði hné og ökkla og þurfti að nota spelkur lengi eftir slysið. Telja matsmenn tímabundið atvinnutjón hans samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1999, hafa verið frá slysdegi 24. júní 1998 til 28. nóvember 1999. Ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir þann tíma. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga miðast einnig við framangreint tímamark, þar af hafi áfrýjandi verið rúmfastur frá 26. september 1999 til 28. nóvember sama ár. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga telst vera 15% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna 10%.

Áfrýjandi miðar kröfugerð sína við framangreinda matsgerð og sundurliðast hún þannig: 

1. Tímabundið atvinnutjón                                                 1.400.000  krónur

2. Bætur fyrir þjáningar með og án rúmlegu  543.760                        -

3. Varanlegur miski                                                              802.725     -

4. Varanleg örorka                                                           2.271.988     -

    Frádráttur: slysatrygging launþega                                     388.350     -

5. Útlagður kostnaður                                                            14.158     -

                                                                  Samtals          4.644.281  króna

Fyrir Hæstarétti lækkaði áfrýjandi kröfuna um 10.458 krónur, sem réttargæslustefndi hafði greitt upp í útlagðan kostnað eftir uppkvaðningu héraðsdóms, þannig að endanleg dómkrafa áfrýjanda er 4.633.823 krónur.

Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu en stefndi mótmælir vaxtakröfu áfrýjanda.

Eins og að framan greinir ber áfrýjandi helming tjónsins sjálfur, en stefndi er dæmdur til að bæta honum tjónið með 2.316.911 krónum ásamt vöxtum eins og krafist er og nánar er lýst í dómsorði og dráttarvöxtum frá 20. febrúar 2003, er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

Dómsorð:

Stefndi, Ryðvörn Þórðar ehf., greiði áfrýjanda, Einari Björgvin Knútssyni, 2.316.911 krónur með vöxtum af 700.000 krónum samkvæmt 1. ml. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. júní 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 20. febrúar 2003, með vöxtum af 1.616.911 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með áorðnum breytingum, frá 24. júní 1998 til 20. febrúar 2003, en af 2.316.911 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Stefndi greiði samtals 700.000 krónur í ríkissjóð í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2003.

             Mál þetta var höfðað 20. janúar 2003 og dómtekið 15. f.m.

Stefnandi er Einar Björgvin Knútsson, Hraunbæ 128, Reykjavík.

Stefndi er Ryðvörn Þórðar ehf. Funahöfða 15, Reykjavík og réttargæslustefndi Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 15.000.000 króna, með vöxtum af 1.400.000 krónum samkvæmt 1. ml. 7. gr laga nr. 27/1987 frá 24. júní 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 19. júlí 2002, og með vöxtum af 12.694.050 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, frá 24. júní 1998 til 19. júlí 2002, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 13.600.000 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess til vara að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 4.644.281 krónu, með vöxtum af 1.400.000 krónum samkvæmt 1. ml. 7. gr. laga nr. 27/1987 frá 24. júní 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 19. júlí 2002, og með vöxtum af 3.244.281 krónu samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, frá 24. júní 1998 til 19. júlí 2002, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 4.644.281 krónu samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar hver sem úrslit málsins verða eins og það væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 3. febrúar 2003.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara krefst hann lækkunar og að  málskostnaður verði felldur niður.

Þann 24. júní 1998 slasaðist stefnandi við störf sín hjá stefnda sem var með tryggingar sínar hjá réttargæslustefnda. 

Stefnandi hafði með höndum það starf að annast undirvagnsþvott bifreiða á útisvæði fyrirtækisins sem undirbúning ryðvarna sem fóru fram innanhúss.  Bifreiðum var ekið upp á sliskju, þ.e. um 7 metra langar járnrásir sem lágu yfir um 90 cm. háan búkka og ultu þannig um ás fyrir miðju sliskjunnar,  efri endi gat því náð um 180 cm. hæð.  Eftir að bifreið hafði verið ekið til þannig að jafnvægispunktur var fundinn gat starfsmaðurinn, sem annaðist undirvagnsþvottinn, velt henni til með handafli eftir því sem verkinu miðaði, þ.e. fyrst að aftanverðu en síðan að framanverðu.

Í umrætt sinn ók Þórður Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri og eigandi stefnda, Pajero-jeppabifreið upp á sliskjuna en stefnandi stóð framanvert til vinstri handar Þórði og sagði honum til.  Sliskjan skall fyrst niður að framan og þurfti síðan að bakka bifreiðinni til að finna jafnvægispunktinn.  Stefnandi var þá kominn að sliskjunni aftan­verðri og hélt um hana.  Bifreiðinni var bakkað nokkuð of langt og skall sliskjan niður þeim megin.  Varð stefnandi undir sliskjunni með fæturna þar sem hann stóð og hélt undir hana nálægt enda hennar.  Hlaut hann slæma áverka á hné og ökkla sem hafa reynst varanlegir.  Bifreiðinni var strax ekið áfram þannig að sliskjan lyftist af fótum stefnanda.  Þórður bauðst til að kallað væri á sjúkrabifreið en stefnandi dró úr því að svo væri gert.  Síðar sama dag ók faðir stefnanda honum á slysadeild Land­spítala Háskólasjúkrahús, Fossvogi.

Stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið 12. ágúst 1998 og vinnueftirlitið tilkynnti lögreglustjóranum í Reykjavík um það með bréfi 19. apríl 1999.

Teknar voru lögregluskýrslur um slysið og tildrög þess; af stefnanda 14. maí 1999 og af Þórði Vilhjálmssyni og Haraldi Jóhanni Þórðarsyni, verkstjóra stefnda og syni Þórðar Vilhjálmssonar, 9. júní s.á.

Stefnandi kvaðst hafa verið búinn að vinna við ryðvörn síðan 1991 og lengst af á sama vinnustað eða þar sem stefndi hefur starfrækslu sína.  Um atvik að slysinu er skráð eftir stefnanda:   “. . . Er Þórður ók upp á sliskjuna þá fór hann heldur langt og því þurfti hann að bakka aðeins og kveðst Einar hafa leiðbeint honum með það. Einar kveðst hafa haldið undir sliskjuna er bílnum var bakkað. Ósjálfrátt kveðst Einar hafa gripið undir sliskjuna er Þórður bakkaði yfir jafnvægispunktinn og er hann kallaði í Þórð að stoppa þá rann bíllinn aðeins lengra við það lenti mikill þungi á honum sem varð til þess að Einar kveðst hafa runnið til, í kross með fæturnar og fengið sliskjuna ofan á sig, þar að segja ofan á fæturna …” Stefnanda var bent á að í símtali við Þórð hefði komið fram að hann hefði verið búinn að banna mönnum að halda við sliskjuna er verið væri að aka upp á hana.  Stefnandi kvað það ekki vera rétt heldur hafi beinlínis verið ætlast til að það væri haldið við sliskjuna til að finna jafnvægis­punktinn.

Þórður Vilhjálmsson kvaðst hafa ekið rólega upp sliskjuna og er sliskjan hún sporðreistist kvaðst hann hafa ætlað að bakka lítillega en lent aðeins aftur yfir jafnvægispunktinn með þeim afleiðingum að sliskjan sporðreistist.  Kvaðst hann þá hafa heyrt hróp frá Einari, litið út og séð hann sitjandi á götunni með fæturna undir sliskjunni.  Kvaðst hann þá hafa ekið strax áfram þar til sliskjan sporðreistist aftur.  Þórði var bent á að fram hefði komið hjá stefnanda að það hafi verið ætlast til þess að sá, sem leiðbeindi við að aka upp á sliskjuna, héldi um hana og segði til er bíllinn væri að fara yfir jafnvægispunktinn.  Þórður kvað þetta ekki vera rétt enda bílarnir “allt yfir 2 tonn að þyngd” og lítið með það að gera að takast á við slíkt með handafli.

Haraldur Jóhann Þórðarson kvaðst hafa heyrt er stefnandi hrópaði upp og séð að hann sat á jörðinni, undir sliskjunni.  Hann kvaðst hafa farið strax til stefnanda og faðir hans, Þórður, hefði hjálpað honum á fætur.  Hann kvaðst muna að Þórður hefði marg boðið stefnanda að hringt yrði á sjúkrabíl en stefnandi hafi talið að hann væri ekkert slasaður.

Með bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 7. júní 2000 og ítrekuðu 18. september s.á., var óskað eftir afstöðu hans til bótaskyldu sem var hafnað með bréfi 7. nóvember 2000.  Að beiðni stefnanda var málið lagt fyrir tjónanefnd vátrygginga­félaganna og lá niðurstaða nefndarinnar fyrir þ. 18. janúar 2001 þar sem bótaskyldu var hafnað.  Af hálfu stefnanda var niðurstöðu tjónanefndar skotið til Úrskurðar­nefndar í vátryggingamálum sem staðfesti niðurstöðu tjónanefndar með úrskurði dags. 13. mars 2001. 

Með sameiginlegri matsbeiðni lögmanna stefnanda og réttargæslustefnda, dags. 26. nóvember 2001, var læknunum Leifi N. Dungal og Jónasi Hallgrímssyni falið að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda.  Af hálfu réttargæslustefnda er tekið fram að þrátt fyrir ágreining um bótaskyldu sé óumdeilt að í gildi hafi verið slysatrygging sem stefnandi hafi átt bótarétt úr óháð hugsanlegri skaðabótaskyldu stefnda.  Matsgerð er dags. 19. júní 2002 og helstu  niðurstöður eru þær að stöðug­leika­tímapunktur er talinn vera 28. nóvember 1999, varanlegur miski 15% og varanleg örorka 10%.

 

Skaðabótakrafa stefnanda byggist á því að um hafi verið að ræða skaðabótaskylt vinnuslys sem stefndi beri ábyrgð á eftir reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.  Slysið megi rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu, gáleysis verk­stjóra stefnda, ófullnægjandi verkstjórnar og verktilhögunar, skorts á leiðbein­ingum, aðgerðarleysis yfirmanna stefnda og annarrar vanrækslu þeirra, m.a. að láta undir höfuð leggjast að stuðla að því að beitt væri verklagi sem tryggt gæti öryggi stefnanda og annarra starfsmanna við störf þeirra.

Stefnandi byggir á því að umrædd sliskja hafi verið vanbúin.  Ljóst sé að sliskjunni hafi fylgt búkki sem ætlaður hafi verið til þess að setja undir sliskjuna framanverða til þess að varna því að hún gæti sporðreist þegar bifreið var ekið of langt og fram yfir hinn svokallaða jafnvægispunkt.  Hefði sliskjan verið notuð með réttum hætti hefði mátt koma í veg fyrir slys stefnanda.  Þá byggir stefnandi á því að það hafi verið venjubundin starfsaðferð hjá stefnda, bæði hjá stefnanda og öðrum starfsmönnum stefnda, að standa við hlið sliskjunnar og halda við hana til þess að finna réttan jafnvægispunkt þegar bifreið var ekið upp á sliskjuna.

Aðalkrafa stefnanda er reist á áætlaðri fjárhæð.  Varakrafa hans sætir ekki ágreiningi tölulega af hálfu stefnda.

Af hálfu stefnda er hvorutveggju hafnað að vinnuaðstaða hafi verið ófull­nægjandi og að verkstjórn hafi verið ábótavant.  Ekki sé við aðra að sakast en stefnanda sjálfan sem hafi algerlega haft í hendi sér að koma í veg fyrir slysið með því að sýna lágmarksaðgæslu og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Varakrafa stefnda byggist á því að stefnandi verði a.m.k. að bera megin hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

 

Áður, eða 15. júní 1998, hafði orðið slys er bifreið var ekið á sömu sliskju og hér um ræðir á vinnusvæði stefnda og voru atvik þá um margt lík því sem hér um ræðir.  Mál vegna þess slyss hefur verið rekið samhliða þessu máli. Vinnueftirliti ríkisins var í það sinn þegar tilkynnt um slysið og fór vinnueftirlitsmaður á staðinn.  í skýrslu hans, sem lögð var fram í þessu máli, segir að orsök slyssins megi líklega rekja til þess að slasaði hafi verið óviðbúinn hreyfingu sliskjunnar.  Í lok skýrslunnar segir að skyldur aðila samkvæmt lögum nr. 46/1980 hafi verið skýrðar fyrir verkstjóra og minnt á að verkstjóri skuli minna  starfsmenn á að viðhafa rétt vinnubrögð. 

Lögmaður stefnanda sendi Vinnueftirliti ríkisins bréf  5. mars 1991.  Þar er vísað til þess að stefnandi hafi leitað til Eflingar-stéttarfélags vegna umrædds slyss sem lýst er þannig að stefnandi hafi haldið við enda sliskjunnar í þeim tilgangi að finna rétta jafnvægispunktinn svo að unnt væri að velta sliskjunni auðveldlega fram og til baka við undirvagnsþvott.  Bifreiðinni muni hafa verið ekið of aftarlega eftir að hún var komin upp í sliskjuna og hafi stefnandi orðið undir sliskjunni þegar hún valt til baka.  Í bréfinu er einnig vísað til hins fyrra slyss, sem varð 15. júní 1998.  Óskað var upplýsinga um hvort Vinnueftirlit ríkisins hefði gert úttekt á sliskjunni og hennar óskað ef hún hefði ekki þegar verið gerð.  Jafnframt var óskað upplýst hvaða vinnubrögð Vinnueftirlit ríkisins teldi rétt og eðlileg þegar unnið væri við sliskjuna.

Svarbréf Vinnueftirlits ríkisins (Bjarna Snæbjörnssonar tæknifulltrúa), dags. 30. mars 1999, er svohljóðandi:  “Undirritaður eftirlitsmaður hefur alls þrisvar sinnum komið í eftirlitsferðir í Ryðvörn Þórðar að Smiðshöfða 1.  Umtöluð sliskja var þá einnig skoðuð í þessum heimsóknum og farið fram á viðgerð á henni í síðustu heimsókn.  Slys þau sem hér um ræðir verða þó ekki rakin til vanefnda á þeirri viðgerð en stýringar á endum sliskjunnar höfðu viljað bogna vegna ónákvæmni við akstur upp og niður af sliskjunni.  Í framhaldi af fyrra slysinu fór undirritaður á staðinn og gerði kröfu um að enginn kæmi nálægt sliskjunni meðan bifreið vær ekið upp eða niður af henni.  Enda fjarri lagi að hægt væri að stjórna með handafli jafnvægi sliskjunnar með bifreiðum á henni sem vægju frá 1000-2000 kg.  Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, kafla 5,37. gr., stendur:  Vinnu skal haga og framkvæmt þannig að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustu­hátta.”

Fram er komið að til var á vinnustaðnum búkki, sem mun hafa verið nokkru lægri en búkkinn undir miðju sliskjunnar, sem nota hefði mátt, en hafði aldrei verið notaður, til að koma í veg fyrir að sá endi sliskjunnar sem ekið var á fram fyrir miðju hennar skylli niður á jörðina en hann hefði síðan verið fjarlægður er tekið væri til við undirvagnsþvottinn.  Af hálfu Vinnueftirlits ríkisins var ekki gerð athugasemd við að hann var ekki notaður og ekki er ljóst að notkun hans hefði haft þýðingu til að aftra því slysi sem hér um ræðir því að eftir sem áður hefði þurft að bakka bifreiðinni til að finna jafnvægispunktinn en í því ferli varð slysið.

Vitnið Gunnlaugur Gunnarsson, sem sjálfur varð fyrir slysi 15. júní 1998 og er aðili að því máli sem fyrr getur, kvað það hafa verið venjulega aðferð, sem hann hefði lært af öðrum starfsmanni, að halda við sliskjuna meðan bifreið væri ekið til á henni.  Aðspurður kvað hann það oft hafa skeð að ekið væri of langt í báðar áttir en að þá væri einfalt mál fyrir þann, sem hélt við sliskjuna, að sleppa henni.

Vitnið Davíð Örn Ingason, sem var starfsmaður stefnda er umrætt slys varð, kvaðst ekki hafa unnið við umrædda sliskju heldur inni í starfsstöð stefnda.  Hann kvaðst ekki hafa heyrt að bannað væri að halda undir sliskjuna meðan ekið væri á henni.  Aðspurður kvað hann starf það sem hér um ræðir ekki vera flókið.

Vitnið Valdimar Örn Haraldsson, sem starfaði hjá stefnda á árunum 1995-1997, kvaðst lítillega hafa unnið við sliskjuna, þ.e. það verk sem stefnandi vann að.  Þegar bifreið hafi verið ekið upp á sliskjuna hafi alltaf verið maður  við hlið hennar til að finna jafnvægispunktinn.  Sá starfsmaður hafi þurft að nota hendurnar og hafi ekki verið nægilegt að segja ökumanninum til.  Hann kvað starfið ekki hafa verið flókið.  Einkum hafi þurft að gæta að því að bifreiðarnar færu ekki út af  sliskjunni og þá ekki síst fram af henni.

Vitnið Magnús Reynisson er starfsmaður stefnda og hefur verið í um 20 ár.  hann kvaðst hafa “hlaupið í þvott” og oft verið viðstaddur umræddan verkþátt.  Hann kvað það hafa verið stórhættulegt að hlaupa undir sliskjuna meðan verið væri að aka bifreið á henni og hafi ekki mátt koma við hana fyrr en búið væri að stilla bifreið af.  Sá, sem leiðbeindi ökumanninum, hafi staðið framanvert við sliskjuna og til hliðar.

Vitnið Haraldur Jóhann Þórðarson, sem áður er getið, kvað margoft hafa verið búið að segja öllum að vera ekki að fíflast við sliskjuna og koma ekki við hana með höndum eða of nálægt henni meðan verið væri að koma bílum fyrir.

Það verkefni, sem stefnandi vann við er hann slasaðist, var einfalt og hann var þaulkunnugur því af áralöngu starfi.  Þótt brögð hafi verið að því að starfsmenn héldu um sliskjuna meðan bifreið væri ekið á henni þar til jafnvægispunktur var fundinn var slíkt tilgangslaust, sbr. umsögn Vinnueftirlits ríkisins, og vegna hættu sem því fylgdi gat það ekki talist skynsamleg vinnubrögð.  Slysið verður ekki rakið til neinna atvika, sem leitt geti til ábyrgðar stefnda á afleiðingum þess, heldur varð það fyrir óhappa­tilviljun og  aðgæsluleysi stefnanda.

Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 350.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Karls Ó. Karlssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ryðvörn Þórðar ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Einars Björgvins Knútssonar.

Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Karls Ó. Karlssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur.