Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2010


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Verjandi
  • Ómerking
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 17. febrúar 2011.

Nr. 134/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

X og

Y

(Kristján Stefánsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Verjandi. Ómerking. Heimvísun.

X og Y voru ákærð fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2007 og 2008 sem framin voru í rekstri einkahlutafélagsins A. Á tímabilinu var X starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins en Y var skráður framkvæmdastjóri þess. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að í málum sem þessu hefði dæmdri sektarrefsingu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 verið skipt niður á milli ákærðu þegar fleiri en einn maður er sakfelldur fyrir brot. Væru kröfur X og Y meðal annars af þessum sökum ósamrýmanlegar og yrði að telja að hagsmunir ákærðu rækjust á í svo þýðingarmiklum atriðum að óheimilt hefði verið að skipa þeim einn og sama verjandann, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar í héraði. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og refsing þeirra þyngd.

Ákærði X krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara refsimildunar, en að því frágengnu að honum verði einungis gerð sektarrefsing. 

Ákærða Y krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara refsimildunar.

Ákærðu X og Y var í héraði og fyrir Hæstarétti skipaður einn og sami verjandinn. Eins og í ákæru greinir er ákærðu gefin að sök brot á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu og skilgreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og hafa ekki innheimt og staðið skil á virðisaukaskatti og staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins A. Í málum sem þessu hefur dæmdri sektargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, verið skipt niður á milli ákærðu þegar fleiri en einn maður er sakfelldur fyrir brot, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 21. júní 2010 í máli nr. 751/2009. Hið sama hefur verið talið gilda um sektargreiðslur samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005. Af þessu leiðir að ef tekin verður til greina krafa ákærðu Y um sýknu af refsiábyrgð vegna uppgjörs skatta ákveðin uppgjörstímabil, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi, kemur til álita hvort öll fésekt vegna brota framinna á þeim uppgjörstímabilum verði lögð á ákærða X einan að uppfylltum refsiskilyrðum. Kröfur ákærðu í málinu eru einnig ósamrýmanlegar þar sem af hálfu X er aðallega krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms en ákærða Y krefst aðallega sýknu. Eins og mál þetta er vaxið verður að telja að hagsmunir ákærðu rekist á í svo þýðingarmiklum atriðum að óheimilt hafi verið að skipa þeim einn og sama verjandann, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verður af þessum sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til löglegrar meðferðar í héraði.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar að nýju.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2010.

Árið 2010, fimmtudaginn 28. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-349/2009: Ákæruvaldið gegn X og Y en málið var dómtekið 11. þ.m.

                Málið er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 30. mars 2009 á hendur:

                ,,X, kennitala [...], [...], Reykjavík, og

Y, kennitala [...], [...], Reykjavík,

                fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framin voru í rekstri einka­hluta­félagsins A, kennitala [...], sem ákærði X var starfandi framkvæmda­stjóri og stjórnarmaður fyrir og ákærða Y var skráður framkvæmda­stjóri fyrir til 1. febrúar 2008, með því að hafa:

1. Eigi afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins september-október 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl og júlí til og með desember 2007 og janúar-febrúar 2008, samtals að fjárhæð kr. 14.141.861, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK

á eindaga:

Árið 2007

mars - apríl

kr.

1.415.632

júlí - ágúst

kr.

767.838

september - október

kr.

5.988.498

nóvember - desember

kr.

3.320.593

kr.

11.492.561

Árið 2008

janúar - febrúar

kr.

2.649.300

kr.

2.649.300

Samtals:

kr.

14.141.861

2. Eigi afhent á lögmæltum tíma skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna október til og með desember 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, vegna tímabilanna október til og með desember 2007 og janúar til og með mars 2008, samtals að fjárhæð kr. 7.053.282, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2007

október

kr.

1.366.092

nóvember

kr.

1.452.014

desember

kr.

984.773

kr.

3.802.879

Árið 2008

janúar

kr.

763.151

febrúar

kr.

1.390.142

mars

kr.

1.097.110

kr.

3.250.403

Samtals:

kr.

7.053.282

             Framangreind brot ákærðu X og Y samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Verjandi ákærðu krefst þess að ákærða Y verði sýknuð en til vara að henni verði ekki gerð refsing. Krafist er vægustu refsingar að því er ákærða X varðar og sakarkostnaðar úr ríkissjóði að mati dómsins.

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi

1

Ákærða Y neitar sök á þeim forsendum að hún hafi ekki annast daglegan rekstur félagsins A á þeim tíma sem í ákæru greinir. Meðákærði X hafi annast daglegan rekstur félagsins. Hún hafi hins vegar verið skráður framkvæmdastjóri félagsins til 1. febrúar 2008 en hún kvaðst hafa talið að hún hafi verið afskráð sem framkvæmdastjóri löngu fyrr. Hún kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sem fylgdi því að vera skráður framkvæmdastjóri. Staðfesti hún lögregluskýrslu um sama efni.

                Ákærði X játar að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins september-október 2007, en neitar sök að öðru leyti. Hann kvaðst hafa verið starfandi framkvæmdastjóri A á þeim tíma sem í ákæru greinir og meðákærða Y hafi verið skráður framkvæmdastjóri til 1. febrúar 2008 eins og lýst sé í ákæru, en meðákærða hafi aldrei komið að rekstri félagsins og ekkert haft með fjármál þess að gera. Öll sú sýslan hafi verið á hendi ákærða. Ákærði taldi ákæruna ranga. Hann kvað A hafa átt inni peninga hjá B og virðisaukaskattur, sem ákært sé út af, sé að öllu leyti vegna viðskipta við það fyrirtæki. Þær kröfur hafi tapast vegna gjaldþrots A og ekki fengist greiddar og því hafi virðisaukaskatturinn, sem í ákæru greinir, aldrei verið innheimtur. Ákærði kvaðst telja að staðið hafi verið skil á öllum virðisaukaskatti sem A innheimti. Það sem útaf standi sé virðisaukaskattur sem ekki hafi fengist greiddur. Hann kvað útistandandi kröfur A standa undir þeim fjárhæðum sem hér um ræðir.

Meðal gagna málsins eru gögn úr bókhaldi B þar sem fram kemur að sögn ákærða X, að félagið að B skuldar þrotabúi A rúmar 25 milljónir króna. Ákærði kvað sig minna að lögmaður hafi komið að innheimtu krafna A á hendur B en hann mundi þetta ekki vel. Nú sé þetta í höndum skiptastjóra.

2

                Ákærði X játar að hafa ekki skilað skilagreinum á lögmæltum tíma eins og hér er ákært fyrir. Hann neitar hins vegar vanskilum og kveður þær fjárhæðir sem hér um ræðir allar hafa verið greiddar. Hann kvað sér hafa verið ljós ábyrgð sín sem stjórnanda fyrirtækisins og því hafi hann greitt sjálfur, hinn 4. júní 2008, 10 til 15 milljónir króna inn á vanskil sem hér er ákært vegna og samkvæmt því telji hann sig hafa greitt þessa kröfu að fullu. Hann kvaðst hafa samið um greiðslu þessarar skuldar við embætti tollstjóra og greiðslunni sem ákærði innti af hendi hafi átt að ráðstafa inn á virðisaukaskatt og staðgreiðslu sem sé sakarefni máls þessa. Ákærði kvað C hafa verið í för með sér er samkomulagið var gert.

                Vitnið C kvaðst hafa starfað hjá fyrirtækjunum sem önnuðust færslur bókhalds fyrir A þann tíma sem ákæran telur til. Hann skýrði þessa vinnu og kvaðst sjálfur hafa gert ársreikning fyrir A fyrir árin 2006 og 2007. Hann kvað gögn sem hann afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins endurspegla fært bókhald félagsins á þeim tíma sem gögnin voru afhent. C staðfesti að hafa afhent gögn er vörðuðu staðgreiðslur opinberra gjalda og virðisaukaskatt. C kvaðst hafa farið með ákærða X til tollstjóra á árinu 2007 og aftur árið 2008. Tilgangurinn hafi í bæði skiptin verið að finna leið til að koma greiðslum í skil. Lagt hafi verið upp með að greiðslum sem ákærði innti af hendi ætti að verja til að greiða virðisaukaskatt og staðgreiðslu. Eftir samkomulagið hafi ákærði greitt upphafsgreiðslu samkvæmt samkomulaginu samdægurs, en C kvað vel geta passað að ákærði hafi átt að greiða 10 milljónir króna.

                Vitnið D héraðsdómslögmaður, skiptastjóri þrotabús A sem úrskurðað var gjaldþrota 19. desember 2008, kom fyrir dóminn. Hann lýsti því að bókhaldsgögn A gæfu ekki til kynna að neinar kröfur fyrirtækisins væru tapaðar eða afskrifaðar. Hann kvað engar vísbendingar eða gögn að finna í bókhaldi A sem gefi til kynna eða staðfesta tapaðar kröfur félagsins. Hann staðfesti og skýrði bréf, sem hann ritaði og dagsett er 25. ágúst 2009, vegna fyrirspurnar um sama efni.

Niðurstaða 1 og 2

                Ákærði X bar fyrir dómi að hann hefði hinn 4. júní 2008 greitt 10 til 15 milljónir króna inn á vanskil sem hér er ákært vegna. Þessa sér ekki stað í gögnum málsins. Málið var tekið upp og aflaði ákæruvaldið nýrra gagna af þessum sökum. Ekkert kemur þar fram sem styður framburð ákærða X um þetta. Þá hefur hann ekki lagt fram nein gögn þessu til stuðnings. Ekkert bendir til að um tapaðar kröfur sé að ræða og að einstakar fjárhæðir í ákærunni eigi að lækka þess vegna.

                Það er álit dómsins að þrátt fyrir að ákærða Y hafi ekki annast daglegan rekstur félagsins þann tíma sem hún var skráður framkvæmdastjóri leysi það hana ekki undan refsiábyrgð.

Að þessu virtu telur dómurinn sannað með framburði beggja ákærðu hjá lögreglu og fyrir dómi, en gegn neitun ákærða X að hluta, og með öðrum gögnum málsins sem sýna skýrlega vanskilin og sakarefnið sem ákært er vegna, að ákærðu hafi gerst sek um háttsemi þá sem í ákæru greinir. Eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákærunni, utan að eins og á stendur þykir brot ákærðu Y ekki varða við 262. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði X hlaut sektardóm á árinu 1999 fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og gegn lögum um tekjuskatt og eignaskatt. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar eins og nánar greinir í dómsorði. Auk refsivistar ákærða X ber að dæma bæði ákærðu sektarrefsingu en ákærða Y hefur ekki áður hlotið refsingu. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er tekið mið af því að ákærði X ber einn refsiábyrgð vegna uppgjörstímabilanna nóvember til desember 2007 og janúar til febrúar 2008 að því er varðar virðisaukaskatt, sbr. ákærulið 1, og vegna allra vanskila árið 2008 að því er varðar staðgreiðslu, sbr. ákærulið 2. Þá nemur sektarfjárhæð vegna mars til apríl 2007 í kafla 1 um virðisaukaskatt og október í 2. kafla varðandi staðgreiðslu 10% af brotaandlagi vegna innágreiðslna á framangreind tímabil. Að þessu virtu og í samræmi við dómaframkvæmd er ákærða X gert að greiða 28 milljón króna sekt í ríkissjóð og komi fimm mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja. Á sama hátt er ákærðu Y gert að greiða 9.400.000 króna sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja. Vararefsing er ávörðuð með hliðsjón af dómaframkvæmd eftir lagabreytingar þar sem kveðið er á um lágmark sektarfjárhæðar fyrir brot eins og þau sem hér er ákært fyrir.

Ákærðu greiði Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni óskipt 498.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Einar Tryggvason saksóknarafulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði X sæti fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði X greiði 28.000.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærða Y greiði 9.400.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 3 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærðu greiði Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni óskipt 498.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.