Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 24. júní 2014.

Nr. 434/2014.

 

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 10. október 2014, klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjölmörg brot sem hann var sakfelldur fyrir að hafa framið frá því í byrjun nóvember 2013 til 13. febrúar 2014 þegar hann var handtekinn. Með úrskurði héraðsdóms, sem kveðinn var upp 5. júní 2014 í kjölfar áðurgreinds dóms og staðfestur með dómi Hæstaréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 393/2014, var varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laganna, gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, þó eigi lengur en til 3. júlí 2014, klukkan 16. Í síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 er vísað til áfrýjunarfrests samkvæmt 199. gr. laganna. Hefur Hæstiréttur skýrt þetta ákvæði svo að gæsluvarðhald, sem úrskurðað hefur verið á grundvelli þess, falli fyrst niður við lok hins lögboðna áfrýjunarfrests, sbr. dóm réttarins 19. febrúar 2014 í máli nr. 123/2014. Samkvæmt því sætti varnaraðili enn gæsluvarðhaldi þegar hinn kærði úrskurður var upp kveðinn, enda þótt hann hefði degi fyrr áfrýjað áðurgreindum héraðsdómi af sinni hálfu.

Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands og þar til dómur fellur, en þó eigi lengur en til föstudagsins 10. október 2014, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að 5. júní 2014 hafi verið kveðinn upp dómur við Héraðsdóm Reykjavíkur yfir kærða í máli [...] og hafi dómfelldi hlotið tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir fjölmörg brot samkvæmt ákæruskjali lögreglustjóra frá 20. mars sl. Um hafi verið að ræða yfir þriðja tug brota þar sem dómfelldi hafi verið sakfelldur, einn og í félagi, fyrir fjölmörg auðgunarbrot, þjófnaði, gripdeild, hylmingu, skjalabrot, nytjastuld, hótun og líkamsárás og umferðar- og fíkniefnalagabrot,

                Fram kemur að brotahrinan hafi hafist í byrjun nóvember 2013 og staðið fram til 13. febrúar sl. þegar ákærði hafi verið handtekinn og í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar 2014, seinast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júní 2014 nr. R-171/2014, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 393/2014, sbr. fyrri gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-115/2014 frá 25. apríl sl., R-90/2014 frá 28. mars sl., R-53/2014 frá 28. febrúar sl. og R-40/2014 frá 14. febrúar sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 116/2014 þann 19. febrúar 2014, en þar hafi dómfellda veri gert að sæta gæsluvarðhaldi. Dómfelldi hafi fyrst verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og síbrota, sbr. a- og c-lið 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga, og síðar á grundvelli c-liðar sömu laga.

                Lögreglustjóri áréttar að brotaferill dómfellda hafi verið samfelldur frá byrjun nóvember 2013 og fram til 13. febrúar sl. er dómfelldi hafi verið handtekinn. Dómfelldi hafi sagt að hann hafi verið í neyslu fíkniefna á meðan á brotahrinunni hafi staðið og virðist dómfelldi því hafa framfleytt sér og fjármagnað ætlaða fíkniefnaneyslu með afbrotum.

                Með vísan til brotaferils dómfellda, en hann hafi nú hlotið fangelsisrefsingu, sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að dómfelldi haldi áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því sé brýnt fyrir lögreglu að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

                Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl., fyrst á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en síðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. Frá því að dómur var kveðinn upp í héraði hefur hann setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2002, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 6. júní 2014.

                Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu, en eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Dómfelldi var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 sakfelldur fyrir fjölmörg brot sem framin voru á tímabilinu frá nóvember 2013 til febrúar 2014 og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Er því fullnægt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. fyrrgreindra laga um að ætla megi að dómfelldi muni halda áfram brotum meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en dómfelldi hefur lýst yfir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt því verður krafa Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og krafist er og nánar greinir úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands þó eigi lengur en til föstudagsins 10. október 2014, kl. 16:00.