Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2006
Lykilorð
- Tollur
- Endurkrafa
- Sönnunarfærsla
|
|
Fimmtudaginn 1. febrúar 2007. |
|
Nr. 395/2006. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn Jónum Transporti hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) |
Tollur. Endurkrafa. Sönnunarfærsla.
Á árinu 2001 kom í ljós hjá tollstjóra að skjöl um tollafgreiðslu sendingar, sem kom til landsins í febrúar 1999, fundust ekki og var því litið svo á að varan væri ótollafgreidd. Var J tilkynnt um að sem rekstraraðila tollvörugeymslu og flutningsaðila sendingarinnar bæri hann ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda og yrðu þau áætluð með vísan til 4. mgr. 97. gr. tollalaga nr. 55/1987. J var ósáttur við þessa ákvörðun enda taldi hann innflutning þennan vera tollfrjálsan þar sem um búslóð hefði verið að ræða, sbr. 4. tölul. 5. gr. tollalaga. Hann innti greiðsluna þó af hendi með fyrirvara í nóvember 2002. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að tollayfirvöldum hefði verið heimilt að áætla aðflutningsgjöld þegar fullnægjandi gögn skorti til að byggja ákvörðun slíkra gjalda á. Það leiddi þó af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að tollayfirvöldum bæri að beita slíkri heimild þannig að eigi væri gengið lengra í áætlun en nauðsynlegt væri. Í ljósi gagna sem síðar voru lögð fram, auk framburðar vitna fyrir dómi, lá að mati dómsins fyrir að innihald sendingarinnar hefði verið búslóð og því tollfrjáls. Var Í því gert að endurgreiða J þá fjárhæð sem hann hafði áður innt af hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara krefst hann þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.928.447 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. nóvember 2002 til greiðsludags. Í þessu tilviki krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Jónum Transporti hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars sl., er höfðað 28. júní 2005. Stefnandi er Jónar Transport hf., Holtavegi, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhvoli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.165.889 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. nóvember 2002 til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.928.447 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. nóvember 2002 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi gerir aðallega kröfu um sýknu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Ágreiningur er um málsatvik. Í fyrsta lagi er um það deilt hvert hafi verið raunverulegt innihald sendingar sem hingað kom til lands sjóleiðis frá Ástralíu. Í öðru lagi hvort umrædd sending hafi verið tollafgreidd og afhent úr vörugeymslu stefnanda með heimild tollstjórans í Reykjavík. Í þriðja lagi er deilt um það hvort þyngd sendingarinnar hafi verið 300 kg eða 4.000 kg.
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að 4. febrúar 1999 hafi búslóð þáverandi starfsmanns stefnanda, Soffíu Gústafsdóttur, komið til landsins frá Ástralíu, en hún hafi búið þar um árabil og verið að flytjast hingað til lands. Fyrirtækið AFS Freight Management í Ástralíu sá um sendingu búslóðarinnar til Rotterdam, Hollandi. Þar tók fyrirtækið Ziegler Nederland BV við sendingunni, en fyrirtækið sá um móttöku og lestun gáma fyrir stefnanda á þessum tíma. Þar var sendingin skráð 4.000 kg og tóku starfsmenn stefnanda við þeim upplýsingum og skráðu í farmskrá, sem send var til tollstjóra hér á landi.
Sendingin frá Rotterdam var hluti af svonefndri safnsendingu í gámi, þ.e. vörur frá fleiri en einum aðila. Sendingarnúmerið var S HEG 04 02 9 NL RTM W053. Við komuna til Íslands fékk sending Soffíu númerið S HEG 04 02 9 NL RTM U286. Gámurinn, sem sendingin var í, var geymdur í vörugeymslu stefnanda í Holtagörðum í Reykjavík og hafði tollgæslan þar aðsetur.
Stefnandi kveður að stórum hluta búslóðarinnar hafi verið rænt á leiðinni frá Ástralíu til Rotterdam og margir hlutir skemmdir. Sendingin var tryggð hjá Vátryggingafélagi Íslands og fékk Soffía greiðslu frá félaginu vegna tjóns á búslóðinni og muna sem höfðu horfið.
Við komuna til landsins hafi tollgæslumenn ekki getað skoðað sendinguna þar sem í gámnum væri fyrir önnur sending sem þyrfti að taka frá til þess að hægt væri að komast að sendingu Soffíu. Gámurinn hafi verið losaður og sendingin skoðuð af tollgæslumönnum og tilskilin skjöl fyllt út af Soffíu og tollgæslunni.
Á árinu 2001 kom í ljós hjá tollstjóra að skjöl, um að tollafgreiðsla sendingar Soffíu hafi farið fram, fundust ekki. Var litið svo á að varan væri ótollafgreidd og hún afgreidd án þess að leyfi tollstjóra hefði legið fyrir. Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 8. janúar 2002, var stefnanda tilkynnt um áætlun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar, með vísan til 4. mgr. 97. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þar sem sendingin hefði verið afhent án leyfis tollstjóra bæri stefnandi, sem eiganda vörugeymslu, ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Stefnanda hafði áður verið gefinn kostur á að leggja fram gögn vegna sendingarinnar þannig að byggja mætti á þeim álagningu aðflutningsgjalda, en engin andmæli bárust frá honum. Í bréfinu segir að samkvæmt vörulýsingu í farmskrá sé um að ræða „personal effects“. Þar sem ekki hafi legið fyrir upplýsingar um viðskiptaland eða innkaupsverð væri útreikningur aðflutningsgjalda byggður á upplýsingum Hagstofu um meðaltalsverð á innflutningi á húsgögnum, fatnaði og heimilistækjum í febrúar árið 1999 frá Bretlandi. Miðað væri við Bretland sem viðskiptaland þar sem enginn innflutningur hefði verið til landsins í febrúar á vörum í viðkomandi tollskrárnúmerum frá Hollandi. Áætlun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar sundurliðaðist þannig:
|
A-tollur 10% |
308.719 kr. |
|
A-tollur 7,5% |
92.616 kr. |
|
A-tollur 15% |
92.616 kr. |
|
Eftirlitsgjald 0,15% |
1.852 kr. |
|
Vörugjald 20% |
265.498 kr |
|
Virðisaukaskattur 24,5% |
1.396.696 kr. |
|
Dráttarvextir |
1.571.657 kr. |
|
Samtals |
3.759.654 kr. |
Stefnandi var ósáttur við þessa ákvörðun, enda taldi hann innflutning þennan tollfrjálsan, sbr. 4. tölul. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, þar sem um búslóð væri að ræða. Þá taldi stefnandi að skráð þyngd sendingarinnar, sem var 4000 kg, hafi innifalið þyngd gámsins, þannig að þyngd gámsins hafi verið tekin inn í tollmatið. Kærði stefnandi því framangreinda ákvörðun tollstjóra til fjármálaráðuneytisins með bréfi, dags. 30. janúar 2002.
Ráðuneytið sendi kæru stefnanda til umsagnar tollstjórans í Reykjavík. Stefnanda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn tollstjórans. Jafnframt var þess farið á leit við stefnanda að hann legði fram gögn til stuðnings þeim fullyrðingum sem fram komu í kæru hans. Stefnandi óskaði eftir því að veittur frestur yrði framlengdur, þar sem afla þyrfti gagna frá Soffíu sem þá bjó erlendis og leita í skjalageymslu stefnanda. Þrátt fyrir frekari frest bárust ekki gögn eða athugasemdir frá stefnanda.
Með úrskurði fjármálaráðuneytisins, frá 18. júní 2002, var hafnað kröfu stefnanda um að fallið yrði frá áætlun aðflutningsgjalda. Í úrskurðinum er vísað til þess að í farmskrá séu orðin „personal effects“ notuð um innihald sendingarinnar. Ráðuneytið taldi rétt að byggja á upplýsingum úr farmskrá að teknu tilliti til 12. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þar kemur fram að sé verð vara, sem flokka ber í mismunandi tollskrárnúmer og greiða ber af mismunandi háan toll, tilgreint í einni fjárhæð skuli greiða af öllum vörunum þann tollhundraðshluta sem hvílir á þeirri vöru sem ber hæstan toll nema innflytjandi láti tollyfirvöldum í té upplýsingar sem þau meta fullnægjandi og byggja má ákvörðun á um tollverð einstakra vara í sendingu. Var það því mat ráðuneytisins að ekki hafi verið unnt að skipta sendingunni upp í húsgögn, raftæki og fatnað líkt og tollstjóri gerði. Talið var rétt að áætla að í sendingunni hafi verið fatnaður þar sem hann bæri hæstan toll þeirra hluta sem að jafnaði teljast til búslóðar. Miðað var við að sendingin væri 4000 kg eins og tiltekið var í farmskrá, sbr. 4. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 41/1957 um tollheimtu og tolleftirlit, með síðari breytingum, þar sem kærandi hafi ekki stutt fullyrðingar um annað gögnum. Staðfest var ákvörðun tollstjórans að öðru leyti en því að fjárhæð vangreiddra aðflutningsgjalda skyldi vera vegna A-tolls 15% 537.600 kr. og virðisaukaskattur 24,5% 1.009.792 kr., eða samtals 1.547.392 kr. ásamt dráttarvöxtum frá komudegi flutningsfars til greiðsludags, sbr. 2. mgr. 105. gr. tollalaga.
Stefnandi óskaði eftir því við fjármálaráðuneytið með bréfi, dags. 20. júní 2002, að málið yrði endurskoðað og sendi hann viðbótargögn um sendinguna, m.a. frá Vátryggingafélagi Íslands. Í bréfi ráðuneytisins frá 11. september 2002 segir að gögnin hafi ekki að geyma upplýsingar sem gæfu tilefni til endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með bréfi, dags. 24. október 2002, sendi stefnandi til tollstjórans í Reykjavík yfirlýsingu frá Ziegler Nederland BV þar sem fram kom að umrædd sending hafi vegið 300 kg og innihaldið „personal effects“. Tollstjóri leit svo á að stefnandi væri að fara fram á endurskoðun á ákvörðun embættisins sem ráðuneytið hafði úrskurðað um og framsendi því erindið til fjármálaráðuneytisins. Ráðuneytið óskaði eftir viðbótargögnum frá stefnanda í janúar 2003. Í maí 2003 barst ráðuneytinu m.a. yfirlit yfir skiptingu safnsendingar þeirrar sem sending Soffíu Gústafsdóttur var í, þar sem fram kom að hún væri 300 kg og hafi innihaldið „personal effects“.
Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 27. júní 2003, var ekki talið tilefni til þess að lækka fjárhæð aðflutningsgjalda frá fyrri úrskurði á grundvelli framlagðra gagna þegar höfð væri hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum í farmskrá og upplýsingum frá tryggingafélagi, sér í lagi vegna þess að ekki hefði verið gerð grein fyrir þeim 3.700 kg sem bæri í milli.
Í millitíðinni, eða 4. nóvember 2002, greiddi stefnandi hin áætluðu aðflutningsgjöld auk dráttarvaxta með fyrirvara, alls 3.165.889 kr.
Í febrúar 2004 kvartaði stefnandi yfir ákvörðunum tollayfirvalda til umboðsmanns Alþingis. Umfjöllun umboðsmanns var afmörkuð við ákvörðun ráðuneytisins frá 27. júní 2003, þar sem kvörtun til hans skal bera fram innan árs frá því stjórnvaldsákvörðun er tekin. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til lögmanns stefnanda, dags. 15. nóvember 2004. Þar kom fram, að virtum þeim gögnum sem fyrir lágu við ákvörðun ráðuneytisins frá 27. júní 2003 um að synja beiðni stefnanda um endurskoðun á áætlun aðflutningsgjalda, að umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það sönnunarmat sem lagt var til grundvallar í málinu þar sem jafnan sé ekki gert ráð fyrir því að hann taki efnislega afstöðu til fullyrðinga aðila um sönnunaratriði er varða umdeild málsatvik. Við úrlausn þess hvert væri raunverulegt innihald sendingarinnar kynni eftir atvikum að vera nauðsynlegt að taka skýrslur af vitnum og meta sönnunargildi þeirra og annarra gagna. Taldi hann því eðlilegra að dómstólar leysi úr þessu atriði.
Með bréfi lögmanns stefnanda til fjármálaráðuneytisins, dags. 7. apríl 2005, var ráðuneytinu tilkynnt að lögmanninum hefði verið falið að höfða mál til heimtu ofgreiddra aðflutningsgjalda. Var með bréfinu leitað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort grundvöllur væri til að endurskoða umrædda álagningu af þess hálfu. Ráðuneytið taldi svo ekki vera og höfðaði stefnandi því mál þetta.
II.
1. Aðalkrafa.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að munir þeir sem Soffía Gústafsdóttir flutti hingað til lands hafi verið heimilismunir hennar í skilningi 4. tölul. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, og því tollfrjálsir. Því til stuðnings vísar stefnandi til yfirlýsingar Ziegler Nederland BV þar sem fram komi að sendingin hefði að geyma „personal effects“. Sömu upplýsingar komi fram á yfirliti yfir skiptingu safnsendingar og í tilkynningu Samskipa til Soffíu um komu sendingarinnar. Þá er vísað til gagna frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna greiðslu bóta þar sem innihaldi gámsins sé lýst sem búslóð.
Stefnandi telur vandséð hvaða frekari gögn sé unnt að leggja fram því til staðfestingar að um heimilismuni hafi verið að ræða. Með vísan til framangreindra gagna hafi stefnandi leitt að því sterkar líkur að álagning tollyfirvalda á aðflutningsgjöldum, sem fram komi í úrskurði fjármálaráðuneytisins frá 18. júní 2002, hafi verið byggð á röngum grundvelli og sé því ólögmæt. Þá vísar stefnandi til framburðar vitna sem staðfesti að sendingin hafi einungis innihaldið heimilismuni.
Stefnandi byggir jafnframt á því að fjármálaráðuneytið hafi sjálft viðurkennt í úrskurði sínum frá 18. júní 2002 að um búslóð hefði verið að ræða þegar það vísi til þess að í farmskrá hafi verið notuð orðin „personal effects“ um innihald sendingarinnar og að ráðuneytið telji rétt að byggja á þessum upplýsingum úr farmskrá. Þá segi í úrskurðinum að rétt sé að áætla að í sendingunni hafi verið fatnaður þar sem hann beri hæstan toll þeirra hluta sem að jafnaði teljast til búslóðar. Þessi orðanotkun ráðuneytisins sjálfs bendi til þess að um hafi verið að ræða heimilismuni í skilningi 4. tölul. 5. gr. tollalaga, sem séu tollfrjálsir.
Stefnandi telur að lögmætisregla og meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins takmarki þær heimildir sem tollayfirvöld hafa þegar þau beita því úrræði sem þau búa yfir á grundvelli tollalaga að áætla aðflutningsgjöld, sbr. 4. mgr. 97. gr. tollalaga, enda hafi beiting slíks úrræðis verið verulega íþyngjandi í garð þess sem það beinist að. Þannig verði tollayfirvöld að beita úrræði sem þessu af varfærni þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé. Þá verði mat stjórnvalda að vera eins nærri raunveruleikanum og kostur sé. Loks verði með vísan til ofangreindra meginreglna stjórnsýsluréttarins að telja að þegar fyrir liggi skýrar sannanir um að áætlun tollyfirvalda hafi byggst á röngum grundvelli skuli stjórnvöld endurgreiða fjárhæðir sem nemi hinum ofteknu gjöldum.
Loks byggir stefnandi á því að með vísan til reglna um vandaða stjórnsýsluhætti hafi fjármálaráðuneytinu borið að endurskoða úrskurð sinn frá 18. júní 2002, þegar fyrir lágu frekari gögn frá stefnanda sem staðfesti innihald sendingarinnar og þyngd. Í úrskurðinum sagði að upplýsingar úr farmskrá yrðu lagðar til grundvallar þar sem kærandi hefði ekki stutt fullyrðingar um annað gögnum. Þessi staðhæfing ráðuneytisins hafi skapað réttmætar væntingar hjá stefnanda um að þegar hann legði fram frekari gögn sem staðfestu innihaldið, sem hann gerði, væri líklegt að ráðuneytið endurskoðaði afstöðu sína. Það hafi ráðuneytið hins vegar ekki gert. Stefnandi telur að réttmætar væntingar þess sem eigi í samskiptum við stjórnvöld, í þessu tilviki stefnanda, teljist til vandaðra stjórnsýsluhátta í skilningi stjórnsýsluréttar.
Með vísan til framangreinds telur stefnandi að hafið sé yfir allan vafa að sending Soffíu hafi eingöngu innihaldið heimilismuni hennar í skilningi 4. tölul. 5. gr. tollalaga. Hafi stefnandi því ofgreitt til ríkissjóðs aðflutningsgjöld og dráttarvexti sem nemi greiðslu hans 4. nóvember 2002, þ.e. 3.165.889 kr. Beri honum því að fá þá greiðslu endurgreidda með dráttarvöxtum á grundvelli laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995.
Stefndi telur að hvað sem líði innihaldi umræddrar sendingar hafi áætlun tollyfirvalda á aðflutningsgjöldum verið óforsvaranleg og geti ekki staðist að lögum. Fjármálaráðuneytið hafi í úrskurði sínum miðað við að í sendingunni hafi aðeins verið „fatnaður“ þrátt fyrir að í gögnum Vátryggingafélags Íslands, þar sem farið hafi verið yfir skemmdir á munum í sendingunni, sé sagt að í henni hafi verið borðstofusett, snyrtiborð, bók um Jörund hundadagakonung, ísskápur, antikskápur, ferðakista, stóll, sjónvarp, málverk, kaffivél o.fl. Þá miði fjármálaráðuneytið verð á „fatnaðinum“ við meðaltalsverð á innfluttum vörum frá Bretlandi í febrúar 1999, en ekki Hollandi eða Ástralíu, þaðan sem vörurnar komu upphaflega. Þar eð áætlun tollyfirvalda taki á engan hátt mið af ætluðu innihaldi sendingarinnar eða réttu verði munanna verði að líta fram hjá henni og miða við að stefndi hafi oftekið aðflutningsgjöld sem henni nemi.
Þá byggir stefnandi á því að ákvæði 7. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 41/1957 um tollheimtu og tolleftirlit, með síðari breytingum, hafi ekki áhrif á rétt aðila til að fá áætluð aðflutningsgjöld leiðrétt með framlagningu gagna sem bendi til að rangar upplýsingar hafi verið í farmskrá, sbr. 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Dráttarvaxtakrafa stefnanda styðst við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, enda hafi stefnandi greitt fjárhæðina 4. nóvember 2002 með fyrirvara um lögmæti hennar.
Stefnandi telur að á grundvelli dómvenju, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 2005 í máli nr. 354/2004 og dóm Hæstaréttar frá 20. apríl 2005 í máli nr. 441/2004, hafi honum ekki borið að krefjast ógildingar á þeim ákvörðunum tollayfirvalda sem um sé deilt í máli þessu, samhliða greiðslukröfu hans, enda verði tekin afstaða til lögmætis þeirra ákvarðana við úrlausn um greiðslukröfuna. Með vísan til dómsins frá 10. febrúar 2005 hefði slíkum ógildingarkröfum þar að auki verið vísað frá dómi.
2. Varakrafa.
Verði talið að sendingin hafi ekki innihaldið heimilismuni og dómurinn fellst á þann grundvöll sem fjármálaráðuneytið byggði áætlun sína á, byggir stefnandi varakröfu á því að miða eigi við að sendingin hafi verið 300 kg, en ekki 4.000 kg.
Þessu til stuðnings vísar stefnandi til yfirlýsingar Ziegler Nederland BV þar sem fram komi að sendingin hafi verið 300 kg. Þá komi fram í tilkynningu Samskipa til Soffíu um komu sendingarinnar að sendingin væri 300 kg. Loks komi sömu upplýsingar fram á yfirliti yfir skiptingu safnsendingar. Sé farmskráin borin saman við það yfirlit komi í ljós að samræmi sé milli skjalanna í upplýsingum um allar aðrar sendingar en sendingu Soffíu. Bendi það ótvírætt til að mistök hafi verið gerð þegar upplýsingar um sendinguna hafi verið færðar í farmskrá. Vandséð sé hvaða frekari gögn stefnanda sé unnt að leggja fram til staðfestingar því að sendingin hafi verið 300 kg en ekki 4.000 kg.
Þá byggir stefnandi á því að sendingin hafi verið búslóð einnar manneskju, sem þar að auki hafi að hluta til skemmst og horfið samkvæmt gögnum frá Soffíu og tryggingafélagi hennar Nær útilokað sé að slík búslóð sé 4 tonn og miklu líklegra að slík búslóð hafi verið 300 kg.
Stefnandi telur öll þessi gögn staðfesta að rangar upplýsingar hafi verið í farmskrá um þyngd sendingarinnar. Farmskrá fari um margar hendur áður en hún sé send til tollyfirvalda og auðveldlega geti slæðst í hana villur. Þessi tiltekna villa geti hæglega skýrst af því að heildarþyngd gámsins sem innihélt sendingu Soffíu milli Ástralíu og Rotterdam væri 4.000 kg.
Stefnandi mótmælir þeirri nálgun fjármálaráðuneytisins að synja endurupptöku málsins þar sem ekki hefði verið gerð grein fyrir þeim 3.700 kg sem bæri í milli upplýsinga í farmskrá og þeirra gagna sem stefnandi hefði lagt fram. Af yfirliti um skiptingu safnsendingarinnar megi sjá að ýmsar aðrar vörur hafi verið í umræddum gámi en sending Soffíu, samtals 31.489 kg, fyrir utan þau 300 kg sem tilheyrðu henni. Safnsendingin hafi fengið tiltekið sendingarnúmer og henni síðan verið skipt upp þannig að hver og einn sendandi eða sending hafi fengið sitt eigið sendingarnúmer. Þannig sé ekki hægt að gera grein fyrir þeim 3.700 kg sem bæri í milli þar sem þau væru ekki til, þ.e. hver og ein sending sé vigtuð fyrir sig. Hafi verið gert ráð fyrir því að búslóð Soffíu væri 4.000 kg sem ekki reyndist vera nema 300 kg. Hafi þannig einungis verið um leiðréttingu að ræða og mismunurinn leynist því hvergi.
Með vísan til framangreindra gagna og framburða vitna telur stefnandi sig hafa leitt að því sterkar líkur að álagning tollayfirvalda á aðflutningsgjöldum, sem fram komi í úrskurði fjármálaráðuneytisins frá 18. júní 2002, hafi verið byggð á röngum grundvelli og sé því ólögmæt. Varakrafa sé því miðuð við að sendingin hafi verið 300 kg. Við þetta lækki áætluð aðflutningsgjöld og dráttarvextir um 92,5% (300 / 4000 = 7,5%) og hafi átt að vera, miðað við 4. nóvember 2002, 237.442 kr.
Þegar stefnandi greiddi til ríkisins 3.165.889 vegna áætlaðra aðflutningsgjalda og dráttarvexti af þeim, ofgreiddi hann samkvæmt framangreindu 2.928.447 kr. (3.165.889 - 237.442), sem sé stefnufjárhæð varakröfu að viðbættum dráttarvöxtum frá 4. nóvember 2002.
Til stuðnings varakröfu að öðru leyti er vísað til röksemda fyrir aðalkröfu eftir því sem við eigi, einkum lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins um heimildir tollayfirvalda til áætlunar aðflutningsgjalda og endurskoðunar á slíkri áætlun, vandaða stjórnsýsluhætti og upphafstíma og lagagrundvöll dráttarvaxta.
Um lagarök vísar stefnandi til 4. tölul. 5. gr. og 4. mgr. 97. gr. tollalaga nr. 55/1987, 7. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 41/1957 um tollheimtu og tolleftirlit, 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og reglna stjórnsýsluréttarins um vandaða stjórnsýsluhætti.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi byggir á því að umrædd vörusending hafi verið afhent án leyfis tollstjórans í Reykjavík sem stefnandi beri ábyrgð á, sbr. 66. og 67. gr. tollalaga og 12. gr. reglugerðar nr. 61/1989. Hafi aðflutningsgjöldin þar með fallið í eindaga, sbr. 105. gr. tollalaga. Stjórnendum farartækja, skipaafgreiðslum og öðrum, sem hafi ótollafgreiddar vörur í sínum vörslum til flutnings eða geymslu, sé óheimilt að afhenda þær viðtakanda eða láta þær af hendi úr vörugeymslu eða farartæki án leyfis tollstjóra. Engin gögn liggi fyrir hjá embætti tollstjórans í Reykjavík til staðfestingar því að heimild hafi verið veitt til afhendingar sendingarinnar. Hvorki stefnandi né Soffía hafi getað lagt fram gögn því til staðfestingar að afhendingarheimild hafi legið fyrir þegar sendingin var tekin úr vörugeymslu. Í slíkum tilvikum skuli aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim gjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á komudegi flutningsfars til landsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 61/1989. Stefndi byggir á því að stefnandi sé ábyrgur fyrir greiðslu áfallinna gjalda vegna sendingarinnar.
Stefndi bendir á að tollstjórinn í Reykjavík hafi tilkynnt stefnanda með bréfi, dags. 30. ágúst 2001, um vöntun í vörugeymslu fyrirtækisins. Stefnanda hafi verið veittur frestur til þess að leggja fram fullnægjandi gögn um innflutning umræddrar sendingar, þannig að byggja mætti á þeim rétta álagningu aðflutningsgjalda, en engin svör hafi borist frá stefnanda. Tollstjóra hafi því borið að áætla aðflutningsgjöldin, með vísan til 97. gr. og 2. mgr. 105. gr. tollalaga, auk 11. gr. reglugerðar nr. 61/1989.
Stefndi rekur efni úrskurðar ráðuneytisins frá 18. júní 2002 og tekur undir rökstuðning sem þar kemur fram og ákvörðun tollstjóra. Þá vísar stefndi til þeirra réttarheimilda sem þar koma fram. Stefndi telur að ákvarðanir yfirvalda í þessu máli hafi verið lögmætar, eðlilegar og málefnalegar í alla staði.
Stefndi mótmælir því og telur ósannað að munir þeir sem Soffía Gústafsdóttir flutti hingað til lands hafi verið heimilismunir hennar í skilningi 4. tölul. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 og að þeir hafi verið tollfrjálsir. Þá er því einnig mótmælt að stefnandi hafi leitt að því sterkar líkur að álagning tollyfirvalda á aðflutningsgjöldum hafi verið byggð á röngum grundvelli og sé því ólögmæt. Þá er því mótmælt að fjármálaráðuneytið hafi sjálft viðurkennt í úrskurði sínum að um búslóð hefði verið að ræða. Þó það hafi verið ákveðið að byggja á því að fatnaður hafi verið í sendingunni sé ekki þar með viðurkennt að sendingin hafi verið tollfrjáls og innihaldið búslóð eða heimilismuni. Ómögulegt sé að staðreyna hvort skilyrði tollfrelsis hafi verið fyrir hendi þar sem sendingin hafi verið afhent án samþykkis tollstjóra, en stefnandi verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndi byggir á því að sendingin hafi ekki fullnægt skilyrðum til að teljast tollfrjáls.
Stefndi vísar til þess, og tekur undir það sem kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, að ráðuneytið teldi að ekki ætti að líta á erindi lögmanns stefnanda til tollstjórans, dags. 24. október 2002, sem framsent var ráðuneytinu, sem formlega beiðni um leiðréttingu á farmskrá. Erindið hefði verið of seint fram komið. Ráðuneytinu hafi engu að síður þótt rétt að taka efnislega afstöðu til yfirlýsingar hollenska fyrirtækisins og hafi endurskoðun ráðuneytisins lotið að forsendum áætlunar aðflutningsgjalda á þá sendingu sem málið varðar. Ráðuneytinu hafi borist ný gögn frá stefnanda og eftir athugun allra gagna málsins hafi það verið niðurstaða þess í bréfi, dags. 27. júní 2003, að ekki væri unnt að leggja þá þyngdartölu sem fram kom í yfirlýsingu hollenska fyrirtækisins til grundvallar áætlun aðflutningsgjalda. Þá hafi komið fram að ráðuneytið hafi litið svo á að úrskurðurinn frá 18. júní 2002 hafi verið endurupptekinn og niðurstaða legið fyrir í bréfi ráðuneytisins frá 27. júní 2003. Ástæða þess að ráðuneytið hafi vísað til 7. mgr. 35. gr. reglugerðar um tollheimtu og tolleftirlit nr. 41/1957, með síðari breytingum, hafi verið sú að stefnandi hafi haldið því fram að breytingar á farmskrá hefðu verið sendar tollstjóra með símbréfi. Ráðuneytið hafi því rannsakað hvort leiðrétting átti sér stað í samráði við tollstjóra, í samræmi við tilvitnað ákvæði. Tollstjóri hafi staðfest að engar leiðréttingarbeiðnir hefðu borist, nema frá Samskipum, dags. 3. febrúar 1999.
Hvað varðar þyngd sendingarinnar bendir stefndi á að samkvæmt 4. mgr. 35. gr. reglugerðar um tollheimtu og tolleftirlit, sé reglan sú að þyngd sendingar í gámi sé tilekin í farmskrá. Gámurinn sé þar ekki hluti af brúttóþyngd sendingar eins og hún sé fram sett í farmskrá, heldur sé einungis um að ræða brúttóþyngd sendingarinnar sjálfrar. Því er mótmælt sem stefnandi heldur fram að innifalin í brúttóþyngd sendingar samkvæmt farmskrá, hafi verið þyngd gámsins.
Stefndi vísar til þess að í farmskrá komi fram að brúttóþyngd umræddrar sendingar sé 4.000 kg. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sanni að umrædd vara hafi ekki verið þeirrar þyngdar sem upp sé gefin í farmskrá. Það er mat stefnda að sönnunarbyrðin á því, að um rangar upplýsingar sé að ræða í farmskrá, hvíli á stefnanda, en hann beri hallann af því að fullyrðingar um ranga þyngd í farmskrá teljist ekki sannaðar.
Stefndi mótmælir því sem stefnandi heldur fram að sendingunni hafi verið skipt upp og þannig skýrist það að hún hafi ekki í raun verið 4.000 kg. Hið rétta sé að umrædd sending hafi komið til landsins með sendingu númer S HEG 04 02 9 NL RTM W053 sem hafi verið að brúttóþyngd 35.489 kg. Þeirri sendingu hafi svo verið skipt upp í 38 ný sendingarnúmer, þar af hafi eitt þeirra verið með sendingarnúmer S HEG 04 02 9 NL RTM U286, að brúttóþyngd 4.000 kg samkvæmt farmskrá.
Stefndi mótmælir því sem stefnandi heldur fram að send hafi verið leiðrétting á rangri þyngd í farmskrá á faxi. Engin gögn liggi fyrir því til staðfestingar hjá embætti tollstjóra, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að slíkt hafi verið gert.
Stefndi leggur ríka áhersla á að farmflytjandi beri ábyrgð á því að upplýsingar í farmskrá séu réttar. Því verði að teljast ámælisvert hafi farmflytjandi ekki lagst eftir því að leiðrétta ranga þyngdarskráningu í farmskrá, jafnvel þótt hann hafi talið það óþarft með vísan til meints tollfrelsis vörusendingar. Reglur um tollfrelsi séu undantekning frá meginreglunni um að greiða beri aðflutningsgjöld, þ.á m. toll af vörum við innflutning og beri að túlka slíkar undantekningar þröngt.
Að mati stefnda hafa ekki verið lögð fram fullnægjandi gögn í málinu því til sönnunar að um rán og skemmdir á sendingunni hafi verið að ræða, fyrir eða við flutning hennar til landsins. Ætla mætti t.d. að unnt hefði verið að leggja fram lögregluskýrslu og skýrslu vátryggingafélags með stefnu í málinu. Í gögnum Vátryggingafélags Íslands komi hins vegar fram að umrætt tjón hafi átt sér stað 14. júní 1999. Umrædd vörusending hafi verið flutt til landsins 14. febrúar sama ár og sé því ljóst að tjónið virðist hafa átt sér stað, eftir að vörusendingin kom til landsins. Tjónið gæti allt eins hafa átt sér stað í vörugeymslu stefnanda, en vörusendingin hafi verið geymd í nokkra mánuði þar.
Í þessu sambandi bendir stefndi á og rekur efni 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 760/2000, þar sem er að finna heimild til lækkunar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands fyrir tollafgreiðslu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem stefnandi hafi ekki getað sýnt fram á að væru uppfyllt. Jafnframt bendir stefndi á 5. gr. reglugerðarinnar um heimild tollstjóra til að lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld, komi fram vöntun í vörusendingu að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sem stefnandi hafi ekki fullnægt. Stefndi vekur athygli á því að stefnandi sé fagaðili á umræddu sviði og beri að gera ríkar kröfur til hans sem slíks.
Stefndi telur að yfirlýsing frá hollenskum flutningsaðila, samstarfsaðila stefnanda, þess efnis að sendingin hafi aðeins verið 300 kg af „personal effects“, hafi ekkert gildi. Ólíklegt verði að teljast að umflutningsaðilinn hafi vegið umrædda sendingu við flutning hennar til landsins. Allar líkur bendi hins vegar til þess að umrædd sending hafi verið vegin við flutning hennar frá Ástralíu, þegar upphaflegt farmbréf hafi verið gefið út og miðað við 4.000 kg eins og skráð sé í farmskrá.
Hvorki liggi fyrir í málinu farmbréf né yfirlýsing frá ástralska flutningsaðilanum eða áströlskum tollyfirvöldum, þess efnis að þyngdin hafi verið 300 kg eða að gerð hafi verið mistök við tilgreiningu þyngdar á umræddu farmbréfi. Þá er bent á að undarlegt megi teljast að aðila sem sé gert að greiða flutningskostnað eftir þyngd vörusendingar, skuli ekki gera athugasemd við það að sending sé tilgreind 4.000 kg, hafi hún í raun einungis verið 300 kg, enda geti munað umtalsverðum fjármunum við ákvörðun flutningskostnaðar. Stefndi bendir á að Soffía hafi verið starfsmaður stefnanda. Stefndi telur ósennilegt að vörusending, sem fullyrt er að hafi innifalið búslóð, hafi verið að brúttóþyngd 300 kg og komið til landsins í 88 einingum. Mun líklegra sé að raunveruleg þyngd sendingarinnar hafi verið umtalsvert meiri, ekki síst í ljósi þess að innflytjandi hafði verið búsett erlendis, til margra ára, eins og fram hafi komið hjá stefnanda. Þá skuli og tekið mið af því hvaða hlutir séu tilgreindir í skýrslu vátryggingafélags, svo sem borðstofusett og stólar, snyrtiborð, bækur, stór afrísk stytta, ísskápur, antikskápur, ferðakista, sjónvarp, málverk, o.fl. Ólíklegt verði að teljast að umræddir hlutir, auk þeirra sem ekki sé getið í skýrslu vátryggingafélagsins og ætla mætti að hafi ekki orðið fyrir tjóni, en þó verið í sendingunni, hafi einungis vegið 300 kg.
Að mati stefnda verði að teljast harla ólíklegt að búslóð sem einungis vegi 300 kg sé tryggð fyrir 3.000.000 kr. Með hliðsjón af tryggingafjárhæðinni sé mun líklegra að búslóðin hafi vegið 4.000 kg.
Stefndi segir að ekki hafi verið lagt fram ferðauppgjör til stuðnings þeirri fullyrðingu að þyngdin í farmskrá hafi verið röng. Slíkt væri eðlilegt ef um raunverulega skekkju hefði verið að ræða.
Stefndi telur að gera verði ríkar kröfur annars vegar til sönnunar þess hvað í sendingunni hafi verið og hins vegar til sönnunar þess að rangar upplýsingar hafi verið lagðar fram, þegar ótollafgreidd sending er afhent án tilskilinna leyfa tollstjóra, og ómögulegt sé að ganga úr skugga um réttmæti upplýsinga með skoðun á viðkomandi sendingu. Slík sönnun hafi ekki tekist.
Stefndi segir að í gögnum málsins haldi stefnandi því ýmist fram að sendingin hafi verið þannig staðsett í gámi að önnur sending hafi verið framan við hana, þannig að ekki hafi verið unnt að afferma sendingu Soffíu strax, eða að sending hennar hafi verið fyrir annarri vörusendingu sem legið hafi á að afhenda, og því verið afráðið að afferma vörusendingu hennar með hraði og setja hana í vörugeymslu. Verði að telja að þetta misræmi veiki nokkuð framburð stefnanda í málinu.
Stefndi bendir á að það sé ólöglegur innflutningur ef vara sé fjarlægð úr geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur og tekin í notkun án heimildar tollyfirvalda, sbr. 1. mgr. 123. gr. tollalaga. Þá varði það sektum ef stjórnendur eða aðrir yfirmenn geri ekki það sem í þeirra valdi standi til þess að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning með förum þeirra eða vanræki nauðsynlegt eftirlit í því skyni.
Að mati stefnda er ekkert í málinu sem bendi til þess að unnt hefði verið að hrinda málinu í annan farveg. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda.
Stefndi telur að þar sem stefnandi sé fagaðili við tollskýrslugerð og vörslu ótollafgreiddra vara, beri að skýra atvik málsins í ljósi þess.
Stefndi byggir á því að stefnanda hafi borið að krefjast ógildingar á ákvörðunum þeim sem fyrir liggja í málinu, þ.e. ákvörðun tollstjóra frá 8. janúar 2002 og úrskurði fjármálaráðuneytis frá 18. júní 2002. Stefndi mótmælir því að dómvenja kveði á um að stefnanda hafi ekki borið að krefjast ógildingar á ákvörðunum tollyfirvalda. Telur stefndi að þetta eigi að varða sjálfkrafa frávísun málsins frá dómi.
Þá er því mótmælt að lögmætisregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga takmarki heimildir tollyfirvalda í máli þessu og að þær hafi verið brotnar. Starfsmenn stefnda hafi viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti og áætlun tollyfirvalda hafi ekki verið byggð á röngum grundvelli eða verið óforsvaranleg og ekki staðist að lögum.
Stefndi mótmælir því og telur ósannað að stefnandi hafi ofgreitt aðflutningsgjöld. Þá er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti í málinu. Vaxtakröfu er mótmælt og telur stefndi að miða eigi upphafstíma vaxta við þingfestingu málsins.
Um varakröfu vísar stefndi til sömu sjónarmiða og málsástæðna og um aðalkröfu.Um lagarök vísar stefndi til 5., 66., 67., 97., 105., 111. og 124. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 61/1989, 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 760/2001 og 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000.
IV.
Stefndi telur það varða sjálfkrafa frávísun málsins frá dómi að stefnandi hafi ekki jafnframt krafist ógildingar á úrskurði fjármálaráðuneytisins frá 18. júní 2002 eða ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 8. janúar s.á., en stefndi gerir hins vegar ekki sjálfur kröfu um frávísun. Stefnandi krefst greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Krafa hans lýtur hins vegar ekki að því að ákvörðun fjármálaráðuneytisins eða tollstjóra verði felld úr gildi. Ekki verður leyst úr fjárkröfu stefnanda án þess að taka afstöðu til þess hvort stjórnvaldsákvarðanir í máli þessu hafi verið lögmætar. Verður kröfu stefnanda því ekki sjálfkrafa vísað frá dómi.
Stefnandi er rekstraraðili tollvörugeymslu í skilningi 1. mgr. 73. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987, sbr. 91. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem tóku gildi 1. janúar 2006. Samkvæmt 66. gr. tollalaga nr. 55/1987 var óheimilt að afhenda vörur úr tollvörugeymslu nema fyrir lægi leyfi tollstjóra. Í 67. gr. tollalaga nr. 55/1987 sagði að eigandi eða umráðamaður vörugeymslu ábyrgist greiðslu á aðflutningsgjöldum af vörum sem hafa verið afhentar eða teknar í notkun án þess að gætt hafi verið ákvæða tollalaga. Í tollalögum nr. 88/2005 eru samskonar ákvæði, sbr. 77. gr. og 78. gr. laganna. Hvergi liggja fyrir gögn sem staðfesta að umrædd sending hafi verið afhent úr tollvörugeymslu í samræmi við ákvæði tollalaga, hvorki hjá stefnanda, Soffíu Gústafsdóttur, né tollayfirvöldum. Var því heimilt að áætla stefnanda aðflutningsgjöld á grundvelli 4. mgr. 97. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. nú 3. mgr. 110. gr. og 115. gr. tollalaga nr. 88/2005, en samkvæmt ákvæðinu gátu tollayfirvöld áætlað aðflutningsgjöld þegar fullnægjandi gögn skorti til að byggja ákvörðun slíkra gjalda á. Það leiðir af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að tollayfirvöldum ber að beita slíkri heimild af varfærni þannig að eigi sé gengið lengra í áætlun en nauðsynlegt er. Tollayfirvöldum er þó að vissu marki heimilt að skýra innflytjanda vöru vafa í þessu sambandi í óhag, sérstaklega þegar hann sinnir ekki upplýsingaskyldu sinni um vöru.
Í úrskurði ráðuneytisins frá 18. júní 2002 er gengið út frá því að umrædd sending hafi innihaldið búslóð. Þannig er byggt á því sem segir í farmskrá að sendingin hafi innihaldið „personal effects“ og miða bæri við fatnað, en ekki húsgögn eða raftæki, eins og tollstjóri gerði, þar sem fatnaður bæri að jafnaði hæstan toll þeirra hluta sem að jafnaði teljast til búslóðar. Þá kemur fram í ýmsum gögnum sem síðar voru lögð fram, svo sem frá Vátryggingafélagi Íslands og hollensku fyrirtæki, að sendingin hafi innihaldið búslóð. Gáfu þessi gögn sérstakt tilefni til þess að ráðuneytið endurskoðaði ákvörðun sína. Dómurinn lítur svo á að ekki hafi verið ágreiningur um að Soffía Gústafsdóttir hafi á umræddum tíma flutt búferlum hingað til lands eftir margra ára búsetu erlendis. Fyrir dóminn komu nokkur vitni sem greindu frá því að sendingin hefði innihaldið búslóð Soffíu. Reynir Haraldsson, sérfræðingur tollamála hjá stefnanda, lýsti því hvernig verklagi er háttað við innflutning vöru og tollafgreiðslu hennar. Sagði hann að Soffía hafi verið að flytja búferlum hingað til lands og að hún hafi sjálf séð um tollafgreiðslu sendingarinnar. Soffía gaf munnlega skýrslu fyrir dóminum og sagði að sendingin hafi innihaldið búslóð hennar frá Ástralíu, en hún hefði búið þar í átta ár. Taldi hún upp ýmsa muni í sendingunni sem teljast hefðbundnir heimilismunir. Jafnframt kom fyrir dóminn Guðbjartur Ingibergsson, sem á umræddum tíma var verktaki hjá stefnanda sem flutningabílstjóri. Greindi hann frá því að hann hefði flutt búslóð Soffíu á flutningabíl sínum, úr vörugeymslu stefnanda til Selfoss. Sagði hann að um hefðbundna búslóð hafi verið að ræða og ekkert annað. Þá kom fyrir dóminn Smári Kristjánsson, umdæmisstjóri Vátryggingafélags Íslands á Selfossi. Skýrði hann frá því að hann hafi skoðað muni Soffíu á Selfossi. Þetta hefði verið hefðbundin búslóð. Um dagsetningu þess hvenær tjónið varð sagði hann að miðað hafi verið við það þegar tjónið var tilkynnt félaginu.
Að mati dómsins liggur fyrir að innihald sendingarinnar var búslóð Soffíu Gústafsdóttur. Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. nú 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, skulu heimilismunir manna sem flytjast búferlum hingað til lands vera tollfrjálsir, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum. Verður því fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann innti af hendi með fyrirvara 4. nóvember 2002, ásamt dráttarvöxtum eins og nánar kveður á um í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda er hluti af vinnustundum hans tilkominn vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis. Kostnaður vegna þess telst ekki til málskostnaður samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu athuguðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 600.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jónar Transporti hf., 3.165.889 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. nóvember 2002 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.