Hæstiréttur íslands

Mál nr. 637/2016

Bílabúð Benna ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)
gegn
Halldóri Þorsteini Birgissyni (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innsetningargerð
  • Málskostnaður

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa B ehf. um að sér yrði heimilað að fá tiltekin gögn úr umráðum H og fengin sér með beinni aðfarargerð, en málskostnaður var látinn niður falla. Krafðist B ehf. að H yrði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa B ehf. hefði tekið til gagna, sem talin hefðu verið upp í 63 liðum, en með úrskurðinum hefði krafa hans verið tekin til greina varðandi 13 af þeim. Að því virtu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016 þar sem að hluta var tekin til greina krafa sóknaraðila um að sér yrði heimilað að fá tiltekin gögn tekin úr umráðum varnaraðila og fengin sér með beinni aðfarargerð, en málskostnaður milli þeirra var látinn falla niður. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði tók krafa sóknaraðila um heimild til innsetningargerðar til gagna, sem talin voru upp í 63 liðum, en með úrskurðinum var krafa sóknaraðila tekin til greina varðandi 13 af þessum liðum. Að því virtu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 31. ágúst

Mál þetta barst dóminum með aðfararbeiðni 7. apríl sl. Sóknaraðili er Bílabúð Benna ehf., kt. 711292-2929, Vagnhöfða 23, Reykjavík. Varnaraðili er Halldór Þorsteinn Birgisson, kt. 301260-3189, Þingaseli 1, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar aðallega um að öll skjöl og gögn vegna eftirtalinna innheimtumála með eftirtalin málsnúmer í málaskrá varnaraðila, þar með talin frumrit kröfubréfa, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin lögmanni varnaraðila fyrir hönd varnaraðila:

5401-001              Halldór Þór Ólafsson

5401-006              María Antonía Jónsdóttir

5401-013              Guðjón Halldór Óskarsson

5401-028              Ingvar Jóhann Snæbjörnsson

5401-030              Helga Einarsdóttir/Réttingartækni

5401-033              Guðmundur Páll Andrésson

5401-034              Guðmundur Páll Andrésson

5401-038              Sigríður Þóra Gabríels

5401-040              Óskar Þór Gunnarsson

5401-048              Þóra Lind Karlsdóttir

5401-050              Atli Franz Adamsson

5401-056              Stefán Vilhjálmsson

5401-059              Anna Lísa Wiium

5401-061              Guðmundur Kristjánsson

5401-065              Friðrik Þór Friðriksson

5401-073              Svanur Óðinn Þórhallsson

5401-075              Góð verk ehf.

5401-076              Sigfríður Steingrímsdóttir

5401-079              Gunnar Sigurðsson

5401-094              Skúli Magnússon

5401-095              Sandra Björk Gunnarsdóttir

5401-096              Svanur Óðinn Þórhallsson

5401-101              Héðinn Björnsson

5401-110              Elín Katrín Rúnarsdóttir

5401-114              Anna Grétarsdóttir

5401-117              Geir Guðjónsson

5401-121              Júlíus Brjánsson

5401-122              Lindarhvammur ehf.

5401-124              Valgarður Júlíusson

5401-125              Gunnar A. Halldórsson

5401-127              Sigfinnur Þór Lúðvíksson

5401-128              Örn Grétarsson

5401-132              Erlingur A. Óskarsson

5401-133              Margrét Hildur Ríkharðsdóttir

5401-135              Atli Benedikt Hilmarsson

5401-141              Ragnheiður Helen Ólafsdóttir

5401-147              Jóhann Helgi Óskarsson

5401-148              Ingibjörg Gestsdóttir

5401-158              Einar Friðjónsson

5401-159              Helga Dögg Haraldsdóttir

5401-167              Pása ehf./Íris Ósk Hjaltadóttir

5401-168              Sigurður Tómas Sigurbjörnsson

5401-169              Íris B. Pétursdóttir

5401-178              Ellý Dröfn Kristjánsdóttir

5401-183              Guðrún Á. Friðþjófsdóttir

5401-187              Sigurður B. Sigurðsson

5401-191              Moamed M. Roshdy Soliman

5401-194              Viðar Þór Viðarsson

5401-196              Þ.G.B. Bílar ehf.

5401-197              Sverrir G. Benediktsson

5401-205              Davíð Ólafsson

5401-206              Exa renniverkst./Kári Þórisson

5401-214              Erling Jón Sigurðsson

5401-220              Einar Örn Davíðsson

5401-223              Jóna Brynja Jónsdóttir

5401-228              Ómar Örvar

5401-229              Dögg Kristjánsdóttir

auk eftirtalinna innheimtumála sem séu með óþekkt málsnúmer í málaskrá varnaraðila en þar sem skuldarar eru:

Finnur Indriði Guðmundsson

Gunnlaugur B. Ólafsson

Hraðar ehf.

Icecool ehf.

María Steinunn Jóhannesdóttir

Reis bílar ehf.

Til vara krefst sóknaraðili þess að öll skjöl og gögn vegna eftirtalinna innheimtumála með eftirtalin málsnúmer í málaskrá varnaraðila, þar með talin frumrit kröfubréfa, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin lögmanni varnaraðila fyrir hönd varnaraðila:

5401-205              Davíð Ólafsson

5401-206              Exa renniverkst./Kári Þórisson

5401-214              Erling Jón Sigurðsson

5401-220              Einar Örn Davíðsson

5401-223              Jóna Brynja Jónsdóttir

5401-228              Ómar Örvar

5401-229              Dögg Kristjánsdóttir

auk eftirtalinna innheimtumála sem séu með óþekkt málsnúmer í málaskrá varnaraðila þar sem skuldarar eru:

Finnur Indriði Guðmundsson

Gunnlaugur B. Ólafsson

Hraðar ehf.

Icecool ehf.

María Steinunn Jóhannesdóttir

Reis bílar ehf.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila í báðum tilvikum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar 22. ágúst sl. að loknum munnlegum málflutningi.

I

Málavextir

Fram kemur í beiðni sóknaraðila að hann hafi skömmu eftir árið 2000 falið varnaraðila innheimtu ýmissa krafna, bæði viðskiptakrafna og krafna er byggðu á skuldabréfum og víxlum. Er samband aðila hafði staðið í nokkur ár taldi sóknaraðili að pottur væri brotinn í meðferð og eftirfylgni varnaraðila gagnvart skuldunautum sóknaraðila. Hafi sóknaraðili óskað eftir skýringum frá varnaraðila á ýmsum málum en aðeins hafi, að mati sóknaraðila, fengist skýringar að hluta. Þá hafi gengið erfiðlega að fá skýringar í mörgum tilvikum. Þá hafi sóknaraðili talið þær skýringar sem þó hafi verið gefnar ófullnægjandi í mörgum tilvikum og að þær fengju ekki staðist. Sóknaraðili hafi því óskað eftir frekari skýringum og gögnum frá varnaraðila. Fjármálastjóri sóknaraðila hafi sent varnaraðila erindi í nokkur skipti með tölvupósti á tímabilinu október til desember 2013, þar sem m.a. var óskað eftir skilagreinum vegna þeirra mála sem varnaraðili hafði til innheimtu fyrir sóknaraðila. Við þeim beiðnum hafi varnaraðili ekki orðið. Þá hafi sóknaraðili óskað eftir að fá afhent öll innheimtumálin til baka. Við því hafi varnaraðili ekki heldur orðið.

Lögmaður sóknaraðila óskaði, með bréfi 7. mars 2014, eftir afhendingu allra mála sem varnaraðili hefði í innheimtu fyrir sóknaraðila. Þá var óskað eftir afhendingu allra gagna þessara mála ásamt skilagreinum og upplýsingum um stöðu hvers og eins máls. Varnaraðili mun ekki hafa brugðist við erindinu. Erindið var ítrekað í apríl 2014 en varnaraðili mun ekki hafa brugðist við erindinu. Fram kemur í beiðni sóknaraðila að lögmaðurinn hafi einnig reynt að ná tali af varnaraðila símleiðis en án árangurs. Með tölvupósti varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 5. maí 2014 kom á hinn bóginn fram að gögnin yrðu afhent í þeirri viku. Ekki mun þó hafa orðið af því.

Lögmaður sóknaraðila sendi erindi til úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands í ágúst 2014 vegna háttsemi varnaraðila. Krafðist hann þess að úrskurðarnefndin hlutaðist til um að varnaraðili afhenti sóknaraðila umbeðin gögn. Nefndin veitti varnaraðila frest til 18. september 2014 til að skila greinargerð um erindi sóknaraðila. Með bréfi 17. nóvember 2014 ítrekaði úrskurðarnefndin að varnaraðili gerði nefndinni grein fyrir málinu af hans hálfu. Veitti nefndin varnaraðila lokafrest til 1. desember 2014 til greinargerðaskila og minnti varnaraðila á skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum og gagnvart nefndinni. Þá var bent á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki fyrir tilskilinn tíma mætti hann búast við að nefndin beitti þeim viðurlögum sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Lögmaður sóknaraðila mun hafa spurst fyrir um málið hjá nefndinni í lok janúar 2015. Var erindið ítrekað símleiðis af hálfu úrskurðarnefndarinnar við varnaraðila 21. janúar 2015. Hafi varnaraðili þá óskað eftir frekari fresti og lokafrestur verið framlengdur til 27. janúar 2015. Mun sá frestur hafa liðið án þess að varnaraðili skilaði inn greinargerð til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarnefndin tók málið til úrskurðar 13. mars 2015. Fram kom í niðurstöðu hennar að framferði varnaraðila, þ.e. „sú vanræksla hans að senda eða afhenda kæranda ekki upplýsingar og gögn vegna innheimtumála hans“ fæli í sér brot á starfsskyldum hans samkvæmt siðareglum lögmanna. Einnig hafi „framferði hans falið í sér brot á skyldum hans gagnvart nefndinni“ sem leitt hafi til þess að málið yrði ekki fyllilega upplýst á vettvangi nefndarinnar. Hefði varnaraðili með þessu sýnt af sér háttsemi sem telja yrði ósamboðna lögmannastéttinni. Var varnaraðila veitt áminning af þessum sökum með heimild í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Ekki mun hafa komið til þess að varnaraðili léti umrædd gögn af hendi í kjölfar úrskurðar nefndarinnar. Fram kemur í beiðni sóknaraðila að í ljósi þess að varnaraðili ætli með engu móti að láta umrædd gögn af hendi, sem þó sé algerlega óumdeilt að hann sé með undir höndum og honum beri skylda til að afhenda varnaraðila, sé varnaraðila nauðugur einn sá kostur að óska eftir því að gögnin verði tekin úr vörslu gerðarþola með beinni aðfarargerð. Hafi hann því beint erindi þar að lútandi til dómsins.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi falið varnaraðila sem lögmanni fjölmörg mál til innheimtu. Varnaraðila hafi í upphafi verið afhent ýmis gögn og skjöl í tengslum við þessi mál svo sem frumrit skuldabréfa og víxla og upplýsingar um reikningskröfur. Þá hafi orðið til ýmis skjöl í tengslum við innheimtuna. Sóknaraðili byggir á því að hann eigi skýlausan rétt til aðfararandlagsins, og sé það raunar óumdeilt, sem og að varnaraðili sé með aðfararandlagið í sínum fórum. Aðalkrafa hans í málinu lúti að öllum þeim málum sem varnaraðili hafi ekki sent gögn í og þeim málum þar sem varnaraðili hafi gefið ófullnægjandi skýringar á um vinnslu og málalyktir. Varakrafa hans miðist við þau gögn sem varnaraðili hafi fallist á að afhenda undir rekstri þessa máls fyrir dóminum.

Þar sem varnaraðili hafi ekki orðið við margítrekuðum beiðnum sóknaraðila um að afhenda honum umrædd gögn og skjöl sé krafist umráða yfir þeim með vísan til 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 78. gr. laganna. Í 73. gr. þeirra laga komi fram að kveði aðfararheimild á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en þess sem 72. gr. taki til, en sú grein fjalli um umráð fasteignar, skuli sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með því að taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda. Í 78. gr. laganna komi fram að sé manni með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjái sig eiga og telja verði svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verði samkvæmt 83. gr., sé honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem getið í 72. eða 73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð, þótt aðfararheimild skv. 1. gr. liggi ekki fyrir.

Efni þessarar beiðni til héraðsdóms sé að krefjast úrskurðar um að aðför samkvæmt áðurnefndri 73. gr. laga nr. 90/1989 megi fara fram. Sóknaraðili kveðst telja rétt sinn til þeirra skjala og gagna sem aðfararbeiðnin taki til óumdeildan. Þá sé einnig óumdeilt að varnaraðili hafi þessi gögn undir höndum. Vandinn liggi í því að varnaraðili hafi ekki fengist til að afhenda gögnin, þrátt fyrir að hann hafi ítrekað sagst ætla að gera það. Um sé að ræða skuldabréf, víxla og önnur gögn, sem sóknaraðili hafi látið varnaraðila í té, en sóknaraðili eigi með réttu og geti krafist afhendingar á hvenær sem er. Ómögulegt sé að segja til um hvort, og þá hvaða, önnur gögn hafi orðið til í innheimtu varnaraðila, en ljóst sé að sóknaraðili eigi tilkall til allra slíkra gagna, þótt varnaraðila sé heimilt að eiga afrit af þeim.

Sóknaraðili telur innheimtu varnaraðila mögulega hafa verið áfátt í ýmsum atriðum, þannig að kröfur hafi jafnvel fyrnst og/eða að tilraunir til innheimtu hafi ekki verið nýttar, svo sem gagnvart ábyrgðarmönnum. Varnaraðili hafi á árunum 2011 og 2012 gefið skýringar á innheimtutilraunum sínum í einstökum málum, sbr. bréf hans til sóknaraðila þar að lútandi. Sóknaraðili kveðst hafa farið yfir þær skýringar og telji þær í mörgum tilvikum vera ófullnægjandi. Þá telji sóknaraðili að þær skýringar gefi jafnvel vísbendingar um að innheimtunni hafi verið áfátt í einhverjum tilvikum sem hafi svo leitt til tjóns fyrir hann.

Sóknaraðili hafi viljað sannreyna skýringar varnaraðila með því að taka innheimtumálin, og öll gögn sem þeim tengjast, til baka. Varnaraðili hafi ekki orðið við þeim beiðnum. Sóknaraðili hafi mikla hagsmuni af því að fá gögnin afhent sem fyrst svo unnt sé að kanna hvort reyna megi frekari innheimtu eða hvort innheimtu varnaraðila hafi verið ábótavant.

Með vísan til framanritaðs, og í ljósi þess að réttur hans sé skýr og óumdeildur, krefst sóknaraðili þess að fallist verði á kröfu hans um um beina aðför samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989.Um málskostnað sé vísað til 129. sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ljóst sé að kostnaður hefur orðið umtalsverður vegna aðgerðarleysis varnaraðila.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað þar sem skilyrðum laga nr. 90/1989 um skýrleika kröfu sé ekki fullnægt og réttur sóknaraðila sé í raun ekki til staðar.

Þá liggi fyrir að beiðninni sé beint að varnaraðila persónulega sem ekki hafi tekið að sér innheimtu fyrir sóknaraðila heldur Lögmannsstofa Halldórs Þ. Birgissonar ehf., kt. 701299-3619. Kröfunni sé þannig beint ranglega að varnaraðila og leiði það til þess að að henni beri að hafna á þeim grunni. Verði ekki fallist að sjónarmið um aðildarskort kveðst varnaraðili byggja á eftirfarandi málsástæðum.

Lögmannsstofa varnaraðila hafi annars innheimtu og önnur verkefni fyrir sóknaraðila um árabil og reyndar hafi síðasta verkefnið verið ógildingarmál vegna skuldabréfs sem rekið var á árinu 2015. Það hafi verið gert að beiðni sóknaraðila og án þóknunar. Fyrir liggi að öllum málum sem lögmannsstofunni var falið að sinna sé lokið og séu þau að fullu uppgerð eins og fram komi í gögnum úr bókhaldi varnaraðila fyrir utan innheimtumálin 13 sem varakrafa sóknaraðila taki nú til.

Þá liggi fyrir í málinu bréf frá varnaraðila frá því í október 2011 og í mars 2012 þar sem farið sé ítarlega yfir öll þau mál sem send hafi verið sóknaraðila sem uppgerð og/eða vegna árangurslausrar innheimtu. Í öllum tilvikum hafi fylgt gögn eftir því sem við gat átt eða lokastig innheimtutilrauna, þ.e.a.s. frumskjöl, dómar í frumriti, árangurslaus fjárnám í frumriti, uppboðsskilagreinar eða afrit af kröfulýsingum í þrotabú. Þau gögn sem um sé beðið séu því að meginstefnu til nú þegar í vörslu sóknaraðila sjálfs. Beiðnin miði öll að málum þar sem einhverjar afskriftir hafi komið til. Sóknaraðili virðist þá líta þannig á að hafi krafa ekki innheimst að fullu þá hafi eitthvað verið athugavert eða ábótavant við innheimtu varnaraðila. Erfitt sé að átta sig á því hvernig unnt sé að komast að þessari niðurstöðu.

Þá sé vandséð hvaða gögn sóknaraðila kunni að vanta varðandi þau mál sem þegar sé lokið. Slík gögn séu enda ekki til staðar hjá varnaraðila nema í bókhaldi hans sem afrit kvittana um kostnað og greiðslur í málum og skilagreinar til sóknaraðila um hið sama, sem honum hafi verið sendar með reglubundnum hætti, sem og samrit áður sendra gagna. Öðrum gögnum hafi verið fleygt enda ástæðulaust að geyma þau eftir að innheimtu ljúki. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við skil varnaraðila á innheimtufé til sóknaraðila og enginn kostnaður hafi verið innheimtur fyrir vinnu í árangurslausum málum eða vegna tapaðra mála. Innheimtuviðvaranir hafi verið sendar af lögmannsstofu varnaraðila samkvæmt listum án þess að rukkað hafi verið fyrir slíkt. Þá liggi og fyrir að lögmannsstofa varnaraðila annaðist að auki önnur mál fyrir sóknaraðila án þess að greiðsla kæmi fyrir sem og fyrir aðaleiganda félagsins og aðila tengda honum.

Varnaraðili bendir á að hann hafi veitt ítarlegar útskýringar á innheimtu fjölmargra mála í áðurnefndum bréfum sínum á árunum 2011 og 2012. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við skil þessara mála og skýringar fyrr en í erindi lögmanns sóknaraðila á árinu 2014 þar sem reifuð hafi verið sjónarmið um að innheimtustörfum hafi almennt verið óbótavant. Erindinu hafi því miður ekki verið svarað á sínum tíma af ástæðum sem ekki verði raktar hér en ekki sé við neinn að sakast í þeim efnum nema varnaraðila sjálfan.

Þá kveðst varnaraðila ekkert vera því til fyrirstöðu að afhenda megi gögn þeirra 13 mála sem eftir standi með sama hætti og fyrri mál og hafi það verið boðið sóknaraðila.

Á hinn bóginn sé engan veginn hægt að líta svo á, og sé því sérstaklega mómælt, að bókhaldsgögn eða vinnugögn lögmannsstofunnar varði sóknaraðila eða séu eign hans þannig að slík gögn verði færð í hendur hans með beinni aðfarargerð.

Þá skuli áréttað að varnaraðili telur að sóknaraðili fari offari í samskiptum aðila þegar litið sé svo á að gögn við niðurfellingu máls, eins og kröfulýsing í þrotabú sem séu eignalaus, árangurslaus fjárnám eða skilagreinar um niðurstöður uppboða þar sem fullnusta hefur ekki náðst, gefi vísbendingar um að ekki hafi verið unnið í málum eða verkefnum ekki sinnt með eðlilegum hætti. Áðurnefnd gögn bendi raunar þvert á móti til annars sem og vinnubrögð varnaraðila í öðrum málum sem sinnt hafi verið fyrir sóknaraðila og tengda aðila. Mögulega hefði verið rétt að senda mál hraðar til afskriftar og innheimta kann að hafa verið reynd of lengi án þess að hún skilaði árangri. Á hinn bóginn var raunin sú að betur gekk að að ná greiðslum þar sem unnið hafði verið með skuldurum frekar en að fara í vörslusviptingar og uppboð að undangengnum dómi þar sem árangur af nauðungarsölum hafi ekki verið góður og kostnaður mikill.

Varnaraðili kveður rétt sóknaraðila ekki vera svo skýran og skýlausan að hann geti gert kröfu um afhendingu gagna með beinni aðfaragerð á grundvelli 72. og 73. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 83. gr. sömu laga. Réttur hans sé auk þess ekki til staðar þannig að krafa verði höfð uppi um öll gögn, án nokkurrar takmörkunar, varðandi mál sem lokið sé hjá varnaraðila, hvað þá varðandi þau mál sem séu niðurfelld hjá varnaraðila og gögn hafi þegar verið endursend. Krafan sé að þessu leyti óskýr. Krafa samkvæmt beinni aðfarargerð skuli byggð á dómi eða eignarrétti en hvorugt liggi fyrir í máli þessu. Gögn sem kunni að vera til séu eign lögmannsstofunnar en ekki eign sóknaraðila. Er þess krafist, með vísan til ákvæða laga nr. 90/1989 og framanritaðs, að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað en áréttað að ekkert sé því til fyrirstöðu að afhent verði gögn er varakrafa sóknaraðila lúti að.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að fá afhent gögn vegna nánar tiltekinna innheimtumála sem til innheimtu voru hjá varnaraðila. Undir rekstri málsins gerði sóknaraðili breytingu á kröfugerð sinni. Aðalkrafa hans lýtur nú að afhendingu þeirra mála sem þar eru tilgreind eftir númerum frá 5401-001 til 5401-200 og nafni skuldara í málaskrá varnaraðila en varakrafa hans tekur til gagna í sjö málum sem bera númer frá 5401-200 og nafni skuldara í málaskrá varnaraðila auk sex mála sem ekki hafa tiltekið númer en auðkennd eru með nafni skuldara. Varnaraðili hefur hafnað því að gögn þau sem tilgreind eru í aðalkröfu sóknaraðila verði tekin með beinni aðfarargerð úr hans vörslum þar sem skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 séu ekki uppfyllt svo að gerðin megi fara. Krafan sé heldur ekki svo skýr sem skyldi og hann hafi þegar afhent sóknaraðila öll gögn sem hann eigi rétt á varðandi þau mál. Auk þess hafi hann gefið viðhlítandi skýringar á því hvað var aðhafst í málunum og afdrif þeirra og síðast en ekki síst sé kröfunni ranglega beint að honum. Þá eigi sóknaraðili ekki neitt tilkall til annarra gagna en hann hafi þegar fengið enda séu þau eign lögmannsstofu hans og tilheyri bókhaldi hennar. Varnaraðili lýsti því yfir í greinargerð sinni, og áréttaði það undir rekstri málsins og við munnlegan málflutning, að hann teldi á hinn bóginn ekkert því til fyrirstöðu að afhenda gögn í þeim 13 málum sem tiltekin eru í varakröfu sóknaraðila og að þau gögn verði afhent eins og gögn annarra mála sem hann hefði þegar látið sóknaraðila fá. Sóknaraðili féll ekki frá þessum hluta kröfunnar en setti hana þess í stað fram sem varakröfu eins og áður er getið.

Varnaraðili hefur á því byggt að kröfunni sé ranglega beint að sér persónulega. Henni hefði með réttu átt að vera beint að lögmannsstofu sinni sem tekið hafi að sér innheimtu fyrir sóknaraðila. Varnaraðili hefur þó ekki lagt fram nein gögn því til staðfestu að sóknaraðili hafi samið við lögmannsstofu varnaraðila um innheimtu skulda. Verður enda að telja ljóst að varnaraðili sem lögmaður hafi borið skyldur sem slíkur gagnvart sóknaraðila. Þá verður einnig að líta til þess að bréf varnaraðila á árunum 2011 og 2012 voru send í hans eigin nafni og útskýringar gefnar á því hvernig innheimtu lögmannsins var háttað. Dómurinn telur því ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls þótt sóknaraðili hafi kosið að beina kröfu sinni að varnaraðila persónulega en ekki lögmannsstofu hans.

Í málum er varða útburðar- og innsetningargerðir skal dómari, samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, taka afstöðu til þess hvort gerðin nái fram að ganga eða hvort henni beri að hafna, verði talið varhugavert að hún fari fram á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989. Þá gildir það almenna skilyrði fyrir beinni aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 að krafa gerðarbeiðanda sé svo skýr eða ljós að um skýlaus réttindi sé að ræða. Einnig að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana og sönnur fyrir því verði færðar með þeim gögnum sem aflað verður fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. sömu laga.

Í máli þessi liggur fyrir að varnaraðili hefur afhent einhver gögn er varða mál sem bera númer á bilinu 5401-001 til 5401-200 og hefur því í sjálfu sér ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila. Í bréfum varnaraðila frá því í október 2011 og mars 2012 koma fram ítarlegar skýringar um afdrif einstakra mála, hvað varnaraðili aðhafðist í þeim. Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki hafa mótmælt eða gert athugasemdir við þessar skýringar fyrr en með bréfi lögmanns sóknaraðila á árinu 2014. Þessu hefur heldur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila.

Þá kemur fram í áðurnefndum bréfum varnaraðila að hann hafi afhent sóknaraðila gögn og skilagreinar í fjölmörgum þeirra mála sem tilgreind eru í kröfugerð sóknaraðila er varða lokastig innheimtutilrauna, þ.e.a.s. frumskjöl, dóma í frumriti, árangurslaus fjárnám í frumriti, uppboðsskilagreinar eða afrit af kröfulýsingum í þrotabú. Þetta er ítrekað í tölvupósti varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 22. maí sl. er málið var rekið fyrir dóminum. Sóknaraðili hefur í sjálfu sér ekki mótmælt því að hann hafi þegar fengið einhver gögn frá varnaraðila. Hann hefur þó ekki leitast við að útskýra hvaða gögn hann hefur sjálfur í fórum sínum og hvaða gögn kunni að standa út af í ofangreindum málum. Hefur fullyrðingum varnaraðila um að hann hafi þegar afhent sóknaraðila þau gögn sem hann kunni að eiga rétt á því ekki verið hnekkt. Þá er engan veginn hægt að fallast á það að sóknaraðili geti gert tilkall til vinnu- og bókhaldsgagna varnaraðila.

Málatilbúnaður sóknaraðila og kröfugerð hans er því, að mati dómsins, engan veginn svo skýr eða ljós að þessu eða réttmæti kröfu hans svo ljóst að unnt sé að fallast á kröfu hans í heild sinni. Engin leið er fyrir dóminn til að átta sig á því hvaða gögn sóknaraðili telur sig eiga rétt á úr hendi varnaraðila. Sóknaraðili hefur haldið því fram fyrir dóminum að ýmsar skýringar varnaraðila hafi verið ófullnægjandi að hans mati og að þær fái ekki staðist en án þess að hann geri reka að því að útskýra nánar í hverju það felist. Getur afstaða sóknaraðila til skýringa varnaraðila ekki leitt til þess að hann eigi réttmæta kröfu til þess að fá gögn afhent með beinni aðfarargerð úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili hefur í gögnum málsins og fyrir dóminum ekki talið neitt því til fyrirstöðu að afhenda þau gögn sem lúta að þeim þrettán málum sem tilgreind eru í lok aðalkröfu sóknaraðila og í varakröfu hans. Það feli enda í sér afhendingu gagna með sama hætti og gert hafi verið varðandi mál með númerin frá 5401-001 til 5401-200. Dómurinn telur lagaskilyrði vera uppfyllt fyrir afhendingu umræddra gagna í áðurnefndum þrettán málum og verður varnaraðila því gert að afhenda sóknaraðila þau gögn.

Sóknaraðili hefur kosið að haga málatilbúnaði sínum með þeim hætti að gera kröfu um afhendingu allra gagna í aðalkröfu sinni en tiltaka hluta hennar, þ.e. umrædd þrettán mál, í sérstakri varakröfu. Eins og kröfugerðinni er háttað verður að líta svo á að varakrafa sóknaraðila sé óþörf enda er hún hluti af aðalkröfu hans og verður ekki frekar um varakröfuna fjallað. Verður í samræmi við ofangreint fallist á kröfu sóknaraðila hvað varðar þau þrettán mál sem tilgreind eru í lok aðalkröfu hans eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með hliðsjón af lyktum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 25. maí sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sóknaraðila, Bílabúð Benna ehf., er heimilt að fá tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Halldórs Þorsteins Birgissonar, gögn eftirtalinna innheimtumála:

5401-205              Davíð Ólafsson

5401-206              Exa renniverkst./Kári Þórisson

5401-214              Erling Jón Sigurðsson

5401-220              Einar Örn Davíðsson

5401-223              Jóna Brynja Jónsdóttir

5401-228              Ómar Örvar

5401-229              Dögg Kristjánsdóttir

auk gagna eftirtalinna innheimtumála með óþekkt málsnúmer í málaskrá varnaraðila en þar sem skuldarar eru:

                                               Finnur Indriði Guðmundsson

                                               Gunnlaugur B. Ólafsson

                                               Hraðar ehf.

                                               Icecool ehf.

                                               María Steinunn Jóhannesdóttir

                                               Reis bílar ehf.

Málskostnaður fellur niður.