Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2006
Lykilorð
- Vanreifun
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 31. mars 2006. |
|
Nr. 159/2006. |
Guðjón Jónsson(Eyvindur G. Gunnarsson hdl.) gegn Pálma Breiðfjörð Einarssyni og (Viðar Lúðvíksson hrl.) Jóni Ingvari Einarssyni(Jón Magnússon hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
G höfðaði mál á hendur P og J til heimtu
skaðabóta eða afsláttar vegna galla sem hann taldi vera á vinnubrögðum þeirra
við smíði húss í hans eigu. Talið var að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á
málið á grundvelli fyrirliggjandi matsgerðar og engar forsendur voru taldar
fyrir hendi til að dæma skaðabætur eða afslátt að álitum. Þá þótti ekki unnt að
endurupptaka málið í því skyni að gefa aðilum kost á að afla nýrrar matsgerðar
eða nýrra gagna, þar sem það myndi raska þeim málsgrundvelli, sem málið hefði
verið rekið á. Var málinu því vísað frá dómi af sjálfsdáðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27.
febrúar 2006.
Mál
þetta, sem dómtekið var 31. janúar sl., var höfðað 4. apríl 2005.
Stefnandi
er Guðjón Jónsson, Glæsivöllum 4, Grindavík.
Stefndu
eru Pálmi Breiðfjörð Einarsson, Efstaleiti 28, Reykjanesbæ og Jón Ingvar
Einarsson, Efstahrauni 15, Grindavík.
Réttargæslustefndi
er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
stefnanda eru þessar:
Aðallega
að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 3.974.674 krónur í
skaðabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu frá 9. desember 2004 til greiðsludags.
Til vara
að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 3.974.674 krónur í
afslátt ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti
og verðtryggingu frá 9. desember 2004 til greiðsludags.
Til
þrautavara að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda aðra lægri
fjárhæð í skaðabætur og/eða afslátt að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9.
desember 2004 til greiðsludags.
Í öllum
tilvikum er krafist málskostnaðar.
Stefndi
Pálmi Breiðfjörð Einarsson krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk
málskostnaðar, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að
málskostnaður falli niður.
Stefndi
Jón Ingvar Einarsson krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
Af hálfu
réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. eru ekki gerðar sjálfstæðar
kröfur í málinu, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
I.
Mál
þetta varðar galla sem stefnandi telur fasteignina Glæsivelli 4, Grindavík
haldna og rekja megi til saknæmrar háttsemi við byggingu hússins, sem stefndu
beri sameiginlega ábyrgð á. Stefndu mótmæla því að eignin sé haldin slíkum
göllum er stefnandi lætur í veðri vaka auk þess sem þeir firra sig ábyrgð verði
talið að um einhverja galla sé að ræða. Þá telja stefndu þvílíka annmarka vera
á matsgerð dómkvadds matsmanns, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, að
niðurstaða málsins verði ekki byggð á henni. Á hinn bóginn er ágreiningslaust
að eitthvað fór úrskeiðis við niðurlögn steypu sem olli því að steypuhreiður
mynduðust. Ágreiningur er á hinn bóginn um það hvort bætt hafi verið úr
annmörkunum og hvort þörf sé á viðlíka
ráðatöfunum og matsmaður leggur til.
Stefnandi
kveðst hafa ráðist í byggingu umrædds einbýlishúss á árinu 2001 og ráðið stefnda
Pálma Breiðfjörð húsasmíðameistara sem byggingarverktaka í félagi við Guðmund
Ragnar Ragnarsson. Hafi stefndi Pálmi jafnframt verið byggingarstjóri hússins
og húsasmíðameistari. Stefndi Jón Ingvar hafi verið ráðinn sem múrarameistari
að húsinu með samþykki byggingarstjórans Pálma. Ekki hafi verið gerðir
skriflegir samningar við stefndu en þeir borið sameiginlega ábyrgð á uppsteypu
hússins sem byggingarstjóri og múrarameistari.
Stefnandi
kveður að fullu hafi verið gert upp við stefndu eins og um var samið. Þannig
hafi stefnandi greitt samtals 4.900.000 krónur til stefnda Pálma Breiðfjörð,
Guðmundar Ragnars Ragnarssonar, sem hafi verið byggingarverktaki ásamt stefnda
Pálma Breiðfjörð og Tréborgar sf., sem sé sameignarfélag í eigu stefnda Pálma
Breiðfjörð og Höllu Tómasdóttur. Þá hafi stefnandi greitt stefnda Jóni Ingvari
1.376.223 krónur.
Stefndi
Pálmi Breiðfjörð heldur því fram að ónákvæmni gæti í stefnu varðandi greiðslur
stefnanda fyrir verkið. Hið rétta sé að Tréborg sf. hafi gefið út einn reikning
vegna verksins dagsettan 14. desember 2001 að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Greiðslukvittun vegna greiðslu þess reiknings sé dagsett 26. október 2001, sbr.
dskj. 5, en sjálfur reikningurinn hafi
verið útbúinn síðar. Stefnandi hafi tjáð stefnda að hann þyrfti greiðslukvittunina
á þeim tíma vegna umsóknar hans um byggingarlán. Upp úr áramótum 2001/2002 hafi
stefnandi hins vegar tjáð stefnda að hann hefði glatað kvittuninni og þyrfti
þar af leiðandi nýja kvittun vegna lánsumsóknar og/eða greiðslumat. Stefndi
hafi tekið orð stefnanda trúanleg og undirritað nýja kvittun, dagsetta 16.
janúar 2002, sbr. dskj. nr. 7. Komi fram í málinu að báðar kvittanirnar séu
vegna sömu greiðslu, sbr. dskj. nr. 2, tl. 7. Til viðbótar hafi stefnandi innt
af hendi þrjár greiðslur, samtals að fjárhæð 780.000 krónur inn á bankareikning
Höllu Tómasdóttur vegna Tréborgar sf., þann 25. janúar 2002, 5. febrúar 2002 og
20. mars 2002. Ekki hafi verið gefinn út reikningur vegna þeirra greiðslna.
Stefnandi hafi þannig samtals greitt Tréborg sf. 1.780.000 krónur.
Stefndi
Pálmi Breiðfjörð kveður stefnanda hafi fengið vin sinn Guðmund Ragnar
Ragnarsson til að reisa einbýlishúsið, en þar sem hann hafði ekki tilskilin
réttindi hafi stefnandi farið þess á leit við sig vegna Tréborgar sf. að vera
byggingarstjóri við verkið og hafi hann
samþykkt það. Hvorki hafi verið samið sérstaklega um greiðslu milli aðila né um
verktöku af hálfu stefnda. Stefnandi hafi sjálfur haft með höndum kaup á
byggingarefni, þ.m.t. mótatimbri, auk þess sem hann hafi sjálfur fengið verktaka
að verkinu svo sem múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkja. Stefndi
hafi ekki gert athugasemdir við það val enda um að ræða iðnmeistara. Stefndi
hafi ekki haft verktöku með höndum við verkið að öðru leyti en því að hann sem
starfsmaður Tréborgar sf. aðstoðaði stefnanda í tímavinnu við uppslátt
steypumóta. Því fari hins vegar fjarri að stefndi eða Tréborg sf. hafi tekið að
sér að byggja húsið, svo sem stefnandi haldi fram.
Stefndi
Jón Ingvar kveðst hafa tekið að sér múrverk við hús stefnanda árið 2001 og
annast uppsteypu hússins ásamt Ragnari Ragnarssyni og byggingarstjóra hússins
og öðrum starfsmönnum. Í ársbyrjun 2002 hafi stefnandi látið Línuhönnun
framkvæma úttekt á meintum steypugöllum í húsinu og í framhaldi af skýrslu
Línuhönnunar hafi stefnandi farið fram á það við stefnda Jón að hann lagfærði
þá galla sem komu fram og að honum sneru samkvæmt skýrslunni og hafi stefndi
gert það þegar í stað. Um einu og hálfu ári seinna hafi stefnda svo borist
matsbeiðni frá lögmanni stefnanda og í kjölfarið hafi matsmaður verið
dómkvaddur 9. maí 2003 og hafi mati ekki verið lokið fyrr en í október 2004.
Stefnandi
kveður í ljós hafa komið eftir að húsið var reist að það væri haldið
meiriháttar göllum. Hafi fyrst og fremst verið um að ræða galla í niðurlögn
steypu, sem ókleift sé að lagfæra. Er stefnandi hugðist fá fokheldisvottorð
snemma árs 2002 hafi byggingarfulltrúinn í Grindavík stöðvað framkvæmdir við
húsið vegna þeirra alvarlegu galla sem voru á uppsteypu og burðarvirki. Af þeim
sökum hafi byggingarfulltrúinn fengið verkfræðistofuna Línuhönnun til þess að
taka út steypugallana og gera tillögur um viðgerðir á eigninni. Samkvæmt
skýrslu Línuhönnunar hafi verið staðfest að eignin væri haldin miklum
steypugöllum, sem rekja mætti fyrst og fremst til mistaka við niðurlagningu
steypunnar, hroðvirkni og þess að steypumót hafi ekki verið skoluð eins og
góðir verkhættir kveði á um. Stefnandi hafi þegar krafið stefndu um úrbætur, en
þær litlu úrbætur sem voru reyndar hafi engan árangur borið.
Í
framhaldi af þessu hafi stefnandi krafið tryggingafélögin Vátryggingafélag
Íslands hf. og Sjóvá- Almennar tryggingar hf. um greiðslur úr
starfsábyrgðartryggingum byggingarstjórans, stefnda Pálma Breiðfjörð og
múrarameistarans, stefnda Jóns Ingvars, en þeim kröfum hafi báðum verið hafnað.
Stefnandi
kveðst hafa óskað dómkvaðningar matsmanns 20. september 2002, en matsmálið hafi
verið fellt niður þar sem stefndu hafi fallist á að framkvæma úrbætur á því sem
úrskeiðis hafði farið til að komast hjá málaferlum. Úrbætur stefndu í október
2002 hafi hins vegar ekki skilað tilætluðum árangri.
Snemma
árs 2003 hafi stefndi Pálmi Breiðfjörð, byggingarstjóri hússins óskað eftir því
að segja sig frá verkinu sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari og í
framhaldi af því hafi farið fram úttekt á verkinu. Stefnandi hafi síðan óskað
að nýju dómkvaðningar matsmanns með bréfi dagsettu 31. mars 2003 og hafi Freyr
Jóhannesson verið kvaddur til sem matsmaður.
Með
bréfi dagsettu 22. júní 2004 hafi lögmaður stefnanda óskað eftir því við
stefndu að málinu yrði lokið án atbeina dómstóla.
Með
bréfi dagsettu 6. júlí 2004 hafi réttargæslustefndi tilkynnt að tjónanefnd
tryggingafélaganna hafi komist að þeirri niðurstöðu í maí 2002 að ekki væri um
að ræða bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingu
byggingarstjóra hjá félaginu.
Með
bréfum lögmanna stefndu dagsettum 7. júlí 2004 annars vegar og 12. júlí s. á.
hins vegar hafi bótaskyldu verið hafnað og í ljósi þeirrar afstöðu stefndu hafi
hinn dómkvaddi matsmaður verið beðinn að ljúka mati sínu.
Matsmaður
skilaði mati sínu 12. október 2004 og samkvæmt niðurstöðu matsins nam kostnaður
vegna efnis og vinnu að koma eigninni í viðunandi ástand samtals 3.974.674
krónum.
Í niðurstöðum matsmanns um útveggi fasteignarinnar
kemur fram að niðurstöður í skýrslu Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins
beri það greinilega með sér að útveggir hússins séu haldnir verulegum göllum.
Þá hafi “viðgerðir” sem framkvæmdar voru misheppnast að stórum hluta og verið
minnni en nauðsynlegt var. Ljóst sé að veggir séu og muni verða óþéttir nema tryggt verði að slagregn hafi ekki greiðan aðgang að
yfirborði þeirra. Að múrhúða veggina að utan á hefðbundinn hátt tryggi þá ekki
fyrir frostskemmdum eða leka um sprungur sem munu myndast í og við viðgerðir
þær sem framkvæmdar hafa verið og litla líkur séu á því að endurteknar
viðgerðir muni bæta þar verulega um. Því telji matsmaður nauðsynlegt, til þess
að bæta úr framangreindum ágöllum að því er varðar þéttleika útveggjanna, að
“múrklæða” húsið að utan á “hefðbundin” (sic.) hátt. Telur matsmaður ástæður
gallanna í útveggjunum vera óvönduð vinnubrögð við niðurlögn steypu og undirbúningi fyrir hana.
Matsmaðurinn staðfesti matsgerð sína við aðalmeðferð
málsins. Hann kvað matið miðast við eina leið til úrbóta sem fylgt hefði verið
til enda og hefði því ekki verið dregin frá matsupphæð kostnaður sem hefði ella
verið samfara því að múrhúða húsið að utan á hefðbundinn hátt. Aðspurður um það
hvort þær tillögur til úrbóta er fram koma í skýrslu Línuhönnunar fælu í sér
fullnægjandi viðgerð á steyptum útveggjum eða með öðrum orðum hvort unnt væri
að gera við steypta útveggi kvað matsmaður svo vera en þá þyrfti að brjóta
upp steypu og endursteypa. Hann kvað það verklag sem Línuhönnun lagði til
fullnægjandi til að gera við hina gölluðu steypu þannig að steypan gæti staðið
undir hefðbundinni múrhúðun. Matsmaður kvað þetta verkalag ekki vera ódýrari
kost en að múrklæða húsið eins og matið byggðist á. Alltaf væri erfitt að segja
fyrirfram hvað mikið þurfi að brjóta upp af steypu.
Niðurstaða matsins
sundurliðast svo:
|
Verkliður |
Magn |
Ein. |
Efni |
Vinna |
Samtals |
|
1. Vinnupallur |
88 |
m |
39.600 |
140.88 |
180.400 |
|
2. Frágangur við glugga og
dyr |
158 |
m |
79.000 |
221.200 |
300.000 |
|
3. Múrhúðun og einangrun |
242 |
m2 |
1.548.800 |
1.258.400 |
2.807.200 |
|
4. Glugga- og dyrakarmar |
158 |
m |
71.100 |
300.200 |
371.300 |
|
5. Sökkulfrágangur |
88 |
m |
272.800 |
202.400 |
475.200 |
|
6. Þakkantur
(Blikkáfellur) |
12 |
m |
54.000 |
42.000 |
96.000 |
|
Samtals |
|
|
2.065.300 |
2.165.000 |
4.230.300 |
|
Frádráttur 60% VSK af
vinnu á vinnustað |
|
|
|
-255.626 |
-255.626 |
|
Samtals |
|
|
2.065.300 |
1.909.374 |
3.974.674 |
Stefndu voru krafðir um greiðslu í
samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar með bréfi dagsettu 9. nóvember 2004.
Lögmaður stefnda Pálma hafnaði bótaskyldu stefnda með bréfi dagsettu 11.
nóvember 2004, en stefndi Jón Ingvar svaraði ekki kröfubréfinu.
Við
aðalmeðferð málsins gáfu aðilar munnlegar aðilaskýrslur og skýrslur vitna auk
matsmanns Helgi Hauksson verkfræðingur.
Dómarar
gengu á vettvang með aðilum og lögmönnum fyrir upphaf aðalmeðferðar.
II.
Af hálfu
stefnanda eru dómkröfur á hendur stefndu byggðar á almennum reglum kröfuréttar
um skaðabætur innan samninga. Byggir stefnandi á því að stefndi Pálmi beri
ábyrgð innan samninga sem byggingarstjóri, húsasmíðameistari og verktaki við
byggingu hússins og að stefndi Jón Ingvar beri sömuleiðis ábyrgð innan samninga
sem múrarameistari á verkinu, en byggingarstjóri hafi samþykkt að hann yrði
ráðinn til verksins.
Að því
er varðar aðalkröfu er af hálfu stefnanda byggt á því að einbýlishúsið sem hann
fól stefndu að reisa hafi verið haldið miklum göllum sem rekja megi til
handvammar stefndu við verkið. Eigi stefnandi því rétt til skaðabóta úr hendi
stefndu. Byggir stefnandi á því að matsgerð dómkvadds matsmanns staðfesti að
eignin sé haldin meiriháttar göllum sem rekja megi til óvandaðra vinnubragða. Í
því sambandi vísar stefnandi m.a. til rannsóknar Rannsóknarstofnunar
byggingariðnaðarins sem að ósk dómkvadds matsmanns hafi tekið kjarnasýni úr
útveggjum hússins. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar rannsóknar, sem byggt sé á í
matsgerð hins dómkvadda matsmanns, komi fram:
1.
Að steypuhreiður séu í 27,3 % sýnanna og þar að auki sé illa pökkuð
steypa í 18,2 % þeirra, eða samtals 45,5 % sýna séu með ófullnægjandi pökkun í
steypu.
2.
Að gölluð viðgerð sé í 36,4 % sýnanna.
3.
Að sprungur í steypu séu í 18,2 % sýnanna.
4.
Að sag í steypuskilum hafi fundist í 9,1 % sýnanna.
Þá komi
fram í matsgerðinni að gölluð sýni séu samtals 81,8% en ógölluð 18,2%. Að mati
Helga Haukssonar og matsmanns hafi þannig aðeins þrjú sýni verið nothæf, eða
27,3%, til þess að það hefði einhvern tilgang að prófa þrýstiþol þeirra. Þessi
þrjú sýni fullnægi kröfum um burðarþol, en átta sýni hafi verið svo veik eða
gölluð að sýnt væri að þau myndu ekki uppfylla gefnar kröfur.
Stefnandi
byggir á því að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við undirbúning og
niðurlögn steypu og að við byggingu hússins hafi stefndu brotið gróflega gegn
þeim reglum og venjum sem gildi á sviði
húsasmíða og þeim ströngu kröfum sem gera verði til þeirra sem sérfræðinga á
því sviði. Stefndu séu fagmenn og þeir hafi selt stefnanda þjónustu sína sem
sérfræðingar á sínu sviði. Stefnandi hafi mátt treysta því að öll vinna og
undirbúningur yrði í samræmi við vandaða verkhætti.
Stefnandi
byggir kröfu sína á hendur stefnda Pálma á því að hann sem byggingarstjóri hafi
borið ábyrgð á þeim mistökum sem sannað er að urðu við hina verklegu framkvæmd
Jóns Ingvars sem iðnmeistara. Ábyrgð stefnda Pálma sem byggingarstjóra sé
víðtæk og hafi hann borið ábyrgð á því að hið unna verk stæðist faglegar
kröfur, sbr. m.a. 118. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Þá hafi
stefndi Pálmi sem húsasmíðameistari, sem staðfest hafi ábyrgð sína á verki,
m.a. borið ábyrgð á allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum, svo og á
öllum stokkum og götum sem á þau komu, stokkum fyrir lagnir sem settir voru í
steypumót, veggklæðningum með raka,- hljóð- og eldvörn ásamt einangrun og
loftun eftir því sem við á, að lóð sé jöfnuð í rétta hæð, frágangi einangrunar
sem lögð er laus á plötu eða grind og ef hún er sett í steypumót, sbr. 38. gr.
byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Ennfremur beri stefndi Pálmi sjálfstæða
ábyrgð samkvæmt 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem
framkvæmdastjóri byggingarframkvæmdanna.
Byggt er
á því að samkvæmt 39. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 beri stefndi Jón
Ingvar sem múrarameistari, sem staðfest hafi ábyrgð sína á verki, m.a. ábyrgð á
allri steinsteypu, niðurlögn hennar og eftirmeðhöndlun, allri hleðslu,
múrhúðun, ílögnum og frágangi á einangrun undir múrhúðun.
Eins og
matsgerð dómkvadds matsmanns beri með sér hafi vinnubrögðum stefndu verið svo
áfátt að telja verði stórkostlega handvömm af þeirra hálfu. Þar sem þeir gættu
ekki lágmarkskrafna, sem gera verði til húsasmíðameistara og múrarameistara við
byggingu húsa, svo sem niðurlögn steinsteypu og að steypumót væru hreinsuð,
megi jafna hinni stórkostlegu handvömm þeirra til sakar í skilningi kröfuréttar
og verktakaréttar. Stefnandi eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi
stefndu vegna þess tjóns sem leitt hafi af handvömm þeirra samkvæmt almennum
reglum kröfuréttar. Stefnandi geri kröfu um greiðslu á skaðabótum úr hendi
stefndu sem nemi kostnaði við nauðsynlegar úrbætur og lagfæringar á göllunum
sem voru á verki stefndu við bygginguna samkvæmt matsgerð hins dómkvadda
matsmanns.
Um
bótagrundvöllinn vísar stefnandi til þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna
galla á verki stefndu en gallarnir séu alvarlegir og teljist því veruleg
vanefnd af hálfu stefndu. Stefnandi byggir rétt til greiðslu skaðabóta úr hendi
stefndu á grundvelli almennra reglna kröfuréttar og verktakaréttar um beitingu
vanefndaúrræða.
Bótafjárhæðir
séu byggðar á almennum reglum kröfuréttar og verktakaréttar og svari þær til
fyrirsjáanlegs kostnaðar við að bæta úr göllum á verki stefnanda. Þá leiði það
einnig til sömu niðurstöðu hvort sem talið verði að stefnanda beri skaðabætur
eða afsláttur vegna verksins úr hendi stefndu. Stefnandi byggir á niðurstöðum
matsgerðar hins dómkvadda matsmanns og geri hann því kröfu um greiðslu á 3.974.674
krónum.
Varakröfu
sína um afslátt að fjárhæð 3.974.674 krónur byggir stefnandi á því hvað kosti
að bæta úr göllunum. Sé byggt á sömu rökum og sjónarmiðum og um aðalkröfuna.
Huglæg afstaða stefndu hafi enga þýðingu og beri að dæma afslátt á algerlega hlutlægum
grundvelli. Fjárhæð afsláttarkröfu byggir stefnandi á niðurstöðu matsgerðar.
Þrautavarakröfu
sína byggir stefnandi á því að hvað sem öðru líði eigi stefnandi rétt til
skaðabóta og/eða afsláttar að mati dómsins.
Kröfu
sína um dráttarvexti af dómkröfum miðar stefnandi við 9. desember 2004, en þá
hafi verið liðinn mánuður frá því að hann krafði stefndu um bætur/afslátt vegna
gallanna, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi
byggir kröfur sínar á meginreglum kröfuréttar og verktakaréttar um vanefndir og
vanefndaúrræði, sérstaklega skaðabætur innan samninga. Þá sé byggt á skipulags-
og byggingarlögum nr. 73/1997, einkum 51. og 52. gr., og byggingarreglugerð nr.
441/1998, einkum 31.- 39. gr. og 118. gr.
Dráttarvaxtakröfu
sina byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og
verðtryggingu. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr.
91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988.
III.
Sýknukröfu
sína byggir stefndi Pálmi Breiðfjörð í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hann hafi
ekki verið aðili að samningi við stefnanda um byggingu fasteignarinnar á
Glæsivöllum 4 í Grindavík og beri hann því ekki ábyrgð á meintum göllum í
fasteigninni. Beri því að sýkna hann samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Samningsaðili stefnanda í tengslum við verkið hafi verið Tréborg sf. en stefndi
hafi verið starfsmaður þess fyrirtækis. Fyrir liggi reikningur Tréborgar sf.
sem stefnandi hafi greitt og ekki gert athugasemdir við og þá hafi síðari
greiðslur verið lagðar inn á bankareikninga á vegum Tréborgar sf. Stefnandi
hafi þannig einungis komið fram við framkvæmd verksins sem starfsmaður
Tréborgar sf., sem sé sjálfstæður lögaðili og beri réttindi og skyldur sem
slíkur. Stefndi hafi komið fram fyrir hönd félagsins sem fyrirsvarsmaður þess,
en með því hafi hann ekki með neinu móti tekið á sig persónulega
skaðabótaábyrgð eða afsláttarábyrgð á verki sem hann hafi ekki tekið að sér
persónulega að framkvæma.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda vegna
aðildarskorts sé sýknukrafa byggð á því að stefndi hafi aðeins komið að verki
sem byggingarstjóri á grundvelli 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, fyrir
utan að hafa aðstoðað stefnanda við uppslátt steypumóta. Meðstefndi Jón Ingvar
hafi verið fenginn til verksins sem múrarameistari. Um ábyrgð múrarameistara
fari m.a. ákvæðum 52. gr. skipulagas- og byggingargingarlaga og 39. gr.
byggingarreglugerðar. Í síðastgreinda
ákvæðinu komi fram að múrarameistari beri m.a ábyrgð á allri steypu, niðurlögn
hennar o.s.frv. Þetta sé m.a.
viðurkennt af stefnanda í bréfi lögmanns hans til Sjóvá Almennra hf. þar sem
segir: “Umbjóðandi minn telur að þessa galla sé að rekja til mistaka við
niðurlagningu steypunnar, sem er á ábyrgð múrarameistara.” Stefnandi reisi
þannig málatilbúnað sinn á því að galli hafi verið á verkinu við niðurlögn
steypu og uppsteypu hússins. Sá hluti verksins hafi alfarið verið á ábyrgð
meðstefnda Jóns Ingvars.
Verði
stefndi á hinn bóginn af einhverjum ástæðum talinn bera ábyrgð á hugsanlegum
göllum við verkið þá verði sú ábyrgð einungis reist á stöðu hans sem
byggingarstjóra við verkið. Taki ábyrgðartrygging hans sem byggingarstjóra þá
til þeirrar ábyrgðar.
Stefnandi
hafi ekki leitt sönnur að því að stefndi hafi verið annað og meira en
byggingarstjóri við verkið að frátöldu því að hann aðstoðaði stefnanda við
uppslátt móta í tímavinnu.
Í stefnu
sé því ítrekað haldið fram að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við
niðurlögn steypu, undirbúning verksins og verkið að öðru leyti. Í stefnu komi
hins vegar ekki fram í hverju hin meinta saknæma háttsemi eigi að hafa falist,
þ. e. hvað gert hafi verið rangt eða hvar vikið hafi verið frá reglum og venjum
á sviði byggingarframkvæmda. Þess í stað sé eingöngu vísað til þess að tiltekið
tjón hafi orðið. Þá sé rökstuðning um meinta saknæma háttsemi stefnda heldur
ekki að finna í matsgerð. Af hálfu stefnda sé því alfarið mótmælt að hann hafi sýnt af sér nokkra sök sem viðkomi
byggingu umrædds húss. Þótt tjón verði þýði það ekki sjálfkrafa að sök hafi
verið höfð í frammi.
Af hálfu
stefnda er byggt á því að stefnandi hafi í raun sjálfur verið framkvæmdastjóri
við byggingu hússins. Hann hafi þegar verið búinn að ráða Guðmund Ragnar
Ragnarsson sem byggingarverktaka við verkið þegar stefndi kom að verkinu sem
starfsmaður Tréborgar sf. og byggingarstjóri.
Þá hafi
ekki verið leitt í ljós af hálfu stefnanda af hvers völdum hinir meintu gallar
væru. Hafi verið holur og hreiður í steypunni sé langlíklegast að orsök þess
megi rekja til þess að steypuvibrator, sem fenginn var til verksins, hafi ekki
verið nægilega öflugur. Stefndi geti hins vegar hvorki borið ábyrgð á gæðum
vibratorsins, hugsanlegri bilun hans né niðurlögn steypunnar að öðru leyti,
enda hafi sá verkþáttur alfarið verið á ábyrgð múrarameistara við verkið, meðstefnda
Jóns Ingvars.
Þá sé
ekki hægt að krefjast skaðabóta/afsláttar nema af verki í heild, þ.e. ef verki
er lokið. Skaðabóta og afsláttar verði ekki krafist vegna þess sem ólokið er af
verki, allra síst þegar verkið hefur verið unnið í tímagjaldi. Ekki liggi annað
fyrir en að stefnandi hafi fengið andvirði þess sem hann greiddi fyrir verkið.
Frekari vinna felist í að ljúka við byggingu hússins og það hefði stefnandi
allt að einu þurft að greiða.
Stefnandi
geti eðli máls samkvæmt ekki stöðvað verk sem sé ólokið og hafi þar á ofan
verið unnið á tímakaupi og krafist skaðabóta eða afsláttar vegna þess sem
ólokið er. Með því væri stefnandi að hagnast á kostnað stefnda og fá
múrklæðningu og frágang hússins þannig án endurgjalds. Væru kröfur stefnanda
teknar til greina myndi það leiða til óréttmætrar auðgunar hans á kostnað
stefnda. Stefnandi hafi ekki látið meta hvað kostað hefði að ljúka við byggingu
hússins ef allt hefði verið eins og hann hefði kosið. Hann hafi þannig ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir
fjártjóni af völdum stefnda.
Þá geti
afsláttur aldrei orðið hærri en heildarendurgjald vegna verksins. Það felist í
eðli afsláttar að stefnda geti aldrei orðið skylt að greiða stefnanda hærri
afslátt en nemur þeim greiðslum sem hann hafi fengið vegna verksins. Þar að
auki verði að taka tillit til þess að hluti greiðslanna til stefnda hafi verið
vegna starfa hans sem byggingarstjóra.
Af hálfu
stefnda er á því byggt að á matsgerð dómkvadds matsmanns séu ágallar sem geri
það að verkum að matsgerðin geti ekki talist grundvöllur afsláttar- eða
skaðabótakröfu stefnanda.
Fyrir
það fyrsta beri að nefna að matsmaður telji að eftirfarandi þurfi að gera: a)
að múrklæða húsið að utan á hefðbundinn hátt, b) að hann hafi ekki getað
staðreynt leka í sambandi við steypt þak og verði því að reikna með því að
þegar búið verði að ganga frá þaki og útveggjum hússins “endanlega” verði ekki
um neitt vandamál að ræða að þessu leyti, c) matsmaður telji að þegar búið
verði að ganga frá þakskeggi hússins verði lekahætta um útloftunarrör úr
sögunni.
Með
vísan til þessa telur stefndi vandséð í hverju galli á verkinu felist. Af
niðurstöðum matsmanns megi sjá að einungis eigi eftir að ljúka verkinu.
Stefnandi geti ekki krafist greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna þeirra þátta, því hann hafi ekki
greitt stefnda eða meðstefnda neitt fyrir þá þætti enn sem komið er. Það felist
í eðli máls og reglum verktakaréttar að ekki verði krafist skaðabóta eða
afsláttar vegna verks sem hvorki hafi verið unnið né greitt fyrir.
Þá telur
stefndi niðurstöður matsmanns órökstuddar og án forsendna og verði því ekki á
þeim byggt. Sem dæmi megi nefna að matsmaður segist ekki hafa forsendur til að
meta verðmætisrýrnun fasteignarinnar. Engu að síður telji hann “... líklegt að
verðlækkun um 5-10% af markaðsverði gæti komið til, ef almennt verði talið að
húsið sé illa byggt”. Þá hafi matsmaður verið beðinn um að meta sérstaklega í
hvaða verkþáttum ekki hefði verið unnið í samræmi við viðurkennda verkhætti,
samþykkta uppdrætti, verklýsingar og lög og reglugerðir. Um þetta segi í
matsgerðinni: “Ljóst er að steypuniðurlögn hússins var ekki unnin í samræmi við
viðurkennda verkhætti eins og fram hefur komið hér að framan”. Hvergi sé hins
vegar fjallað um það í matsgerðinni hvernig matsmaður telji að vikið hafi verið
frá reglum og venjum.
Stefndi
telur umrætt verk ekki geta verið gallað fyrirfram, en verkinu sé ólokið, auk
þess sem verkið muni hafa verið unnið gegn tímagjaldi. Ekki sé hægt að meta
galla á verki nema því hafi verið skilað í endanlegri mynd, og verði því að
telja matsgerðina ótímabæra, eins og reyndar megi sjá af tilvitnuðum orðum
matsmanns. Í öllum tilvikum hefði hvort sem er þurft að múrklæða húsið með
einhverjum hætti við lok byggingar þess, sökum þess að stefnandi óskaði eftir
uppslætti með timbri.
Stefndi
telur umrædda annmarka á kröfugerð stefnanda vegna þessa vera verulega, og
verði útreikningar stefnanda því ekki lagðir til grundvallar í málinu. Þar sem
kröfugerð stefnanda sé fjarri því að vera studd fullnægjandi gögnum og rökum að
þessu leyti beri því að sýkna stefnda, þar sem grundvöllur og fjárhæð krafna
stefnanda séu ósönnuð. Að öðrum kosti telji stefndi eðlilegt að vísa kröfum
stefnanda frá ex officio.
Varakröfu
sína um lækkun á kröfum stefnanda byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu
allt of háar og ekki nægilega rökstuddar eins og áður hafi verið rakið í
umfjöllun um aðalkröfu. Að auki styður stefndi varakröfu sína þeim málsástæðum,
að kröfur stefnanda séu hærri en nemi þeim greiðslum sem stefnandi hafi greitt
vegna verksins. Verði að horfa til þess við ákvörðun skaðabóta eða afsláttar.
Þá sé matsgerð dómkvadds matsmanns verulega ábótavant í grundvallaratriðum,
eins og áður hafi verið rakið, og geti hún því ekki verið grundvöllur fyrir
útreikningi á bóta- eða afsláttarkröfu stefnanda. Verði dæmdar bætur eða
afsláttur því einungis ákveðin að álitum.
Stefndi
mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda alfarið. Mikil óvissa sé uppi í málinu og
ekki verði byggt á matsgerð vegna annmarka á henni. Verði stefndi því ekki
dæmdur til greiðslu dráttarvaxta af kröfum stefnanda meðan málið er í því
horfi, enda verði stefnandi sjálfur að bera ábyrgð á annmörkum á eigin
málatilbúnaði. Um dráttarvexti af skaðabótakröfum fari að ákvæðum 9. gr. laga
nr. 38/2001, en stefnandi byggi ekki á því lagaákvæði. Því verði dráttarvextir
ekki dæmdir af skaðabótakröfu stefnanda. Í öllu falli fyrst frá
dómsuppsögudegi, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna.
Stefndi
byggir á því að sökum óvissu í málinu sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til
málskostnaðar úr hendi stefnda, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Þá
mótmælir stefndi því að tekið verði tillit til kostnaðar vegna kjarnaborunar
Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins eða matsgerðar dómkvadds matsmanns við
ákvörðun málskostnaðar.
Stefndi
byggir á almennum reglum samningaréttar og reglum kröfuréttar um
skuldbindingargildi samninga, galla og vanefndaúrræði. Þá vísar stefndi til
almennra reglna verktakaréttar, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og
ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi
við 129. og 130. gr. eml. og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988 um
virðisaukaskatt.
IV.
Stefndi Jón Ingvar byggir sýknukröfu sína á því að
réttilega hafi verið staðið að múrverki í húsinu að öllu leyti, en komið hafi
fram gallar sem getið sé um í greinargerð Línuhönnunar frá 24. janúar 2002 og
hafi stefndi og meðstefndi Pálmi byggingarstjóri, lagfært þá galla eftir því
sem að þeim sneri. Þannig hafi stefndi lagfært það sem kom fram hjá Línuhönnun
að væri að og hafi stefnandi ekki gert athugasemd við það fyrr en löngu seinna.
Af hálfu stefnda er vakin athygli á kjarnaborun á
vegum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins á fasteigninni þar sem 9
borkjarnar hafi verið teknir. Komi fram í skýrslu stofnunarinnar að í flestum tilvikum hafi komið í ljós að
steypuhreiður hafi verið brotið burt og fyllt upp með viðgerðarmúr að
undanskildum einum kjarna, sýni 3, þar sem þunnt múrlag hafi verið á endanum.
Fram hafi komið að þrýstiþol kjarnanna hafi verið hátt. Í yfirliti yfir borkjarnana
komi síðan fram í skýrslunni að um hafi verið að ræða góðan og viðunandi
frágang í öllum tilvikum nema einu, þ.e. borkjarna nr. 3. Við skoðun
stofnunarinnar á ástandi steypu í húsinu verði ekki annað séð en að staðið hafi
verið eðlilega að uppsteypu á húsinu Glæsivöllum 4 í Grindavík og að frágangur
steypuvinnu hafi að mestu leyti verið viðunandi.
Í matsgerð sé því hins vegar slegið föstu að
niðurstöður skýrslu Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins beri með sér að
útveggir hússins séu haldnir verulegum göllum og þar að auki hafi viðgerðir sem
framkvæmdar hafi verið misheppnast að stórum hluta og verið mun minni en
nauðsynlegt var. Stefndi telur matsmann túlka niðurstöður Rannsóknarstofnunar
byggingariðnaðarins á rannsókn á borkjörnunum með vægast sagt mjög sérstökum
hætti. Verði ekki séð að niðurstaða sem matsmaður gefur sér standist skoðun
miðað við það sem fram komi í niðurstöðu Rannsóknarstofnunar
byggingariðnaðarins. Á þeirri forsendu sem matsmaður gefi sér með rangri túlkun
á niðurstöðu Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins sé því síðan haldið fram
að veggir séu og muni verða óþéttir nema tryggt sé að slagregn hafi ekki
greiðan aðgang að yfirborði þeirra og að hefðbundin múrhúðun veggja að utan
tryggi það ekki fyrir frostskemmdum eða leka, því sé nauðsynlegt að múrklæða
húsið að utan. Stefndi telji á hinn bóginn enga þörf á að múrklæða húsið að
utan eins og matsmaður telji á grundvelli rangrar túlkunar á niðurstöður
Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.
Stefndi mótmælir því að steypuniðurlögn hafi ekki
verið unnin í samræmi við viðurkennda verkhætti. Stefndi hafi staðið að verkinu
með eðlilegum hætti að öllu leyti en mistök hafi átt sér stað og þegar það kom
í ljós hafi það verið lagfært af stefnda.
Stefndi telur ekki unnt að byggja niðurstöðu í málinu
á matsgerðinni þar sem hún byggist á röngu mati á niðurstöðu
Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins hvað stefnda áhrærir.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um
bótaskylda galla sé að ræða á húsinu þá beri að hafa í huga að sú aðferð sem
matsmaður leggur til sé mun meiri og vandaðri en umsamin skil áttu að vera. Því
muni verðgildi hússins aukast verulega verði leið matsmannsins farin. Sú leið
sé óþörf og of kostnaðarsöm. Hægt sé að fara einfaldari og ódýrari leiðir til
að ná því markmiði að frágangur múrvinnu sé eðlilegur.
Þá sé ekki sundurliðað í stefnu hverju stefndi beri
nákvæmlega ábyrgð á þar sem stefnt sé in solidum. Stefndi sé múrarameistari og
beri ekki ábyrgð á öðrum þáttum en snerta múrverk hússins.
Af hálfu stefnda er vísað til meginreglna
samningaréttarins og skaðabótaréttarins; skipulags- og byggingarlaga nr.
73/1997, byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og loks til laga nr. 91/1991, um
meðferð einkamála.
V.
Í greinargerð réttargæslustefnda, Vátryggingafélags
Íslands hf., kemur fram að á þeim tíma er stefndi Pálmi var byggingarstjóri
eignarinnar hafi hann haft í gildi starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra
samkvæmt 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga hjá réttargæslustefnda.
Vátryggingartaki hafi verið Tréborg sf.
Réttargæslustefndi hafnar því að stefndi Pálmi beri
sem byggingarstjóri eignarinnar ábyrgð gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem
krafist er bóta fyrir. Sé ósannað að um bótaskylt tjón sé að ræða, en krafa
stefnanda lúti að meintum göllum við niðurlagningu steypu í veggjum hússins.
Samkvæmt framangreindu ákvæði beri byggingarstjóri ábyrgð á því að byggt sé í
samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Af matsgerð verði ekki
annað ráðið en að húsið hafi verið byggt í samræmi við það. Af greininni verði
ekki dregin sú ályktun að ábyrgð byggingarstjóra sé svo víðtæk að honum beri að
hafa eftirlit með öllum sem að byggingu húss koma, svo fremi sem byggt sé í
samræmi við samþykkta uppdrætti o.s. frv. Hvergi sé að finna í stefnu
rökstuðning fyrir því á hvern hátt stefndi Pálmi hafi brotið gegn skyldum sínum
sem byggingarstjóri svo saknæmt geti talist vegna þess tjóns er stefnandi telur
sig hafa orðið fyrir.
Þá hafi stefndi Jón Ingvar haft með höndum þá þætti
verksins sem matsmaður telur galla vera á, en hann sé skráður múrarameistari
hússins. Hann beri því ábyrgð sem iðnmeistari á allri steinsteypu, niðurlögn
hennar og eftirmeðhöndlun. Stefnandi geti því ekki bæði krafið byggingarstjóra
og iðnmeistara vegna verkþáttar sem iðnmeistarinn ber ábyrgð á.
Þá sé byggingu hússins einfaldlega ekki lokið og virðist stefnandi því með kröfugerð sinni ætla öðrum að bera
kostnað af lokafrágangi hússins og þannig
hagnast með ólögmætum hætti. Slíkar kröfur rúmist ekki innan ábyrgðar
byggingarstjóra, enda andstætt meginreglum bæði skaðabóta- og kröfuréttar.
VI.
Í máli
þessu sætir ekki ágreiningi að gallar komu fram á steyptum útveggjum fasteignar
stefnanda að Glæsivöllum 4 í Grindavík, sem lýstu sér einkum í svokölluðum
streypuhreiðrum. Hefur verið gerð grein fyrir umfangi þessarra galla hér að
framan.
Þá er
óumdeilt að stefndi Jón Ingvar var múrarameistari við byggingu hússins og ber
sem slíkur ábyrgð á niðurlögn steypu. Jafnframt er óumdeilt að stefndi Pálmi
var byggingarstjóri hússins og húsasmíðameistari og ber hann ábyrgð á byggingu
hússins í samræmi við það. Á hinn bóginn er deilt um það hvort stefndi Pálmi
hafi tekið að sér að byggja húsið sem verktaki. Því heldur stefnandi fram en
stefndi Pálmi heldur því á hinn bóginn fram að það hafi verið
byggingarfyrirtækið Tréborg sem tók að sér ásamt öðrum að reisa húsið og hafi
hann einvörðungu unnið við byggingu hússins sem starfsmaður þess fyrirtækis.
Slegið
var upp fyrir húsi stefnanda með timbri
og hefur komið fram að stefnandi hugðist láta múrhúða húsið að utan með
hefðbundnum hætti.
Verkfræðistofan
Línuhönnun var fengin til að skoða meinta galla í uppsteypu hússins á sínum
tíma. Kom fram í skýrslu Bjarka
Guðmundssonar um þá athugun, að verulegir gallar væru á vinnu við niðurlögn
steypu í húsinu. Varðandi úrbætur á útveggjum
hússins lagði hann til brot og
hreinsun steypuhreiðra inn í óskemmda steypu, sögun og hreinsun steypuskila við
sökkulveggi inn fyrir ytri járnagrind, meðhöndlun steypusára til að tryggja
viðloðun og lágmarka rýrnun viðgerðarsteypu, múrviðgerð steypusára með viðurkenndum
viðgerðarefnum sem tryggja steypuhulu járna, múrviðgerð steypuklossa undir
gluggum og niðurtekt glugga þar sem steypugallar ganga inn fyrir ytri þéttingu
og uppsetning að loknum framkvæmdum.
Gústaf
Vífilsson verkfræðingur og Sigurður Hallgrímsson arkitekt voru fengnir til að
skoða fasteignina og veita umsögn um skýrslu Línuhönnunar og voru þeir í
meginatriðum sammála þeirri skýrslu.
Eins og
áður getur var brugðist við skýrslu Línuhönnunar með því að viðgerð var framkvæmd á göllunum. Samkvæmt rannsókn
Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins á borkjörnum úr fasteigninni og
matsgerð hins dómkvadda matsmanns virðist sú viðgerð ekki hafa verið unnin í
samræmi við tillögur Línuhönnunar og því verið alls ófullnægjandi.
Eins og
áður er rakið byggir matsmaður mat sitt á því að nauðsynlegt sé að múrklæða
útveggi hússins til að koma í veg fyrir vatnsinntöku veggja og frostskemmdir.
Aðspurður fyrir dómi kvað matsmaðurinn þó viðgerð eins og þá er Línuhönnun
lagði til og að ofan getur fullnægjandi til að ná sömu markmiðum og stefnt væri
að með því sem matsmaður leggur til. Ekki liggur fyrir mat á því hver kostnaður
yrði við viðgerð eins og Línuhönnun
lagði til og matsmaður telur fullnægjandi.
Ljóst má vera, að verði farið að tillögum matsmanns, þá fær stefnandi fasteign sína múraða og einangraða að utan án þess að greiða nokkuð fyrir það. Er upplýst að stefndu höfðu hvorki innt slíka vinnu af hendi né fengið greitt fyrir hana. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið, m. a. með vætti hins dómkvadda matsmanns, kemur fram að unnt sé að bæta úr þeim steypugalla sem fasteign stefnanda er haldin með öðrum hætti en matsmaður leggur til og það án þess að múrhúða þurfi fasteignina að utan eða múrklæða. Hins vegar liggur ekki fyrir mat á því hvað það myndi kosta. Dómurinn telur einsýnt að fyrir þurfi að liggja mat á því hvað myndi kosta að gera við steypugallana með þeirri aðferð sem Línuhönnun leggur til og matsmaður telur geta verið fullnægjandi til að steyptir útveggir geti staðist slagregn og komist hjá frostskemmdum.
Í ljósi
þess er að framan er rakið getur dómurinn ekki lagt efnisdóm á málið á
grundvelli niðurstöðu matsgerðar. Þá þykja engar þær forsendur vera fyrir hendi
eða skilyrði er geri dóminum kleift að dæma bætur eða afslátt að álitum. Loks
þykir endurupptaka málsins í því skyni að gefa aðilum kost á öflun nýs mats eða
nýrra gagna ekki koma til álita eins og málið er vaxið, enda myndi það raska
þeim málsgrundvelli sem málið hefur verið rekið á. Að öllu þessu athuguðu þykja
því slíkir annmarkar vera á málatilbúnaði stefnanda að ekki verði lagður
efnisdómur á málið. Verður því eigi komist hjá því að vísa málinu frá dómi ex
officio.
Eftir
framangreindum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu
málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð
þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og meðdómsmennirnir
Ásmundur Ingvarsson verkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson
byggingartæknifræðingur.
úrskurðarorð:
Máli
þessu er vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi,
Guðjón Jónsson, greiði stefndu, Pálma Breiðfjörð Einarssyni og Jóni Ingvari
Einarssyni, hvorum fyrir sig 175.000 krónur í málskostnað.