Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 2010. |
|
Nr. 215/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna. Sératkvæði.
Felld var úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 12. desember 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 12. desember 2009 um að framselja hann til Póllands. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði tók dómsmálaráðherra nýja ákvörðun 12. desember 2009 þar sem fallist var á tvær beiðnir pólskra yfirvalda um framsal á varnaraðila til Póllands. Hin fyrri 23. september 2008 er vegna dóms 1. ágúst 2005 og hins síðari 14. ágúst 2009 vegna dóms 30. september 2004, sbr. dóm áfrýjunarréttar 1. desember 2005. Varnaraðili hafði fengið frestun á afplánun síðara dómsins um þrjá mánuði, en frekari beiðni um frestun var hafnað og mætti hann þá ekki til afplánunar.
Dómstólar taka afstöðu til þess hvort mat stjórnvalda á því hvort fallast eigi á kröfu um framsal hafi verið framkvæmd með réttum hætti, meðal annars hvort gætt hafi verið meginreglna stjórnsýsluréttar. Varnaraðila hafa verið kynntar kröfurnar á fullnægjandi hátt og gætt hefur verið andmælaréttar hans. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest að gætt hafi verið að þessu leyti lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins við mat á því að almenn lagaskilyrði framsals væru fyrir hendi, sbr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.
Varnaraðili mótmælir framsali jafnframt á grundvelli mannúðarástæðna, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Í þessari lagagrein segir að í „sérstökum tilfellum [megi] synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður.“
Dómsmálaráðherra hafnaði því að ákvæði nefndrar lagagreinar ættu að standa framsali í vegi. Í ákvörðun vegna hinnar fyrri beiðni um þetta mat segir: ,,Eins og að framan greinir eru persónulegar aðstæður varnaraðila þær að hann hefur verið búsettur hér á landi í rúm 3 ár og hefur aðlagast íslensku samfélagi ágætlega, hann á hér fjölskyldu, stundar atvinnu og hefur ekki komist í kast við lögin. Þessar aðstæður varnaraðila geta hins vegar ekki, að mati ráðuneytisins, talist til hinna sérstöku aðstæðna sem 7. gr. laga nr. 13/1984 fjallar um.“ Síðan er vísað til þess að um undantekningarákvæði sé að ræða sem beri eðli málsins samkvæmt að túlka þröngt og færð eru frekari rök fyrir því mati ráðherra að undanþáguákvæði þetta eigi ekki við í málinu. Í rökstuðningi sínum vegna síðari beiðninnar segir einnig: „ geta persónulegar aðstæður varnaraðila ekki, að mati ráðuneytisins, talist til hinna sérstöku aðstæðna sem 7. gr. laga nr. 13/1984 fjallar um.“
II
Í athugasemdum með 7. gr. sem fylgdu frumvarpi því, sem síðar varð að lögum nr. 13/1984, er að finna leiðbeiningar um skýringu á ákvæðinu. Þar segir meðal annars: ,,Á þessum grundvelli er lagt til í 7. gr. frumvarpsins að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Þegar í frumvarpinu er talað um „aðrar persónulegar aðstæður“ en aldur og heilsufar eru hafðar í huga félagslegar aðstæður mannsins í heild. Við mat á því getur m.a. skipt máli hvort viðkomandi á fjölskyldu hér á landi, hversu lengi hann hefur búið hér og hvort hann reki hér atvinnustarfsemi eða hafi fasta atvinnu.“
Í áður tilvitnuðum orðum í ákvörðun dómsmálaráðherra er því slegið föstu, að þær aðstæður varnaraðila að hann hafi verið hér búsettur í rúm þrjú ár, aðlagast íslensku samfélagi ágætlega, eigi hér fjölskyldu, stundi atvinnu og hafi ekki komist í kast við lögin geti „ekki talist til hinna sérstöku aðstæðna sem 7. gr. laga nr. 13/1984 fjallar um.“ Þessi lögskýring dómsmálaráðherra samrýmist ekki tilgangi ákvæðisins samkvæmt framangreindu lögskýringargagni. Er ákvörðun dómsmálaráðherra að þessu leyti haldin þeim efnisannmarka að hún fer í bága við 7. gr. nefndra laga. Verður ákvörðunin af þessari ástæðu felld úr gildi.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um þóknun til skipaðs réttargæslumanns varnaraðila fyrir héraðsdómi, en þóknun hans fyrir Hæstarétti ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felld er úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 12. desember 2009 um framsal á varnaraðila, X, til Póllands.
Ákvörðun héraðsdóms um þóknun réttargæslumanns varnaraðila er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2009 í máli 116/2009 var felld úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 um framsal varnaraðila til Póllands. Í forsendum þess dóms er rakinn rökstuðningur ráðherra fyrir hinni fyrri ákvörðun um framsal og tíundað hvað meirihluti dómenda Hæstaréttar taldi á skorta. Ég skilaði sératkvæði og taldi, að virtum dómum Hæstaréttar 25. febrúar 2005 í máli nr. 65/2005 og 28. júlí 2008 í máli nr. 407/2008, að ekki væru efni til að hnekkja mati dómsmálaráðherra 14. janúar 2009 um framsal varnaraðila.
Málavextir eru raktir í atkvæði meirihlutans og hinum kærða úrskurði þar á meðal rökstuðningur dómsráðherra fyrir hinni nýju ákvörðun 12. desember 2009 um framsal varnaraðila. Ég er sammála meirihluta dómenda að af forsendum hinnar nýju ákvörðunar verði ráðið að hún sé byggð á svo verulega röngum skilningi á ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, að fella verði ákvörðunina úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2010.
Með bréfi, dags. 2. febrúar sl., vísaði ríkissaksóknari, fyrir hönd íslenska ríkisins, til dómsins kröfu varnaraðila, X, kt. [...], um úrlausn um það hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. desember 2009, um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, frá 12. desember 2009, um að framselja hann til Póllands, verði felld úr gildi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr hendi ríkissjóðs.
Af hálfu íslenska ríkisins er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðuneytis frá 12. desember 2009 um að framselja X til Póllands.
Munnlegur málflutningur um framangreindar kröfur fór fram 9. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar.
II
Um lagaheimild vísar saksóknari til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð saksóknara kemur fram að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 12. desember 2009 varði tvær beiðnir pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila til Póllands til fullnustu refsidóma. Hin fyrri sé dags 23. september 2008 og hin síðari 14. ágúst 2009. Varnaraðili sé pólskur ríkisborgari með lögheimili á [...].
Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dags. 23. september 2008, hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist hin fyrri beiðni um framsal varnaraðila til Póllands til fullnustu refsidóms. Samkvæmt gögnum sem fylgdu framsalsbeiðninni sé krafist framsals varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar en hann hafi, hinn 1. ágúst 2005, verið dæmdur af héraðsdómi í [...], Póllandi, til að sæta fangelsi í 18 mánuði og greiða sekt fyrir auðgunarbrot og skjalafals. Hann hafi verið sakfelldur fyrir að hafa framvísað fölsuðu skjali er hann gerði lánssamning um kaup á hljómtækjum að fjárhæð 2197,80 PLN og að hann hafi gert lánssamninginn án þess að ætla sér að greiða andvirði þeirra. Brot hans séu sögð varða við 2. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 286. gr., 1. mgr. 271. gr. og 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna. Hann hafi hins vegar ekki mætt til afplánunar á tilskildum tíma í október 2005. Endurrit héraðsdómsins frá 1. ágúst 2005 hafi fylgt framsalsbeiðninni.
Hinn 2. desember 2008 hafi lögreglustjórinn á [...] kynnt varnaraðila framsalsbeiðnina. Varnaraðili hafi kannast við að beiðnin ætti við hann, en hafnaði henni. Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, dags. 15. desember sl., um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 hafi dómsmálaráðuneytið, hinn 14. janúar sl., ákveðið að fallast á framsalsbeiðnina. Lögreglustjóri hafi kynnt varnaraðila ákvörðun ráðuneytisins hinn 19. janúar sl. Með bréfi, sem borist hafi ráðuneytinu sama dag, krafðist verjandi varnaraðila úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-41/2009, uppkveðnum hinn 27. febrúar 2009, hafi ákvörðun ráðuneytisins verið staðfest. Varnaraðili hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands. Með dómi réttarins, uppkveðnum hinn 3. apríl 2009, í máli nr. 116/2009, hafi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins verið felld úr gildi á þeim grundvelli að ráðuneytið hefði ekki með réttum og málefnalegum hætti framkvæmt mat á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 stæðu í vegi fyrir framsalinu.
Hinn 8. maí 2009 hafi dómsmálaráðuneytið tekið nýja ákvörðun í málinu. Hafi ráðuneytið fallist á að framselja varnaraðila til Póllands. Honum hafi verið kynnt ákvörðun ráðuneytisins í þinghaldi í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 11. maí 2009 í tengslum við kröfu um áframhaldandi farbann. Samdægurs hafi verjandi varnaraðila krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. bréf verjandans til ráðuneytisins, dags. 11. maí 2009.
Hinn 8. júní 2009 hafi dómsmálaráðuneytið afturkallað ákvörðun sína frá 8. maí s.á, með vísan til 2. töluliðar 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sökum ágalla á málsmeðferð við töku ákvörðunar, en hafi láðst að óska sérstaklega eftir nýjum gögnum frá varnaraðila, í tengslum við mat ráðuneytisins á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984.
Við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 9. júní 2009 hafi ákæruvaldið óskað eftir niðurfellingu málsins í ljósi framangreindrar afturköllunar dómsmálaráðuneytisins og með úrskurði, uppkveðnum sama dag, í máli nr. R201/2009, hafi dómurinn vísað málinu frá með vísan til 170. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hæstiréttur hafi fellt úrskurð héraðsdóms úr gildi hinn 22. júní 2009 með dómi í máli 327/2009 og hafi lagt fyrir héraðsdóm að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað á ný í málinu hinn 21. júlí 2009, sbr. mál nr. R-201/2009, og hafi fellt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 8. maí s.á. úr gildi með vísan til þess að aðalkröfur sóknar- og varnaraðila væru samhljóða og miðað við gögn málsins og feril þess bæri að fella ákvörðunina úr gildi
Í ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. desember 2009, sé tekið fram að með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hafi undirgengist með aðild að Evrópuráðssamningnum um framsal sakamanna frá 1957, sbr. einkum 1. gr. hans, geti ráðuneytið ekki lokið framsalsmáli varnaraðila fyrr en endanleg efnisleg niðurstaða liggi fyrir. Ákvarðanir ráðuneytisins í málinu hafi tvívegis verið ógiltar og því sé ekki fyrir hendi gild ákvörðun. Hafi dómsmálaráðuneytið orðið við framsalsbeiðni pólskra yfirvalda, dags. 23. september 2008, um að framselja varnaraðila til Póllands.
Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dags. 14. ágúst 2009, hafi dómsmálaráðuneytinu borist hin síðari beiðni um framsal varnaraðila til Póllands til fullnustu refsidóms. Samkvæmt gögnum er fylgdu framsalsbeiðninni sé krafist framsals varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar, en hann hafi, hinn 30. september 2004, verið dæmdur í héraðsdómi í [...], Póllandi, í 2 ára fangelsi fyrir frelsissviptingu. Hafi hann verið sakfelldur fyrir að hafa í félagi við aðra svipt A frelsi sínu í júlí 1999, í nágrenni bæjarins [...]. Brot hans sé sagt varða við 189. gr. pólskra hegningarlaga.
Með dómi áfrýjunardómstóls í [...] frá 1. desember 2005 hafi sakfelling varnaraðila verið staðfest en refsing hans milduð í fangelsi í 18 mánuði. Samkvæmt gögnum er fylgi framsalsbeiðninni hafi varnaraðili hafið afplánun dómsins. Hafi hann fengið þriggja mánaða leyfi frá afplánun þann 17. mars 2006 en hafi ekki snúið aftur til afplánunar á tilsettum tíma. Eftirstöðvar afplánunar varnaraðila nú séu 1 ár. Framsalsbeiðninni hafi fylgt staðfest endurrit framangreindra dóma.
Hinn 22. september 2009 hafi lögreglustjórinn á [...] kynnt varnaraðila framsalsbeiðnina. Kvaðst hann kannast við málið sem rakið sé í framsalsbeiðninni, en hafi mótmælt henni. Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, dags. 28. september 2009, um að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 ákvað dómsmálaráðuneytið hinn 12. desember sl. að verða við beiðninni.
Rétt sé að taka fram að í framangreindri umsögn ríkissaksóknara segi ranglega að varnaraðili hafi verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi með dómi héraðsdómstólsins í [...] frá 30. september 2004. Hið rétta sé, eins og að framan greini, að áfrýjunardómstóll í [...] hafi dæmt varnaraðila í hið 18 mánaða langa fangelsi. Þá segi einnig ranglega í umsögn ríkissaksóknara að varnaraðili hafi ekki mætt til afplánunar á tilsettum tíma, en samkvæmt málsgögnum hafi hann þegar afplánað hluta refsingarinnar, eins og rakið sé hér að framan.
Umrædd ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 12. desember 2009, þar sem fallist var á beiðnirnar tvær um framsal varnaraðila til Póllands, hafi verið birt varnaraðila þann 18. janúar sl. Með bréfi, dags. sama dag, hafi verjandi varnaraðila krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 sé vísað til áðurnefndra umsagna ríkissaksóknara, dags. 15. desember 2008 og 28. september 2009, og ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 12. desember 2009. Jafnframt þyki fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form beggja framsalsbeiðnanna.
III
Eins og áður segir krefst varnaraðili þess aðallega að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 12. desember 2009 um að framselja hann til Póllands verði felld úr gildi.
Í greinargerð hans er á það bent að fram séu komnar tvær framsalsbeiðnir á hendur varnaraðila sem fjallað sé um í þessu máli. Eins og fram komi í málavaxtalýsingu sóknaraðila sé þetta í þriðja skiptið sem fyrri beiðnin sé til meðferðar en hingað til hafi verulegir ágallar verið á meðferð málsins af hálfu ríkisins. Þetta hafi leitt til þess að dómstólar hafi fellt úr gildi fyrri ákvarðanir dómsmálaráðuneytisins um framsal varnaraðila.
Verjanda varnaraðila sýnist að of langt sé gengið af hálfu ríkisins. Varnaraðila hafi nú í rúm 2 ár verið haldið í óvissu um hvernig framtíð hans og fjölskyldu hans verði. Vegna óvandaðra vinnubragða og mistaka við meðferð fyrra máls varnaraðila hafi heil fjölskylda mátt lifa í óþolandi ótta um að verða svipt fyrirvinnu sinni og ástvini. Þá sé því ósvarað hversu langt ríkisvaldið geti gengið í að valda borgurum slíkum óþægindum vegna sinna mistaka, og þá sérstaklega með hliðsjón af meðalhófsreglu. Verjanda varnaraðila sýnist sem svo að nú sé nóg komið og slíkt inngrip í líf borgara sé óheimilt með vísan til fjölmargra ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu sem veitt hafi verið lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994.
Hvað varði hina síðari framsalsbeiðni þá muni þetta vera fyrsta meðferðin sem hún fái í stjórnsýslunni og fyrir dómstólum. Á haustmánuðum hafi varnaraðila verið tilkynnt um þessa síðari framsalsbeiðni og tekin hafi verið af honum skýrsla. Í framhaldi af því hafi verið óskað eftir gögnum og athugasemdum frá varnaraðila í gegnum verjanda hans. Verjanda, og varnaraðila sjálfum, hafi ekki sérstaklega verið gefinn kostur á því að koma að andmælum í málinu. Mikill vafi leiki því hvort áskilnaði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er varðar andmælarétt hafi verið fullnægt. Eins og fyrr segi hafi ekki áður verið fjallað um þessa síðari beiðni um framsal varnaraðila, það sé því ekki hægt að halda því fram að í gögnum málsins hafi allt komið fram sem varnaraðili hafi við málið að athuga. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 327/2009, er varði fyrri meðferðir fyrri framsalsbeiðninnar, hafi því verið slegið föstu að málsmeðferðarreglur ssl. giltu við ákvörðun um framsal.
Þá hafi varnaraðili bent á að vafi sé á gildi dómsins sem hin síðari framsalsbeiðni grundvallist á. Í þessu sambandi hafi lögmaður varnaraðila lagt fram ljósrit af dagblaðagreinum um mál varnaraðila, að eigin frumkvæði, og farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það athugi hvort þessar fullyrðingar varnaraðila séu á rökum reistar. Ráðuneytið hafi þá lagt fyrir varnaraðila að leggja fram þýðingar á þessum blaðagreinum en varnaraðili hafi engin tök á að bera slíkan kostnað.
Dómsmálaráðuneytið hafi þverskallast við að rannsaka málið þótt sterk rök hafi verið færð fyrir því að framsalsbeiðnin hin síðari sé byggð á misskilningi. Benda megi á að þrátt fyrir að ráðuneytið vilji ekki leggja í þann kostnað að láta þýða umræddar blaðagreinar á íslensku, eða leggja í vinnu við að kynna sér efni þeirra, þá hafi það ekki rannsakað fullyrðingar varnaraðila. Varnaraðili hafi aðeins lagt fram umræddar dagblaðagreinar til að færa rök fyrir máli sínu. Í ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 12. desember 2009, og tölvupósti frá 10. nóvember 2009, segi beinlínis að ráðuneytið hafi ekki rannsakað þessar upplýsingar og hafi ekki byggt niðurstöðu sína á þessum gögnum eða annarri rannsókn á fullyrðingum varnaraðila sem verjandi hans hafi komið til skila með tölvupósti. Af þessu megi ekki annað ráða en að ráðuneytið hafi ekki rannsakað málið til hlítar þótt ástæða væri til þess og því brotið rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. ssl.
Þá sé einnig í 3. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 ákvæði um að beita eigi reglum um meðferð sakamála eftir því sem við á um framkvæmd rannsóknar og annað sem framsalsbeiðni varði. Í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 (lms.) séu ítarlegar reglur um rannsókn. Ekki verði séð að þessum reglum hafi verið fylgt við þessa nýju meðferð málsins, t.a.m. verður ekki séð að reglur 53. og 54. gr. laganna hafi verið virtar. Í þessum ákvæðum sé kveðið á um það markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna, hlutlægnisskyldu rannsakenda og skyldu til að rannsaka og afla allra upplýsinga um það sem rannsókn beinist að.
Þá þegar af þessum ástæðum verði að telja að fella beri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins úr gildi þar sem reglum ssl. hafi ekki verið fylgt auk þess sem lengd og umfang allrar málsmeðferðarinnar sé með ólíkindum. Stjórnvaldið verði að bera ábyrgð á því að málsmeðferð sé í samræmi við lög og að mál sé nægjanlega rannsakað áður en ákvörðun er tekin. Þar sem veruleg vanræksla hafi verið á þessari málsmeðferð, og þá sérstaklega rannsókn málsins, verði að telja ákvörðun stjórnvaldsins ógildanlega.
Þá telji varnaraðili að 7. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 eigi við um sínar aðstæður og því eigi að hafna framsali. Varnaraðili hafi frá því að hann fluttist til Íslands búið á [...] ásamt eiginkonu sinni, [...] ára syni og nýfæddri dóttur. Hann hafi alla sína tíð á Íslandi haft fasta vinnu hjá [...] á [...]. Vinnuveitendur hans beri honum góða sögu. Hann hafi staðið sig vel í vinnu og þeir vilja hafa hann í sinni þjónustu sem lengst, að þeirra sögn. Því til staðfestingar vísist til yfirlýsingar frá [...].
Eiginkona varnaraðila, B, hafi einnig haft fasta vinnu en hafi nú verið sagt upp og þiggi hún því atvinnuleysisbætur. Sonur þeirra hjóna, C, sé í grunnskóla á [...] og dóttir þeirra hjóna, sem fæddist [...] 2009, dafni vel. C hafi verið í grunnskóla á [...] alla sína skólagöngu og eignast þar vini. Um vinnu og skólavist séu lagðar fram staðfestingar með fyrri greinargerð. Þá hafi bæði hjónin greitt hér sína skatta og skyldur og notið þeirra réttinda og borið sömu skyldur og aðrir samborgarar hér á landi.
Af gögnum málsins og framburði varnaraðila megi ljóst vera að persónulegar og félagslegar aðstæður fjölskyldunnar mæli eindregið gegn framsali fjölskylduföðurins til Póllands. Varnaraðili eigi ekki ættingja í föðurlandinu, utan [...], sem þar búi. Ættingjar hans búi hér að landi og nánasta fjölskylda einnig, eins og rakið hafi verið. Varnaraðili nemi íslensku og hafi náð tökum á tungumálinu. Hann hafi lokið 150 klukkustunda námi í íslensku, sbr. framlagðar staðfestingar þar um.
Með vísan til áðurnefnds ákvæðis 7. gr. laga nr. 13/1984, og mjög sérstakra aðstæðna varnaraðila, þá er þess krafist að framsalsbeiðninni verði synjað. Persónulegar og félagslegar aðstæður varnaraðila séu með þeim hætti að ekki séu rök fyrir því að senda hann nú úr landi til þess að afplána þá dóma er hér um ræði. Fjölskyldan hafi aðlagast íslenskum aðstæðum afar vel og sé ekki lengur í tengslum við Pólland. Það yrði fjölskyldunni allri afar þungbært ef fjölskyldufaðirinn yrði slitinn frá heimilinu. Fyrirvinna fjölskyldunnar yrði numin á brott og eftir stæði eiginkonan með [...] ára soninn og ungabarn, hér á landi. Eiginkonan og börnin yrðu þannig svipt framfærslunni. Í því sambandi vísist t.a.m. til ákvæða 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 um rétt barns til þess að þekkja foreldra sína og einnig til ákvæða 46. gr. sömu laga um rétt barns til þess að umgangast báða foreldra sína með reglubundnum hætti. Það sé því lögvarinn réttur barna varnaraðila að fá að umgangast báða foreldra sína sem verði ómögulegt ef framsal nær fram að ganga.
Það yrði varnaraðila mjög þungbært að þurfa að yfirgefa Ísland og þar með alla sína nánustu ættingja, eiginkonu og börn. Hann yrði mjög einangraður í vist sinni úti í Póllandi án sinna nánustu og væri það mjög sambærilegt við aðstæður þeirra erlendu fanga sem afpláni dóma hér á landi. En Fangelsismálastofnun hafi tekið tillit til þessa þegar tekin sé ákvörðun um lengd afplánunar hér á landi og veitt erlendum föngum reynslulausn að liðnum helmingi refsitímans af þeirri ástæðu að refsivist erlendra fanga í íslenskum fangelsum sé þeim almennt þungbærari heldur en íslenskum föngum. Umboðsmaður Alþingis hafi talið þessa framkvæmd í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar og látið hana óátalda.
Í 7. gr. laganna, sem sé í samræmi við ákvæði 2. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna, sé kveðið á um að synja megi um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segi um þetta efni að við mat á félagslegum aðstæðum geti m.a. skipt máli hvort viðkomandi eigi fjölskyldu hér á landi, hversu lengi hann hafi búið hér og hvort hann reki hér atvinnustarfsemi eða hafi fasta vinnu. Þá segi einnig í greinargerðinni að í þessu sambandi skuli höfð hliðsjón af þeim hagsmunum sem erlenda ríkið hafi af framsali, m.a. með tilliti til grófleika afbrotsins og hversu langt sé um liðið síðan það var framið.
Dómsmálaráðuneytið telji að eftir heildstætt mat og með vísan til sambærilegra mála þá þyki ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til þess að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaganna, enda sé þar um að ræða undantekningarákvæði, sem eðli máls samkvæmt beri að skýra þröngt.
Við framangreint mat dómsmálaráðherra verði að gera athugasemdir og endurskoða grundvöll ákvörðunartökunnar, sérstaklega með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ráðuneytið leggi til grundvallar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 116/2009 um framsal varnaraðila segi orðrétt: Mikilvæg réttindi eru í húfi fyrir mann sem krafist er framsals á. Mat stjórnvalda á því hvort fallast eigi á kröfu um framsal, þar með talið mat á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 skuli standa framsali í vegi þarf að vera gagnsætt. Það sé því ljóst að aðila þurfi að vera ljóst á hvaða sjónarmiðum er byggt og hvaða vægi hverju einu sé gefið við úrlausn málsins fyrir stjórnvaldinu, þ.e. á hvaða grundvelli ákvörðun byggist.
Fyrir ráðuneytinu hafi legið að taka ákvörðun um hvort framselja ætti varnaraðila eins og krafa hafði komið fram um. Varnaraðili hafi borið fyrir sig að undantekningarákvæði 7. gr. framsalslaganna ætti við um aðstæður sínar og því ætti að hafna framsali. Stjórnvaldið sé í þessu tilviki að taka stjórnvaldsákvörðun (sbr. Hrd. 116/2009) á matskenndum lagagrundvelli. Þegar ákvörðun sé tekin á grundvelli slíkra lagaákvæða verði stjórnvöld að túlka ákvæðin, fylla í eyður réttarheimildarinnar og velja þau lagasjónarmið sem viðkomandi ákvörðun skuli byggð á. Þetta mat stjórnvaldsins á því hvaða lagasjónarmiðum ákvörðun skuli byggð á sé ekki frjálst að öllu leyti heldur þurfi að fylgja almennum efnisreglum stjórnsýsluréttar. Varnaraðili telji að ráðuneytið hafi ekki fylgt þessum reglum og hafi verið búið að taka ákvörðun fyrir fram, þ.e. áður en lögbundið mat á aðstæðum hans fór fram. Þá telji varnaraðili að ráðuneytið hafi, í því augnamiði að styðja ákvörðun sína, tínt til sjónarmið sem vart geti talist málefnaleg.
Í ákvörðun ráðuneytisins frá 12. desember 2009 sé farið yfir aðstæður varnaraðila í stuttu máli og síðan sé því slegið föstu að aðstæður varnaraðila geti ekki fallið undir þær aðstæður sem átt sé við í 7. gr. framsalslaga. Þessi aðferðafræði ráðuneytisins standist engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til mats stjórnvalda þegar ákvarðanir eru teknar á matskenndum grundvelli. Viðleitni ráðuneytisins til að framfylgja þessari skyldu sinni um mat sé að telja upp skilyrði lagaheimildarinnar og þau sjónarmið sem fram komi í greinargerð með ákvæðinu án þess að meta sérstaklega sjónarmið með tilliti til aðstæðna varnaraðila. Fullnægjandi mat hafi því ekki farið fram á grundvelli 7. gr. við meðferð málsins hjá ráðuneytinu.
Þau sjónarmið sem ráðuneytið nefni sérstaklega sem grundvöll fyrir ákvörðun sinni geti vart talist málefnaleg. Í ákvörðuninni segi: Verður að teljast varhugavert að hafna framsali á grundvelli 7. gr. með tilliti til þess eins að varnaraðili hafi komið sér fyrir hér á landi og lifi hér hefðbundnu lífi. Slíkt gæti í raun leitt til þess að hvetja dæmda afbrotamenn til að flytjast hingað til lands til að komast undan því að taka út refsingu sína. Af þessu sé auðsjáanlegt að ráðuneytið leggi áherslu á þau sjónarmið að varnaraðili hafi komið sér fyrir og lifi hefðbundnu lífi auk þess sem höfnun framsals myndi hafa hvetjandi áhrif á aðra dæmda afbrotamenn til að koma hingað til lands til og setjast hér að. Rétt sé að halda því til haga, eins og áður hafi komið fram, að ráðuneytið hafi einnig lagt sérstaka áherslu á jafnræðissjónarmið en það sé ágreiningslaust að slíkt sé málefnalegt.
Sjónarmiðið um að varnaraðili hafi komið sér fyrir hér á landi og lifað hefðbundnu lífi telji ráðuneytið ekki tækt til að byggja höfnun á. Af 7. gr., og ummælum í greinargerð með ákvæðinu, megi ráða að einmitt þessar aðstæður hafi mikið vægi við mat á því hvort persónulegar aðstæður eigi að leiða til höfnunar framsals. Varnaraðili hafi búið hér með fjölskyldu sína, aðlagast samfélaginu, lagt stund á tungumálanám, alið upp börnin sín að mestum hluta hér á landi, en af ákvörðun ráðuneytisins megi ráða að öll þau persónulegu atriði sem varnaraðili hafi sýnt fram á dugi ekki. Ráðuneytið hafi þó ekki sýnt fram á hvernig matið fór fram, á hvaða sjónarmiðum var byggt, hvaða vægi þau fengu eða hvað réði úrslitum við ákvörðunina. Varnaraðili hafi einmitt kosið að byggja málatilbúnað sinn á grundvelli þess að hann hafi komið sér hér fyrir og lifað hefðbundnu lífi hér á landi og eigi hann því að njóta undanþágu 7. gr. Í lögskýringargögnum komi fram að við matið eigi að vegast á hagsmunir einstaklings og hagsmunir hins erlenda ríkis og hversu langt sé síðan brot voru framin, en varnaraðili fái ekki séð að það mat hafi farið fram.
Sjónarmiðið um að höfnun framsals á varnaraðila myndi hafa hvetjandi áhrif á aðra dæmda afbrotamenn til að koma hingað og setjast hér að myndi að öllum líkindum ekki geta talist málefnalegt. Þetta sjónarmið virðist ekki byggjast á ummælum í lögskýringargögnum, það virðist ekki vera hægt að leiða það af markmiðum laganna, mannréttindasjónarmiðum eða öðru því sem málefnaleg sjónarmið geti byggst á. Þá hljóti að vakna sú spurning hvort sjónarmiðið geti talist málefnalegt í þessu einstaka tilviki og svo virðist ekki vera. Þetta sjónarmið virðist byggjast á einhvers konar pólitísku mati á því hvaða einstaklingar séu æskilegir íbúar þessa lands. Hér sé sjónarmið lagt til grundvallar sem ekki sé hægt að styðja við lög og óheimilt sé að leggja til grundvallar með tilliti til þess að stjórnvöld séu bundin af lagaáskilnaðarreglu.
Þegar teknar séu matskenndar ákvarðanir sé nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem hafi verið ráðandi við matið þar sem réttarreglur veiti aðeins takmarkaða vitneskju um hvaða ástæður hafi leitt til niðurstöðu málsins. Í máli varnaraðila sé ákvörðun tekin á grundvelli matskenndrar réttarheimildar, eins og áður segi. Í ákvörðun ráðuneytisins sé ekki hægt að átta sig á vægi sjónarmiða eða hvað í raun hafi ráðið úrslitum við ákvörðunartökuna. Þótt á þessu sviði hafi myndast stjórnsýsluframkvæmd verði mat að fara fram í hverju einstöku máli og rökstuðningur hvers máls að uppfylla skilyrði stjórnsýsluréttar um að greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið.
Að öllu framangreindu virtu, og með vísan til þeirra skjala sem liggi frammi í málinu er sýni óumdeilanleg tengsl X við Ísland, og hans sérstöku persónulegu aðstæður, af þeim mannúðarsjónarmiðum sem gerð hafi verið grein fyrir, þyki það ekki þeim samrýmanlegt að heimila framsal. Þá þyki nægjanlega í ljós leitt að uppfyllt séu skilyrði framsalslaga, þannig að ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal hans til Póllands verði felld úr gildi.
Vísað er til ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sérstaklega þeirra ákvæða 2. þáttar er varða rannsókn.Vísað er til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 13. gr. laganna. Vísað er til ákvæða laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984, sbr. og Evrópusamnings um framsal sakamanna. Sérstaklega er vísað til ákvæða 3. gr. l. nr. 13/1984 um að framsal sé einungis heimilt ef verknaður, eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum, sbr. einnig 2. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna. Þá er einnig vísað sérstaklega til ákvæða 7. gr. l. nr. 13/1084 um heimild til þess að synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gagn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Vísað er til ákvæða 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 um rétt barns til þess að þekkja foreldra sína og einnig til ákvæða 46. gr. sömu laga um rétt barns til þess að umgangast báða foreldra sína með reglubundnum hætti. Þá þyki rétt að líta til ákvæða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sérstaklega er í því sambandi bent á c. lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði 2. mgr. 16. gr. l. nr. 13/1984.
IV
Í máli þessu eru til meðferðar tvær beiðnir pólska dómsmálaráðuneytisins um framsal varnaraðila. Sú fyrri er dags. 23. september 2008 en sú síðari 14. ágúst 2009, eins og áður er lýst.
Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur fram að heimilt sé að framselja þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.
Formskilyrðum 12. gr. laga nr. 13/1984 er fullnægt í máli þessu.
Refsing samkvæmt dómum þeim sem eru grundvöllur framsalsbeiðnanna er 18 mánuðir í báðum tilvikum.
Varnaraðili byggir á því að ekki hafi verið framfylgt reglum sakamálalaga nr. 88/2008, einkum 53. og 54. gr. laganna, við meðferð málsins. Er á það bent að vafi kunni að leika á gildi dómsins sem hin síðari framsalsbeiðni grundvallist á. Er í því sambandi vísað til blaðagreina um mál varnaraðila. Í ákvörðun ráðuneytisins um framsal kemur fram að ráðuneytið hefur fjallað um þessa ábendingu varnaraðila. Í ákvörðun ráðuneytisins segir að það telur ekki ástæðu til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms, sem veldur því að framsals er óskað, fullnægi ekki grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða um lögfulla sönnun sakar í refsimáli, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Telur ráðuneytið að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila.
Ekki eru efni til að endurskoða forsendur umræddra dóma. Varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á í þessu sambandi að ákvæði 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið brotin við meðferð máls varnaraðila hjá dómsmálaráðuneyti og verður niðurstöðu ráðuneytisins að þessu leyti ekki hnekkt.
Hin dæmda refsing er ekki niður fallin, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr. hegningarlaga.
Skilyrði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Þá eru brotin ófyrnd, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1984.
Ljóst er að meðferð málsins vegna fyrri beiðni pólska dómsmálaráðuneytisins um framsal hefur dregist nokkuð vegna ágalla á málsmeðferð. Varnaraðili hefur hins vegar ekki sýnt fram á að beiðninni verði hafnað af þeim sökum á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu.
Varnaraðili ber því við varðandi síðari beiðnina að hvorki honum né verjanda hans hafi sérstaklega verið gefinn kostur á að koma að andmælum. Varnaraðili rökstyður þessa fullyrðingu ekki nánar en þegar litið er til gagna málsins verður ekki annað séð en að varnaraðila hafi gefist kostur á andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. greinargerð verjanda hans sem beint var til dómsmálaráðuneytisins 30. nóvember 2009.
Þá byggir varnaraðili á því að 7. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 eigi við um sínar aðstæður og því eigi að hafna framsali.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 er heimilt að synja um framsal manns ef mannúðarástæður mæla með því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Í bréfi verjanda varnaraðila til dómsmálaráðuneytisins, dags. 30. nóvember 2009, er m.a. gerð grein fyrir persónulegum aðstæðum varnaraðila og vísað til áður framlagðra gagna. Kemur þar fram að varnaraðili hefur komið sér vel fyrir hér á landi. Hann á hér fjölskyldu og hefur atvinnu og mun standa sig vel þar. Upplýsingar um persónulegar aðstæður varnaraðila lágu þannig fyrir er dómsmálaráðherra tók ákvörðun sína um framsal hinn 12. desember 2009. Metur dómsmálaráðuneytið persónulegar aðstæður varnaraðila svo að þær teljist ekki til hinna sérstöku aðstæðna sem 7. gr. laga nr. 13/1984 fjallar um. Er niðurstaða ráðuneytisins rökstudd og þykja ekki efni til að hnekkja þessu mati dómsmálaráðuneytis.
Samkvæmt framansögðu er kröfu varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 12. desember 2009 um að framselja X til Póllands.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 515.855 krónur, þar með talinn útlagður kostnaður 11.040 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun dómsmálaráðherra, frá 12. desember 2009, um að framselja X til Póllands er staðfest.
Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 515.855 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.