Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-116

Ákæruvaldið (Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)
gegn
Birni Herberti Guðbjörnssyni (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður ) og Skúla Magnússyni (Grímur Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp af gáleysi
  • Hlutdeild
  • Vinnuslys
  • Fyrning
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðnum 14. júlí 2022 leita Björn Herbert Guðbjörnsson og Skúli Magnússon leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní 2022 í máli nr. 434/2021: Ákæruvaldið gegn Birni Herberti Guðbjörnssyni og Skúla Magnússyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðendur voru ákærðir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi samkvæmt 215. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk brota gegn ýmsum ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðum nr. 367/2006 um notkun tækja og nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Sakargiftir á hendur leyfisbeiðandanum Birni Herberti tóku til þess að hafa sem eigandi, framkvæmdastjóri og atvinnurekandi samþykkt að undirmaður hans gerði öryggisbúnað frauðpressuvélar óvirkan vitandi vits að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana og fyrir að hafa gefið undirmanni sínum fyrirmæli um að gangsetja allar vélar í vinnslusal fyrirtækisins án þess að upplýsa starfsmenn þess um að öryggisbúnaðurinn hefði verið aftengdur. Sakargiftir á hendur leyfisbeiðandanum Skúla tóku til þess að hafa sem verkstjóri, starfsmaður, eigandi og daglegur stjórnandi samþykkt að undirmaður hans gerði öryggisbúnað frauðpressuvélar óvirkan vitandi vits að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana en hann hefði ekki upplýst þá um að öryggisbúnaðurinn hefði verið aftengdur.

4. Með dómi héraðsdóms voru leyfisbeiðendur sakfelldir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi en sýknaðir af brotum gegn lögum nr. 46/1980 og fyrrnefndum reglugerðum á grundvelli þess að þau brot væru fyrnd. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðenda fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi staðfest en með vísan til 4. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga var talið að önnur brot væru ófyrnd. Voru þeir því jafnframt sakfelldir fyrir nánar tilgreind brot gegn lögum nr. 46/1980 og fyrrnefndum reglugerðum. Þá var leyfisbeiðandinn Björn Herbert sakfelldur fyrir að hafa látið hjá líða að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat, áætlun um heilsuvernd og fyrir að hafa látið hjá líða að koma á fót vinnuverndarstarfi hjá fyrirtækinu. Var refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

5. Leyfisbeiðandinn Björn Herbert byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hann til þess að takmörkuð dómaframkvæmd sé fyrir hendi um refsivert gáleysi framkvæmdastjóra fyrirtækja. Þá sé dómur Landsréttar í andstöðu við fyrri dómafordæmi Hæstaréttar sem lúti að slíku gáleysi sem og fordæmum þar sem viðurkennt hafi verið að í fyrirtækjum skipti starfsmenn og stjórnendur með sér verkum og hver beri ábyrgð á sínu starfssviði en ekki öðru. Jafnframt telur hann málið hafa verulega almenna þýðingu þegar komi að skýringum á réttarreglum um hlutdeild. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Þannig fái skýring Landsréttar á gáleysi og stórfelldu gáleysi ekki staðist. Jafnframt sé skilyrðum hlutdeildar ekki rétt beitt enda hafi leyfisbeiðandi ekki liðsinnt undirmanni sínum á nokkurn hátt sem leitt hafi til gáleysisbrots hans.

6. Leyfisbeiðandinn Skúli byggir einnig á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Ekki verði séð að áður hafi verið kveðnir upp dómar á Íslandi þar sem reynt hafi á refsiábyrgð starfsmanna sem eru í lögbundnu orlofi frá störfum og málið því fordæmisgefandi. Leyfisbeiðandi vísar til þess að ekki verði lagðir huglægir mælikvarðar á það hversu mikil hætta stafi af tiltekinni háttsemi þegar metið er hvort skyldur samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni hvíli á starfsmönnum í orlofi, líkt og gert sé í dómi Landsréttar, heldur skuli matið vera hlutlægt og ráðast af ákvæðum laga. Málið hafi jafnframt verulega almenna þýðingu þegar komi að skýringum á réttarreglum um hlutdeild. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann einkum til þess að það sé röng niðurstaða að skyldur vinnuverndarlöggjafar hvíli á starfsmönnum í lögbundnu orlofi. Þá tekur leyfisbeiðandi fram að vísað hafi verið til þess að hann hafi verið einn eigenda félagsins í dómi Landsréttar. Dómur Landsréttar fari þannig í bága við meginreglur félagaréttar og ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög þess efnis að hluthafi verði ekki með nokkrum hætti gerður refsiábyrgur fyrir starfsemi hlutafélags.

7. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess meðal annars um þau atriði sem leyfisbeiðendur byggja á kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.