Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Þriðjudaginn 2

 

Þriðjudaginn 2. mars 2004.

Nr. 79/2004.

Kaupþing Búnaðarbanki hf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

gegn

Þorsteini Helga Ingasyni

(sjálfur)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Máli Þ á hendur K hf. var fellt niður að kröfu þess fyrrnefnda eftir að K hf. hafði lagt fram greinargerð í málinu. K hf. krafðist þess að Þ yrði gert að greiða sér hærri málskostnað en í úrskurði héraðsdóms. Í Hæstarétti var með vísan til aðstöðunnar í málinu í heild sinni og umfangs þess talið hæfilegt að Þ greiddi K hf. 350.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2004, þar sem mál varnaraðila gegn sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 80.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 1.343.900 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi, „auk 24,5% virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“   Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

            Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

   Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila þar sem hann krafðist skaðabóta að fjárhæð 500.000.000 krónur. Málið var þingfest 18. desember 2001 og naut varnaraðili aðstoðar lögmanns til 27. janúar 2003 er hann sótti sjálfur þing í málinu. Var það tekið alls 15 sinnum fyrir eftir að því var úthlutað til héraðsdómara. Á dómþingi 20. janúar 2004 óskaði varnaraðili hins vegar eftir því að málið yrði fellt niður. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að sér yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.

Krafa sóknaraðila er reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðaryfirlit, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt. Þar kemur fram að vinnuframlag lögmanna hans hafi verið samtals 151 klukkustund. Útseld tímavinna þeirra sé 8.900 krónur á klukkustund auk virðisaukaskatts og nemi heildarmálskostnaðarkrafan því 1.343.900 krónum auk virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar aðstaðan í máli þessu er virt í heild sinni og umfang þess er hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

 Varnaraðili, Þorsteinn Helgi Ingason, greiði sóknaraðila, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 350.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2004.

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um niðurfellingu málsins og málskostnaðarkröfu stefnda á hendur stefnanda 20. janúar s.l., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorsteini Ingasyni, Hátúni 6, Reykjavík á hendur Búnaðarbanka Íslands, Austurstræti 5, Reykjavík, með stefnu þingfestri 18. desember 2001.

                Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að stefnda yrði gert að greiða stefnanda 500.000.000 krónur auk hæstu lögleyfðra dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. nóvember 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krafðist stefnandi úr hendi stefnda annarrar lægri fjárhæðar, að mati dómsins, auk dráttarvaxta eins og í aðalkröfu.  Í báðum tilvikum krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Dómkröfur stefnda voru þær, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá var krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun

                Í þinghaldi hinn 20. janúar sl. óskaði stefnandi eftir að fella málið niður, en lögmaður stefnda krafðist málskostnaðar.  Mótmælti stefnandi málskostnaðarkröfunni.  Var málið tekið til úrskurðar.

II

                Málið var þingfest 18. desember 2001 og kom þá fram krafa um að stefnandi setti málskostnaðartryggingu, að fjárhæð 12 milljónir króna.  Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var af Hæstarétti Íslands, var stefnanda gert að setja 250.000 króna málskostnaðartryggingu.  Hinn 26. mars 2002 var lögð fram greinargerð stefnda og fór málið út af hinu reglulega dómþingi þann dag.  Undirritaður dómari fékk málinu úthlutað 2. apríl 2002 og hefur málið verið tekið fyrir 15 sinnum frá því.  Stefnandi hefur sjálfur annast málsókn sína frá því í þinghaldi hinn 27. janúar 2003.  Á þessum tíma hefur stefnandi lagt fram ýmis skjöl og m.a. matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem dómkvaddir voru að hans kröfu.

                Eins og áður greinir mótmælti stefnanda kröfu stefnda um málskostnað með þeim rökum að stefndi hafi komið í veg fyrir að rétt gögn kæmu fram og þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnanda ekki orðið við þeirri kröfu, að leiðrétta útreikning, sem komi fram á skj. nr. 66. 

                Mál þetta var höfðað sem skaðabótamál, þar sem stefnandi byggir á því, að starfsmenn Búnaðarbanka Íslands hafi bakað honum stórkostlegt fjárhagslegt tjón, sem stefndi beri ábyrgð á.  Stefnandi hefur krafist þess að málið verði fellt niður og ber samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir, eins og mál þetta er vaxið, hæfilega ákveðinn 80.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnda.

                Krafa stefnanda um að fella málið niður er jafnframt tekin til greina.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

                Málið er fellt niður.

                Stefnandi, Þorsteinn Ingason, greiði stefnda, Kaupþingi Búnaðarbanka Íslands  hf., 80.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.