Hæstiréttur íslands
Mál nr. 715/2017
Lykilorð
- Líkamsárás
- Þjófnaður
- Brot gegn valdstjórninni
- Ítrekun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2017. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017 og af 2. lið ákæru héraðssaksóknara 28. sama mánaðar. Jafnframt krefst hann sýknu að hluta af 1. lið síðargreindu ákærunnar. Til vara krefst ákærði þess að héraðsdómur verði staðfestur, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Loks krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfur á hendur sér verði lækkaðar, en til vara að ákvæði héraðsdóms um þær verði staðfest.
Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Brotaþoli, B, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakhæfi ákærða og sakfellingu.
Svo sem greinir í héraðsdómi hefur ákærði frá árinu 2009 þrívegis hlotið dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en síðast var hann sakfelldur fyrir slíkt brot með dómi 13. nóvember 2015. Brot hans nú gegn þessu ákvæði laganna eru því ítrekuð og ber að ákveða refsingu hans með hliðsjón af 3. mgr. 106. gr. þeirra. Að þessu gættu en að öðru leyti samkvæmt því sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi um ákvörðun refsingar verður ákærða gert að sæta fangelsi í tvö ár, en til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 17. júní 2017, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur fellt á sig miskabótaábyrgð gagnvart brotaþolum, sbr. a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að öllu virtu þykja þær bætur hæfilega ákveðnar 700.000 krónur til A en 500.000 krónur til B og beri bætur til hvors þeirra vexti eins og dæmdir voru í héraði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða brotaþolum hvorum fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og málskostnað brotaþola verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 17. júní 2017.
Ákærði greiði brotaþola, A, 700.000 krónur og brotaþola, B, 500.000 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Jafnframt greiði ákærði brotaþolum hvorum um sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og málskostnað brotaþola skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 674.825 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 12. september 2017, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017 og ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 28. júlí 2017, á hendur X, kt. [...], [...], [...], sem hér greinir:
Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017
Fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
I
Fyrir líkamsárás og þjófnað, framin í Reykjavík aðfaranótt 29. nóvember 2016:
1. Líkamsárás, með því að hafa, í bifreiðinni [...] á leið á Reykjavíkurflugvöll, veist með ofbeldi að C, kt. [...], slegið hann ítrekað hnefahöggum og höggum í andlit, höfuð, handleggi og líkama, brotaþoli braut þá rúðu í bifreiðinni og fór út á ferð til að komast undan árásinni, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut heilahristing, tognun og ofreynslu á lendahrygg, mar á olnboga, marga yfirborðsáverka á framarmi, tognun og ofreynslu á axlarlið, marga yfirborðsáverka á úlnlið og hendi, tognun og ofreynslu á aðra og ótilgreinda hluta hnés og mörg lítil sár á höfði, sár aðlægt hægri kjálkalið, fleiður en mikil eymsli yfir hægra gagnauga, væg þreifieymsli yfir nefi og andlitsbeinum, mest yfir hægra kjálkabarði og kjálkalið og eymsli í hálsvöðvum vinstra megin.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
2. Þjófnað í félagi við D og E, með því að hafa, að [...], farið inn í íbúð C, kt. [...], og stolið þaðan leðurjakka að verðmæti 119.000 krónur, fartölvu, sjónvarpi, flakkara, borvél, tösku með rakvél, peysum, netpungi, heimasíma og fartölvu sem á vantaði takka.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
II
Fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 10. desember 2016 í íbúð að [...] í Reykjavík, veist með ofbeldi að unnustu sinni, D, kt. [...], slegið hana ítrekað í höfuð og líkama, sparkað í bak hennar, tekið fast í hendur hennar og togað í þær, haldið henni fastri og ýtt henni niður og haldið fast um höfuð hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgur og sár í andliti hægra megin og á handleggjum beggja handa og sár á hægri hendi við fingur, sár á handarbaki vinstri handar, mar á aftanverðum upphandlegg vinstra megin, eymsli og yfirborðsáverka á mjóbaki.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara er þess krafist að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun eða vægari öryggisráðstöfunum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.
Í þinghaldi 1. ágúst sl. féll sækjandi frá III. ákærulið á hendur ákærða og meðákærða. Var málið fellt niður hvað meðákærða varðar.
Ákæra héraðssaksóknara 28. júlí 2017
Fyrir eftirtalin brot gegn valdstjórninni, framin sumarið 2017 í félagslegri íbúð á vegum [...] að [...], þar sem ákærði sætti öryggisvistun á vegum [...]:
- Með því að hafa, þriðjudaginn 13. júní, ráðist með ofbeldi gegn A, forstöðumanni [...], og B og F, sem starfa við öryggisvistunina, og sem öll höfðu farið inn í íbúð ákærða til þess að ræða við hann. Ákærði skallaði A, ýtti, sló og kýldi í líkama hennar og höfuð nokkrum sinnum og greip og togaði í hár hennar og fleygði henni til með þeim afleiðingum að A féll í jörðina og hlaut eymsli yfir vinstra og hægra kjálkabarði, neðan við kjálkabörð, bólgu við vinstra kjálkabarð, klórfar aftan á hálsi og á hægra handarbaki, þreifieymsli yfir vöðvum hægra megin hryggsúlu á hálsi og eymsli yfir herðavöðvum, fyrir ofan hægri mjaðmarkamb aftanverðan og yfir hægri mjaðmahnút, yfir vinstri fótlegg og hægri ökkla. Þá ýtti ákærði, sló og kýldi í líkama og höfuð B ítrekað og sparkaði í líkama hans, með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina og hlaut þreifieymsli í hnakka, á herðum, aftan á hálsi og yfir hægri ökkla. Ákærði var ógnandi í framkomu við F eftir að A og B höfðu komist undan ákærða og F var ein með honum í íbúðinni, hrækti í andlit hennar og greip í höku hennar og rykkti henni upp tvisvar sinnum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Með því að hafa, föstudaginn 16. júní 2017, hótað A, forstöðumanni [...] og G, H, I og J, sem starfa við öryggisvistunina lífláti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun eða vægari öryggisráðstöfun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2017 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu B, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2017 og þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Í báðum tilvikum er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþolum málskostnað að mati dómsins vegna lögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.
Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að miskabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017
Ákæruliður I
Þriðjudagsmorguninn 29. nóvember 2016 var óskað aðstoðar lögreglu að flugstöðvarbyggingunni við Reykjavíkurflugvöll vegna manns sem þar væri staddur og kom fram að hann væri alblóðugur og í miklu uppnámi. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir brotaþola í málinu, C, sem kvaðst hafa verið haldið föngnum í bifreið, en náð að komast þaðan út eftir að hafa brotið rúðu og opnað farþegahurð að utanverðu. Brotaþoli kvað ákærða hafa veist að sér með ofbeldi í bifreiðinni og hefði hann veitt sér högg í andlitið með þeim afleiðingum að framtönn brotnaði. Þá hefði ákærði tekið af honum húslykla og kvaðst hann óttast að hann myndi tæma íbúðina sína. Brotaþola var fylgt að heimili hans að [...] í Reykjavík og stóðu útidyrnar þar opnar. Hann kvaðst sakna ýmissa muna úr íbúðinni, svo sem tveggja fartölva, sjónvarpstækis, vodkaflösku og tveggja hangiketslæra. Brotaþoli greindi nú frá því að hann hefði orðið þess var fyrr um nóttina að farið hefði verið inn í íbúð hans með lykli og munum stolið þaðan. Hann hefði grunað ákærða, D, og E, um að hafa verið þar að verki, en hann hefði séð skóför frá húsinu í átt að heimili ákærða við [...]. Hann hefði farið þangað og hitt ákærða og konurnar, sem hefðu verið þar í bifreið. Hann hefði sest inn í bifreiðina til þeirra og þar hefði ákærði veist að honum á meðan bifreiðin var á ferð, uns honum tókst að komast út við Reykjavíkurflugvöll.
Ákærði og konurnar tvær voru handtekin síðar um morguninn að [...], eftir að umrædd bifreið fannst þar í nágrenninu og reyndist rúða í farþegarými vera brotin og ákoma á hægri afturhurð. Þá fundust ýmsir munir í bifreiðinni, sem grunur var um að væru þýfi, eins og nánar er rakið í munaskrá lögreglu.
Samkvæmt vottorði K, sérfræðings í bráðalækningum, leitaði brotaþoli á bráðadeild Landspítala daginn eftir atvikið og lýsti því að hafa orðið fyrir líkamsárás í bifreið sem var á ferð, en farþegi í bifreiðinni hefði slegið hann endurtekið í gagnauga og andlit. Hann hefði borið fyrir sig hægri handlegg og fengið högg í olnboga og framhandlegg. Hann hefði slegið tvisvar sinnum í rúðuna við aftursæti, brotið hana, náð að opna farþegahurðina og stigið út. Við það hefði hann runnið á ísilagðri götunni, lent utan í vegkanti og fengið högg á bak og rasskinn. Við skoðun reyndist hann vera með heilahristing, mörg lítil sár á höfði, marga yfirborðsáverka á framarmi, úlnlið og hendi, tognun í lendahrygg og mar á olnboga, axlarlið og hné.
Ákærði neitaði sök við aðalmeðferð málsins. Hann kannaðist við að hafa verið í bifreið með brotaþola, D og E þessa nótt. Brotaþoli hefði verið með dólgslæti og reynt að kyssa stelpurnar. Ákærði kvaðst hafa reynt að stöðva hann með því að grípa í hann og biðja hann að hætta þessu. Brotaþoli hefði rifið í handbremsu bifreiðarinnar og brotið rúðu í henni. Ákærði hafnaði því að hafa slegið brotaþola hnefahöggum eins og lýst er í ákæru og kannaðist ekki við að hafa valdið honum áverkum. Þá kvaðst hann ekki hafa hlotið áverka sjálfur í umrætt sinn.
Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa farið á heimili brotaþola þessa nótt og stolið þaðan munum. Hann kvað brotaþola hafa stolið bifreiðinni sem þau voru á og kannaðist hann ekkert við munina sem fundust í henni.
Brotaþoli, C, kvaðst hafa verið við drykkju á heimili sínu þessa nótt og hefði E verið með honum framan af og ákærði og D einnig komið við hjá honum. Þau þrjú hefðu síðan yfirgefið íbúðina, en eftir það hefði hann orðið þess var að húslyklarnir voru horfnir. Hann hefði farið út í stutta stund, en þegar hann kom til baka hefði hann saknað fartölvu og leðurjakka úr íbúðinni. Hann hefði grunað ákærða og D um að hafa tekið þessa muni, hringt í þau og mælt sér mót við þau, en falið heimilistölvuna áður en hann yfirgaf íbúðina. Hann hefði farið með ákærða og konunum tveimur í ökuferð í bifreið sem þau hefðu verið með og hefði E verið ökumaður, D setið fram í hjá henni, en þeir ákærði aftur í. Þegar þau voru stödd á hringtorginu við Þjóðarbókhlöðuna hefði ákærði skyndilega slegið hann mikið högg í gagnaugað. Hann hefði reynt að verja sig með því að bera fyrir sig vinstri hendi, en ákærði hefði haldið áfram að slá hann högg eftir högg. Hann kvaðst hafa öskrað á E og beðið hana um að stöðva bifreiðina, en hún hefði ekki hlýtt því. Hún hefði ekið Suðurgötu og beygt í átt að Reykjavíkurflugvelli, en þá hefði hann náð að rífa í handbremsuna og ætlað út úr bifreiðinni. Hann hefði hins vegar ekki komist út þar sem barnalæsing hefði verið á hurðinni. Hann hefði þá kýlt tvisvar sinnum í rúðuna, náð að brjóta hana, opnað hurðina utan frá og stokkið út. E hefði hægt á bifreiðinni þegar hún beygði að flugvellinum og hefði henni verið ekið með um 30 til 40 km hraða þegar hann stökk út. Hann hefði lent á rassinum, það hefði verið hálka og hann hefði runnið til og lent uppi á vegarkanti. Brotaþoli kannaðist ekki við að hafa verið ágengur við konurnar tvær í bifreiðinni. Þá hafnaði hann því að hafa verið í slagsmálum við ákærða. Hann kvaðst aðeins hafa reynt að verja andlit sitt með því að bera handlegginn fyrir það. Hann hefði fengið högg bæði í handlegginn og líkamann.
Brotaþoli kvað lögreglumenn hafa ekið sér heim eftir að hann ræddi við þá í flugstöðvarbyggingunni. Þá hefði komið í ljós að búið var að stela ýmsum munum úr íbúð hans, svo sem sjónvarpi, rakvél, flökkurum, fatnaði, fartölvu og skrúfverkfærasetti, auk þess sem kjöt hefði horfið úr frysti. Þessi varningur hefði fundist í bifreiðinni eftir að ákærði og konurnar voru handtekin og hefði hann fengið hluta hans aftur.
E kvaðst hafa verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn. Ákærði og brotaþoli hefðu farið að rífast í aftursætinu og síðan hefðu orðið átök á milli þeirra. Hún kvaðst ekki hafa séð hver sló fyrsta höggið eða hvað gerðist nákvæmlega. Þá hefði hún heyrt rúðu brotna aftur í bifreiðinni, en ekki séð hvernig það gerðist. Hún kvaðst hafa stöðvað bifreiðina og beðið brotaþola um að fara út, sem hann hefði gert. Hún hefði séð blóð á andliti hans þegar hann yfirgaf bifreiðina. Vitnið kvað brotaþola hafa reynt að fá hana til að stöðva bifreiðina. Þá hefði einhver gripið í handbremsuna og hlyti það að hafa verið hann. Hún kannaðist við að brotaþoli hefði reynt að kyssa hana þetta kvöld. Þá kvað hún upphaf átakanna að rekja til þess að brotaþoli hefði verið með einhverja ósæmilega hegðun í garð D.
Vitnið kvað þau þrjú hafa farið heim til brotaþola eftir þetta og hefðu ákærði og D tekið einhverja muni þar. Hún kvaðst ekki muna hvaða munir þetta voru. Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi vitnið að hafa tekið með sér flakkara, borvél og rakvél af heimili brotaþola. Spurð fyrir dómi kvaðst hún ekki minnast þess.
D skoraðist undan því að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins, en fram kom fyrir dóminum að hún væri unnusta ákærða. Vitnið K gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt. Þá gáfu skýrslur vitnin L, M og lögreglumennirnir N og O, en ekki eru efni til að rekja framburð þeirra.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök samkvæmt ákærulið I.1, en kannast við að komið hafi til átaka á milli þeirra brotaþola í bifreiðinni í umrætt sinn. Brotaþoli gaf greinargóða lýsingu á líkamsárás ákærða við meðferð málsins fyrir dóminum og var sú frásögn í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu. Þá fær frásögn hans stoð í læknisfræðilegum gögnum í málinu. Vitnið E lýsti því einnig að komið hefði til átaka á milli þeirra og hefði brotaþoli verið blóðugur í andliti þegar hann yfirgaf bifreiðina. Þá var brotin rúða í farþegarými bifreiðarinnar eftir atvikið, sem samrýmist frásögn brotaþola af því hvernig hann náði að komast undan ákærða. Með vísan til alls framangreinds þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru og þeim afleiðingum sem þar greinir. Varðar háttsemin við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði neitar einnig sök samkvæmt ákærulið I.2. Svo sem rakið hefur verið fundust munir, sem brotaþoli bar að hefðu horfið úr íbúð hans, við leit lögreglu í bifreiðinni sem ákærði, D og E höfðu til umráða þessa nótt. Þá bar E fyrir dóminum að ákærði og D hefðu haft einhverja muni á brott með sér úr íbúð ákærða, eftir að hafa farið þangað inn í heimildarleysi, og hefði ákærði komið þessum munum fyrir í bifreiðinni. Þykir með þessu sannað að ákærði hafi framið þann verknað sem honum er gefinn að sök í ákærulið I.2 og varðar háttsemin við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II
Aðfaranótt laugardagsins 10. desember 2016 var lögregla kvödd að [...] í Reykjavík, vegna konu sem þar væri í miklu uppnámi. Reyndist þar vera D, sem kvaðst vera unnusta ákærða og hefði hann lagt á hana hendur í nærliggjandi húsi að [...]. Í lögregluskýrslu kemur fram að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og greinilega hrædd. Hún hafi verið með áverka á hægri kjálka, blóðug hægra megin á andliti og með sár á milli baugfingurs og löngutangar hægri handar. Ákærði var handtekinn utan við framangreint hús og neitaði hann að hafa „lamið“ brotaþola. Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli hafi hörfað undan ákærða og hefði mátt sjá að hún var óttaslegin. Vitnið L, íbúi að [...], gaf sig fram við lögreglu á vettvangi, auk Ó og P, sem höfðu verið þar gestkomandi. Frumskýrslu lögreglu fylgja ljósmyndir, teknar á baðherbergi íbúðarinnar þessa nótt, og sést þar blóð á sturtubotni.
Tekin var skýrsla af brotaþola á lögreglustöð og lýsti hún því að þau ákærði hefðu farið að rífast á heimili L. Hefði ákærði læst hana inni á baðherbergi, þrykkt henni niður og haldið henni niðri. Hún kvað L hafa komið þarna að og sagt ákærða að hætta. Þá lýsti brotaþoli því að hundur, sem hefði verið í íbúðinni, hefði orðið hræddur og glefsað í hægri vanga hennar. Hún kvað ákærða hafa skyrpt á sig, auk þess sem hann hefði sparkað í sig og kallað sig „Konukotshóru“. Hann hefði síðan tekið af henni símann og aðra muni og sagt henni að „drulla sér út“. Þá hefði hann einnig tekið fast um hendur hennar. Hún kvaðst hafa fengið áverka á hægri kinn við það að liggja utan í baðkarinu meðan á þessu stóð. Fyrir liggja ljósmyndir af áverkum brotaþola, sem teknir voru á lögreglustöð. Þá liggur fyrir hljóðupptaka af skýrslu hennar.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu daginn eftir atvikið og neitaði hann að hafa beitt brotaþola ofbeldi. Hann bar jafnframt að hundur L hefði bitið brotaþola í andlitið og hefði hún hlotið áverka af því.
Ákærði bar á sama veg við aðalmeðferð málsins. Hann kannaðist við að hafa verið með brotaþola í íbúðinni sem um ræðir, en neitaði að hafa veist að henni með ofbeldi. Hann kvaðst hvorki hafa gripið í brotaþola né meitt hana. Þá kvaðst hann minnast þess að hundur, sem var í íbúðinni, hefði glefsað í brotaþola.
Brotaþoli, D, bar á annan veg um atvik fyrir dóminum en hún hafði gert við skýrslutöku hjá lögreglu. Hún kvað ákærða ekki hafa ráðist á sig og hefði hún aðeins óskað aðstoðar lögreglu til að ná í veski sitt sem hefði orðið eftir í íbúðinni. Þau ákærðu hefðu verið að rífast í íbúðinni, þau hefðu ýtt lítillega hvort við öðru en hún hefði ekki hlotið neina áverka við það. Hins vegar hefði hundur ráðist á hana í íbúðinni og hefði hún verið með áverka í andliti eftir það. Þá hefði hún verið marin á handleggjum eftir sprautuneyslu. Hún kvaðst jafnframt hafa lent í átökum við einhverjar stelpur á þessum tíma, sem gæti skýrt frekari áverka. Þegar framburður brotaþola hjá lögreglu var borinn undir hana kvaðst hún hafa verið „kolrugluð“ við skýrslugjöfina.
L kvað hafa komið til einhverra átaka á milli ákærða og brotaþola í umrætt sinn en ekki hefði verið um árás að ræða. Brotaþoli hefði ætlað að fara út en ákærði ekki viljað það. Hún hefði verið með læti, strunsað inn á baðherbergi og ákærði farið á eftir henni. Þar hefði hann gripið í peysuna hennar og dregið hana að sér en vitnið kvaðst hafa gengið á milli og ekki hefði orðið meira úr því. Þetta hefði ekki varað lengur en í einhverjar sekúndur. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða slá eða sparka í brotaþola. Þá hefði hann ekki séð áverka á henni. Hann kvaðst hafa verið með tvo hunda í íbúðinni, en þeir hefðu verið í búri þegar þetta gerðist. Hann þvertók fyrir að annar hundurinn hefði glefsað í brotaþola. Nánar spurður kvað hann þó geta verið að annar þeirra hefði komið inn á baðherbergið meðan á átökunum stóð. Hann var jafnframt spurður um ummæli í lögregluskýrslu þar sem haft var eftir honum að ákærði hefði haldið í brotaþola inni á baðherberginu og síðan hent sér ofan í körfu og togað hana niður með sér. Fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir þessu.
Ó, sem staddur var í íbúðinni, kvað ákærða hafa togað og ýtt brotaþola og verið harkalegur við hana. Hún hefði viljað fara út en hann hefði ekki viljað leyfa henni það. Þau hefðu verið lengi inni á baðherbergi, en vitnið kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist þar. Hann hefði heyrt þau rífast og kvaðst halda að ákærði hefði haldið brotaþola í baðkarinu. Við skýrslutöku hjá lögreglu kom fram hjá vitninu að ákærði hefði ráðist á brotaþola og að hann minnti að hann hefði slegið hana. Spurður um þetta fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir þessu.
Lögreglumennirnir Q og R komu á vettvang í umrætt sinn. Q kvað brotaþola hafa verið utan dyra þegar þau bar að. Þau hefðu rætt við húsráðanda að [...], sem hefði sagt þeim að ákærði hefði beitt konuna ofbeldi. Hún hefði verið með áverka á andliti og fingrum og hefðu fleiri áverkar komið í ljós við skoðun á lögreglustöð. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt að ákærði hefði ráðist á hana inni á salerni. Hún hefði verið í gólfinu í krjúpandi stöðu þegar hann beitti hana ofbeldi. Þá hefði hann líka beitt hana ofbeldi þegar hún reyndi að flýja. L, húsráðandi, hefði komið henni til hjálpar. R kvað brotaþola hafa verið með sýnilega áverka í andliti og hefði hún vísað þeim á ákærða sem hún sagði vera árásarmanninn. Ákærði hefði verið uppstökkur og æstur og vísað ásökunum á bug.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Ákæra er reist á frásögn brotaþola við skýrslutöku hjá lögreglu, og liggur fyrir hljóðupptaka af henni, en við meðferð málsins fyrir dómi hvarf brotaþoli frá framburði sínum um að ákærði hefði veist að henni með ofbeldi. Við mat á breyttum framburði brotaþola þykir verða að líta til þess að hún er unnusta ákærða.
Fram kom hjá lögreglumönnum sem komu á vettvang í umrætt sinn að brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi og með sýnilega áverka. Hún hefði lýst því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu ákærða. Þá hafi ákærði verið uppstökkur og æstur þegar við hann var rætt og hefði mátt sjá að brotaþoli óttaðist hann. Af skýrslum vitnanna L og Ó verður ráðið að til átaka hafi komið á milli ákærða og brotaþola inni í baðherbergi íbúðarinnar og liggja fyrir myndir sem lögregla tók á vettvangi þar sem sést blóð á sturtubotni. Þá liggja fyrir ljósmyndir af áverkum brotaþola, teknar á lögreglustöð eftir atvikið. Áverkar sem sjást á myndum af andliti hennar verða að mati dómsins ekki skýrðir með því að hundur hafi glefsað í hana. Þá verður ekki annað ráðið af ljósmyndunum en að áverkar á andliti og líkama brotaþola hafi verið nýtilkomnir þegar myndirnar voru teknar. Samkvæmt framangreindu þykir breyttur framburður brotaþola fyrir dóminum ekki samrýmast gögnum málsins og verður því ekki á honum byggt.
Með vísan til framburðar vitna og annarra gagna sem rakin hafa verið þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir og varðar háttsemin við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæra héraðssaksóknara 28. júlí 2017
Ákæruliður 1
Þriðjudaginn 13. júní 2017, klukkan 14:24, barst lögreglu svokallað árásarboð frá [...] í [...], en [...], sem hýsir einstaklinga sem sæta öryggisvistun. Þegar lögreglumenn komu á vettvang tók A, forstöðumaður öryggisvistunarinnar, á móti þeim og greindi frá því að ákærði, sem sætti öryggisvistun á heimilinu, hefði ráðist á starfsmenn er þeir voru að ræða við hann í vistarverum hans, en þeir hefðu náð að komast þaðan út og læsa hann inni. Fram kom að ákærði hefði veist að A og starfsmönnunum B og F þegar þau voru að fara með honum yfir reglur sem giltu um öryggisvistunina. Hann hefði slegið og sparkað í þau og hrækt á þau. Ekki var að sjá áverka á B og F en A var með áverka á fingri, auk þess sem hún kvaðst finna til eymsla víða um líkamann.
Ákærði var handtekinn í íbúð sem hann hafði til umráða í húsinu og fluttur á lögreglustöð. Fyrir liggur upptaka úr öryggismyndavél úr íbúðinni, sem sýnir atvikið sem um ræðir.
Starfsmennirnir þrír leituðu á bráðamóttöku Landspítala síðar þennan dag. Í vottorði S læknis vegna A kemur fram að við skoðun hafi hún reynst vera með eymsli um kjálkabörð og væga bólgu þar vinstra megin. Klórfar hafi verið aftan á hálsi og þreifieymsli hægra megin við hryggsúlu og yfir báðum herðavöðvum. Hún hafi fundið fyrir eymslum ofan við hægri mjaðmakamb aftanverðan og yfir hægri mjaðmahnútu. Eymsli hafi verið yfir vinstri fótlegg og í hægri ökkla. Þá hafi verið klórfar á 3. og 4. fingri hægri handar.
Í læknisvottorði S vegna B kemur fram að hann hafi fundið fyrir eymslum við þreifingu á hnakka, á herðum og aftan á hálsi. Þá hafi verið þreifieymsli yfir handarbaki og hægri ökkla.
Samkvæmt vottorði T læknis var F ekki með sjáanlega áverka. Í læknisvottorðunum kemur fram að tekið hafi verið blóð úr brotaþolunum þremur til rannsóknar fyrir lifrarbólgu C og HIV þar sem fram kom að ákærði hefði hrækt á þau.
Í málinu liggur fyrir samningur milli [...]. Samningurinn var gerður í kjölfar skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um öryggisgæslu og öryggisráðstafanir frá júní 2016. Þar kemur fram að úrræðinu sé ætlað að ná til einstaklinga sem sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga og annars konar öryggisvistun, meðal annars í tengslum við rýmkun öryggisgæslu.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins játaði ákærði að hafa ráðist með ofbeldi gegn A, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hann játaði einnig að hafa veist að B, eins og þar er lýst, að því frátöldu að hann kvaðst ekki hafa sparkað í hann. Hann neitaði hins vegar að hafa veist að F með ofbeldi, eins og honum er gefið að sök, en kvaðst þó ekki útiloka að hann kynni að hafa frussað á hana.
A kvað þau hafa farið þrjú saman inn til ákærða þennan dag til að fara yfir samskiptareglur í öryggisvistuninni, auk þess sem honum hefði verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að greiða húsaleigu og mat meðan á vistuninni stæði. Nánar tiltekið hefði verið farið yfir það að ákærði hefði horfið úr augsýn starfsfólks sem fylgdi honum í ferðir utan húsnæðisins, en það væri ekki ásættanlegt. Vitnið kvað ákærða hafa brugðist mjög illa við þessu, risið á fætur og staðið ógnandi yfir henni þar sem hún sat andspænis honum. Síðan hefði hann skallað hana í höfuðið og slegið hana undir kjálkann. Hún hefði staðið upp en hann hefði þá slegið hana aftur svo að hún féll við utan í þvottagrind. B hefði ætlað að koma henni til aðstoðar en ákærði hefði þá ráðist á hann. Hann hefði síðan slegið þau sitt á hvað og hefði B fallið í gólfið og ákærði sparkað í hann þar. Á einhverjum tímapunkti hefði ákærði slegið hana hægra megin í andlitið svo að hún datt aftur fyrir sig í sófa og vankaðist í smástund. Þau hefðu reynt að komast út, en ákærði hefði rifið í hár hennar og þrykkt henni í gólfið svo að hún féll á rassinn og bakið. Þeim B hefði loks tekist að komast út með aðstoð annarra starfsmanna en F hefði hins vegar orðið eftir og lokast inni í íbúðinni með ákærða. Þau hefðu fylgst með því sem gerðist í íbúðinni í öryggismyndavél og séð ákærða hrækja á F, slá undir hökuna á henni og sýna henni ógnandi framkomu. Um tvær mínútur hefðu liðið þangað til þau náðu að opna dyrnar og hleypa F fram. Vitnið kvað ákærða hafa hrækt á þau öll og hefðu þau orðið að fara í smitsjúkdómarannsókn eftir atvikið.
Vitnið kvaðst hafa upplifað atvikið svo að hennar síðasta stund væri runnin upp. Hún tók fram að hún hefði óskað nafnleyndar við meðferð málsins þar sem hún óttaðist ákærða, en gerði ráð fyrir að þurfa að þjónusta hann aftur að gengnum dómi. Þau, starfsfólkið, hefðu ekki talið það heppilegt með hliðsjón af meðferðarsambandinu að ákærði hlýddi á vitnisburð þeirra.
Vitnið útskýrði að ákærði hefði leyfi til að fá heimsóknir í íbúð sína í öryggisvistuninni og hefði hann fengið heimsóknir frá kærustu sinni. Ekki væri fylgst með honum í svefnherbergi og baðherbergi íbúðarinnar. Tilefni þess að þau voru að ræða við ákærða hefði hins vegar verið það að hann hefði í tvígang lokað sig af með kærustunni utan þjónustusvæðisins, í heimsókn að [...] og í samkomusal hjá [...], en það væri ekki heimilt.
B kvað ákærða hafa brugðist illa við er þau ræddu við hann. Hann hefði risið á fætur og staðið þannig að hann meinaði þeim útgöngu. Ákærði hefði skallað A, hrækt á hana og kýlt hana. Hann hefði reynt að koma henni til hjálpar en ákærði hefði þá snúið sér að honum og kýlt hann margoft með krepptum hnefa svo að hann féll í gólfið. A hefði reynt að koma honum til aðstoðar og hefði ákærði ráðist á þau til skiptis. Hann hefði jafnframt hrækt á þau meðan á atlögunni stóð. Síðan hefðu þau náð að komast út með aðstoð annarra starfsmanna. F hefði lokast inni með ákærða og hefði hann ógnað henni, hrækt á hana og slegið upp undir höku hennar.
Vitnið kvaðst hafa fengið mörg högg í sig frá ákærða á meðan hann lá á gólfinu en taldi að það hefðu mest verið hnefahögg. Ákærði hefði sparkað í S, en hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði sjálfur fengið spörk. Þá lýsti hann því að auk áverka sem lýst er í læknisvottorði hefði hann fengið mar á bak, háls og axlir eftir atvikið. Þá kvaðst hann hafa fundið fyrir kvíða eftir þetta. Hann kviði því sérstaklega ef ákærði kæmi aftur í öryggisvistunina og hann þyrfti að sinna honum þar. Hann kvaðst telja að meðferðarsambandi á milli þeirra ákærða væri ekki lengur til að dreifa og ætti það jafnframt við um aðra starfsmenn.
F lýsti atlögu ákærða að A og B. Ákærði hefði skallað A, síðan hefðu orðið átök á milli þeirra þriggja og hefði ákærði rifið í hárið á þeim og kýlt þau. Þá minnti hana að hann hefði einnig sparkað í þau. Starfsmenn sem voru fyrir utan dyrnar hefðu náð að draga þau út en hún hefði orðið eftir inni í íbúðinni. Ákærði hefði þá króað hana af, öskrað og gargað á hana, hrækt á hana fimm til sjö sinnum og verið mjög ógnandi. Hann hefði öskrað að hann væri eins og dýr í búri og að hann vildi fá að hitta kærustuna sína. Hún kvaðst hafa horft niður fyrir sig, en hann hefði tekið í höku hennar og lyft höfði hennar til að láta hana horfa framan í sig.
Vitnið kvað þau hafa farið inn til ákærða til að ræða um málefni sem þau vissu að hann myndi ekki verða sáttur við. Það sem gerði útslagið að hennar mati og reitti ákærða til reiði hefði verið að honum var sagt að hann fengi ekki að hitta kærustuna sína eftirlitslaust. Verið geti að ákærði hafi misskilið þetta og talið að kærastan mætti ekki koma til hans í íbúðina en þessi regla hefði aðeins átt að eiga við um það sem gerðist utan öryggisvistunarinnar. Fram kom hjá vitninu að hún væri hrædd og kvíðin yfir því að fara hugsanlega að vinna með ákærða aftur.
H kvaðst hafa verið í vaktrými öryggisvistunarinnar þegar annar starfsmaður hefði kallað til hans vegna átakanna í íbúð ákærða. Hann hefði fylgst með því sem gerðist á tölvuskjá við dyr íbúðarinnar og séð ákærða veitast að B og síðan A með höggum og spörkum. Þá hefði hann fylgst með eftir að F lokaðist inni með ákærða. Honum hefði sýnst ákærði hrækja á hana. Hann hefði haldið yfir henni skammarræðu en síða stigið frá og þau hefðu þá opnað fyrir henni.
Auk framangreindra vitna gáfu læknarnir S og T skýrslur fyrir dóminum og staðfestu vottorð sín, sem liggja fyrir í málinu.
Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins heyra forstöðumaður og starfsmenn öryggisvistunarinnar að [...] og teljast því opinberir starfsmenn í skilningi almennra hegningarlaga.
Ákærði játar þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið að öðru leyti en því að hann neitar að hafa sparkað í B og veist að F með ofbeldi, eins og þar er lýst. Fyrir dóminum kvað ákærði þó ekki útilokað að hann kynni að hafa frussað á F er hann ræddi við hana í umrætt sinn.
Gerð hefur verið grein fyrir framburði forstöðumanns og starfsmanna öryggisvistunarinnar, A, B, F og H um atvik að þessu leyti. Þá liggur fyrir upptaka úr öryggismyndavél sem sýnir atvikið og aðdraganda þess. Vitnið A kvaðst telja að ákærði hefði sparkað í B þar sem hann lá í gólfinu en framburður B, F og H um þetta var ekki afdráttarlaus. Við skoðun myndupptökunnar þykir ekki verða ráðið að ákærði hafi sparkað í B eins og honum er gefið að sök í ákæru og er að mati dómsins ósannað að svo hafi verið. Á hinn bóginn þykir koma glögglega fram á upptökunni að ákærði hafi hrækt á F, auk þess sem hann sést grípa í höku hennar og rykkja henni upp, eins og lýst er í ákæru, og var ákærði ógnandi í framgöngu sinni gagnvart henni. Með vísan til þess sem fram kemur á myndupptökunni og framburðar vitnanna fjögurra þykir sannað að ákærði hafi veist að F með ofbeldi eins og honum er gefið að sök í ákæru.
Ákærði hefur játað hluta sakargifta og fær sú játning stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því, og með vísan til þess sem að framan er rakið, þykir sannað að ákærði hafi veist að A, B og F, eins og lýst er í ákæru, að því undanskildu að ósannað þykir að hann hafi sparkað í B, eins og þar greinir, og verður hann sýknaður af sakargiftum að því leyti. Háttsemin varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður 2
Laust eftir hádegi föstudaginn 16. júní sl. barst lögreglu á ný neyðarboð frá öryggisvistuninni að [...]. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi þennan dag verið fluttur í öryggisvistunina eftir dvöl á geðdeild Landspítala og hafi hann verið ósáttur við lyfjagjöf þar. Lögreglumenn ræddu við A sem sagði frá því að ákærði hefði sturlast í íbúð sinni og hefði hann veist með afli að stálhurð sem skildi að vistarverur hans og aðstöðu starfsmanna, svo að dyrakarmur hefði losnað og hefði litlu mátt muna að hurðin gæfi eftir. Í skýrslum sem teknar voru af starfsmönnum í kjölfarið kemur fram að ákærði hefði viðhaft ókvæðisorð meðan á þessu stóð. Fyrir liggja upptökur úr öryggismyndavélum sem sýna atvikið annars vegar í íbúð ákærða og hins vegar í aðstöðu starfsmanna.
Fyrir dóminum neitaði ákærði að hafa hótað starfsmönnunum í umrætt sinn. Hann kannaðist hins vegar við að hafa verið að berja í dyrnar og kvaðst hafa kallað: „Af hverju haldið þið mér eins og dýri í búri?“
A kvað ákærða hafa komið í öryggisvistunina í fylgd lögreglu um klukkan 11 þennan morgun. Hún kvaðst ásamt öðrum starfsmanni hafa farið inn í íbúð hans og heilsað en síðan farið fram. Eftir stutta stund hefði ákærði farið að kalla til þeirra í kallkerfi. Hann hefði verið reiður og viljað komast út. Þau hefðu sagt honum að það væri ekki hægt núna þar sem þau hefðu ekki treyst sér til að fara með hann út. Þá hefði ákærði orðið mjög reiður, sagst ætla að „stúta“ þeim, ráðist á hurðina og byrjað að sparka í hana af öllu afli. Hann hefði stutt sig við skáp og vegg og sparkað aftur fyrir sig. Þau hefðu reynt að styðja við hurðina í starfsmannarýminu en þetta hefðu verið mjög öflug spörk. Hurðin hefði verið við það að gefa sig og dyrakarmurinn hefði verið að losna. Meðan á þessu stóð hefði ákærði öskrað á þau: „Ég ætla ekki að vera lokaður hér inni eins og dýr í búri.“ Síðan hefði ákærði gefist upp. Hann hefði virst örmagnast og sest í sófa. Þau hefðu þá verið búin að hringja í lögreglu og hefði ákærði fylgt lögreglumönnum út úr húsinu. Hann hefði verið samvinnufús við lögreglumenn þegar þeir komu á vettvang og hlýtt fyrirmælum þeirra.
Vitnið gerði grein fyrir því hvað fælist í öryggisvistunarúrræðinu sem starfrækt væri í húsnæðinu [...] en fram kom að ákærði er fyrsti og eini vistmaðurinn þar. Hún kvaðst hafa fengið símtal frá ákærða eftir síðara atvikið og hefði hann lýst því hvernig hann vildi hafa hlutina ef hann kæmi aftur í öryggisvistunina. Hún hefði sagt honum að það myndu verða breytingar ef hann kæmi aftur og að hann yrði eflaust ekki sáttur við þær breytingar. Vitnið lýsti því fyrir dóminum að unnið væri að breytingum á húsnæðinu til að tryggja öryggi starfsmanna ef ákærði kæmi þangað aftur. Hurðir hefðu verið styrktar og íbúðinni breytt til að varna því að unnt væri að króa starfsmann þar inni. Þá væru starfsmenn að læra varnartækni hjá íþróttafélaginu Mjölni. Gert væri ráð fyrir breyttu verklagi gagnvart ákærða sneri hann aftur. Þannig myndu starfsmenn ekki geta sýnt honum sömu nálgun og verið hefur. Þau myndu ekki geta farið með honum út úr húsinu nema þeim yrði útvegað farartæki sem tryggði öryggi þeirra í slíkum ferðum. Fram kom hjá vitninu að ekki hefði fengist fjármagn til að ráðast í þær endurbætur sem starfsmenn teldu nauðsynlegar.
H kvað ákærða hafa haft uppi ýmsar kröfur um kallkerfið í umrætt sinn. Hann hefði viljað hitta lögfræðinginn sinn en verið sagt að það væri ekki hægt. Þá hafi hann viljað fá að hafa sambandi við annan lögfræðing en það hafi heldur ekki verið hægt. Ákærði hefði þá farið að lemja í kallkerfið, hótað að drepa þau og fylgt þeim orðum eftir með þungri árás á hurðina á milli íbúðarinnar og starfsmannarýmisins. Hann hefði slegið og sparkaði í hurðina og þau orðið að leggjast á hana til að varna því að hann kæmist í gegn. Lögreglan hefði síðan komið á vettvang og handtekið ákærða. Vitnið kvaðst hafa óttast um líf sitt ef ákærði næði að brjótast í gegnum hurðina.
G kvað ákærða hafa reiðst eftir að þau hefðu sagst ekki geta orðið við óskum hans. Hann hefði reynt að ná til þeirra með því að ráðast á hurðina á milli íbúðarinnar og starfsmannarýmisins. Hann hefði ítrekað hótað að drepa þau og sagt: „Ég geng frá ykkur“. Vitnið kvaðst hafa tekið hótanirnar alvarlega.
I lýsti því að ákærði hefði beðið um það í kallkerfinu að fá að tala við lögfræðinginn sinn og unnustu sína. Starfsmenn hefðu hringt í lögfræðinginn, sem hefði verið staddur úti á landi og ekki getað komið að hitta hann. Þau hefðu sagt honum það og jafnframt að hann gæti ekki fengið að hitta unnustu sína. Ákærði hefði þá sagst vilja skipta um lögfræðing en þau hefðu sagt honum að ekki væri hægt að verða við þeirri ósk því að hann þyrfti að segja upp lögfræðingnum sjálfur. Eftir að hafa fengið neitun við þessu hefði ákærði farið að kýla í kallkerfið, síðan hafi hann ráðist á hurðina og reynt að komast yfir í starfsmannarýmið til þeirra. Hann hefði sparkað og barið í hurðina og öskrað ókvæðisorð að þeim en vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hann sagði. Þau hefðu fylgst með honum á skjá öryggismyndavélar og hann hefði verið mjög ógnandi.
J kvað ákærða hafa farið að kalla í kallkerfið og viljað fá að tala við lögfræðinginn sinn og kærustuna sína en honum hefði verið sagt að ekki væri hægt að verða við því. Hann hefði síðan beðið um eitt og annað en fengið sömu svör. Þá hefði hann viljað tala við nýjan lögfræðing en verið sagt að hann yrði að ræða það við þann lögfræðing sem hann væri með. Honum hefði verið boðinn matur, en ekki hefði verið hægt að færa honum matinn þar sem hann hefði ekki hlýtt því að fara inn í herbergi á meðan. Síðan hefði ákærði farið að berja í kallkerfið og hurðina og hefði hann verið „eins og naut í flagi“. Hann hefði tekið gott tilhlaup að hurðinni og þau hefðu rokið á hana og haldið henni hinum megin. Spörkin í hurðina hefðu verið mjög þung og hefðu hún og veggurinn gengið til. Ákærði hefði stutt höndum á vegg og skáp sitt hvorum megin við dyrnar og sparkað af krafti bæði aftur á bak og fram á við. Meðan á þessu stóð hefði hann sagst ætla að „stúta“ þeim. Hún hefði haft fulla trú á að hann myndi standa við það ef hann kæmist fram, ofsinn hefði verið svo mikill.
U lögreglumaður fylgdi ákærða af geðdeild Landspítala í öryggisvistunina í umrætt sinn. Vitnið kvað ákærða hafa verið sprautaðan með forðasprautu áður en hann yfirgaf geðdeildina og hefði hann verið mjög ósáttur við það. Hann hefði haft á orði að þetta myndi bara hafa slæm áhrif og að „þau“ myndu eiga eftir að sjá eftir þessu. Vitnið kvaðst minna að ákærði hefði nefnt forstöðukonuna í þessu sambandi.
Þá gáfu skýrslu fyrir dóminum Ú, framkvæmdastjóri á [...], og V, deildarstjóri öryggisgeðdeildar Landspítala, og gerðu grein fyrir markmiði og tilhögun öryggisvistunarinnar sem ákærði sætti. Fram kom að ákærði er eini einstaklingurinn sem hefur sætt vistunarúrræðinu í samræmi við framangreint samkomulag [...]. Ú lýsti því að húsnæðinu [...] hefði verið breytt áður en ákærði fluttist þangað til að gera það öruggara. Eftir það sem gerst hefði væru frekari breytingar fyrirhugaðar, svo sem að styrkja dyr og festa niður húsgögn, auk þess sem fyrirsjáanlegt væri að vinnubrögð starfsfólks myndu breytast. Þá gætu orðið breytingar á tilhögun útivistar ákærða og samskiptum hans við sína nánustu. Vitnið kvað það myndi verða í höndum forstöðumanns öryggisvistunarinnar að ákveða hvort ákærða yrði synjað um að hafa samband við lögmann sinn eða sína nánustu ef hann kæmi aftur í öryggisvistunina.
V kvaðst hafa komið að málum öryggisvistunarinnar sem ráðgjafi, eftir þessi atvik. Hann hefði gert tillögur um breytingar á húsnæðinu og komið að frekari þjálfun starfsfólks. Hann kvaðst telja að starfsfólkið hefði ekki fengið nægilegan undirbúning til að taka á móti ákærða. Hann hefði séð upptökuna af atvikinu 13. júní og kvaðst telja nálgun starfsmannanna hafa verið ranga. Vitað sé hvað „triggeri“ ákærða. Hann geti sýnt af sér ofbeldi ef honum eru sett mörk eða hann fær ekki það sem hann vill. Ekki hafi verið rétt aðferð að setjast hjá honum og segja honum að hann mætti ekki gera eitthvað og ætti að gera eitthvað annað. Það eigi ekki að gera „upp í andlitið á honum“. Vitnið kvaðst telja að ákærði hafi haldið aftur af sér í átökum við starfsfólkið. Til dæmis sjáist á upptökunni að hann hafi verið ógnandi við F, þegar hún lokaðist inni með honum, en hann hafi ekki slegið hana.
Niðurstaða
Ákærði kannast við að hafa barið í hurð íbúðarinnar í umrætt sinn og kallað til starfsmannanna sem frammi voru en neitar því að hafa haft í hótunum við þau, eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið.
Forstöðumaður og starfsmenn öryggisvistunarinnar, þau A, H, G, og J, greindu öll frá því fyrir dóminum að ákærði hefði hótað þeim lífláti á meðan hann sparkaði og barði í hurðina. Þá bar I að ákærði hefði öskrað að þeim ókvæðisorð, sem hann myndi ekki nákvæmlega hver voru. Með framburði vitnanna þykir, gegn neitun ákærða, sannað að hann hafi viðhaft líflátshótanir í þeirra garð. Orðum sínum fylgdi hann eftir með ofsafenginni atlögu að hurðinni, eins og ráðið verður af upptöku úr öryggismyndavél og vitnisburði starfsfólksins. Verður að telja að þau hafi haft réttmæta ástæðu til að óttast að ákærði léti verða af hótunum sínum tækist honum að brjóta sér leið út úr íbúðinni. Þykir háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, eins og í ákæru greinir.
Geðheilbrigðisrannsókn
Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 1. febrúar 2017, var þess farið á leit við Þ geðlækni að hann framkvæmdi geðheilbrigðisrannsókn á ákærða, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, með það fyrir augum að kannað yrði hvort hann væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Ákærði, sem þá dvaldi á geðdeild Landspítala, samþykkti að gangast undir rannsóknina.
Skýrsla Þ um geðheilbrigðisrannsóknina er dagsett 21. mars 2017. Niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á viðtölum við ákærða, lögregluskýrslum og fyrirliggjandi sjúkragögnum, meðal annars greinargerð sálfræðinganna [...] um mat á áhættuhegðun, sem unnin var að beiðni velferðarsviðs [...] í júní 2016, og greinargerð [...] taugasálfræðings um mat á vitrænni getu ákærða og taugasálfræðilegt mat, unnið á meðan á dvöl hans á geðdeild stóð í febrúar 2017.
Í skýrslunni er að finna samantekt þar sem eftirfarandi kemur fram:
X er fæddur sex vikum fyrir tímann. Hann var seinþroska og var seinn bæði til tals og gangs. Foreldrar hans áttu báðir við neysluvanda að stríða. X átti í miklum erfiðleikum í skóla og greindarpróf sem gerð voru þegar hann var 10 og 13 ára sýndu að hann var greindarfarslega slakur á máli og hugtakasviði.
X hefur sýnt af sér miklar hegðunartruflanir og verið í mikilli neyslu ýmissa lyfja. Við þá neyslu hefur ofbeldi hans aukist. Hann hefur margoft verið lagður inn á geðdeild og einnig fengið dóma og verið á Litla Hrauni.
Á Litla Hrauni hefur hegðun hans og samskipti við aðra fanga verið mjög erfið eins og fram kemur í matsgerð sálfræðinganna [...] og [...], en þær gerðu skýrslu fyrir velferðarsvið [...] á miðju síðasta ári.
X hefur verið á bráðadeild geðdeildar Landspítalans frá 9. janúar 2017.
Velferðarsvið [...] ásamt öðrum aðilum hefur verið að undirbúa byggingu öryggissambýlis og hefur verið í samvinnu meðal annars við starfsfólk geðdeildar Landspítalans, en ætlunin er að X fari þangað að lokinni dvöl á geðdeild Landspítalans.
Á meðan X hefur verið á geðdeild Landspítalans hefur [...] taugasálfræðingur gert mat á vitrænni getu hans og gert taugasálfræðilegt mat. Þar kemur fram að málleg greind X er mjög slök og mælist 69. Verkleg greind er hærri, en [...] sýnir fram á að þáttum í verklegri greind hefur hnignað og telur það geta skýrst af mikilli neyslu hans í gegnum árin.
Við taugasálfræðileg próf var ekki hægt að sýna fram á framheilaskaða X.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur eftirfarandi fram:
Mat undirritaðs er með vísan til 15. gr. almennra hegningarlaga að þrátt fyrir að sálfræðileg próf hafi sýnt fram á andlegan vanþroska X er hann ekki með þeim hætti að X hafi nokkurn tíma verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, enda sýna gögn að hann er almennt undir áhrifum lyfja þegar hann beitir aðra ofbeldi.
Með vísan til 16. gr. sömu laga og ekki síst þeirrar staðreyndar að X hefur vegna skerðingar sinnar alls ekki samlagast fangelsislífinu og verður fyrir aðkasti þar og miklum samskiptaörðugleikum þannig að það er borin von að mati undirritaðs að frekari fangelsisvist geti borið árangur og undirritaður styður eindregið þær hugmyndir um að honum verði fundin vist í öryggissambýli [...].
Þ gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og gerði grein fyrir geðheilbrigðisrannsókn sinni. Hann vísaði til þess að á þeim tíma sem geðheilbrigðisrannsóknin fór fram hefði verið unnið að því að koma á fót öryggisvistunarúrræði [...]. Vitnið kvaðst hafa talið það ómaksins vert að reyna að vista ákærða í slíku úrræði, þar sem hann hefði rekist illa í sambýli. Hann hefði stutt þá tilraun á þessum tíma en síðar skilist að það hefði ekki gengið upp.
Spurður um geðhagi ákærða kvað vitnið hann vera með meðfædda þroskaskerðingu og eiga við neysluvandamál að stríða. Hann sæi ekki alltaf mun á réttu og röngu. Engin merki væru um að hann þjáðist af alvarlegum geðrofssjúkdómi eða þunglyndis- eða kvíðasjúkdómi. Hann hafi nokkra innsýn í gerðir sínar en fyrir komi að hann kenni öðrum um þær. Vitnið kvað nauðsynlegt að ákærði vistaðist þar sem hann sætti miklu utanumhaldi og gæslu. Honum þurfi að skapa fastan ramma og finna eitthvað fyrir hann að gera. Vitnið kvað enga sérstaka meðferðarvinnu fara fram í öryggisvistuninni sem ekki væri hægt að koma við í fangelsi. Fyrst og fremst væri þetta vistunarúrræði. Vitnið kvaðst telja að ef þetta úrræði dygði ekki ákærða væri rétt að hann sætti fangelsisvist þar til dómur hans er runninn á enda. Ef ákærði yrði dæmdur til fangelsisrefsingar taldi vitnið að hann myndi skilja að honum hefði verið gerð slík refsing vegna háttsemi sinnar þótt ekki væri víst að hann myndi axla ábyrgð á gerðum sínum.
Sakhæfi
Sem að framan greinir gekkst ákærði undir geðheilbrigðisrannsókn við lögreglurannsókn þeirra mála sem leiddu til útgáfu ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017. Samkvæmt skýrslu Þ geðlæknis sýndu sálfræðileg próf fram á andlegan vanþroska ákærða og er verklegri greind talið hafa hnignað vegna vímuefnaneyslu hans. Sú ályktun þótti hins vegar ekki dregin af prófunum að ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að hann hafi á verknaðarstundu verið ósakhæfur, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga. Niðurstaða geðlæknisins var hins vegar sú að fangelsisvist myndi ekki bera árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Var í því sambandi vísað til þess að ákærði hefði ekki samlagast fangelsislífinu í fyrri afplánunum, hann hefði orðið þar fyrir aðkasti og átt í samskiptaörðugleikum við samfanga sína. Niðurstaða geðheilbrigðisrannsóknarinnar verður skilin svo að ekki hafi verið talið rétt að ákærða yrði refsað fyrir brotin, en að hann skyldi sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Í vitnisburði geðlæknisins fyrir dóminum kom fram að hann hefði haft framangreint öryggisvistunarúrræði á vegum velferðarsviðs [...] í huga í þessu sambandi. Þá kvaðst hann jafnframt telja að ef sýnt væri að öryggisvistunarúrræðið dygði ekki ákærða væri rétt að hann yrði dæmdur til fangelsisrefsingar.
Atvikin sem leiddu til ákæru héraðssaksóknara 28. júlí sl. áttu sér stað nokkrum vikum eftir að ákærði kom til dvalar í öryggisvistuninni og verða þau rakin til samskipta hans við starfsfólk þar. Í vitnisburði starfsfólksins kom jafnframt fram að þau óttuðust ákærða og að meðferðarsamband við hann væri ekki lengur fyrir hendi. Þá kom fram hjá forsvarsmönnum úrræðisins að breytingar yrðu á tilhögun vistunarinnar ef ákærði kæmi þangað á ný, svo sem með takmörkunum á heimild hans til að fara út úr húsi í fylgd starfsmanna og jafnframt heimild til að hitta nákomna. Að mati dómsins er ekki æskilegt að ákærði snúi aftur í öryggisvistunina [...] við þessar aðstæður.
Það álitaefni hvort ákærði telst sakhæfur eða hvort talið verður að refsing geti borið árangur í máli hans lýtur úrlausn dómsins. Með hliðsjón af niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar, og gögnum málsins að öðru leyti, telur dómurinn engan vafa leika á því að ákærði var sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga, þegar hann framdi þau brot sem hann er ákærður fyrir. Þá þykir ekkert komið fram í málinu sem leiðir líkur að því að ástand hans hafi verið, eða síðar orðið, með þeim hætti sem greinir í 16. gr. sömu laga. Þótt ákærði kunni að hafa átt erfið samskipti við samfanga í fyrri afplánunum þykir ekki sýnt að refsing geti ekki borið árangur gagnvart honum, sbr. sömu lagagrein.
Samkvæmt framangreindu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017. Þá verður ákærði jafnframt sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru héraðssaksóknara 28. júlí 2017, að öðru leyti en því að sýkna ber hann af því að hafa sparkað í B, sbr. 1. ákærulið, eins og áður hefur verið rakið. Verður ákærði dæmdur til refsingar fyrir brot sín.
Ákvörðun refsingar, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur árið 1984. Hann á að baki sakaferil allt aftur til ársins 2002. Hann hefur þrívegis hlotið refsidóma fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru líkamsárásar- og þjófnaðarbrot hans margítrekuð. Refsing verður ákveðin með hliðsjón af 1. mgr. 218. gr. c og 255. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður jafnframt litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga varðandi brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt lið II í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017. Við ákvörðun refsingar vegna brota samkvæmt ákæru héraðssaksóknara 28. júlí 2017 þykir þó jafnframt verða að horfa til þess að ákærði var sjálfræðissviptur og sætti á þeim tíma öryggisvistun á sérhæfðri stofnun. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 17. júní sl. kemur til frádráttar refsingu.
Brotaþolarnir A og B eiga rétt á miskabótum samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fram er komið að þeim var mjög brugðið við atlögu ákærða, auk þess sem þau hlutu af henni nokkra áverka. Þykja miskabætur til handa A hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, en til B 300.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir. Þá greiði ákærði brotaþolum málskostnað, eins og jafnframt greinir í dómsorði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 1.559.920 krónur, og málsvarnarlaun verjenda á rannsóknarstigi málsins, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 337.280 krónur, og Björgvins Jónssonar hrl., 63.240 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærði 514.000 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Málið dæmdu héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, og Skúli Magnússon og Kristinn Tómasson geðlæknir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frá refsingu dregst gæsluvarðhald ákærða frá 17. júní 2017.
Ákærði greiði A 400.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. júní 2017 til 1. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 300.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði B 300.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2017 til 1. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 300.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 1.559.920 krónur, og málsvarnarlaun verjenda á rannsóknarstigi málsins, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 337.280 krónur, og Björgvins Jónssonar hrl., 63.240 krónur.
Ákærði greiði 514.000 krónur í annan sakarkostnað.