Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-290

A (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður) og dánarbú Þorsteins Hjaltested (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 11. desember 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 1. desember sama ár í málinu nr. 600/2020: Dánarbú Þorsteins Hjaltested og A gegn dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með beiðni sama dag leitar dánarbú Þorsteins Hjaltested leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að farið sé með dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Afstaða skiptastjóra er sú að farið skuli með búið sem gjaldfært samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Eina eign búsins er jörðin Vatnsendi í Kópavogi. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðenda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í úrskurði Landsréttar var rakið að forsenda þess að farið yrði með skipti á dánarbúi samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laganna væri að skiptastjóri teldi víst að andvirði eigna þess nægði til að efna viðurkenndar kröfur að viðbættum kröfum sem ágreiningur stæði um eða mætti koma að eftir lok kröfulýsingarfrests. Ef vafi léki á um hvort andvirði eigna nægði til fullnustu skuldbindinga skyldi farið með búið eftir ákvæðum 3. mgr. sömu lagagreinar. Með hliðsjón af niðurstöðu Landsréttar 13. nóvember 2020 í máli nr. 421/2020, þar sem hafnað var kröfu leyfisbeiðanda A um að dánarbúið afhenti honum sem arf samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi, með þeim skilyrðum og takmörkunum sem erfðaskráin geymdi, lagði Landsréttur til grundvallar að aðeins einni kröfu væri lýst í dánarbúið, þ.e. kröfu leyfisbeiðanda dánarbús Þorsteins Hjaltested, að fjárhæð 508.556 krónur ásamt dráttarvöxtum. Þá næmi áfallinn skiptakostnaður 24.043.060 krónum. Í úrskurði Landsréttar var gerð grein fyrir málaferlum erfingja Sigurðar Kristjáns á hendur Kópavogsbæ um greiðslu eignarnámsbóta, til hagsbóta fyrir dánarbúið, og matsgerð dómkvaddra matsmanna um virði beins eignarréttar í þeim hlutum Vatnsenda sem sætt hefðu eignarnámi. Að mati Landsréttar hefðu með matsgerðinni verið leiddar líkur að því að eign dánarbús Sigurðar Kristjáns nægði til greiðslu skulda þess og á meðan úr málinu væri óleyst yrði skiptum ekki hagað í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti.  

Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða hins kærðar úrskurðar sé röng. Af hálfu A er til þess vísað að úrskurði Landsréttar 13. nóvember 2020 í máli nr. 421/2020 hafi með kæru 26. nóvember 2020 verið skotið til Hæstaréttar ásamt því að sett hafi verið fram beiðni um kæruleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 fresti kæra framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst hafi verið úr máli fyrir Hæstarétti. Þar sem ekki hafi enn verið leyst úr kærumálinu og krafan því ekki endanlega fallin niður hafi Landsrétti borið að taka tillit til hennar við úrlausn málsins. Þá sé mat á gjaldfærni dánarbúsins ranglega byggt á mati dómkvaddra manna sem aflað hafi verið sem sönnunargagns í öðru máli. Af hálfu dánarbús Þorsteins Hjaltested er einkum til þess vísað að eina hugsanlega eign dánarbús Sigurðar Kristjáns sé „beinn eignarréttur“ að Vatnsenda og réttur „beins eignarréttarhafa“ til eignarnámsbóta. Verulegur vafi leiki á um verðmæti beins eignarréttar yfir jörðinni þar sem erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested svipti hann öllum venjulegum heimildum sem í eignarrétti felist. Af 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991, og ummælum í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi að lögunum, sé skýrt að í vafatilvikum skuli fara með dánarbú sem ógjaldfært væri. Leyfisbeiðendur telja málið hafa fordæmisgildi um skýringu á 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Leyfisbeiðandi A byggir loks á því að málið varði sérlega ríka hagsmuni sína.

Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann kveður ágreining í málinu ekki lúta að túlkun á 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 heldur að því mati skiptastjóra dánarbúsins að víst sé að það eigi fyrir þeim skuldum sem vitað sé um. Bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi fallist á mat skiptastjóra. Með nýgengnum dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 hafi Kópavogsbæ verið gert að greiða dánarbúinu 968.000.000 króna auk nánar tilgreindra vaxta. 

Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Í því tilliti skal tekið fram að beiðni um kæruleyfi vegna fyrrgreinds úrskurðar Landsréttar í máli nr. 421/2020 hefur verið hafnað með ákvörðun Hæstaréttar fyrr í dag. Af þeim sökum telst það ekki annmarki á úrskurði Landsréttar í þessu máli að þar var lagt til grundvallar að úrskurður í máli nr. 421/2020 væri endanlegur. Beiðninni er því hafnað.