Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2001


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Ölvunarakstur
  • Áhættutaka
  • Fordæmi
  • Dómvenja
  • Sakarskipting
  • EES-samningurinn
  • EFTA-dómstóllinn
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr.129/2001.

Guðbergur Ingólfur Arnarsson og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

gegn

Ragnheiði Örnu Arnarsdóttur

(Jóhann H. Níelsson hrl.)

og

Ragnheiður Arna Arnarsdóttir

gegn

Guðbergi Ingólfi Arnarssyni

Gunnsteini Má Þorsteinssyni og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Ölvunarakstur. Áhættutaka. Fordæmi. Dómvenja. Sakarskipting. EES-samingurinn. EFTA-dómstóllinn. Gjafsókn. Sératkvæði.

 

R krafðist bóta vegna slyss, er hún varð fyrir sem farþegi í bifreið GA, en ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn, GÞ, var undir áhrifum áfengis. Með hliðsjón af lýsingum lögreglu, niðurstöðum mælinga á áfengismagni í blóði og framburðar GÞ fyrir lögreglu, var talið sannað að R hafi mátt vera ljóst að GÞ var undir áhrifum áfengis. Jafnframt þótti sannað að slysið yrði rakið til ölvunar hans. Í málinu var um það deilt hvort R hefði tekið á sig áhættu sem leiddi til þess að hún hefði fyrirgert rétti sínum til bóta. Við úrlausn málsins var höfð hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar á því sviði sem hér um ræddi, auk þess sem litið var til tilskipana EBE um samræmda löggjöf um ábyrgðartryggingar ökutækja og ráðgefandi álits, sem EFTA-dómstóllinn hafði látið Hæstarétti Noregs í té 17. nóvember 1999 í sambærilegu máli. Ekki var talið að dómstólamynduð regla íslensks skaðabótaréttar þess efnis að áhættutaka farþega sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni leiði til niðurfellingar bótaréttar, væri andstæð efni fyrrgreindra tilskipana. Tekið var fram vegna fyrrnefnds álits EFTA-dómstólsins að jafnframt væri hafður í huga sá munur sem er á íslenskum og norskum reglum um bætur vegna umferðarslysa. Talið var að við svo búið væru ekki efni til frekari umfjöllunar um stöðu hinna tilvísuðu tilskipana Evrópubandalagsins gagnvart íslenskum rétti. Tekið var fram að umræddar niðurstöður dómstóla hefðu ekki byggst á lögfestri reglu heldur mótast af almennum viðhorfum og kenningum í skaðabótarétti og leitt til dómvenju sem talin hefði verið bindandi. Í ljósi þróunar skaðabótaréttar hér á landi og annars staðar þóttu ekki efni til þess lengur að halda henni við og var niðurstaða málsins látin ráðast af reglum um eigin sök í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Var R talin hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hún fékk manni, sem henni gat ekki dulist að var verulega undir áhrifum áfengis, stjórn bifreiðar, sem hún hafði umráð yfir, og tók sér far með honum. Bætur til R voru því lækkaðar á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og hún látin bera 2/3 hluta tjóns síns.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2001 og krefjast þess aðallega, að þeir verði sýknaðir af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara, að hún verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 2. maí 2001 og krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir til greiðslu in solidum á 5.479.145 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2000 til greiðsludags. Jafnframt verði þeir dæmdir til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að gagnstefndi Gunnsteinn Már Þorsteinsson og aðaláfrýjandi Sjóvá–Almennar tryggingar hf. verði dæmdir in solidum til að greiða sér 5.479.145 krónur með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu greinir, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi hefur fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti.

Gagnstefndi Gunnsteinn Már Þorsteinsson hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Atvikum málsins og málsástæðum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram snýst ágreiningur aðila um bótarétt gagnáfrýjanda vegna slyss, er hún varð fyrir sem farþegi í bifreiðinni R-8748 í Vestfjarðagöngum aðfaranótt 1. nóvember 1997. Ökumaður bifreiðarinnar, gagnstefndi Gunnsteinn Már, var undir áhrifum áfengis. Er ágreiningur um það, hvort gagnáfrýjanda hafi verið eða mátt vera það ljóst. Verði talið að svo hafi verið er deilt um það, hvort hún hafi tekið á sig áhættu, sem leiði til þess að hún fyrirgeri rétti sínum til bóta.

Ekki er í málinu deilt um niðurstöðu örorkumats eða um tölulegan grundvöll kröfugerðar gagnáfrýjanda, en hins vegar er ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta.

II.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar allt frá árinu 1969 hefur verið litið svo á að sá, sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni, geti ekki krafið eiganda bifreiðar, ökumann eða ábyrgðartryggjanda um bætur vegna slyss af völdum bifreiðarinnar, enda hafi hann vitað eða mátt vita um ölvun ökumannsins og orsakasamband sé milli hennar og slyssins. Vísast meðal annars um þetta til dóms Hæstaréttar 24. október 1996, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 3120. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að sú dómvenja, er myndast hafi á þessu sviði, stangist á við tilskipanir Evrópubandalagsins nr. 72/166/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE, en þær eigi samkvæmt bókun 35 við EES-samninginn að hafa gildi að landsrétti og samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið eigi að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir þeim þremur tilskipunum, sem áður voru nefndar. Hin fyrsta þeirra, sem er frá 24. apríl 1972, fjallar samkvæmt fyrirsögn „um samræmingu á lögum aðildarríkja um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja, og til að kveða á um skyldu til að viðhalda vátryggingu gagnvart slíkri ábyrgð.“ Önnur og þriðja tilskipun, sem eru frá 1983 og 1990, voru settar hinni fyrstu til fyllingar og skýringar. Í tilskipunum þessum felast fyrirmæli um skyldu ríkjanna til að sjá til þess að fyrir hendi sé vátrygging, sem taki til skaðabótaskyldu, er stofnast vegna líkams- eða munatjóns af notkun ökutækis. Verður að telja ljóst að þeim sé ætlað að tryggja, að tjónþoli fái úr hendi vátryggjanda greiðslu á bótum, sem hann á rétt til eftir skaðabótareglum. Þurfi hann ekki að sæta mótbárum frá vátryggjanda um atriði, sem falla undir tilskipanirnar. Hefur EB-dómstóllinn túlkað 1. mgr. 3. gr. fyrstu tilskipunarinnar á þá lund í máli nr. C-129/94 Ruiz Bernáldez [1996] ECR I-1829, að í skilmálum lögmæltrar vátryggingar ökutækja megi ekki kveða svo á, að vátryggjanda sé í einhverjum tilvikum, og sérstaklega ekki þegar ökumaður var ölvaður, óskylt að greiða skaðabótakröfu þriðja manns vegna líkams- eða munatjóns, er hlýst af ábyrgðartryggðu ökutæki.

Framangreindar tilskipanir verða ekki skildar svo að þær mæli fyrir um að skylduábyrgðartrygging greiði bætur til tjónþola umfram það, sem hann á skaðabótakröfu til að lögum aðildarríkis. Styðst þessi skilningur meðal annars við forúrskurð EB-dómstólsins 14. september 2000 í málinu nr. C-348/98 Mendes Ferreira og Delgado Correira Ferreira [2000] ECR I-6711, sem varðaði skýringu á annarri og þriðju tilskipun um ökutækjatryggingar. Segir þar að ákvæði 1. mgr. 3. gr. fyrstu tilskipunar, eins og það hafi verið skýrt og aukið með annarri og þriðju tilskipun, skuldbindi aðildarríkin til að tryggja, að vátryggt sé gegn skaðabótaábyrgð vegna ökutækja, sem að öllu jöfnu séu á yfirráðasvæði þeirra, og mæli meðal annars fyrir um, til hvers kyns tjóns og hverra tjónþola vátryggingin skuli taka. Hins vegar segi ekkert í ákvæðinu um, til hvers konar ábyrgðar, hlutlægrar eða sakarábyrgðar, vátryggingin skuli ná. Á valdsviði aðildarríkjanna sé, hvernig þau skipi skaðabótareglum um tjón af umferð ökutækja. Þeim sé hins vegar skylt að koma því þannig fyrir að vátrygging gegn skaðabótaábyrgð, sem fellur á samkvæmt innanlandsrétti, sé í samræmi við reglur áðurnefndra þriggja tilskipana.

III.

Í héraðsdómi er greint frá ráðgefandi áliti, sem EFTA-dómstóllinn lét Hæstarétti Noregs í té 17. nóvember 1999 í máli Storebrand Skadeforsikring AS gegn Veroniku Finanger. Í því máli var meðal annars fjallað um bótaákvæði norsku bifreiðatryggingalaganna, sem eru í verulegum atriðum frábrugðin ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 um þessi efni. Er samkvæmt norsku ákvæðunum ekki um að ræða hlutlæga bótaábyrgð bifreiðaeiganda, en þess í stað eru ákvæði um skylduvátryggingu (trafikkforsikring) til hagsbóta fyrir tjónþola. Er meginreglan sú að tjónþoli eignast beina og sjálfstæða kröfu til bóta á hendur skylduvátryggjandanum, þótt skilyrði bótakröfu séu ekki fyrir hendi samkvæmt skaðabótareglum. Skyldutryggingin er því eins konar slysatrygging, sem greiðir bætur eftir reglum skaðatrygginga. Eigandi og stjórnandi bifreiðar geta jafnframt orðið skaðabótaskyldir eftir lögunum, en þá því aðeins að þeir hafi átt sök á tjóni. Sérstakt ákvæði er í 7. gr. norsku laganna um áhættutöku, þ.e. um brottfall bótaréttar farþega, sem af fúsum vilja lætur aka sér í bifreið, meðal annars ef honum var eða átti að vera ljóst að bifreiðarstjórinn var undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi lyfja.

Í dómi Hæstaréttar Noregs 16. nóvember 2000 í framangreindu máli var á því byggt, að það hefði verið mat EFTA-dómstólsins, að fyrrgreind regla 7. gr. norsku bifreiðatryggingalaganna yrði ekki talin meðábyrgðarregla, sem væri hluti af skaðabótareglum landsréttar, heldur óleyfileg undanþága frá vátryggingarvernd. Var álit EFTA-dómstólsins lagt til grundvallar og lagareglan talin andstæð margnefndum tilskipunum. Hins vegar taldi rétturinn að hinu norska lagaákvæði yrði ekki vikið til hliðar í málinu, þar sem slík úrlausn myndi nánast jafngilda því, að tilskipanirnar hefðu bein réttaráhrif og gengju framar settum lögum.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga skal sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Í 2. mgr. greinarinnar segir að bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að því af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. ber skráður eða skráningarskyldur eigandi vélknúins ökutækis ábyrgð á því og er fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. Í lögunum er ekki ákvæði, sem felur í sér að áhættutaka farþega, sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni, leiði til niðurfellingar bótaréttar. Slík regla er hins vegar leidd af fordæmum Hæstaréttar. Hefur henni verið beitt þegar afstaða er tekin til bóta á grundvelli 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga. Í 91. gr. laganna eru síðan fyrirmæli um að greiðsla á bótum, sem ákveðnar eru á grundvelli áðurnefndra lagagreina, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi. Þegar litið er til þessa og þeirra atriða, sem rakin eru í II. og III. kafla dómsins, verður ekki talið, að framangreind skaðabótaregla varðandi áhættutöku sé andstæð efni tilskipana Evrópubandalagsins um samræmda löggjöf um ábyrgðartryggingar ökutækja. Vegna álits EFTA-dómstólsins 17. nóvember 1999 er þá jafnframt hafður í huga sá munur, sem er á íslenskum og norskum reglum um bætur vegna umferðarslysa.

Við svo búið eru ekki efni til frekari umfjöllunar um stöðu ofangreindra tilskipana  gagnvart íslenskum rétti.

V.

Eins og áður er fram komið hefur það leitt af dómafordæmum undanfarna áratugi að sá, sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni og er eða má vera það ljóst, fyrirgerir rétti sínum til bóta, lendi hann í slysi. Í ljósi þróunar skaðabótaréttar hér á landi og annars staðar má fallast á að efni séu til að þessi regla sæti nú endurskoðun. Fyrir liggur að í ýmsum löndum, þar sem byggt hefur verið á sömu sjónarmiðum í skaðabótarétti um áhættutöku af þessu tagi, hefur verið frá þeim horfið. Þannig var til dæmis farin sú leið í Danmörku, að ákvæði um eigin sök, sambærilegu við 2. mgr. 88. gr. umferðarlaganna, er nú beitt þegar um áhættutöku er að ræða, en dönsk löggjöf hefur talsvert verið höfð til hliðsjónar við mótun löggjafar hér á landi á þessu sviði. Hafa verður í huga að aðdragandi þess þegar maður sest upp í bifreið með ölvuðum ökumanni getur verið með ýmsum hætti, svo og önnur atvik, þannig að eðlilegt er að hvert tilvik sé metið fyrir sig. Svo sem fyrr er rakið felst í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga að bætur megi lækka eða fella niður þegar tjónþoli hefur verið meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Fyrri niðurstöður dómstóla um að áhættutaka, eins og hér er um fjallað, leiði til niðurfellingar bóta, hafa sem fyrr segir ekki byggst á lögfestri reglu heldur mótast af almennum viðhorfum og kenningum í skaðabótarétti og leitt til dómvenju, sem hefur verið talin bindandi. Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, þykja ekki efni til þess lengur að halda henni við.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða málsins látin ráðast af reglum um eigin sök í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.

VI.

Fallast ber á þá niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans, að gagnáfrýjanda hafi mátt vera ljóst að gagnstefndi Gunnsteinn Már, er hún fékk til að aka bifreiðinni R–8748 fyrir sig frá Flateyri til Bolungarvíkur aðfaranótt 1. nóvember 1997, hafi verið undir áhrifum áfengis. Jafnframt er staðfest sú niðurstaða dómsins að slysið verði rakið til ölvunar hans.

Gagnáfrýjandi sýndi þannig af sér stórkostlegt gáleysi er hún fékk manni, sem henni gat ekki dulist að var verulega undir áfengisáhrifum, stjórn bifreiðar, sem hún hafði umráð yfir, og tók sér far með honum. Sök hennar á slysinu er því veruleg. Ber að lækka bætur til hennar á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og þykir í ljósi atvika eðlilegt að hún beri 2/3 hluta tjóns síns. Ekki er tölulegur ágreiningur um grundvöll kröfugerðar eins og fram er komið. Samkvæmt því verða aðaláfrýjendur dæmdir in solidum til að greiða gagnáfrýjanda 1.826.382 krónur. Ekki er gerð krafa um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og verða þeir því ekki dæmdir. Rétt þykir að dráttarvextir greiðist frá 1. febrúar 2000, eins og krafist er og nánar er kveðið á um í dómsorði.

Eftir atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarákvæði héraðsdóms skal standa, en um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.       

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Guðbergur Ingólfur Arnarsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Ragnheiði Örnu Arnarsdóttur, óskipt 1.826.382 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

       Ég er sammála efni I., V. og VI. kafla atkvæðis meirihluta dómara um að í ljósi þróunar skaðabótaréttar hér á landi og annars staðar sé rétt að falla nú frá reglu um niðurfellingu bótaréttar þess sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni, sem leidd hefur verið af  fordæmum Hæstaréttar en ekki á stoð í settum lögum. Ég er jafnframt sáttur við þá niðurstöðu að úrslit málsins verði látin ráðast af reglum um eigin sök í 2. mgr. 88. gr. umferðalaga nr. 50/1987 og við þá sakarskiptingu sem fram kemur í atkvæðinu. Hins vegar þarf ekki að fenginni þessari niðurstöðu, að taka afstöðu til þess hvort framangreind dómvenja hafi stangast á við tilskipanir nr. 72/166/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE. Tel ég ekki einsýnt að reglan um áhættutöku hafi samræmst efni þessara tilskipana og að forúrskurður EB-dómstólsins 14. september 2000 í málinu nr. C-348/98 Mendes Ferreira og Delgado Correira Ferreira [2000] ECRI I-6711 sé réttilega skilinn því til styrktar, svo sem ráða má af köflum II., III. og IV. í atkvæði meirihluta dómara.

        Þá tel ég rétt samkvæmt niðurstöðu málsins að aðaláfrýjandi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiði 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Ég er hins vegar sammála niðurstöðu meirihluta dómara varðandi gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2001.

I

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 29. janúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Ragnheiði Örnu Arnarsdóttur, kt. 010975-3529, Þuríðarbraut 7, Bolungarvík, aðallega á hendur Guðbergi Ingólfi Arnarsyni, kt. 211270-3739, Þuríðarbraut 7, Bolungarvík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, en til vara á hendur Gunnsteini Má Þorsteinssyni, kt. 060481-3939, Stigahlíð 4, Bolungarvík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu birtri 25. mars 2000 og áritaðri um móttöku 22. mars 2000.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu Guðbergur Ingólfur Arnarsson, eigandi og tryggingartaki fólksbifreiðarinnar R-8748, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar, verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda kr. 5.479.145 í skaðabætur vegna tjóns, sem hún varð fyrir í umferðarslysi þann 1. nóvember 1997.  Þá er krafist dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð frá 1. febrúar 2000 til greiðsludags, skv. ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Jafnframt er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. febrúar 2001 í samræmi við 12. gr. sömu laga.  Einnig krefst stefnandi þess að ofangreindir stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, allt eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og beri málkostnaðarfjárhæðin dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu.

Til vara, ef stefndu verða sýknaðir af aðalkröfunni, krefst stefnandi þess að Gunnsteinn Már Þorsteinsson, ökumaður bifreiðarinnar R-8748, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar, verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda Ragnheiði Örnu Arnarsdóttur kr. 5.479.145 í skaðabætur vegna tjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi þann 1. nóvember 1997. Þá er krafist dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð frá 1. febrúar 2000 til greiðsludags, skv. ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Jafnframt er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. febrúar 2001 í samræmi við 12. gr. sömu laga.  Einnig krefst stefnandi þess að ofangreindir stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, allt eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og beri málkostnaðarfjárhæðin dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu.

Aðalstefndu Guðbergur Ingólfur Arnarsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að henni verði jafnframt gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gera sömu kröfur sem varastefndi.

Útivist varð af hálfu varastefnda Gunnsteins Más Þorsteinssonar við þingfestingu málsins og hefur hann ekki látið mál þetta til sín taka.

II

Málavextir eru þeir að aðfararnótt 1. nóvember 1997 var stefnandi farþegi í bifreiðinni R-8748 sem ekið var í gegnum Vestfjarðagöng frá Flateyri áleiðis til Ísafjarðar.  Bifreiðinni var þá ekið harkalega utan í veggi ganganna með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist alvarlega á hendi.  Varastefndi Gunnsteinn var ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn og var hann undir áhrifum áfengis við aksturinn og reyndist áfengismagn í blóði hans vera 1,83 prómill auk þess sem hann var ökuréttindalaus sökum ungs aldurs.  Lögregla kom á vettvang eftir slysið og var varastefndi Gunnsteinn síðar ákærður og dæmdur m.a. fyrir brot á umferðarlögum.

Fyrr um kvöldið hafði stefnandi fengið bifreiðina lánaða hjá bróður sínum, aðalstefnda Guðbergi, í því skyni að fara frá Bolungarvík til Flateyrar.  Hafði samist svo milli hennar og vinkonu hennar að vinkonan myndi aka til Flateyrar og aftur til baka enda hafði vinkonan ekki ætlað að neyta áfengis um kvöldið.  Þegar kom að heimferð um nóttina var vinkonan hins vegar ekki í ökufæru ástandi en varastefndi Gunnsteinn bauðst þá til að aka bifreiðinni til baka og þáði stefnandi það með fyrrgreindum afleiðingum. 

Með bréfi dagsettu 25. júní 1998 var leitað eftir afstöðu aðal- og varastefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. til bótaskyldu félagsins en með bréfi dagsettu 14. júlí 1998 hafnaði félagið bótarétti stefnanda með þeim rökum að hún hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að taka sér far með bifreiðinni undir stjórn varastefnda Gunnsteins sem hefði verið ölvaður og ökuréttindalaus og hvorugt hefði getað dulist stefnanda.  Þann 27. desember 1999 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við Atla Þór Ólason lækni að hann framkvæmdi örorkumat á stefnanda og var aðalstefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. jafnframt sent afrit matsbeiðnarinnar og óskað eftir viðhorfum félagsins til málsins í ljósi breyttra viðhorfa, sem sýndust vera á næsta leyti í málum af þessu tagi, og til hugsanlegra sátta á þessu stigi.  Með bréfi dagsettu 13. janúar 2000 er þessu bréfi stefnanda svarað á þá leið að bótakröfu stefnanda sé hafnað á grundvelli gildandi dómvenju og talið nauðsynlegt að úr því verði skorið fyrir íslenskum dómstólum hvort dómvenjan í slíkum málum hafi breyst og ef svo sé, á hvern hátt.

Einar Hjaltason, skurðlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, skrifar áverkavottorð vegna stefnanda 12. nóvember 1998.  Í því vottorði segir í niðurstöðukafla:

“Ragnheiður er 22ja ára gömul kona sem lendir í bílslysi.  Fær áverka á hægri hendi og úlnlið.  Fær stórt sár og brot á fremsta hluta sveifar og ölnar.  Þá er einnig brot á bátsbeini.  Sár hennar voru hreinsuð upp og saumuð og greru á nokkuð eðlilegum tíma, það tókst að leggja brotin nokkuð rétt.  Var meðhöndluð með gipsi.  Það kom síðar í ljós að brotið í bátsbeininu greri ekki og hefur hún verið til meðferðar hjá Magnúsi Páli Albertssyni handarskurðlækni af þeim sökum.  Gerð var aðgerð en ekki tókst að græða brotið.  Losnaði við gips í ágúst sl. og er farin að vinna en er með viss óþægindi.  Mun verða áfram í sambandi við Magnús Pál varðandi frekari meðferð.”

Í áverkavottorði Magnúsar Páls Albertssonar, bæklunar- og handarskurðlæknis, dagsettu 2. ágúst 1999 segir eftir að lýst er áverkum stefnanda eftir slysið og framtíðarhorfum:

“Á grundvelli ofanritaðs vottast

·         að áverkarnir geta hæglega samrýmst lýsingu á tildrögum

·         að áverkarnir voru alvarlegir en ekki lífshættulegir

·         að áverkarnir hafa skilið eftir varanleg mein, og er þar alvarlegast brotið í bátsbeini, sem ekki hefur gróið

·         að áverkarnir og afleiðingar þeirra skerða starfsgetu Ragnheiðar til frambúðar og er það álit undirritaðs að hún muni ekki ráða við átök og erfiðisvinnu með hægri hendi í framtíðinni

·         að líklegt er að Ragnheiður þurfi síðar meir að gangast undir frekari aðgerðir vegna afleiðinga slyssins eins og að ofan er rakið.”

 

Örorkumat Atla Þórs Ólafssonar dr. med. skv. skaðabótalögum nr. 50/1993 er dagsett 24. janúar 2000.  Þar segir í niðurstöðukafla:

“Við umferðarslysið þann 01.11.1997 varð Ragnheiður Arna Arnarsdóttir fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1.  Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

Frá 01.11.1997 til 17.09.1998…100%

Frá 18.09.1998 til 10.12.1998… 50%

Í febrúar 1999 í þrjár vikur…….100%

2.  Þjáningabætur skv. 3. grein:

Rúmliggjandi,

frá 01.11.1997 til 04.11.1997 og

frá 17.04.1998 til 20.04.1998.

Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi,

frá 01.11.1997 til 01.03.1999,

að frádregnum þeim tíma er hún var rúmliggjandi.

3.  Varanlegur miski skv. 4. grein:  18%

4.  Varanleg örorka skv. 5. grein:  18%

5.  Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:  18%”

III

 Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi Guðbergur Ingólfur, eigandi og tryggingartaki fólksbifreiðarinnar R-8748, sem hún var farþegi í þegar hún slasaðist, og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., vátryggjandi bifreiðarinnar, beri sameiginlega fjárhagslega ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir vegna áverka sem hún hlaut þegar bifreiðinni var ekið á miklum hraða og rakst harkalega utan í austurhlið Vestfjarðaganganna.  Stefndi Guðbergur Ingólfur hafi verið skráður eigandi ökutækisins, sem tjón stefnanda verði rakið til, og beri hann ábyrgð á tjóninu á grundvelli 88. gr. og 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en ábyrgðartryggjandinn, stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., beri ábyrgð á greiðslu bótakröfunnar á grundvelli 91. gr. umferðarlaga.

Stefnandi kveður mál þetta snúast fyrst og fremst um skaðabótaskyldu en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi alfarið hafnað skaðabótaskyldu.  Stefnandi hafi eins og áður er fram komið óskað eftir afstöðu félagsins í ljósi breyttra viðhorfa og í bréfi félagsins til lögmanns stefnanda frá 13. janúar 2000 hafi félagið gengið út frá því að með breyttum viðhorfum væri átt við nýlegt álit EFTA dómstólsins til Hæstaréttar Noregs.  Þá hafi þeirri afstöðu félagsins verið lýst að félagið teldi nauðsynlegt að úr því yrði skorið fyrir íslenskum dómstólum hvort í dómvenja í slíkum málum hefði breyst og ef svo væri á hvern hátt.

Stefnukrafan sundurliðast þannig:

Tímabundið tjón skv. 2. gr. skaðabótalaga:

Frá 01.11.97-17.09.98, 46 vikur100%1.006.480,00

Frá 18.09.98-10.12.98, 12 vikur  50%131.280,00

Í febrúar 1999 3 vikur100%65.640,00

Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga:

Rúmliggjandi 6 dagar 1300 x 3860/3282 x 69.173,00

Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi 479 dagar

1300 x 3860/3282 x 479         394.350,00

Varanlegur miski skv. 4. gr skaðabótalaga:

4.000.000-x 3860/3282 x 18%         846.800,00

Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga:

1.200.000,00 x 1,06 x 3860/3282 x 10 x 18%   2.692.826,00

Samtals óbætt tjón án vaxta   5.146.550,00

Vextir 2% frá 1/11 1997 - 1/5 1999 og 4,5%     155.425,00

frá 1/5 1999 - 24/1 2000    177.170,00

Samtals óbætt tjón með vöxtum til 1/2 2000 5.479.145,00

Stefnandi rökstyður fjárhæð bótakröfu sinnar þannig í stefnu:

Tímabundið örorkutjón stefnanda skv. 2. gr. skaðabótalaga er byggt á örorkumati Atla Þórs Ólasonar dr. med. frá 24. janúar 2000 en því er nánar lýst hér að ofan.  Þegar slysið átti sér stað hefði stefnandi stundað vinnu í versluninni Vöruval Bolungarvík hf. í Bolungarvík og skv. framlögðum launaseðli hefði hún unnið þar í 11 vikur og fengið greiddar kr. 240.704,00 eða sem næst kr 21.880,00 á viku. Krafa stefnanda skv. þessum lið sé miðuð við það að stefnandi hefði a.m.k. getað aflað sér samsvarandi tekna, enda verði að telja að staðgengill hennar hafi fengið sömu laun.

Þjáningabætur stefnanda skv. 3. gr, skaðabótalaga kveður stefnandi byggðar á örorkumati Atla Þórs Ólasonar dr. med. frá 24. janúar 2000, en dr. Atli meti að stefnandi hafi verið rúmliggjandi 6 daga og batnandi án þess að vera rúmliggjandi 479 daga og miði dr. Atli þjáningatíma við allt tímabilið frá slysdegi þar til stefnandi hefði gengist undir allar aðgerðir en það var 1. 3. 1999. Mat dr. Atla sé lagt til grundvallar fjárhæðum skv. þessum lið. Varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga sé byggður á örorkumati Atla Þórs Ólasonar dr. med. frá 24. janúar 2000 en dr. Atli meti varanlegan miska stefnanda 18% og sé það lagt til grundvallar fjárhæðum skv. þessum lið.

Varanleg örorka stefnanda skv. 5. gr. skaðabótalaga sé byggð á því að tekjur stefnanda hafi verið óeðlilega lágar síðustu 12 mánuði fyrir slysið. Þessar lágu tekjur verði alfarið raktar til veikinda sem stefnandi hafi átt við að stríða, en hún hafi um tíma verið haldin miklu þunglyndi og m.a. þurft að vistast á geðsjúkrahúsi af þeim sökum. Þegar slysið varð, hefði stefnandi náð umtalsverðum bata og dvalist í foreldrahúsum. Hún hefði þá unnið um 11 vikna skeið í versluninni Vöruval Bolungarvík hf. á fremur lágum launum en meiri hluta þeirra 12 mánaða, sem bæri að miða við, hefði hún verið tekjulítil vegna veikinda.

Það sé því lagt til grundvallar fjárhæðum skv. þessum lið að stefnandi hefði átt möguleika á að afla sér tekna sem jafnist á við það lágmark sem núgildandi skaðabótalög geri ráð fyrir. Að öðru leyti séu fjárhæðir byggðar á 5. gr. skaðabótalaga og örorkumati Atla Þórs Ólasonar dr. med. frá 24. janúar 2000.  Vaxtakrafan sé byggð á 2% vaxtafæti til 1. maí 1999 en 4,5% vaxtafæti frá þeim tíma þar til stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. var sannanlega kunnugt um niðurstöður örorkumatsins. Sé þá byggt á því að bótakrafan beri þá vexti sem lög mæli fyrir um hverju sinni en ákvörðun um hækkun vaxtafótarins hafi ráðist af breyttum aðstæðum á sviði fjármála í þjóðfélaginu. Ekki sýnist vafi á því að breytingar á vöxtum og dráttarvöxtum taki almennt til krafna, sem stofnast hafi fyrir breytingarnar, en ekki einungis til krafna sem stofnist til eftir slíkar vaxtabreytingar.

Stefnandi byggir dráttarvaxtakröfu sína á því að stefndu beri að greiða dráttarvexti í samræmi við III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma sem þeim var kunnugt um örorkumatið.

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur varastefndum á því að varastefndi Gunnsteinn Már Þorsteinsson, ökumaður fólksbifreiðarinnar R-8748, sem stefnandi var farþegi í er hún slasaðist, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar, beri sameiginlega fjárhagslega ábyrgð á tjóni því, sem stefnandi varð fyrir vegna áverka sem hún hafi hlotið þegar bifreiðinni R-8748 var ekið á miklum hraða og rekist harkalega utan í austurhlið Vestfjarðaganganna.

Stefnandi byggir á því að Gunnsteinn Már Þorsteinsson hafi, með því að aka bifreiðinni undir miklum áfengisáhrifum, ökuréttindalaus, á ofsahraða í Vestfjarðagöngum, átt sök á og verið valdur að tjóni stefnanda og ólögmæt hegðun hans og aksturslag, sem braut í bága við umferðalög, hafi verið orsökin fyrir líkamsáverka stefnanda. Stefnandi kveður á því byggt að Gunnsteinn Már beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda eftir almennum skaðabótareglum. Í þessu efni er vísað til 3. mgr. 90. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

Að því er varðar ábyrgðartryggjandann Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sé byggt á því að félagið beri ábyrgð á greiðslu bótakröfunnar á grundvelli 91. gr. umferðalaga nr. 50/1997.

Að því er varðar rökstuðning fyrir fjárhæð bóta, vaxta og dráttarvaxta skv. varakröfunni vísar stefnandi alfarið til rökstuðnings fyrir fjárhæð bóta skv. aðalkröfunni sem sé eins og varakrafan að þessu leyti.

Málskostnaðarkrafa er byggð á ákvæðum 129. sbr 130. gr. og 1. mgr. 132. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hafi fengið gjafsókn í málinu og sé þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar, þar með talin lögmannsþóknun, matskostnaður, kostnaður við læknisvottorð, útlagður kostnaður, vextir af útlögðum kostnaði og allur annar kostnaður af málssókn þessari, skv. málskostnaðarreikningi, allt eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hún hafi hvorki vitað né mátt vita um ölvunarástand varastefnda Gunnsteins Más en stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.  Stefnandi hafi hins vegar sýnt sérstakan áhuga á því að til akstursins veldist ódrukkinn ökumaður.

Þá er á því byggt að Ísland hafi með lögum nr. 2/1993, 3. gr., skuldbundið sig til að skýra lög og reglur og haga dómvenju til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggjast.  Því sé byggt á því að íslenskum dómstólum beri að túlka lög og reglur um ábyrgðartryggingu ökutækja í samræmi við ökutækjatilskipanir ESB sem séu hluti af EES samningnum.  Þá er enn fremur vísað til ráðgefandi álits EFTA dómstólsins frá 17. nóvember 1999 í máli Veroniku Finanger.

Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987, einkum kafla um fébætur og vátryggingu, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, EES samningsins og ökutækjatilskipana ESB.  Varðandi dráttarvexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 en krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála og um samaðild og varaaðild er vísað til 1. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. sömu laga.

IV

Aðalstefndu Guðbergur Ingólfur Arnarsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. byggja aðalkröfu sína á því að stefnanda hefði ekki getað dulist að varastefndi Gunnsteinn Már hefði verið undir áhrifum áfengis þegar hún fékk hann til akstursins og henni hafi því mátt vera ljóst að hann var ófær um að aka. enda hefði áfengismagn í blóði hans mælst 1.83 prómill tveimur tímum eftir slysið.  Jafnframt hefði hún vitað að varastefndi Gunnsteinn Már væri ökuréttindalaus.  Gera verði auknar kröfur til stefnanda um aðgæslu í þessum efnum þegar hún er síðla nætur í samkvæmi, þar sem áfengi er haft um hönd, að útvega sér ökumann til aksturs bifreiðar, sem hún hefði haft forræði á, og breyti ölvunarástand hennar sjálfrar hér engu um.  Stefnandi hefði því tekið á sig verulega áhættu og sýnt stórkostlegt gáleysi þegar hún undir þessum kringumstæðum hefði fengið ölvaðan mann til akstursins og tekið sér far með honum og leiði það til þess að bótaréttur hennar vegna slyssins falli niður.  Er að þessu leyti vísað til 3. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga svo og 18. og 20. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 en einnig til meginreglna skaðabótaréttar um réttaráhrif áhættutöku skv. dómvenju.  Þá vísa stefndu til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1996 bls. 3120 auk fleiri dóma.

Varakröfu sína byggja aðalstefndu á því að verði framangreindum lagarökum þeirra varðandi missi alls bótaréttar vegna áhættutöku eða stórkostlegs gáleysis hafnað, beri engu að síður að lækka stefnukröfur vegna eigin sakar stefnanda sem sýnt hefði af sér stórkostlegt gáleysi.

Varastefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vísar til sömu raka og hér að framan eru rakin varðandi kröfur félagsins að því er varðar varakröfu stefnanda.

Af hálfu stefndu er sérstaklega mótmælt þeim lagarökum stefnanda að ráðgefandi álit EFTA dómstólsins í máli Veroniku Finanger á hendur norska ríkinu frá 17. nóvember 1999 eigi að hafa réttarverkun hér á landi.  Slík ráðgefandi álit geti ekki breytt gildandi rétti á Íslandi auk þess sem ekki sé um að ræða sambærileg tilvik og því hafi málið ekki fordæmisgildi í þessu máli.  Álitið fjalli um réttarstöðu aðila sem aðgerðarlaus taki sér far með farartæki sem ekið sé af ökumanni undir áhrifum áfengis.  Í þessu máli sé það stefnandi sem velji ökumanninn og afhendi honum síðan umráð ökutækisins.

Verði hins vegar talið að álitið breyti gildandi rétti á Íslandi, er því mótmælt að það geti haft afturvirk áhrif en slysið hafi orðið löngu fyrir tilurð þess.

V

Ágreiningur aðila snýst að því er varðar bótarétt stefnanda um það hvort stefnanda hafi verið eða mátt vera ljóst að varastefndi Gunnsteinn Már var undir áhrifum áfengis og ökuréttindalaus þegar hún fékk hann til að aka bifreiðinni R-8748 og eigi af þeim sökum ekki rétt á bótum.   Þá er einnig ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta.  Hvorki er deilt um tjón stefnanda né útreikninga á umfangi tjóns hennar.

Um ástand varastefnda að loknum akstri segir í lögregluskýrslu dagsettri 1. nóvember 1997 að öndunarsýnismæling af varastefnda Gunnsteini Má hafi leitt í ljós 1.65 prómill áfengismagn í blóði hans og að hann hefði sýnt greinileg merki ölvunar, framburður verið ruglingslegur, málfar óskýrt og sjáöldur útvíkkuð.  Enn fremur segir síðar í skýrslunni að erfitt hafi verið að ræða við hann vegna ölvunar og hafi framburður hans verið ruglingslegur og samhengislaus.  Þá kemur einnig fram að varastefndi Gunnsteinn Már hafi aldrei öðlast ökuréttindi.  Blóðsýni var tekið úr varastefnda klukkan 6:15 um morguninn og við rannsókn þess kom í ljós að magn alkóhóls í blóði hans reyndist vera 1.83 prómill. Margrét K Guðbjartsdóttir, vinkona stefnanda, segir í lögregluskýrslu að hún hafi spurt varastefnda Gunnstein Má hvort hann væri ekki ölvaður en hann hefði þvertekið fyrir það að hafa neytt áfengis og kvaðst hún enn fremur ekki hafa séð á honum að hann væri ölvaður og ekki hafa grunað að hann væri ekki með ökuréttindi.  Varastefndi Gunnsteinn Már neitaði því hjá lögreglu að hafa fullyrt við Margréti að hann væri ekki ölvaður.

Með vísan til framaritaðs, en þó sérstaklega lýsingar lögreglu og niðurstaðna mælinga á áfengismagni í blóði, er fallist á það með aðalstefndu Guðbergi Ingólfi og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að stefnanda hefði mátt vera ljóst ölvunarástand varastefnda Gunnsteins Más og breytir framburður vitnisins Margrétar K. Guðbjartsdóttur ekki þeirri niðurstöðu.  Stefnandi þykir því hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að fá varastefnda Gunnstein Má til að aka bifreiðinni fyrir sig umrætt sinn og að taka sér far með honum. 

Í vettvangslýsingu lögreglu í skýrslu dags. 3. nóvember 1997 segir að svo virðist sem bifreiðinni R-8748 hafi verið ekið tvisvar út af akbrautinni inni í Vestfjarðagöngunum og á gátskildi og síðan ekið alveg við gangavegginn og bifreiðin rekist nokkrum sinnum í vegginn þar til hún stöðvaðist.  Er í sömu skýrslu haft eftir stefnanda að á leiðinni upp brekkuna að jarðgöngunum hafi varastefndi Gunnsteinn Már aukið hraða bifreiðarinnar mjög og ekið svo mjög nærri bifreið, sem hann ók fram úr, að hún teldi að bifreiðirnar hefðu rekist saman.  Inni í göngunum hefði hraðamælir bifreiðarinnar sýnt 140 km. hraða m/v klukkustund.  Hefði varastefndi Gunnsteinn Már ekið nokkrum sinnum með hægri hliðina utan í vegg ganganna og á endanum hefði bifreiðin stöðvast utan í veggnum með hægri hliðina fasta við vegginn.  Jafnframt kemur fram í skýrslu af stefnanda að þegar bifreiðin lenti síðast á veggnum hafi hún rekið hægri handlegginn í hliðarrúðuna hennar megin, rúðan brotnað og hafi stefnandi rekið handlegginn í vegg ganganna og handleggurinn við það brotnað sitt hvoru megin við úlnliðinn. 

Af framanrituðu þykir í ljós leitt að slys stefnanda varð fyrir óvarlegan akstur varastefnda Gunnsteins Más sem rekja má til ölvunar hans.  Auk þess hafði varastefndi ekki ökuréttindi, enda ekki náð lögboðnum aldri til að öðlast þau og mjög ósennilega hefur hann verið vanur akstri bifreiða.

Eins og að framan greinir er niðurstaða dómsins sú að stefnanda hafi mátt vera ljóst áður en ökuferðin hófst, að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og sýnt af sér stórfellt gáleysi að fá hann til að aka bifreiðinni og að taka sér far með honum.

Samkvæmt dómvenju, sem lengi hefur verið byggt á hér á landi við úrlausn ágreiningsefna eins og aðilar þessa máls deila um, sjá t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá árinu 1996 bls. 3120, þykir ljóst að stefnandi hafi sýnt af sér það gáleysi sem leiði til þess að samkvæmt dómvenjunni eigi hún ekki rétt á skaðabótum fyrir það tjón sem hún varð fyrir.

Því er hins vegar haldið fram af hálfu stefnanda að þótt svo kunni að vera eigi hún engu að síður rétt á bótum samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins, sem á eftir verður getið, og dómvenjan stangist á við.

Við mat á því hvort svo sé verður fyrst að kanna efni EES réttarins að þessu leyti og athuga svo nefndar ökutækjatilskipanir um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja o.fl. nr. 72/166/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE.  Megintilgangur tilskipananna er að koma á óhindruðum vöruviðskiptum og frjálsum ferðum manna og gæta hagsmuna þeirra sem kunna að verða fórnarlömb slysa sem ökutæki valda.  Þessar ökutækjatilskipanir hafa ekki verið lögfestar hér á landi. 

Í tilskipun 72/166/EBE kemur fram að stefnt sé að því að í löggjöf aðildarríkjanna sé gert ráð fyrir lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja, sem gildi alls staðar í bandalaginu.  Þar segir jafnframt að sérhvert aðildarríki skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sá, sem ábyrgð ber á ökutæki og notkun þess og að öllu jöfnu er staðsett á yfirráðasvæði þess ríkis, hafi gilda vátryggingu.  Með tilskipun 84/5/EBE var enn unnið að því að minnka ósamræmið milli löggjafar aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingar ökutækja þar sem ósamræmi í þessum efnum var talið hafa bein áhrif á stofnun og starfsemi hins sameiginlega markaðar.  Síðan er í síðarnefndu tilskipuninni mælt fyrir um ákveðið lágmark vátryggingarfjárhæðar fyrir líkamstjón og munatjón.

Í tilskipun 90/232/EBE er áréttað að eyða beri allri óvissu um beitingu ákvæðis tilskipunar 72/166/EBE um að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að vátryggingarsamningar taki til tjóns sem verður í öðrum aðildarríkjum.  Þriðja tilskipunin mælir einnig fyrir um að ganga skuli út frá öflugri neytendavernd og þar kemur fram í 1. gr. að vátrygging ökutækja nái til ábyrgðar vegna allra farþega, að ökumanni undanskildum, þegar líkamstjón hlýst af notkun ökutækis.

Við skýringu á því hvort stefnandi kunni að geta byggt rétt til bóta á framangreindum tilskipunum Evrópusambandsins verður að líta til þess að af 7. gr. EES samningsins og bókun 35 við hann leiðir að EES samningurinn felur ekki í sér framsal löggjafarvalds.  EES samningurinn er þjóðréttarsamningur aðildarríkja Evrópusambandsins og EFTA og ber EFTA ríkjunum að haga löggjöf sinni í samræmi við ákvæði samningsins með þeim aðferðum sem þeim eru tiltækar að landsrétti sínum.  Um framkvæmd EES reglna segir í bókun 35 að með samningnum sé stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins.  Síðan segir í bókuninni að vegna tilvika þar sem komið geti til árekstra á milli EES reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga skuldbindi EFTA ríkin sig til að setja, ef þörf krefji, lagaákvæði þess efnis að EES reglur gildi í þeim tilvikum.  Þá er í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið mælt fyrir um að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Fram kemur í fylgiskjali I með samningnum að aðildarríkin hafi ákveðið að hafa í huga það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði, sem grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila.  Þá stefna ríkin að því, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samningsins og þeirra ákvæða í löggjöfinni, sem tekin eru efnislega upp í samninginn, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði.

Hinn 17. nóvember 1999 gaf EFTA dómstóllinn ráðgefandi álit að beiðni Hæstaréttar Noregs eins og fyrr er fram komið sem þykir veita leiðbeiningu við skýringu á réttarstöðu stefnanda, enda þótt álitsins hafi ekki verið aflað við rekstur þessa máls.

Málsatvik í ofangreindu máli Storebrand Skadeforskikring AS gegn Veronika Finanger fyrir Hæstarétti Noregs voru í meginatriðum þau, að tjónþoli krafðist bóta hjá tryggingafélagi vegna slyss sem hún lenti í sem farþegi í bifreið sem ekið var út af vegi af ölvuðum ökumanni.  Tryggingafélagið hafnaði kröfu tjónþolans með vísan til ákvæðis norsku bifreiðatryggingalaganna þess efnis að tjónþoli fái ekki bætur hafi hann haft vitneskju um eða hlotið að vita að ökumaður bifreiðarinnar var undir áhrifum áfengis.  Málsatvik norska hæstaréttarmálsins og þess, sem hér er til úrlausnar, eru sambærileg að því leyti sem hér um ræðir, þ.e. í báðum málunum er það til úrlausnar að skera úr um hverju það varðar um bótarétt farþega að hann vissi eða mátti vita að ökumaður ökutækisins, sem hann var farþegi í, var undir áhrifum áfengis.

Hæstiréttur Noregs óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins á því hvort það væri ósamrýmanlegt EES rétti að farþegi, sem verður fyrir tjóni með því að hafa sjálfviljugur verið í vélknúnu ökutæki, eigi ekki rétt á bótum nema sérstakar aðstæður liggi þar til grundvallar, ef farþeginn vissi eða mátti vita að ökumaður hins vélknúna ökutækis hefði verið undir áhrifum áfengis á þeim tíma er slysið varð og orsakatengsl hafi verið milli áfengisáhrifanna og tjónsins.

EFTA dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki í samræmi við EES rétt, þ.e. tilskipanir 72/166/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE, að farþegi, sem verður fyrir líkamstjóni við að hafa sjálfviljugur verið í vélknúnu ökutæki, eigi ekki rétt á bótum nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, hafi farþeginn vitað eða hlotið að vita að ökumaður vélknúna ökutækisins hefði verið undir áhrifum áfengis þegar slysið átti sér stað og að orsakatengsl hafi verið milli áfengisáhrifanna og líkamstjónsins en norska lagareglan kveður á um að bætur falli niður í því tilviki líkt og íslenska dómvenjan gerir.

Aðalbótareglu umferðarlaga nr. 50/1987 er að finna í upphafi 1. mgr. 88. gr.  Í henni felst að þeim, sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki, beri að bæta það tjón, sem hlýst af notkun þess, enda þótt tjónið verði hvorki rakið til bilunar eða galla á tækinu né ógætni ökumanns.  Síðan segir í 2. mgr. greinarinnar að bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða gáleysi.  Framangreindar lagareglur verða ekki taldar ganga gegn ökutækjatilskipunum EES samningsins að þessu leyti en hins vegar er ljóst að framangreind dómvenja íslensks réttar verður ekki talin samrýmast tilskipununum.

Með vísan til þessa og þjóðréttarlegrar skuldbindingar EES ríkjanna til að skýra ríkisréttinn til samræmis við EES samninginn er það niðurstaða dómsins að ekki verði byggt á því við úrlausn þessa máls að fella beri niður bætur skv. 1. mgr. 88. gr. og 90. gr. umferðarlaga til stefndu á grundvelli dómvenju þess efnis að sá sem tekur sér far í ökutæki með drukknum ökumanni njóti ekki bótaréttar. Dómvenja þessi á sér ekki stoð í tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga og verður að telja að hún leiði til niðurstöðu sem gangi gegn tilvitnuðum tilskipunum Evrópusambandsins.

Með vísan til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga þykir hins vegar rétt að færa bætur stefnanda niður um helming þar eð telja verður að hún hafi gerst með nokkrum hætti meðvöld að tjóninu af stórkostlegu gáleysi með því að þiggja boð varastefnda Gunnsteins Más um að aka bifreiðinni R-8748 sem stefnandi var með að láni.  Við það mat er litið til þess sem áður sagði um að stefnanda hefði mátt vera ljóst að varastefndi Gunnsteinn Már var undir áhrifum áfengis þegar stefnandi þáði boðið.

Hvorki er deilt um framlagt örorkumat, grundvöll útreikninga né útreikningana sjálfa á tjóni stefnanda og er því miðað við að það nemi kr. 5.146.550,00.  Verða aðalstefndu því dæmdir til að greiða stefnanda óskipt helming þeirrar fjárhæðar, kr. 2.573.275, með vöxtum eins og í dómsorði greinir.  Við ákvörðun á upphafstíma dráttarvaxta verður að líta til þess að í málinu er í niðurstöðu vikið frá ríkjandi dómvenju í sambærilegum málum og því eðlilegt að dráttarvextir reiknist frá dómsuppkvaðningardegi þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir.

Aðalstefndu greiði stefnanda kr. 886.400 í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 886.400 greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Jóhanns H. Níelssonar hrl., kr. 800.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

Þar sem kröfur stefnanda á hendur aðalstefndu eru teknar til greina verður ekki fjallað um kröfur stefnanda á hendur varastefndu. 

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Aðalstefndu, Guðbergur Ingólfur Arnarson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt stefnanda kr. 2.573.275 með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. nóvember 1997 til dómsuppkvaðningardags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu greiði stefnanda óskipt kr. 886.400 í málskostnað sem renni í ríkissjóð. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal laun lögmanns hennar, Jóhanns H. Níelssonar hrl., kr. 800.000.