Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2011
Lykilorð
- Kæra
- Kærumál
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 377/2011.
|
Perú ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
P ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli félagsins á hendur Í hf. var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skyldi í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún væri reist á. Þessa hefði P ehf. í engu gætt. Úr þeim annmarka hefði ekki verið bætt þótt málsástæðum P ehf. hefðu stuttlega verið gerð skil í greinargerð fyrir Hæstarétti. Varð því ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóm réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Í kæru sóknaraðila var því lýst að með henni væri kærður til Hæstaréttar úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2011, þar sem nánar tilteknu máli sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi verið vísað frá dómi, ásamt því að vísað var til áðurgreinds lagaákvæðis sem heimildar fyrir málskoti. Þar var einnig tekið fram hvers sóknaraðili krefðist fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti var meginmál þessa skjals svohljóðandi: „Sóknaraðili mun skila greinargerð til hæstaréttar þegar gögn málsins hafa verið send réttinum og mun leggja sem nýtt gagn fyrir dóminn bréf lögmanns skilanefndar Glitnis banka hf. dags. 10. maí 2011 þar sem fram kemur að skilanefndin hafi innleyst inneignir kæranda á reikningum hjá varnaraðila. Kærugjald kr. 50.000 fylgir.“ Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 skal í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún er reist á. Þessa gætti sóknaraðili í engu. Úr þeim annmarka var ekki bætt þótt málsástæðum hans hafi stuttlega verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi og verður því ekki komist hjá að vísa málinu frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóm réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Perú ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 11. apríl sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað fyrir dómþinginu af Perú ehf., á hendur Íslandsbanka hf., með stefnu áritaðri um birtingu 30. nóvember 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 41.109.438 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, sér að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Hinn 11. apríl 2011 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi var í viðskiptum við Glitni banka hf., á árinu 2008. Hafði stefnandi verið flokkaður sem fagfjárfestir af Glitni banka hf.
Hinn 15. febrúar 2008, undirrituðu stefnandi og Glitnir banki hf., handveðsyfirlýsingu, þar sem stefnandi setti öll peningamarkaðsinnlán sín í Glitni banka hf., að veði til tryggingar öllum skuldbindingum sínum við Glitni banka hf. Sama dag skrifaði stefnandi undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf.
Stefnandi kveður, að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi lagt fyrir hann til undirritunar, hinn 21. febrúar 2008, gjaldmiðlaskiptasamning, en stefnandi hafi hafnað því sökum þess að ekki væri um að ræða þau viðskipti sem um hafi verið rætt milli aðila auk þess sem hann hefði ekki þekkingu á grundvelli afleiðusamninga. Kveður stefnandi að skilanefnd Glitnis banka hf. hafi staðfest staðhæfingu hans um að hann hafi ekki undirritað gjaldmiðlaskiptasamninga.
Stefndi kveður, að samkvæmt upplýsingum frá Glitni banka hf. hafi tekist samningar með stefnanda og Glitni banka hf.um gjaldmiðlaviðskipti hinn 21. febrúar 2008. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi og Glitnir banki hf. skipst á íslenskum krónum og Bandaríkjadölum eins og nánar sé tilgreint í samningnum. Samningurinn hafi síðan verið leiðréttur hinn 15. apríl 2008 og framlengdur hinn 15. júlí 2008.
Stefnandi stofnaði tvo peningamarkaðsinnlánsreikninga í Glitni banka hf., annar er í EUR og er hann númer 898448. Staðan á þeim reikningi hinn 31. desember 2009 var EUR 149.548,54. Hinn reikningurinn er í krónum og er hann númer 898409. Staða á þeim reikningi var 15.576.202 krónur hinn 31. desember 2009.
Í veðsamningi þeim sem stefnandi skrifaði undir kemur fram að til tryggingar öllum skuldum sínum við Glitni banka hf. setji stefnandi að veði „allra peningamarkaðsinnlána viðskiptamanns hjá bankanaum eins og þær eru á hverjum tíma þ.m.t. vextir, gengismunur og verðbætur“. Þá komi einnig fram í handveðsyfirlýsingunni að það sé aðeins Glitnir banki hf. sem hafi aðgang að hinu veðsetta og veðsala sé óheimilt án samþykkis veðhafa að taka fé út af hinum veðsetta reikningi.
Hinn 14. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun á grundvelli heimildar í 100. gr. a. í lögum nr. 16/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Í ákvörðuninni var sérstaklega getið um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. Samkvæmt 7. tölulið ákvörðunarinnar tók Nýi Glitnir banki hf., síðar Íslandsbanki, yfir skuldbindingar í útibúum Glitnis banka hf. vegna innlána frá viðskiptavinum sínum. Hins vegar segi í 1. tölulið ákvörðunarinnar að „réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningnum flytjist ekki yfir til Nýja Glitni banka hf.“. Stefndi kveður að af þeim ástæðum séu PM-innlán þau sem stefnandi krefjist greiðslu á í vörslum stefnda, og sé það með öllu ágreiningslaust. Hins vegar sé ljóst að stefndi sé hvorki aðili að gjaldmiðlasamningi þeim sem að ofan greini, né fyrirliggjandi handveðssamningi heldur sé hann vörsluaðili handveðsins og beri ábyrgð sem slíkur að lögum.
Stefnandi kveðst hafa óskað eftir því um haustið 2008 að inneignir hans væru greiddar út án þess að tilmælum hans væri sinnt. Þegar þessar inneignir hafi ekki komið fram í heimabanka hafi bankinn svarað því til að peningamarkaðsinnlán kæmu ekki fram í heimabanka, en staðfest, hinn 6. október 2008, að stefnandi ætti inni tvö svokölluð peningamarkaðsinnlán.
Hinn 31. október 2008 krafðist stefnandi þess að inneignir hans frá lokadegi 10. október 2008 yrðu lagðar inn á reikning hans í banka 515. Starfsmaður stefnda hafi þá tilkynnt að innlánin væru handveðsett og ekki væri unnt að leysa þau út að sinni.
Stefnandi krafði skilanefnd Glitnis banka hf. um greiðslu á skuld samkvæmt ofangreindum gjaldmiðlaskiptasamningi, með innheimtubréfi dagsettu 17. september 2009. Kveður stefndi að skuld stefnanda á þeim degi hafi numið 481.004.205 krónum.
Með bréfi, dagsettu 9. apríl 2010, sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf, þar sem þess er krafist að bankinn greiði út, án undandráttar, fjármuni, sem hann hafi lagt inn hjá bankanum í janúar 2008, ásamt áunnum vöxtum og kostnaði.
Stefndi svaraði fyrrgreindu bréfi stefnanda með tölvupósti, dagsettum 25. maí 2010, þar sem stefnanda var bent á að öll PM-innlán stefnanda væru veðsett Glitni banka hf. vegna afleiðuviðskipta stefnanda við Glitni banka hf. og var stefnanda bent á að hafa samband við starfsmann Glitnis banka hf.
Í tölvupósti starfsmanns Glitnis banka hf. til stefnanda, dagsettum 26. maí 2010, kemur fram sú afstaða Glitnis banka hf. að þrátt fyrir að umræddir samningar hafi ekki verið undirritaðir sé um bindandi samninga að ræða, og sé þar m.a. vísað til endursagnar símasamskipta stefnanda og Glitnis banka hf., sem stefnanda var sent afrit af.
Með tölvupósti, dagsettum 15. febrúar 2011, frá starfsmanni Glitnis banka hf. til starfsmanns Íslandsbanka hf., kemur fram að krafa vegna ofangreindra gjaldmiðlaskiptasamninga sé til innheimtu hjá Glitni banka hf. og PM-innlán stefnanda, sem séu í vörslum Íslandsbanka hf., standi til tryggingar þeirri kröfu samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dagsettri 15. febrúar 2006.
III
Stefna í máli þessu er skipt upp í undirkafla með fyrirsögnunum, fyrirsvar, dómkröfur, málsatvik, lagarök, sönnunargögn, skýrslugjöf og fyrirkall. Í málsatvikakafla í stefnu rekur stefnandi másatvik eins og þau snúa að honum. Kemur þar m.a. fram að hann hafi undirritað ýmis gögn að fyrirlagi starfsmanna Glitnis banka hf., svo sem handveðsetningu verðbréfasafns, allsherjarveð, handveðsyfirlýsingu innstæðna allra peningamarkaðsinnlána, samþykki, upplýsingar um mat á hæfi fjárfestingaþjónustu og fjármálagerninga og almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. Hafi stefnandi verið flokkaður af bankanum sem fagfjárfestir, án þess að til þess stæðu nokkur rök. Þá hafi starfsmenn bankans lagt fyrir hann til undirritunar hinn 21. febrúar 2008, gjaldmiðlaskiptasamning, sem hann hafi hafnað að undirrita á grundvelli þess að það væru ekki þau viðskipti sem um hafi verið rætt milli aðila, auk þess sem hann hefði ekki þekkingu á grundvelli afleiðusamninga. Stefnandi hafi síðan haustið 2008 óskað eftir að inneignir hans væru greiddar út, án árangurs. Hafi starfsmaður stefnda tilkynnt honum að innlánin væru handveðsett og ekki unnt að leysa þau út að sinni. Stefnandi kveður að í viðtali við starfsmann stefnda, hinn 10. nóvember 2008, hafi hann staðfest að þeir samningar sem bankinn hafi lagt fyrir hann væru annars efnis en um hafi verið rætt og hafi stefnandi aldrei samþykkt eða undirritað gögnin. Hafi skilanefnd Glitnis banka hf. staðfest staðhæfingar hans þessa efnis. Hann hafi því krafist þess að fá inneignirnar greiddar út, en að baki veðsetningunni hafi engar skuldbindingar verið. Skilanefnd bankans hafi sent stefnanda innheimtubréf í nóvember 2009, en stefnandi hafi mótmælt kröfunni skriflega. Skilanefndin hafi ekki haldið ætluðum kröfum fram með málsókn. Skilanefndin hafi staðfest formlega, með bréfi lögmanns, að stefnandi hafi engar skuldbindingar undirritað. Þessi yfirlýsing feli í sér þá málflutningsyfirlýsingu að verðtryggingarnar geymi engar skuldbindingar. Stefnandi hafi falið lögmanni sínum að innheimta kröfur hjá stefnda og hafi með bréfi, dagsettu 9. apríl 2010, til bankastjóra stefnda, verið óskað eftir útborgun inneignar. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað. Lögmaður stefnanda hafi síðan átt í miklum bréfaskiptum við starfsmenn stefnda og skilanefndar, sbr. framlögð tölvuskeyti. Í stefnu er síðan fjórtán tölvuskeyti og innhald þeirra rituð á þremur bls. Í stefnu er síðan greint frá því, að: „Samkvæmt upplýsingum stefnda, sbr. tölvupóstur Haraldar Arnar Ólafssonar, hdl., dags. 12. ágúst sl., námu inneignir stefnanda hinn 10.10.2008 með áunnum vöxtum þann dag
|
ísl. kr. 13.602.367,oo |
|
|
áunnir vextir 606.280,oo |
kr. 14.208.647,oo |
|
í Evrum 149.548 x gengi |
kr. 26.900.791,oo |
|
Samtals |
kr. 41.109.438,oo |
sem er stefnufjárhæðin, auk dráttarvaxta frá 10. október 2008.
Stefnandi ætlar að ekki sé tölulegur ágreiningur með málsaðilum heldur neiti stefndi útborgun þar sem skilanefnd Glitnis banka hf. telji sig njóta veðtryggingar í inneignum.
Með bréfi 21. september 2010, var bankinn krafinn greiðslu inneignar en kröfum var hafnað með bréfi stefnda, dags. 12. október 2010.
Með vísan til ofanritaðs er stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál þetta.“ Að öðru leyti er ekki gerð grein fyrir málsástæðum stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi til samningalaga nr. 7/1936, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, meginreglna kröfuréttar og almennra reglna fjármunaréttar.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því, að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga um skýran og ljósan málatilbúnað, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Af málatilbúnaði stefnanda verði ekki annað ráðið en að hann viðurkenni gildi handveðsyfirlýsingar þeirrar sem stofnað hafi til veðréttar yfir PM-innlánum stefnanda hjá stefnda, en stefnandi telji hins vegar að engar skuldbindingar hafi stofnast eða séu til staðar nú, sem falli undir veðtryggingu þá sem stofnað hafi verið til með fyrrgreindri handveðsyfirlýsingu.
Stefndi sé hvorki aðili að fyrrgreindri handveðsyfirlýsingu né þeim skuldbindingum sem Glitnir banki hf. telji að hafi stofnast milli sín og stefnanda og tryggðar séu með ofangreindri handveðsyfirlýsingu. Telur stefndi því verulega skorta upp á skýringar á því í málatilbúnaði stefnanda af hvaða ástæðum hann telji að stefnda sem vörslumanni handveðsins sé skylt að verða við fyrirmælum hans og láta af hendi þá fjármuni sem séu í vörslum hans og óumdeilt sé að falli undir veðtryggingu þá sem stofnað hafi verið til með ofangreindri handveðsyfirlýsingu. Óljóst sé með öllu hvaða stöðu stefnandi hafi ætlað stefnda í þessu máli.
Stefndi eigi af þessum sökum erfitt með að taka til varna í málinu, enda snerti eitt aðalþrætuefnið, þ.e. tilurð handveðsyfirlýsingarinnar og gildi gjaldmiðlaskiptasamninganna, hagsmuni sem stefndi beri ekki ábyrgð á að lögum. Málið sé vanreifað og beri að vísa því frá dómi af þeim sökum.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína einnig á því, að ekki verði tekin afstaða til dómkröfu stefnanda án þess að leggja mat á gildi handveðsyfirlýsingar þeirrar sem stofnað hafi til veðréttinda yfir PM-innlánum stefnanda hjá stefnda til tryggingar skuld stefnanda við Glitni banka hf.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 14. október 2008, komi skýrlega fram í 1. tölulið ákvörðunarinnar að afleiðusamningar flyttust ekki yfir til Nýja Glitnis banka hf., síðar Íslandsbanka, við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins, en þar segi eftirfarandi: „ Réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum flytjast ekki yfir til Nýja Glitnis banka hf.“
Óumdeilt sé því að stefndi sé ekki aðili að þessum samningum heldur Glitnir banki hf. sem sé kröfuhafi og veðhafi samkvæmt þeim. Byggir stefndi á því að úr kröfu stefnanda verði ekki leyst án aðkomu Glitnis banka hf. og því beri, af þeim sökum, að vísa málinu frá dómi með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefndi byggir einnig frávísunarkröfu sína á því, að stefndi sé aðeins vörsluaðili hins veðsetta og sé honum að lögum óheimilt að afhenda hið veðsetta nema sá sanni rétt sinn yfir greiðslunni sem telji sig eiga hana. Þar sem enn hafi ekki verið skorið úr um kröfu Glitnis banka hf. á hendur stefnanda samkvæmt ofangreindum gjaldmiðlaskiptasamningi, sem tryggður sé með veði í PM-innlánum stefnanda, hafi krafa stefnanda um greiðslu PM-innlánanna ekki enn stofnast gagnvart stefnda og beri því að vísa málinu frá dómi af þeim sökum að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu af peningamarkaðsreikningi, sem er í vörslum stefnda. Hefur stefndi neitað greiðslu, þar sem reikningur þessi hafi verið handveðsettur Glitni banka hf. vegna viðskipta stefnanda og Glitnis banka hf. vegna gjaldmiðlaskiptasamninga. Samkvæmt upplýsingum stefnda sé stefnandi í skuld við Glitni banka hf. vegna þessara samninga og því sé honum óheimilt að afhenda veðið.
Af framangreindum lýsingum stefnanda í stefnu, þar sem m.a. eru tekin upp tölvupóstsamskipti stefnanda og lögmanns hans við starfsmenn stefnda og starfsmenn Glitnis banka hf., má ráða að ágreiningur er um gildi áðurgreindra afleiðusamninga. Hins vegar er hvergi í stefnu vikið að málsástæðum eða á hvaða grunni stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda. Í stefnu verður ekki séð á hverju stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda, en af málatilbúnaði hans má ráða að hann viðurkenni að hafa undirritað umrætt handveð en mótmæli því að samningur um gjaldmiðlaviðskipti hafi komist á milli hans og Glitnis banka hf. Er og með öllu óljóst af stefnu hvers vegna stefnandi kýs að beina kröfu sinni, um gildi þeirra samninga, sem stefndi átti hvorki aðild að í upphafi né hefur öðlast réttindi yfir síðar, að stefnda. Telst því málatilbúnaður stefnanda svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið. Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefnda um frávísun málsins.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi úrskurðaður til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Perú ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 150.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.