Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur
  • Lögreglurannsókn


                                     

Þriðjudaginn 10. febrúar 2015.

Nr. 44/2015.

A Ltd.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Frestur. Lögreglurannsókn.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa G hf. um að máli, sem rekið var um ágreining um viðurkenningu kröfu A við slit G hf., yrði frestað þar til lokið væri tiltekinni rannsókn sérstaks saksóknara. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gæti dómari frestað einkamáli án kröfu fengi hann vitneskju um að rannsókn stæði yfir og telja mætti að úrslit hennar skipti verulega máli fyrir úrslit þess. Eins og G hf. hefði lagt fyrir kröfu sína væru engar forsendur til að leggja mat á hvort skilyrðum lagaákvæðisins gæti verið fullnægt. Þá hefði rekstur málsins verið í slíkri andstöðu við 1., 2., og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem og 1. og 2. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, um hraða málsmeðferð, að ekki gæti komið til álita að fresta því enn um ófyrirséðan tíma af þessari ástæðu, sem fyrst hefði verið hreyft meira en fimm árum eftir að A lýsti kröfu sinni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að máli, sem rekið er um ágreining um viðurkenningu kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila, yrði frestað „þar til lokið er rannsókn sérstaks saksóknara á útgáfu þeirrar ábyrgðar sem Glitnir banki hf. gaf út 26. ágúst 2008 og sóknaraðili ... byggir fjárkröfu sína við slit varnaraðila ... á.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að boða til aðalmeðferðar í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að víkja stjórn varnaraðila frá störfum, taka yfir vald hluthafafundar í honum og setja yfir hann skilanefnd. Varnaraðili var í framhaldi af því tekinn til slita 22. apríl 2009. Við slitin lýsti sóknaraðili 8. október 2009 kröfu að fjárhæð 10.750.000 sterlingspund og kom fram í kröfulýsingunni að hún væri reist á yfirlýsingu, sem varnaraðili hafi gefið út til sóknaraðila 26. ágúst 2008. Með henni hafi varnaraðili tekist á hendur ábyrgð fyrir skuldbindingum B ehf. samkvæmt tveimur samningum við sóknaraðila, annars vegar samningi þeirra frá 21. desember 2007, sem breytt hafi verið 27. ágúst 2008, um kaup félagsins á hlutabréfum í sóknaraðila og hins vegar samningi þess og C við sóknaraðila 1. janúar 2008, sem einnig hafi verið breytt 27. ágúst 2008, um svonefnda kostun vegna keppnisliðs sóknaraðila í [...]keppni sem kennd er við [...]. Ábyrgð vegna fyrrnefnda samningsins hafi numið 9.250.000 sterlingspundum en vegna þess síðarnefnda 10.750.000 sterlingspundum. Kröfulýsingin sneri eingöngu að þeim þætti ábyrgðarinnar, sem tók til samningsins um kostun á keppnisliði sóknaraðila, en hann kvaðst hafa gert reikning 16. október 2008 á hendur B ehf. fyrir síðastnefndri fjárhæð og með gjalddaga 20. nóvember sama ár. Með því að sá reikningur hafi ekki verið greiddur hafi sóknaraðili beint kröfu af því tilefni að varnaraðila 21. nóvember 2008 í skjóli ábyrgðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins tók slitastjórn varnaraðila ekki afstöðu til kröfulýsingar sóknaraðila fyrr en með bréfi 15. ágúst 2011, þar sem tilkynnt var að hafnað hafi verið að viðurkenna kröfuna. Á þessu voru þar ekki gefnar aðrar skýringar en þær að reglur um riftun í XX. kafla laga nr. 21/1991 tækju til kröfu sóknaraðila, auk þess sem gögn með kröfulýsingunni gæfu til kynna að víkjast mætti undan henni af fleiri ástæðum, sem var þó í engu getið. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu með bréfi 30. ágúst 2011 og efndi varnaraðili af því tilefni til fundar 20. janúar 2012 til að leitast við að jafna ágreining um kröfuna. Með því að sú viðleitni bar ekki árangur beindi varnaraðili ágreiningnum til héraðsdóms 10. febrúar 2012 og var mál þetta þingfest af því tilefni 7. mars sama ár.

Við þingfestingu málsins fékk sóknaraðili frest til að leggja fram greinargerð, en í þinghaldi 20. apríl 2012 lýsti hann þeirri skoðun að í áðurefndu bréfi varnaraðila til héraðsdóms 10. febrúar sama ár væri ófullnægjandi lýsing á ágreiningi þeirra, þar á meðal um forsendur varnaraðila fyrir að hafna að viðurkenna kröfu sóknaraðila, og gæti hann vart ritað greinargerð nema úr því yrði bætt. Af þessu tilefni lagði varnaraðili fram svonefnda bókun í þinghaldi 24. maí 2012, þar sem tilgreindar voru ástæður að baki afstöðu hans til kröfunnar. Fólust þær í meginatriðum í því að ábyrgðin, sem gefin hafi verið út til sóknaraðila 26. ágúst 2008, hafi í tilteknum atriðum verið andstæð ákvörðun lánanefndar varnaraðila um að veita hana, en hún hafi komið í stað sjálfskuldarábyrgðar C gagnvart sóknaraðila og hafi sá fyrrnefndi verið ráðandi hluthafi í varnaraðila þegar þetta var gert. Jafnframt hafi ábyrgðin verið örlætisgerningur í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 í þágu C og sóknaraðila, gallar hafi verið á yfirlýsingunni um hana, sóknaraðili hafi ekki haldið kröfu samkvæmt henni réttilega til laga, samningar milli sóknaraðila og B ehf., sem ábyrgðin hafi tekið til, hafi ekki verið undirritaðir á réttan hátt og breytingar á samningunum hafi aldrei komist á. Að auki byggði varnaraðili á því að fyrirsvarsmenn D hf., sem hafi átt B ehf., hafi ásamt sóknaraðila vitað um ógjaldfærni síðarnefnda félagsins og blekkt þannig varnaraðila til að veita ábyrgðina, svo og að samningar sóknaraðila hafi verið gerðir við B ehf. til málamynda, því að í reynd hafi þeir verið við D hf. Loks bar varnaraðili því við að ábyrgðin væri ógild að enskum lögum, annmarkar hafi verið á kröfulýsingu sóknaraðila, fjárhæð kröfu hans væri úr öllu hófi í samanburði við aðra samninga hans um kostun frá þessum tíma og lægi ekkert fyrir um að hann hafi fyrir sitt leyti efnt samninginn um það efni við B ehf. Á grundvelli þessa lagði sóknaraðili fram greinargerð í héraði 9. október 2012, en varnaraðili 14. desember sama ár.

Að framkomnum greinargerðum aðilanna var málið tekið fyrir í héraði fjórtán sinnum á tímabilinu frá 15. febrúar 2013 til 28. nóvember 2014, þar sem nær eingöngu voru lagðar fram álitsgerðir enskra lögmanna og önnur gögn í tengslum við enskar reglur um ábyrgðir og fjallað um atriði þessu tengd. Í þinghaldi síðastnefndan dag óskaði varnaraðili eftir því að málinu yrði enn frestað sökum þess að hann biði „gagna frá sérstökum saksóknara“, en þeirri ósk mótmælti sóknaraðili. Þetta ágreiningsefni var tekið til munnlegs málflutnings 10. desember 2014, en í því þinghaldi lagði varnaraðili fram bréf sérstaks saksóknara til sín frá 5. september sama ár. Í upphafi bréfsins sagði að það væri ritað í tilefni fyrirspurnar sama dag varðandi kæru varnaraðila 18. janúar 2013, sem sneri að „útgáfu ábyrgðaryfirlýsingar frá Glitni hf. til [A] vegna skuldbindinga [B] ehf.“ Þá sagði eftirfarandi í bréfinu: „Vegna fyrirspurnarinnar er því til að svara að rannsókn sakamáls á grundvelli umræddrar kæru slitastjórnar Glitnis banka hf. stendur yfir hjá embætti sérstaks saksóknara en ekki liggur fyrir hvenær henni muni ljúka. Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að þessu leyti.“ Með hinum kærða úrskurði var krafa varnaraðila um frestun málsins tekin til greina á þann hátt sem áður var getið.

II

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður einkamál, þar sem tekið hefur verið til varna, ávallt tekið fyrir í eitt skipti eftir að greinargerð stefnda hefur verið lögð fram til að undirbúa aðalmeðferð þess, en heimilt er dómara að verða við ósk aðila um að fresta máli frekar sé það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna, sem nægilegur frestur hefur ekki áður verið veittur til. Í síðari málslið 2. mgr. þessarar lagagreinar, sem er reist á þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að aðilar hafi ekki forræði á atriðum varðandi rekstur máls, er áréttað að dómari skuli að jafnaði synja um frest undir öðrum kringumstæðum þótt aðilarnir séu einhuga um að leita eftir því. Í 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 er mælt svo fyrir að um rekstur máls, sem fer eftir sérreglum 5. þáttar þeirra laga eins og á við um mál þetta, gildi almennar reglur um meðferð einkamála að því leyti sem annað er þar ekki ákveðið. Samkvæmt 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 er dómara við þingfestingu slíks máls heimilt að veita sóknaraðila skamman frest til að leggja fram greinargerð fyrir sitt leyti og að henni fram kominni á það sama við um varnaraðila, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Með þessum ákvæðum 177. gr. laga nr. 21/1991 er þannig lögð ríkari áhersla en endranær í einkamálum á að mál, sem lúta þessum sérreglum, séu rekin með hraði.

Eins og rakið var hér að framan lýsti sóknaraðili kröfunni, sem mál þetta er rekið um, 8. október 2009, en kröfulýsingarfresti við slit varnaraðila lauk 26. nóvember sama ár. Til kröfunnar tók varnaraðili þó ekki afstöðu fyrr en með bréfi 15. ágúst 2011 og beindi hann ágreiningi um hana til héraðsdóms 10. febrúar 2012, þegar liðin voru meira en tvö ár frá því að kröfulýsingarfresti lauk. Af bréfi varnaraðila 15. ágúst 2011 verður ráðið að honum hafi á því stigi að minnsta kosti verið ljós sú helsta forsenda, sem hann hefur síðan reist varnir sínar gegn kröfu sóknaraðila á. Verður ekki annað séð en að varnaraðila hefði af þessum sökum ekki aðeins verið fært að leggja fram með greinargerð sinni í héraði nærri sextán mánuðum síðar viðhlítandi gögn um þessar varnir, heldur að hann hafi þegar á árinu 2011 haft ástæðu til að beina atriðum varðandi ábyrgðina, sem málið snýst um, til lögreglu ef hann taldi efni á annað borð standa til þess. Samkvæmt fyrrgreindu bréfi sérstaks saksóknara lét varnaraðili þó ekki verða af því fyrr en 18. janúar 2013 og hafði hann þá þegar lagt fram greinargerð í málinu. Í stað þess að málið yrði rekið með hæfilegum hraða frá því að greinargerð varnaraðila var lögð fram liðu nærfellt tvö ár þar til hann krafðist þess að málinu yrði frestað af því tilefni, sem hinn kærði úrskurður fjallar um. Á þessum langa tíma hafði málið ítrekað verið tekið fyrir í þinghöldum vegna gagnaöflunar um afmarkað atriði þess, en ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þar hafi nokkru sinni verið vikið að tengslum sakarefnis málsins við lögreglurannsókn, sem varnaraðili hafi leitað eftir. Þegar það var svo loks gert í þinghaldi 28. nóvember 2014 lagði varnaraðili engin gögn fram um málaleitan sína til sérstaks saksóknara önnur en bréf þess síðastnefnda frá 5. september sama ár, sem varpaði í raun engu ljósi á viðfangsefni þeirrar rannsóknar.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari frestað einkamáli án kröfu fái hann vitneskju um að rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja megi að úrslit hennar skipti verulegu máli fyrir úrslit þess. Eins og varnaraðili hefur lagt fyrir kröfu sína um frestun málsins eru engar forsendur til að leggja mat á hvort skilyrðum þessa lagaákvæðis geti verið fullnægt til að verða við henni. Hvað sem því líður hefur rekstur málsins fram að þessu verið í slíkri andstöðu við áðurgreind lagaákvæði að ekki getur komið til álita að fresta því enn um ófyrirséðan tíma af þessari ástæðu, sem fyrst var hreyft meira en fimm árum eftir að sóknaraðili lýsti kröfu sinni. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Glitnir hf., greiði sóknaraðila, A Ltd., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014.

                Þetta mál var tekið til úrskurðar, 10. desember 2014, um þá kröfu sóknaraðila að varnar­aðila yrðu ekki veittir frekari frestir til gagnaöflunar.

                Málið barst dóminum með bréfi slitastjórnar Glitnis 10. febrúar 2012. Sóknar­aðili, A Ltd., lagði fram greinargerð sína til sóknar 9. októ­ber og varn­ar­aðili, Glitnir, lagði fram grein­ar­gerð til varnar 14. desember 2012. Í febrúar 2013 lagði varnaraðili fram álit bresks lög­manns, Lexu Hilliard, á skuld­bind­ing­ar­gildi ábyrgðar samkvæmt breskum lögum. Á dóm­þingi í september 2013 lagði sókn­ar­aðili fram álitsgerð bresks lögmanns, Anthony Boswood, á skuld­bind­ing­ar­gildi ábyrgðar sam­kvæmt breskum lögum. Í desember það ár var varn­ar­aðila veittur frestur til þess að meta hvort hann þyrfti að afla frekari gagna til þess að færa sönnur á efni erlendrar rétt­ar­reglu. Málið var síðan tekið fyrir í janúar, febrúar og mars og lagði sóknaraðili þá fram gögn og bókanir.

                Á dómþingi 26. mars 2014 var bókað að ráðgert væri að aðalmeðferð færi fram 20. nóvember. Í fyrirtöku 29. apríl lagði sóknaraðili fram álit bresks lögmanns, Rich­ard Coleman. Í lok maí kvaðst sóknaraðili enn bíða umsagnar bresks lög­manns, Lexu Hill­iard, og var málinu þá frestað til 3. september til þess að umsögnin yrði lögð fram og var bókað að sóknaraðila yrði send umsögnin um leið og varnaraðili hefði kynnt sér hana og ákveðið hvort hún yrði lögð fram.

                Ekki varð af fyrirtöku 3. september því málinu var, að ósk varnaraðila, frestað utan réttar þar sem umsögnin hefði ekki borist. Enn tafðist málið þar sem sá lög­maður sem farið hafði með það fyrir varnaraðila hætti störfum en loks tókst að koma á fyrir­töku 28. nóvember sl.

                Þá lagði varnaraðili fram bréf frá sérstökum saksóknara, þess efnis að rann­sókn stæði yfir á útgáfu Glitnis banka hf. á þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem sóknaraðili byggir fjárkröfu sína við slit varnaraðila á, en sú fjárkrafa er grundvöllur þessa ágrein­ings­máls. Jafnframt ósk­aði varnaraðili frekari frests þar sem hann biði enn gagna frá sér­stökum saksókn­ara. Sóknaraðili mótmælti frekari fresti og krafðist þess að frekari fresti yrði hafnað með úrskurði.

Málsástæður sóknaraðila

                Kröfu sinni til stuðnings bendir sóknaraðili á að málið hafi nú verið rekið fyrir dóm­stólum í rúm tvö ár. Það sé afar langur tími til gagnaöflunar og hafi ekki hvað síst lengi verið beðið við­bót­ar­umsagnar bresks lögmanns, Lexu Hilliard, sem aðeins varði lítinn hluta ágrein­ings­ins.

                Á dómþingi 28. nóvember sl. lýsi varnaraðili yfir því að hann þurfi frekari frest vegna gagna frá sérstökum saksóknara og verði þá ekki annað ályktað en stöðug bið eftir viðbótarumsögn Lexu Hilliard hafi verið sett á svið.

                Sóknaraðili sjái ekki hvaða erindi gögn frá sérstökum saksóknara eigi inn í þetta mál. Rannsókn hans varði ekki sóknaraðila. Löngu sé tímabært að ljúka gagna­öflun enda hafi lögmenn beggja aðila séð fyrir sér í vor að henni yrði lokið sl. sumar og aðal­með­ferð því ráðgerð í nóvember.

                Hann tekur einnig fram að varnaraðili hafi hvorki í greinargerð né á fyrri stigum málsins áskilið sér rétt til þess að koma að gögnum úr rannsókn sérstaks sak­sókn­ara sem þar fyrir utan beinist ekki að sóknaraðila.

Málsástæður varnaraðila

                Til stuðnings þeirri kröfu að sér verði veittur frekari frestur til gagna­öfl­unar vísar varnaraðili fyrst til þess að við meðferð einkamála takist á meginreglurnar um hraða máls­með­ferð og forræði máls, þar á meðal á sönnunarfærslu.

                Kjarni reglunnar um málshraða sé að dómari megi ekki veita þarflausa fresti. Kjarni reglunnar um forræði málsaðila á sönnunarfærslu sé að einungis megi meina aðila um sönnunarfærslu sé bersýnilegt að atriði, sem hann vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé til­gangs­laust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Sé ekki talið að gagnið sé bersýnilega óþarft geti dómari ekki meinað máls­aðila að leggja fram. Til þess að málsaðila verði neitað um frekari frest til gagnaöflunar verði að vera hafið yfir allan vafa að hún sé óþörf.

                Til viðbótar þessum grundvallarreglum verði að líta til 102. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. skuli dómari gefa málsaðilum kost á að koma að sýni­legum sönnunargögnum sem ekki hafi áður verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram. Dómara sé í 2. mgr. veitt heimild til þess að veita málsaðilum frest til þess að leggja fram gögn sem nægur frestur hafi ekki áður verið til. Jafnframt sé dóm­ara í 3. mgr. veitt heimild til þess að ákveða, af sjálfsdáðum, að fresta máli standi yfir rann­sókn vegna refsiverðs athæfis og telja megi að úrslit þess máls eða rann­sóknar skipti veru­legu máli um úrslit einkamálsins.

                Það ágreiningsefni, sem slitastjórnin hafi sent dóminum til úrlausnar, varði samn­inga þar sem viðsemjandi sóknaraðila, B ehf., hafi skuldbundið sig til að greiða háar fjár­hæðir. Án nokkurrar skýringar hafi sóknaraðili gefið eftir mik­inn hluta þeirrar fjár­kröfu, sem samið hefði verið um, gegn því að Glitnir banki gæfi út ábyrgð til trygg­ingar greiðslu þeirrar fjárkröfu sem eftir stæði og auk þess hafi sókn­ar­aðili ekki gengið að þeim manni sem hafi gert samningana við sóknaraðila.

                Varnaraðila vanti upplýsingar um samskipti þessara aðila, sóknaraðila og við­semj­anda hans B ehf., hver var ástæða þessara breytinga á samn­ing­unum, hvað sóknaraðili vissi um fjárhagslega stöðu viðsemjanda síns og mörg fleiri grund­vallar­atriði sem varði riftun þeirrar ráð­stöf­unar sem felist í útgáfu banka­ábyrgð­ar­innar.

                Erfitt hafi verið að afla gagna þar sem málið teygi sig út fyrir landsteinana. Þar sem sérstakur saksóknari hafi hafið rannsókn á málinu sé að vænta gagna sem ein­ungis lögreglu sé fært að afla. Varnaraðili viti ekki hvað rannsóknin muni leiða í ljós en telji afar líklegt að hún beinist einnig að sókn­ar­aðila, sem tók við bankaábyrgðinni.

                Samkvæmt þeim meginreglum laga og lagaákvæðum sem varnaraðili hafi vísað til beri að veita frekari frest séu nokkur líkindi fyrir því að þau gögn, sem aflað hafi verið og verði aflað við rannsókn sérstaks saksóknara, geti haft þýðingu fyrir niður­stöðu þessa ágreiningsmáls.

Niðurstaða

                Það er hér til úrlausnar hvort veita eigi varnaraðila frekari frest til öflunar gagna í málinu.

                Forsagan er sú að Glitni banka hf. var skipuð slitastjórn 12. maí 2009 og 25. maí það ár lýsti hún eftir kröfum við slit bankans. Sóknaraðili lýsti veðkröfu við slitin sem nam 2.054.110.000 krónum sem jafngilti, á þeim tíma, 10.750.000 breskum pundum. Þá kröfu studdi hann við ábyrgð sem bankinn hafði gefið út, 26. ágúst 2008, sex vikum áður en Fjár­mála­eftir­litið ákvað að skipa bankanum skilanefnd, 7. október.

                Sóknaraðili er einn þriggja þekktustu þátttakenda í [...]keppninni [...]. Hann hefur tekjur sínar af kostunarsamningum. Félagið D átti félagið B ehf. [...]. Á fyrsta degi ársins 2008 sömdu sóknaraðili og B um það að sá síðarnefndi greiddi þeim fyrrnefnda 17.000.000 breskra punda árið 2008 en samningurinn í heild tók til áranna 2008 til og með 2011. Þessum samn­ingi var breytt 27. ágúst 2008 og var þá samþykkt að lækka þær fjár­hæðir sem B myndi greiða sóknaraðila næstu þrjú ár samningsins.

                Síðla í desember 2007 sömdu sóknaraðili og B um það að sá síðarnefndi keypti 40% hlut í sóknaraðila. Þau kaup áttu að ganga í gegn 28. janúar 2008 en af því varð ekki. Kaupsamningnum var breytt 27. ágúst 2008 og var ákveðið að B keypti aðeins 10% hlut í sóknaraðila og var veittur frestur til 20. mars 2009 til þess að ganga frá því.

                Fullnusta kaupsamningsins og þeirrar fjárhæðar sem var ógreidd af kost­un­ar­samn­ingnum vegna ársins 2008, 10.750.000 bresk pund, var tryggð með ábyrgð sem Glitnir banki gaf út 26. ágúst 2008.

                Gegn þeirri kröfu sem sóknaraðili lýsti á grundvelli bankaábyrgðarinnar við slit Glitnis gerir varnaraðili gagnkröfur til sjálfstæðs dóms, skv. heimild í 2. tölulið 173. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Hann krefst þess aðallega að útgáfa banka­ábyrgðar­innar verði ógilt en til vara að þeirri ráð­stöfun sem í henni felist verði rift.

                Hann telur að rannsókn, sem stendur nú yfir hjá sérstökum saksóknara á útgáfu banka­ábyrgðarinnar, leiði í ljós gögn sem geti veitt frekari upplýsingar um samskipti sókn­ar­aðila og stjórnenda og eigenda D, þar á meðal um það hvort fyrir­svars­menn sóknaraðila hafi vitað hvernig fjármál viðsemjanda síns stóðu þegar samn­ing­unum var breytt og sóknaraðili krafðist þess að fá ábyrgð frá banka til tryggingar á greiðslu skuldbindinganna. Hann telur einkum og sér í lagi að í ljós muni koma gögn sem styðji þær máls­ástæður sem hann færi fyrir riftun þess gernings sem felist í banka­ábyrgð­inni.

                Sóknaraðili telur aftur á móti að þau gögn, sem í ljós kunni að koma, hafi ekki neina þýðingu fyrir málið þar sem rannsóknin beinist ekki að honum. Hann hafi nú þegar sýnt drætti á gagnaöflun varnaraðila afar mikinn skilning og lengra verði ekki gengið.

                Það er mjög atviksbundið hversu langan tíma tekur að afla gagna í máli og getur það eitt og sér að hátt í þrjú ár séu liðin frá því að slitastjórn Glitnis sendi héraðs­dómi ágreininginn til meðferðar ekki leitt til þess að frekari fresti sé hafnað, ekki heldur það að tvö ár séu liðin frá því að greinargerð varnaraðila var lögð fram né heldur að varn­ar­aðili hafi sífellt gefið í skyn að viðbótarálit bresks lögmanns á túlkun enskra laga væri að vænta fljótlega. Jafnframt sýnist dóminum að sóknaraðili hafi einnig þurft að óska fresta, einkum í upphafi málsmeðferðarinnar.

                Fram lögð gögn staðfesta að embætti sérstaks saksóknara hefur til rannsóknar útgáfu þeirrar ábyrgðaryfirlýsingar sem sóknaraðili byggir fjárkröfu sína við slit varn­ar­aðila á.

                Að mati dómsins þykir óvarlegt að útiloka að gögn, sem geti haft þýðingu fyrir úrslit þessa ágreiningsmáls, komi í ljós við rannsókn sérstaks saksóknara á útgáfu þeirrar bankaábyrgðar sem krafa sóknaraðila byggir á. Af þeim sökum, og með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er fallist á þá kröfu varnaraðila, Glitnis, að málinu verði frestað til frekari gagnaöflunar. Rétt þykir að fresta málinu þar til rannsókn sérstaks saksóknara er lokið.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Þessu máli, X-22/2012 sem er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, er frestað þar til lokið er rannsókn sérstaks saksóknara á útgáfu þeirrar ábyrgðar sem Glitnir banki hf. gaf út 26. ágúst 2008 og sóknaraðili, A Ltd., byggir fjárkröfu sína við slit varnaraðila, Glitnis, á.