Hæstiréttur íslands

Mál nr. 670/2015

Jóhann Jónas Ingólfsson (sjálfur)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Skuldamál
  • Fyrning

Reifun

Í hf. höfðaði mál gegn J til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi, en J krafðist sýknu á þeim grunni að krafan væri fyrnd. Fyrir lá að J stofnaði reikninginn í nóvember 2007 og notaði hann til desember 2008. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að krafa Í hf. væri vegna peningaláns sem samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. áður 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnist á tíu árum. Þá væri sérstaklega tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 150/2007 að regla 1. málsliðar 2. mgr. 5. gr. þeirra tæki meðal annars til peningalána sem veitt væru í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána. Var J gert að greiða Í hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2015. Hann krefst þess að „allar kröfur hans fyrir héraðsdómi verði teknar til greina“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jóhann Jónas Ingólfsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2015

                Mál þetta, sem var dómtekið 9. júní sl., er höfðað 26. nóvember 2013 af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Jóhanni Jónasi Ingólfssyni, með lögheimili í Danmörku, en dvalarstað í Þýskalandi.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.496.589 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. mars 2010 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. sömu laga. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                                                                                              I

                Mál þetta er höfðað til innheimtu skuldar vegna yfirdráttar stefnda á tékkareikningi nr. 0516-26-8308 hjá stefnanda, en áður Byr sparisjóði og BYR hf. Skuld stefnda við stefnanda nam samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti 1.906.014 krónum þann 8. mars 2010.

                Dómur var kveðinn upp í héraði í máli þessu 19. maí 2014, en með dómi Hæstaréttar Íslands 12. mars sl. í málinu nr. 548/2014 var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

                                                                                              II

                Stefnandi kveður stefnda ekki hafa verið heimilt að yfirdraga tékkareikning sinn þar sem yfirdráttarheimild hans hafi verið fallin niður. Stefndi hafi ekki greitt skuld sína við stefnanda þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir. Stefnandi vísi til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga.

                Eftir heimvísun málsins lækkaði stefnandi kröfu sína í 1.496.589 krónur til þess að útrýma öllum ágreiningi um það hvort hluti vaxta sem uppfærðir hefðu verið á höfuðstól skuldarinnar væru fyrndir. Allir vextir sem fallið hafi á kröfuna frá því að stefndi hafi síðast greitt inn á hana hafi verið felldir út. Upphafsdagur dráttarvaxta sé óbreyttur, en hann sé innan fjögurra ára frá málshöfðun.

                                                                                              III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Af reikningsyfirliti megi ráða að dagsetning vanskila hafi verið 31. desember 2008. Krafan fyrnist á fjórum árum samkvæmt lögum nr. 150/2007 og hafi því fyrnst 31. desember 2012. Þá séu vextir sem gjaldfærðir hafi verið á reikning stefnda fyrndir.

                                                                                              IV

                Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort krafa stefnanda á hendur stefnda vegna yfirdráttarláns sé fyrnd. Í málinu liggja fyrir ítarleg yfirlit yfir tékkareikning stefnda allt frá stofnun hans 27. nóvember 2007 til ársloka 2012. Samkvæmt þeim hafði stefndi heimild til yfirdráttar frá 21. janúar 2008, upphaflega að fjárhæð 250.000 krónur, síðan 750.000 krónur og að síðustu 1.500.000 krónur til 15. maí 2009. Síðast var lagt inn á reikninginn 1. desember 2008, en þá var skuldastaðan 1.496.589 krónur og er það dómkrafa stefnanda. Stefndi hefur andmælt því að hann hafi haft heimild til þess að yfirdraga reikninginn. Gögn málsins bera hins vegar með sér að svo hafi verið og var notkun reikningsins í samræmi við það. Þá skiptir ekki máli þótt ekki liggi fyrir sérstakur samningur vegna yfirdráttarins, en fyrir liggur að stefndi notaði reikninginn og fékk send yfirlit vegna hans, allt þar til hann flutti til Kína. Á yfirlitunum komu fram breytilegar yfirdráttarheimildir og notkun í samræmi við yfirdráttarheimildir hverju sinni. Hefur stefndi með samfelldri notkun sinni á reikningnum frá stofnun hans þar til í desember 2008 samþykkt þær yfirdráttarheimildir sem honum voru veittar og í gildi voru hverju sinni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 605/2012.

                Um fyrningu kröfuréttinda fer nú eftir lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sem tóku gildi 1. janúar 2008. Gilda þau um kröfur sem stofnað er til eftir gildistöku þeirra, en áður giltu um fyrningu lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa stefnanda á hendur stefnda er vegna peningaláns. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007, áður 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905, fyrnist slík krafa á tíu árum. Er það sérstaklega tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 150/2007 að regla 1. málsliðar 2. mgr. 5. gr. taki m.a. til peningalána sem veitt séu í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána. Stefnandi stofnaði tékkareikning nr. 8308 þann 27. nóvember 2007 og notaði hann til 1. desember 2008. Er því ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda á hendur honum sé fallin niður fyrir fyrningu.

                Stefndi byggir einnig á því, til stuðnings varakröfu sinni, að vextir sem gjaldfærðir hafi verið á reikning hans séu fyrndir. Með breytingu stefnanda á kröfugerð sinni lækkaði hann kröfuna sem nemur öllu því sem lagst hefur ofan á skuld stefnda frá því að hann greiddi síðast inn á reikninginn 1. desember 2008. Ný kröfufjárhæð miðast því við skuld stefnda þann dag. Eru því ekki efni til að fallast á kröfu stefnda um lækkun kröfunnar vegna fyrningar vaxta.

                Stefndi byggði einnig á því við aðalmeðferð málsins að skuld á tékkareikningi hans væri tilkomin vegna kreditkortanotkunar, en stefnandi hefði án heimildar hans skuldfært tékkareikninginn vegna þessa og með því lengt fyrningarfrest vegna kröfunnar. Stefnandi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Verður fallist á það með stefnanda að málsástæðan sé of seint fram komin. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu um með hvaða hætti greiða skyldi fyrir kreditkortaskuld stefnda, en sjá má á fyrirliggjandi yfirlitum yfir tékkareikninginn að hann hefur verið skuldfærður vegna greiðslukorta frá því fljótlega eftir stofun hans.

                Í samræmi við framangreint verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er nú fram sett og verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.496.589 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. mars 2010 til greiðsludags.

                Rétt stefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti má leiða beint af ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001 og er því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

                Stefndi, Jóhann Jónas Ingólfsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 1.496.589 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. mars 2010 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.