Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2005
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 10. nóvember 2005. |
|
Nr. 178/2005. |
Ari Sigurðsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Granda hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Málsástæður.
A varð fyrir vinnuslysi við störf sín um borð í togara í eigu G og krafði hann G um skaða- og miskabætur vegna þess líkamstjóns sem hann þá varð fyrir. Ekki varð séð að héraðsdómari hafi tekið rökstudda afstöðu til allra málsástæðna A. Af þeim sökum og með vísan til f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála var dómurinn haldinn slíkum annmörkum að ekki varð hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2005. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 58.313.839 krónur, til vara 53.865.710 krónur, en að því frágengnu 38.792.587 krónur, allt með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 21. apríl 2002 til 28. desember 2003 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum dregur hann frá kröfum sínum nánar tilgreindar innborganir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda, en til vara lækkunar á kröfu hans. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu en styður kröfur og málflutning stefnda.
Eins og fram kemur í héraðsdómi varð áfrýjandi 21. apríl 2002 fyrir vinnuslysi við störf sín um borð í togaranum Ásbirni RE 50. Krefst hann í málinu skaða- og miskabóta vegna þess líkamstjóns sem hann þá varð fyrir.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi dregið úr kröfum sínum frá því sem var í héraði. Þá hefur stefndi greitt áfrýjanda samkvæmt dómsorði héraðsdóms. Ágreiningur málsaðila stendur því nú um hvort miða beri ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku áfrýjanda við meðalatvinnutekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum, eða meta þær sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, svo sem áfrýjandi krefst. Þá er ágreiningur um hvort áfrýjandi þurfi að sæta því að frá greiddum bótum fyrir tímabundna örorku hafi verið dregin fjárhæð sem svarar staðgreiðslu opinberra gjalda. Einnig er deilt um hvort draga beri frá bótakröfu áfrýjanda vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti þeirra bóta sem áfrýjandi á rétt á úr almannatryggingum sem og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris úr Lífeyrissjóði sjómanna sem áfrýjandi á rétt á, en hann hefur með sérstökum yfirlýsingum afsalað sér rétti til þessara bóta. Að lokum greinir aðila á um upphafsdag dráttarvaxta.
Ekki verður séð að héraðsdómari hafi tekið rökstudda afstöðu til málsástæðna áfrýjanda sem snerta staðgreiðslu opinberra gjalda og afsal hans á rétti hans til fyrrgreindra bóta. Af þeim sökum og með vísan til f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómurinn haldinn slíkum annmörkum að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ara Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ara Sigurðssyni, kt. 240571-3239, Suðurgötu 91, Siglufirði, á hendur Granda hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði 1, Reykjavík, og til réttargæslu, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 28. janúar 2004.
Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 61.634.888 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysadegi 20. apríl 2002 til 28. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 25.911.730 krónum 10. janúar 2005. Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim kostnaði sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna málsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í máli þess enda eru engar kröfur gerðar á hendur honum.
Helstu málavextir eru að stefnandi lenti í vinnuslysi við störf sín um borð í togara stefnda, Ásbirni RE-50, 20. apríl 2002. Er slysið varð kveðst hann hafa verið búinn að starfa í um átta mánuði á togaranum, sem er í eigu stefnda. Við skýrslutöku hjá lögreglustjóranum í Reykjavík af atvikinu 27. maí 2002 kvaðst stefnandi umræddan dag hafa verið við vinnu neðst í lest togarans, er staddur var skammt sunnan við landið. Lestinni sé skipt í þrjár hæðir og fiskikör á öllum hæðunum. Á efstu hæðinni séu körin tóm en ís í körunum sem neðar eru. Kör þessi séu um 45-50 kg að þyngd þegar þau eru tóm. Hafi hann verið að moka ís úr kari í gólfhæð neðst í lestinni í önnur kör fyrir framan sig. Skyndilega og honum að óvörum hafi tómt fiskikar hrapað niður af efstu hæðinni og lent fyrst á honum ofarlega á mjóhryggnum en síðan hafi mesta höggið komið nokkru neðar eða niður við mjaðmir. Kvaðst hann strax hafa misst andann og dofnað niður mjöðm og vinstri fót, tapað tilfinningaskyni. Hafi hann verið ófær um að komast af sjálfsdáðum upp úr lestinni, en tveimur til þremur tímum síðar hafi honum verið hjálpað upp og þá fyrst tilkynnt skipsstjóranum hvað gerst hafði. Þá hafi hann fengið verkjatöflur sem haldið hafi niðri mestu verkjunum þar til komið var í land sólarhring síðar.
Jón Steindórsson, er var við vinnu í lest með stefnanda er stefnandi slasaðist, gaf skýrslu um atburðinn hjá lögreglunni 11. júní 2002. Hann kvað þá hafa verið fjóra að starfi í lestinni. Ágætis veður hafi verið og lítill veltingur en mikið fiskirí og hefði vinna þurft að ganga mjög hratt fyrir sig í lestinni við að setja fiskinn í kör og ísa. Færa hefði þurft færiband, sem færir fiskinn upp í kör, allt upp í fjórðu karahæð. Til að færa færibandið hafi þeir þurft að reisa upp tómt kar, sem var í efstu röð eða fjórðu karahæð.
Jón sagði, að skömmu eftir þessar forfæringar og við vinnu við að ísa fiskinn, hafi stefnandi staðið í neðsta karinu við að moka ís en sjálfur hafi hann staðið til hliðar við stefnanda en snúið baki í hann. Ekki hafi hann orðið var við neitt óeðlilegt fyrr en hann heyrði stefnanda hrópa og kar falla. Hafi hann litið við og séð að karið, sem þeir reistu við, hafði fallið úr efstu hæð og á stefnanda. Karið, sem féll á stefnanda, kvað Jón vera um 50 kg að þyngd og fallið hafi verið um 2 til 3 metrar. Jón sagði að enginn sérstakur hafi verið stjórnandi í lestinni, um samvinnu reyndra manna hafi verið að ræða. Venja væri að reisa kar upp á rönd þegar færibandið er fært til, enda ekki annað hægt þegar þröngt er orðið í lestinni.
Bogi Jónsson bæklunarskurðlæknir greindi stefnanda samkvæmt læknisvottorði, dags. 9. júlí 2002, með brjósthryggtognun og mjóbakstognun og segir í vottorðinu:
Hann er kominn með viðvarandi einkenni tognunar frá allri hryggsúlunni neðan háls en sérstaklega hryggjartinda 6,7,8,9 og 10 liðar brjósthryggjar og virðist jafnvel vera aukið bil milli hryggtinda þar.
Hann er ennþá slæmur og sýnir engin merki um bata og telst hann því vera óvinnufær til sjós eftir þetta slys. Ekki er búist við að þessi tognunareinkenni lagist með tímanum þannig að hann geti stunda sjómennsku aftur. Hann tekur stöðugt verkjalyf (Tramol) vegna verkja.
Af hálfu stefnanda segir að hann hafi ekki treyst sér á sjóinn aftur né heldur til annarrar vinnu í landi frá slysdegi. Hafi hann verið lagður inn á Reykjalund til endurhæfingar tímabilið 23. september til 15. nóvember 2002. Í vottorði þaðan sé lýst verkjum neðst í brjóstbaki og mjóbaki og verkjaleiðni niður í hné, kálfa og jafnvel eistu. Verkirnir séu viðvarandi en gangi í bylgjum og mikill dagamunur á þeim. Verkirnir hafi truflað svefn. Sneiðmynd af lendhrygg hafi sýnt væga hryggskekkju (scoliosirs og kyphosis). Liðbolur L1 og Th12 hafi verið aðeins fleyglaga og óregla í endaplötum þeirra ásamt nabbamyndunum á liðbrúnum. Einnig hafi verið óregla á endaplöntum á bilinu L1/L2 og nabbamyndanir þar. Breytingarnar hafi verið taldar samrýmast vaxtartruflun í randkjörnum (Mb. Scheuermann). Engin örugg merki hafi verið um brot. Á Reykjalundi hafi stefnandi farið í gegnum fræðslu- og þjálfunarprógramm verkjateymisins. Auk þess hafi verið greindur hjá honum verulegur kvíði og þunglyndi. Reynt hafi verið að ná árangri með lyfjum. Við útskrift hafi verkir mjög lítið breyst en eitthvað hafi stefnandi lært af bjargráðum til þess að draga úr verkjaupplifun.
Stefnandi leitaði til Kristófers Þorleifssonar geðlæknis til meðferðar á þunglyndi. Í læknisvottorði Kristófers segir m.a.:
Ari kom til mín í viðtal og skoðun 11. febrúar 2003 og hann greindi mér frá því, að áður en hann varð fyrir vinnuslysinu þann 20. apríl 2002 hafi hann verið algerlega andlega og líkamlega hraustur. Verið kátur og glaður og ekki þjáðst af kvíða, þunglyndi né svefntruflunum. Hafði stundað margvíslegar íþróttir, en við slysið hefði orðið gjörbreyting á hans lífi. ...
Álit:
Ari Sigurðsson er í dag haldinn djúpu þunglyndi í kjölfar vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 20. apríl 2002. Ljóst er að þunglyndiseinkenni hafa farið vaxandi frá því hann slasaðist. Þrátt fyrir meðferð á Reykjalundi og endurhæfingu í tæpa tvo mánuði hefur ástand ekki lagast. Hann fékk litla bót á verkjum þar. Þrátt fyrir þunglyndismeðferð hafa þunglyndiseinkenni heldur vaxið en minnkað. Hann er í dag vegna þunglyndis auk verkjanna alls ófær til allra starfa. Það er ljóst að hið djúpa þunglyndi sem Ari þjáist af er bein afleiðing af nefndu vinnuslysi. Nauðsynlegt er að veita Ara meiri og betri meðferð við þunglyndinu. ... Ljóst er þó, að fái Ari ekki bót á sínu verkjavandamáli, er viðbúið að hann muni stríða áfram við viðvarandi alvarlegt þunglyndi. ... Þó svo að þunglyndið lagist er óvíst hvort Ari nái vinnufærni á ný og eins og útlitið er í dag bendir flest til þess að hann verði um ókomna tíð ófær til flestra starfa.
Ari er í dag haldinn mjög djúpu og alvarlegu þunglyndi og hefur það ástand varað lengi. fram til þessa hafa meðferðartilraunir gegn þunglyndinu ekki borið árangur. Óljóst er hvort frekari meðferðartilraunir beri árangur, óljóst hvort ástand kann að batna, haldast óbreytt eða jafnvel versni.
Réttargæslustefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., og lögmaður stefnanda óskuðu eftir mati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Guðmundar Björnssonar á afleyðingum vinnuslyssins fyrir stefnanda. Í svokallaðri Bráðabirgðamatsgerð, dags. 17. mars 2003, segja þeir undir fyrirsögninni Almenn bráðabirgðaniðurstaða:
Ekki hefur enn tekist að vinna bug á miklu verkjavandamáli Ara eftir baktognunina. Þó er eins og stendur ekki síður alvarlegt í hans máli hversu illa hann er haldinn af þunglyndi. Geðlæknir hans er enn með hann í meðferð sem gengur hægt.
Í ljósi þessa telja matsmenn að ótímabært sé að ljúka matsgerð vegna afleiðinga slyssins og telja að bíða þurfi lokavottorðs geðlæknis að lokinni meðferð sem gæti tekið að minnst kosti ½ ár ennþá.
Með bréfi til héraðsdóms 8. október 2003 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta líkamlegar og andlegar afleiðingar áverka er hann varð fyrir í vinnuslysinu. Óskað var eftir að einn læknir og einn lögfræðingur yrðu til þess kvaddir. Þann 24. sama mánaðar voru Torfi Magnússon taugalæknir og Páll Sigurðsson prófessor tilkvaddir af réttinum. Matsgerðin er dagsett 25. nóvember 2003, en var lögð fram í dómi 5. febrúar 2004. Þar segir undir fyrirsögninni Niðurstöður:
1. Matsmenn telja líklegt að einkenni matsbeiðanda í formi verkja, skertrar hreyfifærni og geðrænna einkenna, verði viðvarandi lengi enn og að hann muni að minnsta kosti um talsverða framtíð þurfa að nota bæði verkjalyf og þunglyndislyf.
2. Matsmenn telja að eftir dvölina á St. Fransiskuspítalanum um mánaðamótin maí-júní 2003 hafi ekki verið að vænta frekari bata og á þeim tíma hafi stöðugleikapunkti verið náð. Á þessu tímabili var matsbeiðandi rúmliggjandi meðan hann lá á Reykjalundi frá 23. september til 15. nóvember 2002, og meðan á dvölinni á St. Fransiskuspítalanum stóð, í fjórar vikur, í maí 2003. Veikindatímabil matsbeiðanda er því alls í 13 mánuði, þar af var hann rúmliggjandi í 11 vikur.
3. Með hliðsjón af leiðbeiningum í staðli Tryggingastofnunar ríkisins er niðurstaða matsmanna að fjöldi stiga nægi til þess að matsbeiðandi verði metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins.
4. Með hliðsjón af miskatöflum, sem gilda skv. dönsku skaðabótalögunum, meta matsmenn miska matsbeiðanda 40% - fjörutíu stig.
5. Við mat á miska með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig telja matsmenn, að varanlegur miski matsbeiðanda , sbr. 4. gr. skaðabótalaga, sé réttilega metinn 40% - fjörutíu stig.
6. Varanleg örorka matsbeiðanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga er, að áliti matsmanna, 60% - sextíu stig.
Með bréfi 28. nóvember 2003 krafði stefnandi réttargæslustefnda um bætur vegna slyssins samtals með lögmannskostnaði o.fl. að fjárhæð 70.633.053 kr.
Í matsgerð á afleiðingum umrædds vinnuslyss stefnanda, er Jónas Hallgrímsson læknir og Guðmundur Björnsson læknir unnu og dags. er 3. mars 2004, segir m.a.:
Tímabundið atvinnutjón:
Tímabundið atvinnutjón er talið vera 100% tímabilið 21.04.2002 30.05.2003 þegar Ari útskrifaðist af sjúkrahúsinu í Stykkishólmi.
Þjáningar:
Þjáningatímabil er talið vera 21.04.2002 til 30.05.2003 og á þeim tíma var Ari rúmliggjandi á sjúkrastofunum í 11 vikur. Stöðugleikapunktur er settur 01.06.2003 eða daginn eftir útskrift af sjúkrahúsinu í Stykkishólmi.
Varanlegur miski:
Varnalegur miski er metinn 40% á grundvelli atriða sem er getið í kaflanum almenn niðurstaða og er bæði tekið tillit til stoðkerfiseinkenna og geðlægra einkenna.
Varanleg örorka:
Matsmenn telja að Ari verði framvegis ófær til starfa á sjó. Hann er lærður þjónn og ætti að geta unnið léttari störf í landi á því sviði en matsmenn telja óraunhæft að halda annað en að hann ætti að geta unnið sig eitthvað út úr þeim þunglyndisvandamálum sem hann nú hefur ef hann nýtur áframhaldandi geðlæknismeðferð. Heldur er meiri óvissa um framvindu stoðkerfisvandamála hans. Í ljósi þessa telja matsmenn að Ari hafi misst um það bil helming af fyrri starfsorku sinni til tekjuöflunar
Varanleg örorka Ara vegna slyssins er metin 50%.
Á dómþingi 18. mars 2004 óskuðu stefndu eftir yfirmati og á dómþingi 14. maí 2004 voru þau Sverrir Bergmann taugalæknir, Stefán Yngvason endurhæfingarlæknir og Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómslögmaður kvödd til að framkvæma hið umbeðna mat. Og á dómþingi 10. nóvember 2004 lögðu stefndu yfirmatsgerðina fram. Niðurstaða hennar var í stuttu máli sú að varanlegur miski matsþola samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 teldist vera 40% - fjörutíu stig, en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 teldist vera 60% - sextíu stig.
Tölulega sundurliðar stefnandi bótakröfu sína þannig:
1. Þjáningabætur:
Rúmliggjandi 77 d x 2000 154.000 kr.
Án þess að vera rúmliggjandi 313 x 960 300.480 kr.
2. Miskabætur: 5.511.000 x 75% 4.133.250 kr.
3. Bætur fyrir varanlega örorku:
6.217.060 x 106% x 12,595 x 60% 51.295.300 kr.
4. Tímabundin örorka: 5.751.858 kr.
Samtals 61.634.888 kr.
Stefnandi byggir á því að bætur fyrir þjáningar séu grundvallaðar á matsgerðinni [frá 25. nóvember 2003] og 3. gr. skaðabótalaga.
Bætur fyrir miska kveðst stefnandi byggja á matsgerðinni og 4. gr. skaðabótalaga. Hann kveðst aðallega gera kröfu um að miski hans verði miðaður við 75% örorku, þ.e. staðal samkvæmt 2. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga. Staðall þessi mæli þá færnisskerðingu sem hann hafi orðið fyrir vegna slyssins. Hann sé reistur á alþjóðlegum skilgreiningum á örorku sem tryggingafélög hér á landi séu bundin af samkvæmt alþjóðlegum skilmálum er Ísland hafi undirgengist. Í 4. gr. skaðabótalaga segi að einnig eigi að miða miska við þá erfiðleika sem áverkarnir valdi viðkomandi tjónþola. Miskatöflur mæli ekki slíka erfiðleika, sem verði því að meta sérstaklega. Þar komi staðall almannatryggingalaga til hjálpar, en hann hafi fulla lagastoð og sé byggður á alþjóðlegum skilgreiningum. Til vara kveðst hann byggja á að miskinn sé 40% og verði miskabætur samkvæmt því 2.204.400 kr.
Bætur fyrir varanlega örorku kveðst stefnandi byggja á því að hafa ráðið sig í vinnu hjá stefnda, Granda hf., haustið 2001. Hafi hann verið ráðinn á skipið Ásbjörn RE-50 í september 2001 og verið skipsverji á skipinu í 3 mánuði 20 daga af árinu 2002 er hann slasaðist. Á þeim tíma hafi hann samkvæmt skattframtali haft 3.457.288 krónur í laun. Samkvæmt launamiðum frá réttargæslustefnda hafi brúttólaun hans með staðgengilslaunum til áramóta numið 6.217.060 krónum sem hann miði við sem árslaun. Þetta sé réttur mælikvarði samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem hann hafi, svo sem skattskýrslur staðfesti, verið í vinnu hjá ýmsum aðilum og haft rokkandi tekjur fyrir slysið. Til vara krefst hann þess að miðað verði við tekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið, sem hafi verið 4.209.506 krónur árið 1999, hækkun skv. launavst. 4.588.361 króna, 2.794.494 krónur árið 2000, hækkun skv. launavst 2.962.163 krónur, og forskráðar tekjur 1.901.082 krónur árið 2001, hækkun skv. launavst. 1.958.114 krónur, samtals 9.508.638 krónur eða meðaltekjur 3.170.000 krónur. Bætur fyrir varanlega örorku 3.170.000 x 12,595 x 60% = 23.955.690 krónur.
Bætur fyrir tímabundna örorku kveðst stefnandi byggja á því að samkvæmt bráðabirgðamatsgerð 17. mars 2003 hafi áverkar hans ekki verið komnir í jafnvægi á þeim tíma og þar ályktað að læknismeðferð taki að minnsta kosti hálft ár til viðbótar. Eigi hann því rétt til staðgengilslauna til 1. júní 2003. Einnig vísar hann til þess að dómkvaddir matsmenn hafi ályktað að stöðugleikapunkti hafi verið náð um mánaðamótin maí-júní 2003.
Í sambandi við kröfu um bætur fyrir tímabundna örorku krefst stefnandi að miðað verði við laun sem staðgengill hans hafi haft eða hásetahlut á Ásbirni RE-50 á tímabilinu 21. júní 2002 til 1. júní 2003. Þennan tíma hafi hann verið óvinnufær og ekki fengið nokkra greiðslu frá stefnda. Staðgengilslaun hans fram að áramótum 2002/2003 hafi verið 2.979.912 krónur, en eftir áramótin og til 1. júní 2003 3.177.243 krónur eða samtals 6.147.155 krónur. Af þeirri fjárhæð beri að draga greidda tryggingu og orlof að fjárhæð 405.297 krónur og verði krafan þannig 5.751.858 krónur. Ekki megi lögum samkvæmt skerða þessa fjárhæð með afdreginni staðgreiðslu eða vegna annarra skatttengdra atriða eða atriða af svipuðum toga.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi afsalað sér bótum frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði sjómanna. Dómkröfur hans verði því ekki skertar á grundvelli bóta frá þeim.
Stefndi byggir á því að hafa greitt stefnanda skaðabætur að fullu fyrir það tjón sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi við störf sín um borð í Ásbirni RE-50 þann 20. apríl 2002.
Stefndi byggir á því að útreikningur stefnanda á þjáningabótum vegna rúmlegu sé rangur. Fjárhæð þjáningabóta fyrir hvern dag eigi að nema 1.790 kr. (1300* 4522/3282). Þá beri að lækka þjáningabætur með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga.
Kröfu um lækkun miskabóta byggir stefndi á því að um mat á varanlegum miska skuli fara eftir 4. gr. skaðabótalaga og engin heimild að lögum sé fyrir því að víkja ákvæðum 4. gr. til hliðar. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laganna skuli örorkunefnd semja töflur um miskastig. Þegar varanlegur miski er metinn sé höfð hliðsjón af töflum örorkunefndar að því marki sem unnt er, en til fyllingar þeim sé mati hagað þannig að samræmi náist. Ólíkar forsendur liggi til grundvallar staðli Tryggingastofnunar ríkisins.
Kröfu um lækkun á bótum fyrir varanlega örorku byggir stefndi á því að við útreikning bóta verði tekjur stefnanda sjálfs, eins og þær eru tilteknar á skattframtölum síðustu þrjú almanaksár fyrir slys, lagðar til grundvallar, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna sé undantekningarregla sem skýra beri þröngt. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að árslaun ákveðin á grunni 1. mgr. 7. gr. gefi ranga eða ósanngjarna mynd af framtíðartekjum hans.
Útreikningum stefnanda á verðlagsbreytingum á viðmiðunartekjum mótmælir stefndi sérstaklega enda sé ekki tekið fram við hvaða vísitölustig er miðað.
Þá byggir stefndi á því að draga beri frá bótum vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti þeirra bóta er stefnandi á rétt á úr almanntryggingum sem og 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris, sem hann á rétt til úr lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Vísað er til þess að stefnanda beri samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar að takmarka tjón sitt. Honum sé því skylt að þiggja þær greiðslur, sem hann á rétt til frá almannatryggingum sem og úr lífeyrissjóði, vegna afleiðinga slyssins.
Telji dómurinn að ákvarða eigi bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, byggir stefndi á, að í öllu falli beri aldrei að ákvarða árslaun hærri en hámark 4. mgr. 7. gr. kveður á um.
Stefndu mótmæla kröfu um tímabundið atvinnutjón. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns að fjárhæð 3.640.248 krónur auk kauptryggingar og orlofs að fjárhæð 405.297 krónur. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir frekari tekjumissi en þegar hefur verið bættur.
Því er mótmælt að miða skuli tímabundið tekjutap við staðgengilslaun. Stefnandi hafi ekki verið fastráðinn hjá stefnda og legið hafi fyrir að hann yrði ekki ráðinn til afleysinga á Ásbirni RE-50 sumarið 2002 eða um haustið. Þá er því mótmælt að stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að fara í allar veiðiferðir skipsins.
Stefndu byggja á því að frá greiðslum vegna tímabundins atvinnutjóns beri að draga dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum sem og 60% af greiðslum úr lífeyrissjóði og greiðslur úr sjúkrasjóði samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðbótalaga.
Stefndu vísa til þess að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón séu skattskyldar samkvæmt 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón falli ekki undir 2. tl. 28. gr. laganna. Réttargæslustefnda beri því að halda eftir lögboðnum afdrætti opinberra gjalda af greiðslum vegna tímabundins atvinnutjóns með vísun til laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt 3. tl. 5. gr. laga nr. 45/1987 teljist skaðabætur vegna atvinnutaps eða launamissis laun samkvæmt lögunum. Afdráttur opinberra gjalda af launum eigi að fara fram, skv. 16. gr. laga nr. 45/1987, þegar laun eru borguð út eða færð launamanni til tekna vegna ákveðins greiðslutímabils.
Gunnar Atli Överby gaf skýrslu símleiðis fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi verið samskipa stefnanda þegar stefnandi slasaðist á Ásbirni RE-50. Kvaðst hann hafa verið á skipinu í nokkur ár áður en slysið varð. Aðspurður kvaðst hann telja að stefnandi hafi verið fastráðinn á skipið. Hann kvaðst hafa stundað sjó í rúm þrjátíu ár og aldrei fengið skriflega pappíra um fastráðningu á skip en talið sig fastráðinn þegar hann var búinn að vera nokkrar vikur án þess að vera sendur í land.
Gunnar sagði að veiðitúrum á Ásbirni RE-50 hafi verið þannig hagað að veiðitúrinn hafi verið frá tveimur sólahringum upp í viku. Stoppað hafi verið svona í tvo til þrjá daga í landi eftir aðstæðum. Ekki hafi það fyrirkomulag verið tíðkað að skipsmenn tækju ákveðin frí á ákveðnum fresti t.d. annan eða þriðja hvern túr. Hann sagði að lausráðnir menn hafi verið á skipinu er komu og fóru, en stefnanda, taldi hann, ekki hafa verið einn af þeim. Hann kvað sumarfrí hafa verið tekið þegar skipið fór í slipp í um það bil mánaðartíma.
Gunnar sagði að mjög hafi verið sótt í að vera í skipsplássi á Ásbirni RE-50, menn hefðu haft góðar tekjur þar.
Aðspurður sagði Gunnar að ekki hafi tíðkast á Ásbirni RE-50 að menn tækju svokallaða frítúra, menn hafi tekið frí eftir aðstæðum og þörfum. Hann kvaðst ekki muna eftir að stefnandi hafi farið í land á meðan hann var samskipa stefnanda. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa sleppt nema einum til tveimur túrum á ári enda hafi verið góð frí á milli, stoppað yfir sumartímann og stuttar veiðiferðir, skipið hafi aflað mikið á stuttum tíma og menn fengið tveggja til þriggja daga frí á milli túra.
Björn Magnússon gaf skýrslu símleiðis fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi farið einn túr á Ásbirni RE-50, verið lausráðinn og farið túrinn fyrir stefnanda. Hann kvaðst hafa ætlað að stefnandi væri fastráðinn á skipinu. Skipstjórinn á Ásbirni RE-50 hafi haft samband við hann og spurt hann hvort hann gæti farið túrinn fyrir stefnanda.
Ályktunarorð: Bótafjárhæð stefnanda samkvæmt útreikningi réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er samtals 25.911.730 kr. Þetta er jafnframt sú fjárhæð sem stefnandi viðurkennir að hafa fengið greidda upp í stefnukröfu sína ekki síðar en 10. janúar 2005. Samkvæmt því hefur stefnandi fengið greiddar 460.120 kr. í þjáningabætur upp í kröfu um þjáningabætur að fjárhæð 454.480 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi 20. apríl 2002 til 28. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá hefur stefnandi fengið greiddar 2.300.600 kr. í miskabætur upp í kröfu um miskabætur að fjárhæð 4.133.250 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi 20. apríl 2002 til 28. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá hefur stefnandi fengið greiddar 17.686.871 kr. upp í kröfu um bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 51.295.300 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi 20. apríl 2002 til 28. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá hefur stefnandi fengið greiddar 3.784.197 kr. upp í kröfu um bætur fyrir tímabundna örorku að fjárhæð 5.751.858 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi 20. apríl 2002 til 28. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá hefur stefnandi fengið greiddar 1.679.942 kr. upp í framangreinda kröfu um vexti.
Samkvæmt þessu verður að ætla að stefnandi hafi að fullu fengið greidda kröfu sína um þjáningabætur.
Varanlegur miski stefnanda var bæði af dómkvöddum matsmönnum og dómkvöddum yfirmatsmönnum metinn fjörutíu stig. Ekki deilt um að 2.300.600 kr. eru fullar bætur stefnanda fyrir varanlegan miska, þegar bætur þessar eru byggðar á niðurstöðu matsmanna. Kröfu stefnanda um að miða eigi við bætur fyrir varanlegan miska við staðal samkvæmt 2. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga, eða 75% örorku, fær ekki stoð í gildandi skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.
Stefnandi telur að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku hans vegna slyssins eigi skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 að taka mið af brúttólaunum hans með staðgengilslaunum árið 2002, alls að fjárhæð 6.27.060 kr., enda megi telja allar líkur fyrir því, að hann hefði verið skipverji á Ásbirni RE-50 til frambúðar, hefði hann ekki orðið fyrir slysinu 20. apríl 2002. Til vara gerir stefnandi kröfu um að miðað verði við tekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið eftir reglum 1. mgr. 7. gr. sömu laga, samtals 9.508.638 kr., eða meðaltekjur 3.170.000 kr.
Fallist verður á með stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt fram á óvenjulegar aðstæður er með réttu kalli á annan mælikvarða um líklegar framtíðartekjur stefnanda en leiðsögn ákvæðis 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga mælir fyrir um.
Réttargæslustefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., reiknar með hærri meðaltekjum stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið en stefnandi miðar sjálfur við í varakröfu sinni um bætur fyrir varanlega örorku, eða 4.082.074 kr. Þá hefur stefnandi ekki hnekkt útreikningum tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda er liggur fyrir í málinu. Verður því að telja að stefnandi hafi fengið fullar bætur með þeim greiðslum sem hann hefur þegar tekið á móti frá tryggingarfélaginu fyrir varanlega örorku.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 19/1985 skal útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipverja. Ekki var gerður skriflegur samningur við stefnanda um skiprúm og hefur stefndi ekki með öðrum hætti sýnt fram á að stefnandi hafi verið lausráðinn. Verður því að telja að stefnandi hafi verið fastráðinn á skipið. Full laun stefnanda samkvæmt launaseðlum frá 22. apríl 2002 til 31. maí 2003 eru 7.020.297 kr. Ekki er tölulegur ágreiningur um að frá þeirri fjárhæð dragast 2.168.647 kr. samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Þá dregur stefndi að auki frá 1.067.453 kr. og miðar þar við sjö frítúra í mati á staðgengilslaunum komi til lækkunar.
Stefnandi hefur þegar fengið greiddar 3.784.197 kr. fyrir tekjutap vegna tímabundins atvinnutjóns. Hins vegar liggja ekki fyrir í málinu nein haldbær gögn um meðaltal frítúra fastráðinna skipverja í sambærilegri stöðu og stefnandi gegndi á Ásbirni RE-50 á þeim tíma er hér um ræðir. Verður stefndi að bera halla af því. Vangreiddar eru því 1.067.453 kr. fyrir tímabundið atvinnutjón.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.067.453 kr. með vöxtum eins og nánar segir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Grandi hf., greiði stefnanda, Ara Sigurðssyni, 1.067.453 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 20. apríl 2002 til 28. desember 2003, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.