Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Haldsréttur


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. janúar 2002.

Nr. 6/2002.

Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf.

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

Byggðastofnun

(Karl F. Jóhannsson hdl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Haldsréttur.

V ehf. vann í þrígang að viðgerðum á fiskiskipi nokkru á árunum 1998, 1999 og 2000, en svo fór að skipið var selt nauðungarsölu á árinu 2001. V ehf. krafðist þess að fá í skjóli haldsréttar úthlutað af söluverði skipsins til greiðslu á kröfu sem félagið taldi að það ætti á eiganda skipsins. Í málinu var óumdeilt að eigandi skipsins fékk það afhent eftir viðgerðirnar sem voru unnar á árunum 1998 og 1999. Talið var að V ehf. gæti ekki notið haldsréttar samkvæmt 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 fyrir kostnaði af þeim viðgerðum þar sem eigandi skipsins hefði fengið það afhent í kjölfar viðgerðanna. Að því er snerti kostnað vegna síðustu viðgerðarinnar tók Hæstiréttur fram að ekkert lægi fyrir um að V ehf. hefði verið falið að vinna að einstökum viðgerðum, sem þessi hluti kröfunnar væri byggður á, hvort eða í hvaða mæli félagið hefði leyst þá vinnu af hendi eða hver afstaða eiganda skipsins til kröfunnar væri. Þótt skipið hefði verið tekið upp í dráttarbraut og staðið þar óslitið um lengri tíma gæti krafa V ehf. vegna kostnaðar af þessu ekki ein og sér notið haldsréttar í því án tengsla við viðgerð, sem farið hefði sannanlega fram í dráttarbrautinni að ósk eiganda skipsins. Var kröfu V ehf. því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. nóvember 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hnekkt yrði ákvörðun sýslumannsins á Höfn 10. maí sama árs um að breyta ekki frumvarpi sínu til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Hrafnseyjar SF 8 við nauðungarsölu á þann veg að tekin yrði til greina krafa sóknaraðila um úthlutun á 6.671.549 krónum til greiðslu kröfu í skjóli haldsréttar. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að frumvarpinu verði breytt þannig að hann fái úthlutað 6.671.549 krónum af söluverði skipsins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins ritaði varnaraðili beiðni 17. október 2000 til sýslumannsins á Höfn um nauðungarsölu á fiskiskipinu Hrafnsey, eign Stapakletts ehf., til fullnustu kröfu að fjárhæð 17.054.140 krónur samkvæmt skuldabréfi 11. október 1996, sem tryggt var með 1. veðrétti í skipinu, svo og kröfu samkvæmt skuldabréfi 14. júní 1998, tryggt með 3. veðrétti í því, að fjárhæð 10.429.472 krónur. Sýslumaður tók þessa beiðni fyrir 14. desember 2000 ásamt annarri beiðni um nauðungarsölu á skipinu, sem hafði borist frá Landsbanka Íslands hf. Var þá ákveðið að uppboð myndi byrja á skipinu á nánar tilgreindum tíma 11. janúar 2001. Uppboðið var haldið þann dag. Varnaraðili bauð þar 500.000 krónur í skipið og varð með því hæstbjóðandi. Samkvæmt ákvörðun, sem þá var tekin, var uppboðinu fram haldið 5. febrúar 2001. Þann dag lagði sóknaraðili fram kröfulýsingu, þar sem hann krafðist þess að fá áðurgreinda fjárhæð greidda af söluverði skipsins næst á eftir kröfum, sem nytu sjóveðréttar, en framar öðrum veðkröfum. Þessari kröfu sóknaraðila var þegar mótmælt meðal annars af varnaraðila, en afstaða var ekki tekin til hennar að svo komnu. Við framhald uppboðsins varð varnaraðili aftur hæstbjóðandi með því að bjóða í skipið 9.000.000 krónur. Það boð mun hafa verið samþykkt 6. mars 2001 og fékk varnaraðili afsal fyrir skipinu 29. maí sama árs. Sýslumaður gerði frumvarp til úthlutunar á söluverði skipsins 12. apríl 2001. Samkvæmt því átti fyrst að greiða af söluverðinu sölulaun í ríkissjóð og fimm nánar tilgreindar kröfur, sem nutu lögveðréttar í skipinu, samtals 1.816.445 krónur. Eftirstöðvar söluverðsins, 7.183.555 krónur, áttu að renna til varnaraðila til greiðslu upp í kröfu hans samkvæmt áðurnefndu veðskuldabréfi frá 11. október 1996. Sóknaraðili mótmælti frumvarpinu með bréfi 20. apríl 2001. Sýslumaður hélt fund um mótmælin 10. maí sama árs og hafnaði þeim þar. Sóknaraðili lýsti því þegar yfir að hann vildi leita úrlausnar héraðsdóms um þessa ákvörðun og var mál þetta þingfest af því tilefni 10. júlí 2001.

II.

Samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fram, vann hann á fyrri stigum að viðgerðum á fiskiskipinu Hrafnsey á tímabilinu 29. október til 11. nóvember 1998 og aftur frá 20. ágúst til 15. september 1999. Óumdeilt er að eigandi skipsins fékk það afhent eftir viðgerðirnar í bæði þessi skipti, þótt kostnaður af þeim, sem sóknaraðili kveður hafa verið samtals 4.422.110 krónur, hafi ekki verið greiddur nema að óverulegu leyti.

Fyrir liggur af gögnum málsins að skipið var við bryggju í Hornarfjarðarhöfn óslitið á tímabilinu frá 18. apríl til 4. desember 2000. Á því tímabili eða 24. ágúst 2000 rann haffærisskírteini skipsins út, en það var þá endurnýjað til 20. desember sama árs.

Í málatilbúnaði varnaraðila er greint frá því að hann hafi um miðjan nóvember 2000 fengið upplýsingar um að skipið væri í reiðileysi, þar sem það væri í Hornarfjarðarhöfn. Hafi varnaraðila verið tjáð að skipið lægi undir skemmdum, meðal annars út af frosti, enda hafi ekki verið hiti á því og búið að loka fyrir rafmagn. Af þessu tilefni hafi hann reynt að ná til útgerðarmanns skipsins, en án árangurs. Hann hafi því leitað til Vélsmiðju Hornarfjarðar ehf. til að láta gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón. Það hafi vélsmiðjan gert og varnaraðili greitt fyrir um 170.000 krónur, en samhliða þessu hafi hann gert ráðstafanir til að fá flýtt þeirri nauðungarsölu á skipinu, sem hann hafði þegar krafist.

Hinn 4. desember 2000 mun eigandi skipsins hafa látið sigla því til Hafnarfjarðar, þar sem það var tekið upp í dráttarbraut sóknaraðila. Um aðdraganda þess skýrði fyrirsvarsmaður sóknaraðila svo frá fyrir héraðsdómi að eigandi skipsins hefði haft samband við sig og beðið um að það yrði tekið til skoðunar og viðgerðar í samræmi við kröfur, sem Siglingastofnun hefði gert. Hefði eigandinn sagt að ekki yrði unnt að greiða kostnað af þessu fyrr en tekist hefði að koma skipinu aftur til veiða. Staðfesti fyrirsvarsmaðurinn jafnframt að sóknaraðili hafi greitt fyrir olíu, sem fengin var á skipið fyrir siglingu þess til Hafnarfjarðar. Hafi það verið gert að ósk eigandans, sem hafi ekki getað keypt olíuna. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn ekki hafa vitað um nauðungarsölu á skipinu á þessu stigi, heldur fengið fyrst vitneskju um hana skömmu áður en uppboði á því var fram haldið.

Samkvæmt yfirliti, sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu, var á tímabilinu frá 4. desember 2000 til 10. febrúar 2001 unnið að því að þvo og lakka botn skipsins, þvo og slípa bol þess, taka stýri af því og öxul úr, svo og að lagfæra skrúfublöð. Á yfirlitinu tilgreinir sóknaraðili kostnað af hverjum þessara liða, en alls er hann sagður vera 988.712 krónur. Að auki er þar greint frá kostnaði af rafmagni samkvæmt mæli, 63.974 krónum, töku skipsins upp í dráttarbraut, 50.000 krónum, og færslu þess þar til hliðar, 196.000 krónum, svo og stöðugjaldi í 68 daga, 25.000 krónum fyrir hvern dag, eða 1.700.000 krónum. Í heild nam áfallinn kostnaður á framangreindu tímabili því 2.998.686 krónum. Þessu til viðbótar kveðst sóknaraðili eiga ógreiddar hjá Stapakletti ehf. eftirstöðvar af kostnaði vegna áðurnefndra viðgerða á árunum 1998 og 1999, alls 3.319.080 krónur. Til samans telur sóknaraðili sig þannig eiga kröfur vegna viðgerða á skipinu að fjárhæð 6.317.766 krónur. Að viðbættum innheimtulaunum lögmanns og kostnaði af hagsmunagæslu við nauðungarsölu skipsins, samtals 353.783 krónum, nemur heildarkrafa sóknaraðila þeim 6.671.549 krónum, sem hann krefst að fá úthlutað af söluverði þess.

III.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að sóknaraðili geti ekki notið haldsréttar samkvæmt ákvæði 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985 fyrir þeim 3.319.080 krónum, sem hann kveðst eiga ógreiddar vegna kostnaðar af viðgerðum á fiskiskipinu Hrafnsey á árunum 1998 og 1999.

Krafa sóknaraðila vegna kostnaðar af vinnu við skipið frá 4. desember 2000 til þess dags, sem það var selt við framhald uppboðs, samtals 2.998.686 krónur, styðst sem áður segir við yfirlit, sem hann hefur tekið saman. Kostnaðurinn er þar sundurliðaður á einstaka liði, sem áður er greint frá. Þessir liðir eru hins vegar án frekari skýringa og ekki studdir við önnur gögn. Gegn mótmælum varnaraðila liggur ekkert fyrir um að sóknaraðila hafi verið falið að vinna að einstökum viðgerðum, sem um ræðir í yfirlitinu, hvort eða í hvaða mæli hann hafi í raun leyst þá vinnu af hendi eða hver afstaða eiganda skipsins til kröfu hans sé. Um öll þessi atriði var sóknaraðila þó í lófa lagið að færa fram frekari sönnunargögn. Þótt ljóst sé að skipið hafi verið tekið upp í dráttarbraut og hafi staðið þar óslitið um lengri tíma frá 4. desember 2000, getur krafa sóknaraðila vegna kostnaðar af þessu ekki ein og sér notið haldsréttar í því án tengsla við viðgerð, sem farið hefur sannanlega fram í dráttarbrautinni að ósk eiganda skipsins. Verður þannig að fallast á með varnaraðila að þetta yfirlit geti ekki gegn andmælum hans í neinu atriði orðið grundvöllur að viðurkenningu haldsréttar í skipinu fyrir þeim kostnaði, sem þar greinir. Samkvæmt þessu verður jafnframt staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um kröfu sóknaraðila vegna viðgerða á skipinu á tímabilinu frá 4. desember 2000.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest. Dæma verður sóknaraðila til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., greiði varnaraðila, Byggðastofnun, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. nóvember 2001

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar þann 1. október 2001, að loknum munnlegum málflutningi, barst Héraðsdómi Austurlands með málskoti dags. 10. maí 2001. 

Sóknaraðili er Vélsmiðja Orms og Víglundar, kt. 480998-2789, Kaplahrauni 14-16, Hafnafirði.  Varnaraðili er Byggðastofnun, kt. 450679-0389, Ártorgi 1, Sauðarkróki.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að ákvörðun sýslumannsins á Höfn um að hafna mótmælum sóknaraðila við frumvarpi til úthlutunar nauðungarsöluandvirðis fiskiskipsins Hrafnseyjar SF-8 (Skskr.nr. 0619), verði hnekkt.  Þess er ennfremur krafist að við úthlutun söluandvirðis verði úthlutað til greiðslu lýstrar kröfu sóknaraðila að fjárhæð kr. 6,671,594 sem tryggð er með haldsrétti í hinu selda skipi.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Af hálfu varnaraðila eru gerðar þær dómkröfur að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Höfn hinn 10. maí sl. um að hafna mótmælum sóknaraðila við frumvarp til úthlutunar á söluverði Hrafnseyjar SF-8, skipaskrárnúmer 619.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir:

Þann 17. október 2000 óskaði Byggðastofnun, sem er varnaraðili í máli þessu eftir því að Hrafnsey SF-8, skipaskrárnúmer 0619, sem var þinglýst eign Stapakletts ehf. á Höfn í Hornafirði yrði seld nauðungarsölu.  Var beiðni varnaraðila tekin fyrir þann 14. desember 2000.  Þann 11. janúar 2001 var byrjunaruppboð haldið á skipinu og þann 6. febrúar 2001 fór fram framhaldssala á því.  Var skipið selt varnaraðila sem var hæstbjóðandi en boð hans, sem nam alls kr. 9,000,000, var samþykkt þann 6. mars. 2001.  Alls námu lýstar kröfur í skipið  kr. 51,000,000, en varnaraðili átti 1. og 2. veðrétt í skipinu vegna tveggja veðskuldabréfa, samtals að fjárhæð kr. 30,299,134.   Sóknaraðili lýsti kröfu í söluverð skipsins að fjárhæð kr. 6,671,768 með bréfi, dags. 5. febrúar 2001 og kemur fram í bréfinu, að kröfunni sé lýst á grundvelli haldsréttar og sé krafist greiðslu kröfunnar af uppboðsandvirði, áður en nokkru verði ráðstafað til greiðslu veðkrafna, eftir að sjóðveðkröfur hafi verið greiddar að fullu. Varnaraðili mótmælti kröfu sóknaraðila og í frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluandvirði skipsins frá 12. apríl 2001 var krafa sóknaraðila ekki tekin til greina.  Með bréfi, dags. 20. apríl 2001, mótmælti sóknaraðili framangreindu frumvarpi þar sem það gerði ekki ráð fyrir neinni greiðslu upp í kröfu hans. Hafnaði sýslumaður mótmælum sóknaraðila. Var varnaraðila afsalað hinu selda með uppboðsafsali, dags. 29. maí 2001. Uppboðsandlagið var áður þinglýst eign Stapakletts ehf., Höfn. Samkvæmt veðbókavottorði var skipið smíðað á Akureyri árið 1959 og er það 67 brt. og  21,22 m á lengd.  Áður en til framangreindrar nauðungarsölu á skipinu kom hafði fyrirtækið verið í talsverðum fjárhagsörðugleikum um nokkurt skeið og hafði m.a. verið gert árangurslaust fjárnám hjá fyrirtækinu þann 29. nóvember 2000.  Ekki höfðu verið stundaðar veiðar á skipinu um nokkurt skeið, áður en uppboðsins var krafist og mun skipið raunar hafa legið óhreyft í höfninni á Höfn í Hornafirði frá maí 2000 og þar til að því var siglt til Hafnarfjarðar í byrjun desember s.á. og því komið fyrir í dráttarbraut sóknaraðila. Hefur sóknaraðili haldið því fram, að gerðar hafi verið ýmsar lagfæringar á skipinu, m.a. hafi það verið botnþvegið, skipsbolur þveginn, slípaður og lakkaður.  Þá hafi stýri verið tekið af, skrúfan losuð af og öxull dreginn úr.  Hafi verið gert við skrúfublöð, en ekki sé lokið viðgerð á öxli.  Hafi skipið því staðið í dráttarbraut sóknaraðila, þegar nauðungarsalan fór fram. 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir kröfu sína á ákvæðum siglingarlaga nr. 34/1985.  Vísar sóknaraðili einkum til 200. gr. laganna þar sem mælt sé fyrir um, að sá, sem smíðað hafi skip eða framkvæmt viðgerð á því, geti beitt haldsrétti til tryggingar kröfu sinni vegna smíðinnar eða viðgerðarinnar, enda hafi hann vörslu skipsins. Telur sóknaraðili það engum vafa undirorpið að umfangsmiklar viðgerðir og breytingarvinna hafi verið unnin á skipinu og hafi þessar viðgerðir verið nauðsynlegar til þess að halda skipinu haffæru svo að halda mætti því til veiða.  Fullnægi því krafa sóknaraðila skilyrðum framangreinds lagaákvæðis. Ekki leiki á því vafi að sóknaraðili hafi verið með vörslur skipsins á uppboðsdegi og megi sóknaraðili því tvímælalaust beita haldsrétti til tryggingar kröfu sinni.  Gangi haldsréttur fyrir samningsbundnum veðréttindum og eignarhöftum í skipinu, öðru en sjóveðréttindum, skv. 3. mgr. 200. gr. laga nr. 34/1985.  Beri því að greiða kröfu sóknaraðila að fullu áður en kemur til úthlutunar til þeirra veðhafa sem byggja réttindi sín á samningsveði.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

                Varnaraðili byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að kröfulýsing sóknaraðila í söluverð skipsins, sem dagsett er þann 5. febrúar 2000, hafi ekki verið nægilega sundurliðuð né hafi hún verið studd gögnum eins og gerður er áskilnaður um í 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991.  Vísar varnaraðili til 6. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 en þar er mælt fyrir um að í frumvarpi um úthlutunargerð verði ekki tekið tillit til óþinglýstra réttinda nema kröfu hafi verið lýst í skjóli þeirra.  Telur varnaraðili að líta beri svo á að kröfu sem lýst er í uppboðsandlag á grundvelli óþinglýstra réttinda, eins og t.d haldsréttar, verði að vera í samræmi við 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991.  Verði að öðrum kosti að fara með slíka kröfu sem um vanlýsta kröfu sé að ræða.  Hafi sóknaraðila borið skv. 3. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 að lagfæra kröfuna innan þess frest sem veittur var til að gera athugasemdir við frumvarp að úthlutunargerð skv. 51. gr. laganna eða í síðasta lagi er mál var tekið fyrir hjá sýslumanni þann 10. maí 2001.  Þar sem sóknaraðili hafi ekki gert nauðsynlegar lagfæringar á málatilbúnaði sínum í þessum efnum verði þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum hans.

                Þá telur varnaraðili að krafa sóknaraðila sé vanreifuð og órökstudd.  Sé framlagður reikningur sóknaraðila órökstuddur og óreifaður og samræmist ekki öðrum gögnum málsins, og þá sértaklega ófullgerðu yfirliti yfir vinnustundir sem lagt hefur verið fram í málinu.

                Varnaraðili telur einnig að haldsréttur geti aðeins verið fyrir þeim kröfum sem til var stofnað eftir að skipið komst í vörslur sóknaraðila.  Sóknaraðili geti ekki átt haldsrétt í skipinu vegna eldri krafna á hendur útgerðinni enda fellur haldsréttur niður um leið og haldsréttarhafi afhendi hlut sem tryggður var með haldsrétti. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða, að hluti krafna hans séu eldri kröfur vegna viðgerða hans á skipinu, áður en það komst í vörslur sóknaraðila á ný.  Hins vegar eru kröfur sóknaraðila ekki sundurliðaðar að þessu leyti og er þannig ekki hægt að átta sig á því, hvaða viðgerðir hafi átt sér stað, áður en skipið kom í slipp í desember 2000 og hvaða kröfur séu eldri.  Er af þeim orsökum ómögulegt að fjalla um kröfuna eða að reifa málið og beri því að hafna kröfunni í heild sinni. 

                Þá telur varnaraðili að til haldsréttar skv. 200. gr. siglingarlaga geti einungis stofnast ef að með viðgerðum eða framkvæmdum hafi orðið virðisauki á skipinu. Telur varnaraðili, að virði skipsins hafi ekki aukist þann tíma, sem skipið hefur verið í vörslum sóknaraðila, heldur þvert á móti liggi skipið undir skemmdum og hafi beinlínis rýrnað í verði. Hafi sóknaraðili haldið skipinu í dráttarbraut, enda þótt að hér sé um tréskip að ræða, sem ekki megi vera nema stuttan tíma í dráttarbraut vegna hættu á að viður þess þorni og að skipið fari að slá úr sér. 

                Varnaraðili telur einnig að telja verði það skilyrði fyrir því að til haldsréttar sé stofnað, að framkvæmdir, sem hann styðjist við, séu í þágu rétthafa að skipinu og um sé að ræða eðlilegar aðgerðir.  Í ljósi aðstæðna verði hins vegar að telja þá ráðstöfun að færa skipið í slipp til viðgerða hafi verið mjög óeðlileg.  Hafi sú ráðstöfun gengið í bága við hagsmuni veðhafa og hafi raunar verið andstætt vilja þeirra.  Eins og sakir stóðu hafi útgerð skipsins átt við verulega rekstrarörðugleika að stríða og var nánast komin í þrot.  Hafði skipið legið í höfn um nokkurn tíma og var borin von að útgerð skipsins hefði bolmagn til þess að hefja veiðar að nýju með skipinu.  Hafi sú ráðstöfun að færa skipið til Hafnarfjarðar og í vörslur sóknaraðila ekki getað þjónað neinum öðrum tilgangi en þeim að gera sóknaraðila kleyft að stofna til haldsréttar í skipinu og tryggja þannig eldri kröfu hans umfram það sem ella hefði orðið og skerða þannig rétt þinglýstra veðhafa og baka þeim tjón.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeim lið í kröfu sóknaraðili sem lítur að stöðugjaldi í slipp sóknaraðila enda hafi skipið legið óvanalega lengi í slippnum að þarflausu þar sem ekki hefur verið unnið að viðgerð skipsins mestan þann tíma sem skipið hefur legið þar. 

                Þá telur varnaraðili að skýra beri ákvæði 200. gr. siglingarlaga þröngt enda felist í ákvæðinu undantekning frá þeirri meginreglu að um rétthæð kröfu við upphaf fari eftir þinglýsingarreglum.  Beri að skýra allan vafa um tilurð og réttmæti haldsréttar þeim í hag sem byggir rétt sinn á þinglýstum réttindum.  Verði sá sem ætli að bera haldsrétt fyrir sig að sýna fram á réttmæti kröfu sinni með óyggjandi hætti.  Hins vegar skortir á öll sönnunargögn í máli þessu sem stutt geta kröfu sóknaraðila.

                Niðurstaða:

                Taka verður undir með varnaraðila að kröfulýsing sóknaraðila um úthlutun söluverðs hafi ekki verið nægilega greinileg né sundurliðuð með fullnægjandi hætti.  Hins vegar leiðir það ekki til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila af þeirri ástæðu enda hefur sóknaraðili sundurgreint kröfu sínar nánar.

                Samkvæmt 200. gr. siglingarlaga nr. 34/1985 getur sá sem hefur smíðað skip eða framkvæmt viðgerð á því beitt haldsrétti til tryggingar kröfu sinni vegna smíðinnar eða viðgerðarinnar enda hafi hann vörslu skipsins.  Þá er mælt fyrir um það í 2. mgr. 200. gr. að haldsréttur víki fyrir sjóveðréttindum í skipi en gangi fyrir samningsbundnum veðréttindum og öðrum eignarhöftum.

Með hliðsjón af framangreindu ákvæði verður að telja að aðeins þær kröfur geti notið haldsréttar sem stofnast hafa vegna viðgerða sem framkvæmdar hafa verið á skipi á meðan þær eru í vörslu viðgerðaraðila.  Þannig geti eldri kröfur viðgerðaraðila ekki notið haldsréttar enda hefur rofnað það samband á milli vörslunnar og kröfu um greiðslu viðgerðarkostnaðar, sem gera verður áskilnað um að sé fyrir hendi skv. ákvæði 200. gr. siglingarlaga.  Samkvæmt yfirliti kröfu sóknaraðila vegna viðgerðar á skipinu kemur fram að samtals kr. 3,319,080 séu vegna viðgerða sem fóru fram á skipinu á árunum 1997-2000.  Geta slíkar eldri kröfur sem stofnast hafa í skipinu ekki notið haldsréttar á grundvelli ákvæðis 200. gr. siglingarlaga og ber því að hafna þessum lið kröfugerðar sóknaraðila af þeirri ástæðu.

Varnaraðili hefur borið brigður á það að viðgerð sú sem sóknaraðili telur sig hafa framkvæmt á skipinu hafi verið forsvaranleg eins og sakir stóðu.  Hafi útgerðaraðili skipsins verið í raun komin í fjárhagslegt þrot og hafi í raun engar líkur staðið til þess að útgerðin hefði bolmagn til þess að stunda frekari útgerð með skipinu eða greiða fyrir viðgerðina.

Í skýrslu starfsmanns Vélsmiðju Hornafjarðar fyrir dómi kom fram að skipið hefði verið í slæmu ásigkomulagi.  Einnig kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns sóknaraðila kom einnig fram að ástand skipsins var mjög ábótavant og kostaði það dýrar viðgerðir að fá endurnýjað haffærniskírteini fyrir skipið.  Með hliðsjón af fjárhagsstöðu eiganda skipsins, Stapakletts ehf., er ljóst að útgerðin hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir viðgerðum og hefja fiskveiðar á skipinu að nýju.  Þá hafi verið krafist nauðungarsölu á skipinu vegna vanskila á veðskuldabréfum sem á skipinu hvíldu og eiganda verið tilkynnt um það. Auglýsing um uppboðsmeðferð mun hafa verið birt í Lögbirtingablaði 3. nóvember 2000.  Mátti varnaraðila því vera ljóst hvernig málum var háttað, þegar hann féllst á að greiða olíukostnað vegna siglingar skipsins til Hafnarfjarðar, en útgerðin hafði ekki fé til þess að greiða eldsneytiskostnað vegna siglingarinnar auk þess sem kröfur sóknaraðila vegna eldri viðgerða á skipinu voru enn ógreiddar. 

Verður með hliðsjón af þessu ekki hægt að telja að sú ákvörðun fyrirsvarsmanna eiganda skipsins að færa skipið til viðgerðar hjá sóknaraðila hafi verið forsvaranleg eins og sakir stóðu.  Þetta mátti sóknaraðili vita þegar hann tók skipið í slipp og hóf á því þær viðgerðir sem hann byggir á kröfu sína um haldsrétt í skipinu.  Með hliðsjón af þessu er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að hann geti borið fyrir sig haldsrétti í skipinu á grundvelli ákvæðis 200. gr. siglingarlaga nr. 34/1985.

                Ber því með vísan til framangreinds að staðfesta ákvörðun sýslumannsins á Höfn hinn 10. maí 2001 um að hafna mótmælum sóknaraðila við frumvarpi til úthlutunar á söluverði Hrafnseyjar SF-8, skipaskrárnúmer.

Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 120,000 í málskostnað.

                Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Höfn hinn 10. maí 2001, um að hafna mótmælum sóknaraðila, Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. við frumvarpi til úthlutunar á söluverði Hrafnseyjar SF-8, skipaskrárnúmer 619.

                Sóknaraðili skal greiða varnaraðila, Byggðastofnun, kr. 120,000 í málskostnað.