Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2012


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ítrekun
  • Ökuréttarsvipting


Miðvikudaginn 19. desember 2012.

Nr. 360/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Vilborgu Helgu Ólafsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ölvunarakstur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ítrekun. Ökuréttarsvipting.

V var ákærð fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. V neitaði sök og hélt því fram fyrir dómi að önnur hefði ekið bifreiðinni og bar sú á sama hátt. Báðar höfðu þær greint á annan veg frá hjá lögreglu. Í héraði var talið sannað, með framburði lögreglumanna sem komu á vettvang, að V hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn. Var V sakfelld samkvæmt ákæru og gert að sæta 30 daga fangelsi og svipt ökurétti ævilangt. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærða krefst sýknu.

Skömmu eftir að ákærða hafði verið handtekin og færð á lögreglustöð var tekið blóðsýni úr henni. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á sýninu mældist vínandamagn í blóði ákærðu 1,45‰. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Vilborg Helga Ólafsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 204.983 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2012.

I

Málið, sem dómtekið var 9. febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 15. nóvember 2011 á hendur „X, kt. [...], [...], [...], og Vilborgu Helgu Ólafsdóttir, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin aðfaranótt föstudagsins 17. desember 2010:

I.

Á hendur ákærðu X og Vilborgu Helgu fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í vörslum sínum í bifreiðinni [...] við [...] í Reykjavík 13,50 g af maríhúana-kannabis og 40,04 g af hassi-kannabis sem fannst í tösku í bifreiðinni eftir leit lögreglu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.

II.

Á hendur ákærðu Vilborgu Helgu fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, óhæf til að stjórna henni örugglega (tetrhýdrókannabínól í blóði 2,1 ng/ml, vínandamagn í blóði 2,09‰) og svipt ökurétti við [...] í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærðu.

Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og ákærða Vilborg Helga til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006. Þess er einnig er krafist að ofangreind fíkniefni, 13,50 g af maríhúana-kannabis og 40,04 g af hassi-kannabis verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

Við þingfestingu málsins játaði ákærða X sök, en ákærða Vilborg Helga neitaði sök. Í þinghaldi 18. janúar síðastliðinn var fallið frá ákæru á hendur ákærðu Vilborgu Helgu fyrir það sem henni er gefið að sök í I. lið ákæru. Í sama þinghaldi var þætti ákærðu X lokið með viðurlagaákvörðun og haldlögð fíkniefni gerð upptæk. Í því þinghaldi var bókað eftir henni að hún hefði ekið bifreiðinni, en ekki meðákærða.

Ákærða Vilborg Helga neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Málavextir eru þeir að framangreindan dag komu lögreglumenn að bifreiðinni, sem í ákæru getur, við [...]. Bifreiðin var í gangi og ljós kveikt. Þegar lögreglubifreiðinni var beygt inn í götuna var bifreiðinni ekið í stæði og stöðvuð þar. Síðan segir í skýrslu: „Þegar við nálguðumst bifreiðina sáum við hvar ökumaður tróð sér aftur í en farþegi fram í var kyrr. Þegar við opnuðum bifreiðina sáum við hvar tvær stelpur voru í ástaratlotum. Grunaður ökumaður Vilborg Helga Ólafsdóttir sat nokkurn veginn ofan á farþega, X. Ekki var gott að sjá í gegnum skyggðar rúður bifreiðarinnar hver var að aka en miðað við staðsetningu þeirra þegar bifreiðin var opnuð þá virtist sem svo að Vilborg væri ökumaður þar sem X var undir henni í farþegasætinu.“ Lögreglumenn töldu báðar stúlkurnar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og voru þær færðar á lögreglustöð þar sem þeim var tekið blóð til rannsóknar.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði X fyrst svo frá að hún vissi ekki hver hefði ekið bifreiðinni en nefndi að kona hefði verið með þeim sem hefði horfið af vettvangi. Ákærða sagði fyrst að konan hefði ekið bifreiðinni en eftir að hafa ráðfært sig við verjanda sinn kvaðst hún hafa ekið bifreiðinni á stæðinu. Fyrir aksturinn hefði hún neytt áfengis en ekki fíkniefna. Eftir að akstri lauk kvaðst hún hafa fengið sér bjór. X var yfirheyrð aftur og bar þá að ákærða hefði ekið bifreiðinni á stæðinu.

Rannsókn á blóðsýninu úr ákærðu sýndi að í því voru efni þau sem í ákæru greinir.

III

Við aðalmeðferð neitaði ákærða að hafa ekið bifreiðinni. Hún kannaðist við að hafa neytt áfengis og reykt gras umrætt kvöld. Hún taldi sig hafa fundið vel til áhrifa efnanna. Hún kvað X hafa ekið bifreiðinni. Ákærðu var bent á að hún hefði viðurkennt fyrir lögreglu að hafa ekið bifreiðinni og kvaðst hún hafa gert það til að sleppa úr vörslu lögreglunnar. Ákærða kvaðst hafa setið í farþegasæti fram í og hefði X komið yfir í farþegasætið til sín.

X kvaðst hafa ekið bifreiðinni en ekki ákærða. Hún hefði ekið úr miðbænum og hefði aksturinn endað í [...] en þá var sprungið á bifreiðinni. Hún kvaðst hafa setið í farþegasæti þegar lögreglumenn komu að þeim, enda hefðu þær ákærða verið að leika sér. Framburður hennar hjá lögreglu var borinn undir hana og kvaðst hún hafa borið svona, enda taldi hún ákærðu hafa verið að hlífa sér.

Lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hann bar að lögreglumenn hefðu komið að bifreiðinni við [...] og kvaðst hann hafa séð bifreiðinni ekið inn í stæði af miðju planinu. Henni hefði verið ekið svona 10 metra. Hann kvaðst hafa séð inn um afturrúðu bifreiðarinnar þegar hún stöðvaði að farþegi sat fram í ásamt ökumanni. Hann kvaðst hafa séð að ökumaður eins og ætlaði aftur í og kvað hann lögreglumennina hafa stokkið út úr lögreglubifreiðinni og þá séð að grunaður ökumaður, ákærða, var klofvega ofan á farþeganum. Lögreglumaðurinn kvað farþegann alltaf hafa verið kyrran en ökumaður hreyft sig eins og lýst var. Ákærða og farþeginn voru spurðar hver hefði ekið og var þá nefnd kona til sögunnar sem hefði hlaupið af vettvangi. Hann kvað það hins vegar útilokað að nokkur annar en ákærða hefði ekið þarna á stæðinu.

Annar lögreglumaður, sem var á vettvangi, bar að hafa séð bifreiðinni ekið af plani við [...] og inn í stæði umrædda nótt. Hún kvaðst og hafa séð að ökumaðurinn hafi eins og hreyft sig úr ökumannssæti og yfir í farþegasætið. Þegar lögreglumennirnir komu að bifreiðinni kvaðst hún hafa opnað dyrnar farþegamegin og voru báðar stúlkurnar farþegamegin og var sú, sem hafi farið úr ökumannssætinu og er ákærð í málinu, klofvega yfir farþeganum, X.

Rannsóknarlögreglumaður, sem yfirheyrði ákærðu og X, staðfesti skýrslur sínar. Hann staðfesti að ákærða hefði játað að hafa ekið bifreiðinni og ekkert hefði bent til þess að sú játning væri röng. Þá kvað hann hafa verið runnið af ákærðu og X þegar hann tók af þeim skýrslur.

IV

Ákærða neitar sök og bar fyrir dómi að [...] [...], X, hefði ekið bifreiðinni. X bar á sama hátt. Þær höfðu borið á annan veg hjá lögreglu, eins og rakið var. Lögmaður var viðstaddur er ákærða gaf sína skýrslu. Tveir lögreglumenn, sem komu á vettvang og sáu bifreiðinni ekið, hafa hins vegar borið að ökumaður bifreiðarinnar hefði fært sig úr ökumannssætinu og yfir til farþegans. Farþeginn hefði hins vegar ekki hreyft sig. Þegar þeir opnuðu bifreiðina lá X í farþegasætinu en ákærða klofvega ofan á henni. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn eins og hún og [...] [...] höfðu viðurkennt hjá lögreglu. Ákærða hefur viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis og efna í þetta skipti og styðst játning hennar við önnur gögn málsins. Ákærða verður því sakfelld fyrir það sem henni er gefið að sök í ákærunni og er brot hennar þar rétt fært til refsiákvæða.

Eftir að ákærða varð 18 ára hefur hún tvívegis verið sektuð og svipt ökurétti fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hún sektuð fyrir þjófnað 2. maí síðastliðinn. Verður refsing hennar því hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá verður ákærða  svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja, enda er hér um aðra ítrekun að ræða, sbr. 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga.

Loks verður ákærða dæmd til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Vilborg Helga Ólafsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði 109.971 krónu í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns Stefáns Karl Kristjánssonar hdl., 200.800 krónur.