Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Torfa Agnars Jónssyni (Ásgeir Jónsson hrl.),
(Björgvin Þórðarson lögmaður brotþola )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Einkaréttarkrafa

Reifun

T var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið ítrekað í höfuð A og líkama, m.a. með riffli og eða riffilsjónauka, með þeim afleiðingum að A hlaut tvíbrot í neðri kjálka, skurð á vinstri hlið höfuðs og mar víðsvegar um bak og síður. Við ákvörðun refsingar var litið til þess líkamsárásin hefði verið sérstaklega hættuleg sem beinst hefði að höfði og hefðu áverkar A verið mjög alvarlegir. Á hinn bóginn var horft til þess að T hafði ekki áður hlotið refsidóm og að nokkur dráttur hafði orðið á málinu. Var refsing T ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði en fullnustu tólf mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var T gert að greiða A miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að refsing hans verði milduð og hann sýknaður af einkaréttarkröfu eða hún lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða brotaþola 150.000 krónur í málskostnað við að halda kröfu sinni fram hér fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Torfi Agnars Jónsson, greiði brotaþola, A, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 527.186 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

                                                            

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. janúar 2016.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 21. ágúst 2014 á hendur Torfa Agnars Jónssyni, kennitala [...], til heimilis að [...], Reykjanesbæ, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt 9. júní 2012, í sumarhúsi sínu að [...], Grímsnes- og Grafningshreppi, veist að A, kennitala [...], með ofbeldi og slegið ítrekað í höfuð hans og líkama, m.a. með riffli og eða riffilsjónauka. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut tvíbrot í neðri kjálka vinstra megin svo hann þurfti að undirgangast aðgerð þann 6. september 2012. Þá hlaut hann nokkra skurði á vinstri hlið höfuðs sem sauma þurfi saman og mar víðsvegar um bak og síður. 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa A, en krafan er þar svohljóðandi:

„Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 2.027.547, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 6. gr. vaxtalaga. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða lögmannskostnað brotaþola samkvæmt tímaskýrslu auk virðisaukaskatts, sem lögð verður fram við aðalmeðferð málsins fyrir dómi eða að mati dómsins. Verði lögmannskostnaður dæmdur að mati dómsins þá er farið fram á að tekið verði tillit til skyldu brotaþola til greiðslu virðisaukaskatts og málflutningsþóknun [sic]. Krafan er gerð með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verði bótakröfunni vikið til meðferðar fyrir dómi í sérstöku einkamáli gerir brotaþoli kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi ákærða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu brotaþola til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.“ 

Málið var þingfest 2. október 2014 og kom ákærði þá fyrir dóminn ásamt Jónínu Guðmundsdóttur hdl., sem var skipuð verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þeim atvikum sem lýst er í ákæru. Var ákveðið að í málinu færi fram aðalmeðferð.  Ákærði hafnaði framkominni bótakröfu.

Hófst aðalmeðferð málsins 11. nóvember 2014 en henni varð ekki lokið fyrr en 18. nóvember s. á. og var þá málið dómtekið. Dómur var kveðinn upp í málinu 15. desember 2014. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og var dómur kveðinn upp þar 10. september 2015 og var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Ofangreindum dómsformanni var úthlutað málinu til meðferðar 16. september 2015 og var málið tekið fyrir 1. október 2015. Sótti ákærði þá ekki þing en vegna hans sótti þing Ásgeir Jónsson hrl. og lagði fram yfirlýsingu ákærða um að hann óskaði eftir að Ásgeir yrði skipaður verjandi hans og var það gert, en jafnframt kom fram í yfirlýsingu ákærða að afstaða hans til sakargifta og einkaréttarkröfu væri óbreytt. Óskaði skipaður verjandi ákærða eftir að leggja fram greinargerð og var málinu frestað til 29. október 2015 og var þann dag lögð fram greinargerð ákærða og málinu þá frestað til aðalmeðferðar sem fór fram 8. desember 2015 og var málið dómtekið að henni lokinni. Við upphaf aðalmeðferðar tóku sæti í dóminum Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri og Barbara Björnsdóttir héraðsdómari.

Ákærði neitar sök og hafnar einkaréttarkröfu.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu A hefur einkaréttarkrafa verið lækkuð frá því sem í ákæru greinir og krefst hann nú miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000, auk útlagðs kostnaðar skv. framlögðum reikningum að fjárhæð kr. 69.352, allt með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfu og dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Þá krefst brotaþoli málskostnaðar úr hendi ákærða, auk þess að krafist er þóknunar til handa skipuðum réttargæslumanni.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds í málinu. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun og útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða að viðbættum virðisaukaskatti á málsvarnarlaunin. Vegna bótakröfu brotaþola krefst ákærði þess að henni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði stórlega lækkuð og að brotaþola verði gert að greiða ákærða málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á tildæmda málflutningsþóknun.

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hófst mál þetta með því að aðfaranótt laugardagsins 9. júní 2012, kl. 02:26, hafði ákærði samband við neyðarlínuna og tjáði þeim að hann væri staðsettur í sumarhúsi sínu í Grímsnesi og hefði lent í áflogum við gestkomandi mann sem lægi í gólfinu meðvitundarlaus og blæddi mjög úr höfði hans. Er haft eftir ákærða í skýrslunni að hann hafi sagst halda að hann hafi drepið viðkomandi. Var lögregla send á vettvang með forgangi ásamt sjúkrabifreið.

Við komu lögreglu á vettvang sást hvar brotaþoli lá á miðju gólfinu með mikla áverka í andliti og alblóðugur með skerta meðvitund. Kemur fram að á vettvangi hafi verið ákærði sem sagður er gerandi í skýrslunni, brotaþoli og B eiginkona hans. Allir hafi verið mjög ölvaðir. Segir að ákærði hafi verið mjög ölvaður og sagst ekkert hafa vitað hvað gerst hafi, en síðar hafi hann tjáð lögreglumönnunum að hann hafi hugsanlega barið brotaþola með sjónauka af byssu sinni en hann myndi það þó ekki. Brotaþoli var fluttur burt með sjúkrabifreið. Ákærði var handtekinn kl. 02:55 og fluttur á lögreglustöð á Selfossi. 

Segir að sjónaukinn af byssunni hafi legið á gólfinu í um eins metra fjarlægð frá höfði brotaþola þar sem hann hafi legið á gólfinu. Þá hafi ýmis spýtubrot verið á gólfinu og þegar betur hafi verið að gáð hafi mátt sjá að þau hafi verið úr byssuskefti en umrædd byssa hafi legið undir koddum í sófanum í stofunni og verið öll mölbrotin. Segir að B hafi verið mjög ölvuð og hafi hún sagst ekkert hafa vitað hvað hafi gerst, enda hafi hún verið í sumarhúsi sínu skammt frá þegar hún hafi ætlað að vitja um mann sinn, en þá komið að honum liggjandi á gólfinu alblóðugum.

Teknar voru ljósmyndir á vettvangi og má þar sjá allmikið blóð á gólfi, riffil í sófa og riffilsjónauka á gólfi, auk hlífa fyrir riffilsjónauka. Má sjá að skefti riffilsins er mölbrotið og hangir riffillinn saman á ólinni einni. Má jafnframt sjá á ljósmyndum að blóð var á riffilskeftinu og riffilsjónaukanum, en jafnframt var blóð á hlífum fyrir riffilsjónaukann og jafnframt fremri hlífin brotin.

Ákærða var dregið blóð vegna rannsóknar á málinu aðfaranótt 9. júní 2012 kl. 04:36 og mældist í blóðsýninu 1,74 ‰ alkóhóls, en jafnframt var brotaþola dregið blóð til alkóhólákvörðunar sömu nótt kl. 04:15 og mældist 2,49‰ alkóhóls í blóðsýni hans. Ekki kemur fram í gögnum hvort leitað hafi verið lyfja eða ávana- og fíkniefna í blóðsýnum.

Í vottorði D sérfræðings í bráðalækningum um brotaþola, dags. 6. nóvember 2014, kemur fram að vottorðið sé unnið upp úr nótum deildarlæknis sem hafi séð brotaþola, en D hafi ekki sjálfur séð brotaþola. Kemur fram í vottorðinu að við skoðun hafi brotaþoli verið með eðlilegan blóðþrýsting og púls. Öndunartíðni vægt aukin 21 á mínútu en súrefnismettun eðlileg. Meðvitundarskor samkvæmt GCS upp á 14 af 15. Brotaþoli sagður svara eða opna augun þegar talað sé til hans. Með fjölmarga áverka í andliti, m.a. skurð á enni, skurð rétt fyrir ofan vinstra auga, glóðarauga á vinstra auga. Tveir skurðir á vinstri kinn. Einnig skurður á eyranu og bak við vinstra eyra. Mar á hnakka en ekki opnir skurðir á hnakka eða hægra megin í andliti. Sjáöldur jafn víð og svara ljósáreiti eðlilega beggja vegna og virðast augnhreyfingar vera eðlilegar. Erfitt að fá brotaþola til samtals, líklega í kjölfar áfengisneyslu. Engin merki um eymsli í hálsliðum eða baki. Er sagður með yfirborðsáverka á brjóstkassa og ofarlega á baki sem virðist vera eftir högg. Ekki sé þó hægt að sjá út frá þessum marblettum hvaða vopni hafi verið beitt. Hann hafi greinilega fengið högg á brjóstkassann og ofarlega á bakið. Einnig mar í vinstri síðu. Öndun í lagi og engir verkir við djúpa innöndun. Ekkert athugavert við skoðun á kvið eða mjaðmagrind. Er sagður með áverka á höndum, framhandleggjum beggja vegna og líkjast þeir varnaráverkum samkvæmt nótu læknis. Um rannsóknir sem gerðar voru á brotaþola segir að við tölvusneiðmynd af höfði sjáist ekki merki um blæðingu innankúpu, en greinilegir mjúkpartaáverkar undir húð, einkum vinstra megin á höfði. Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýni ekki brot á hálshrygg, en hins vegar sjáist brot í gegnum kjálkabein í miðlínu sem nái út vinstra megin. Þá sé einnig brotakerfi sem gangi meira hliðlægt inn vinstra megin. Lítið tilfærð. Tölvusneiðmynd af brjóstkassa sýni ekki áverkamerki, en háþéttir aðskotahlutir sjáist í vökvafylltu vélinda og óljóst hvað það sé. Ekki sjáist áverkamerki á tölvusneiðmynd af kviðarholi. Fær brotaþoli greiningarnar „Brot á kjálka á fleiri en einum stað, S02.6 Mörg sár á höfði, S01.7 Margir yfirborðsáverkar á höfði, S00.7“. Segir að brotaþoli hafi verið hafður til eftirlits á slysa- og bráðadeild í nokkra klukkutíma. Hafi hann fengið róandi til að byrja með þar sem hann hafi ekki verið samstarfsfús fyrir tölvusneiðmynd. Fengið Morfín og Toradol til verkjadeyfingar. Þá hafi verið saumaðir skurðir í andliti og deyft áður. Saumuð hafi verið sex spor á enni, níu spor í skurð við vinstri augabrún og fimm spor annars vegar rétt neðan við vinstri augabrún. Sex spor í skurð á eyranu og bak við eyrað fimm og þrjú spor í skurði þar. Skurðir á kinn séu saumaðir annars vegar með tveimur sporum og hins vegar einu spori. Í kjölfarið hafi brotaþoli verið lagður inn á HNE deildina og í framhaldinu taki E kjálkaskurðlæknir við mati og eftirfylgd. Þá segir að áverkaskoðun samrýmist því áverkaferli sem lýst sé, en áður segir í vottorðinu að svo virðist sem gengið hafi verið í skrokk á brotaþola, jafnvel með sjónauka af riffli og hafi mikið blóð verið á staðnum.

Í vottorði E, sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum, dags. 19. mars 2013, kemur fram að brotaþoli hafi leitað á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi 9. júní 2012 eftir líkamsárás. Við skoðun 11. júní 2012 hafi brotaþoli borið sig vel en kvartað undan bólgu og óþægindum vinstra megin í andliti. Skoðun hafi leitt í ljós að brotaþoli hafi verið með tvíbrotinn neðri kjálka á subcondylarsvæði [sic.] vinstra megin og synthesusvæði [sic.] (miðlínu), brotin hafi verið ótilfærð og bit í lagi. Þá hafi hann einnig verið með skurði í andliti sem búið hafi verið að sauma. Fyrsta meðferð hafi falist í fljótandi fæði og að forðast álag á kjálkana. Við almenna eftirmeðferð á stofu hafi komið í ljós að brot í miðlínu (synthesu) hafi ekki verið að gróa sem skyldi og því verið ákveðið að opna inn á brotið og fixera [sic.] það með titan skrúfum og spöngum. Brotaþoli hafi verið lagður inn á deild A-4 á Landspítala í Fossvogi og aðgerðin framkvæmd 6. september 2012 í svæfingu. Brotaþoli hafi gróið sára sinna vel og við síðustu skoðun hafi bit verið gott og græðsla á brotum eðlileg. Brotaþoli hafi þó verið með skyntruflanir í neðri vör vinstra megin.     

Í rannsóknargögnum eru ljósmyndir sem sýna ákærða með mikla áverka, aðallega á höfði en einnig á búk. Virðast sumir áverkanna vera hringlaga.

Í rannsóknargögnum eru útprentanir úr skotvopnaskrá lögreglu þar sem kemur fram að ákærði hafi verið skráður fyrir riffli af Marlin gerð með hlaupvídd .22.

Í rannsóknargögnum lögreglu er útprentun úr dagbók lögreglu þar sem fram kemur að aðfaranótt 9. júní 2012 kl. 02:36 hafi verið skráð að kl. 02:26 sömu nótt hafi ákærði hringt úr símanúmerinu [...]. Fyrst hafi ákærði átt erfitt með að gefa upp staðsetningu en loks sagt að hann væri í Selhól 5 og sagt að hann væri miður sín því hann hafi barið mann sem liggi nú á gólfinu. Hafi svo farið að tala um læti utan hússins, hundgá og köll. Aðspurður um manninn á gólfinu hafi ákærði farið að gráta og sagst telja manninn látinn og úr honum kæmi bara blóð. Segir að ákærði hafi ekki virst tilbúinn til að kanna betur með hann. Síðan segir að sambandið hafi slitnað eftir að fór að heyrast í konu í bakgrunni. Þá er bókað að kl. 02:40 hafi náðst símasamband við B, sem hafi virst eiginkona þess slasaða. Hafi hún svarað í síma ákærða og verið mjög ölvuð en á henni að skilja að maður hennar sé illa slasaður en með meðvitund. Segir að hún hafi verið höfð á línunni og beðin að veifa til lögreglu þegar hún kæmi, en þegar lögregla hafi komið að Selhól hafi komið í ljós að það hafi ekki getað passað og hafi þá B sagt staðsetninguna vera [...].

Þá liggur fyrir útprentun úr rafrænni skráningu á símtölum neyðarlínu og fjarskiptamiðstöðvar lögreglu. Sjást þar símatengingar milli neyðarlínu, fjarskiptamiðstöðvar lögreglu og símanúmers ákærða frá kl. 02:23:03 og til 02:47:39

Við skoðun lögreglu á síma B, sambýliskonu brotaþola, sást að föstudagskvöldið 8. júní 2012 kl. 22:45 ræddi hún við son brotaþola, kl. 23:23 sama kvöld er hringt úr síma hennar í F, sem svaraði ekki. Eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins 9. júní eru 3 símtöl milli síma B og F frá kl. 00:23 til 00:28, en kl. 00:29 er hringt úr síma B í síma brotaþola. Þá kemur fram að frá kl. 00:54 til kl. 01:12 er samband milli síma B og G og svo kl. 02:14 er hringt úr síma B í H, sem var leiðrétt við aðalmeðferð og á að vera I, en ekki var svarað í símann.   

Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu kvaðst brotaþoli hafa komið í sumarbústað sinn á föstudagskvöldinu og farið líklega um miðnætti til ákærða sem hafi verið í sínum bústað skammt frá. Hann hafi farið þangað með hvolp sem ákærði hafi átt. Hafi hann skilið konuna sína eftir en hún hafi verið í símanum. Hafi þeir drukkið rauðvín og spjallað um tónlist og íþróttir. Þeir hafi svo farið í sjómann og fljótlega upp úr því hafi brotaþoli ekki munað meira. Kvaðst ekki hafa verið ofurölvi þegar þeir hafi farið í sjómann. Taldi að vel hafi farið á með sér og ákærða þangað til á einhverjum tímapunkti sem hann áttaði sig ekki á. Kvaðst ekki muna hvernig það hafi æxlast og gengið fyrir sig að þeir hafi farið í sjómann. Kannaðist brotaþoli ekki við að nokkuð hafi verið út á samskipti hans og ákærða að setja, hvorki þetta sinn né áður. Kvaðst ekki muna neitt eftir þann tíma að þeir hafi farið í sjómann. Kvaðst ekki muna eftir að hafa séð riffil í bústað ákærða.

Sambýliskona brotaþola, B, kvaðst við skýrslugjöf sína hjá lögreglu hafa verið með brotaþola í sumarbústað þeirra og þau verið að drekka áfengi. Svo hafi hún verið í símanum og brotaþoli hafi farið til ákærða með hvolp sem ákærði hafi átt. Svo hafi hún farið til þeirra og þá hafi allt verið í góðu á milli þeirra, en þeir hafi verið að drekka rauðvín. Þeir hafi farið í sjómann og svo hafi hún farið aftur í bústað sinn og brotaþola, en brotaþoli orðið eftir með ákærða. Hún hafi farið aftur í símann og svo eftir eina til tvær klukkustundir hafi hún farið aftur í bústað ákærða og þá hafi brotaþoli legið á gólfinu í blóði sínu. Einhver hlutur hafi verið nálægt brotaþola. Kvaðst hún hafa hringt í neyðarlínuna úr farsíma ákærða. Henni hafi fundist eins og ákærði hafi staðið á gólfinu í bústaðnum. Kvað hún að brotaþoli og ákærði hafi ekki verið dauðadrukknir þegar hún hafi farið frá þeim og ölvun þeirra hafi alls ekki verið það mikil. 

Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu skýrði ákærði frá því að hann hafi setið og horft á sjónvarp í bústað sínum umrætt kvöld og drukkið rauðvín. Hafi brotaþoli komið til hans og hafi sér þótt skrýtið hversu seint að kvöldi hann hafi komið en ekki viti hann neitt um erindi brotaþola til sín. Hafi hann boðið brotaþola inn og upp á rauðvínsglas. Eftir það muni ákærði sára lítið, nema það að á einhverjum tímapunkti hafi komið upp einhver skelfileg hræðslutilfinning hjá honum og hann þurfi að verja sig en kvaðst ekki muna eftir að brotaþoli hafi gefið honum nokkurt tilefni til þess. Kvaðst ákærði muna lítið eftir þessu en að stundarbrjálæði hafi heltekið hann þarna og hann muni ekki atburðarásina. Kvaðst ákærði ekki muna hvað þeim hafi farið á milli og að hann tryði því ekki að brotaþoli hafi á einhvern hátt ógnað honum en hann myndi það ekki. Kvaðst muna að þeir hafi setið við borð og kvaðst muna að þeir hafi tekið sjómann, en eftir það sé allt „black out hjá honum“. Kvaðst ekki muna hvernig sjómanninum hafi lyktað, en það hafi verið áður en hræðslutilfinningin hafi komið. Kannaðist við að eiga Marlin riffil sem hafi verið í bústaðnum. Kvaðst telja að hann hafi tekið um riffilsjónaukann en ekki vita hvort hann hafi ætlað að brjóta hann af til að verja sig. Kvaðst muna óljóst að hafa tekið um báða enda sjónaukans, en kvaðst ekki muna hvað þá hafi verið að gerast eða hvað brotaþoli hafi verið að gera. Kvaðst ekki muna neitt eða hvort hann hafi slegið með sjónaukanum en örugglega slegið hann með hægri hönd líka alla vega því hún væri öll bólgin en ákærði kvaðst vera rétthentur. Sagðist ekki vita með sjónaukann eða annað barefli.

Framburður við aðalmeðferð

Ákærði skýrði frá því að hann kannaðist við atvikið. Kvaðst hafa verið staddur í sumarbústað sínum, sem hafi raunar verið heimili hans á þessum tíma. Hafi verið að horfa á sjónvarp um eftirmiðdaginn og fram á kvöld þar til brotaþoli hafi komið. Kvaðst vita að knattspyrna hafi verið í sjónvarpinu, en hann hafi sennilega verið að bíða eftir bíómynd seinna um kvöldið. Gerði sér ekki grein fyrir á hvaða tíma brotaþoli hafi komið til sín, en það hafi þó verið nokkuð seint. Hafi hann boðið brotaþola upp á rauðvínsglas. Kvaðst ekki muna hvort hann hafi opnað aðra flösku. Kvaðst muna lítið frá þessu og enn minna núna þegar langt sé um liðið. Kvaðst muna að á einhverjum tímapunkti hafi þeir farið í sjómann. Kvaðst í rauninni ekki muna neitt eftir það nema á einhverjum tímapunkti, sem hann hafi ekki hugmynd um hvenær hafi verið, þá hafi ákærði fyllst brjálæðislegri hræðslu eins og honum væri ógnað á einhvern hátt en kvaðst enga skýringu hafa á þessu. Kvaðst ekki muna hvað hafi gerst áður en hann hafi fengið þessa tilfinningu. Kvaðst ekki muna meira. Minnið hafi brugðist sér og næst finnist ákærða að hann muni eftir sér, að hann haldi eftir óttatilfinninguna, að hann hafi tekið um báða enda á riffilsjónaukanum, en viti ekki í hvaða tilgangi. Sé þó ekki viss um að það sé rétt, en hann treysti illa minni sínu og stutt sé milli raunveruleika og ímyndunar þegar maður muni ekkert. Næst muni hann að hann hafi rétt símann til konunnar, en hann muni þó ekki hvort hann hafi rétt símann í hendur hennar eða hvað, t.a.m. lagt hann á borð. Eftir það muni ákærði bara ekkert þar til lögreglumenn hafi komið inn í húsið. Kvaðst hafa drukkið áfengi en ekki geta sagt hve lengi, en trúlega hafið drykkju þegar knattspyrna hafi verið í sjónvarpi, en skv. framlögðum gögnum hófust útsendingar frá Evrópukeppni í knattspyrnu kl. 16:00 þennan dag. Kvaðst ekki vita hve mikið hann hafi drukkið. Ekki kvaðst ákærði vita um ástæðu fyrir heimsókn brotaþola til sín. Kvaðst muna að heimsókn brotaþola hafi komið sér á óvart þar klukkan hafi verið orðin mikið. Kvaðst ekki muna að B, kona brotaþola, hafi komið fyrr um kvöldið. Ákærði kvaðst hafa átt hvolp og brotaþoli og kona hans átt stóran hund. Hvolpur ákærða hafi gjarnan heimsótt stóra hundinn þeirra. Kvaðst ekki muna eftir að annað fólk hafi verið í bústöðunum í kring. Kvaðst heldur ekki muna til þess að aðrir hundar hafi verið þarna, en það geti þó vel hafa verið. Kvaðst almennt lítt muna eftir þessum degi, m.a.s. áður en hann hafi orðið drukkinn. Kannaðist við að hafa átt riffil, sem hafi oftast verið geymdur uppi á loftinu á öruggum stað, en þetta sinn hafi riffillinn staðið úti í horni þar sem ákærði hafi verið að þrífa hann fáum dögum áður. Hafi riffillinn staðið í horni skammt frá þar sem ákærði hafi oftast setið sjálfur. Sýndi ákærði þetta á myndum af vettvangi. Kvaðst þó ekki muna hvar hann hafi sjálfur setið umrætt sinn. Kvaðst ekki muna eftir að hafa hringt á neyðarlínuna. Kvaðst heldur ekki muna eftir samskiptum við neyðarlínuna eða við lögreglu á vettvangi. Kvaðst engar skýringar hafa á því hver annar en hann sjálfur hafi getað valdið áverkum brotaþola, en hann hafi t.a.m. ekki vitað um neinar mannaferðir neins staðar. Kvaðst t.d. ekki hafa heyrt í neinum bílum. Riffillinn hafi verið nýhreinsaður og stráheill. Aðspurður um það þegar hann hafi haldið í riffilsjónaukann kvað ákærði að samfara hræðslutilfinningunni hafi komið tilfinning um að hann þyrfti að verja sig, án þess að hann hafi þó skýringu á því. Kvaðst ekki muna hvort sjónaukinn hafi verið fastur á rifflinum þegar honum finnist hann hafa haldið um sjónaukann. Sér finnist hann hafa haldið um riffilsjónaukann í einhvers konar varnartilgangi, en allt sé þetta mjög óljóst. Ekki viti hann neitt hvað hafi orðið um riffilinn og sjónaukann. Kvaðst muna að hann hafi vísað lögreglumönnum á vettvangi á riffilinn í sófanum, en það geti þó verið hugarburður. Kvaðst hafa verið bólginn á hægri hendi eftir þetta, en hann sé rétthentur. Kvaðst ekki vita hvað hafi valdið bólgunni, en þessa hafi hann orðið var við skýrslutöku á lögreglustöðinni á Selfossi, síðdegis daginn eftir. Kannaðist við símanúmerið [...] sem sitt númer á þessum tíma, en kvaðst ekki muna eftir neinu samtali við neyðarlínuna þetta sinn.

Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvar hann og brotaþoli hafi verið þegar þeir hafi farið í sjómann, en líklega við borðstofuborðið. Enginn brestur hafi verið í rifflinum. Hann sé ekki ofbeldissinnaður. Ákærði lýsti lyfjatöku sinni og heilsufari á þessum tíma, en sum þeirra lyfja hafi verið við verkjum, s.s. dramadol og parkódín forte sem hann hafi daglega tekið saman. Aukinheldur hafi hann notað svefnlyf. Ekki kvaðst ákærði hafa hugmynd um hvor hafi átt upptök að sjómanninum.

Aðspurður kvað ákærði að á þessum tíma hafi hann átt það til að missa minni vegna áfengisneyslu, en hann hafi á þessum tíma bruggað sitt eigið rauðvín. Hann hafi þá kannski drukkið tvær flöskur í einu til að sofa betur. Ekki kvaðst ákærði muna hvort hvolpurinn hafi verið hjá honum eða brotaþola og konu hans þegar brotaþoli hafi komið í heimsóknina. Talsvert sé af bústöðum þarna, sérstaklega við þessa götu og séu þeir töluvert mikið notaðir. Í 2-300 metra radíus séu kannski 6 bústaðir. Kvaðst ekki vita hvort fólk hafi verið í hinum bústöðunum á þessum tíma. Ekki hafi það verið algengt að fólk heimsækti hann úr öðrum bústöðum, en hann hafi aðeins haft samband við einn nágranna sinn. Aðspurður um orðið stundarbrjálæði sem hann hafi notað í skýrslu sinni hjá lögreglu kvað ákærði að hann hafi notað það við að reyna að skýra hvað hafi gerst ef hann hefði gert þetta, sem hann viti þó ekkert um. Kvaðst aðspurður ekki eiga neina minningu um að hafa gert brotaþola neitt mein umrætt sinn og ekki heldur um átök milli þeirra, að frátöldum sjómanninum sem þeir hafi farið í. Hafi heldur engar minningar um neitt missætti milli þeirra. Aðspurður um bólguna á hægri hendi kvaðst ákærði ekki muna það vel, en sér finnist það geta hafa verið svona um úlnlið og fram á handarbak. Þetta hafi ekki verið skoðað frekar. Kvaðst ekki muna hvernig höndin hafi bólgnað, en hafi hann meitt brotaþola þá gæti það hafa gerst þá. Ákærði taldi sig mögulega hafa ímyndað sér einhverjar skýringar í örvæntingu sinni eftir næturlanga dvöl í fangaklefa, en hið sanna sé að hann muni ekkert hvernig hann hafi meitt sig á hendinni. Taldi sig ekki hafa meitt sig neitt í dvöl sinni hjá lögreglu.

Brotaþoli, A, lýsti því að hann og B, sambýliskona hans, hafi komið í bústað sinn að kvöldi til. Þau hafi komið sér fyrir. Þau hafi verið með hund sinn með sér. Hvolpur ákærða hafi komið til þeirra, en brotaþoli hafi farið og skilað honum kannski klukkan 23, en hvolpurinn hafi ekki viljað fara sjálfur. Ákærði hafi boðið sér inn og brotaþoli þegið það. Hafi ákærði boðið sér í glas, sem hann hafi þegið. Þeir hafi verið að spjalla í góða stund. Þeir hafi rætt hitt og þetta. Svo hafi B komið til þeirra, en hún hafi ekki stoppað lengi, á að giska 10 mínútur. Svo hafi hún farið aftur. Kvaðst vita að þeir hafi farið í sjómann og það hafi verið byrjað meðan B hafi verið hjá þeim. Svo hafi hún farið en ekki muni brotaþoli eftir öðru en að þá hafi allt verið í góðu milli hans og ákærða. Svo muni brotaþoli nánast ekki neitt eftir það. Hann telji sig hafa fengið óvænt þungt högg, en hann hafi jafnframt verið undir áhrifum áfengis. Aðspurður um það kvaðst brotaþoli hafa verið vel í því. Ekki kvaðst brotaþoli muna eftir neinum leiðindum eða að nein uppákoma hafi orðið. Næst kvaðst brotaþoli muna eftir sér í sjúkrabíl sennilega, en hann muni ekki frekar eftir sér þarna á staðnum. Aðspurður kvað brotaþoli að hann og ákærði hafi ekki verið kyrrir á sama stað allan tímann í bústað ákærða. Fyrst hafi þeir staðið eða gengið um, en ákærði hafi verið að sýna sér bústaðinn. Svo hafi þeir setið og minnti að þeir hefðu setið á stólum við borð, en ekki í sófanum. Ákærði hafi setið nær útidyrum. Sýndi brotaþoli þetta á mynd og bar honum saman við lýsingu ákærða. Hundarnir hafi verið lausir fyrr um kvöldið og fengið að leika sér utan dyra, en verið komnir inn áður en brotaþoli hafi farið með hvolpinn til ákærða. Ekki kvaðst brotaþoli vita til þess að fólk hafi verið í öðrum bústöðum á grenndinni og engu slíku tekið eftir. Brotaþoli lýsti áverkum sínum. Kvaðst enn vera með dofa á tilteknum stað í andliti auk jafnvægisleysis. Andleg líðan sé þokkaleg, en þetta hafi tekið á. Kvaðst ekki muna annað en allt hafi verið í góðu þegar þeir hafi verið í sjómanni. Eftir það virðist minnið detta út. Sér finnst eins og það sé vegna þess að hann hafi fengið þungt högg og verið óviðbúinn. Kvaðst ekki muna eftir riffli. Ekki myndi hann til þess að harkalega hafi verið tekist á í sjómanni.

Aðspurður kvaðst brotaþoli hafa verið búinn að fá sér áfengi eftir að hafa komið í bústaðinn og þangað til hann hafi farið til ákærða. Hafi drukkið bjór og líklega eitthvað sterkt líka. Kvaðst hafa drukkið rauðvín hjá ákærða, en gat ekki sagt hversu mikið. Kvað ekki algengt að hann vildi fara í sjómann og mundi ekki aðdragandann sérstaklega. Brotaþoli kannaðist við að hafa upplifað blackout vegna áfengisneyslu. Kvaðst yfirleitt vera rólegur með víni. Kvaðst ekki hafa veist að mönnum á fylliríi. Kvaðst ekki muna eftir að hafa fundið fyrir áverkum eða eymslum í höndum daginn eftir.

Vitnið B, sambýliskona brotaþola, kvað þau hafa verið komin í bústað sinn um hálf níu umrætt kvöld. Þau hafi fljótlega farið að drekka eftir komu. Svo hafi hvolpur ákærða komið til þeirra. Vitnið hafi farið í síma og talað við J son brotaþola og konu að nafni F. Brotaþoli hafi sagt að hann vildi ekki hafa hvolpinn yfir nóttina og farið með hann niður eftir til ákærða. Hafi hún haldið áfram að tala í símann. Þegar hún hafi verið búin að tala við F hafi hún rölt niður eftir til ákærða til að athuga með brotaþola. Þegar hún hafi komið þangað hafi ákærði boðið brotaþola rauðvín og þeir setið í sófanum og verið að spjalla saman. Svo hafi þeir fært sig og sest við eldhúsborðið og verið að fara í sjómann. Þeir hafi bara verið eitthvað að kjafta og henni hafi litist best á að fara bara. Þeir hafi verið að tala eitthvað um tækni og hún hafi bara farið aftur upp í bústað og farið að tala við G vinkonu sína í síma. Það símtal hafi dregist og svo hafi vitnið hringt í H móður G, sem ekki hafi svarað. Þá hafi hún hugsað til brotaþola og hvort hann færi nú ekki að koma. Hafi hún þá labbað niður eftir til ákærða til að athuga hvers vegna brotaþoli væri ekki kominn heim. Þar hafi hún séð brotaþola liggja á bakinu við borðbrúnina allan út í blóði og hún hafi farið inn og á hnén að reyna að fá brotaþola til að ranka við sér. Hún hafi viljað koma honum út. Hún hafi snúið baki í ákærða og fundist hann standa hjá sjónvarpinu og staðið ógn af honum og verið hrædd um að hann tæki hana og dræpi hana bara líka eða myndi berja hana. Hún hafi öskrað á ákærða að hringja á neyðarlínuna og hann hafi gert það. Henni hafi fundist ákærði róast við það. Svo hafi liðið tími. Hafi hún öskrað á ákærða að láta sig hafa símann og hann gert það. Hafi þurft að ýta á einhverja takka til að opna símann og hún hafi verið að reyna það en þess vegna ekki náð að hringja í neyðarlínuna, en neyðarlínan hafi hringt og hún þá svarað símanum. Henni hafi fundist byssa liggja við hlið brotaþola og ákærði taka hana og henda henni í sófann. Finnist eins og ákærði hafi sett kodda eða eitthvað yfir byssuna og hún hafi hugsað að hún yrði að láta lögregluna vita um það. Svo hafi hún gleymt því. Svo hafi lögreglan komið og sjúkraflutningamenn í kjölfarið. Hafi brotaþoli verið tekinn á börur og settur í sjúkrabíl. Hún hafi talað við lögreglumanninn K sem hafi tekið hvolp ákærða. Hafi vitnið svo farið í bústað sinn. Vitnið kvaðst minna að þegar hún hafi verið að ganga frá þeim eftir fyrri vitjun sína til þeirra, þegar þeir hafi verið í sjómanni, þá hafi verið að byrja leiðindi milli þeirra eða þeir farnir að rífast. Hún hafi hugsað að þetta væru tveir fullorðnir karlmenn og hún skyldi ekkert vera að pæla í því. Kvaðst ekki vita hvort hafi verið fólk í hinum bústöðunum en hún hafi ekki orðið þess vör. Taldi að ekki hafi verið neitt annað fólk þarna. Ekki hafi fleiri hundar verið þarna en hvolpur ákærða og hundur vitnisins. Þegar sjúkrabíllinn hafi verið farinn hafi báðir hundarnir verið á lóð vitnisins og K tekið hvolpinn. Vitnið lýsti því hvar brotaþoli og ákærði hafi setið og sýndi það á mynd og bar henni saman við lýsingu ákærða og brotaþola. Vitnið minnti að hún hafi talað við neyðarlínuna allan tímann þangað til lögreglan kom. Vitnið gat ekki gert skýra grein fyrir hvað ákærði hafi verið að gera eftir að hún hafi komið í bústað hans í seinna skiptið, en hún hafi fyrst og fremst verið að huga að brotaþola, en henni hafi staðið ógn af honum eða verið hrædd við hann. Ákærði hafi ekki verið að hlúa að brotaþola. Ekki mundi vitnið hvort ákærði hafi tjáð sig eitthvað við lögreglu á vettvangi. Vitnið kvað brotaþola hafa breyst við þetta. Hann sé reiðari og jafnvægi sé ekki í lagi og hann sé minni í sér.

Aðspurð kvað vitnið að hún og brotaþoli hafi drukkið bjór og sennilega vodka. Kvað brotaþola ekki hafa drukkið mikið áður en hann hafi farið til ákærða. Hafi legið vel á honum. Ekki gat vitnið sagt til um hvort ákærði eða brotaþoli hafi átt upptökin að því að þeir færu í sjómann en þeir hafi verið að tala um einhverja tækni varðandi það, eitthvað með úlnliðinn eða þannig. Brotaþoli gæti vel hafa átt hugmyndina, hann hafi t.d. gaman að tafli og hún hafi áður séð hann í sjómanni. Hún hafi staldrað mjög stutt við í fyrra skiptið. Var ekki viss hvort þeir hafi enn verið í sjómanni þegar hún hafi farið. Henni hafi fundist ákærði eins og í einhverri geðshræringu og ekki með sjálfum sér þegar hún hafi komið í bústað hans í seinna skiptið. Gat ekki gert glögga grein fyrir því en hann hafi verið eins og honum væri trúandi til alls. Henni hafi fundist hann róast þegar hann hafi hringt í neyðarlínuna, en vitnið kvaðst ekki geta sagt hvað ákærði hafi sagt við neyðarlínuna, en hélt þó að ákærði hafi sagt að hann héldi að hann hafi drepið mann, en ekki var þó vitnið alveg viss um hvort það væri hennar minni eða hvort það væri vegna þess að hún hafi lesið þetta. Aðspurð kvað vitnið brotaþola ekki hafa átt vanda til að verða illur með víni, en eftir þetta atvik hafi frekar borið á reiði hjá honum. Kannaðist ekki við að brotaþoli hafi lent í áflogum.

Vitnið L lögreglumaður lýsti því að fjarskiptamiðstöð hafi haft samband og sagt frá því samkvæmt upplýsingum neyðarlínu, að ákærði væri staddur í sumarbústað sínum og hafi haft samband við neyðarlínu og óskað eftir aðstoð. Hafi fjarskiptamiðstöðin sagt að ákærði hafi talað um að hann hafi veist að gestkomandi manni. Muni ákærði hafa sagt neyðarlínu að hann hafi barið manninn illa. Hafi komið fram að ákærði hafi jafnvel talið að hann hafi drepið manninn. Hafi lögregla farið á vettvang og þá hafi brotaþoli legið á miðju gólfi alblóðugur í andliti og ákærði hafi setið innar í bústaðnum á rúmi sínu. Hafi ákærða verið mikið niðri fyrir. Fyrst hafi ákærði ekki viljað gefa upp hvað hafi gerst. Svo síðar þegar hafi verið gengið á ákærða þá hafi komið fram hjá honum að hann hafi barið brotaþola með sjónauka af byssunni sinni. Byssan hafi ekki strax sést á vettvangi en þeir hafi svo fundið hana undir púðum í sófa í bústaðnum. Hafi byssan verið falin þar. Þá hafi byssuskeftið verið brotið, en sjónaukinn hafi legið skammt frá brotaþola. Hafi brotaþoli verið illa leikinn. Kona brotaþola hafi líka verið þarna og verið mikil geðshræring og ölvun á vettvangi. Nánar aðspurður um samtal sitt við ákærða á vettvangi kvað vitnið að ákærði hafi fyrst ekki viljað gefa upp og hafi fyrst sagt að hann vissi ekkert hvað hafi gerst, en svo þegar þeir hafi gengið á hann hafi ákærði sagt að hann hafi hugsanlega barið brotaþola með sjónaukanum, en þetta hafi ákærði ekki staðfest beint. Staðfesti vitnið að ákærði hafi sagt að hann myndi þetta ekki. Ákærði hafi verið mjög ölvaður og langt niðri og í geðshræringu, titrað og átt erfitt með mál. Sambýliskona brotaþola hafi lýst því að hún hafi ekki verið viðstödd heldur verið í sumarhúsi þeirra skammt frá, en komið að vitja um hann og þá hafi hann legið á gólfinu. Aðspurður kvað vitnið að enginn hafi bent lögreglu á riffilinn sem hafi verið undir púðunum en þeir hafi bara fundið hann við leit. Það hafi verið fullt af spýtnabrotum á gólfinu, eins og úr byssuskefti, þannig að þeir hafi leitað frekar og fundið þá riffilinn í sófanum. Ekki kvað vitnið að hafi verið kannað með mannaferðir en enginn hafi verið sjáanlegur í kring. Ekki hafi þeir orðið varir við hvort væri fólk í bústöðunum í kring og hafi ekki verið neitt slíkt að sjá og hafi ekki verið talin ástæða til að kanna það frekar. Ekki kvaðst vitnið hafa orðið var við hunda á vettvangi. Vitnið tók ekki þátt í frekari rannsókn málsins. Engin ummerki hafi verið sjáanleg um að brotaþoli hafi dottið utan í húsgögn eða annað.

Vitnið K lögreglumaður skýrði frá því að þegar hann kom á staðinn hafi verið búið að flytja brotaþola burt með sjúkrabíl. Á staðnum hafi verið ákærði og lögreglumenn sem hafi fljótlega farið með hann á lögreglustöð. Hafi vitnið verið upplýstur um að lögreglumenn hafi fundið brotinn riffil á vettvangi. Hafi riffillinn hangið saman á ólinni, en verið brotinn í tvennt. Riffilsjónauki og hlíf af honum hafi legið á gólfi. Mikið blóð hafi verið á gólfi. Húsgögn hafi ekki virst úr stað. Eftir að hafa ljósmyndað vettvang og haldlagt sakargögn hafi vitnið farið með sambýliskonu brotaþola í hennar bústað og farið svo á lögreglustöð. Á vettvangi hafi vitnið lítið rætt við ákærða en hann hafi virst töluvert mikið ölvaður og verið ansi beygður í allri framkomu. Hafi ákærði lítið getað sagt til um hvað hafi gerst, annað en að mikil geðshræring hafi gripið sig og að hann hafi haldið á riffilsjónaukanum. Svo hafi verið farið betur yfir þetta við skýrslutöku daginn eftir. Kvaðst ekki hafa séð blæðandi áverka á ákærða um nóttina, en daginn eftir við skýrslutöku hafi ákærði sjálfur bent á að hægri hönd hans væri bólgin. Hafi höndin verið bólgin framarlega á handarbaki fram við hnúa. Ekki hafi vitnið orðið var við aðrar mannaferðir. Engin umferð hafi verið enda mið nótt, en bjart hafi verið. Einn hundur hafi verið á staðnum, þ.e. hundur ákærða, en hundur brotaþola hafi verið í bústað hans þegar vitnið hafi farið þangað með konu brotaþola. Ekkert hafi komið fram um að átök hefðu átt sér stað sem brotaþoli hafi átt upptökin að.

Vitnið M lögreglumaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og kannaðist við færslu sem hann hafi skráð í dagbók lögreglu 9. júní 2012 kl. 02:26. Kvaðst muna óljóst að hafa sent lögreglubíla vegna málsins. Kvaðst muna lítið eftir sjálfu símtalinu. Skráningin fari þannig fram að meðan á símtalinu standi byrji hann að punkta niður hjá sér og í þessu símtali hafi hann væntanlega verið byrjaður að gera ráðstafanir til að koma bílum á staðinn þar sem þetta hafi hljómað alvarlega. Kvaðst þó ekki muna það sérstaklega með þetta mál. Um leið og hann hafi tækifæri til byrji hann að setja þetta inn í lögreglukerfið og þá sé það ekki hugsað eins og bein tilvitnun í viðkomandi, heldur bara það sem hann hafi á tilfinningunni og minni að maðurinn hafi sagt og á hverju hann byggi viðbrögð lögreglu. Lögreglukerfið sé þannig að það sé ekki hægt að vinna beint inn í það. Skráningin sé þó höfð eftir manninum og hafi ákærði þannig sagt að hann hafi barið mann, en orðalagið sé kannski ekki nákvæmt haft eftir honum í skráningunni. Dagbókarfærslan sé til að skýra það hvaða upplýsingar liggja fyrir í málinu og á hverju viðbrögð lögreglu byggi. Vitnið hafi skráð þetta sjálfur. Tímasetningin kl. 02:26 sé sótt úr Tetra fjarskiptakerfinu og sé GPS-tími. Ekki þurfi að vera fullt samræmi milli þessara tímasetninga og tímasetninga í skráningu símtala við neyðarlínu. Allar skráningar eigi að vera með lögreglunúmeri. Vitnið kvað ómögulegt að segja hve langur tími líði frá því hann fái símtal og þangað til hann skrái það í lögreglukerfið. Það geti verið 2-3 mínútur eða 20 mínútur, en það geti farið eftir ýmsu. Í þessu tilfelli hafi sennilega ekki liðið langur tími þar sem þetta sé lítið lögreglulið og takmarkað um bjargir til að senda á vettvang og þannig litlar ráðstafanir til að gera. Málið hafi byrjað í skráningu kl. 02:36 samkvæmt dagbók. Vitnið kvaðst hins vegar ekki muna eftir málinu sem slíku, t.a.m. hvað hann hafi heyrt oft í fólkinu. Aðspurður um sjálfvirka rafræna skráningu símtala þar sem fram komi upplýsingar frá neyðarlínu og fjarskiptamiðstöð lögreglu kvað vitnið að fyrsti tími þar sé þegar neyðarvörður á neyðarlínu svarar. Ekki minntist vitnið þess að fram hafi komið í símtali sínu við ákærða hvað hafi raunverulega gerst þarna áður eða hvað hafi orðið til þess, en hefði það komið fram þá hefði það verið skráð, t.a.m. ef ákærði hefði sagt að það hefði verið ráðist á hann.

Vitnið E tannlæknir og sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð. Ljóst hafi verið að brotaþoli hafi verið með tvíbrotinn neðri kjálka. Brotin hafi verið nánast eða alveg ótilfærð. Fyrst hafi verið ákveðið að gera ekki aðgerð, en það hafi reynst nauðsynlegt síðar og það þá gert í svæfingu. Hafi brotaþoli kvartað allar götur frá byrjun yfir því að hann væri dofinn í neðri vör vinstra megin og tannholdi við framtennur, sem hafi passað við áverkann. Taug hafi greinilega orðið fyrir skaða eða áverka, sem sé alþekkt við kjálkabrot. Þetta sé varanlegur skaði. Þetta hafi verið dæmigerður áverki fyrir högg á kjálka vinstra megin, t.d. eftir högg frá rétthentum manni, án þess að vitnið geti fullyrt að svo hafi verið. Gæti áverkinn samræmst því að brotaþoli hafi verið sleginn með hverju sem er, s.s. hendi eða einhverju verkfæri. Talsvert mikið högg þurfi til að brjóta kjálka. Eitt högg sé nóg til að brjóta kjálka og sé dæmigert að kjálkinn brotni á tveimur stöðum við eitt högg.

Vitnið N læknir á slysa- og bráðadeild gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð. Vitnið var á vakt ásamt O á sjúkrahúsinu á Selfossi þegar komið var með brotaþola í sjúkrabifreið. Vitnið kvaðst hafa fylgst með skoðun á brotaþola, en hann og O hafi annast brotaþola í sameiningu. Vitnið var fjarverandi þegar vottorð var útbúið upp úr gögnum sem vitnið og O höfðu gert um málið. Brotaþoli hafi haft marga áverka. Áverkarnir hafi virst þannig að þeir kæmu ekki við eitt atvik. Fyrst og fremst hafi áverkar verið vinstra megin á höfði, rifa á eyranu, tveir skurðir aftan við eyra, skurðir á enni, stórt mar á augabrún, skurður á nefi, skurðir neðan auga vinstra megin á kinninni en þar af hafi einn verið svolítið sérstakur þannig að hann hafi verið svona hálfmánalaga. Ekki sé gott að segja eftir hvað þessir áverkar séu, mögulega eggvopn þar sem skurðirnir hafi verið frekar vel skornir, eða þetta hafi sprungið fyrir á húðinni vegna högga. Nefndi vitnið að til að mynda í hnefaleikum geti komið langskurður við högg þegar húðin rifnar sundur. Skurðirnir hafi verið mjög skarpir. Svo hafi brotaþoli verið töluvert marinn á framhandleggjum litlafingurs megin og mikið marinn á skrokkinn. Marblettir á bakinu hafi verið með netmynstri, þannig að brotaþoli hafi verið laminn í gegnum föt og mynstur hafi komið í húðina af fötunum við það. Þetta geti ekki verið eftir einn atburð s.s. fall eða slíkt. Þetta hafi verið endurtekinn áverki á mörgum stöðum og líka á handleggjum framanverðum litlafingurs megin. Áverkarnir á framhandleggjunum séu eins og þegar menn bera hendur fyrir höfuð sér. Mögulegt sé að detta og fá þannig áverka þarna, en í sambandi við aðra áverka megi reikna með að þessir séu tilkomnir við að brotaþoli hafi borið hendur fyrir höfuð sér. Býsna glöggt sé að þetta séu varnaráverkar. Þá komi inn í þetta að brotaþoli hafi verið með kjálkabrot vinstra megin. Algengara sé að rétthentir menn veiti áverka vinstra megin í andlit andstæðings. Erfitt sé að fullyrða um þetta en strax hafi verið talað um brotaþoli hafi verið laminn með riffilsjónauka og þessir hálfmánalöguðu áverkar á kinninni passi svolítið við röndina á litlum riffilsjónauka eins og vitnið þekki þá sem notaðir séu á 22 kalibera riffla. Ekkert geti vitnið að öðru leyti fullyrt með hverju brotaþoli hafi verið laminn. Vitnið kvaðst hafa sé myndir af rifflinum með sjónaukanum og taldi vitnið hálfmánalagaða skurðáverka geta passað við sjónaukann. Erfitt sé að segja hversu mörg högg hafi verið í höfuðið, en ekki komi áverki af sama högginu fyrir aftan eyra, á kinn, nefi og fyrir ofan augabrún. Þetta séu augljóslega margir áverkar. Þá sé jafnframt mar á baki ekki eftir eitt högg. Sömuleiðis á handleggjum. Þetta geti allt passað við endurtekin högg. Aðspurður hvort áverkar geti skýrst af því að brotaþoli hefði fallið utan í fastan hlut eða borð benti vitnið á að áverkarnir séu á svo mörgum stöðum. Kvaðst vitnið ekki geta séð það. Aðspurður kvað vitnið ekki hægt að segja til um það hversu lengi menn séu rotaðir, en það ástand geti varað mislangan tíma. Líklegt sé að brotaþoli hafi rotast af höggi vinstra megin á kjálka, en áfengisáhrif geti ýtt undir þetta og drukkinn maður rakni seinna úr roti en ella. Líklegt sé að brotaþoli hafi legið dálítið en blóðið á myndunum hafi verið orðið mjög storkið, en ekki sé hægt að segja hve lengi meðvitundarleysið hafi varað. Algengt sé í roti að minni tapist svolítið aftur fyrir rotið og fyrst á eftir líka.           

Forsendur og niðurstaða 

Í máli þessu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa veist að brotaþola eins og nánar greinir í ákæru með þeim hætti og afleiðingum sem þar er lýst.

Ákærði hefur neitað sök og kannast ekki við að hafa gert það sem honum er gefið að sök í ákæru. Hefur ákærði bæði hjá lögreglu og fyrir dómi lýst því að hann muni ekki eftir því sem lýst er í ákæru.

Ákærði hefur borið um það að hann kannast við að brotaþoli hafi komið í heimsókn til hans umrætt sinn og hefur borið um að hafa gefið honum áfengi að drekka en jafnframt hefur komið fram að ákærði hafi sjálfur verið ölvaður og hefur það verið staðfest með blóðrannsókn, en jafnframt hefur komið fram hjá ákærða að hann hafi tekið lyf, en ekki var gerð rannsókn á því í málinu. Þykir mega leggja til grundvallar að ákærði hafi verið talsvert eða mikið ölvaður, sbr. einnig framburð lögreglumannanna L og K.

Ákærði hefur lýst því að hann og brotaþoli hafi farið í sjómann í sumarbústaðnum umrætt sinn, en það hafi þó verið allt í góðu. Eftir það hefur ákærði lýst miklu minnisleysi, en fram hefur komið hjá honum að hann hafi áður farið í óminnisástand eftir drykkju. Eru ekki sérstök efni til að rengja það að ákærði muni atburði illa eða ekki. Þá hefur ákærði lýst minningabrotum um að hafa fyllst mikilli hræðslu og fengið einhvers konar tilfinningu um að hann þyrfti að verja sig, en hefur enga grein getað gert fyrir þessu eða gagnvart hverju hræðslan hafi beinst. Hefur hann lýst því að hann hafi upplifað að honum væri ógnað. Þá hefur ákærði lýst minningabroti, sem hafi í tímaröð verið á eftir hinni óskýrðu óttatilfinningu, að hann hafi haldið um báða enda á riffilsjónauka þeim sem var eða hafði verið á riffli ákærða.  Ekki kvaðst ákærði geta lýst því hvers vegna hann hafi haldið um riffilsjónaukann, en fannst þó að það hefði verið í einhvers konar varnartilgangi, en var þó raunar alls ekki viss um hvort þessi minning væri raunveruleg eða hugarburður. Ekki gat ákærði heldur gert sér grein fyrir því hvort riffilsjónaukinn hafi þá verið á rifflinum. Næsta minningabrot sem ákærði lýsti var að hafa rétt konunni, sem ætla verður að sé B, símann, en gat þó ekki gert sér grein fyrir hvort hann hafi rétt símann í hendur hennar eða til dæmis lagt hann á borð. Eftir þetta kveðst ákærði ekkert muna fyrr en lögreglumenn hafi komið á vettvang. Kvaðst ákærði telja að hann hafi vísað lögreglumönnunum á riffilinn í sófanum, en það er hins vegar í ósamræmi við framburð lögreglumannsins L sem lýsti því að þeir hefðu fundið riffilinn í sófanum falinn undir púðum, en jafnframt lýsti B því að ákærði hafi tekið byssuna og sett hana í sófann og sett kodda eða eitthvað yfir hana. Verður að telja ótrúverðugt að ákærði hafi vísað lögreglumönnum á riffilinn í sófanum og verður byggt á því að lögreglumenn hafi fundið hann án tilverknaðar ákærða, en að ákærði hafi sett riffilinn blóðugan og brotinn undir púða í sófanum. Ákærði kvaðst engar minningar hafa um missætti eða átök milli sín og brotaþola og ekki heldur um að hafa gert honum nokkurt mein.

Brotaþoli bar um það á svipaðan hátt og ákærði að hann hafi komið til ákærða síðla kvölds og ákærði hafi boðið honum inn og boðið honum áfengi. Kveðst brotaþoli hafa drukkið áfengi áður en hann kom til ákærða og kom fram að hann hafi verið ölvaður, en það er jafnframt staðfest með blóðrannsókn. Þá kom fram hjá brotaþola, eins og ákærða, að þeir hafi farið í sjómann. Brotaþoli lýsti því líka að á sama tíma og þeir hafi verið í sjómanni hafi B staldrað við hjá þeim skamma stund, en hún hafi svo farið aftur. Kveður brotaþoli að eftir að þeir fóru í sjómann muni hann ekki neitt frekar eftir sér í sumarbústað ákærða. Kvaðst brotaþoli ekki muna eftir neinum leiðindum eða slíku milli hans og ákærða og ekki hafi þeir tekist hart á í sjómanni. Kvaðst finnast eins og hann hafi fengið þungt högg og verið óviðbúinn. Þá kvaðst brotaþoli ekki minnast þess að hafa séð riffil í sumarbústað ákærða.

Vitnið B, sambýliskona brotaþola, lýsti því á sama hátt og brotaþoli að brotaþoli hafi farið til ákærða og kvaðst hún hafa komið þangað nokkru síðar og þá hafi þeir verið að drekka rauðvín og kjafta saman. Þeir hafi sest við eldhúsborðið og verið að fara í sjómann og hún hafi ákveðið að fara aftur í bústað sinn og brotaþola.  

Það er óumdeilt í málinu að þegar brotaþoli kom í sumarbústað ákærða umrætt kvöld bar hann ekki þá áverka sem lýst er í ákæru. Þá er óumdeilt að brotaþoli hafi fengið áverkana áður en lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang, en áverkarnir hafa verið staðfestir með framburði brotaþola, læknisvottorðum, framburði læknanna N og E, auk þess að fyrir liggja í málinu myndir af áverkum á brotaþola. Vitnið B, sambýliskona brotaþola, lýsti því að allt hafi verið í lagi með brotaþola þegar hún kom í sumarbústað ákærða í fyrra skiptið umrætt kvöld eða nótt, en þangað kom hún tvisvar. Verður að leggja til grundvallar og telja hafið yfir allan vafa að brotaþoli hafi fengið áverkana á tímabilinu frá því að B hafði yfirgefið ákærða og brotaþola og þangað til hún kom þangað aftur og svo lögreglumenn og sjúkraflutningamenn í kjölfarið.

Ákærði sjálfur, brotaþoli, B og aðrir þeir sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi í málinu hafa allir borið að þeir hafi hvorki orðið varir við neinar mannaferðir né aðra umferð í nágrenni sumarbústaðar ákærða eða við hann umrætt kvöld og nótt.

                Vitnið B lýsti því að þegar hún hafi verið að yfirgefa ákærða og brotaþola og ganga frá sumarbústað ákærða þá hafi henni heyrst þeir vera farnir að rífast eða einhver leiðindi væru að byrja milli þeirra en hún hafi ákveðið að skipta sér ekki af því.

                Vitnið N lýsti áverkum á brotaþola sem voru á framhandleggjum hans litlafingurs megin. Kvað vitnið þessa áverka býsna glögglega vera varnaráverka sem kæmu við það að maður beri hönd fyrir höfuð sér. Þá kvað vitnið þá áverka sem brotaþoli bar og sem voru hringlaga eða hálfmánalagaða vel geta verið eftir riffilsjónauka sem væri ætlaður fyrir 22 kalibera riffil. Vitnið lýsti því að algengara væri að rétthentur maður veiti áverka vinstra megin á andlit andstæðings, en svo hafi verið í þessu tilviki, en hjá ákærða kom fram að hann væri rétthentur. Þá kvaðst vitnið ekki geta séð það að brotaþoli gæti hafa fengið áverkana við það að hafa dottið utan í fasta hluti, s.s. borð. Til þess væru áverkarnir of margir og dreifðir.

                Af ljósmyndum af vettvangi og framburði verður ekki ráðið að til átaka hafi komið í sumarbústað ákærða, heldur að brotaþoli hafi orðið fyrir árás, án þess að tekist hafi verið á í hefðbundnum átökum. Þá verður ekki horft fram hjá því að einu áverkarnir sem komið hefur fram að ákærði hafi borið eftir atburði næturinnar var bólga á hægri hendi skv. framburði hans sjálfs.

                Í dagbók lögreglu frá umræddri nótt kemur fram að ákærði hafi hringt kl. 02:26 úr símanúmerinu [...], sem ákærði staðfesti að væri sitt símanúmer, og verið miður sín þar sem hann hafi barið mann sem liggi nú á gólfinu. Kemur fram að ákærði hafi talið manninn látinn og frá honum kæmi bara blóð. Segir jafnframt að ákærði hafi ekki virst tilbúinn til að kanna nánar með manninn. Vitnið M lögreglumaður sem skráði umrædda dagbókarfærslu kom fyrir dóminn og staðfesti færsluna. Kvaðst hann þó ekki muna eftir málinu, en lýsti því hvernig svona skráning fer fram. Í framburði vitnisins B kom fram að ákærði hafi ekki verið verið að huga sjálfur að brotaþola og fannst henni eins og ákærði væri í einhvers konar geðshræringu. Svipaður var framburður lögreglumannsins L um það að ákærði hafi verið í mikilli geðshræringu, titrað og átt erfitt með mál. Þá lýsti L því að ákærði hafi á vettvangi fyrst ekkert viljað gefa upp  og sagt að hann vissi ekkert hvað hafi gerst, en svo þegar hafi verið gengið á hann þá hafi ákærði sagt að hann hafi hugsanlega barið brotaþola með riffilsjónaukanum.

                Fram hefur komið hjá ákærða og vitninu K að ákærði hafi verið bólginn á hægri hendi daginn eftir, en ákærði hafði enga skýringu á bólgunni aðra en þá að ef hann hafi slegið brotaþola, þá kynni hann að hafa gert það með hægri hendi, enda rétthentur.

                Fyrir liggur að ákærði átti riffil þann og riffilsjónauka sem fundust blóðugir á vettvangi og var riffilskeftið mölbrotið, en miðað við hvernig ákærði, brotaþoli og vitnið B lýstu aðstæðum þá hefur ákærði setið nálægt rifflinum miðað við hvar hann lýsti því að riffillinn hafi verið í horni sumarbústaðarins.

                Ákærði hefur borið að hann hafi haldið um riffilsjónaukann í einhvers konar varnartilgangi og mögulega notað hann sem barefli, en hringlaga áverkar á brotaþola geta komið heim og saman við að hann hafi verið laminn með riffilsjónaukanum. Þá verður að líta til þess að riffillinn fannst undir púðum í sófa en allt bendir til þess að ákærði hafi komið honum þangað blóðugum og brotnum, en telja verður að riffillinn hafi verið notaður sem barefli umrætt sinn.

                Að öllu þessu virtu þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir. Þykir ekki vera varhugavert að sakfella ákærða þrátt fyrir að minni bæði hans og brotaþola sé svo brotakennt um atburði sem raun ber vitni. Þá þykir það ekki valda skynsamlegum vafa í málinu að ákærði hafi talað um hundgá og köll utan húss þegar hann hringdi í neyðarlínuna, en fyrir liggur að B var þá á staðnum og að a.m.k. hundur ákærða ef ekki báðir hundarnir líka. Þá hefur það sérstaklega komið fram hjá öllum sem gáfu skýrslur fyrir dómi, þ. á m. ákærða, að engra annarra mannaferða hafi orðið vart og er þá ekki öðrum til að dreifa en ákærða. Hvorki á vettvangi né síðar hefur ákærði talað um að aðrir hafi átt hlut að máli og kom t.a.m. ekki fram á vettvangi að hann væri hræddur við utanaðkomandi árás eða að óviðkomandi menn hafi komið í sumarbústað hans.

                Háttsemi ákærða er rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru, en um er að ræða sérstaklega hættulega líkamsárás sem beindist m.a. að höfði brotaþola og var unnin með barefli, en jafnframt voru áverkar brotaþola mjög alvarlegir.

                Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að ekki er upplýst neitt um aðdraganda þess að ákærði framdi brot sitt og verður ákærði að njóta alls vafa í þeim efnum. Þá ber jafnframt að líta til þess að samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði hvorki fyrr né síðar gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Alllangt er síðan ákærði framdi brot sitt án þess að honum verði um það kennt. Þykir af þeim sökum fært að fresta fullnustu 12 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Með broti sínu hefur ákærði bakað sér skaða- og miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola skv. sakarreglunni og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Árás ákærða gagnvart brotaþola var sérlega fólskuleg og augljóslega til þess fallin að vinna honum umtalsvert heilsutjón og baka honum mikinn miska. Miskabótakrafa brotaþola að fjárhæð kr. 1.000.000 þykir því ekki úr hófi og verður ákærði dæmdur til að greiða hana. Af hálfu ákærða eru ekki höfð uppi sérstök mótmæli eða málsástæður gagnvart kröfu brotaþola um útlagðan kostnað skv. framlögðum reikningum kr. 69.352 og verður ákærði dæmdur til að greiða hana. Ekki er af hálfu ákærða mótmælt vaxta- og dráttarvaxtakröfu brotaþola og verða vextir dæmdir eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki liggur fyrir að ákærða hafi verið kynnt bótakrafa og gögn hennar fyrr en við þingfestingu málsins.

                Með hliðsjón af 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu  sakarkostnaðar. Útlagður kostnaður samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti er kr. 32.038 sem er vegna kostnaðar verjanda og vegna áverkavottorðs. Ber ákærða að greiða þann kostnað. Í málinu hefur í tvígang farið fram aðalmeðferð, án þess að ákærða verði um það kennt. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 78/2015 segir að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs efnisdóms í málinu. Þykir rétt að dæma ákærða til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns við fyrri dómsmeðferð málsins, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 317.000 að meðtöldum virðisaukaskatti og til greiðslu á þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola við hina fyrri dómsmeðferð, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 517.000 að meðtöldum virðisaukaskatti. Rétt þykir hins vegar að gera ríkissjóði að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásgeirs Jónssonar hrl., kr. 1.106.476 að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar verjandans, kr. 50.528. Jafnframt greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Þórðarsonar hrl., kr. 583.110 að meðtöldum virðisaukaskatti, ásamt útlögðum kostnaði hans kr. 44.000 og aksturskostnaði kr. 37.440.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Barböru Björnsdóttur héraðsdómara.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Torfi Agnars Jónsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Fresta skal fullnustu 12 mánaða af fangelsisrefsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A, kt. [...], kr. 1.069.352 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. júní 2012 til 2. nóvember 2014, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði sakarkostnað, kr. 866.038, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 317.000 og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 517.000, en úr ríkissjóði greiðist málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásgeirs Jónssonar hrl., kr. 1.106.476, auk aksturskostnaðar verjandans, kr. 50.528, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Þórðarsonar hrl., kr. 583.110 auk útlagðs kostnaðar hans kr. 44.000 og aksturskostnaðar, kr. 37.440.