Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                              

Miðvikudaginn 12. júní  2013.

Nr. 399/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

Y

(Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 8. júlí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa laugardaginn 1. júní 2013, ásamt X sem vopnaður var hnífi, ruðst inn á heimili A að [...]þar sem þeir X, sem báðir höfðu hulið andlit sín, réðust á A, bundu hendur hans og fætur, fóru ránshendi um íbúðina og höfðu á brott með sér átta skotvopn í eigu húsráðanda. Samkvæmt þessu er varnaraðili undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað getur við 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot á fyrrgreindu lagagreininni getur varðað fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt og brot á þeirri síðarnefndu fangelsi allt að 10 árum eða allt að 16 árum ef mjög mikil hætta hefur verið því samfara. Er áðurgreindu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um alvarleika brots því fullnægt.

Brot varnaraðila er þess eðlis að það telst vera svívirðilegt í augum almennings og þar með hætta á að það ylli óróa í samfélaginu ef hann yrði látinn laus. Að því virtu og með vísan til þess sem að framan greinir eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald á grundvelli þess ákvæðis. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði Y, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 8. júlí n.k. kl. 16:00.

Í kröfu lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meint húsbrot, rán, frelsissviptingu og hylmingu.

Á laugardaginn sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra um að ruðst hafi verið inn til manns að [...] og hann rændur. Á vettvangi hafi lögregla hitt fyrir brotaþola, A, sem við skýrslutökur tjáði lögreglu að tveir ungir karlmenn hafi bankað upp á hjá honum. Þeir hafi hulið andlit sín. Hann hafi neitað að hleypa þeim inn en þá hafi annar þeirra dregið upp hníf. Brotaþoli hafi reynt að loka útidyrahurðinni en þeir hafi þá ruðst inn á hann. Hafi þeir hrint honum og sparkað í klof hans. Í kjölfarið hafi þeir bundið fætur hans og hendur með benslaböndum. Þeir hafi síðan spurt um skotvopn í hans eigu og brotaþoli hafi upplýst þá um lykla að skotvopnaskáp sem staðsettur var í geymslu. Annar aðilinn hafi þá náð í lykilinn og farið út úr íbúðinni en hinn hafi orðið eftir. Skömmu síðar hafi sá aðili er fór út komið og náð í hinn. A kvaðst hafa komið sér að glugga með því að hoppa og þá séð gráa [...] bifreið með upphafsstafina [...] fyrir utan húsið. A kvaðst svo hafa farið út og leitað aðstoðar hjá nágranna sínum. A hafi jafnframt upplýst lögreglu um að alls 8 skotvopn hefðu verið fjarlægð úr skápi hans.

Um klukkan 16:00 á laugardaginn 1. júní hafi meðkærði, Z, verið stöðvaður á [...] bifreið, með skráninganúmer [...]. Við skýrslutökur hafi hann játað að hafa hafa ekið tveimur aðilum að [...] og beðið þar eftir þeim. Eftir það hafi hann ekið þeim að [...] að húsi sem hafi verið [...]. Hann hafi hinsvegar ekki vitað hvað gatan héti.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga telji lögregla yfirgnæfandi líkur á að skotvopnunum hafi verið komið í húsnæði að [...] en einn hinna grunuðu mun hafa tengsl við vélhjólasamtökin [...] og talið væri að nefnt húsnæði tengdist einnig þeim samtökum. Þar hafi verið fyrir B og Þ, sem voru í kjölfarið handtekin og flutt á lögreglustöð.

Við skýrslutökur af  hafi komið fram að Y hefði fyrir helgina beðið Þ að geyma fyrir sig eitthvað af skotvopnum. Þ hafði samþykkt þetta og um hádegi laugardaginn 1. júní hefðu síðan Y og annar aðili komið með 8 skotvopn í ferðatösku til hans og skilið eftir. Þriðji aðili hefði beðið úti í [...] á meðan. Þ hafi síðar vísað á skotvopnin sem voru afar vandlega falin bak við falskan lista ofan við fataskáp í svefnherbergi. Fyrir að geyma skotvopnin hafi Þ hugsanlega átt að fá eitt skotvopnanna.

Þann 2. júní sl. var kærði Y handtekinn í þágu rannsóknar málsins og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi kærði Y viðurkennt aðild sína að málinu.  Hann hafi greint frá því í skýrslu 3. júní sl. og svo aftur í dag að hafa farið inn í íbúðina með X. sem hafi verið vopnaður hníf, með andlitið hulið, ráðist á húsráðanda og bundið hann.  Þeir hafi svo farið ránshendi um íbúðina.  Sé framburður kærða Y í samræmi við framburði X og annarra aðila málsins.

Brot það sem hér um ræði sé mjög alvarlegt. Brotið sé framið með skipulögðum hætti, þar sem hættulegu vopni sé beitt og á mjög ruddafenginn og ógnandi hátt.  Brotið hafi verið til þess fallið að vekja mikinn ótta hjá þeim sem fyrir því hafi orðið og skapað mikla hættu. Þá hafi brotið verið framið inni á heimili brotaþola, sem hafi átt sér einskis ills von. 

Telja verði að umrætt brot sé í eðli sínu svo svívirðileg að gangi kærði frjáls ferða sinna myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa mjög réttarvitund almennings. 

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti að lögum allt að ævilöngu fangelsi og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds. 

Rannsókn málsins sé á lokastigi og verði málið væntanlega sent ríkissaksóknara innan þess tíma sem hér sé krafist.

Staða kærða sé sambærileg stöðu annarra sakborninga þar sem þeim hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi m.t.t. almannahagsmuna, sjá t.d. dóma Hæstaréttar Íslands nr. 212/2009, 491/2012 og 492/2012, en í þeim málum hafi evrið um að ræða rán og frelsisviptingar inni á heimi fólks.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur viðurkennt fyrir lögreglu og dómi aðild sína að málinu með því að hafa ásamt kærða X sem vopnaður var hnífi og báðir með andlitin hulin ruðst inn á heimili brotaþola, ráðist á hann, bundið hendur hans og fætur, farið ránshendi um íbúðina, neytt hann til að afhenda þeim lykla að skotvopnaskáp, sem staðsettur var í geymslu og haft á brott með sér 8 skotvopn í hans eigu. Í ljósi þessa og rannsóknargagna málsins er sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 2. mgr. 226. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að rannsókn málsins sé á lokastigi og málið verði væntanlega sent ríkissaksóknara innan skamms. Fallist er á það með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að framangreindu virtu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, Y, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 8. júlí n.k. kl. 16:00.