Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/2013
Lykilorð
- Skuldamál
- Ráðningarsamningur
- Riftun
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2013. |
|
Nr. 423/2013. |
Óskar Axel Óskarsson (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) gegn Pizza-Pizza ehf. (Halldór Jónsson hrl.) |
Skuldamál. Ráðningarsamningur. Riftun. Uppgjör.
P ehf. höfðaði mál á hendur fyrrum starfsmanni sínum Ó til heimtu skuldar vegna ætlaðra úttekta hans á vörum hjá P ehf. Ó bar því á hinn bóginn við að P ehf. hefði verið óheimilt að segja ráðningarsamningi hans upp fyrirvaralaust og beindi gagnkröfu á hendur félaginu til heimtu launa og orlofs á uppsagnarfresti, bifreiðahlunninda og miskabóta. Samkvæmt gögnum málsins voru þær úttektir, sem P ehf. reisti kröfu sína á, ýmist gerðar af hálfu Ó eða M ehf. Eins og atvikum málsins var háttað var talið að úttektir í nafni M ehf. hefðu verið gerðar með samþykki Ó og var háttsemi hans talin renna stoðum undir að hann teldi sig bera ábyrgð á viðskiptaskuld M ehf. við P ehf. Var Ó því gert að greiða P ehf. skuld vegna vöruúttektanna. Þá var rakið að í ráðningarsamningi málsaðila hefði með nánar tilgreindum hætti verið kveðið á um að Ó væri óheimilt að tengjast fyrirtæki sem starfaði í samkeppni við P ehf. og að félaginu væri heimilt að rifta ráðningarsamningi eða segja honum upp færi starfsmaður ekki að ákvæðum samningsins. Meðal annars að virtum tengslum Ó við M ehf. var fallist á að hann hefði með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum ráðningarsamningsins. Var P ehf. því talið hafa verið heimilt að segja Ó upp fyrirvaralaust og félagið sýknað af kröfum Ó.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.054.320 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. október 2011 til 1. janúar 2012 og af fyrrgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningur málsins lýtur annars vegar að uppgjöri vegna ætlaðra úttekta áfrýjanda á vörum hjá stefnda, en hins vegar að því hvort stefnda hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi áfrýjanda.
I
Í málinu liggur fyrir að starfsmenn stefnda gátu fengið heimild til að taka pizzur út í reikning hjá fyrirtækinu. Fór það þannig fram að þeir gáfu upp tiltekið símanúmer og var úttektin skuldfærð í samræmi við það. Á fyrirliggjandi afritum reikninga stefnda voru ýmist tilgreind símanúmerin 822-5529, 571-2999 eða 822-5510. Jafnframt var þar tilgreind kennitala áfrýjanda, sem einnig var reikningsviðskiptanúmerið. Af gögnum málsins verður ráðið að áðurnefnd símanúmer, sem hringt var úr eða gefin voru upp og tilgreind voru á afritum fyrirliggjandi reikninga, koma heim og saman við þau símanúmer sem skráð voru í reikningsviðskipti á kennitölu áfrýjanda.
Vöruúttektir áfrýjanda hjá stefnda voru gerðar upp á launareikningi hans allt þar til í júní 2010 að þær námu svo háum fjárhæðum að ekki var unnt að hafa þann háttinn á. Í lok júlí sama ár nam skuld áfrýjanda við stefnda 667.456 krónum og í lok ágúst 1.052.717 krónum. Úttektir hans í september, október, nóvember og desember 2010 voru gerðar upp með afdrætti launa. Hinu sama gilti um úttektir í janúar, febrúar, mars og apríl 2011, en frá og með launauppgjöri vegna mars voru 50.000 krónur dregnar frá launum hans upp í skuld hans við stefnda. Þá námu úttektir 56.022 krónum í apríl 2011 og voru þær gerðar upp með launum í maí sama ár. Úttektir í maí 2011 námu 359.961 krónu, en 31. þess mánaðar voru bakfærðar af reikningi hans 150.000 krónur og skuldfærðar á Menningarhúsið ehf. Eftir þá leiðréttingu nam uppsöfnuð viðskiptaskuld áfrýjanda við stefnda 967.542 krónum. Úttektir í júní 2011 námu 344.769 krónum og voru 64.778 krónur dregnar af launum í júlí sama ár vegna þeirra. Úttektir í júlí 2011 námu 97.538 krónum og voru þær gerðar upp með ágústlaunum. Úttektir í ágúst 2011, auk úttekta 1. og 2. september, sama ár námu 30.195 krónum og voru þær gerðar upp með launum í síðarnefndum mánuði.
Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi ítrekað gert athugasemdir við uppgjör vegna vöruúttekta, en fjármálastjóri stefnda, Guðný Agla Jónsdóttir, bar fyrir dómi að reikningar að baki viðskiptunum hafi ætíð verið honum aðgengilegir. Fyrrum framkvæmdastjóri stefnda, Ásdís Þrá Höskuldsdóttir, bar fyrir dómi að áfrýjandi hefði margoft gert athugasemdir við að fá ekki afrit af reikningum eða vöruúttektum, en reynt hefði verið að „finna út úr því fyrir hann í einhvern tíma“. Eins og að framan er rakið var viðskiptareikningur áfrýjanda leiðréttur 31. maí 2011 þegar bakfærðar voru af reikningi hans 150.000 krónur og skuldfærðar á Menningarhúsið ehf.
Samkvæmt samstarfssamningi 1. apríl 2011 milli Menningarhússins ehf. og stefnda um sölu á pizzum frá stefnda, sem áfrýjandi undirritaði fyrir hönd Menningarhússins ehf., var tilgreint söluverð á pizzum en auk þess var ákvæði um að Menningarhúsið ehf. skyldi staðgreiða allar pizzuúttektir þar til fyrri skuld þess væri að fullu greidd. Þrátt fyrir þennan samning tók áfrýjandi út vörur í nafni Menningarhússins ehf. sem gjaldfærðar voru á reikning hans og virti þannig að vettugi ákvæði samningsins um staðgreiðsluviðskipti.
Hinn 3. júlí 2011 sendi áfrýjandi tölvubréf til þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, fyrrgreindrar Ásdísar, þar sem hann kvartaði undan að hafa ekki fengið nein gögn vegna reikningsuppgjörs. Í bréfinu segist hann ,,nú“ vera ,,kominn með gögnin“ og hafa greitt ,,inn 100.000 kr. síðastliðinn föstudag“. Þá skyldi hann ,,leggja inn 200.000 kr.- á þriðjudag og restina þegar ég hef farið yfir þetta.“ Ekki verður séð að áfrýjandi hafi krafist leiðréttingar á færslum á viðskiptareikning sinn eftir að hann sendi þetta tölvubréf.
Óumdeilt er að áfrýjandi bar, samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá, ekki ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum Menningarhússins ehf. Hins vegar má ráða af fyrrnefndum samstarfssamningi að hann kom fram fyrir hönd félagsins. Þá liggur jafnframt fyrir að inn á reikning Menningarhússins ehf. voru greiddar 100.000 krónur 1. júlí 2011 og 200.000 krónur 5. júlí sama ár. Koma þær innborganir heim og saman við þær innborganir sem áfrýjandi gat um í tölvubréfinu 3. júlí 2011.
Fyrir dómi var fyrrgreind Ásdís innt eftir skýringu á því að í málinu væru reikningar vegna Menningarhússins ehf. á kennitölu áfrýjanda sem hann hefði kvittað undir. Kom fram hjá henni að þegar hringt væri í þjónustuver væri hægt að óska eftir því að vöruúttekt færi á tiltekinn reikning. Áfrýjandi hefði því getað stjórnað því á hvaða reikning viðskiptin væru gjaldfærð. Þegar framangreint er virt er ljóst að áfrýjandi taldi sig geta skuldbundið Menningarhúsið ehf. og komið fram fyrir þess hönd. Jafnframt taldi hann sig bera ábyrgð á skuldum félagsins vegna úttekta sem fóru gegnum reikning hans og voru greiddar 1. og 5. júlí 2011. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um þennan þátt málsins verður niðurstaða um hann staðfest.
II
Í 13. gr. ráðningarsamnings áfrýjanda við stefnda var kveðið á um að starfsmanni væri óheimilt að eiga beint eða óbeint fjárhagslegra hagsmuna að gæta í fyrirtæki sem að einhverju leyti ræki starfsemi á sama sviði og stefndi og því í samkeppni við hann. Þá var kveðið á um að starfsmanni væri óheimilt að starfa hjá eða fyrir slíkt fyrirtæki.
Með uppsagnarbréfi 14. september 2011 var ráðningarsamningi áfrýjanda rift „meðal annars vegna ítrekaðra óheimilla úttekta á viðskiptareikning yðar og félags í yðar umsjón ásamt alvarlegum trúnaðarbrotum gagnvart félaginu“. Í frétt, er birtist á vefmiðlinum Pressunni 19. september 2011, var greint frá því að áfrýjandi ynni að því að opna nýja pizzukeðju í samkeppni við stefnda. Síðan sagði í fréttinni: „Óskar Axel vinnur að því að hrinda hugmyndinni í framkvæmd með syni sínum og fjölmörgum starfsmönnum Dominos sem hafa hætt í kjölfar eigendaskipta“. Bar áfrýjandi fyrir dómi að rangt væri eftir sér haft í fréttinni, þar sem hið rétta væri að sonur sinn hefði verið að opna lítinn veitingastað. Fyrir Hæstarétti liggur skýrsla vitnisins Eiríks Jónssonar fyrir dómi, en hann skrifaði fyrrgreinda frétt. Hann kvaðst hafa rætt við áfrýjanda áður en fréttin var skrifuð og talið að áfrýjandi væri að opna nýja pizzustaði. Áfrýjandi hafi hringt í sig síðar og sagt vitnið hafa misskilið eitthvað, þar sem hið rétta væri að sonur sinn stæði á bak við opnun nýs pizzustaðar í Mjódd. Vitnið var einnig um það spurður hvort rétt hafi verið haft eftir áfrýjanda í fréttinni og kvað vitnið „það voru ekki gerðar neinar athugasemdir með það“. Fyrir dómi var áfrýjandi inntur eftir því hvort hann hafi stofnað fyrirtæki í samkeppni við stefnda, sem vísað var til í ofangreindri frétt. Neitaði áfrýjandi því, en kvaðst vita að Menningarhúsið ehf. ætlaði sér að „setja upp einhvern lítinn veitingastað“. Jafnframt kvaðst hann hafa aðstoðað félagið og komið fram fyrir hönd þess í einhverjum tilvikum.
Þegar litið er til þeirra sterku tengsla áfrýjanda við Menningarhúsið ehf., sem fyrr voru rakin, óljósra skýringa hans á framangreindri frétt sem og fyrrgreinds vættis Eiríks Jónssonar um að rétt væri eftir áfrýjanda haft í henni, er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að áfrýjandi hafi með þeim hætti er greinir í 13. gr. ráðningarsamningsins tengst fyrirtæki sem ætlað var að reka starfsemi á sama sviði og stefndi og því í samkeppni við hann. Þá er tekið undir það mat hins áfrýjaða dóms að ekki skipti máli í þessu samhengi þótt áfrýjandi hafi ekki sjálfur verið stofnandi eða eigandi hins nýja pizzufyrirtækis. Í 11. gr. ráðningarsamnings áfrýjanda sem fjallaði um alvarleg brot, var ákvæði þess efnis að stefnda væri heimilt að rifta samningi án viðvörunar eða segja honum upp gerðist starfsmaður brotlegur á einhvern þann hátt þar sem ekki væri farið eftir reglum og ákvæðum í ráðningarsamningi. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu um trúnaðarbrot áfrýjanda var stefnda heimilt að rifta ráðningarsamningnum án viðvörunar.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þennan þátt málsins einnig staðfest og stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda er tengist riftun ráðningarsamnings hans um laun, orlof, bifreiðahlunnindi og miskabætur. Einnig verður staðfest niðurstaða dómsins um endurgreiðslukröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, ákveðinn verður einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Óskar Axel Óskarsson greiði stefnda, Pizza-Pizza ehf., samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2013.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 26. febrúar sl., er höfðað af Pizza Pizza ehf., Lóuhólum 2-6, Reykjavík gegn Óskari Axel Óskarssyni, Vesturási 28, Reykjavík, til greiðslu skuldar, með stefnu birtri 19. janúar 2012. Gangstefnandi, Óskar Axel, höfðaði síðar mál á hendur aðalstefnanda, til greiðslu launa og orlofs, með stefnu birtri 25. júní 2012. Með heimild í b-lið 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 voru málin sameinuð. Verður hér eftir vísað til hins fyrra, skuldamálsins, sem aðalsakar en hins síðara, vinnulaunamálsins, sem gagnsakar.
Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda 988.076 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2011 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda. Gagnstefnandi krefst sýknu af kröfum aðalstefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða honum 6.054.320 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2011 af 438.330 kr. til 1. nóvember 2011 og frá þeim degi af 1.142.925 kr. til 1. desember 2011 og frá þeim degi af 1.847.520 kr. til 1. janúar 2012 og frá þeim degi af 6.054.320 kr. til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist á höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 2012 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar ásamt vöxtum af málskostnaði. Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda í gagnsök og greiðslu málskostnaðar úr hans hendi.
II
Málsatvik
Gagnstefnandi starfaði sem verslunarstjóri fyrir aðalstefnanda, sem rekur skyndibitastaði undir merkjum Dominos Pizza, frá árinu 2007 þar til honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum 14. september 2011. Skömmu áður höfðu orðið eigendaskipti á fyrirtækinu en núverandi eigendur þess tóku við rekstrinum 1. september 2011. Í uppsagnarbréfi var gagnstefnanda gefið að sök að hafa gerst sekur um óheimilar úttektir á viðskiptareikningi sínum hjá aðalstefnanda ásamt alvarlegum trúnaðarbrotum gagnvart honum. Gagnstefnandi lét af störfum samdægurs og fékk uppgerð laun fram til 14. september 2011. Í nóvember fékk stefnandi uppgert orlof til og með 14. september 2011. Með bréfi 26. september 2011 sendi aðalstefnandi embætti sérstaks saksóknara kæru á hendur gagnstefnanda fyrir brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur embættið enn ekki tekið ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn vegna kærunnar.
Snýst ágreiningur málsaðila um hvort heimilt hafi verið að segja gagnstefnanda upp án fyrirvara sem og um uppgjör vegna vöru (pitsa) sem aðalstefnandi segir að gagnstefnandi hafi tekið út í reikning hjá aðalstefnanda en ekki staðið í skilum með greiðslur á. Krafa aðalstefnanda vegna vöruúttekta gagnstefnanda byggist annars vegar á reikningsyfirliti frá 30. september 2011 þar sem fram kemur að skuld gagnstefnanda við aðalstefnanda nemi 959.996 kr. Hins vegar byggist krafan á reikningi frá 4. september 2011, með gjalddaga 25. október 2011 að fjárhæð 28.080 kr. Við meðferð málsins lagði aðalstefnandi fram afrit á sjötta hundrað reikninga sem hann kveður tilkomna vegna úttekta gagnstefnanda á árunum 2010 og 2011.
Skýrslu fyrir dómi gáfu Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri aðalstefnanda, Óskar Axel Óskarsson, gagnstefnandi, Guðný Agla Jónsdóttir, fjármálastjóri aðalstefnanda, Ingibjörg Gunnarsdóttir, starfsmannastjóri aðalstefnanda og Ásdís Þrá Höskuldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri aðalstefnanda.
III
Málsástæður aðalstefnanda í aðalsök
Af hálfu aðalstefnanda er til stuðnings kröfu um greiðslu úr hendi gagnstefnanda vísað til þess að gagnstefnandi hafi fengið að taka vörur út í reikning hjá aðalstefnanda. Gagnstefnandi hafi í frítíma sínum rekið sölubifreið sem hafi m.a. selt pitsur og gos víðs vegar um landið á skemmtunum o.fl. og hafi nýtt vöruúttektirnar að mestu til endursölu með þessum hætti. Hann hafi gert sérstakt samkomulag við yfirmenn sína um endurgreiðslu vöruúttekta og annars kostnaðar og hafi því verið dregið reglulega af launum hans vegna þessara skulda. Eftir að gagnstefnandi hafi látið af störfum hafi hann enn staðið í skuld við aðalstefnanda.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. 45., 47. og 51. gr. laga 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er m.a. vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður hann við reglur III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður gagnstefnanda í aðalsök
Af hálfu gagnstefnanda er því mótmælt að hann hafi tekið út vörur í reikning hjá aðalstefnanda og selt í sölubifreið sem hann hafi haft til umráða. Hann hafi ekki rekið sölubifreið. Telur hann að aðalstefnandi sé hér að rugla saman sölubifreið sem fyrirtækið Menningarhúsið ehf. hafi rekið, en það fyrirtæki sé á vegum sonar gagnstefnanda og sé rekstur þess gagnstefnanda óviðkomandi.
Gagnstefnandi kveðst hafa verið í reikningsviðskiptum hjá aðalstefnanda og kvittað fyrir móttöku á þeim vörum sem hann hafi fengið. Öll viðskipti hans hafi farið á viðskiptareikning sem hann hafi greitt fyrir eins og fram komi á launaseðlum. Við skoðun á reikningum frá árunum 2010 og 2011, sem aðalstefnandi hafi lagt fram, megi sjá að aðalstefnandi hafi skráð vörur á úttektarreikning gagnstefnanda umfram þær vörur sem hann hafi tekið út. Þannig séu úttektir Menningarhússins ehf. færðar yfir á reikning gagnstefnanda. Við skoðun framlagðra reikningar megi sjá reikninga sem ekki sé kvittað fyrir móttöku á samtals að fjárhæð 569.301 kr., reikninga sem ekki séu undirritaðir af gagnstefnanda sjálfum 315.857 kr., reikninga sem tilheyri Menningarhúsinu ehf. að fjárhæð 319.852 kr., og reikninga á Menningarhúsið ehf., 107.755 kr., sem kvittað sé fyrir af gagnstefnanda Samtals hafi því 1.312.765 kr. verið reikningsfærðar á gagnstefnanda umfram heimild. Sé tekið tillit til framangreinds sé ljóst að gagnstefnandi hafi ofgreitt aðalstefnanda 324.689 kr.
Hvað varðar reikning að fjárhæð 28.080 kr. frá 4. september 2011 þá kveðst gagnstefnandi ekki kannast við hann og mótmælir því að hafa tekið umræddar vörur út í eigin reikning, en engin fylgigögn fylgi reikningnum.
Þá mótmælir gagnstefnandi dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda sérstaklega enda hafi hann aldrei séð umrædda reikninga sem krafan byggist á.
Um lagarök vísar gagnstefnandi til einkamálalaga nr. 91/1991, laga um greiðslu verkkaups nr. 28/1930, þjónustukaupalaga nr. 42/2000 og meginreglna kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað byggist á ákvæðum 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Málsástæður gagnstefnanda í gagnsök
Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að hin fyrirvaralausa uppsögn aðalstefnanda hafi verið ólögmæt. Í uppsagnarbréfi sé gagnstefnanda gefið að sök að hafa gerst sekur um alvarleg ásetningsbrot m.a. vegna óheimilla úttekta á viðskiptareikningi ásamt alvarlegum trúnaðarbrotum gagnvart aðalstefnanda. Gagnstefnandi hafnar alfarið ásökunum aðalstefnanda um brot í starfi enda eigi þær ekki við rök að styðjast. Þvert á móti hafi hann verið mjög góður starfsmaður og hafi, mánuði fyrir uppsögn, fengið viðurkenningu sem starfsmaður ársins 2011 en hann hafi einnig fengið þann titil á árinu 2009.
Gagnstefnandi kveðst hafa verið í reikningsviðskiptum og kvittað fyrir móttöku á þeim vörum sem hann hafi fengið. Um málsástæður gagnstefnanda hvað þessi viðskipti varðar vísar hann til þess sem að framan er rakið vegna krafna hans í aðalsök. Byggir gagnstefnandi á því að hann hafi ofgreitt aðalstefnanda 324.689 kr. sem hann geri nú kröfu um að aðalstefnandi greiði sér til baka.
Gagnstefnandi kveðst hafa áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest skv. kjarasamningi VR og SA er honum hafi verið vikið fyrirvarlaust úr starfi. Geri hann kröfu til launa í uppsagnarfresti auk orlofs. Þá gerir gagnstefnandi kröfu um miskabætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem í tilkynningu til samstarfasmanna hans hafi verið mjög alvarlega vegið að heiðri hans og æru en þar komi fram að gagnstefnandi hafi brotið alvarlega af sér í starfi. Sú staðhæfing eigi hins vegar ekki við nein rök að styðjast. Krafa gagnstefnanda sundurliðast sem hér segir:
|
Laun v/ september |
|
|
|
|
|
374.873 |
|
||||||
|
Bifreiðahlunnindi v/ sept. |
|
|
|
|
63.457 |
|
|||||||
|
Laun v/ október |
|
|
|
|
|
641.138 |
|
||||||
|
Bifreiðahlunnindi v/ okt. |
|
|
|
|
63.457 |
|
|||||||
|
Laun v/ nóvember |
|
|
|
|
|
641.138 |
|
||||||
|
Bifreiðahlunnindi v/ nóv. |
|
|
|
|
63.457 |
|
|||||||
|
Laun v/ desember |
|
|
|
|
|
641.138 |
|
||||||
|
Bifreiðahlunnindi v/ des. |
|
|
|
|
63.457 |
|
|||||||
|
Orlof í upps.fresti 6 d. x 29.586 |
|
|
|
177.516 |
|
||||||||
|
Miskabætur |
|
|
|
|
|
3.000.000 |
|
||||||
|
Endurgr.reikning |
|
|
|
|
|
324.689 |
|||||||
|
Samtals |
|
|
|
|
|
6.054.320 |
|||||||
Um lagarök vísar gagnstefnandi til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga um orlof nr. 30/1987, meginreglna kröfuréttar, skaðbótalaga nr. 50/1993, meginreglna vinnuréttar, og kjarasamninga VR og vinnuveitenda. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður gagnstefnandi við reglur 1. mgr. 6.gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Málsástæður aðalstefnanda í gagnsök
Af hálfu aðalstefnanda er á því byggt að fyrir hendi hafi verið atvik sem hafi réttlætt riftun ráðningarsamnings og fyrirvaralausa uppsögn gagnstefnanda. Við skoðun á bókhaldi og starfsemi aðalstefnanda í tengslum við eigendaskipti fyrirtækisins sem og í samskiptum aðalstefnanda og nýs framkvæmdastjóra gagnstefnanda í kjölfar eigendaskiptanna hafi forsvarsmenn aðalstefnanda talið gagnstefnanda uppvísan að alvarlegum brotum gegn starfs- og trúnaðarskyldum, m.a. vegna trúnaðarbrests og heimildarlausra skuldfærslna á viðskiptareikning hans og félags honum tengdu auk annarra brota sem grunur leikur á að séu refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum. Því hafi ráðningarsamningi gagnstefnanda verið rift fyrirvaralaust og í kjölfarið send beiðni til lögreglu um opinbera rannsókn.
Hvað varðar heimildarlausar færslur gagnstefnanda vísar aðalstefnandi til þess að þegar nýir eigendur hafi tekið við rekstri aðalstefnanda hafi komið þeim á óvart atriði tengd háum persónulegum skuldum gagnstefnanda við aðalstefnanda auk skulda félags, Menningarhússins ehf., sem gagnstefnandi sé nátengdur. Einnig hafi komið í ljós að tilurð skuldanna og öll framkvæmd vegna skuldfærslna þeirra hafi verið óvenjuleg. Við eftirgrennslan hjá þáverandi framkvæmdastjóra aðalstefnanda hafi verið gefnar þær skýringar að skuldirnar væru að hluta tilkomnar vegna óheimilla skuldfærslna af viðskiptareikningum enda hafi bæði gagnstefnanda og hinu tengda félagi verið skylt að staðgreiða allar úttektir og ákvörðun þess efnis hafi verið tekin á stjórnarfundi. Hafi gagnstefnanda verið kunnugt um þetta enda hafi hann aldrei gert athugasemdir við frádrátt af launum vegna þessa.
Menningarhúsið ehf. hafi verið með samstarfssamninga við aðalstefnanda, dags. 1. apríl 2011, um sölu á pitsum annars vegar og um söluvagn hins vegar. Samkvæmt þeim samningum skyldi staðgreiða allar úttektir á pitsum þar til skuld félagsins væri að fullu greidd. Gagnstefnandi hafi, sem verslunarstjóri hjá aðalstefnanda, verið í aðstöðu til að fara á svig við ákvæði samninganna og taka út vörur í reikning þrátt fyrir fyrirmæli um annað. Þá hafi gagnstefnandi komið fram fyrir hönd beggja samningsaðila, þ.e sem verslunarstjóri aðalstefnanda og fyrir sína hönd sem og hins tengda félags, Menningarhússins ehf. Að megninu til sé skuld gagnstefnanda til komin vegna þeirra úttekta sem hann hafi tekið í heimildarleysi og samið um við fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarformann að greiða af mánaðarlega með frádrætti af launum hvers mánaðar. Gagnstefnandi hafi ekki fyrr en til dómsmáls þessa kom gert athugasemd við þessar úttektir og reikninga tengda þeim en gagnstefnandi hafi fengið afrit af öllum reikningum.
Aðalstefnandi bendir á að úttektir á pitsum hafi farið þannig fram að gagnstefnandi hafi hringt inn í þjónustuver aðalstefnanda úr sínu símanúmeri og hafi pöntun og þar með úttekt þá verið skráð á hans símanúmer. Gagnstefnandi hafi svo annaðhvort sótt úttektina sjálfur eða sent fyrir sig aðila til þess að sækja hana. Sá sem sótt hafi úttekt hverju sinni hafi kvittaði fyrir móttökunni en allar úttektir hafi verið í nafni gagnstefnanda enda á hans símanúmeri. Brot gagnstefnanda í þessu sambandi hafi falist í því að hann hafi tekið út pitsur í reikning langt umfram það sem honum hafi verið heimilt og nýtt m.a. sína persónulegu kennitölu til úttekta fyrir hið tengda félag. Þannig hafi gagnstefnandi farið á svig við þau fyrirmæli að allar úttektir vegna Menningarhússins ehf. skyldi staðgreiða.
Hvað varðar trúnaðarbrest gagnstefnanda vísar aðalstefnandi til þess að eftir að nýr rekstraaðili hafi tekið við rekstri aðalstefnanda hafi fljótt komið fram að gagnstefnandi hafi unnið hörðum höndum gegn aðalstefnanda og sýnt að hann hafi verið ósáttur við aðkomu nýrra eigenda að aðalstefnanda. Hafi framkoma gagnstefnanda verið þannig að nýjum eigendum aðalstefnanda hafi verið ljóst að gangstefnandi væri að brjóta trúnað gagnvart fyrirtækinu. Einnig hafi gagnstefnandi orðið uppvís að því að ganga á milli starfsmanna og bera út ávirðingar um nýja eigendur. Enn fremur hefðu nýir eigendur orðið þess áskynja af samtölum við nokkra starfsmenn aðalstefnanda að gagnstefnandi hefði boðið einhverjum af starfsmönnum aðalstefnanda þátttöku í nýju fyrirtæki sínu, gegn greiðslu hlutafjár. Hafi aðalstefnanda borist afrit af slíku tölvubréfi sem gagnstefnandi hafði sent starfsmanni aðalstefnanda þann 28. ágúst 2011. Þannig hafi legið ljóst fyrir að gagnstefnandi hafi haft ásetning um að skaða vinnuveitanda sinn, aðalstefnanda. Gagnstefnandi bendir á að 19. september 2011 hafi birst frétt á vefmiðlinum pressan.is þar sem haft hafi verið eftir gagnstefnanda að hann hygðist opna veitingastaði í beinni samkeppni við aðalstefnanda auk þess sem gagnstefnandi hafi sett þar fram alvarlegar ávirðingar á hendur aðalstefnanda. Renni sú frétt stoðum undir það sem áður hafði komið fram af hálfu gagnstefnanda í samtölum við nýjan framkvæmdastjóra aðalstefnanda í þessa veru. Sé því ljóst að á meðan gagnstefnandi hafi enn verið starfsmaður aðalstefnanda og ráðningarsambandi aðila hafi ekki verið lokið hafi hann verið að vinna að því á laun að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðalstefnanda.
Aðalstefnandi vísar sérstaklega til þess að gagnstefnandi hafi gegnt trúnaðarstöðu hjá aðalstefnanda og telja verði að undirbúningur hans að því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri auk þess að grafa af ásetningi undan trúnaðarskyldum annarra starfsmanna hafi á allan hátt verið ósamrýmanlegur þeim trúnaðarskyldum sem hann hafi borið gagnvart aðalstefnanda sem vinnuveitanda sínum. Þá sé framangreind háttsemi auk þess brot á 13. gr. ráðningarsamnings aðila.
Aðalstefnandi byggir á því að þar sem riftun á ráðningarsamningi við gagnstefnanda hafi verið lögmæt beri að hafna kröfu gagnstefnanda um laun og launatengdar greiðslur í uppsagnarfresti. Þá eigi miskabótakrafa gagnstefnanda sér enga stoð en hún sé studd þeim einum rökum að aðalstefnandi hafi vegið að heiðri og æru gagnstefnanda með tilkynningu til starfsmanna sinna. Bent sé á að gagnstefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að því að koma fram í fjölmiðlum með málið með því að vega þar að aðalstefnanda og þannig gefið aðalstefnanda fullt tilefni til þess að svara þeim ávirðingum gagnvart starfsmönnum sínum. Hvað varðar endurgreiðslukröfu gagnstefnanda vegna úttekta vísar aðalstefnandi henni á bug sem fráleitri og alls órökstuddri. Allar úttektir sem reikningsfærðar hafi verið á gagnstefnanda hafi verið úttektir í hans þágu. Þá mótmælir aðalstefnandi þeim ávirðingum gagnstefnanda að reikningsfærðar hafi verið á gagnstefnanda vörur sem hann hafi ekki tekið út.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglna vinnuréttar, kröfuréttar og skaðabótaréttar. Um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Deila aðila í máli þessu er tvíþætt. Annars vegar deila þeir um uppgjör vegna ætlaðra úttekta gagnstefnanda á vörum hjá aðalstefnanda. Hins vegar deila þeir um hvort aðalstefnanda hafi verið heimilt að segja ráðningarsamningi gagnstefnanda upp fyrirvaralaust.
Um aðalsök
Aðalstefnandi reisir kröfur sínar á því að gagnstefnandi hafi, meðan hann hafi verið starfsmaður aðalstefnanda, tekið út vörur í reikning hjá fyrirtækinu sem hann hafi ekki staðið skil á. Til stuðnings kröfum samtals að fjárhæð 959.966 kr., hefur aðalstefnandi lagt fram útskrift af viðskiptareikningi gagnstefnanda hjá aðalstefnanda vegna tímabilsins 1. janúar 2010 til 30. september 2011, þar sem fram koma ætlaðar úttektir aðalstefnanda og færslur til lækkunar á skuldinni. Jafnframt hefur aðalstefnandi lagt fram á sjötta hundrað reikninga sem liggja til grundvallar úttektunum. Gagnstefnandi hefur mótmælt stærstum hluta reikninganna og vísar m.a. til þess að hluti þeirra séu óundirritaður, hluti sé undirritaður af öðrum en gagnstefnanda, hluti tilheyri Menningarhúsinu ehf. og þá tilheyri hluti Menningarhúsinu ehf. þrátt fyrir að vera undirritaður af hálfu gagnstefnanda. Telur gagnstefnandi þessar óheimilu úttektir leiða til þess að aðalstefnandi standi í raun í skuld við hann að fjárhæð 324.689 kr.
Óumdeilt er að fyrirtækið Menningarhúsið ehf. gerði út söluvagn þar sem seldar voru pitsur frá aðalstefnanda. Mun sonur gagnstefnanda og alnafni hafa verið einn rekstaraðila þess. Gagnstefnandi fullyrðir að rekstur þess fyrirtækis og þar með úttektir séu honum alls óviðkomandi. Að mati dómsins er sú staðhæfing ekki í samræmi við framburð vitna og gögn málsins.
Í fyrsta lagi ber að líta til framburðar vitnanna Guðnýjar Öglu Jónsdóttur, fjármálastjóra og Ingibjargar Gunnarsdóttur, starfsmannastjóra aðalstefnanda. Í framburði þeirra kom fram að í fyrstu hefðu allar úttektir Menningarhússins ehf. farið í gegnum viðskiptareikning gagnstefnanda. Haustið 2010 hafi verið töluverð uppsöfnuð skuld á reikningnum og hefði því verið samið um að gagnstefnandi greiddi hana upp og framvegis yrðu úttektir vegna söluvagnsins á nafni Menningarhúss ehf. Síðar hafi aðalstefnandi og Menningarhúsið ehf. gert með sér skriflega samstarfssamninga. Liggja umræddir samningar, frá 1. apríl 2011 frammi í málinu og eru undirritaðir af gagnstefnanda fyrir hönd Menningarhúss ehf. en fyrrum framkvæmdastjóra fyrir hönd aðalstefnanda. Í fyrri samningnum er m.a. kveðið á um fast söluverð á pitsum til Menningarhússins ehf. og hlutdeild þess í endursöluverði þeirra. Í síðari samningnum er samið um rekstur fyrirtækisins á söluvagni í eigu aðalstefnanda. Var tekið fram að fyrirtækið ætti að staðgreiða allar pitsuúttektir þar til fyrri skuld væri að fullu greidd. Umsamið verð á pitsum mun hafa verið það sama og verið hafði í viðskiptum aðila áður en hinn skriflegi samningur var gerður, þ.e. fast verð fyrir ákveðna tegund af pitsu.
Í öðru lagi ber að líta til þess að gagnstefnandi kvittaði margsinnis upp á reikninga sem gjaldfærðir voru á hans kennitölu þrátt fyrir að þeir væru eyrnamerktir söluvagni eða Menningarhúsinu ehf. Staðfestir það aðkomu gagnstefnanda að Menningarhúsinu ehf. Gagnstefnandi kvittaði upp á slíka reikninga eftir að framangreindir samstarfssamningar voru gerðir og rennir það stoðum undir þá fullyrðingu aðalstefnanda að gagnstefnandi hafi skuldfært reikninga á eigin kennitölu til að fara á svig við það samkomulag aðila að öll viðskipti Menningarhússins ehf. skyldu staðgreidd.
Í þriðja lagi ber að líta til þess að stór hluti þeirra reikninga sem gagnstefnandi kvittaði upp á ber með sér að vera vegna kaupa Menningarhússins ehf. á pitsum þar sem söluverðið er í samræmi við samninga fyrirtækisins og aðalstefnanda, þ.e. fast verð fyrir pitsu. Ómdeilt er að gagnstefnandi naut hins vegar hlutfallslegs afsláttar á pitsum óháð tegund eins og aðrir starfsmenn aðalstefnanda.
Í fjórða lagi ber að líta til þess að samkvæmt framlöguðum launaseðlum gagnstefnanda voru háar fjárhæðir dregnar af launum hans síðasta árið sem hann starfaði fyrir aðalstefnanda en til skýringar á þeim frádrætti er á launaseðlunum m.a. vísað til pitsuúttekta og samkomulags. Er það í samræmi við staðhæfingar aðalstefnanda þess efnis að samkomulag hafi verið um að dregið yrði af launum gagnstefnanda vegna skulda sem safnast höfðu upp á viðskiptareikningi hans hjá aðalstefnanda. Liggur ekkert fyrir um að gagnstefnandi hafi krafist leiðréttingar á þessum frádrætti fyrr en með stefnu sinni í máli þessu sem birt var aðalstefnanda meira en níu mánuðum eftir að gagnstefnandi lét af störfum. Í því samhengi ber jafnframt að líta til þess að gagnstefnandi leitaði strax eftir að honum var sagt upp störfum til stéttarfélags síns vegna lögmætis uppsagnarinnar. Af svarbréfi lögmanns aðalstefnanda til stéttarfélagsins, frá 26. september 2011, að dæma gerði gagnstefnandi ekki við sama tækifæri athugasemdir vegna launafrádráttar.
Í fimmta lagi ber að líta til tölvupósts sem gagnstefnandi ritaði til fyrrum framkvæmdastjóra aðalstefnanda 3. júlí 2011 þar sem fram koma athugasemdir gagnstefnanda við uppgjör fjármálastjóra aðalstefnanda. Af póstinum má ráða að hann fjalli m.a. um viðskipti Menningarhússins ehf. við aðalstefnanda. Þannig kemur fram í póstinum að gagnstefnandi hafi ekki fengið uppgjör frá fjármálastjóranum og það hafi m.a. kostað hann háar fjárhæðir þar sem hann hafi ekki getað notað neitt af þessu í bókhaldinu hjá sér. Gagnstefnandi hafi greitt 100.000 kr. síðastliðinn föstudag [1. júlí 2011] og ætlaði að greiða 200.000 kr. á þriðjudag [5. júlí 2011] og afganginn þegar hann hefði farið yfir gögn sem honum hafi verið afhent. Sé horft til reikningsyfirlits vegna viðskipta Menningarhússins ehf. hjá gagnstefnanda er ljóst að gagnstefnandi virðist hér vera að vísa til innborgana sem inntar voru af hendi í þágu Menningarhússins ehf. en samkvæmt því voru 100.000 kr. greiddar inn á skuld þess 1. júlí 2011 og 200.000 kr. 5. júlí sama ár. Styður þetta enn frekar aðkomu gagnstefnanda að rekstri fyrirtækisins.
Með vísan alls framangreinds verður að leggja til grundvallar að úttektir samkvæmt framlögðum viðskiptareikningi gagnstefnanda hjá aðalstefnanda hafi átt sér stað með samþykki gagnstefnanda hvort sem þær voru í hans eigin þágu eða Menningarhússins ehf. Skiptir þá ekki máli hvort kvittað hafi verið fyrir móttöku á reikning vegna þeirra eður ei eða að annar aðli en aðalstefnandi hafi kvittað. Óhjákvæmilegt er í því samhengi að horfa til stöðu gagnstefnanda sem verslunarstjóra í sjö verslunum af ellefu hjá aðalstefnanda en eðli málsins samkvæmt verður að telja að það hafi gefið honum færi á að fara á svig við starfsreglur. Verður því fallist á kröfur aðalstefnanda um að gagnstefnandi greiði honum þá skuld sem hann stendur í samkvæmt viðskiptayfirliti hans hjá aðalstefnanda.
Þá byggist fjárkrafa aðalstefnanda jafnframt á reikningi, dags. 4. september 2011, með gjalddaga 25. október 2011 nr. 001033 að fjárhæð 28.080 kr. Er hann sagður vegna kaupa gagnstefnanda á 72 gosflöskum á Ljósanótt. Gagnstefnandi hefur neitað að hafa fengið umrædda vöru afhenta og hefur aðalstefnandi ekki leitast við að upplýsa um frekar tilkomu reikningsins en ekki er unnt að byggja á því að gagnstefnandi hafi viðurkennt í verki umrædda úttekt líkt og aðrar úttektir sem aðalstefnandi hefur krafist greiðslu á. Verður gagnstefnandi því sýknaður af kröfu umrædds reiknings.
Niðurstaðan í aðalsök er því sú að gagnstefnandi verður dæmdur til að greiða aðalstefnanda 959.996 kr. ásamt dráttarvöxtum. Upphafstími dráttarvaxta miðast við 27. nóvember 2011, en þá var liðinn mánuður frá því að aðalstefnandi krafði gagnstefnanda sannanlega um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. nefndra laga.
Um gagnsök
Gagnstefnandi byggir á því að hin fyrirvaralausa uppsögn hans 14. september 2011 hafi verið ólögmælt. Aðalstefnandi telur hins vegar að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem réttlætt hafi riftun ráðningarsamnings hans við gagnstefnanda. Þær aðstæður sem aðalstefnandi vísar til eru heimildarlausar skuldfærslur á viðskiptareikning gagnstefnanda og trúnaðarbrot hans gagnvart aðalstefnanda. Gagnstefnandi hafi brotið trúnað gagnvart aðalstefnanda sem vinnuveitanda sínum er hann hafi enn verið starfsmaður hans, með því að að vinna að því á laun að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðalstefnanda. Til stuðnings þessu vísar gangstefndi m.a. til þess sem haft er eftir gagnstefnanda í frétt á vefmiðlinum pressan.is hinn 19. september 2011.
Umræddri frétt sem ber yfirskriftina Besta fólkið frá Dominos fer yfir- Ný pizzukeðja til höfuðs risanum-Fimm staðir opnaðir er svohljóðandi:
Athafnamaðurinn Óskar Axel Óskarsson, fyrrum svæðisstjóri Dominos á Íslandi, hefur látið af störfum og vinnur nú að því að opna nýja pizzukeðju í samkeppni við Domions.
Það eru margir ósáttir eftir að eigendaskipti urðu á Domions og ég get staðhæft að besta fólkið frá Dominos fari yfir til okkar, segir Óskar Axel en fyrsti staðurinn verði opnaður í Mjóddinni þar sem Pizzahornið er núna.
Við opnum tvo staði til að byrja með en svo verða þeir fimm áður en langt um líður.
Óskar Axel vinnur að því að hrinda hugmyndinni í framkvæmd með syni sínum og fjölmörgum starfsmönnum Dominos sem hafa hætt í kjölfar eigendaskiptanna sem urðu þegar Landsbankinn seldi pizzakeðjuna.
Það er mörgum sem líkar ekki við nýjar áherslur hjá nýjum eigendum. Þeir vilja til dæmis að allt starfsfólkið tali íslensku og eru því að losa sig við útlendinga segir Óskar Axel sem er hvað þekktastur fyrir skóframleiðslu sína undir vörumerkinu X18.
Í kjölfar ofangreindrar fréttar sendi aðalstefnandi frá sér yfirlýsingu sem birt var á sama netmiðli þar sem m.a. kom fram að gagnstefnanda og tveimur starfsmönnum hefði verið sagt upp störfum. Engar aðrar breytingar hefðu orðið á starfsmannamálum og væru fullyrðingar gagnstefnanda um að aðalstefnandi ætlaði að losa sig við erlenda starfsmenn með öllu ósannar.
Hinn 29. september 2011 birtist aftur á pressan.is frétt sem bar yfirskriftina Fimmti fljótasti pizzugerðarmaður heims í Mjóddinni: Stjörnulið Dominos til X18-Piszzur- „Töff og kúl“. Þar kemur fram að gagnstefnandi sé búinn að ná til sín besta fólkinu frá Dominos og boði opnun X18 Pizzur á fimm stöðum í höfuðborginni. Er m.a. haft eftir gagnstefnanda að hið nýja fyrirtæki verði með fimmta fljótasta pitsugerðarmann heims í vinnu, verslunarstjóra ársins 2011 hjá Dominos, besta nýliðann hjá Dominos í fyrra, duglegasta starfsmanninn 2011, starfsmann ársins og vaktstjóra ársins 2011 hjá Dominos, þannig að þetta sé stjörnulið.
Gagnstefnandi bar fyrir dómi að framangreindar fréttir á Pressunni væru rangar og ekki hafðar eftir honum. Hann hefði ekki staðið að stofnun fyrirtækis í samkeppni við aðalstefnanda. Hann viti ekki til þess að fyrirtækið sem um ræði hafi verið stofnað en Menningarhúsið ehf. hefði hins vegar ætlað að setja upp lítinn veitingastað. Blaðamaður umrædds vefmiðils hefði haft samband við gagnstefnanda út af ótengdu máli og í framhaldi hafi hann spurt gagnstefnanda hvort hann væri ekki enn að vinna hjá Dominos. Gagnstefnandi hafi þá sagt honum að sonur hans væri að opna lítinn veitingastað. Hann hafi síðar árangurslaust reynt að koma leiðréttingu til blaðamannsins sem hafi sagt honum að þetta væri engin frétt nema gagnstefnandi stæði að þessu fyrirtæki.
Að mati dómsins gefur framangreind frétt á vefmiðlinum pressan.is, sem birtist 19. september 2011, þ.e. einungis nokkrum dögum eftir að gagnstefnanda var vikið frá störfum hjá aðalstefnanda, ótvírætt til kynna að gagnstefnandi hafi, er hann starfaði enn sem verslunarstjóri í þágu aðalstefnanda, staðið að undirbúningi á því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við aðalstefnanda. Ekkert liggur fyrir um að gagnstefnandi hafi reynt að leiðrétta fréttina. Er efni fréttarinnar í samræmi við annað sem fram hefur komið í málinu, þ.e. að gagnstefnandi tengist, þrátt fyrir staðhæfingar um annað, náið rekstri Menningarhússins ehf. en það fyrirtæki bar gagnstefnandi fyrir dómi að hefði staðið að rekstri hins nýja pitsustaðar í Mjóddinni. Í 13. gr. ráðningarsamnings gagnstefnanda við aðalstefnanda er kveðið á um að starfsmanni sé óheimilt að eiga, beint eða óbeint, fjárhagslegra hagsmuna að gæta í fyrirtæki sem að einhverju leyti rekur starfsemi á sama sviði og aðalstefnandi og því í samkeppni við hann. Þá er kveðið á um að starfsmanni sé óheimilt að starfa hjá eða fyrir slíkt fyrirtæki. Verður því lagt til grundvallar að gagnstefnandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart aðalstefnanda sem hann bar samkvæmt umræddu ákvæði ráðningarsamningsins. Þegar af þessari ástæðu réttlætir það heimild aðalstefnanda til að víkja gagnstefnanda úr starfi án viðvörunar eða fyrirvara. Skiptir ekki máli í því samhengi þótt gagnstefnandi hafi ekki sjálfur verið stofnandi eða eigandi hins nýja pitsufyrirtækis/staðar heldur er nægilegt að hann hafi haft aðkomu að því með einhverjum hætti. Þá skiptir ekki máli þótt ekkert kunni að hafa orðið úr rekstrinum. Verður aðalstefnandi því sýknaður af kröfum gagnstefnanda sem tengjast uppsögninni, þ.e. kröfu um laun, orlof, bifreiðahlunnindi og miskabætur. Hvað varðar kröfu gagnstefnanda um endurgreiðslu á 324.689 kr. sem hann telur að hafi verið reikningsfærðar á viðskiptareikning gagnstefnanda umfram heimild vísast til niðurstöðu í aðalsök. Þar var ekki fallist á þær röksemdir hans að aðalstefnandi hefði reikningsfært á hann úttektir að ósekju. Verður aðalstefnandi því sýknaður af endurgreiðslukröfunni.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður gagnstefnandi dæmdur til að greiða aðalstefnanda málskostnað í aðalsök og gagnsök sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 kr.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Gagnstefnandi, Óskar Axel Óskarsson, greiði aðalstefnanda, Pizza-Pizza ehf., 959.996 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2011 til greiðsludags.
Aðalstefnandi er sýknaður af kröfum gagnstefnanda.
Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 400.000 kr. í málskostnað.