Hæstiréttur íslands
Mál nr. 244/2009
Lykilorð
- Samkeppni
- Skaðabætur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 2010. |
|
Nr. 244/2009. |
Ker hf. (Anton B. Markússon hrl. Jón Ögmundsson hdl.) Olíuverzlun Íslands hf. og (Gísli Baldur Garðarsson hrl. Eyvindur Sólnes hdl.) Skeljungur hf. (Hörður F. Harðarson hrl. Heiðar Ásberg Atlason hdl.) gegn Vestmannaeyjabæ (Steinar Þór Guðgeirsson hrl. Ástríður Gísladóttir hdl.) og gagnsök |
Samkeppni. Skaðabætur. Fyrning.
V krafðist skaðabóta vegna tjóns, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs K, O og S um verð, sem félögin buðu fyrir eldsneyti í útboði hans á árinu 1997. Bar hann því við að markmið þeirra hefði verið að halda viðskiptum við V um eldsneytiskaup óbreyttum með því að gera samkomulag um að bjóða honum einungis verð samkvæmt verðlista. Smávægilegt frávik í tilboði S hefði engu skipt. K, O og S mótmæltu því að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu væru fyrir hendi. Talið var að bréf framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá S 10. mars 1998 til K og O veitti eindregna vísbendingu um að félögin þrjú hefðu haft með sér samráð við gerð tilboða til V við útboð hans og samið um skiptingu framlegðar. Þá styddi minnisblað framkvæmdastjóra markaðssviðs stórnotenda hjá O ennfremur sömu niðurstöðu. Tilgreind gögn, sem fram komu við rannsókn samkeppnisstofnunar, á ætluðum brotum olíufélaganna á þágildandi samkeppnislögum, renndu einnig stoðum undir þá niðurstöðu. Ekkert þótti fram komið af hálfu K, O og S sem mælti gegn því að tilgangur alls þessa hefði verið að halda viðskiptum hvers þeirra við V óbreyttum gegn verði, sem ekki hefði staðist ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virtar. Á móti skyldu S og O greiða hinum tveimur hluta af þeim ágóða, sem vænst var að þessi háttsemi leiddi af sér á kostnað V. Nægar líkur hefðu þannig verið leiddar að því að K, O og S hefðu valdið V tjóni svo að skaðabótaskyldu þeirra varðaði. Skipti þá ekki máli hvort samningur þeirra um skiptingu fyrrnefnds ágóða hefði verið efndur. Var fallist á aðalkröfu V, en þar sem hluti kröfunnar var talinn fyrndur var hún lækkuð sem því nam.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar hver fyrir sitt leyti 15. maí, 30. júní og 1. júlí 2009.
Aðaláfrýjandinn Ker hf. krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, til vara að hún verði lækkuð, en að því frágengnu beri hún fyrst dráttarvexti frá þeim degi, sem málið var höfðað. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 12. ágúst 2009 og krefst aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða sér 16.600.670 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2004 til 20. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér „skaðabætur að álitum réttarins sem nemur hærri fjárhæð en dæmd var í héraði, kr. 10.000.000“ með vöxtum eins og í aðalkröfu, en ella krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Að þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða honum „skaðabætur að álitum réttarins allt að fjárhæð kr. 10.000.000“ með vöxtum eins og í aðalkröfu, en verði ekki á það fallist krefst hann viðurkenningar á skaðabótaskyldu allra aðaláfrýjenda gagnvart sér. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Gagnáfrýjandi leitaði í apríl 1997 tilboða fyrir sig og stofnanir sínar vegna kaupa á olíuvörum. Í útboðslýsingu hans, sem barst aðaláfrýjendum 14. sama mánaðar, var greint frá áætlaðri þörf gagnáfrýjanda og einstakra stofnana hans fyrir slíkar vörur á ári og tekið fram um tegund í hverju tilviki, en aðallega var um að ræða brennsluolíu og bensín. Jafnframt var farið fram á afslátt af öðrum olíuvörum. Þá kom fram hvaða búnað bjóðandi þyrfti að hafa við tilgreindar starfstöðvar gagnáfrýjanda, sem einkum voru birgðatankar, og hver ætti þann búnað sem fyrir væri. Sá búnaður mun ýmist hafa verið eign Olíufélagsins hf., sem nú er aðaláfrýjandinn Ker hf., eða Olíuverzlunar Íslands hf. Í útboðslýsingu gagnáfrýjanda var tekið fram að tilboð þyrftu að berast eigi síðar en 23. apríl 1997. Samningur á grundvelli útboðsins ætti að gilda til fimm ára og verð taka almennum breytingum sem yrðu á vörunum á tímabilinu.
Aðaláfrýjendur sendu gagnáfrýjanda skrifleg svör, sem öll eru dagsett 23. apríl 1997. Í bréfi Olíufélagsins hf. var boðið verð á olíuvörum samkvæmt gildandi verðlistum félagsins á hverjum tíma og tekið fram að það sæi sér ekki fært að bjóða afslátt af því verði. Svör hinna aðaláfrýjendanna voru sama efnis með því fráviki að Skeljungur hf. bauð að veita hafnarsjóði gagnáfrýjanda 8% afslátt af smurefnum fyrir nánar tilgreinda báta og 20 aura afslátt af hverjum lítra eldsneytis fyrir þá. Í niðurlagi bréfs þessa aðaláfrýjanda kom fram sú skýring að viðskiptum samkvæmt útboðinu fylgdi mikill stofnkostnaður fyrir nýjan seljanda, en staða þess, sem fram að því var skipt við, væri sterk þar sem hann ætti þegar mest allan búnað hjá kaupanda, sem í flestum tilvikum væri að fullu afskrifaður. Með þessu mun hafa verið átt við Olíufélagið hf., en gagnáfrýjandi keypti þá mun meira af olíuvörum hjá því félagi en hinum aðaláfrýjendunum tveimur. Framangreind viðbrögð aðaláfrýjenda við útboði gagnáfrýjanda leiddu ekki til samninga og verður ekki ráðið að sá síðastnefndi hafi svarað bréfunum skriflega. Kaup hans á olíuvörum af aðaláfrýjendum sýnast hafa haldið áfram eftir þetta í líku horfi og áður hafði verið að öðru leyti en því að frá fyrri hluta árs 1998 var kaupum á brennsluolíu fyrir sorpbrennslu gagnáfrýjanda beint að Olíufélaginu hf. í stað Olíuverzlunar Íslands hf. af ástæðum, sem varða ekki atvik þessa máls.
II
Samkvæmt gögnum málsins hóf samkeppnisstofnun á árinu 2001 rannsókn á því hvort aðaláfrýjendur hafi haft ólögmætt samráð í viðskiptum og brotið með því gegn ákvæðum 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Liður í rannsókninni var húsleit, sem gerð var hjá þeim 18. desember 2001. Samkeppnisráð lauk því máli með ákvörðun 28. október 2004 og áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem ákvörðuninni var skotið til, með úrskurði 29. janúar 2005. Meðal þess, sem kom samkvæmt gögnum málsins til rannsóknar hjá samkeppnisstofnun og síðan úrlausnar í ákvörðuninni og úrskurðinum, voru atriði varðandi útboð gagnáfrýjanda 1997 og viðbrögð aðaláfrýjenda við því.
Í ákvörðun samkeppnisráðs sagði að gögn málsins bæru með sér að aðaláfrýjendur hafi haft með sér samvinnu vegna þessa útboðs. Framkvæmdastjóri markaðssviðs Olíufélagsins hf. hafi greint samkeppnisstofnun frá því að hann hafi rætt útboðið við fulltrúa annarra aðaláfrýjenda og framkvæmdastjóri markaðssviðs stórnotenda hjá Olíuverzlun Íslands hf. sagt þá hafa rætt saman um útboðið. Yfirlýsingar þeirra séu í samræmi við gögn málsins frá 1997, en í fundargerð framkvæmdastjórnar Olíufélagsins hf. 22. apríl sama ár, eða degi áður en frestur til að gera gagnáfrýjanda tilboð rann út, sé bókað að fyrrnefndur framkvæmdastjóri markaðssviðs hafi sagt „frá útboði Vestmannaeyjabæjar og að olíufélögin ættu erfitt með að gefa afslátt frá listaverðum vegna þess fordæmis sem því fylgdi.“ Í tölvubréfi fyrrnefnds framkvæmdastjóra hjá Olíuverzlun Íslands hf. til forstjóra félagsins sé útboðinu lýst svo: „Í apríl 1997 sóttist Vestmannaeyjabær eftir tilboðum í allan sinn rekstur. Tilboð komu á listaverði frá öllum aðilum þannig að ljóst var að hver héldi sínu.“ Þá hafi fundist hjá þessum tveimur aðaláfrýjendum afrit af tilboðum annarra aðaláfrýjenda, sem virðist hafa borist þeim áður en gagnáfrýjandi opnaði tilboðin. Samkomulagi aðaláfrýjenda um að bjóða gagnáfrýjanda verðlistaverð hafi í meginatriðum verið hrundið í framkvæmd. Þá greinir í niðurstöðu samkeppnisráðs frá minnisblaði fyrrnefnds framkvæmdastjóra hjá Olíuverzlun Íslands hf. 2. maí 1997, þar sem tiltekin séu ýmis „samkomulög“ milli aðaláfrýjenda, en þar segi: „Vestmannaeyjabær fór í útboð en engin niðurstaða er komin í það mál sem komið er. Verður sennilega óbreytt þar sem Esso er með ca. 8 milljónir, Olís 2 milljónir og Shell er óþekkt stærð (lóðsinn í Eyjum).“ Viðskiptin við gagnáfrýjanda hafi sýnilega verið hluti af samkomulagi milli aðaláfrýjenda.
Í ákvörðun samkeppnisráðs sagði ennfremur að framkvæmdastjóri markaðssviðs stórviðskipta hjá Skeljungi hf. hafi sagst ekki muna eftir því að hafa átt fundi með starfsmönnum annarra aðaláfrýjenda vegna útboðs gagnáfrýjanda. Félagið hafi svarað útboðinu án nokkurs samkomulags við þá. Í ákvörðuninni sagði um þetta að skýringar Skeljungs hf. væru hvorki trúverðugar né í samræmi við gögn, sem fundist hafi hjá félaginu sjálfu. Var síðan rakið efni bréfs þessa starfsmanns Skeljungs hf. til annarra aðaláfrýjenda 10. mars 1998, en þar hafi verið vísað til „samkomulagsins“ og meðal annars gagnáfrýjandi nefndur í því samhengi. Í bréfinu bjóðist Skeljungur hf. til að greiða öðrum aðaláfrýjendum hluta af framlegð vegna viðskipta við hafnarsjóð gagnáfrýjanda og krefjist þess jafnframt að Olíufélagið hf. greiði hinum tveimur hlutdeild í framlegð vegna annarra viðskipta við gagnáfrýjanda. Uppgjörið skuli miðað við tímamarkið frá og með maí 1997. Nefndur starfsmaður Skeljungs hf. hafi fyrir samkeppnisstofnun skýrt bréfið með því að „sótt hafi verið að Skeljungi um uppgjör vegna annarra mála“ og að uppsetning bréfsins hafi verið „til þess að skapa félaginu samningsstöðu og búa til aðlaðandi pakka til að fallist yrði á uppgjörið.“ Teldi samkeppnisráð mjög ósennilegt að Skeljungur hf. hafi í formlegu bréfi til keppinauta sinna lýst slíku uppgjöri án þess að samkomulag félaganna hafi legið þar að baki. Þessar útskýringar væru ótrúverðugar og í mótsögn við skýr gögn málsins. Þá hafi komið fram í athugasemdum Olíufélagsins hf. að það gengist við því að hafa haft samráð við aðra aðaláfrýjendur vegna útboðsins og að þeir hafi samið um að skipta viðskiptum gagnáfrýjanda á milli sín. Að virtum öllum gögnum málsins var niðurstaða samkeppnisráðs sú að aðaláfrýjendur hafi haft með sér samráð um gerð tilboða í útboði gagnáfrýjanda og hafi sú samvinna verið liður í áðurgerðu heildarsamkomulagi þeirra vegna allra útboða. Í tengslum við útboð gagnáfrýjanda hafi þeir samið um að skipta viðskiptum við hann á milli sín. Orðrétt sagði um þetta í ákvörðuninni: „Olíufélögin náðu á árinu 1997 samkomulagi um að skipta á milli sín framlegð vegna viðskipta OHF og Skeljungs við Vestmannaeyjabæ. Samkomulagið var í gildi fram á árið 2001. Samkomulagið var ekki efnt af hálfu OHF og Skeljungs en umræður og önnur samskipti áttu sér stað til að knýja fram efndir á því.“
Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sagði að aðaláfrýjendur hafi haft með sér víðtækt ólögmætt samráð, sem staðið hafi yfir í mörg ár, og sameiginlegt markmið þeirra hafi verið að raska kerfisbundið samkeppni með ýmsum samráðsaðgerðum, sem hafi einkum verið í því fólgnar að eyða samkeppni og hækka vöruverð. Ekki var þó talið sannað að samráð hafi verið jafn víðtækt og lagt var til grundvallar í áliti samkeppnisráðs. Nauðsynlegt var talið að kanna hvert samráðstilvik sérstaklega. Í úrskurðinum voru síðan rakin þau gögn og atvik, sem að framan greinir í tengslum við álit samkeppnisráðs og staðfest sú niðurstaða að aðaláfrýjendur hafi náð samkomulagi um að skipta á milli sín framlegð vegna viðskipta Olíufélagsins hf. og Skeljungs hf. við gagnáfrýjanda og samkomulagið verið í gildi fram á árið 2001. Í þessu hafi falist brot á 10. gr. þágildandi samkeppnislaga.
III
Í málinu krefst gagnáfrýjandi skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs aðaláfrýjenda um verð, sem þeir buðu fyrir eldsneyti í útboði hans á árinu 1997. Sú háttsemi, sem hafi falið í sér brot á 10. gr. þágildandi samkeppnislaga, hafi verið ólögmæt og saknæm og þeir fellt á sig bótaskyldu með henni. Sök aðaláfrýjenda sé sönnuð og við rannsókn málsins fyrir samkeppnisstofnun hafi þeir viðurkennt brot á nefndu lagaákvæði í tengslum við útboð gagnáfrýjanda. Brotin hafi þeir framið með skýrum ásetningi í þeim tilgangi að hafa áhrif á tilboð til gagnáfrýjanda við útboðið. Markmið þeirra hafi verið að halda viðskiptum við gagnáfrýjanda um eldsneytiskaup óbreyttum með því að gera samkomulag um að bjóða honum einungis verð samkvæmt verðlista. Smávægilegt frávik í tilboði Skeljungs hf. hafi engu skipt. Hefði ekki komið til samráð aðaláfrýjenda við gerð tilboða til gagnáfrýjanda sé ljóst að hann hefði fengið betri tilboð en samkvæmt verðlista. Gegn því að njóta áfram óbreyttra viðskipta við hann hafi Olíufélagið hf. og Skeljungur hf. hvor um sig samþykkt að greiða hinum félögunum tveimur hluta af þeim ágóða, sem vænst var af þessari háttsemi. Nægar líkur séu leiddar að því að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af háttsemi aðaláfrýjenda. Ábyrgð þeirra á tjóninu sé óskipt, enda ekki unnt að greina hlutdeild hvers þeirra í samráðinu. Gagnáfrýjandi kveður sér hafa verið ókunnugt um samráðið allt þar til álit samkeppnisráðs lá fyrir síðla árs 2004.
Aðaláfrýjendur mótmæla því að skilyrði fyrir skaðabótaskyldu séu fyrir hendi, en málsástæður þeirra fyrir kröfu um sýknu eru að verulegu leyti hinar sömu. Aðaláfrýjandinn Ker hf. viðurkennir að hafa haft samskipti við aðra aðaláfrýjendur við tilboðsgerð vegna útboðs gagnáfrýjanda, en þau hafi að mestu verið óformleg. Í málum Reykjavíkurborgar og Strætó bs. gegn aðaláfrýjendum, sem leyst var úr með dómum Hæstaréttar 7. febrúar 2008 í málum nr. 142/2007 og 143/2007, hafi verið um að ræða augljóst samráð og skiptingu framlegðar vegna viðskipta með olíuvörur, sem sé ekki í þessu máli. Ekki sé sýnt fram á að gagnáfrýjanda hafi verið valdið tjóni og sé mótmælt að gerður hafi verið samningur um skiptingu framlegðar, enda engar slíkar greiðslur farið milli aðaláfrýjenda. Mistök hafi legið að baki því að aðaláfrýjandinn hafi viðurkennt við rannsókn samkeppnisstofnunar að samið hafi verið um skiptingu framlegðar. Áðurnefnt bréf Skeljungs hf. 10. mars 1998 og minnisblað starfsmanns Olíuverzlunar Íslands hf. 2. maí 1997 sanni það ekki. Aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. neitar því að þeir hafi sammælst um að bjóða einungis samkvæmt verðlistum og mótmælir að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna athafna hans. Viðskiptalegar ástæður hafi ráðið efni tilboðsins. Aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. ber sams konar málsástæður fyrir sig til sýknu, en varðandi síðastnefnda atriðið áréttar hann að gagnáfrýjandi hafi verið lítill viðskiptavinur og samkvæmt útboðslýsingu hans hafi bjóðandi þurft að útvega og setja upp dýran búnað hjá honum, en sá búnaður sem fyrir var hafi að mestu verið í eigu Olíufélagsins hf. Jafnvel þótt sannað teldist að aðaláfrýjendur hefðu rætt sín á milli fyrir útboð gagnáfrýjanda og með því brotið gegn samkeppnislögum séu ekki uppfyllt þau skilyrði skaðabótaskyldu að um saknæma og ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða. Hann mótmælir ennfremur að samkomulag hafi verið milli aðaláfrýjenda um að skipta á milli sín framlegð í viðskipum við gagnáfrýjanda og hafi engar slíkar greiðslur farið milli þeirra.
IV
Fyrrnefnt bréf framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá Skeljungi hf. 10. mars 1998 til annarra aðaláfrýjenda veitir eindregna vísbendingu um að félögin þrjú hafi haft með sér samráð við gerð tilboða til gagnáfrýjanda við útboð hans og samið um skiptingu framlegðar. Í bréfinu var vísað til „samkomulagsins“ um að Skeljungur hf. greiði hvorum hinna aðaláfrýjendanna tiltekna fjárhæð vegna gagnáfrýjanda og Olíufélagið hf. aðra hærri fyrir tímabilið frá maí til desember 1997. Fyrirsögn bréfsins var: „Trúnaðarmál. Varðar: Óuppgerð þjónustugjöld.“ Við rannsókn málins fyrir samkeppnisstofnun kom fram hjá forstjóra Olíufélagsins hf. að orðið þjónustugjald hafi í samskiptum aðaláfrýjenda þýtt hlutdeild í sölu eða framlegð. Ekki er fram komið að móttakendur bréfsins hafi svarað og andmælt staðhæfingu um samkomulag eða efni þess. Minnisblað framkvæmdastjóra markaðssviðs stórnotenda hjá Olíuverzlun Íslands hf. styður ennfremur sömu niðurstöðu um samráð og samning um skiptingu framlegðar vegna tilboða til gagnáfrýjanda. Þessir framkvæmdastjórar hjá Skeljungi hf. og Olíuverzlun Íslands hf. gáfu skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, en skýringar þeirra á efni umræddra gagna, sem frá þeim stafa, eru ótrúverðugar og haldlausar með öllu. Hinu sama gegnir um vitnaskýrslu lögmanns, sem við meðferð málsins fyrir samkeppnisstofnun viðurkenndi fyrir hönd Olíufélagsins hf. að samið hafi verið um skiptingu framlegðar við útboð gagnáfrýjanda, en hélt fram fyrir dómi að um mistök sín hafi verið að ræða. Skýrslur starfsmanna aðaláfrýjenda fyrir samkeppnisstofnun, einkum Olíufélagsins hf., og önnur gögn sem greinir í kafla II að framan, renna einnig stoðum undir sömu niðurstöðu. Ekkert er fram komið af hálfu aðaláfrýjenda sem mælir gegn því að tilgangur alls þessa hafi verið að halda viðskiptum hvers þeirra við gagnáfrýjanda óbreyttum gegn verði, sem ekki hefði staðist ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virtar. Á móti skyldu Skeljungur hf. og Olíufélagið hf. greiða hinum tveimur hluta af þeim ágóða, sem vænst var að þessi háttsemi leiddi af sér á kostnað gagnáfrýjanda. Nægar líkur hafa þannig verið leiddar að því að aðaláfrýjendur hafi valdið gagnáfrýjanda tjóni svo að skaðabótaskyldu þeirra varði. Skiptir þá ekki máli hvort samningur aðaláfrýjenda um skiptingu fyrrnefnds ágóða hafi verið efndur.
V
Gagnáfrýjandi krefst aðallega að aðaláfrýjendur greiði honum 16.600.670 krónur í skaðabætur. Kröfuna reiknar hann með því að þrefalda þær fjárhæðir, sem Skeljungur hf. hafi samkvæmt áðursögðu boðist til að greiða hvorum hinna aðaláfrýjendanna af hverjum lítra eldsneytis. Samkvæmt bréfi Skeljungs hf. 10. mars 1998 og fylgiskjölum með því nemi fjárhæðin 1,33 krónu af hverjum lítra dieselolíu og gasolíu, en 2,01 krónum af hverjum lítra bensíns. Við útreikning kröfunnar miðar gagnáfrýjandi við heildarinnkaup sín á dieselolíu, gasolíu og bensíni af aðaláfrýjendum á tímabilinu frá maí 1997 til ársloka 2001. Lítrafjöldi vegna innkaupa á árinu 1997 tekur mið af fylgiskjölum með bréfi Skeljungs hf. 10. mars 1998, en innkaup frá Olíuverzlun Íslands hf. á þeim tíma koma þar ekki fram og er sleppt í kröfugerð gagnáfrýjanda. Innkaup af öllum aðaláfrýjendum 1998 til 2001 að báðum árum meðtöldum eru sýnd á sérstöku yfirliti, þar sem fram koma dagsetningar í kaupum af hverjum þeirra á einstökum tegundum eldsneytis og fjöldi lítra hverju sinni. Samkvæmt þessu kveður gagnáfrýjandi heildarinnkaup sín á dieselolíu á öllu tímabilinu, sem um ræðir, hafa numið 3.272.283 lítrum, gasolíu 770.157 lítrum og bensíni 78.165 lítrum. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu að þessu leyti. Fjárhæð aðalkröfu gagnáfrýjanda er eins og áður greinir fundin með því að margfalda heildarlítrafjölda einstakra tegunda eldsneytis með ýmist 3,99 krónum eða 6,03 krónum.
Líta verður svo á að þær fjárhæðir til hvers aðaláfrýjanda af hverjum lítra eldsneytis, sem fram koma í bréfi Skeljungs hf. 10. mars 1998 og fylgiskjölum með því, sýni að lágmarki hvaða hag aðaláfrýjendur töldu sig hafa af því að viðhafa samráð um viðskipti við gagnáfrýjanda í stað þess að keppa um þau. Ekki er því ástæða til annars en að ætla að tilboð, sem gefið hefði verið án slíks samráðs, hefði að minnsta kosti orðið lægra en sem nemur þrefaldri fjárhæðinni sem Skeljungur hf. bauðst til að greiða hvorum hinna aðaláfrýjendanna. Sú aðferð að styðja útreikning tjóns við ávinning tjónvalds hefur verið viðurkennd í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 142/2007 og 143/2007. Verður fallist á aðferð gagnáfrýjanda, sem liggur að baki aðalkröfu hans í málinu.
Aðaláfrýjendur bera fyrir sig að krafa gagnáfrýjanda sé fyrnd að því leyti sem liðin voru við höfðun málsins tíu ár eða lengri tími frá því að einstök viðskipti aðilanna um eldsneyti voru gerð. Um það vísa þeir til 2. töluliðar 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Gagnáfrýjandi mótmælir lækkun kröfunnar á þessum grundvelli og vísar um það til 7. gr. sömu laga. Síðastnefnt lagaákvæði tekur ekki til atvika eins og þeirra, sem uppi eru í málinu, og verður krafa aðaláfrýjenda um sýknu að þessu marki því tekin til greina. Málið var höfðað 11. og 15. febrúar 2008 og samkvæmt því er fyrnd krafa gagnáfrýjanda vegna einstakra viðskipta aðilanna, sem urðu fyrir þá daga á árinu 1998 og tóku til 438.253 lítra af dieselolíu, 56.464 lítra af gasolíu og 42.382 lítra af bensíni. Krafa gagnáfrýjanda verður því tekin til greina með 14.371.186 krónum, sem aðaláfrýjendum verður gert að greiða óskipt með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Ker hf., Olíuverzlun Íslands hf. og Skeljungur hf., greiði óskipt gagnáfrýjanda, Vestmannaeyjabæ, 14.371.186 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2004 til 20. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2009.
Mál þetta höfðaði Vestmannaeyjabær, kt. 690269-0159, með stefnu birtri 11. og 15. febrúar 2008 á hendur Keri ehf., kt. 500269-4649, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, Skeljungi hf., kt. 590269-1749, Hólmaslóð 8, Reykjavík, og Olíuverzlun Íslands hf., kt. 500269-3249, Sundagörðum 2, Reykjavík. Málið var dómtekið 6. mars sl.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða skaðabætur óskipt að fjárhæð 16.600.670 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2004 til 20. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt skaðabætur að álitum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2004 til 20. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu allra stefndu gagnvart stefnanda. Loks krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts.
Stefndi Ker hf. (áður Olíufélagið) krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega og að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppkvaðningu. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
Stefndi Olíuverzlun Íslands hf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega og að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppkvaðningu. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
Stefndi Skeljungur hf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Til vara krefst þessi stefndi lækkunar á kröfum stefnanda, að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppkvaðningu og að málskostnaður falli niður.
Stefnandi krefst skaðabóta vegna tjóns er hafi hlotist því að eftir útboð hans vegna eldsneytiskaupa í apríl 1997, hafi stefndu haft með sér samráð við gerð tilboða, í andstöðu við samkeppnislög nr. 8/1993.
Vorið 1997 bauð stefnandi út kaup sín og stofnana sinna á eldsneyti og olíuvörum. Var óskað tilboða frá Olíuverzlun Íslands, Olíufélaginu og Skeljungi, en gögn voru send umboðsmönnum félaganna í Vestmannaeyjum.
Félögin þrjú svöruðu öll með bréfum dags. 23. apríl 2007. Í bréfi Olíufélagsins var lýst þeirri þjónustu sem félagið væri tilbúið að veita. Hins vegar segir að félagið sjái sér „því miður ekki fært að bjóða afslátt frá gildandi listaverðum.“
Stefndi Olíuverzlun Íslands bauð einnig listaverð. Í bréfinu er vísað til þess að samningstími sé stuttur og leggja þurfi til mikinn búnað.
Í bréfi stefnda Skeljungs er sömuleiðis vísað til þess að leggja þurfi til talsvert mikinn búnað. Félagið bauð verð samkvæmt lista, en þó 8% afslátt af smurefnum, og 20 aura afslátt af eldsneyti á hafnsögubáta, grafskip og Létti.
Ekki var gengið til sérstakra samninga eftir útboðið og munu viðskipti stefnanda og stofnana hans við félögin hafa verið lítið breytt eftir þetta.
Samkeppnisstofnun hóf rannsókn á því hvort stefndu hefðu haft með sér samráð um verðlagningu, tilboðsgerð o.fl. Í desember 2001 var gerð húsleit á skrifstofum stefndu. Frumskýrsla var gefin út Lauk málinu með ákvörðun Samkeppnisráðs 28. október 2004. Málinu var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð 29. janúar 2005. Mál er nú rekið fyrir héraðsdómi þar sem krafist er ógildingar á niðurstöðu samkeppnisyfirvalda.
Olíufélagið andmælti frumskýrslu Samkeppnisstofnunar með bréfi í maí 2004. Þar segir um útboð það sem hér er fjallað um: „Umbj. okkar mótmælir ekki þeirri staðhæfingu Samkeppnisstofnunar að hann hafi haft samráð með hinum olíufélögunum við gerð tilboða í framangreindu útboði Vestmannaeyjabæjar. Þetta var hins vegar ekki hluti af neinu heildarsamkomulagi. Samkomulag var einungis á milli olíufélaganna um að ræða um opinber útboð 1996-1997. Þetta samkomulag var ekki alltaf virt en leiddi þó til viðræðna um þetta útboð. Þessar viðræður skiluðu sér síðan í samstarfi um gerð tilboða í þessu ákveðna tilviki.“ Síðan segir um fullyrðingu um samkomulag um skiptingu framlegðar að því sé ekki mótmælt að það hafi verið, en bent á að viðskiptin hafi verið óveruleg.
Oddgeir Einarsson héraðsdómslögmaður, er vann að ritun andmælanna á skrifstofu Fulltingis ehf., gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ekki muna glögglega hver vegna þeir hefðu játað samráð í útboðinu. Þeir hefðu ákveðið að fara bara eftir gögnum frá Samkeppnisstofnun og meta eftir þeim hvort ætti að reyna að hnekkja þeim. Er honum var sýnd fundargerð frá fundi 2. apríl 2002 kvað hann hugsanlegt af því að álykta svo að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum, en það segði ekki neitt um skiptingu framlegðar. Þá hafi verið mistök að játa skiptingu framlegðar.
Stjórnendur Olíufélagsins héldu fund þann 22. apríl 1997. Þar var m.a. rætt útboð Vestmannaeyjabæjar. Er bókað að Þórólfur Árnason segði frá útboðinu og að olíufélögin ættu erfitt með að gefa afslátt frá listaverðum vegna þess fordæmis sem því fylgdi. Meira er bókað um þennan lið.
Meðal þeirra sönnunargagn sem vísað er til í málatilbúnaði stefnanda er bréf Friðriks Þ. Stefánssonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá stefnda Skeljungi, til hinna félaganna 10. mars 1998. Það er merkt sem trúnaðarmál og sagt varða óuppgerð þjónustugjöld. Í bréfinu er gerð tillaga að uppgjöri þjónustugjalda fyrir árin 1996 og 1997 gagnvart Olíufélaginu og árinu 1975-1997 gagnvart Olíuverzlun Íslands. Síðan segir að Skeljungi beri að greiða hvoru hinna félaganna liðlega 9 milljónir króna vegna Reykjavíkurborgar og 52.675 krónur vegna Hafnarsjóðs Vestmannaeyja. Fleiri atriði eru tekin upp í bréfinu, en þau skipta ekki máli hér.
Fyrir dómi bar Friðrik að hann hefði skrifað þetta bréf í kjölfar þess að hin félögin hefðu sett fram kröfur, sem hann taldi óréttmætar. Hann hefði skrifað bréfið til að svara kröfum hinna. Hann kvað engin viðbrögð hafa komið fram við þessu bréfi. Það hefði dagað uppi. Sérstaklega aðspurður sagði hann að það hefði ekki verið samið um framlegðarskiptingu vegna viðskiptanna í Vestmannaeyjum.
Í bréfi Friðriks segir að með því fylgi „yfirlit heildarviðskipta þeirra aðila sem þjónustugjöldin taka til ásamt sundurliðun á greiðslum hvers félags skv. þessari tillögu.“ Af yfirlitinu verður ráðið að vegna sölu til Hafnarsjóðs Vestmannaeyja á tímabilinu frá maí til desember 1997 hafi stefndi Skeljungur átt að greiða hvorum hinna stefndu 52.675 krónur. Þá hafi þjónustugjöld Olíufélagsins átt að nema 434.602 krónum, en ekki kemur fram hvort þetta er fjárhæð greiðslu til hvors hinna eða samanlögð fjárhæð. Greiðslur frá Olíuverzlun Íslands koma ekki fram á þessu yfirliti.
Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá stefnda Olíuverzlun Íslands, bar fyrir dómi að hann hefði ekki skilið þessa tilvísun til Hafnarsjóðs Vestmannaeyja í bréfi Friðriks Þ. Stefánssonar. Hann kvaðst ekki muna eftir neinum samskiptum um þetta útboð Vestmannaeyjabæjar. Það hafi ekki verið haldnir neinir fundir og þeir ekki gert neitt samkomulag.
Útboðið var rætt á fundi fulltrúa Olíufélagsins með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar þann 2. apríl 2002. Þar er bókað: „[Þórólfur Árnason] staðfesti að þetta útboð hefði borist í tal við fulltrúa Olís og Skeljungs. Hefði þar komið fram sú sameiginlega afstaða fulltrúa olíufélaganna að erfitt væri að bjóða í útboðinu annað en listaverð þar sem magn viðskiptanna væri ekki mikið. Raunin hefði orðið sú, að það hefðu þau öll gert.“
Á fundi fulltrúa stefnda Olíuverzlunar Íslands og starfsmanna Samkeppnisstofnunar þann 22. ágúst 2002 bar þetta útboð á góma. Þar er haft eftir Jóni Ólafi að hann myndi ekki nákvæmlega eftir fundi fulltrúa félaganna um þetta mál í apríl 1997. Hann myndi þó að þeir hefðu rætt saman um útboðið og að boðið yrði verðlistaverð. Aðspurðir á fundinum um bréf Friðriks Þ. Stefánssonar sögðu Jón Ólafur og Einar Benediktsson, forstjóri, að þeir hefðu ekki skilið atriðið um Vestmannaeyjar í bréfinu. Það hefði aldrei verið samið um skiptisölu vegna Vestmannaeyjabæjar, enda hefðu allir haft einhver viðskipti við bæinn.
Þá liggur frammi í málinu minnisblað ritað af Jóni Ólafi Halldórssyni, sem áður er nefndur, dags. 2. maí 1997. Þar er í sex töluliðum fjallað um ýmis viðskipti. Um Vestmannaeyjar segir í fjórða tölulið að útboð hafi farið fram, en niðurstaða sé ekki fengin, verði sennilega óbreytt. Um tvo aðra liði í þessu minnisblaði er tekið fram að tiltekinn aðili skipti framlegð. Þetta er ekki sagt um Vestmannaeyjar. Á áðurnefndum fundi hjá Samkeppnisstofnun þann 22. ágúst 2002 er bókað að Jón Halldórsson hafi verið að segja að fulltrúar félaganna hafi verið sammála um að ekki væru forsendur til annars en að selja bænum á verðlistaverði. Það hafi ekki verið samið um skiptisölu.
Jón Ólafur ritaði forstjóra félagsins, Einari Benediktssyni, tölvupóst þann 17. febrúar 2000. Hafði Einar beðið hann að rifja upp hvernig Olíufélagið hefði náð viðskiptum við bæjarveiturnar í Vestmannaeyjum. Jón segir orðrétt: „Þannig var að við vorum með viðskipti við Sorpbrennslu Vestmannaeyja og voru það einu viðskiptin sem við höfum haft við bæinn. Esso hafði bæjarveitur hjá sér. Í apríl sóttist Vestmannaeyjabær eftir tilboðum í allan sinn rekstur. Tilboð komu á listaverði frá öllum aðilum þannig að ljóst var að hver héldi sínu. Síðan gerist það ...“
Í niðurstöðu sinni segir Samkeppnisráð að það telji að stefndu hafi haft með sér samráð um gerð tilboða í útboðinu. Hafi þetta samráð verið liður í heildarsamkomulagi þeirra um samstarf vegna allra útboða og hluti af samfelldu samráði. Þá telur ráðið að gögn sýni að í gildi hafi verið samkomulag um þjónustugjöld og að viðskiptin við stefnanda hafi verið hluti af því samkomulagi. Loks segir: „Olíufélögin náðu á árinu 1997 samkomulagi um að skipta á milli sín framlegð vegna viðskipta [Olíufélagsins] og Skeljungs við Vestmannaeyjabæ. Samkomulagið var í gildi fram á árið 2001. Samkomulagið var ekki efnt af hálfu [Olíuverzlunar Íslands] en umræður og önnur samskipti áttu sér stað til að knýja fram efndir á því.“
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeim niðurstöðum í úrskurði 29. janúar 2005 að nægilega væri sannað að stefndu hefðu haft með sér samráð um gerð tilboða í útboðinu og þannig brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þá var jafnframt talið að samkomulag hafi verið um að skipta með sér framlegð vegna viðskipta Olíufélagsins og Skeljungs við Vestmannaeyjabæ.
Stefndi Ker lagði fram í málinu matsgerð þeirra Guðmundar Magnússonar prófessors og Heimis Haraldssonar, löggilts endurskoðanda. Hún er dagsett 11. október 2006. Í matsgerðinni er fjallað um hvort og þá hversu mikill ávinningur hafi verið af þeim brotum sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi stefndu seka um.
Stefndi Olíuverzlun Íslands lagði fram matsgerð sömu aðila, sem dagsett er 22. desember 2006. Var í matsgerðinni fjallað um ávinning stefnda af meintu samráði stefndu og aðferðir við útreikning á þeim ávinningi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að stefndu hafi brotið 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 með því að hafa með sér samráð um tilboðsgerð í útboði stefnanda á árinu 1997 og með því að skipta síðan á milli sín framlegð af viðskiptunum.
Stefnandi byggir á því sönnunargildi sem hann telur að gögn sem vitnað er til í ákvörðun samkeppnisráðs hafi. Þá hafi forsvarsmenn stefndu viðurkennt þessi samskipti og að þeir hafi ákveðið hver þeirra fengi viðskiptin við stefnanda. Samráð þeirra hafi haft skaðleg áhrif á útboðið og komið í veg fyrir að stefnandi nyti þess hagræðis sem að var stefnt með útboðinu.
Með þessu hafi stefndu valdið sér tjóni. Það sé meginregla að sá beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem valdi því með saknæmum og ólögmætum hætti. Stefnandi telur tjón sitt vera sennilega afleiðingu af samráðinu og segir að hagsmunir sínir séu verndaðir af skaðabótareglum. Stefndu hafi viðurkennt að hafa brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Ljóst sé að brot hafi verið framin af ásetningi. Þá telur stefnandi að það sé í samræmi við tilgang samkeppnislaga að dæma bætur fyrir það fjárhagslega tjón sem stefndu hafi valdið.
Stefnandi telur að stefndu beri óskipta ábyrgð. Þeir hafi viðurkennt samráð og veri bótaábyrgð vegna þess.
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi haft með sér samkonulag um að skipta á milli sín framlegð af viðskiptum við sig á árunum frá 1997 til 2001. Sé þetta staðfest í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar og viðurkennt af stefnda Keri undir meðferð málsins hjá stofnuninni.
Stefnandi segir að samkvæmt samkomulaginu hafi stefndi Skeljungur greitt meðstefndu svokölluð þjónustugjöld og hlutdeild í framlegð. Hafi verið greiddar 1,33 krónur af hverjum lítra gasolíu og 2,01 króna af hverjum lítra af bensíni vegna sölu til Hafnarsjóðs Vestmannaeyja. Sömu fjárhæð af hverjum lítra hafi stefndi Ker átt að greiða meðstefndu vegna viðskipta við bæjarsjóð. Telur stefnandi ljóst að stefndu Skeljungur og Ker hafi reiknað sér að minnsta kosti sama hlut af hverjum lítra sem þeir seldu. Þetta sé því lágmark þess hagnaðar sem stefndu töldu sig hafa af samráði sínu. Víst sé að tilboð sem gert hefði verið án slíks samráðs hefði orðið lægra en það sem gert var um að minnsta kosti þrefalda þá fjárhæð sem greidd var til hvors hinna stefndu. Telur stefnandi því að hann hafi greitt 3,99 krónum of hátt verð fyrir lítra af dísilolíu, 3,99 krónum of hátt verð fyrir lítra af gasolíu og 6,03 krónum of hátt verð fyrir lítra af bensíni. Stefndu beri að bæta stefnanda þetta tjón.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo miðað við það magn er hann keypti af stefndu á umræddu tímabili:
Dísilolía 3.272.283 lítrar x 3,99 kr. 13.056.409
Gasolía 770.157 lítrar x
3,99 kr.
3.072.926
Bensín 78.165 lítrar
x 6,03 kr.
471.335
Samtals 16.600.670
Stefnandi segir að sér hafi verið ókunnugt um samráðið á sínum tíma og hafi því ekki getað haft uppi kröfu sína. Telur hann sig eiga rétt á vöxtum ekki skemur en í fjögur ár fram að því að hann rauf fyrningu með höfðun málsins. Dráttarvaxta krefst hann frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að hann krafði stefndu um skaðabætur, sbr. 3. mgr. 8. gr., sbr. fyrri málslið 9. gr. laga nr. 38/2001.
Varakrafa er byggð á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa um samráð stefndu, en höfð uppi verði ekki fallist á fjárhæð aðalkröfunnar. Segir stefnandi að Hæstiréttur hafi í skaðabótamálum þar sem erfitt hafi reynst að sannreyna tjón nákvæmlega, dæmt bætur að álitum. Hafi rétturinn teygt sig langt í að telja tjón sannað og ákvarðað bætur þrátt fyrir óvissu um hver fjárhæð bóta skyldi vera. Telur stefnandi þau sjónarmið eiga við hér og hefur því uppi áðurgreinda varakröfu verði ekki á aðalkröfu hans fallist. Stefndu hafi hagnast verulega á samráði sínu og valdið stefnanda tjóni að sama skapi. Fallist dómurinn ekki á að tjónið hafi numið þeirri fjárhæð sem greinir í aðalkröfu, krefst stefnandi þess að dómurinn leggi mat á fjárhæð skaðabóta.
Þrautavarakrafa er á því reist að bótaskylda stefndu sé til staðar eins og lýst hafi verið í reifun málsástæðna fyrir aðalkröfu. Fullyrða megi að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni. Telur stefnandi sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu, þó ekki yrði dæmt um fjárhæð bóta.
Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttar, almennum reglum samninga- og kröfuréttar og samkeppnislögum nr. 8/1993.
Málsástæður og lagarök stefnda Kers
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir fjártjóni vegna viðskipta við sig. Því beri að sýkna sig af kröfum stefnanda. Stefndi segir að viðurkennt hafi verið að stefndu hafi haft samskipti sín á milli við tilboðsgerð í útboði stefnanda 1997, óformleg samskipti. Þeir hafi látið vita að þeir gætu ekki boðið lægra verð en listaverð. Þrátt fyrir þetta séu engin efni til að fallast á bótakröfu stefnda. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefnanda hafi verið valdið tjóni.
Stefndi bendir á að viðskipti við stefnanda hafi verið lítil og stefndu hafi ekki séð sér hag í að berjast um þessi viðskipti og ekki séð sér fært að veita afslátt. Stefndi segir að ekki hafi verið gerður samningur milli stefndu um skiptingu á framlegð. Megi sjá það af því að engar slíkar greiðslur hafi farið fram milli aðila. Mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um þetta atriði.
Stefndi segir að það hafi verið mistök að viðurkenna í athugasemdum við frumathugun samkeppnisráðs að framlegð hefði verið skipt vegna viðskiptanna í Vestmannaeyjum. Megi sjá það í gögnum málsins þar sem það komi hvergi annars staðar fram að samkomulag hafi verið um þetta atriði. Vísar stefndi hér til fundargerða af fundum fulltrúa sinna með samkeppnisstofnun. Samkeppnisstofnun og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi byggt niðurstöður sínar á þessari játningu. Í fundargerðunum sjáist hins vegar ekki annað en að samskipti hafi átt sér stað.
Varðandi bréf frá Skeljungi dags. 10. mars 1998 til meðstefndu varðandi óuppgerð þjónustugjöld, þá kveðst stefndi telja að bréfið hafi verið sent til að skapa samningsstöðu, en sanni ekki samkomulag um skiptingu framlegðar. Vísar stefndi hér til ummæla starfsmanna Skeljungs hjá Samkeppnisstofnun og framburðar Friðriks Þ. Stefánssonar hér fyrir dómi.
Stefndi telur að minnisblað framkvæmdastjóra markaðssviðs stórnotenda hjá stefnda Olíuverzlun Íslands, dags. 2. maí 1997 styðji ekki fullyrðingu stefnanda um samkomulag um skiptingu framlegðar. Minnisblaðið styðji þá fullyrðingu að ekki hafi verið gert samkomulag um viðskiptin við stefnanda heldur hafi þau verið látin halda sér.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu í stefnu að aðilar hafi samið af nákvæmni um hvað hver skyldi bjóða og hvað þeir sem fengju viðskiptin skyldu greiða hinum. Þessi fullyrðing sé ósönnuð.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu í stefnu að hegðun fyrirtækja og stjórnenda þeirra bendi samkvæmt reynslulögmálum til samráðs. Þessi fullyrðing sé órökstudd og ósönnuð. Þá segir stefndi að hæstaréttarmálin 142 og 143/2007 varðandi Reykjavíkurborg séu ekki sambærileg þessu máli.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón sitt, en samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar geti hann aðeins fengið sannanlegt tjón bætt.
Stefndi telur ekki skilyrði til að dæma stefnanda bætur að álitum eins og hann krefjist til vara. Stefnanda beri að sanna tjón sitt og það hafi hann ekki gert.
Sömuleiðis mótmælir stefndi þrautavarakröfu stefnanda. Hann hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni.
Stefndi bendir á að skaðabótakröfur fyrnist á 10. árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Því séu krafa stefnanda fram til 19. febrúar 1998 fallin niður fyrir fyrningu. Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta, þá eigi ekki dæma fyrr en frá dómsuppkvaðningu. Þar sem ekki hafi verið forsenda til að ganga til uppgjörs við stefnanda 20. desember 2006 sé ekki hægt að miða upphafstíma dráttarvaxta við þann dag. Ekkert hafi þá legið fyrir um að stefnandi hefði orðið fyrir fjártjóni. Stefndi segir að 2. ml. 9. gr. laga nr. 38/2001 sé undantekning frá meginreglu.
Loks vísar stefndi til almennra reglna um skaðabætur utan samninga og meginreglna samninga- og kröfuréttar.
Málsástæður og lagarök stefnda Olíuverzlunar Íslands
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna athafna eða athafnaleysis stefnda. Til að ákveða eitthvert tjón stefnanda yrði að leiða líkur að því hvaða verð honum hefði átt að bjóðast. Á þessum tíma hafi stefndi ekki boðið sambærilegum viðskiptavinum afslátt frá listaverði. Þá hefði þurft að útvega og setja upp dýran búnað til að þjóna stefnanda. Því sé afar ólíklegt að stefnanda hefðu átt að bjóðast önnur og betri kjör en sambærilegum viðskiptavinum.
Stefndi mótmælir því að í gildi hafi verið samkomulag milli stefndu um framlegðarskiptingu. Hæstaréttarmálin nr. 142 og 143/2007 varðandi Reykjavíkurborg séu ekki fordæmi í þessu máli.
Þó samkeppnisyfirvöld hafi talið sannað að í gildi væri samkomulag um framlegðarskiptingu séu dómstólar ekki bundnir af því mati. Slíkt samkomulag sé ósannað.
Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda um skaðabætur að álitum. Ekki séu skilyrði til að fallast á slíka kröfu eins og þetta mál sé vaxið. Nauðsynlegt væri að sanna eitthvert tjón og reyna að sýna fram á umfang þess. Hvorugt hafi verið gert.
Þrautavarakröfu mótmælir stefndi með því að hvorki hafi verið sýnt fram á að tjón hafi orðið né að bótaskylda sé fyrir hendi.
Stefndi mótmælir því að dómaframkvæmd sýni að slakað sé á sönnunarbyrði tjónþola í málum sem þessu. Vissulega sé slakað á sönnunarkröfum þegar metið sé hvort fyrirtæki hafi brotið gegn lögum og reglum í samkeppnisrétti. Hins vegar séu engin dæmi þess að slakað sé á sönnunarkröfum í skaðabótamálum vegna brota gegn samkeppnislögum. Hér gildi almennar reglur. Tjónþoli beri sönnunarbyrði.
Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda. Vísar hann til sömu sjónarmiða og að framan eru rakin. Þá vísar hann til matsgerðar Guðmundar Magnússonar og Heimis Haraldssonar, dags. 11. október 2006, sem vikið var að hér að framan. Þá hafi útboðið ekki leitt til neinna viðskipta. Stefnandi virðist ekki hafa svarað boði stefnda Skeljungs eða fyrirspurn stefnda Olíuverzlunar Íslands.
Stefndi vísar til þess að kröfur stefnanda fyrnist á tíu árum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Því séu fyrndar kröfur sem orðið hafi til fyrir 15. febrúar 1998. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og krefst þess að dráttarvextir yrðu fyrst dæmdir frá dómsuppkvaðningu. Ekki hafi verið hægt að taka til athugunar upphaflega kröfu stefnanda. Þá hafi forsendur kröfunnar breyst verulega.
Stefnandi vísar til meginreglna skaðabótaréttar og almennra reglna réttarfars um sönnun.
Málsástæður og lagarök stefnda Skeljungs.
Stefndi Skeljungur mótmælir því að greiðslur hafi farið milli stefndu vegna viðskiptanna við stefnanda. Þá hafi ekki verið ákveðið fyrirfram hver hlyti viðskiptin.
Stefndi segir að forsenda skaðabótaskyldu sé að til viðskipta hafi stofnast á grundvelli útboðsins. Svo hafi ekki verið, stefnandi hafi hafnað öllum tilboðum. Þó kveðst stefndi Skeljungur hafa boðið lægra verð en meðstefndu. Ekki hafi verið skýrt hvers vegna tilboðinu var ekki tekið. Þó það teldist sannað að starfsmenn stefndu hefðu rætt sín á milli fyrir útboð stefnanda og með því brotið gegn samkeppnislögum, leiði það ekki til þess að stefnanda hafi verið valdið tjóni. Þá séu skilyrði sakarreglunnar um saknæma og ólögmæta háttsemi og tjón sem sennilega afleiðingu hennar ekki uppfyllt.
Stefndi mótmælir því að í gildi hafi verið samkomulag milli stefndu um að skipta á milli sín framlegð af viðskiptum við stefnanda. Sú fullyrðing stefnanda að fyrir liggi skýr viðurkenning á því sé röng. Þvert á móti liggi fyrir að engar greiðslur hafi farið á milli stefndu vegna þessara viðskipta. Mótmælir stefndi framburði fyrrverandi starfsmanns meðstefnda Kers um samráð.
Stefnandi mótmælir því að þrjú dæmi sem tekin séu í stefnu sanni málatilbúnað stefnanda. Lýsing starfsmanns Kers á markaðsaðstæðum hafi ekki neitt með Skeljung að gera. Tölvupóstur framkvæmdastjóra markaðssviðs stórnotenda hjá meðstefnda Olíuverzlun Íslands hafi verið sendur þremur árum eftir útboðið og sanni ekkert um aðkomu stefnda Skeljungs að samráði um viðskipti stefnanda. Þá sé rangt að allir hafi boðið listaverð. Loks sýni tilvitnun stefnanda að stefndi Skeljungur hafi ekki verið þátttakandi í samráði um viðskipti við stefnanda. Fram komi í þessum tölvupósti að Skeljungur hafi haft lítil sem engin viðskipti við stefnanda, þrátt fyrir að hafa átt besta tilboðið í útboðinu.
Stefndi byggir á því að sönnunarmat samkeppnisyfirvalda hafi ekki sjálfstæða þýðingu hér fyrir dómi.
Þá segir stefndi að þó samkomulag um skiptingu framlegðar teldist sannað, væri ekki hægt að leggja til grundvallar að sú framlegð fæli í sér tjón stefnanda. Framlegð stefnda af viðskiptum við stefnanda hafi verið sambærileg framlegð af viðskiptum við sambærilega viðskiptavini.
Stefndi segir að bréf framkvæmdastjóra markaðssviðs Skeljungs frá 10. mars 1998 hafi verið ritað eingöngu til að skapa samningsstöðu vegna ótengdra mála. Það sanni ekki samkomulag um skiptingu framlegðar.
Stefndi segir að sönnunarbyrði hvíli á stefnanda. Hann hafi ekki sannað sitt mál.
Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að dæma stefnanda bætur að álitum eins og hann krefjist í varakröfu. Hann verði að sanna fjártjón af völdum samráðs stefndu og að hann hafi gert allt sem hann gæti til að sanna fjárhæð þess. Hvorugt hafi hann gert. Þá vísar stefndi til áðurgreindra málsástæðna.
Af sömu ástæðum mótmælir stefndi þrautavarakröfu um viðurkenningu skaðabótaskyldu. Tjón hafi ekki verið sannað.
Til vara krefst stefndi lækkunar bótakröfu. Vísar hann hér til málsástæðna fyrir sýknukröfu, sem leiði einnig til lækkunar við mat á hugsanlegu tjóni. Þá segir stefndi að ef stefnandi hefði beint viðskiptum sínum öllum til sín, hefði hann lækkað innkaupsverð og þar með tjón sitt.
Stefndi vísar til þess að kröfur stefnanda fyrnist á tíu árum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Því séu fyrndar kröfur sem orðið hafi til fyrir 15. febrúar 1998. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og krefst þess að dráttarvextir yrðu fyrst dæmdir frá dómsuppkvaðningu.
Stefndi vísar til almennra reglna um skaðabætur utan samninga og meginreglna samninga- og kröfuréttar.
Forsendur og niðurstaða
Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að stefndu hefðu haft með sér samráð í því útboði stefnanda sem hér er um fjallað. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti þá niðurstöðu.
Þau gögn og atvik sem benda til samráðs í útboðinu eru fjölmörg. Af hálfu Olíufélagsins var samráð viðurkennt er frumskýrslu Samkeppnisstofnunar var andmælt. Þá kom fram á innanhússfundi hjá stjórnendum félagsins 22. apríl 1997 að vitað var að hin félögin ætluðu ekki að bjóða annað en listaverð.
Á fundi forsvarsmanna Olíuverzlunar Íslands með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar 2. apríl 2002 virðist sem viðurkennt sé að stjórnendur félaganna hafi rætt útboðið sín á milli og að þeir hafi vitað að enginn þeirra myndi bjóða afslátt frá listaverði. Framburður Jóns Ólafs Halldórssonar fyrir dómi er ekki alveg í samræmi við þetta, en hann neitar samráði ekki afdráttarlaust. Er þá einnig litið til þess að í minnisblaði 2. maí 1997 segir hann að viðskiptin við stefnanda verði sennilega óbreytt eftir útboðið. Þar er þó ekki vikið að því að framlegð sé skipt. Þá bendir orðalag í tölvupósti Jóns til Einars Benediktssonar, forstjóra, þann 17. febrúar 2000, til þess að félögin hafi vísvitandi stefnt að því að halda öllu óbreyttu í viðskiptum við stefnanda.
Stefndu hafa bent á að talsverðan búnað hafi þurft til að sinna þeim viðskiptum sem boðin voru út. Þá hafi samningstími verið tiltölulega skammur, þannig að lítið svigrúm hafi verið til að afskrifa stofnkostnað. Þessar fullyrðingar eru sennilegar, en þær breyta ekki því að framangreindar vísbendingar og játningar hjá Samkeppnisstofnun eru svo eindregnar að sannað er að félögin hafi sammælst um að bjóða einungis listaverð í útboðinu. Með þessu brutu þau gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993.
Með þessum ólögmætu aðgerðum sínum sammæltust stefndu um það hvaða kjör stefnanda yrðu boðin. Komið var í veg fyrir það að stefnanda yrði boðið verð sem ákveðið hefði verið á eðlilegum forsendum. Verð sem eitthvert félaganna hefði verið reiðubúið að sætta sig við að reiknuðum kostnaði við að veita þjónustuna og þeim hagnaði sem viðkomandi vildi hafa af viðskiptunum. Má telja að tjón stefnanda sé í raun meira en sá hagnaður sem stefndu hafa af samráðinu og að sú aðferð sem Hæstiréttur beitir við ákvörðun bóta í dómum sínum í málum nr. 142 og 143/2007 sé varfærin. Með þessum viðskiptaháttum hefur verið minni hvati fyrir félögin til að hagræða í rekstri.
Vísbendingar um að stefndu hafi skipt með sér framlegð af viðskiptunum eru ekki skýrar og benda ekki eindregið í þá átt. Er ekki hægt að telja sannað að beinar greiðslur hafi gengið á milli félaganna í framhaldi af útboðinu. Það breytir ekki því að samkomulag í þessu útboði er hluti af samskiptum stefndu í heild, sem beindust að því að setja samkeppni þeirra mörk. Verður ekki hjá því komist að dæma stefnanda bætur vegna þess tjóns sem víst má telja að hann hafi orðið fyrir. Stefnandi á ekki möguleika á að upplýsa hvert tjónið er, en það yrði að meta að mestu eftir upplýsingum sem stefndu hafa undir höndum. Verður að ákveða bætur til stefnanda að álitum. Sameiginlegar aðgerðir stefndu hafa valdið tjóni stefnanda og verða þeir dæmdir til að greiða bætur óskipt.
Matsgerðir þær sem getið er að framan skipta ekki máli við ákvörðun bóta hér, en stefnandi var ekki aðili að þeim matsmálum og í þeim er ekki fjallað um tjón hans. Í samanburði við atvik sem um ræðir í framangreindum dómafordæmum voru viðskiptin í útboðinu tiltölulega lítil. Þá þurfti að leggja til búnað og veita margvíslega þjónustu. Loks er sá hluti kröfunnar er varðar viðskipti á árinu 1997 og fram í febrúar 1998 fyrndur, sbr. 2. tl. 4. gr. þágildandi laga um fyrningu nr. 14/1905. Samkvæmt samantekt er stefnandi lagði fram keypti hann eldsneyti af stefndu fyrir samtals 82.463.877 krónur á árunum 1998-2001. Þegar til framangreindra atriða er litið verður bótafjárhæð ákveðin 10.000.000 króna. Vextir dæmast eins og stefnandi krefst.
Stefndu verða dæmdir til að greiða stefnanda 1.250.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndu, Ker ehf., Skeljungur hf. og Olíuverzlun Íslands hf., greiði stefnanda, Vestmannaeyjabæ, óskipt 10.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2004 til 20. nóvember 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 1.250.000 krónur í málskostnað.