Hæstiréttur íslands
Mál nr. 313/2001
Lykilorð
- Líkamsárás
- Þjófnaður
- Tilraun
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2001. |
|
Nr. 313/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Garðari Garðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Þjófnaður. Tilraun. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Hegningarauki.
G var ákærður fyrir að hafa stungið L með hnífi í kviðinn. Framburður G þess efnis að um slys hefði verið að ræða þótti hvorki trúverðugur né fá stoð í framburði vitna. Var framburður læknis um stungusárið talinn vega sérstaklega þungt. Háttsemi G var talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. G var jafnframt ákærður fyrir að hafa brotist inn í bifreið í því skyni að stela úr henni útvarpstæki. G neitaði sök en frásögn hans af atvikum þótti ótrúverðug og var háttsemi hans talin varða við 244. gr., sbr. 20. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar G var litið til þess að hann var tvívegis dæmdur í Danmörku á árinu 1994 fyrir rán og í öðru tilvikinu að auki fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Höfðu dómarnir ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. a. Jafnframt var litið til þess að brot ákærða var mjög alvarlegt, þar sem hann lagði til L með hættulegu vopni og réð hending ein að ekki hlutust veruleg örkuml eða bani af, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. Að því er snerti síðara brot G var litið til þess að hann átti að baki langan sakaferil fyrir auðgunarbrot, sbr. 72. gr., og höfðu fyrrgreindir dómar ásamt dómi Hæstaréttar 26. október 2000 ítrekunaráhrif, sbr. 71. gr. og 255. gr. Var G dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr., og gert að sæta 3 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður, en til þrautavara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu Lárusar Arnars Þórissonar verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að bætur verði lækkaðar.
Af hálfu Lárusar Arnars Þórissonar er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur að því er varðar skaðabætur honum til handa.
Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að þess hafi ekki verið gætt að héraðsdómur væri fjölskipaður með vísan til ákvæða 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með síðari breytingum. Eins og atvik málsins horfðu við þegar það var þingfest var fullt tilefni til að héraðsdómur yrði fjölskipaður, en þar sem úrslit þess í héraði réðust að nokkru leyti af öðru en mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi eru ekki forsendur til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þessum sökum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna brota samkvæmt báðum liðum ákæru.
Við ákvörðun refsingar vegna fyrri liðar ákæru ber að líta til þess að ákærði var tvívegis dæmdur í Danmörku á árinu 1994 fyrir rán og í öðru tilvikinu að auki fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Hafa þessir dómar ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 218. gr. a. í sömu lögum, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið var mjög alvarlegt, þar sem hann lagði til brotaþola með hættulegu vopni og réð hending ein að ekki hlutust veruleg örkuml eða bani af, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði á að baki langan sakaferil fyrir auðgunarbrot og ber við refsingu vegna síðari liðar ákærunnar að gæta ákvæðis 72. gr. almennra hegningarlaga. Að auki verður að líta til þess að áðurnefndir tveir dómar í Danmörku, svo og dómar Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000 og Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl sama árs, sem staðfestir voru um sakfellingu ákærða meðal annars fyrir auðgunarbrot með dómi Hæstaréttar 26. október 2000, hafa ítrekunaráhrif vegna brots samkvæmt þessum ákærulið, sbr. 71. gr. og 255. gr almennra hegningarlaga. Eftir að brot þau, sem sakfellt er fyrir í þessum dómi, voru framin hefur ákærði hlotið tvo dóma. Dóm Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2001 fyrir hylmingu, þar sem ekki var gerð sérstök refsing, og dóm Hæstaréttar 17. maí 2001, þar sem staðfestur var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar sama árs, en þar var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi. Verður refsing hans í þessu máli ákveðin sem hegningarauki við þá dóma samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá er einnig höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga við ákvörðun refsingar. Að öllu þessu athuguðu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Í tengslum við fyrri lið ákæru var gerð bótakrafa á hendur ákærða af hálfu brotaþolans Lárusar Arnars Þórissonar. Var sú krafa tekin til greina að hluta í héraði. Þar sem ekki hafa verið færð fram fullnægjandi gögn til sönnunar því að Lárus hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni vegna þess áverka, er ákærði veitti honum, verður þeim lið kröfu hans vísað frá héraðsdómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um aðra þætti kröfu Lárusar, sem hér koma til skoðunar. Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða Lárusi Arnari Þórissyni 295.949 krónur auk dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest, þar með talið um þóknun réttargæslumanns brotaþola.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu óröskuð.
Ákærði greiði Lárusi Arnari Þórissyni 295.949 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. janúar 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Lárusar Arnars Þórissonar, Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 2. þ.m. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. mars 2001 á hendur ákærða, Garðari Garðarssyni, kt. 100165-4499, Hamraborg 38, Kópavogi, fyrir að hafa framið eftirtalin hegningarlagabrot í Reykjavík að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2000:
I. Líkamsárás, með því að hafa í Lækjargötu, stungið Lárus Arnar Þórisson, kennitala 180481-5249, með hnífi í kviðinn. Náði stungan í gegnum garnalykkjur á tveimur stöðum og garnahengi.
II. Tilraun til þjófnaðar, með því brjótast inn í bifreiðina HG-217 þar sem hún stóð við Aðalstræti í því skyni að stela úr henni útvarpstæki, en ákærði var að losa tækið úr mælaborði bifreiðarinnar er að honum var komið.
Eru brot samkvæmt lið I talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en brot samkvæmt lið II við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist af hálfu ákæruvaldsins að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Eftirfarandi einkaréttarkröfur eru gerðar í málinu:
Lárus Arnar Þórisson, kt. 180481-5249, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð krónur 975.353, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og réttargæsluþóknun skipaðs talsmanns.
Birgir Elfar Níelsson, kennitala 110669-5859, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð krónur 203.820, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þess er krafist að bótakröfu Lárusar Arnars verði vísað frá dómi en til vara að bætur verði lækkaðar verulega. Þess er krafist að bótakröfu Birgis Elfars verði vísað frá dómi. Loks er krafist hæfilegra réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins til handa verjanda.
Ljóst þykir af málsgögnum að skráningarnúmer bifreiðar í ákærulið I hefur misritast og á samkvæmt málsgögnum að vera HG-817.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dagsettri hinn 20. ágúst 2000, var tilkynnt kl. 07.20 um slasaðan mann í Pósthússtræti sem orðið hefði fyrir hnífstungu. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sat hinn slasaði, sem reyndist vera brotaþoli Lárus Arnar Þórisson, á tröppum Pósthússtrætis 7. Sýndi hann lögreglumönnunum stungu á kviði vinstra megin fyrir neðan nafla og kvartaði undan ógleði. Tilkynnandi, Helgi Björn Guðmundsson, gaf sig fram eftir að Lárusi Arnari hafði verið ekið á slysadeild í sjúkrabifreið. Erfitt reyndist að fá lýsingu á geranda. Lárus sagði manninn hafa hlaupið á brott en hvorki muna hvernig hann liti út né hvernig hann var klæddur. Lögreglumönnunum virtist þó sem Lárus vissi hver hann væri. Móðir Lárusar kom á vettvang og fór með honum á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Samkvæmt frásögn Helga á vettvangi var hann á gangi með vinum sínum vestur Austurstræti þegar hann hitti brotaþola, Lárus, sem hann þekkti ekki fyrir. Hann sagði Lárus hafa verið einan á ferð, hefði hann gefið sig á tal við þá og sagst hafa verið stunginn. Helgi kvaðst hafa séð að Lárusi leið illa og þegar Lárus hefði lyft upp bolnum og sýnt sárið, hefði hann áttað sig á að Lárus hafði orðið fyrir hnífstungu. Þá kvaðst Helgi hafa hringt á sjúkrabifreið og í móður Lárusar, en Lárus hefði verið búinn að slá inn símanúmer í GSM síma sem hann var með. Aðspurður kvaðst Helgi ekki muna nákvæmlega hvað Lárus hefði sagt við hann, en hann hefði sagt fátt, aðallega beðið um að láta hringja í móður sína.
Lögreglumenn fóru á Slysadeild Landsspítalans í Fossvogi og höfðu þar tal af Lárusi rétt áður en hann átti að fara í aðgerð. Móðir hans, Sigríður, var viðstödd og talað var við þau bæði. Lárus kvaðst hafa boðið Sólrúnu, sem hann þekkti frá því þau hefðu verið saman í meðferð á Teigi, og litla bróður hennar, 13 ára, far heim með móður sinni, sem hann hafði beðið um að sækja sig niður í bæ. Með Sólrúnu hefði verið maður sem hún hefði kallað Garðar. Lárus og móðir hans lýstu honum sem lágvöxnum, skolhærðum, grönnum og frekar sjúskuðum manni um 35 ára aldur, gráklæddum í ljósum síðum frakka. Lárus sagði Garðar hafa ætlað að fá far heim með honum en sagst ætla að ná í lykla úr bifreið sinni. Sigríður, móðir Lárusar, sagði númer bifreiðarinnar hafa verið MZ-428. Lárus sagði Garðar hafa komið aftur en hefði nú viljað að Sólrún og bróðir hennar kæmu með sér. Lárus hefði mótmælt því þar sem Garðar hefði verið drukkinn. Lárus sagði móður sína hafa komið og lagt þarna hjá. Komið hefði til ryskinga milli þeirra Garðars. Lárus kvaðst hafa ýtt Garðari frá sér en ekki vitað fyrr en Garðar hefði verið með hníf á lofti. Þá hefði Garðar verið búinn að stinga hann. Lárus sagðist hafa hlaupið á eftir Garðari en síðan áttað sig á hvað hafði gerst. Þá hefði hann ætlað að hringja í móður sína og hitt tilkynnandann Helga.
Sigríður, móðir Lárusar, sagðist hafa komið til að sækja þau Lárus, Sólrúnu og bróður hennar og umræddur Garðar hefði einnig ætlað að fá far heim. Sigríður sagðist hafa lagt þarna hjá. Garðar hefði þá komið og ætlað að fá Sólrúnu og bróður hennar með sér, þar sem hann ætlaði að aka þeim heim. Þá hefði komið til einhverra átaka milli Garðars og Lárusar og kvaðst hún hafa séð til Lárusar þar sem hann hefði hlaupið á eftir Garðari vestur Kirkjustræti fyrir hornið á Kínahúsinu. Þá hefði það gerst næst að hringt var í hana og sagt að Lárus hefði verið stunginn og væri við Pósthússtræti 7.
Samkvæmt vottorði Sigurgeirs Kjartanssonar skurðlæknis, sem dagsett er 12. september 2000 kemur fram að við komu á Slysadeild 20. ágúst hefði Lárus Arnar verið með stöðug lífsmörk en skurður hefði verið hægra megin á kviði og neðan við nafla. Lárus Arnar hefði verið tekinn til aðgerðar að afloknum grunnrannsóknum og við holspeglun hefði reynst vera nokkuð af fersku blóði í kviðarholi. Uppspretta blóðsins hafi reynst vera í garnahengi auk þess sem stungusár hafi sést á aðlægri garnalykkju. Sárið hefði verið saumað og blæðing stöðvuð frá garnahengi með stálheftum. Keri hafi verið lagður inn í sárið en við vöktun næsta sólarhring hefðu verkir aukist og gulleitur vökvi tæmst frá keranum. Vegna þessa hefði Lárus Arnar verið tekinn aftur til aðgerðar 21. ágúst þar sem kviðarhol hefði verið opnað um miðlínuskurð og hafi þá komið í ljós þrjú göt á smágirni. Skaddaðir hafi verið 10 cm af görninni og hafi sá bútur verið fjarlægður til öryggis. Eftir aðgerðina hafi bati verið hægur og sýking hefði komist í skurðinn, sem hafi verið tæmdur út og pakkaður fyrir útskrift til eftirlits hjá heimahjúkrun. Í niðurlagi vottorðsins segir: „Að því er að framan greinir er um að ræða hnífsstungu á kvið er gengið hefur í gegnum garnalykkjur á tveimur stöðum, svo og garnahengi. Því verður að telja að stungan hafi verið alldjúp og má því ætla að hnífurinn hafi gengið aðeins um millimetersbil frá ósæð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, auk þess sem stungusárið lá nærri þverhluta ristils og hefði sköddun á honum valdið alvarlegri sýkingu en raun varð á. Áverkinn verður því að teljast lífshættulegur sjúklingi.”
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá 20. ágúst 2000 voru lögreglumenn sendir síðar sama morgun kl. 09.24 að Aðalstræti 7 vegna manns sem grunaður var um innbrot í bifreið, sbr. ákærulið II. Reyndist þar vera ákærði, Garðar Garðarsson. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu 113.
Ákæra var gefin út á hendur Garðari fyrir líkamsárás og tilraun til þjófnaðar í kjölfar ofangreindra atburða.
Um ákærulið I.
Ákærði Garðar Garðarsson neitar sök og heldur því fram að slys hafi valdið því að Lárus Arnar Þórisson hlaut hnífstungu í kvið í Lækjargötu að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2000. Fyrir dóminum kvaðst ákærði ekki muna atburðarásina alveg. Hann kvaðst hafa verið með Sólrúnu Axelsdóttur og 13 ára bróður hennar, Ívari Erni Axelssyni, í bænum þessa nótt, sem var menningarnótt í Reykjavík. Hann kvaðst hafa lagt bílnum í Hafnarstræti. Hann hefði hitt Lárus í Lækjargötunni og svolítið seinna hefði hann farið og náð í bílinn í Hafnarstrætið í þeim tilgangi að ná í dótið þeirra, lyklana að húsinu og yfirhafnir og fleira sem var í bílnum. Hann kvaðst síðan hafa ekið í Lækjargötuna og lagt á stæði fyrir framan Skalla. Hafi þá ekki verið búið að ákveða hvort hann æki heim. Hann kvaðst ekki hafa haft lykil að bílnum heldur hafa notað hnífinn til þess að opna hann. Svissinn hafi og verið ónýtur. Þau hefðu verið að tala saman Lárus og Sólrún og Lárus hefði ekki viljað að hún færi með ákærða. Hann kvaðst loka bílnum með hnífnum, sem hann geymdi á dekkinu, og þetta hefði byrjað þegar hann var að opna bílinn. Lárus hefði flogið á hann „Ég datt á húddið á bílnum og hann flaug á mig síðan var þetta bara skeð.” Spurður hvers vegna hann hafi verið að læsa bílnum þar sem hann var við hliðina á honum og hann væri að hugsa um að aka heim, kvaðst hann ekki hafa ætlað að aka heim. Hann hefði verið búinn að tala um að taka leigubíl. Þau hefðu líka þess vegna getað gengið. Beðinn um að lýsa átökunum sem urðu, kvað hann eiginlega engin átök hafa orðið, nema það að Lárus hefði stokkið á hann þegar hann var annað hvort að fara aftur inn í bílinn eða læsa honum og því hafi hann verið með hnífinn í hendinni. Hann hafi „staðið svona eitthvað boginn” fyrir framan læsinguna á bílnum. Hann hafi haldið á hnífnum eins og á lykli. Hann kvaðst ekki muna stöðu hnífsins þegar stungan verður. Kvað hann Lárus hafa stokkið á sig og skallað sig og hafi hann dottið á húddið á bílnum og kvaðst ekki geta sýnt hvernig stöðu hann var í „hálfvankaður og liggjandi á bílnum.” Lárus hefði hoppaði á hann, þetta hefði skeð snöggt og hann hefði fengið högg á sig, og ekki muna nákvæmlega hvernig þetta skeði. Þeir hefðu ekkert verið búnir að vera í átökum áður, „ekkert þannig” en Lárus hefði verið frekar æstur. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði hrint eitthvað við sér. Spurður um orðaskipti þeirra kvað hann orðið svo langt síðan að hann myndi það ekki. Lárus hefði eitthvað verið að skipta sér af þessu, hefði viljað stjórna hvernig þetta færi allt fram. Hann kvað ekki rétt að það hefði verið komið fram að hann ætlaði að keyra Sólrúnu heim, kvaðst ekki muna eftir því. Spurður um samkomulagið milli hans og Sólrúnar á þessum tíma, kvað hann það hafa verið búið að vera í lagi fram að þessu, en þau hefðu verið eitthvað smá ósátt, það hefði ekki verið neitt alvarlegt. Spurður hvort hann hefði verið undir áhrifum áfengis eða einhverra vímuefna, kvaðst hann hafa verið búinn að taka eitthvað. En kvaðst ekki hafa verið búinn að taka amfetamín vísvitandi. Spurður hvar hin hefðu verið þegar hnífsstungan átti sér stað, kvað hann móður Lárusar hafa lagt bílnum þarna svolítið langt fyrir aftan, hjá bakaríinu eða lengra, hjá Topshop. Hann kvaðst hafa farið í panik eftir að hnífsstungan átti sér stað. Nánar spurður um atburðinn af verjanda kvað hann þetta hafa verið slys, hann hefði vankast þegar Lárus hefði skallað hann og dottið aftur fyrir sig á húddið. Sér fyndist eins og Lárus hefði skutlað sér á sig. Hann hefði líka tekið í hálsinn á sér. Kvaðst hann bæði hafa verið með áverka á hálsi og á enninu þar sem hann skallaði hann. Hann hefði skallað hann við hurðina á bílnum. Og við það hefði hann dottið á húddið. Spurður kvaðst hann ráma í, það sem hann bar fyrst hjá lögreglu, að Lárus hefði skyndilega sagt við sig „þú stakkst mig” og hefði ætlað að rjúka í hann aftur með þeim orðum að hann ætlaði að drepa hann, þá kvaðst hann hafa farið og minnti að Lárus hefði komið á eftir sér. Spurður um hvað hann hefði gert við hnífinn kvaðst hann hafa farið einhverja hringi um Pósthússtræti eða Austurstræti og svo stoppað og séð blóð á hnífnum, hann hefði þá hent honum frá sér, þar sem hann stóð, í blómapott eða eitthvað álíka. Síðan eftir það hefði hann farið að gefa sig fram, beðið eftir að lögreglan kæmi „þar sem ég var einhvers staðar í ....” Hann kvaðst síðan ekki hafa munað eftir hnífnum fyrr en við yfirheyrslu og þá farið aftur einn og náð í hnífinn. Hann kvaðst vera viss um að þetta væri sami hnífurinn. Hann væri keyptur erlendis og honum hefði verið gefinn hann einum til tveimur dögum áður.
Vegna þess hversu alvarlegt málið er þykir rétt að rekja ítarlega framburð ákærða hjá lögreglu. Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu vegna þessa máls sunnudaginn 20. ágúst 2000 kl. 15.00 eftir dvöl í fangageymslu. Hann hafði verið handtekinn um morguninn grunaður um innbrot í bifreið samanber ákærulið II. Verjandi var viðstaddur yfirheyrsluna. Var honum tjáð að hann væri grunaður um að hafa veitt Lárusi Arnari stunguáverka á kvið með hnífi. Kvaðst hann kannast við málið en neitaði því að hafa að yfirlögðu ráði lagt til Lárusar með hnífi. Garðar sagðist hafa verið staddur í Lækjargötu þá um morguninn ásamt Sólrúnu Axelsdóttur, verðandi barnsmóður sinni, og bróður hennar, Ívari. Garðar sagði að Sólrún hefði verið að tala við einhvern strák (Lárus). Hefði Sólrún farið að gráta og því hefði hann gengið yfir til hennar en þá hefði þessi strákur, sem Garðar sagðist ekkert þekkja, farið að skipta sér af Sólrúnu og honum (Garðari). Kvaðst hann hafa sagt við strákinn að honum kæmi þetta ekkert við og að hann, Garðar, væri kærasti Sólrúnar.
Garðar sagði að móðir stráksins hefði komið þarna að á bifreið og hefði strákurinn ætlað að bjóða Sólrúnu og Ívari far. Þegar til hafi komið hefðu Sólrún og Ívar ekki viljað fara með stráknum og móður hans, en strákurinn hefði eitthvað verið að toga í hana og reyna að fá hana til að þiggja farið. Garðar sagði að á meðan á því hefði staðið hefði hann staðið við bifreið sína og verið að reyna að opna bifreiðina með vasahníf. Garðar sagði að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hefðu verið læstir inni í bifreiðinni en hægt væri að opna bifreiðina með hnífi eða skrúfjárni.
Garðar sagði að strákurinn hefði komið að sér og gripið um axlir sínar og snúið sér við. Hefði hann spurt hann hvort hann væri að hóta Sólrúnu og fleira í þá veru. Hefði hann sagt við strákinn að vera ekki að skipta sér af þeirra sambandi og koma sér í burtu, þar sem Sólrún væri búin að biðja hann um að fara. Garðar sagðist allan tímann hafa haldið á vasahnífnum í hægri hendi í mittishæð. Strákurinn hefði ýtt honum upp að stöðumæli og gengið fast upp að honum, eins og hann væri að gera sig líklegan til þess að skalla hann í andlitið. Garðar sagðist ekki muna málsatriði nákvæmlega en strákurinn hefði allavega veist að honum og hann fallið ofan á vélarhlíf bifreiðarinnar og strákurinn ofan á hann, líklega til þess að slá hann.
Garðar sagði að skyndilega hefði strákurinn sagt við hann: “Þú stakkst mig”. Garðar segir að strákurinn hafi ítrekað sagt: “Hann stakk mig, hann stakk mig”. Garðar sagði að strákurinn hefði verið mjög æstur og skyndilega hefði strákurinn ætlað að rjúka í hann aftur með þeim orðum að hann ætlaði að drepa hann (Garðar). Garðar sagðist hafa orðið mjög undrandi því hann hefði ekki stungið strákinn, a.m.k. ekki viljandi, líklegra væri að strákurinn hefði lagst ofan á hnífinn þegar þeir voru ofan á vélarhlífinni. Garðar sagðist hafa haldið að strákurinn væri orðinn óður og því hefði hann ákveðið að koma sér í burtu en strákurinn hefði hlaupið á eftir, en Garðar segir að sér hefði þótt það skrýtið ef hann hefði átt að vera búinn að stinga hann þá skömmu áður með hnífi. Hann kvaðst ekki vita hvað orðið hefði um hnífinn því að þegar hann hefði tekið til fótanna hefði hann ekki verið með hnífinn og hefði haldið að strákurinn væri með hann, þar sem hann hljóp á eftir honum. Garðar segir það einnig mögulegt að hann hafi sleppt takinu af hnífnum þegar þeir hafi legið ofan á vélarhlíf bifreiðarinnar, þar sem hann hefði spyrnt sér frá bifreiðinni með því að taka um bretti bifreiðarinnar, en þá hefði hann ekki verið með hnífinn. Garðar taldi einnig að einhver vitni hlytu að vera að hótunum stráksins í hans garð.
Garðar kvaðst hafa hlaupið einhvern lítinn hring í miðbænum til þess að losna við strákinn því að hann hefði ekki viljað lenda í átökum við hann. Strákurinn væri yngri en hann og nokkuð hærri vexti. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum áfengis þá um morguninn og taldi að strákurinn hefði einnig verið undir áhrifum áfengis og æstur. Garðar sagði að hann hefði farið aftur á vettvang en þá hefði Sólrún verið farin og strákurinn einnig en Ívar hefði verið á vettvangi. Hann sagðist hafa beðið Ívar um að hafa uppi á Sólrúnu, en það ekki gengið. Hefði hann því ákveðið að ganga heim að Hringbraut 111, þar sem hann taldi víst að Sólrún hefði farið þangað.
Garðar kvaðst hafa rölt um bæinn þar til hann hefði komið að Aðalstræti og þar hefði hann ákveðið að leggja sig í einhverri bifreið. Garðar sagðist ekki muna þetta nákvæmlega en allavega hefði hann farið inn í einhverja bifreið en síðan farið inn í eitthvert hús og lagst þar til svefns. Hefði hann síðan vaknað upp við það að lögreglan var kominn og hann handtekinn og færður á lögreglustöðina. Vildi hann árétta það að hann hefði ekki viljandi stungið strákinn, það hefði verið slys, þar sem strákurinn hefði ráðist á hann. Hann hefði aldrei lagt til nokkurs manns með hnífi hvorki í átökum eða undir öðrum kringumstæðum.
Garðar er nú beðinn um að lýsa hnífnum sem hann hefði verið með þá um morguninn í Lækjargötu. Kvað hann hnífinn hafa verið lítinn vasahníf, silfurgrár að lit, lengd hnífblaðsins gæti verið u.þ.b. fimm til sex sentimetrar. Spurður um hæð og þyngd, kvaðst hann vera 161 sm á hæð og u.þ.b. 65 kg á þyngd. Hann kvað hnífinn hafa fylgt bifreiðinni sem hann væri nú eigandi að og enginn gerði tilkall til hnífsins. Kvaðst hann hafa lagt hnífinn frá sér við annað framdekk bifreiðarinnar, þ.e. á bak við dekkið þannig að hann sæist ekki. Þetta hefði hann gert til þess að getað opnað bifreiðina síðar eins og hann væri þegar búinn að skýra frá. Spurður um vímuefnanotkun sína um nóttina og um morguninn, kvaðst hann telja að hann hefði drukkið tvo til þrjá bjóra um nóttina og aðeins af sterku áfengu Whiskey.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 22. desember 2000. Kvaðst hann ekki vilja breyta eða bæta við fyrri framburð sinn í málinu frá 20. ágúst sama ár. Var honum þá kynntur hluti framburðar vitnisins Sigríðar Gróu Guðmundsdóttur þar sem segir orðrétt: „Ég sá síðan að Lárus og maðurinn voru eitthvað æstir líklega vegna þess að Lárus vildi ekki að maðurinn keyrði stúlkuna og bróður hennar heim þar sem hann var greinilega ölvaður. Ég ók bifreið minni að bifreið mannsins sem hafði lagt í námunda við veitingastaðinn Ozio í Lækjagötu og sá ég manninn fara inn í bifreiðina sína og sækja frakka sem hann hafði verið í fyrst þegar ég sá hann. Ég heyrði Lárus segja nokkrum sinnum við manninn “ég vil ekki slást við þig”. Ég sá að maðurinn ýtti Lárusi að rauðum vegg á húsi við Lækjargötu en ég man ekki hvaða hús það var en það gæti hafa verið austurlenskur veitingastaður á horninu á Skólabrú/Lækjargötu. Maðurinn fór síðan frá Lárusi og ætlaði að bifreiðinni sem hann var á. Lárus lyfti upp peysunni sem hann var í og sagði við mig “sjáðu hvað hann gerði” og ég sá blóðrispu vinstra megin neðan við nafla. Einhvern tíman í millitíðinni settist stúlkan og bróðir hennar inn í bifreiðina hjá manninum. Lárus kallaði til mannsins “ég drep þig” og síðan hljóp hann á eftir honum inn Skólabrú en þá missti ég sjónar af þeim.” Kvað Garðar þennan framburð ekki vera réttan, hann kvaðst eiginlega ekkert hafa verið ölvaður, hann hefði verið búinn að drekka nokkra léttáfenga orkudrykki yfir nóttina. Hann kvaðst hafa opnað bifreiðina sína og Ívar hefði tekið frakkann út úr bifreiðinni að hann minnti. Hann kvað það vera ósatt að Lárus hefði sagt við hann að hann vildi ekki slást við hann og kvaðst ekki hafa ýtti honum upp að þessu húsi heldur hafi það verið Lárus sem hefði ýtt honum upp að húsinu. Vildi hann taka það fram að hann hefði ekki verið gefinn fyrir ofbeldi og Lárus hefði elti hann nokkrum sinnum í kring um bifreið hans, kvaðst hann hafa ítrekaði margoft að hann vildi ekki slást við Lárus. Hann kvaðst hafa verið með hníf til þess að opna bifreiðina, Lárus hefði skallað hann og hann hefði fallið aftur á húddið á bifreið sinni, hann hefði síðan komið á eftir honum og fallið á hnífinn. Vildi hann taka það fram að þetta væri bara slys.
Garðari var þá kynntur hluti skýrslu sem skrifuð hafði verið eftir viðtal við vitnið Ívar Örn Axelsson þar sem segir orðrétt: „Ívar kvað Garðar og Lárus hafa farið að rífast vegna þess að Lárus var ekki sáttur við að Garðar myndi aka þeim heim þar sem Garðar var ölvaður. Hann sagði að Garðar og Lárus hefðu rifist nokkuð mikið og hefðu þeir verið að ýta í hvorn annan. Ívar kvaðst hafa farið inn í bifreið Garðars ásamt Sólrúnu þegar hann sá Garðar draga upp hníf sem hann var með á sér. Ívar sagði að hann hefði séð Garðar halda á hnífnum fyrir aftan bak.” Kvað Garðar þetta ekki rétt, að hann hefði verið með hnífinn eftir að þau voru kominn inn í bifreiðina. Hnífurinn hefði verið ofan á dekki bifreiðar hans en Ívar og Sólrún hefðu setið inni í bifreið móður Lárusar.
Garðari var þá kynntur hluti framburðar vitnisins Sólrúnar Axelsdóttur frá 4. október sl. þar sem segir orðrétt: „Garðar náði að tala mig til áður en ég gaf síðustu skýrslu í málinu og náði hann að hafa áhrif á vitnisburð minn. Þá hefur Garðar einnig haft samband við bróður minn, Ívar Axelsson, og er ég sannfærð um að hann hafi haft áhrif á vitnisburð Ívars, m.a. með því að versla fyrir Ívar áfengi í ÁTVR en Ívar er aðeins 13 ára gamall.” Kvað Garðar hana bulla, þetta væri alrangt. Hann kvað Sólrúnu vera ólétta eftir hann og hún vildi ekki hafa hann á fylliríi úti í bæ og hefði hún sagt þetta til þess að fá hann heim aftur.
Garðari var þá kynnt eftirfarandi brot úr framburði Sólrúnar frá sama tíma: „Umrædda nótt er hnífstungan átti sér stað þá hitti ég Lárus á Lækjargötu. Lárus bauð mér far heim og sagði hann að móðir hans væri á leiðinni að sækja hann. Skömmu síðar komu að Ívar og Garðar en þeir höfðu verið með mér um nóttina. Lárus bauð Garðari og Ívari einnig far þegar þeir komu til okkar. Um það leyti sem móðir Lárusar kom á staðinn þá fór Garðar í burtu, að eigin sögn til þess að sækja einhverja hluti í bílinn sinn. Ég og Ívar settumst inn í bíl móður Lárusar og biðum eftir Garðari. Garðar hringdi í mig þegar við vorum að bíða eftir honum og fór að rífast í mér, ég man ekki nákvæmlega hvað hann sagði en hann var greinilega afbrýðisamur, spurði hann m.a. hvaða strákfífl þetta væri er hann spurði um Lárus. Garðar heimtaði að ég og Ívar færum út úr bílnum. Ég heyrði í hvernig ham Garðar var og var ég hrædd við hann. Garðar, sem var mjög ölvaður, sagði við mig í símann að við ættum ekki að fara með fullum manni þegar hann (Garðar) væri bláedrú ökumaður. Ég hlýddi Garðari og fór út úr bíl móður Lárusar ásamt Ívari.” Kvaðst hann aldrei hafa hringt í Sólrúnu þegar hann var að sækja hluti í bifreiðina, en þau hefðu verið að rífast um nóttina.
Garðari var þá kynnt eftirfarandi brot úr framburði Sólrúnar frá sama tíma: „Garðar kom skömmu síðar til okkar á bílnum sínum. Lárus og Garðar fóru báðir út úr bílunum og gekk Lárus að Garðari. Garðar byrjaði á því að vera með hortugheit við mig og fór Lárus þá að verja mig og upphófst þá mikið rifrildi. Lárus kvaðst ekki vilja að Garðar æki okkur heim ölvaður en Garðar svaraði því til að honum kæmi það ekkert við og sagði hann Lárusi að drulla sér í burtu. Einhver meiri orðaskipti urðu á milli Garðars og Lárusar og voru þeir aðeins farnir að ýta á hvorn annan.” Kvaðst Garðar hafa ætlað að ganga heim með Sólrúnu en Lárus hefði viljað fara heim með henni og hefði hann aldrei boðið honum far með þeim.
Þá var Garðari kynnt eftirfarandi brot úr framburði Sólrúnar frá sama degi: „Ég sá ekki hnífstunguna þar sem ég var að huga að Ívari. Ég sá er Ívar horfði á Lárus og Garðar og brast skyndilega í grát, en Ívar sagði mér síðar að hann hefði séð Garðar taka upp hníf og stinga Lárus með honum. Ég og Ívar vorum rétt hjá Garðari og Lárusi og sneri Ívar sér þannig að hann sá vel hvað var að gerast.” Kvað hann þennan framburð rangan. Ívar og Sólrún hefðu setið inni í bifreið móður Lárusar er slysið átti sér stað.
Honum var þá kynnt niðurstaða rannsóknarstofu í lyfjafræði á alkóhólrannsókn og lyfjarannsókn á blóð- og þvagsýnum sem tekin höfðu verið úr honum eftir handtöku klukkan 11.45. Þar kemur fram að alkóhólmagn í blóði hafi verið 0.64 prómill en í þvagi hefði það verið 1.04 prómill. Þá kemur einnig fram að í þvagi hafi mælst amfetamín. Spurður um þessar niðurstöður kvaðst hann eftir slysið hafa fengið sér nokkrar róandi töflur og drukkið áfengi. Hann hefði síðan farið inn í stigagang húss sem hann viti ekki hvar sé og sofnað þar. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa tekið inn amfetamín viljandi.
Loks var Garðari birt framkomin skaðabótakrafa Lárusar Arnar Þórissonar að samtals fjárhæð kr. 975.353. Hafnaði hann kröfunni þar sem hann taldi sig ekki vera bótaskyldan, þetta hefði verið slys og óhappatilvik.
Brotaþoli, Lárus Arnar Þórisson, kvaðst fyrir dóminum hafa hitt Sólrúnu Axelsdóttur að morgni 20. ágúst sl. og hefði hún verið eitthvað dauf í dálkinn. Hann hefði ákveðið að bjóða henni far heim og í því hefði litli bróðir hennar komið og skömmu seinna ákærði. Vitnið kvaðst hafa boðið þeim öllum far en ákærði hefði þurft að fara til að sækja lykla eða jakka í bíl sem hann hefði verið með þarna rétt hjá. Þau hefðu beðið eftir honum í góða stund og hefði hann komið akandi. Aðspurður kvaðst hann telja að ákærði hefði lagt bíl sínum rétt fyrir aftan bíl móður hans, en var ekki viss. Sólrún hefði farið út úr bíl móður vitnisins og ætlað að fara í bílinn hjá ákærða og taka bróður sinn með, en vitnið kvaðst hafa sagt að það kæmi ekki til greina þar sem ákærði væri undir áhrifum. Þá hefðu þeir ákærði byrjað að rífast og þeir hefðu öskrað hver á annan. Þeir hefðu farið að ýtast á og kvaðst vitnið hafa ýtt ákærða upp að vegg. Hann kvaðst svo allt í einu hafa séð hvar ákærði hélt á hnífi og kvaðst vitnið þá hafa gripið um síðuna á sér og séð blóð á höndum sínum. Honum hefði brugðið og hann kallað til móður sinnar: „Sjáðu hvað hann gerði!” Þá hefði ákærði hlaupið af stað og hann á eftir og næst kvaðst hann muna eftir sér við Pósthúsið. Hann kvaðst ekki hafa náð ákærða. Aðspurður neitaði vitnið að hafa skallað ákærða. Borinn var undir hann framburður ákærða um að þetta hefði verið slys og vitnið hefði fallið á hníf sem ákærði hefði verið með í hendinni þegar þeir hefðu verið við bíl hans og hefðu dottið ofan á vélarhlífina. Neitaði vitnið þessu. Hann kvaðst ekki hafa fundið fyrir því er hnífurinn gekk inn í kvið hans. Vitnið kvaðst telja að þeir hefðu verið við húsvegginn þegar hann varð fyrir stungunni en ekki við bílinn en kvaðst ekki vera viss um hvenær í átökunum þetta gerðist. Vitnið kvaðst ekki muna til að hafa legið ofan á ákærða nokkurn tíma á meðan á átökum þeirra stóð. Nánar spurður um málsatvik kvaðst hann hafa verið ósáttur við ákærða og einhvern tímann í átökunum hafa hrint honum upp að húsvegg, líklega á Kínahúsinu. Hann taldi það geta verið að einhver átök hefðu orðið við bíl ákærða. Sagði hann að það hefðu verið hrindingar og kvaðst ekki minnast þess að þeir hefðu dottið ofan á húddið á bílnum. Hann kvað vel geta verið að hann hefði sagt við ákærða „ég skal drepa þig,” þegar hann áttaði sig á að hann hafði verið stunginn. Hann treysti sér ekki til að staðfesta að hnífur sem lagður er fram í málinu sé sá sami og hann var stunginn með. Hann kvað ákærða hafa sýnt sér snöggt hnífinn sem hann hélt á þegar ákærði var kominn aðeins frá honum. Þá hafi hann áttað sig á að hann hafði verið stunginn. Spurður út í afleiðingar áverkans kvaðst hann hafa farið í tvær aðgerðir. Líkamlega líðan sína kvað hann vera í lagi í dag, en kvaðst stríða við afleiðingar andlega. Hann sýndi dóminum tvö ör á kvið annað neðarlega á kvið vinstra megin eftir stunguna, hitt eftir miðlínuskurð, mjög stórt og tætt. Spurður af verjanda staðfesti hann að ákærði hefði komið á spítalann og beðist afsökunar og sagt að vitnið hefði dottið á hnífinn.
Spurður vegna bótakröfu kvaðst hann hafa átt bókað far til Kaupmannahafnar 25. ágúst, hann hefði verið að fara í frí til föður síns. Hann kvað BYKO, en þar vann hann, hafa greitt eitthvað meðan hann var veikur. Hann hefði orðið að taka sumarfríspeningana til að eiga einhverja peninga meðan hann var á spítalanum. Hann mundi ekki með vissu hversu löng spítalavistin var en svo hafi hann verið rúmliggjandi heima, hann hafi ekki getað hreyft sig. Taldi að samtals gætu það hafa verið um tvær vikur. Varðandi peysu sem skemmdist kvaðst hann ekki hafa keypt samskonar peysu aftur en taldi að hún hefði kostað 4-6.000 krónur.
Borin var saman stærð brotaþola og ákærða í réttinum og reyndist brotaþoli vera höfðinu hærri.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu, sem dagsett er 1. september 2000 og er tekin á dvalarstað hans, skýrir brotaþoli svipað frá. Hann kvaðst hafa verið búinn að hringja í móður sína sem ætlaði að sækja hann. Fyrir framan Topshop í Lækjargötu hefði hann hitt Sólrúnu Axelsdóttur, sem hann hafði kynnst í áfengismeðferð á Teigi. Hún hefði verið einsömul, mjög döpur og grátandi. Skömmu síðar hefði bróðir hennar, 13 ára, komið með einhverjum manni. Móðir hans hefði síðan komið að Topshop og hefði hann boðið þeim far heim, sem þau hefðu þegið. Maðurinn hefði sagst þurfa að skreppa frá til að ná í jakka eða lykla í bifreið skammt frá. Þau hefðu beðið nokkurn tíma í bifreið móður hans. Sólrún eða bróðir hennar hafi farið út úr bifreiðinni og maðurinn þá komið akandi og lagt fyrir framan bifreiðina sem þau voru í. Hann kvaðst hafa sagt við manninn að Sólrún og bróðir hennar færu ekki með honum þar sem hann væri ölvaður. Síðan segir orðrétt: „Maðurinn varð eitthvað fúll og ég líka og maðurinn var ekki sáttur við að ég skyldi vera að skipta mér af og sagði mér að fara aftur inn í bifreið okkar. Ég var rosalega fúll og öskraði á manninn þegar hann sagði mér að fara inn í bíl. Maðurinn ýtti eitthvað í mig og ég varð þá pirraður og æsti mig meira en hann ýtti þá aftur í mig. Þvínæst hrinti ég manninum upp að vegg. Það næsta sem ég man var að ég var staddur upp við bifreið mannsins og ég sá hann halda á hníf fyrir framan mig og sýna mér hann. Ég man ekki eftir því að hafa séð blóð á hnífnum . Ég fann að ég var blautur neðarlega á kvið og ég lyfti upp bolnum sem ég var í og sá að ég var með blóðugan áverka. Ég kallaði til mannsins “hvern andskotan varstu að gera” ég sýni síðan móður minni stunguáverkan.” Sagði hann manninn síðan hafa hlaupið í burtu og hann á eftir. Hann vísaði á bug þeim framburði Garðars að hann hefði lagst eða fallið á hnífinn, hann kvaðst allan tímann hafa staðið uppréttur.
Vitnið Sigríður Gróa Guðmundsdóttir, móðir brotaþola Lárusar Arnar, kvaðst fyrir dóminum hafa komið akandi í bæinn að morgni 20. ágúst 2000 og stöðvað fyrir utan verslunina Topshop í Lækjargötu en þar hefði Lárus Arnar verið staddur. Þar hefði kona setið á hækjum sér og Lárus hefði staðið yfir henni og verið að tala við hana. Hann hefði gefið sér merki um að bíða. Eftir stutta stund hefði hann komið að bílnum og spurt hvort hún væri ekki til í að keyra fólkið heim, þ.e. þessa stúlku, lítinn dreng og mann, og hún hefði játt því. Stúlkan og drengurinn hefðu sest inn í bílinn en maðurinn hefði sagst þurfa að ná í lykla og hefði beðið sig um að bíða. Hann hefði síðan gengið í áttina að höfninni en þau hin hefðu setið góða stund inni í bílnum og verið að spjalla. Síðan hefði stúlkan þurft að pissa og þau hefðu öll farið út úr bílnum, þ.e. stúlkan, drengurinn og Lárus, og hefðu gengið fyrir hornið á Topshop inn í sund. Þá hefði komið gangandi maður í gráum rykfrakka og hún hefði þekkt aftur manninn sem hafði farið að ná í lyklana. Hann hefði farið að tala við þau öll og þau hefðu gengið í áttina að Skólabrú og staðnæmst hjá veitingastað sem standi á horninu á Skólabrú og Lækjargötu. Veitingastaðurinn heiti Kínahúsið. Kvaðst hún hafa ekið í humátt á eftir þeim og lagt fyrir aftan bíl sem hefði staðið þar og ákærði hefði gengið að honum. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt hvað þeim fór á milli nema að Lárus hefði sagt „ég ætla ekki að slást við þig.” Sér hefði ekki litist á blikuna og þess vegna keyrt á eftir hópnum. Þegar þau hefðu verið komin að veitingastaðnum hefði ákærði farið inn í bílinn, sem þar stóð, farþegamegin og náð í eitthvað en stúlkan, Sólrún, hefði verið eitthvað óstyrk og hálfgrátandi. Einhver orðasenna hefði verið á milli Lárusar og ákærða og Lárus hefði ítrekað orð sín um að hann ætlaði ekki að slást við hann og stúlkan hefði beðið ákærða um að hætta einhverju sem vitnið gerði sér ekki grein fyrir hvað var. Þegar ákærði og Lárus hefðu staðið upp við vegginn á Kínahúsinu og sjoppunni hefði Lárus staðið með bakið í vegginn og ákærði fyrir framan hann og þeir hefðu verið að ýta í hvorn annan. Það næsta sem hún hefði séð hefði verið að Lárus hefði lyft upp peysunni og sagt: „Sjáðu hvað hann gerði” Vitnið kvaðst hafa setið í bílstjórasæti bíls síns en allir gluggar hefðu verið opnir vegna þess að fólkið hefði opnað þá þegar það sat inni í bílnum, þau hefðu verið að reykja. Vitnið kvað Lárus hafa hlaupið á eftir ákærða strax í framhaldi af því að hann lyfti upp peysunni og hefði hann sagt: „Nú drep ég þig!” Ákærði hefði fyrst hlaupið að bíl sínum og ætlað inn en síðan hlaupið á brott inn eftir Skólabrú og Lárus á eftir honum. Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa séð hníf í hendi ákærða þegar þeir voru að ýta hvor í annan. Hún kvaðst hafa hugsað með sér að ákærði hefði rispað Lárus með glerbroti, henni hefði aldrei dottið hnífur í hug. Vitnið kvaðst hafa horft á þá allan tímann en kvaðst ekki hafa séð hnífsstunguna. Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa séð Lárus skalla ákærða, hann hefði ítrekað sagt að hann vildi ekki slást, enda væri Lárus um tveir metrar á hæð en ákærði mikið lægri maður. Aðspurð kvað vitnið þá aldrei hafa lagst upp á vélarhlíf bifreiðar ákærða, þeir hefðu ekki verið nálægt henni þegar átökin áttu sér stað, eingöngu eftir að Lárus hafði verið stunginn. Ítrekað spurð kvaðst vitnið alveg viss um þetta. Nánar spurð kvaðst vitnið einnig viss um að Lárus hefði staðið með bakið upp við vegginn á húsinu þegar hann og ákærði voru að ýtast á og síðan hefði Lárus lyft upp peysunni. Vitnið kvaðst hafa séð Lárus yfir öxl ákærða, þar sem ákærði væri mun lægri að vexti. Ítrekað spurð og bent á að Lárus hefði sagt að hann hefði ýtt ákærða upp að veggnum, kvaðst hún alveg viss um að Lárus hefði staðið með bakið upp við húsvegginn og hefði hún séð hann yfir manninn, hefðu þeir ýtt hvor á annan og hefði Lárus sagt nokkrum sinnum „ég ætla ekki að fara að slást við þig.” Maðurinn hafi svo gengið frá Lárusi og hann hafi þá lyft upp peysunni. Ítrekað spurð kvaðst hún alveg viss um að þeir hefðu ekki verið að ýtast á við bílinn. Hún kvaðst hafa fylgst vel með þeim því hún hefði óttast slagsmál, en hnífsstunguna hefði hún þó ekki séð. Hún bar að Sólrún og bróðir hennar hefðu sest inn í bíl ákærða og einhvern tíman hefði Sólrún komið aftur út, en vitnið mundi ekki nákvæmlega hvernig þessu var háttað. Eftir að þeir hlupu á brott kvaðst vitnið hafa beðið í skamma stund en þá hefði síminn hringt og henni hefði verið sagt að Lárus væri á tröppunum hjá Pósthúsinu og hefði verið stunginn. Vitnið sagðist ekki hafa verið undir áhrifum, hún kvað Lárus hafa verið drukkinn en hún vissi ekki um Sólrúnu og kvaðst ekki hafa komið nálægt ákærða. Nánar spurð kvaðst vitnið viss um staðsetningu bifreiðanna og kvað rangt eftir sér haft hjá lögreglu að ákærði hefði lagt bíl sínum við veitingastaðinn Ozio. Hún hefði sagt við rauða húsið á horninu. Hann hefði lagt við hornið og hún beint fyrir aftan. Hún kvað andlega líðan Lárusar hafa verið mjög slæma eftir atburðinn og hefði hann ekki getað rætt þetta.
Framburður vitnisins hjá lögreglu var í samræmi við vætti hennar fyrir dóminum. Er meginkjarni hans þar endursagður hér að fram í tengslum við lögregluskýrslu ákærða frá 22. desember.
Vitnið Sólrún Axelsdóttir, barnsmóðir og unnusta ákærða, kvaðst fyrir dóminum hafa hitt brotaþola, Lárus, sem hún þekkti þar sem þau hefðu verið saman í meðferð. Hún kvaðst hafa verið í einhverju sálarstríði þarna og hann hefði boðist til þess að keyra þau, hana og bróður hennar vitnið Ívar, heim. Garðar hefði ekki verið alveg sáttur við það. Þegar mamma Lárusar hefði komið þá hefðu þau Ívar sest upp í bílinn hjá henni, en Garðar hefði farið og síðan hefði hann komið aftur og þá hefði hann ákveðið að þau færu þrjú heim í hans bíl. Lárus hefði ekki alveg viljað „bekenna” það og hafi komið á eftir þeim og þeir hafi farið að tala saman, Garðar og Lárus, og orðið eitthvað sundurorða þarna. Hún taldi að þetta hefði verið fyrir neðan Topshop nálægt Skólabrú, þar hefði bíll ákærða verið, við Kínahúsið eða fyrir utan Skalla. Hún kvaðst ekki hafa séð hvernig þetta átti sér stað. Sjálf hefði hún verið inni í bíl ákærða ásamt Ívari bróður sínum. Hún kvað það eina sem hún hefði séð vera að Lárus hefði „skallað aðeins” Garðar, sem þá hefði ýtt honum aftur, og síðan hefðu þeir fært sig eitthvað af stað. Spurð um það sem haft er eftir henni í lögregluskýrslu að þetta hafi verið „orðahnippingar og lítilsháttar pústrur,” kvað hún þetta hafa verið það eina sem hún sá. Hún var þá spurð út í það sem fram kemur í skýrslum hennar að hún hafi verið að fylgjast með bróður sínum Ívari og hann hafi séð eitthvað sem hann hafi sagt henni. Þá kvaðst hún ekki hafa sagt rétt frá í skýrslunni sem hún gaf síðar um að Ívar hefði séð atburðinn og hefði það verið vegna ósættis milli hennar og Garðars, þá kvaðst hún einnig hafa haft „tiltölulega mikil áhrif” á vitnisburðinn hjá Ívari bróður sínum. Nánar spurð af verjanda hvort hún myndi eftir einhverjum átökum við bifreið Garðars á milli Lárusar og Garðars, kvað hún eitthvað hafa verið skallað og ýtt, en hún myndi þetta voðalega óljóst. Hún kvaðst ekki hafa séð hníf í hendi ákærða. Spurð hvort þeir hefðu einhvern tímann legið ofan á bílnum Garðar og Lárus, kvaðst hún ekki geta sagt um það, en þetta hafi alla veganna verið nálægt bílnum kvað hún þau hafa verið að fara inn í bílinn þegar hún hafi séð þetta. Hún hafi ekki séð að Lárus fékk stungu. Spurð hvort Ívar hefði sagt eitthvað við hana um þessi áflog, kvað hún hann hafa sagt seinna að hann hefði ekki séð þetta. Hann hefði ekki talað um þetta þarna á staðnum, hann hefði bara allt í einu farið að gráta og þess vegna hefði hún farið að hlú að honum og ekki tekið eftir einu eða neinu sem var að gerast. Hún kvað Ívar hafa drukkið eitthvað af bjór um nóttina.
Vitnið Sólrún gaf nokkrum sinnum skýrslu hjá lögreglu vegna þessa máls. Hinn 20. ágúst 2000, morguninn eftir atburðinn, sagði Sólrún svo frá að hún hefði farið í bæinn með ákærða og Ívari bróður sínum. Um klukkan sex um morguninn hefði hún hitt Lárus Arnar fyrir utan veitingastaðinn Jómfrúna í Lækjargötu. Áður hefði henni og ákærða orðið sundurorða, en hann væri tilvonandi barnsfaðir hennar og þau hefðu búið saman í stormasamri sambúð í um ár. Garðar hefði verið í æstu skapi og komið að skömmu eftir að hún hafði farið að ræða við Lárus og verið vinsamlegur í fyrstu. Þegar móðir Lárusar hefði komið á bifreið sinni til að sækja Lárus hefði Lárus boðið þeim öllum far og kvaðst Sólrún hafa sest inn í bílinn ásamt Ívari en Garðar hefði farið til að ná í bifreið sína, MZ-428, svartan Peugeot 309, sem lagt var við Tryggvagötu. Síðan hefði ákærði hringt í hana og síðan komið akandi að Lækjargötu/Skólabrú. Sólrún kvaðst hafa ákveðið að Lárus og móðir hans yrðu ekki fyrir áreiti af hendi ákærða, en hún hefði heyrt á honum að hann væri til alls líklegur, og því farið út úr bílnum. Lárus hefði ekki viljað að þau færu með ákærða en hún hefði verið ákveðin. Ákærði hefði síðan komið þarna að og einhver orðaskipti og pústrar hefðu orðið á milli ákærða og Lárusar þar sem þau hefðu verið stödd. Hún hefði komið bróður sínum fyrir í bíl ákærða, þar sem hann hefði verið skelkaður, en þegar þar var komið sögu hefði ákærði hlaupið af vettvangi, vestur Skólabrú, og Lárus á eftir honum. Hún hefði farið á eftir þeim skömmu síðar ásamt móður Lárusar. Sólrún var spurð af lögreglu hvort hún vissi til að ákærði hefði haft í fórum sínum hníf um nóttina eða hvort hann bæri á sér hníf að staðaldri og neitaði hún því. Aðspurð hvort hún teldi hugsanlegt að ákærði hefði brugðið hnífi er þeir Lárus áttu í orðahnippingum og pústrum í Lækjargötu, kvaðst Sólrún ekki treysta sér til að alhæfa neitt um það en henni hefði þótt skrýtið að Lárus skyldi taka á rás á eftir ákærða.
Hinn 24. ágúst 2000 var Sólrún aftur kölluð fyrir lögreglu til skýrslutöku og lýsti hún því þá yfir að hún kysi að tjá sig ekki um málið og skoraðist undan vitnaskyldu, með vísan til 50. gr. laga nr. 19/1991, þar sem hún væri sambýliskona og tilvonandi barnsmóðir ákærða.
Hinn 4. október 2000 var tekin önnur skýrsla af Sólrúnu og kvaðst hún þá hafa ákveðið eftir mikla umhugsun að gefa skýrslu þar sem hún hefði ekki ástæðu til að koma sjálfri sér í vandræði vegna ákærða. Hún skýrði einnig frá því að þau væru ekki lengur í sambúð. Sólrún kvaðst hafa hitt Lárus Arnar í Lækjargötunni. Hann hefði boðið sér far og sagt að móðir hans væri að koma til að sækja sig. Skömmu síðar hefðu Ívar bróðir hennar og ákærði komið að, en þau hefðu verið saman um nóttina. Lárus hefði einnig boðið þeim Ívari og ákærða far heim. Þegar móðir Lárusar hefði komið hefði ákærði farið til að ná í eitthvað í bílinn sinn en Sólrún og Ívar sest inn í bílinn hjá móður Lárusar. Ákærði hefði hringt í hana og farið að rífast, spurt hvaða strákfífl þetta væri, en þar hefði hann átt við Lárus. Ákærði hefði síðan heimtað að hún og Ívar færu út úr bílnum. Hún hefði heyrt í hvernig ham hann var og verið hrædd við hann og þau hefðu farið út. Ákærði hefði sagt að þau ættu ekki að fara með drukknum manni þegar hann, sem var mjög drukkinn að sögn Sólrúnar, væri bláedrú. Ákærði hefði komið skömmu síðar á bíl sínum. Lárus og ákærði hefðu báðir farið út úr bílunum og kvað Sólrún ákærða hafa farið að atyrða sig en þá hefði Lárus farið að verja hana og hefði upphafist mikið rifrildi á milli Lárusar og ákærða. Lárus hefði sagt að hann vildi ekki að ákærði æki þeim ölvaður en ákærði svarað því til að honum kæmi þetta ekki við. Einhver frekari orðaskipti hefðu verið á milli þeirra og hefðu þeir verið farnir að ýta hvor við öðrum, Lárus hefði líklega byrjað. Átökin hefðu byrjað við bíl ákærða, svartan Peugeot, sem hefði verið lagt í Lækjargötunni, nálægt Skólabrú. Rifrildið hefði byrjað úti á götu en þeir fljótlega fært sig inn á gangstéttina. Sólrún kvaðst ekki hafa séð hnífsstunguna þar sem hún hefði verið að huga að Ívari bróður sínum. Hann hefði verið að horfa á átökin og skyndilega brostið í grát. Ívar hefði seinna sagt sér að hann hefði séð ákærða taka upp hníf og stinga Lárus með honum. Sólrún kvað þau hafa staðið rétt hjá ákærða og Lárusi og hefði Ívar snúið þannig að hann hefði séð vel til þeirra. Skyndilega hefði hún séð hvar Lárus hljóp á eftir ákærða inn eftir Skólabrú. Skömmu síðar hefði hún farið með móður Lárusar að veitingastaðnum Kaffi París og séð hvar lögregla og sjúkralið voru komin á staðinn. Sólrún greindi frá því að bróður sínum hefði liðið illa eftir atburðinn og m.a. kennt sér um, þar sem hann hefði gefið ákærða hnífinn sem hann hefði notað. Aðspurð kvaðst Sólrún hafa drukkið lítillega af áfengi og muna atburðinn vel. Ívar hefði verið allsgáður en Lárus Arnar og ákærði mjög drukknir. Móðir Lárusar hefði verið allsgáð.
Hinn 12. janúar sl. gaf Sólrún enn skýrslu hjá lögreglu, en þá hafði fyrri skýrsla hennar verið borin undir ákærða og hann neitað því sem þar kom fram og sakað Sólrúnu um að segja ósatt til að hefna sín á honum.
Í þeirri skýrslu kvað Sólrún þau ákærða ekki vera í sambúð en hann hringdi stundum í sig. Aðspurð kvaðst Sólrún halda sig við sinn fyrri framburð en tók fram að hún vildi helst draga sig alveg út úr málinu þar sem hún væri í mjög erfiðri aðstöðu. Hún og ákærði hefðu ekki rætt þetta mál mikið en hann sagt að framburður hennar kæmi sér illa. Hann hefði ekki beinlínis beðið sig um að breyta framburðinum. Borin voru undir hana eftirfarandi ummæli ákærða: „Þá óska ég eftir því að málið verði borið undir Sólrúnu á ný þar sem hún var með framburði sínum að ná sér niðri á mér en ekki að skýra satt og rétt frá atburðum.” Sólrún neitaði þessu og kvaðst hafa skýrt satt og rétt frá.
Vitnið Ívar Örn Axelsson, bróðir vitnisins Sólrúnar Axelsdóttur, fæddur 1987, kvaðst fyrir dóminum hafa verið niður í bæ með Sólrúnu systur sinni og Garðari aðfararnótt 20. ágúst í fyrra. Hann kvað þau hafa hitt Lárus fyrir utan Topshop. Það hafi orðið einhverjar ósættir á milli Garðars og Sólrúnar, svo hafi mamma Lárusar komið að sækja þau og hann hafi sest inn í bílinn hennar og Garðar hefði ætlað að sækja bílinn sinn. Svo hafi verið einhverjar ósættir á milli Garðars og Lárusar og hann hafi ekki séð meira „ég sá ekkert hvað gerðist.” Minntur á að hann hefði sagst hafa séð meira þegar rætt var við hann hjá lögreglu 31. ágúst 2000, kvað hann Sólrúnu þá hafa beðið hann um að segja ósatt og hafi hann gert það og þá hafi verið ósætti á milli Garðars og Sólrúnar. Hann kvaðst nú vera að segja 100% sannleikann og hann gæti ekkert borið um þennan atburð. Spurður hvert hann hefði verið að horfa þegar hann var inni í bílnum, kvað hann Sólrúnu hafa setið með sér inni í bílnum og hann vissi það ekki „ég held ég hafi verið með lokuð augun bara.” Spurður hvers vegna hann hefði farið að gráta allt í einu, kvaðst hann bara hafa verið eitthvað hræddur vegna látanna á milli þeirra. Hann sagði rétt eftir sér haft að Garðar og Lárus hefðu verið að ýta hvor á annan. Hann sagði það ekki rétt að hann hefði séð ákærða draga upp hníf og halda hnífnum fyrir aftan bak og kvaðst ekki hafa séð hníf. Spurður hvar þeir hefðu verið að ýtast, kvað hann það hafa verið við bílinn, kvaðst ekki hafa séð þá leggjast ofan á bílinn og kvaðst ekki hafa séð Lárus skalla Garðar.
Vitnið Ívar Örn kom til lögreglu í fylgd móður sinnar hinn 31. ágúst 2000. Þar sem hann var 13 ára gamall var ekki tekin formleg lögregluskýrsla en skýrsla skrifuð um viðtalið. Ívar kvaðst muna atburði og ekki hafa verið ölvaður. Hann hefði verið í miðbænum ásamt systur sinni, Sólrúnu, og sambýlismanni hennar, Garðari. Þau hefðu eitthvað verið að rífast og hefði Sólrún verið döpur. Þau hefðu hitt Lárus Arnar í Lækjargötunni á móts við verslunina Topshop og hefði Lárus farið að hugga Sólrúnu. Lárus hefði hringt í móður sína og jafnframt boðið þeim far, einnig ákærða, og þau hefðu þegið það. Þau hefðu öll sest inn í bifreið móður Lárusar nema ákærði, sem hefði þurft að ná í lykla í bifreið sína. Ákærði hefði síðan hringt í Sólrúnu og rætt eitthvað við hana en hann hefði síðan komið akandi til þeirra í Lækjargötu. Ívar kvaðst hafa farið út úr bifreið móður Lárusar ásamt Lárusi og Sólrúnu og hefðu Lárus og ákærði farið að rífast vegna þess að Lárus hefði ekki verið sáttur við að ákærði myndi aka þeim heim þar sem hann var ölvaður. Þeir hefðu rifist nokkuð mikið og verið að ýta hvor í annan. Ívar kvaðst hafa farið inn í bifreið ákærða ásamt Sólrúnu þegar hann hefði séð ákærða draga upp hníf sem hann hefði verið með á sér. Ákærði hefði haldið á hnífnum fyrir aftan bak. Ívar kvaðst ekki hafa séð ákærða leggja til Lárusar með hnífnum þar sem hann hefði horft undan er hann hefði séð hann draga upp hnífinn. Því næst hefði hann séð Lárus draga upp bolinn sinn, benda á blóðugt sár sem hefði verið neðarlega á kviðnum, og kalla upp að hann hefði verið stunginn. Ákærði hefði gengið eða hlaupið í burtu og Lárus farið á eftir honum. Aðspurður kvað Ívar átökin hafa verið nálægt bifreið ákærða en aldrei hafa borist alveg upp að henni. Átökin hefðu verið nálægt grænu hliði í Lækjargötu. Beðinn um að lýsa hnífnum kvað Ívar hann hafa verið gráan að lit þeirrar gerðar sem hægt væri að loka með því að setja blaðið inn í skaftið á hnífnum. Skeftið væri grátt með hringlaga götum og hefði egg hnífsins virst mjög beitt. Hnífurinn hefði verið opinn í hendi ákærða. Aðspurður hvort ákærði hefði eitthvað átt við læsingu bifreiðar sinnar, kvað Ívar sig minna að hann hefði gert það áður en átökin hófust. Vel gæti verið að hann hefði átt við læsinguna með hnífnum.
Vitnið Sigurgeir Kjartansson skurðlæknir staðfesti vottorð um áverka brotaþola Lárusar Arnars, sem hann skráði 12. september 2000 að beiðni lögreglu, og niðurstöðu þess, sem er að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða. Hann kvað Lárus hafa verið með djúpa hnífstungu sem gengið hefði inn í gegnum tvær garnalykkjur og væri dýpt hennar því alveg óræð. Það afl sem þyrfti til að knýja hnífinn svona langt inn gæti leitt hann inn á ósæðina og stóru æðarnar. Vitninu var sýndur í réttinum hnífur sá sem ákærði kveður hafa valdið áverkanum, en blað hans mældist 8 cm. Vitnið kvað það geta staðist að áverkinn hefði verið veittur með slíkum hnífi, þar sem að kviðveggurinn láti undan þrýstingi. Ekki þurfi svo langan hníf til að valda skaða eins og hér um ræði. Taldi vitnið greinilegt að í þessu tilviki hefði afli verið beitt, töluvert afl þyrfti til að stinga í gegnum kviðvegg. Spurður hvort hann teldi áverkann geta hafa hlotist af því að brotaþoli hefði dottið á hnífinn, kvaðst vitnið telja það langsótta skýringu. Samkvæmt því sem yrði ráðið af skurðinum hefði þetta verið ein stök stunga sem greinilega væri beint í eina átt. Ekki yrði séð að mein hreyfing hefði orðið á hnífnum í sárinu. Hann sagði að samkvæmt sínum gögnum hefði brotaþoli verið lagður inn 20. ágúst og farið út 29. ágúst. Taldi hann að þetta væri nokkuð eðlilegur tími.
Niðurstaða ákæruliðar I.
Sannað er með framburði ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi í Lækjargötu að morgni 20. ágúst 2000, að liðinni menningarnótt í Reykjavík, haldið á hnífi í hendi sér þar sem hann var að rífast við og ýtast á við Lárus Arnar Þórisson, og að Lárusar Arnar hafi þar fengið stungusár í kvið. Ákærði hefur haldið því fram að hér hafi verið um slys að ræða og að ekki hafi búið með honum ásetningur til að stinga Lárus Arnar með hnífnum. Ákærði hefur lýst því fyrir dóminum að hann hafi verið að eiga við lásinn á hurð bifreiðar sinnar með hnífnum þegar Lárus hafi stokkið á hann að óvörum og þeir fallið saman ofan á vélarhlíf bílsins, telur hann að hnífurinn hafi þá stungist í Lárus, sem hafi lent ofan á ákærða. Ákærði kvaðst hafa haldið hnífnum í mittishæð þegar atburðurinn varð. Stungan var vinstra megin á kviði Lárusar, neðarlega, og náði sárið djúpt inn í kviðarholið og var sárið ekki tætt.
Hér að framan hefur framburður ákærða og vitnanna, bæði fyrir dómi og hjá lögreglu, verið ítarlega rakinn. Ekkert vitnanna styður þann framburð ákærða að hann og brotaþoli hafi í ýtingum sínum fallið niður á húdd bifreiðar ákærða. Hvergi í framburði vitnanna er vikið að því að brotaþoli hafi stokkið á ákærða. Verður að telja upplýst að þeir hafi einungis rifist og hrint hvor öðrum, en ekki hafi orðið frekari handalögmál. Framburður ákærða um að brotaþoli hafi skallað hann hefur heldur ekki stoð í framburði annarra vitna, nema Sólrúnar sem segir að brotaþoli hafi „aðeins skallað” ákærða. Þessi framburður er einnig ótrúverðugur vegna mikils stærðarmunar á aðilum. Þá er ekkert sem styður framburð ákærða fyrir dóminum um að brotaþoli hafi veitt honum áverka á hálsi og hafði það ekki komið fram fyrr en í réttinum. Framburður ákærða um aðstæður og atburðarásina er nokkuð óljós og ekki í fullu samræmi við þá heildarmynd sem vætti annarra gefur. Þegar hefur verið nefnd lýsing hans á átökunum, þá má einnig ætla af framburði hans, að Lárus Arnar hafi einungis boðið Sólrúnu og bróður hennar far, sem stenst ekki miðað við vætti annarra, enda biðu þau eftir honum dágóða stund. Þá varð ákærði tvísaga um hnífinn, þar sem hann bar fyrst hjá lögreglu að hann hefði ekki verið með hann þegar hann hljóp í burtu, heldur hefði annað hvort Lárus verið með hann á eftirförinni eða hann hefði sleppt honum þegar hann lá á bílhúddinu, hann hefði ekki verið með hann þegar hann hífði sig upp af því með því að grípa um brettin. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa fleygt honum frá sér síðar í blómapott. Sú hegðun ákærða að flýja af vettvangi er ekki heldur í samræmi við þá fullyrðingu hans að um slys hafi verið að ræða.
Í heild þykir framburður ákærða ekki trúverðugur. Hins vegar verður að byggja á þeirri fullyrðingu hans að hnífinn hafi hann verið með vegna þess að hann notaði hann til þess að opna og loka bifreið sinni, enda hefur tæknideild lögreglu ekki rannsakað hvort læsingar voru bilaðar.
Framburður vitnisins Sigríðar Gróu hefur verið staðfastur og þykir trúverðugur, hún var ekki undir áhrifum áfengis og virðist hafa fylgst nokkuð vel með því sem fram fór. Vitnið er móðir brotaþola. Samræmi er í framburði brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu og þykir framburður hans einnig trúverðugur.
Ljóst þykir að ákærði hefur reynt að hafa áhrif á framburð vitnanna Sólrúnar og Ívars og meta verður vætti þeirra í ljósi þessa, sem og þess að Sólrún er með ungabarn sem ákærði er faðir að og þau hafa verið í sambúð, og framburð Ívars í ljósi ungs aldurs hans og tengsla ákærða við systur hans. Ekki er mögulegt að meta af öryggi hvenær vitnið Sólrún hefur sagt satt og hvenær ekki í skýrslum sínum um það sem Ívar sagði henni, en að öðru leyti er samræmi í framburði hennar innbyrðis og við önnur vitni. Það er hins vegar athyglivert í þessu sambandi að þegar lögregla ræðir við vitnið Ívar 31. ágúst 2000 hafði tvívegis verið tekin skýrsla af Sólrúnu, fyrst sama dag og atburðurinn átti sér stað og sagði hún þá aðeins að bróðir sinn hefði verið skelkaður, og aftur 24. ágúst en þá skoraðist hún undan að tjá sig vegna tengsla sinna við ákærða. Viku síðar er rætt við Ívar. Það var svo fyrst 4. október 2000 sem Sólrún bar að hún vildi nú skýra rétt frá og að hún væri hætt í sambúð með ákærða og að Ívar hefði sagt sér að hann hefði séð ákærða taka upp hníf og stinga brotaþola með honum. Hinn 12. janúar 2001, þegar henni var kynnt að ákærði héldi því fram að hún hefði sagt ósatt í skýrslu sinni 4. október, neitaði hún því og kvaðst hafa skýrt satt og rétt frá, en benti á að hún væri í erfiðri aðstöðu. Fyrir dóminum kvaðst hún hafa logið þessu öllu til að ná sér niðri á ákærða og fengið bróður sinn, Ívar, til að segja ósatt. Fyrir dóminum dró Ívar einnig til baka að hann hefði séð ákærða halda hnífi fyrir aftan bak og kvað Sólrúnu hafa beðið sig um að segja ósatt. Í ljósi framangreindra tímasetninga á skýrslum Sólrúnar þykir heldur ótrúverðugt að hún hafi haft áhrif á framburð Ívars í ágústmánuði. Engu að síður þykir af þessum sökum ekki verða byggt á því í málinu að Ívar hafi séð ákærða með hnífinn.
Vitnið Sigurgeir Kjartansson læknir kvað greinilegt af sárinu að um hefði verið að ræða eina stungu, sem beint hefði verið í eina átt og án þess að sjáanlegt væri að nokkrar hreyfingar hefðu verið á hnífnum, töluvert afl þyrfti til að stinga þannig í gegnum kviðvegg. Kvað hann þá skýringu langsótta að brotaþoli hefði dottið á hnífinn. Þykir vætti læknisins vega sérstaklega þungt, sem og það, sem áður er nefnt, að lýsing ákærða á átökum sínum við brotaþola fær ekki stoð í framburði annarra og sannað telst að þeir hafi verið standandi allan þann tíma sem þeir voru að ýta hvor í annan og rífast. Er það niðurstaða dómsins að áverki brotaþola geti ekki hafa hlotist með þeim hætti sem ákærði heldur fram. Ákærði hefur játað að hafa verið með hníf í hendi. Af lögun áverkans og vegna þess afls sem nauðsynlegt var að beita til að veita brotaþola stunguna er sannað að ákærði stakk Lárus Arnar svo sem honum er gefið að sök í fyrri ákærulið. Áverkinn var að mati læknisins lífshættulegur og vopnið sem beitt var er í sjálfu sér mjög hættulegt. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í I. ákærulið og er fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæðis.
Bótakrafa.
Gerð er sú krafa á hendur sakborningi, samkvæmt ákæru, að hann verði dæmdur til að greiða brotaþola, Lárusi Arnari, bætur að fjárhæð kr. 975.353 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar réttargæslumanns samkvæmt mati dómsins.
Kröfugerð tjónþola sundurliðast með eftirfarandi hætti:
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. rúmfastur 14 d.kr. 22.120
(kr. 1.300/3282*3990=1.580 * 14 dagar)
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl, veikur 22 dagakr. 18.722
(kr. 700/3282*3990=851 * 22 dagar)
Miskabætur skv. 26. gr. skbl.kr. 700.000
Vinnutap tímabil 22.08.2000-27.09.2000kr. 204.362
Koma á slysadeild (3*796)kr. 2.388
Kostnaður Apótekkr. 596
Flugfarseðillkr. 21.175
Verðmæti peysukr. 5.990
Samtalskr. 975.353
Krafan er þannig rökstudd að brotaþoli, Lárus Arnar Þórisson, hafi hlotið mikla áverka og liðið þjáningar og hafi hann verið rúmliggjandi í 14 daga, fyrst á Landspítala Fossvogi vegna aðgerða og síðan heima hjá sér. Einnig hafi hann haft miklar þjáningar í 22 daga án þess að vera rúmliggjandi.
Áverkar brotaþola hafi verið af völdum hnífsstungu á kvið er gengið hafi í gegnum garnarlykkjur á tveimur stöðum, svo og garnahengi. Hafi stunga þessi því verið nokkuð djúp og eins og segi í læknisvottorði Sigurgeirs Kjartanssonar, skurðlæknis, dagsettu hinn 12. september 2000 þá megi ætla að hnífurinn hafi gengið aðeins um millimetersbil frá ósæð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Áverkinn verði því að teljast lífshættulegur sjúklingi.
Ljóst sé að Lárus Arnar hafi orðið fyrir miklum óþægindum og þjáningum vegna atviksins. Hafi árásin bæði verið hrottaleg og framin af tilefnislausu og árásaraðferðin stórhættuleg enda um hníf að ræða, sem hefði getað leitt tjónþola til dauða. Verknaður þessi sé gróft brot gegn persónu, friði og frelsi tjónþola og hafi þar fyrir utan verulegar sálrænar afleiðingar í för með sér fyrir tjónþola um ókomna framtíð.
Um lagarök er varðandi þjáningabætur stuðst við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og vegna miskabótakröfu við 26. gr. sömu laga.
Þá hafi brotaþoli verið frá vinnu vegna ofangreindrar árásar og afleiðinga hennar frá 22. ágúst 2000 til 27. september 2000 og sé það staðfest með meðfylgjandi vottorði verslunarstjóra Byko, Hafnarfirði, dagsettu 10. nóvember 2000. Þar komi fram með skýrum og ótvíræðum hætti að brotaþoli hafi misst úr vinnu og tapað launatekjum sem nemi samtals kr. 204.362. Er krafist skaðabóta vegna þess tjóns.
Brotaþoli hafi þurft að greiða vegna komu á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur samtals kr. 2.388, sbr. meðfylgjandi kvittanir, og jafnframt að greiða vegna plásturs og fleira kr. 596, sbr. meðfylgjandi greiðslukvittun Borgar Apóteks.
Jafnframt hafi hann orðið fyrir verulegu fártjóni, þar sem hann hafi verið búinn að kaupa farmiða til Kaupmannahafnar að fjárhæð kr. 21.175 og hafi brottför verið ákveðin hinn 25. ágúst 2000. Vegna árásarinnar hafi brotaþoli með engum hætti getað farið ferð þessa, sem hann hafði greitt fyrir, og ekki var möguleiki á endurgreiðslu með svo skömmum fyrirvara, sbr. meðfylgjandi greiðslukvittanir og afrit reikninga. Á þessum grundvelli telur brotaþoli sig eiga rétt á greiðslu farmiðans úr höndum sakbornings.
Jafnframt hafi hann orðið fyrir fjártjóni vegna þess að peysa sú er hann var í umræddan morgun, að verðmæti kr. 5.990, sbr. meðfylgjandi reikning, hafi eyðilagst.
Samtals nemi bótafjárhæðin kr. 975.353 en til viðbótar sé krafist þóknunar til handa réttargæslumanni samkvæmt mati réttarins og dráttarvaxta.
Um lagarök er vísað til XX. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 91/1991. Til stuðnings skaðabótakröfunni er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar ásamt skaðabótalögum nr. 50/1993 og þá sérstaklega til 3. gr. og 26. gr. sömu laga, svo og dómvenju. Um dráttarvaxtakröfu vísast til vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafan er byggð á 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og sbr. 129. og 130. gr laga nr. 91/1991. Þóknun réttargæslumanns byggist á 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun er grundvölluð á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða um skaðabótakröfu.
Samkvæmt vætti læknis fyrir dómi var brotaþoli rúmfastur í umsjá sjúkrahússins vegna áverkans frá 20. til 29. ágúst. Í framlögðu læknisvottorði Sigurgeirs Kjartanssonar kemur fram að brotaþoli hafi gengist undir tvær aðgerðir og að skurður hafi gróið illa, en ekki er getið um veikindatímabil og annarra læknisfræðilegra gagna nýtur ekki við í málinu sem skjóta stoðum undir kröfu hans um þjáningabætur. Verður hún því aðeins tekin til greina miðað við að hann hafi verið rúmfastur í 10 daga og dæmast honum 15.800 krónur í þjáningabætur.
Krafa brotaþola vegna vinnutaps og útlags kostnaðar þykir studd fullnægjandi gögnum og er tekin til greina, samtals að fjárhæð 234.511 krónur.
Með atlögu sinni gerðist ákærði sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola og olli honum þjáningum líkamlegum og andlegum og líkamslýtum, þykir hann vera bótaskyldur vegna þessa samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, þykja miskabætur hæfilega ákveðnar í samræmi við dómvenju 250.000 krónur. Ákærða var kynnt bótakrafan 22. desember 2000.
Samkvæmt framangreindu skal ákærði greiða brotaþola skaðabætur samtals 500.311 krónur ásamt vöxtum, svo sem nánar greinir í dómsorði, og þóknun til réttargæslumanns hans, Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.
Um ákærulið II.
Í þessum ákærulið er ákærða, Garðari Garðarssyni, gefin að sök tilraun til þjófnaðar með því að brjótast inn í bifreiðina HG-817 að morgni sunnudagsins 20. ágúst þar sem hún stóð við Aðalstræti í því skyni að stela úr henni útvarpstæki sem hann hafi verið að losa úr mælaborði bifreiðarinnar þegar að honum var komið.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá 20. ágúst 2000 voru lögreglumenn sendir að Aðalstræti 7 klukkan 09.24 sama morgun og sá atburður sem fjallað er um í ákærulið I átti sér stað. Tilkynnt hafði verið um innbrot í bifreið. Þar hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðarinnar, kæranda Birgir Elfar Níelsson, og vísaði hann á manninn sem grunaður var um innbrotið og tjáði lögreglu að komið hefði verið að honum þar sem hann var að róta inni í bifreiðinni. Kvað hann engu hafa verið stolið en búið væri að skemma læsinguna á vinstri hurð bifreiðarinnar. Hinn grunaði reyndist vera ákærði. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu 113.
Ákærði neitar sök. Fyrir dóminum kvaðst ákærði, Garðar Garðarsson, hafa komið þarna að í framhaldi af hinu málinu og séð einhverja krakka þarna fyrir, hann gat þó ekki lýst þeim neitt nánar. Kvaðst hann hafa verið í sjokki eftir hitt atvikið. Hann kvað það ekki rétt að hann hefði verið inni í bílnum að losa útvarpið þegar maðurinn kom að. Hann kvaðst hafa verið fyrir utan bílinn, en ekki muna hvar. Maðurinn sem kom hefði byrjað að segja hvort hann hefði verið að reyna að stela útvarpinu, en hann kvaðst hafa sagt honum eins og var. Maðurinn hefði viljað kalla á lögregluna og kvaðst hann hafa beðið eftir lögreglunni. Annað kvaðst hann ekki muna. Hann taldi þó rifjast upp fyrir sér að bíllinn hefði staðið opinn þegar hann kom að og minnti hann frekar að hann hefði sest í tröppurnar. Spurður hvort hann hefði neytt einhverja vímuefna eftir atvikið í Lækjargötu kvaðst hann hafa neytt róandi lyfja, tekið eina eða tvær pillur, og drukkið einn bjór.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar sama dag og atvikið átti sér stað kvaðst ákærði hafa rölt um bæinn þar til hann hefði komið að Aðalstræti og þar hefði hann ákveðið að leggja sig í einhverri bifreið. Ekki hefði verið um auðgunarásetning að ræða heldur hefði hann aðeins viljað leggjast til svefns þar sem hann hefði verið orðinn aðframkominn af þreytu, enda búinn að vaka í tæpan sólarhring. Kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega, hann hefði farið inn í einhverja bifreið en síðan farið inn í eitthvert hús og lagst þar til svefns. Hefði hann síðan vaknað upp við það að lögreglan var kominn og hann handtekinn og færður á lögreglustöðina.
Ákærði var yfirheyrður vegna þessa máls 22. desember 2000. Kvaðst hann þá vísa því á bug að hafa brotist inn í umrædda bifreið. Kvaðst hann hafa verið búinn að borða nokkrar róandi pillur og drekka áfengi og hafa sofnað inni í stigagangi einhvers húss. Hann vísaði á bug framburði vitnanna Þráins Gunnlaugssonar og Birgis Elfars Níelssonar, en kvaðst nú minnast þess að hafa séð einhverja krakka utan í einhverri bifreið þegar hann kom þarna fyrst að. Hann neitaði því að hafa valdið skemmdum á bifreiðinni og hafnaði bótakröfu eiganda hennar sem kynnt var fyrir honum.
Vitnið Þráinn Gunnlaugsson gaf símaskýrslu í réttinum, hann var staddur á skrifstofu sýslumannsins á Ólafsvík. Hann kvaðst hafa verið að horfa út um eldhúsgluggann heima hjá sér í Aðalstræti umræddan morgun og séð ofan á græna Benz-bifreið í eigu manns sem hafi verið leigjandi þarna í húsinu og hafi hann séð að hurðin var opin bílstjóramegin. Hann kvaðst ekki hafa séð hver var þarna inni, en séð að það var verið að gramsa í mælaborðinu. Hann hafi hugsað að þetta væri ekki eigandinn og hlaupið út. Hafi það reynst rétt að þetta var ekki eigandinn. Hann kvaðst hafa sagt strax við manninn, sem hafði ekki tekið eftir því þegar að hann kom: “hvað eruð þér að gera.” Maðurinn hafi þá svarað strax um hæl: “nú ég hélt að þetta væri mín bifreið.” Hann kvaðst þá hafa beðið hann að stíga út úr bílnum og þá hafi maðurinn hnigið niður í götuna og hann hafi þá séð að hann var í einhverju annarlegu ástandi. Kvaðst hann hafa farið með hann inn í hús og barði upp á hjá eiganda bifreiðarinnar sem hafi tekið við og hringt í lögregluna. Hann kvaðst oft vera þarna við gluggann þegar hann væri að drekka te og annað, að horfa út um gluggann. Spurður hvort hann muni eftir að hafa séð einhverja krakka þarna í kring á þessum tíma, kvað hann þetta vera í miðbænum og mikið rennirí af fólki þarna fram og til baka, en hann hefði ekki tekið eftir neinu slíku. Hann kvað manninn hafa verið að eiga við mælaborðið þegar hann kom að honum. Beðinn um að lýsa manninum kvað hann hann hafa verið svona 35-36 ára, hann hefði verið með starandi augnaráð og glansandi augu. Hann hefði beðið um vatn og sagst vera þyrstur. Hann kvaðst eiga erfitt með að lýsa fólki og benti á að lögreglan hefði komið og tekið manninn á staðnum. Hann kvaðst ekki hafa athugað hvort bifreiðin væri eitthvað skemmd. Verjandi benti vitninu á að þetta hefði verið dökkgrá Mercedes Benz bifreið, kvaðst hann þá sjálfsagt rugla henni saman við grænan Benz sem maður sem nú væri í húsinu ætti.
Tekin var skýrsla af vitninu hjá lögreglu 16. október 2000. Kvaðst hann þá hafa tekið eftir því umræddan morgun að hurðin á bifreiðinni HG-817 var opin og að maður var inni í henni. Kvaðst hann hafa séð að þetta var ekki eigandinn. Hafi hann gengið að bifreiðinni og séð að maðurinn var að skrúfa útvarpið úr henni. Maðurinn hefði virst í annarlegu ástandi. Hann hefði farið inn með manninn og gert eigandanum viðvart. Maðurinn hefði verið rólegur meðan beðið var eftir lögreglu, en verið mjög þyrstur. Þá hefði maðurinn boðið honum fíkniefni til sölu. Spurður hvort hann hefði tekið eftir skemmdum á bifreiðinni sagði hann að búið hefði verið að losa útvarpið úr stokk á milli sætanna, en kvaðst annars ekki hafa verið skoða skemmdir sérstaklega.
Vitnið Birgir Elfar Níelsson kvaðst hafa haft aðsetur að Aðalstræti 7 hinn 20. ágúst á síðasta ári og vera eigandi bifreiðarinnar HG-817 sem ákærði er sakaður um að hafa brotist inn í þar sem hún stóð við Aðalstræti í Reykjavík að morgni þess dags. Hann kvað manninn sem leigi út herbergi í húsinu Aðalstræti 7 hafa séð út um eldhúsgluggann þar sem ákærði var í bílnum. Hann hafi vitað af sér sofandi inni í herbergi og því farið út og opnað bílstjórahurðina og spurt manninn hvað hann væri að gera. Hefði maðurinn ekki verið í góðu ástandi og dottið út úr bílnum þegar hann ætlaði að stíga út. Leigusalinn hefði svo fylgt manninum upp í íbúð og vakið sig og kvaðst hann þá hafa hringt í lögregluna og svo farið og skoðað bílinn. Leigusalinn hefði sagt að maðurinn hefði verið að reyna að taka útvarpið úr bílnum og það hefði sést greinilega. Hann hefði verið búinn að brjóta sólgleraugun sín, sem væru af gerðinni Reyban og hefðu kostað um 15.000 krónur fyrir um tveimur árum. Hefði hann reynt að nota þau til að losa tækið. Til að draga útvarpstækið úr sleðanum þurfi að stinga tveimur lyklum á milli. Spurður hvernig hann viti að ákærði hefði notað þessi gleraugu, sagði hann að þegar húsráðandinn kom þarna að þá hefði hann verið að fikta í þessu með spöngina af gleraugunum inn í sleðanum. Hann hefði verið búinn að brjóta af gleraugunum. Hann hefði einnig verið búinn að brjóta þarna öskubakka og annað í kring. Spurður hvernig honum virtist að farið hefði verið inn í bifreiðina, kvað hann læsinguna hafa verið brotna upp með einhverju áhaldi því það hefði verið búið að smella út lokinu sem hefði verið fyrir, því hefði verið þeytt eitthvert í burtu. Hann kvað lögregluna hafa komið á staðinn um 20 mínútum eftir að hann hringdi, kvaðst hann hafa bent þeim á skemmdirnar. Þeir hefðu síðan farið með ákærða en einum eða tveimur tímum seinna hefði komið rannsóknarlögreglumaður sem hefði verið að leita að hnífi sem maðurinn hefði getað notað og hafi hann fengið að skoða bílinn líka. Spurður um skoðun lögreglu á bílnum þegar hún var kölluð á staðinn kvað hann þá bara hafa horft inn í hann og búið. Þeir hefðu ekkert gert og ekki sinnt þessu nánar. Spurður hvort hann hefði ekki farið yfir það með lögreglu hvað var skemmt, kvaðst hann sjálfur hafa verið gáttaður og ekki hafa haft vit á því, nývaknaður og mjög stressaður líka, og ekki hafa hugsað mjög skýrt. Hann kvaðst hafa talað við þá á lögreglustöðinni daginn eftir eða einhverjum dögum þarna á eftir og þeir hefðu þá bent honum á þann sem væri að rannsaka málið. Sá hefði sagst myndu tala við hann þegar hann væri búinn að koma sér betur inn í málið, og það hefðu liðið um fjórar vikur áður en hann hafði samband. Kvað hann það vera skýringuna á þeim langa tíma sem hefði liðið þar til hann fékk áætlun yfir tjónið. Þá hefði verið útskýrt fyrir honum hvað hann ætti að gera í málinu til þess að fá einhverjar bætur fyrir þetta. Síðan hefðu liðið um tvær vikur í viðbót þangað til hann hefði haft tíma til þess að sinna þessu. Þá hefði hann útvegað framlagðar skoðunarskýrslur frá Tryggingarmiðstöðinni og lista frá Ræsi, sem væri mat frá þeim á því hvað það myndi kosta að skipta um þá hluti sem ákærði hafði skemmt við það að reyna að taka útvarpið úr bílnum, og mat á vinnu við það, kvaðst hann ekki hafa efni á því að skipta þessu út sjálfur því þetta væru mjög dýrir hlutir og því hefði hann fengið Ræsi til þess að meta þetta. Nánar spurður um skemmdirnar kvað hann læsinguna á bifreiðinni hafa verið brotna upp við innbrotið, unnar skemmdir á loftneti bílsins, skemmdar festingar fyrir öskubakka, skemmdur stokkurinn utan um útvarpstækið og gírkassann, og dýr sólgleraugun brotin.
Tekin var skýrsla af vitninu hjá lögreglu 6. október 2000. Var framburður hans þar í fullu samræmi við það sem hann bar fyrir dóminum.
Niðurstaða ákæruliðar II.
Ákærði neitar sök en virðist í raun lítið sem ekkert muna frá atburðinum. Framburður hans um málsatvik er ekki stöðugur. Hann kvaðst í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu hafa farið inn í einhverja bifreið og ætlað að leggja sig þar vegna þess að hann var aðframkominn af þreytu, síðan hafi hann farið inn í eitthvert hús og lagt sig. Þegar hann var yfirheyrður í desember hafnaði hann því alfarið að hafa brotist inn í bifreið og kvaðst hafa sofnað í stigagangi, en kvaðst þá muna eftir krökkum utan í einhverri bifreið. Hann bar eins um krakkana fyrir dóminum og einnig kvað hann það rifjast upp fyrir sér að bíllinn hefði staðið opinn. Kvaðst hann nú hafa staðið fyrir utan bílinn þegar maðurinn kom til hans.
Framburður vitnisins Þráins er skýr um það að hafa séð ákærða, úr eldhúsglugga sínum, inni í bifreiðinni og hafa þá farið út og sótt ákærða í bifreiðina, þar sem hann hafi verið að „gramsa í mælaborðinu” og ekki tekið eftir honum fyrr en hann ávarpaði hann. Í beinu framhaldi vakti hann eiganda bifreiðarinnar, vitnið Birgi, sem kallaði til lögreglu og kannaði bifreiðina. Hann ber að hún hafi verið brotin upp og skemmdir unnar á henni við tilraun til að fjarlægja útvarpstækið. Lögregla skráir í frumskýrslu að búið sé að skemma læsingu á vinstri hurð en ekki er nein frekari lýsing á því hvers eðlis þær séu né virðist það hafa verið rannsakað. Engin lýsing af hálfu lögreglu er á öðrum skemmdum.
Ákærði getur enga grein gert fyrir þeim ungmennum sem hann telur sig hafa séð við þessa bifreið og vitnið Þráinn sá ekki aðra við bifreiðina. Framburður ákærða er ekki trúverðugur, þegar hann var fyrst yfirheyrður nefndi hann hvorki krakka né að bifreiðin hefði verið opin. Hann var staðinn að verki inni í bifreiðinni við að reyna að fjarlæga útvarpstæki bifreiðarinnar. Þótt rannsókn á innbrotinu sjálfu sé nokkuð ábótavant af hálfu lögreglu þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi brotist inn í bifreiðina og ótvírætt er sannað að hann reyndi að fjarlægja útvarpstækið og olli við það skemmdum. Er hann sakfelldur fyrir tilraun til þjófnaðar og er þessi háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.
Bótakrafa.
Birgir Elfar Níelsson, kennitala 110669-5859, Frakkastíg 5, 101 Reykjavík, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð krónur 203.820, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga.
Bótakrafa þessi er sett fram vegna tjóns er ákærði olli á bifreið hans HG-817, er hann braust inn í hana að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2000 og reyndi að stela úr henni útvarpstæki. Ennfremur hafi ákærði eyðilagt sólgleraugu af tegundinni Rayban sem voru í bifreiðinni.
Krafan sundurliðast þannig:
Varahlutir v/bifreiðar skv. sundurliðun Ræsis, dags. 17.10.2000 kr.148.820
Vinna vegna viðgerðar skv. sundurliðun Ræsis, dags. 17.10.00 kr.40.000
Sólgleraugukr.15.000
Samtals kr.203.820
Niðurstaða um skaðabótakröfu.
Þau gögn sem brotaþoli hefur lagt fram til stuðnings kröfu sinni eru riss af áætlunum um kostnaðarverð varahluta og vinnu, dagsettar 11. september og 17. október 2000 og tjónaskoðun tryggingafélags dagsett 11. september sama ár. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort tjónið var tryggt. Engin staðfesting fylgir á verðmæti sólgleraugna. Brotaþoli lýsti því í dóminum að hann hefði ekki látið gera við þessar skemmdir. Greind gögn eru ekki fullnægjandi grundvöllur einkaréttarlegrar bótakröfu í dómsmáli og er krafa hans vanreifuð, verður því að vísa kröfu Birgis Elfars Níelssonar frá dómi.
Refsimat.
Ákærði er fæddur 1965 og á að baki langan sakarferil sem hófst 1981. Eftir átján ára aldur hefur ákærði hlotið á þriðja tug refsidóma bæði á Íslandi og erlendis. Hér á landi fyrir ýmis hegningar- og umferðarlagabrot, þar af tólf sinnum fyrir auðgunarbrot, í Danmörku var hann á árunum 1993 og 1994 þrisvar dæmdur í fangelsi í samtals fimm ár og níu mánuði, fyrir ýmis brot, þar af tvisvar fyrir rán og í öll skiptin fyrir brot gegn vopnalögum og í einu tilviki fyrir valdbeitingu gegn opinberum starfsmanni. Árið 1989 hlaut hann dóm í Þýskalandi, fangelsi í eitt ár og tíu mánuði fyrir hegningalaga- og fíkniefnabrot. Hann hefur og níu sinnum gengist undir sátt fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Síðast var ákærði dæmdur í Hæstarétti 17. maí 2001 fyrir þjófnað, og var þar staðfestur héraðsdómur frá 19. janúar 2001 þar sem honum var gert að sæta fangelsi í sex mánuði, um hegningarauka var að ræða. Hann afplánar nú fjögurra ára fangelsinsdóm samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 26. október 2000 fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar, þar sem refsing samkvæmt tveimur héraðsdómum frá 18. febrúar 2000 og 7. apríl 2000 var þyngd, auk þess sem reynslulausn á 931 degi af eftirstöðvum refsingar var dæmd með. Hann hefur ekki áður hlotið refsingu hér á landi fyrir líkamsárás, en hann þykir hafa lagt það í vana sinn að drýgja auðgunarbrot og er við mat á refsingu vegna II. ákæruliðar því gætt ákvæðis 72. gr. almennra hegningarlaga. Dómur frá 18. febrúar 2000, þar sem ákærða var gert að sæta þriggja ára fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og fíkniefnabrot, og dönsku dómarnir tveir frá 1994 hafa einnig ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga að því er þennan ákærulið varðar. Þótt brot samkvæmt II. ákærulið teljist vera tilraun olli ákærði talsverðu tjóni með háttsemi sinni. Á hinn bóginn er um hegningarauka að ræða við önnur samskonar brot.
Brot ákærða samkvæmt I. ákærulið er mjög alvarlegt. Veitti ákærði brotaþola lífshættulegan áverka með eggvopni. Ekki hefur verið fallist á þá varnarástæðu ákærða að um slys hafi verið að ræða. Brotaþoli virðist hafa átt upptökin að rifrildi þeirra, en upplýst er að hvati þess var að hann vildi hindra að ákærði æki ölvaður með farþega. Brotaþoli er mun stærri maður en ákærði og kann að vera að ákærði, sem var undir áhrifum, hafi talið sér standa einhver ógn af honum. Gæti það þó á engan hátt afsakað þá háttsemi að beita svo hættulegu vopni sem hnífur er, og samkvæmt vætti vitna var um ýtingar en ekki handalögmál að ræða. Þykir 3. mgr. 218. gr. a ekki eiga hér við. Brotaþoli hefur fengið bata af stungusárinu en það hefur valdið honum þjáningum og hann ber verulegt lýti eftir tvær aðgerðir vegna áverkans. Höfð er hliðsjón af 1.-3. tl. 70. gr. við mat á refsingu.
Eftir 20. ágúst 2000 hefur ákærði hlotið þrjá dóma og gengist undir tvær sáttir. Hæstaréttardóm 26. október 2000 fjögurra ára fangelsi fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar og fíkniefnabrot; sátt um sektargreiðslu hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 13. nóvember 2000 vegna umferðarlagabrota; dóm í héraði vegna fyrir hylmingu 19. janúar 2001 ekki gerð sérstök refsing; sátt um greiðslu sektar í héraðsdómi vegna umferðarlagabrota; og loks Hæstaréttardóm frá 17. maí 2001 sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Verður refsing hans í þessu máli því ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga og þar sem sakfellt er fyrir tvö brot er einnig höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga. Þá er við refsimat litið til sakarferils ákærða í heild.
Þegar allt þetta er virt sem hér hefur verið rakið er refsing ákærða í samræmi við dómvenju ákveðin fangelsi í tvö ár.
Sakarkostnaður.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem ákvarðast 180.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Garðar Garðarsson, skal sæta fangelsi í tvö ár.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.
Ákærði skal greiða Lárusi Erni Þórissyni, kt. 180481-5249, 500.311 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. janúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. II. lið bráðabirgðaákvæðis þeirra laga.
Ákærði skal greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinars Þórs Guðgeirssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.
Bótakröfu Birgis Elfars Níelssonar er vísað frá dómi.