Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Akstur sviptur ökurétti
- Sektarboð
- Ákæra
- Frávísunarkröfu hafnað
- Sakarkostnaður
|
|
Mánudaginn 19. júní 2006. |
|
Nr. 113/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Tómasi Helga Jónssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Bifreiðir. Akstur án ökuréttar. Sektarboð. Ákæra. Frávísunarkröfu hafnað. Sakarkostnaður.
T var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið án ökuréttar í nóvember 2005 en þá hafði hann þrívegis hlotið dóm fyrir ölvunarakstur og níu sinnum fyrir akstur án ökuréttar, síðast 1. nóvember sama ár. Hann krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi þar sem honum hafði, áður en ákæran var birt, verið sendur greiðsluseðill og honum þar boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar. Upplýst var að sýslumaður hafði ógilt greiðsluseðilinn áður en T gafst færi á að greiða hann. Talið var að birting ákæru fyrir honum vegna sömu háttsemi og sektarboðið tók til hefði falið í sér ígildi tilkynningar um afturköllun á boðinu. Þóttu viðurlögin, sem greindi í því, ekki taka mið af sakaferli T og var talið að þau færu fjarri þeirri refsingu, sem háttsemi hans varðaði. Því var ákvörðun um að bjóða honum þessi málalok talin ógildanleg og sýslumanni heimilt að afturkalla hana, sbr. meginreglu 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kröfu hans um frávísun málsins því hafnað og stóð niðurstaða héraðsdóms um að hann skyldi sæta 3ja mánaða fangelsi óbreytt. Vegna mistaka ákæruvalds í málinu var allur sakarkostnaður þess í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en sakarkostnað, sem ákærða verði gert að greiða á báðum dómstigum.
Ákærði krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
I.
Samkvæmt gögnum málsins stóð lögregla ákærða að broti gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar hann ók bifreið á Akureyri án ökuréttar 29. nóvember 2005. Ákærði, sem er fæddur 1978, mun aldrei hafa fengið réttindi til að aka bifreið, en frá árinu 1994 hafði hann þegar hér var komið sögu þrívegis hlotið dóm fyrir ölvunarakstur og níu sinnum fyrir akstur án ökuréttar, síðast 1. nóvember 2005.
Vegna framangreinds brots gerði sýslumaðurinn á Akureyri greiðsluseðil, sem dagsettur var 30. nóvember 2005 og stílaður á ákærða. Á seðlinum var tvívegis ritað stórum stöfum orðið „sektarboð“ og skyldi fjárhæð sektar vera 45.000 krónur ef greitt yrði fyrir 30. desember 2005, en ella 60.000 krónur. Á þeim hluta seðilsins, þar sem fram komu skýringar, var vísað til þess að lögreglustjóra hefði borist kæra vegna brots ákærða á umferðarlögum með akstri tiltekinnar bifreiðar á tilgreindum stað og tíma. Fælist brotið í akstri án réttinda og varðaði það við 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga. Síðan sagði þar: „Samkvæmt heimild í 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 57/1997, er yður hér með gefinn kostur á að ljúka máli þessu án dómsmeðferðar með greiðslu sektar. Sektin ákveðst kr. 60.000. Ef hún greiðist fyrir 30. desember 2005 er veittur 25% afsláttur og verður því kr. 45.000. Afgreiðsla málsins með þessum hætti færist ekki í sakaskrá en brotið varðar ekki punkti sbr. reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 431/1998. Verði sektarboði ekki sinnt eða því hafnað verður tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum um meðferð opinberra mála.“
Af hálfu ákæruvaldsins er því borið við að ofangreint sektarboð hafi verið sent fyrir mistök, enda hefði verið andstætt lögum að ljúka málinu á þennan hátt vegna þeirra viðurlaga, sem ákærði ætti að sæta í ljósi sakaferils síns. Þegar uppvíst hafi orðið um þessi mistök hafi sýslumaður brugðist við með því að gefa út ákæru, sem dagsett var 1. desember 2005 og send Héraðsdómi Norðurlands eystra 6. sama mánaðar. Dómstjóri gaf út fyrirkall vegna málsins 9. desember 2005 og var það ásamt ákæru birt fyrir ákærða 12. sama mánaðar. Á vottorði um birtinguna færði sá, sem hana annaðist, athugasemd um að ákærði hafi neitað að taka við skjölum, þar sem „honum hafi þegar verið sent sektarboð sem hann ætlaði að taka.“ Málið var þingfest fyrir dómi 19. desember 2005 og hefur ákærði játað sök. Hann hefur á hinn bóginn krafist þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi með því að hann hafi áritað fyrrnefndan greiðsluseðil um samþykki sitt, þótt sekt samkvæmt honum hafi ekki verið greidd, og hafi því sýslumann brostið heimild til að gefa út ákæru við svo búið.
II.
Greiðsluseðillinn, sem sýslumaðurinn á Akureyri sendi ákærða, var gerður úr garði á þann hátt, sem um ræðir í 6. gr. reglugerðar nr. 569/1998 um lögreglustjórasáttir með síðari breytingum. Af 4. mgr. 6. gr., sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. og 8. gr. reglugerðarinnar, er ljóst að með sektarboði þessu voru lögð drög að því að ljúka málinu eftir reglum 115. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum, en ekki eftir ákvæðum 115. gr. sömu laga, sem ranglega var þar vísað til. Samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar geta afdrif máls, þar sem sakborningi er sent sektarboð, ýmist orðið þau að hann ljúki málinu með greiðslu sektarinnar, hann hafni boðinu þannig að ákvörðun verði tekin um saksókn eftir almennum reglum eða hann sinni ekki boðinu og lögreglustjóri leggi málið fyrir héraðsdómara til að ljúka því með ákvörðun sektar og vararefsingar. Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 569/1998 er jafnframt ráðgert að kostur sé á að ljúka máli á þann hátt að sakborningur gefi sig fram við lögreglustjóra í tilefni af sektarboði og gangist undir sektargerð samkvæmt 115. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar, án þess að greiða sektina þegar í stað. Í þeim tilvikum, þar sem máli er lokið með því að héraðsdómari taki ákvörðun um sekt og vararefsingu með áritun sektarboðs, sbr. 3. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, getur sakborningur eða ríkissaksóknari leitað endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi, sbr. 5. og 6. mgr. sömu lagagreinar. Ljúki máli af þessum toga eftir einhverri annarri þeirra leiða, sem að framan er getið, getur ríkissaksóknari fellt þau málalok úr gildi samkvæmt ákvæði 5. mgr. 115. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 12. gr. og síðari málslið 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 569/1998.
Samkvæmt áðurgreindum málatilbúnaði ákæruvaldsins var ákærða sent sektarboð fyrir mistök, en þegar þau urðu ljós hafi sýslumaður brugðist við með því að ógilda greiðsluseðilinn, þannig að ekki yrði unnt að greiða hann, og gefa út ákæru í málinu. Þótt sýslumaður hafi ekki gætt þess, svo sem rétt hefði verið, að tilkynna ákærða um afturköllun á boði um að ljúka málinu með greiðslu sektar, fólst ígildi slíkrar tilkynningar í því að ákæra var birt fyrir honum vegna sömu háttsemi og sektarboðið varðaði. Ótvírætt er að viðurlögin, sem greindi í sektarboðinu, tóku ekki mið af sakaferli ákærða og fóru í því ljósi og með tilliti til dómaframkvæmdar fjarri þeirri refsingu, sem háttsemi hans varðaði. Ákvörðunin um að bjóða ákærða þessi málalok var því ógildanleg og sýslumanni af þeim sökum heimilt að afturkalla hana þótt hún hafi þegar verið kynnt ákærða, sbr. meginreglu 2. töluliðar 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrrgreindar sérreglur 5. og 6. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991, svo og 5. mgr. 115. gr. sömu laga, breyta þessu í engu, enda kemur því aðeins til kasta þeirra að máli hafi þegar verið lokið með greiðslu sektar eða ákvörðun dómara um viðurlög. Um hvorugt af því var að ræða í þessu tilviki, en engin áhrif hefur í þessu sambandi að ákærði hafi áritað greiðsluseðilinn um samþykki sitt og fyrst lagt hann þannig fyrir sýslumann í þinghaldi í málinu 17. janúar 2006. Eru því ekki efni til að verða við kröfu ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Héraðsdómi hefur ekki verið áfrýjað til endurskoðunar á þeim viðurlögum, sem ákærða var þar gert að sæta, og skulu þau standa óbreytt.
Að því er sakarkostnað varðar er óhjákvæmilegt að líta til þeirra mistaka, sem urðu af hendi ákæruvaldsins þegar ákærða var boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar, og þess að ekki var gætt að því að tilkynna ákærða sérstaklega um afturköllun á því boði, sem hann hafði haft undir höndum um nokkurn tíma þegar ákæra var birt honum án frekari skýringa. Að þessu gættu eru ekki efni til annars en að leggja á ríkissjóð allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti, fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Tómasar Helga Jónssonar, á báðum dómstigum, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. janúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. janúar sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, með ákæruskjali lögreglustjórans á Akureyri, útgefnu 1. desember 2005, á hendur Tómasi Helga Jónssyni, kt. 210878-5059, Hjallalundi 11 D, Akureyri,
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 29. nóvember 2005, ekið bifreiðinni ZT-116, sviptur ökurétti frá Hofsbót á Akureyri, yfir Strandgötu og inn á Geislagötu, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans við Hótel Norðurland.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Verjandi ákærða krefst aðallega frávísunar málsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
I.
Verjandi ákærða kveðst byggja frávísunarkröfuna á sektarboði sýslumannsins á Akureyri dagsettu 30. nóvember 2005 vegna sömu atvika og í ákæru greinir. Þar hafi ákærða verið boðið að ljúka málinu með því að greiða kr. 60.000 í sekt og 25% afslátt væri greitt innan tiltekins tíma. Fyrir liggi að ákærði hafi samþykkt sektarboðið og málinu hafi þar með lokið, sbr. 115. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann hafi ítrekað reynt að greiða sektina í banka en þá hafi verið búið að loka greiðsluseðlinum.
Samkvæmt 6. mgr. 115. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála geti ríkissaksóknari krafist endurupptöku máls fyrir dómstóli telji hann sakborning hafa sætt fjarstæðum málalokum samkvæmt sektarboði. Fyrir liggi að ríkissaksóknari hafi ekki krafist endurupptöku málsins. Sýslumaðurinn hafi tekið einfalda ákvörðun um að afturkalla sektarboðið en það hafi verið of seint þar sem málinu hafi lokið þegar ákærði samþykkti sektarboðið. Ákærða hafi ekki verið kynnt ákæra fyrr en 12. desember sl. og fram að því hafi hann ekki mátt vita annað en að sektarboðið væri í fullu gildi. Þó svo að málalok samkvæmt sektarboðinu hafi hugsanlega verið fjarstæðukennd breyti það ekki því að fara verði rétta leið til að endurupptaka það í samræmi við 115. gr. a. laga nr. 19/1991. Það hafi ekki verið gert og beri að vísa málinu frá dómi þar sem því sé lokið.
Sækjandi vísar til þess að aðstoðaryfirlögregluþjóni hafi nýverið verið falið að senda út sektarboð vegna einfaldra umferðarlagabrota. Fyrir misskilning hafi ákærða verið sent sektaboð vegna máls þessa en það hafi verið andstætt lögum. Sektarboðið hafi verið sent út 30. nóvember 2005 frá Hvolsvelli og því sé ólíklegt að ákærði hafi undirritað það sama dag, eins og hann hefur haldið fram. Þegar sækjanda hafi orðið kunnugt um sektarboðið þann 1. desember 2005 hafi hann þegar reynt að koma í veg fyrir að sektarboðið yrði sent út þar sem það væri andstætt lögum og látið loka greiðsluseðlinum. Sektarboðið hafi verið sent út á grundvelli 115. gr. laga nr. 19/1991 en það megi aðeins gera þegar brot varðar aðeins sektum eða sviptingu ökuleyfis allt að einu ári. Afgreiðsla á grundvelli 115. gr. eða 115. gr. a. laga nr. 19/1991 vegna brots af þessu tagi sé því óheimil og andstæð lögum. Ákvæði um endurupptöku eigi ekki við í málinu heldur hafi sýslumaðurinn afturkallað ákvörðunina þar sem hún hafi verið andstæð lögum, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að ákærði sé síbrotamaður í því að aka sviptur ökurétti, en hann hafi margítrekað verið sviptur ökurétti án þess að hafa nokkurn tímann öðlast ökuréttindi. Við ákvörðun refsingar beri að líta til óskammfeilni ákærða og þess að hann beri ekki virðingu fyrir lögum og rétti.
II.
Í málinu er deilt um gildi sektarboðs dags. 30. nóvember 2005. Um er að ræða greiðsluseðil þar sem segir að sektarfjárhæð sé kr. 60.000 en kr. 45.000 sé greitt fyrir 30. desember. Efst á greiðsluseðlinum stendur skýrum stöfum að um sektarboð sé að ræða. Á greiðsluseðlinum er broti ákærða lýst í stuttu máli og talið varða við 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Jafnframt segir þar að samkvæmt heimild í 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 57/1997, sé ákærða gefinn kostur á ljúka málinu án dómsmeðferðar með greiðslu sektar. Sektin ákveðist kr. 60.000 en ef hún greiðist fyrir 30. desember 2005 sé veittur 25% afsláttur og verði því kr. 45.000. Afgreiðsla málsins með þessum hætti færist ekki í sakaskrá en brotið varði ekki punkti sbr. reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 431/1998. Loks segir á seðlinum að verði sektarboði ekki sinnt eða því verði hafnað verði tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum um meðferð opinberra mála.
Ákærði kveðst hafa fengið greiðsluseðilinn þann 30. nóvember og samþykkt viðurlögin með undirritun á hann. Þá hafi hann farið strax sama dag eða daginn eftir til að greiða sektina en ekki hafi verið unnt að greiða samkvæmt seðlinum. Sækjandi segir það ekki standast að ákærða hafi borist seðillinn þann 30. nóvember þar sem hann hafi þann dag verið sendur frá Hvolsvelli en þaðan séu öll sektarboð send. Kveðst sækjandi hafa lokað umræddum greiðsluseðli um leið og honum varð kunnugt um sendingu hans.
Á greiðsluseðlinum er vísað til heimildar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en samkvæmt henni getur lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka máli með því að gangast undir hæfileg viðurlög ásamt greiðslu sakarkostnaðar telji hann viðurlög við brotinu ekki fara fram úr sviptingu ökuleyfis allt að einu ári, upptöku eigna eða sekt að tiltekinni fjárhæð sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð. Gangist sakborningur undir ákvörðun viðurlaga hafi þau málalok sama gildi um ítrekunaráhrif og dómur. Í 2. mgr. 115. gr. laganna segir að hafi sakborningur gengist skriflega undir ákvörðun sektar en ekki greitt geti lögreglustjóri krafist fullnustu ákvörðunarinnar með aðför fremur en að ákveða saksókn vegna brotsins.
Er hér fjallað um svokallaðar viðurlagaákvarðanir lögreglustjóra en ekki sektarboð og er því umrædd tilvitnun á greiðsluseðlinum röng.
Um sektarboð er fjallað í 115. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Segir í 1. mgr. þeirrar greinar að séu skilyrði til að ljúka máli samkvæmt því sem segi í 1. mgr. 115. gr. og lögreglustjóri telji að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem ekki fari fram úr kr. 100.000 geti lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar. Í sektarboði skuli koma fram stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það var framið og þau refsiákvæði sem það varði við. Einnig skuli koma fram afleiðingar þess að sektarboði sé ekki sinnt. Í 2. mgr. er rætt um höfnun sakbornings á sektarboði og í 3. mgr. um afleiðingar þess að sakborningur sinni ekki sektarboði.
Í 115. gr. a. er ekki gert ráð fyrir að sakborningur geti gengist undir sektarákvörðun með öðrum hætti en greiðslu sektarinnar á tilskildum tíma. Umrætt sektarboð var sent í formi greiðsluseðils og þannig ekki gert ráð fyrir samþykki sakbornings með öðrum hætti en með greiðslu sektarinnar. Þrátt fyrir ranga lagatilvísun á umræddum greiðsluseðli má því telja ljóst að um sektarboð í skilningi 115. gr. a. sé að ræða.
Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd er ljóst að viðurlög þau sem ákærða var boðið að ljúka málinu með voru fjarstæðukennd og mátti ákærða, sem margsinnis hefur verið dæmdur fyrir sams konar brot, vera fyllilega ljóst að svo var. Kom sækjandi þegar í veg fyrir að sektin yrði greidd í samræmi við umrætt sektarboð og samþykkt af ákærða með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 115. gr. a. laga nr. 19/1991. Verður að telja að útgáfa sektarboðsins hafi verið andstæð lögum og að ákærði hafi ekki mátt vera í góðri trú um að málinu yrði lokið með þeim hætti er þar greindi. Var ofangreint sektarboð samkvæmt því ógildanlegt og stjórnvaldi heimilt að afturkalla það að eigin frumkvæði, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fallist á það með ákærða að máli hans hafi þegar verið lokið með sektarboðinu og er hafnað kröfu verjanda hans um frávísun málsins.
III.
Eins og áður greinir kom ákærði fyrir dóminn þann 17. janúar sl. Játaði ákærði brot sitt eins og því er í ákæru lýst. Er játning hans í samræmi við gögn málsins og þykir brot hans því nægjanlega sannað og varðar við tilgreind lagaákvæði.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði, eftir að hann varð 18 ára, hlotið 13 dóma fyrir brot gegn umferðarlögum, hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og vopnalögum. Hefur hann 7 sinnum á þeim tíma hlotið refsingu fyrir brot gegn 48. gr. umferðarlaga. Síðast þann 1. nóvember 2005 var ákærði dæmdur í fangelsi í 4 mánuði fyrir fjögur slík brot, auk brota gegn fíkniefna- og vopnalögum. Hefur ákærði aldrei öðlast ökuréttindi og var hann sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. október 1999.
Í þessu máli er ákærði enn dæmdur fyrir að aka sviptur ökuréttindum þann 29. nóvember 2005, innan við mánuði eftir að hann hlaut dóm fyrir slík brot. Með vísan til sakarferils ákærða þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Kostnaður sakarinnar er samtals kr. 80.730; útlagður kostnaður að fjáræð kr. 15.730 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin kr. 65.000, að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði hefur frá upphafi játað brot sitt skýlaust en hann tók til varna í málinu vegna umrædds sektarboðs sem honum var sent. Er í málinu fram komið að sektarboðið hafi verið sent ákærða fyrir mistök starfsmanns lögreglustjóra án þess að nokkur heimild hafi verið fyrir útgáfu þess og var sektarboðið að auki villandi þar sem tilvísun til laga var þar ekki rétt. Þá kynnti sækjandi ákærða ákvörðun sína um afturköllun sektarboðsins ekki sérstaklega svo sem eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður. Þykir samkvæmt þessu, með vísan til 167. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, rétt að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Tómas Helgi Jónsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hrl., að fjárhæð kr. 80.730 að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.