Hæstiréttur íslands
Mál nr. 697/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Erfðaskrá
- Aðfinnslur
|
|
Miðvikudaginn 16. desember 2009. |
|
Nr. 697/2009. |
A B C D og E (Kristján Gunnar Valdimarsson hdl.) gegn sýslumanninum í Reykjavík (Eyrún Guðmundsdóttir deildarstjóri) |
Kærumál. Opinber skipti. Erfðaskrá. Aðfinnslur.
A o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms um að taka dánarbú F til opinberra skipta og kröfðust þess að búið yrði tekið til einkaskipta og sýslumanni bæri að gefa út slíkt leyfi til handa erfingjum samkvæmt erfðaskrá. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A o.fl. hafi ekki gert kröfu um að sýslumaður gæfi út leyfi til einkaskipta A o.fl. til handa né um málskostnað í héraði. Kæmu þær kröfur því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti. Talið var að erfðaskrá frá 1983 þar sem A o.fl. voru erfingjar hafi verið afturkölluð árið 1999. Ekki var talið skipta máli þó erfðaskráin hafi legið frammi við skipti á dánarbúi G, systur F, árið 2007, en ekki afturköllunin, enda hafi F verið eini lögerfingi G. Var því tekin til greina krafa sýslumanns um opinber skipti á dánarbúi F.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009, þar sem dánarbú F var tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að gefa út leyfi sóknaraðilum til handa um einkaskipti á dánarbúinu. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ekki verður séð að sóknaraðilar hafi lagt fram greinargerð við meðferð málsins í héraði. Kröfur af þeirra hálfu eru skráðar í þingbók við munnlegan flutning málsins. Þar er ekki að finna kröfu um að varnaraðili gefi út leyfi til einkaskipta sóknaraðilum til handa né um málskostnað og koma þær kröfur því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Það athugast að bókunum í þingbók við meðferð málsins í héraði er áfátt. Þannig er meðal annars ekki bókað um framlagningu einstakra skjala í dómi. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009.
Með kröfu móttekinni 28. júlí 2009 hefur Sýslumaðurinn í Reykjavík krafist opinberra skipta á dánarbúi F, síðast með lögheimili að [...], er lést [...].
Við þingfestingu málsins 18. september sl. var mætt af hálfu varnaraðila og kröfunni mótmælt og var ágreiningsmál þetta þá þingfest. Ágreiningsmálið var tekið til úrskurðar 26. október 2009
Dómkröfur sóknaraðila eru að dánarbú F verði tekið til opinberra skipta.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað og að lagt verði fyrir sóknaraðila að gefa út leyfi til einkaskipta.
I.
Sýslumaðurinn í Reykjavík móttók þann 17. júlí 2009, beiðni varnaraðila sem erfingja samkvæmt erfðaskrá, um leyfi til einkaskipta á dánarbúi F, sem ekki lét eftir sig lögerfingja, en áður hafði af hálfu sýslumanns verið kynnt fyrir varnaraðilum erfðaskrá hinnar látnu frá 19. júlí 1983. Fyrir mistök hafði erfingjum ekki verið kynnt að þann 19. maí 1999 hafði erfðaskráin verið afturkölluð, en sú afturköllun var kynnt erfingjum með bréfi dags. 7. júlí 2009. Þann 17. júlí 2009 var einnig móttekið hjá sýslumanni bréf lögmanns varnaraðila þar sem þess var krafist að byggt yrði á nefndri erfðaskrá frá 1983, að því gefnu að engin önnur erfðaskrá fyndist.
Erfðaskráin frá 19. júlí 1983 var sameiginleg erfðaskrá systranna F og G, en G lést árið 2007. Voru varnaraðilar máls þessa erfingjar samkvæmt erfðaskránni eftir lát hinnar langlífari af systrunum. Erfðaskráin liggur frammi í málinu í ljósriti, og er hún árituð um afturköllun og sú áritun undirrituð af systrunum í viðurvist lögbókanda, þann 19. maí 1999. Texti afturköllunarinnar er: „Við undirritaðar óskum hér með að framanskráð erfðaskrá verði ógilt og falli alfarið niður“. Fram hefur komið í málinu að ítarleg leit hafi verið gerð hjá sýslumanni að annarri erfðaskrá, en engin fundist og ekki hefur verið lögð fram erfðaskrá og engir aðrir en varnaraðilar gefið sig fram sem erfingja eftir hina látnu. Þá kemur fram af hálfu sóknaraðila að við skipti á dánarbúi G hafi erfðaskráin ekki haft gildi og ekki skipt máli hvort hún var gild eða afturkölluð, enda hafi F verið eini lögerfingi G, auk þess að vera erfingi samkvæmt hinni afturkölluðu erfðaskrá. Var það harmað af hálfu sóknaraðila að mistök hafi verið gerð varðandi upplýsingar um erfðaskrá og afturköllun hennar, en það ekki talið breyta því að erfðaskrá hafi verið lögformlega afturkölluð og því engin erfðaskrá í gildi. Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að formskilyrðum til afturköllunar erfðaskrár sé fullnægt, enda séu ekki eins miklar kröfur gerðar til formskilyrða, svo sem vottunar varðandi afturköllun, eins og þegar um er að ræða vottun erfðaskrár.
Þar sem sýslumaður hafi hafnað beiðni erfingja um leyfi til einkaskipta, er á því byggt af hálfu sóknaraðila að skilyrðum 5. tl. 37. gr. laga nr. 20/1991 sé fullnægt fyrir kröfu um opinber skipti. Jafnframt sé vísað til 2. tl. 37. gr. og 1. mgr. 12. gr. laganna.
II.
Varnaraðilar byggja á því að það liggi fyrir að vilji hinnar látnu hafi staðið til þess að varnaraðilar væru erfingjar hennar. Systurnar hafi gert sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá og hafi dánarbúi G verið skipt á grundvelli hennar án þess að afturköllunin hafi legið frammi. Hafi ekki verið gerð athugasemd við það af hálfu F og megi skoða það sem jafngildi afturköllunar hennar á afturköllun erfðaskrárinnar.
Byggt er á því að um mikinn skyldleika hafi verið að ræða á milli hinnar látnu og varnaraðila málsins og sérstök ættartengsl. Þá telja varnaraðilar að formskilyrðum sé varla fullnægt til að afturköllun erfðaskrár teljist gild í þessu tilviki.
III.
Sóknaraðili í málinu krefst þess að dánarbú F verði tekið til opinberra skipta, þar sem engir lögerfingjar séu til staðar og engin gild erfðaskrá. Vísað er til viðeigandi lagaákvæða í lögum nr. 20/1991, en í 37. gr. þeirra laga er fjallað um hvenær sýslumaður skuli krefjast opinberra skipta á dánarbúum, skv. 2. tl. skal það gert hafi ekki verið upplýst um neinn erfingja þannig að ætla megi að arfur muni falla til ríkisins og skv. 5. tl. hafi sýslumaður hafnað beiðni um leyfi til einkaskipta eða fellt slíkt leyfi niður.
Það liggur fyrir í málinu að varnaraðilar voru erfingjar hinnar látnu samkvæmt erfðaskrá hennar frá 1983, en jafnframt liggur fyrir að sú erfðaskrá var afturkölluð árið 1999. Fallast verður á það með sóknaraðila að ekki séu gerðar jafn strangar formkröfur til afturköllunar erfðaskrár eins og gerðar eru til erfðaskrárinnar sjálfrar, sbr. VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962 og verður ekki hjá því komist að telja afturköllun erfðaskrár í máli þessu fullgilda.
Sú málsástæða varnaraðila að við skipti á búi systur hinnar látnu árið 2007, hafi erfðaskráin legið frammi, en ekki afturköllunin, og þess vegna eigi erfðaskráin að gilda þrátt fyrir afturköllun, fær ekki staðist. Vissulega er það óheppilegt ef ekki hafa legið frammi rétt skjöl við þau skipti, sem varnaraðilar voru ekki aðilar að, en til þess er að líta að erfðaskráin hefði ekki haft úrslitaáhrif við þau skipti þar sem F mun hafa verið eini lögerfingi systur sinnar.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða málsins að taka verður til greina kröfu sóknaraðila og taka bú F til opinberra skipta.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dánarbú F, síðast með lögheimili að [...], er lést [...], er tekið til opinberra skipta.