Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2017

Ákæruvaldið (enginn)
gegn
X og Y (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Brotaþoli
  • Réttargæslumaður

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var synjað um skipun réttargæslumanns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. janúar 2017 þar sem brotaþola var synjað um skipun réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess er krafist að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa tiltekinn lögmann réttargæslumann brotaþola.

Hvorki sóknaraðili né varnaraðilar hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. janúar 2017.

Mál þetta er höfða með ákæru lögreglustjórans á Vesturlands, útgefinni 29. apríl 2016, á hendur X, kt. [...], og Y, kt. [...] fyrir líkamsárás aðfaranótt 26. júlí 2015 við [...], með því að hafa veist að A, kt. [...],

a) ákærði X með því að hafa slegið A hnefahögg í andlit þannig að hann féll í götuna og vankaðist,

b) ákærði Y með því að hafa sparkað í A þannig að sparkið fór ofarlega í búk og í andlit,

með þeim afleiðingum að A hlaut innkýlt brot í framvegg vinstri kjálkaholu, skurð lóðrétt í gegnum alla þykkt vinstri hluta efri varar og í gegnum hringvöðva munns (m. obiculari oris) og bólgu og mar á vinstri kinn.

Eru brot ákærðu talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum og þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu brotaþolans, A, er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum in solidum 2.000.000 króna í miskabætur, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 26. júlí 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttar­vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um að ákærðu verði dæmdir til að greiða A útlagðan kostnað sem hann kunni að verða fyrir vegna málsins og þóknun tilnefnds og skipaðs réttargæslu­manns skv. 48. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í þinghaldi 31. maí 2016 neitaði ákærði sök og hafnaði bótakröfu.

Brotaþoli krefst þess að talmaður hans, Víðir Smári Petersen hdl., verði skipaður réttargæslumaður hans, sbr. 41. og 42. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu brotaþola er krafan einkum rökstudd með því að ákærði hafi orðið fyrir verulegu tjóni, bæði líkamlega og á andlegu heilbrigði af völdum brots ákærðu, eins og staðfest sé fyrirliggjandi vottorðum læknis og tannlæknis.

Af hálfu beggja ákærðu er kröfu brotaþola andmælt og af hálfu ákæruvaldsins er tekið fram að það telji að ekki séu fyrir hendi lagalegar forsendur fyrir því að krafan verði tekin til greina.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal lögregla eftir ósk brotaþola tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist m.a. að broti gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn. Jafnframt er það skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Eftir að mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til að tilnefna réttargæslumann samkvæmt framangreindu lagaákvæði skipar dómari brotaþola réttargæslumann samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008.

Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök er í ákæru talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir í málinu bera ekki með sér að brotaþoli hafi í umrætt sinn orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, svo sem í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 greinir. Í málinu liggur fyrir bótakrafa brotaþola, sem í ákæru greinir, og nýtur hann aðstoðar lögmanns við að fylgja henni eftir fyrir dóminum. Að mati dómsins er ekki komið fram að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Verður kröfu hans þar um því hafnað.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu brotaþola, A, um að honum verði skipaður réttargæslumaður.