Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Viðari Ben Teitssyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka

Reifun

V var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 0,98 g af MDMA, 98,47 g af kókaíni, 48,93 g af maríhúana og 601 stykki af MDMA töflum. Við ákvörðun refsingar var horft til þess að V hefði ekki sætt refsingu áður en á hinn bóginn var litið til þess að brot hans snerist um mikið magn af hættulegu fíkniefni, MDMA. Var refsing V ákveðin fangelsi í 15 mánuði auk þess sem áðurgreind ávana- og fíkniefni voru gerð upptæk.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Viðar Ben Teitsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 654.480 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.    

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. apríl 2016.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 6. júlí 2015, á hendur X, kt. [...] [...] í Reykjavík, og Viðari Ben Teitssyni, kt. [...], [...] í Kópavogi. 

Samkvæmt I. kafla ákæru er ákærðu báðum gefið að sök „stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 25. apríl 2014, í geymslu 101 að [...], Kópavogi, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingar­skyni samtals 245,32 g af amfetamíni, 0,98 g af MDMA, 98,47 g af kókaíni, 48,93 g af maríhúana og 601 stykki af MDMA töflum, sem lögreglan fann við leit.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.“        

Í II. kafla ákæru er ákærði X annars vegar sóttur til saka fyrir „hylmingu, með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í I. [kafla] ákæru, haft í vörslum sínum samtals 6 fartölvur, þar af þrjár af gerðinni Acer aspire V5, eina af gerðinni Asus X55u, eina af gerðinni Asus X550 LA og eina af gerðinni Asus v3, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið fartölvunum ólöglega fyrir eigendum fram til þessa dags er lögreglan lagði hald á þær við húsleit en þeim var stolið fimmtudaginn 24. apríl 2014 úr versluninni [...], [...], Reykjavík.

Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.“

                Hins vegar er ákærða í þessum kafla ákæru gefið að sök „fíkniefnalagabrot, með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í I. [kafla] ákæru, haft í vörslum sínum 6,26 g af amfetamíni og 0,49 g af kókaíni sem lögreglan fann við leit á ákærða.“

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftir­lits­skyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

                Loks er ákærða Viðari í III. kafla ákærðu gefið að sök „fíkniefnalagabrot með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í I. [kafla] ákæru, haft í vörslum sínum 3,89 g af amfetamíni, sem lögreglan fann við leit á ákærða.“

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er gerð krafa um upptöku á framangreindum fíkniefnum.

Ákærði Viðar hefur alfarið neitað sök samkvæmt I. kafla ákæru, en gengist við þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í III. kafla hennar. Ákærði X hefur játað sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru að hluta og nánar tiltekið á þann veg að hann hafi á umræddum stað og tíma haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 245,32 g af amfetamíni. Þá hefur hann skýlaust játað það fíkniefnalagabrot sem seinni töluliður II. kafla ákæru tekur til. Að öðru leyti neitar ákærði sök.   

Ákærði X gerir þá kröfu að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin.

Ákærði Viðar krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru, til vara að honum verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að hann verði dæmdur til vægustu lögleyfðu viðurlaga og að refsivist, komi til þess að hún verði dæmd, verði bundin skilorði. Þá krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa fyrir brot samkvæmt III. kafla ákæru. 

I

                Samkvæmt rannsóknargögnum málsins bárust lögreglu um það upplýsingar í byrjun apríl 2014 að ákærði X hefði með höndum sölu og dreifingu fíkniefna og að umsvif hans á því sviði væru umtalsverð. Væri hann meðal annars grunaður um að hafa í félagi við annan mann flutt til landsins þúsundir E-taflna. Segir í frumskýrslu lögreglu, sem rituð er af A rannsóknarlögreglumanni, að í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla verið með eftirlit við fjöleignarhúsið að [...] í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 25. apríl 2014, en ákærði var þá búsettur þar. Á þessum tíma beindist grunur um refsiverða háttsemi í engu að ákærða Viðari Ben Teitssyni sem einnig bjó í húsinu. Er í skýrslunni lýst tildrögum þess að ákærði X var handtekinn í geymslu nr. 101 í kjallara hússins, en hún tilheyrir íbúð ákærða Viðars. Geymslan hafi verið lokuð þegar lögreglumenn komu að henni en þrusk heyrst innandyra. Þar sem ekki hafi verið opnað þegar lögregla gerði vart við sig hafi hurðin verið brotin uppi og ákærði þá staðið á miðju geymslugólfinu. Áður en þetta gerðist og í þeim tilgangi að hafa upp á ákærða hafi lögreglumenn farið inn í geymslu nr. 102 sem fylgir íbúðinni sem hann bjó í á þessum tíma og hafi þeir einnig þurft að brjóta sér leið inn í hana. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi á staðnum heimilað lögreglu að framkvæma leit í íbúð hans og geymslu nr. 102, en þar sem hann hefði ekkert með geymslu nr. 101 að gera gæti hann ekki heimilað leit í henni. Strax í kjölfar þessa hafi ákærði Viðar verið handtekinn þar sem hann var staddur á bifreiðastæðinu framan við húsið. Í þessum aðgerðum lögreglu voru einnig handteknir þeir B og C, sem voru á leið frá íbúð ákærða X og niður í kjallarann þegar lögregla handtók þá, og fjórir aðrir karlmenn sem staddir voru í íbúð ákærða, þar á meðal D. Á staðnum handtók lögregla einnig E, sem samkvæmt skýrslunni á að hafa farið niður í kjallara fjöleignarhússins í fylgd ákærða Viðars skömmu áður en lögregla lét til skarar skríða.

                Í framangreindri frumskýrslu málsins kemur fram að við leit í geymslu nr. 101, það er geymslunni sem tilheyrir íbúð ákærða Viðars, hafi fundist efni sem talið var að væru fíkniefni. Lögmaður sem kallaður hafi verið til að beiðni ákærða hafi verið viðstaddur leitina. Þá hefðu sömuleiðis fundist þarna 6 nýjar fartölvur í upprunalegum umbúðum. Í skýrslu um rannsókn og prófun á haldlögðum efnum, sem er á meðal gagna málsins, kemur fram að um var að ræða 245,32 g af amfetamíni, 0,98 g af MDMA, 98,47 g af kókaíni, 48,93 g af maríhúana og 601 stykki af MDMA-töflum. Voru 15 töflur rannsakaðar af Rannsóknastofu Háskóla Íslands í eiturefnafræði. Kemur fram í fyrirliggjandi matsgerð rannsóknastofunnar að hver tafla hafi innihaldið 97 mg af MDMA sem samsvari 115 mg af MDMA-klóríði. Samkvæmt gögnum málsins voru fíkniefnin aðallega falin í málningarfötu, í plastboxi sem komið hafði verið fyrir í frystiskáp og í tölvukassa eða tölvuturni gamallar borðtölvu. Þá er þess að geta að í upplýsingaskýrslu lögreglu 27. október 2014 er greint frá því að framangreindum fartölvum hafi verið stolið í innbroti í verslunina [...]í Reykjavík 24. apríl 2014.

Í lögregluskýrslu sem sérstaklega var rituð um handtöku ákærða X kemur fram að hann var með fíkniefni á sér. Samkvæmt fyrirliggjandi efnaskýrslu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu leiddi rannsókn og prófun á þeim efnum í ljós að um var að ræða 0,49 g af kókaíni og 6,26 g af amfetamíni. Í gögnum málsins kemur einnig fram að við leit á ákærða Viðari hafi fundist 3,89 g af amfetamíni. Þá var gerð leit í íbúðum ákærðu og geymslu nr. 102 en þar fannst ekkert sem þýðingu hefur við úrlausn málsins.   

Fram kemur í lögregluskýrslu frá 28. apríl 2014 að við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. sama mánaðar hafi ákærði Viðar greint frá því að myndavélabúnaður hafi verið settur upp í fjöleignarhúsinu að [...] og að hann tæki upp mynd af bílageymslu, hjólageymslu og sameiginlegu rými þar sem eru geymslur fyrir hverja íbúð í húsinu. Þessi búnaður væri í eigu húsfélagsins og hann hafi á sínum tíma verið settur upp af Securitas hf. Hafi lögregla tekið búnaðinn í sínar vörslur sama dag og ákærði upplýsti um þetta. Tveimur dögum seinna hafi búnaðurinn verið afhentur Securitas til skoðunar. Á meðal gagna málsins er skjal sem sýnir 59 svokölluð „skjáskot“ sem starfsmanni fyrirtækisins, F, tókst að kalla fram við tæknivinnu sína. Á hverju þeirra sést til mannaferða í því sameiginlega rými sem getið er um hér að framan. Í nær öllum tilvikum sjást ákærðu á þessum skjáskotum, en þeir eru þó aldrei saman á þeim. Ná þau yfir tímabilið frá klukkan 01.21 aðfaranótt 17. apríl 2014 til klukkan 17.48 25. sama mánaðar, en skömmu seinna mun hafa slokknað á búnaðinum.

Teknar voru tvær skýrslur af ákærða X 26. apríl 2014, það er daginn eftir að hann var handtekinn. Hófst fyrri skýrslutakan klukkan 15.26 og henni lauk klukkan 16.08, en sú seinni hófst klukkan 19.34 og stóð í um það bil 6 mínútur. Í fyrri skýrslunni kvaðst hann ekkert kannast við þau fíkniefni sem fundust við leit að [...] en gaf óljóst í skyn að meðákærði hefði eitthvað með þau að gera. Þá skýrði hann svo frá að D, vinur hans, hafi komið með tölvurnar til hans og beðið hann um að geyma þær. Í seinni skýrslunni gekkst ákærði á hinn bóginn við því að eiga fíkniefnin, en þó ekki „grasið“. Meðákærði hafi leyft honum að geyma fíkniefnin í geymslunni og þegið greiðslu fyrir það, en hún hafi falist í því að hann hafi fengið amfetamín hjá ákærða. Meðákærði hafi látið hann hafa lykil að geymslunni. Þegar ákærði var spurður um magn fíkniefna sem komið hefði verið fyrir í geymslunni gat hann litlu um það svarað og tiltók það eitt, sérstaklega aðspurður um amfetamínið, að „þetta hafi verið hundrað og eitthvað sem var eftir“. Þá kom fram hjá ákærða í þessari skýrslu hans að D hafi komið með tölvurnar til hans eftir að hafa stolið þeim í innbroti. Í skýrslutöku 2. júlí 2014 var ákærði inntur eftir því hvort hann vildi breyta fyrri framburði sínum eða bæta einhverju við hann. Því svaraði hann neitandi. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 7. sama mánaðar var afstaða hans í fyrstu sú sama en breyttist síðan á þann veg að hann hafi bara átt amfetamíníð og önnur fíkniefni sem fundust í geymslunni hafi tilheyrt meðákærða. Á milli þeirra hafi verið „skiptidíll“.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. apríl 2014 kvaðst ákærði Viðar ekkert kannast við þau fíkniefni sem sakargiftir í I. kafla ákæru taka til. Þá neitaði hann að tjá sig um það hvar hann hafi fengið fíkniefnin sem fundust við leit á honum. Hið sama gerði hann þegar hann var inntur eftir því hvort hann neytti fíkniefna. Hann hafi kynnst meðákærða um það bil tveimur mánuðum áður. Skýrði hann svo frá að hann hafi heimilað meðákærða og félögum hans að nota geymsluna, þar sem fíkniefnin fundust, og látið honum í té lykil að henni í því skyni. Verður ráðið að þessum framburði ákærða að meðákærði hafi fengið lykilinn lánaðan í nokkur skipti og í skamman tíma hverju sinni, síðast tveimur dögum áður en fíkniefnin fundust.  Aðspurður neitaði ákærði að svara því hvort meðákærði hafi greitt eitthvað fyrir afnot sín að geymslunni.   

Fram er komið í málinu að ákærði Viðar hafði komið fyrir í og við geymslu sína í kjallara hússins að [...] búnaði sem gerði honum kleift að fylgjast með mannaferðum við hana.

II

Við þingfestingu málsins játaði ákærði X skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. lið II. kafla ákæru en neitaði sök að öðru leyti. Við aðalmeðferð málsins gekkst ákærði við því að hafa átt það amfetamín sem lögregla fann við leit í geymslu nr. 101 í fjöleignarhúsinu að [...] í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 25. apríl 2014 og að hafa haft það í sínum vörslum í sölu- og dreifingarskyni. Efnið hafi hann geymt í plastboxi sem komið hafði verið fyrir í frysti sem var í geymslunni. Hann hafi ekkert haft með önnur efni að gera sem lögregla lagði hald á þetta kvöld og tilgreind eru í I. kafla ákæru. Meðákærði Viðar hafi verið með þau í sinni umsjá og ákærði hefði enga vitneskju um það hvort hann hafi átt efnin eða verið að geyma þau fyrir einhvern annan. Fram kom hjá ákærða að hann og meðákærði hefðu búið hlið við hlið í blokkinni og að þeir hefðu kynnst í gegnum sameiginlegan kunningja en ekkert þekkst áður en ákærði flutti þangað. Ákærði hafi ekki getað geymt amfetamínið í sinni geymslu, hún hafi ekki verið öruggur geymslustaður í ljósi fyrri afskipta lögreglu af honum, og meðákærði boðið honum að geyma það í geymslunni sinni. Hefðu samskipti þeirra þróast á þann veg að þeir hefðu skipst á efnum, ákærði hafi látið meðákærða í té amfetamín og fengið í staðinn frá honum kókaín og MDMA. Það hafi með öðrum orðum verið í gangi „skiptidíll“ á milli þeirra. Meðákærði hafi til dæmis fengið amfetamín hjá ákærða skömmu áður en þeir voru handteknir. Hann hafi af þessum sökum vitað um þessi efni, en meðákærði hafi verið duglegur við að færa þau á milli geymslustaða inni í geymslunni. Meðákærði hafi látið hann fá lykil að geymslunni þegar ákærði þurfti að komast inn í hana. Hann hafi haft lykilinn undir höndum í skamman tíma hverju sinni og kannaðist ekki við að hafa fengið hann að láni þar sem hann hafi verið búinn að týna lyklinum að sinni geymslu. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvort lykill sem hann fékk hjá meðákærða hafi líka gengið að sameigninni. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi stundum farið niður í geymsluna til að sinna erindum fyrir meðákærða og nefndi í því sambandi að hann hafi sótt þangað fíkniefni sem meðákærði hafi átt og skilið þau eftir á einhverjum stað þar sem þau yrðu sótt af öðrum aðila. Nánar aðspurður um þetta og meinta sölu ákærðu á fíkniefnum kaus ákærði að tjá sig ekki frekar. Þegar borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 26. apríl 2014 þar sem hann gekkst við því að hafa átt öll þau fíkniefni sem fundust í geymslunni, en sú afstaða hans var óbreytt við skýrslugjöf 2. júlí sama ár, svaraði hann því til að honum hafi verið sagt að hann ætti að taka þetta allt á sig. Hann hafi verið hræddur og ákveðið að gera það. Við þetta bætist síðan að hann hafi verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Síðar hafi hann ákveðið að standa með sjálfum sér og skýra satt og rétt frá. Hið rétta í málinu væri því það að hann hafi átt amfetamínið en meðákærði öll önnur efni sem fundust í geymslunni við leit lögreglu. Framburður hans hjá lögreglu fram til 7. júlí 2014 væri þannig rangur og hið sama ætti við um framburð meðákærða, sem væri í reynd fráleitur í ljósi allra atvika. Tiltók ákærði í þessu sambandi að meðákærði hafi varla staðið í því að koma upp búnaði til að fylgjast með mannaferðum við geymsluna vegna fíkniefna sem ákærði væri að geyma í henni. Þá hafnaði hann því alfarið að hafa átt aðild að innflutningi á MDMA-töflum, en svo sem áður er fram komið voru aðgerðir lögreglu að [...] í umrætt sinn meðal annars byggðar á upplýsingum þar að lútandi sem rannsóknargögn málsins bera með sér að lögreglu hafi borist. Spurður um fartölvurnar sem voru í geymslunni svaraði ákærði því til að D hafi komið með þær til hans og spurt hvort hann vildi kaupa þær. Ákærði hafi boðið honum fíkniefni í skiptum fyrir þær en þar sem það hafi ekki gengið hafi ákærði ætlað að kanna hvort meðákærði vildi kaupa þær. Hafi meðákærði svarað því til að hann ætlaði að skoða málið og sagt ákærða að fara með tölvurnar í geymsluna. Kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa spurt Dhvar hann hafi fengið tölvurnar. Verður af framburði ákærða ráðið að D hafi oft komið með einhverja hluti til hans sem ákærða hafi grunað að væru illa fengnir.  

Í framburði ákærða Viðars fyrir dómi kom fram að hann hafi kynnst meðákærða í gegnum gamlan skólafélaga sinn í kjölfar þess að meðákærði flutti að [...], í íbúðina við hliðina á honum. Á milli þeirra hefðu verið samskipti í 2-3 mánuði áður en umræddar aðgerðir lögreglu komu til. Þetta hafi byrjað með því að það hafi verið eitthvert vesen á meðákærða og strákum sem höfðust við í íbúð hans, það hafi meðal annars brotnað rúða og hann hafi sem formaður húsfélagsins hjálpað þeim „að græja það“. Þá hafi meðákærði týnt lykli að sameign fjöleignarhússins og ákærði þá boðist til að lána honum aukalykilinn sinn sem hafi gengið að sameigninni og geymslunni hans. Meðákærði hafi einhverju sinni á þessum tíma spurt ákærða hvort hann gæti lánað honum borvél. Hafi ákærði samþykkt það og sagt meðákærða að hún væri í geymslunni og að lykillinn sem hann væri með gengi að henni. Þá hafi ákærði líka fengið að geyma eitthvað í geymslunni þar sem hans geymsla hafi verið ólæst. Eftir þetta hafi meðákærði greinilega farið að notfæra sér þessa greiðasemi ákærða í vafasömum tilgangi. Hann hafi aldrei farið inn í geymsluna að beiðni ákærða. Hafnaði ákærði því alfarið að hafa haft vitneskju um fíkniefnin sem í ljós kom að voru í geymslunni. Meðákærði hafi haft lykilinn sem hann fékk hjá ákærða í sínum vörslum í um það bil tvo mánuði samfleytt og framburður meðákærða um annað væri rangur. Á þessum tíma hafi ákærði margoft beðið hann um að skila lyklinum en án árangurs, síðast skömmu áður en lögregla handtók þá. Ákærði hafi þá farið niður í geymsluna ásamt E vini sínum til að sækja þangað stroffur. Meðákærði hafi þá verið þar staddur. Hafi ákærði sagt honum að hann kærði sig ekki um að hann væri að hanga inni í geymslunni og krafist þess að hann skilaði lyklinum. Þá verður af framburði ákærða ráðið að hann hafi, þegar hér var komið sögu, spurt meðákærða um tölvurnar sem voru í geymslunni og beðið hann um að fjarlægja þær. Meðákærði hafi af þeim ástæðum þurft að hafa lykilinn aðeins lengur og því ekki afhent ákærða hann. Kvaðst ákærði að öðru leyti ekkert geta sagt um tölvurnar og tildrög þess að þeim hafði verið komið fyrir í geymslunni. Þegar ákærði var beðinn um að gera frekari grein fyrir því af hverju honum tókst ekki að fá meðákærða til að skila lyklinum gat hann engu svarað um það. Aðspurður um samskipti sín við meðákærða svaraði ákærði því til að þau hafi verið í lagi til að byrja með. Hann hafi þó fljótlega farið að gruna að meðákærði væri í einhverju fíkniefnastússi og tiltók í því sambandi ástand manna sem héldu til hjá honum. Þetta hafi verið einhverjum vikum áður en aðgerðir lögreglu komu til. Sjálfur kvaðst ákærði ekki neyta fíkniefna. Spurður um fíkniefnin sem fundust í fórum hans og III. kafli ákæru tekur til, en þær sakargiftir játaði ákærði skýlaust, svaraði hann því til að meðákærði hafi látið hann hafa þessi efni þegar þeir voru staddir í geymslunni í framangreint sinn, það er skömmu áður en þeir voru handteknir. Hafi meðákærði rétt honum efnin og sagt að hann ætti að prófa þetta. Hann hafi ákveðið að gera það og stungið efnunum í vasann. Sú skýring sem meðákærði hafi gefið á því að ákærði var með fíkniefni í fórum sínum væri alröng. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið skýringu á framburði meðákærða um aðild hans að þeim sakargiftum sem greinir í I. kafla ákæru svaraði ákærði því til að það eina sem honum dytti í hug væri að meðákærði væri að reyna að koma sér undan sök í málinu, það er að hann væri að reyna að bjarga sjálfum sér.  Þegar ákærði var spurður um þann búnað sem hann hafði komið fyrir til að fylgjast með mannaferðum við geymsluna skýrði hann svo frá að hann hafi fengið búnaðinn hjá félaga sínum og ákveðið að prófa hann. Ekki sé um upptökutæki að ræða heldur birtist á skjá inni í geymslunni mynd af svæðinu framan við hana. Hann hafi nánast ekkert notað þennan búnað en hann hafi engu að síður verið í lagi á þeim tíma sem um ræðir í málinu og þannig séð virkur. Þá kvaðst ákærði enga skýringu geta gefið á því af hverju upptaka með eftirlitsmyndavél á geymslugangi stöðvaðist um klukkan 18 hinn 25. apríl 2014.

Hópur lögreglumanna tók þátt í aðgerðum lögreglu að [...] í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 25. apríl 2014 og rannsókn málsins í aðdraganda og kjölfar þeirra. Átta þeirra gáfu skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Við þá skýrslugjöf kom meðal annars fram að eftirlit og aðgerðir lögreglu hafi alfarið komið til vegna gruns um að ákærði X hefði með höndum sölu á fíkniefnum. Hefðu lögreglu borist upplýsingar, sem metnar voru áreiðanlegar, um að umsvif hans á því sviði væru umtalsverð, hann hefði nýlega flutt inn umtalsvert magn E-taflna og væri með sölumenn á sínum snærum. Skömmu áður en hann var handtekinn hafi hann verið búinn að fara oft niður á geymslugang í kjallara hússins og lögreglu því grunað að hann geymdi fíkniefni einhvers staðar þar. Þá hefðu ákærðu sést ræða saman. Þegar ákveðið var að lögreglumenn færu inn í húsið hafi ákærði X stuttu áður lagt leið sína niður í kjallarann. Um þetta og annað sem rakið hefur verið úr rannsóknargögnum málsins var framburður lögreglumannanna í fullu samræmi við það sem þar kemur fram.

E, C og D voru í hópi átta manna sem voru handteknir ásamt ákærðu í framangreindum aðgerðum lögreglu.

Í framburði E kom fram að hann hafi verið staddur þarna í þeim erindagjörðum að sækja snjósleða til ákærða Viðars, en á milli þeirra væri mikill vinskapur. Hann hafi ekkert þekkt meðákærða á þessum tíma. Í tengslum við þetta erindi sitt hafi hann farið ásamt ákærða niður í geymslu sem ákærði sé með í kjallara hússins, nánar tiltekið til að ná þar í stroffur sem átti að nota til að binda snjósleðann á kerru. Þeir hefðu komið að manni inni í geymslunni sem hann hafi síðar gert sér grein fyrir að væri meðákærði X. Kvaðst E hafi staldrað við í geymslunni í mjög skamman tíma, eða í mesta lagi 40 sekúndur. Hann og ákærði hefðu farið saman niður í geymsluna en ákærði komið aðeins á eftir honum upp, í mesta lagi einni mínútu síðar. Ákærði hafi rætt aðeins við meðákærða niðri í geymslunni og þá um það að meðákærði ætti að skila til hans lykli að geymslunni sem hann hefði lánað honum. Kvaðst E hafa heyrt það síðar frá ákærða að meðákærði hafi fengið lánaðan lykil að geymslunni hjá ákærða þar sem hann hefði týnt lyklinum að geymslunni sinni. Þá kom það fram í framburði vitnisins að ákærði hafi sagt honum frá því áður en til umræddra lögregluaðgerða kom að lögregla hefði oftar en einu sinni framkvæmt húsleit hjá nágranna hans.

Í skýrslu sinni skýrði C svo frá að hann og ákærði X hefðu verið á leiðinni út að borða ásamt félögum sínum þegar lögregla handtók þá, en þeir væru æskuvinir. Aðspurður kvaðst hann ekki þekkja meðákærða Viðar en vita hver hann væri, hann hafi komið í heimsókn til ákærða. Bar C á þann veg að honum hafi skilist að á milli ákærðu hafi verið í gangi viðskipti með fíkniefni og þá þannig að þeir hefðu skipst á efnum. Hafi ákærði X látið ákærða Viðar hafa amfetamín í skiptum fyrir kókaín og MDMA-töflur. Ákærði X hafi haft aðgang að geymslu ákærða Viðars og geymt amfetamínið þar. Sjálfur kvaðst C aldrei hafa farið inn í geymsluna þar sem efnin voru geymd. Hann hafi verið handtekinn á geymsluganginum í kjallara hússins og gaf þá einu skýringu á veru sinni þar að vinur hans hafi beðið hann um að koma með sér þangað. Nánar inntur eftir því á hverju hann byggði framangreindan framburð sinn um að ákærðu hefðu skipst á efnum svaraði C því til að hann hafi staðið í þeirri meiningu að ákærði X hafi fengið kókaín og MDMA frá ákærða Viðari, eiganda geymslunnar, í skiptum fyrir spítt, það er amfetamín. Ákærði X hafi útvegað vitninu amfetamín með nánast engum fyrirvara, hann hafi bara skotist niður og sótt það, en þegar um kókaín eða MDMA var að ræða hafi það alltaf tekið ákærða mun lengri tíma að útvega efnin, eða allt upp í 6 klukkustundir. Sjálfur hafi hann neytt kókaíns og morfíns og selt önnur fíkniefni til að fjármagna neyslu sína.

Skýrslutaka af D fyrir dómi laut alfarið að því hylmingarbroti sem ákærða X er gefið að sök í ákæru. Fram kom hjá D að hann og ákærði hafi verið góðir vinir en að hann þekkti ekkert til ákærða Viðars. Það gæti vel passað að hann hafi farið með fartölvur til ákærða að [...] í Kópavogi í apríl 2014 og þá í þeim tilgangi að geyma þær þar. Hann hafi verið ákærður fyrir að hafa stolið 6 fartölvum á þessum tíma en dómur hafi ekki gengið í málinu. Annað telst ekki hafa komið fram hjá D í þessari skýrslu hans sem varðar framangreint ákæruefni. Bar hann ýmist fyrir sig minnisleysi um atvik og vísaði í því sambandi til þess að hann hafi verið í mikilli óreglu á þessum tíma eða neitaði að svara spurningum sem lutu að meintu broti hans. 

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu sem vitni F, tæknimaður hjá Securitas hf., en áður er getið um aðkomu hans að rannsókn lögreglu á málinu. Fram kom hjá honum að búnaðurinn sem hann fékk í hendur hafi verið upptökutæki með hörðum diski. Hafi vinna hans falist í því að færa myndefni sem var á harða disknum af tilteknum staðli eða „formati“ yfir á annan staðal sem Windows Media spilari ráði við. Þetta hafi ekki verið flókið verk en tímafrekt. Um samfellda upptöku hafi verið að ræða og það hafi ekki verið unnt að klippa myndefnið til. Rafmagnsleysi sé langlíklegasta skýringin á því að upptöku ljúki um kl. 18 föstudaginn 25. apríl 2014 og þá annað tveggja að búnaðurinn hafi verið tekinn úr sambandi eða rafmagninu hafi slegið út. 

III

      Svo sem fram er komið fann lögregla talsvert magn fíkniefna við húsleit í fjöleignarhúsinu að [...] í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 25. apríl 2014. Hafði fíkniefnunum, sem gerð er grein fyrir í I. kafla ákæru, verið komið fyrir í læstri geymslu í kjallara hússins sem tilheyrir íbúð ákærða Viðars. Tekur saksókn á hendur ákærðu til þess að þeir hafi haft þessi efni í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni. Ákærði X hefur játað að hafa átt hluta efnanna, nánar tiltekið 245,32 g af amfetamíni, og að auki viðurkennt að hafa ætlað að ráðstafa þeim með þeim hætti sem í ákæru greinir. Hefur hann fyrir dómi skýrt svo frá að vegna fyrri afskipta lögreglu af honum hafi geymslan hans ekki verið öruggur geymslustaður fyrir fíkniefni og meðákærði því boðið honum að geyma fíkniefni sem hann átti í geymslunni sinni. Ákærði Viðar hefur alfarið neitað sök að því er þessar sakargiftir varðar og kveðst enga hugmynd hafa haft um það að fíkniefni væru í geymslunni. Einnig fundust fíkniefni við leit á ákærðu, sbr. 2. töluliður II. kafla og III kafli ákæru. Hafa þeir skýlaust gengist við þeirri háttsemi sem þar er lýst. Telst hún sönnuð og eru þau brot réttilega heimfærð í ákæru til 2. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Auk framangreinds er ákærða X gefin að sök hylming, sbr. 1. töluliður II. kafla ákæru, og lúta þær sakargiftir að 6 fartölvum sem einnig fundust við framangreinda húsleit.

      Það er áður rakið að við skýrslugjöf hjá lögreglu var ákærði X reikull í framburði sínum um aðild sína að sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru. Þannig neitaði hann alfarið sök þegar fyrsta skýrslan af honum var tekin, játaði við næstu skýrslugjöf sama dag að hafa átt öll þau fíkniefni sem fundust í geymslunni, en við skýrslutöku 7. júlí 2014 breytti hann framburði sínum á þann veg að hann hafi eingöngu átt amfetamínið og hefur þaðan í frá haldið sig við það. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ef ákærði ber á annan hátt fyrir dómi en hjá lögreglu er dómara heimilt, samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. þeirra laga, að taka tillit til þess, sem fram kemur í lögregluskýrslu, ef hann telur breyttan framburð fyrir dómi ótrúverðugan, en sakfelling verður hins vegar ekki reist á skýrslugjöf hjá lögreglu, einni og sér. Af framangreindu leiðir að sakfelling í málinu að því er varðar ákærða X verður ekki eingöngu byggð á framangreindri játningu hans við skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá gaf ákærði skýringar á breyttum framburði sínum. Er þeirra áður getið, en að auki er til þess að líta, svo sem rakið hefur verið, að í upphafi neitaði hann sök alfarið og dró fulla játningu sína til baka á meðan málið sætti lögreglurannsókn. Telur dómurinn, meðal annars í ljósi þessa en einnig að virtu öðru því sem fram er komið í málinu, að ekki séu forsendur til að framburður ákærða fyrir dómi um aðild hans að málinu verði metinn ótrúverðugur, en um mat á sönnunargildi hans við úrlausn þess fer að öðru leyti samkvæmt 115. gr. laga nr. 88/2008.

      Með vísan til þess sem að framan greinir er sannað að ákærði X hafi haft það amfetamín, sem fannst við leit í geymslu meðákærða í umrætt sinn, í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni, enda verður við það að miða að hann hafi haft fullan aðgang að þessum fíkniefnum þar.

Samkvæmt framansögðu hafði fíkniefnunum sem I. kafli ákæru tekur til verið komið fyrir á stað í húsinu sem ákærði Viðar hafði óskoruð umráð yfir og reglubundin afnot af. Í ljósi þessarar aðstöðu og þegar jafnframt er haft í huga að um talsvert magn fíkniefna var að ræða standa líkindi til þess að hann hafi verið með í ráðum og að ákærði X hafi þannig ekki verið hér einn að verki. Þá var ákærði Viðar með 3,89 g af amfetamíni í fórum sínum þegar hann var handtekinn. Ber ákærðu saman um að efnin hafi hann fengið hjá ákærða X skömmu áður og að þeir hafi þá verið staddir í geymslunni. Er ólíkindablær á þeirri skýringu sem ákærði hefur gefið á ástæðum þess að hann hafði fíkniefni undir höndum, en að eigin sögn neytir hann ekki slíkra efna. Er framangreint ótvírætt til þess fallið að draga úr trúverðugleika þess framburðar hans að hann hafi ekkert haft með þau fíkniefni að gera sem fundust við leit í geymslunni og ekki einu sinni vitað að þeim hefði verið komið fyrir þar, en rennir á hinn bóginn vissum stoðum undir framburð ákærða X, þar á meðal um það að á milli ákærðu hafi verið „skiptidíll“. Fær sá framburður ákærða enn fremur stuðning í vitnisburði C svo langt sem hann nær.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. apríl og 11. júlí 2014 var framburður ákærða Viðars á þann veg að hann hafi heimilað meðákærða og félögum hans að nota geymsluna og látið honum í té lykil að henni í því skyni. Í þessum skýrslum sínum vék ákærði í engu að því að einhver önnur atvik hafi orðið til þess að hann afhenti meðákærða lykilinn. Annars var framburður ákærða hjá lögreglu um málsatvik ekki skýr og glöggur að því marki sem hann á annað borð kaus að tjá sig um þau. Fyrir dómi gaf ákærði þá skýringu á því að meðákærði hafði lykilinn undir höndum að hann hefði týnt sínum lykli að sameign fjöleignarhússins og ákærði þá boðist til að lána honum aukalykilinn sinn sem einnig hafi gengið að geymslunni hans. Meðákærði hafi þannig ekki fengið lykilinn til þess að hann kæmist inn í geymslu ákærða og ekki haft um það vitneskju fyrsta kastið að lykillinn gengi að henni. Þegar hann hafði fengið að vita það hafi ákærði leyft honum að geyma hluti í geymslunni þar sem hans geymsla hafi verið ólæst. Það fær á hinn bóginn ekki samrýmst því að í aðgerðum sínum að [..] í umrætt sinn þurfti lögregla að brjóta sér leið inn í geymslu ákærða X. Að framangreindu virtu telst ákærði ekki hafa gefið trúverðuga skýringu á ástæðum þess að hann lét meðákærða í té lykil að geymslunni. Þá hefur framburður hans um það hvenær meðákærði hafði lykilinn undir höndum verið reikull. Þannig bar ákærði fyrir dómi, andstætt því sem fram hafði komið í skýrslu hans hjá lögreglu, að meðákærði hafi verið búinn að hafa lykilinn í sínum vörslum í um það bil tvo mánuði samfellt þegar húsleit lögreglu var framkvæmd. Var og mjög ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann hafi nánast allan þann tíma gert ítrekaðar tilraunir til að fá meðákærða til að skila lyklinum. Þá er til þess að líta að ákærði hefur borið um að hann hafi einhverjum vikum áður en umræddar aðgerðir lögreglu komu til farið að gruna að meðákærði tengdist einhverju „fíkniefnastússi“ og af vitnisburði E verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi tjáð honum að lögregla hefði framkvæmt húsleit hjá meðákærða. Í þessu ljósi og miðað við þá staðhæfingu ákærða að hann hafi ekkert um fíkniefnin vitað er áleitin sú spurning af hverju hann í öllu falli lokaði ekki fyrir aðgang meðákærða að geymslunni, en telja verður að honum hafi verið í lófa lagið að gera það. Út frá sömu forsendu eru torskilin þau viðbrögð hans, sem hann hefur sjálfur lýst, þegar meðákærði afhenti honum fíkniefni skömmu áður en þeir voru handteknir. Loks ber að nefna að ekki verður horft fram hjá því við sönnunarmat í málinu að ákærði hafði sett upp búnað sem gerði honum kleift að fylgjast með mannaferðum við geymsluna á skjá inni í henni.

Framburður ákærða Viðars fyrir dómi hefur samkvæmt framansögðu verið metinn ótrúverðugur um þýðingarmikil atriði. Með vísan til þess og að því virtu sem að öðru leyti er rakið hér að framan er það mat dómsins að sannað sé, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði Viðar hafi átt aðild að vörslu fíkniefna sem fundust við leit í geymslu hans í kjallara fjöleignarhússins að [...] í Kópavogi föstudaginn 25. apríl 2014. Samkvæmt því og í ljósi sönnunarfærslu við meðferð málsins þykir mega leggja til grundvallar við úrlausn þess að ef frá er talið það amfetamín sem ákærði X hefur verið sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum hafi ákærði Viðar verið vörslumaður þeirra fíkniefna sem komið hafði verið fyrir í geymslu hans. Þykir einnig hafið yfir vafa að ákærði hafi haft um það vitneskju að ætlunin væri að ráðstafa þeim með þeim hætti sem í ákæru greinir, en eigi er þörf á að taka umfram þetta afstöðu til sakargifta á hendur honum samkvæmt I. kafla hennar. Með tilliti til fjölda MDMA-taflna sem um ræðir og styrkleika þeirra, sem gerð er grein fyrir í I. kafla dómsins, er háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Í ljósi þessarar niðurstöðu verður brot ákærða X samkvæmt þessum kafla ákæru á hinn bóginn heimfært til 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. 

Fyrir liggur að D kom með fartölvurnar sem um ræðir í 1. tölulið II. kafla ákæru til ákærða X aðfaranótt föstudagsins 25. apríl 2014 og að ákærði hafi þá komið þeim fyrir í geymslunni þar sem lögregla fann þær. Þá telst einnig í ljós leitt að tölvunum hafði verið stolið úr verslun í Reykjavík daginn áður. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. apríl 2014 skýrði ákærði svo frá að D hafi stolið tölvunum „í einhverri tölvubúð“ og að til greina hafi komið að ákærði myndi kaupa einhvern hluta þeirra. Í skýrslu sinni fyrir dómi neitaði ákærði aftur á móti að hafa vitað að tölvurnar væru stolnar, en tók þó fram að D hafi oft komið með einhverja hluti til hans sem hann hafi grunað að væru illa fengnir. Var breyttur framburður ákærða um þetta atriði fyrir dómi ekki trúverðugur að mati dómsins. Er það í ljósi þessa niðurstaða dómsins að eins og hér var í pottinn búið hafi ákærða í öllu falli hlotið að vera ljóst að um þýfi væri að ræða. Verður ákærði samkvæmt þessu sakfelldur fyrir það hylmingarbrot sem honum er gefið að sök í ákæru. Varðar sú háttsemi hans við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga. 

IV

                Ákærði Viðar, sem er 33 ára, hefur ekki áður sætt refsingu og horfir það til refsimildunar, sbr. 5. töluliður 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Við refsiákvörðun verður á hinn bóginn sérstaklega að líta til þess að það brot ákærða sem I. kafli ákæru tekur til snerist um mikið magn af hættulegu fíkniefni, MDMA. Þykir refsing ákærða að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Ákærða X, sem er tæplega 27 ára, var með dómi 16. júní 2010 gert að sæta fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá var hann 8. mars 2011 dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn sömu lögum og tilgreindum ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Loks var ákærða gerð 30 daga fangelsisrefsing með dómi 24. mars 2014 fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Þess utan hefur hefur ákærði frá því í nóvember 2011 alls fimm sinnum gengist undir sektargreiðslu fyrir fíkniefnalagabrot og að auki tvívegis verið gerð sektarrefsing með dómi fyrir slíkt brot, en fram til þess tíma og frá árinu 2007 er á sakavottorði hans getið um fjórar sáttir vegna brota af þessu tagi. Hann er nú sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 245,32 g af amfetamíni, en að auki tekur sakfelling til hylmingarbrots og fíkniefnalagabrots samkvæmt II. kafla ákæru. Þykir refsing ákærða að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.

Rétt rúmir 16 mánuðir liðu frá því að ákærðu frömdu þau brot sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir í málinu og þar til ákæran sem hér er til meðferðar barst héraðsdómi. Þegar horft er til dómafordæma verður þessi dráttur á saksókn ekki talinn svo verulegur að hann réttlæti að refsing ákærðu verði bundin skilorði.

Fallist er á upptökukröfu ákæruvalds svo sem í dómsorði greinir.

Sakarkostnaður samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda nemur 168.554 krónum. Af þeirri fjárhæð verða 140.965 krónur felldar á ákærða Viðar en ákærðu gert óskipt að greiða það sem eftir stendur, eða 27.589 krónur. Þá verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Í því sambandi er þess að geta að Stefán Karl Kristjánsson hæstaréttarlögmaður gegndi verjandastörfum í þágu ákærða X við rannsókn málsins.

                Mál þetta dæmir Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.

                Við dómsuppkvaðningu var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

D ó m s o r ð

Ákærði Viðar Ben Teitsson sæti fangelsi í fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði X  sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærðu sæti upptöku á 601 töflu með fíkniefninu MDMA (ecstacy) og 0,98 g af sama efni, 255,47 g af amfetamíni, 98,96 g af kókaíni og 48,93 g af maríhúana.

Ákærði Viðar Ben greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.023.000 krónur og 140.965 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði X greiði 223.200 krónur í þóknun til Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt 27.589 krónur í annan sakarkostnað.