Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2006


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Rof á reynslulausn
  • Vörslur


Fimmtudaginn 2

Fimmtudaginn 2. nóvember 2006.

Nr. 357/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Kristjáni Markúsi Sívarssyni og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Rof á reynslulausn. Vörslur.

K og X voru ákærðir fyrir að hafa 9. nóvember 2006 haft í vörslum sínum fíkniefni sem lögreglumenn fundu við leit á heimili K. X játaði að vera eigandi umræddra fíkniefna og að hafa beðið K um að geyma þau fyrir sig degi fyrir húsleitina. Að virtum framburði K og aðstæðum var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að honum hlyti að vera ljóst að pakkinn, sem hann tók að sér að geyma fyrir X, kynni að innihalda fíkniefni. Þrátt fyrir það hefði hann ekki kannað innihaldið heldur látið sér það í léttu rúmi liggja. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var talið sannað að K hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um í ákæru. Með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga og forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um að K skyldi sæta fangelsi í 12 mánuði, en ekki þótti fært að skilorðsbinda refsinguna vegna sakaferils K og þess að hann rauf reynslulausn með broti sínu. Með játningu X var talið ljóst að hann hefði haft umrædd fíkniefni í vörslum sínum 8. nóvember 2006 og afhent þau K þann dag. Hann var hins vegar ekki ákærður fyrir þá háttsemi heldur gefið að sök að hafa haft fíkniefnin í vörslum sínum 9. nóvember þegar húsleit fór fram á heimili K og miðaðist allur málatilbúnaður ákæruvaldsins við það. Af hálfu ákæruvaldsins var því haldið fram að X hefði haft vörslur fíkniefnanna síðastnefndan dag þar sem hann hefði verið eigandi þeirra og haft fullan aðgang að þeim. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að X hefði dvalið á heimili K eða haft aðgang að því að eigin vild. Var því ekki fallist á að hugtakið varsla í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni tæki til þessara aðstæðna. Samkvæmt því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu X af sakargiftum samkvæmt ákæru.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Kristjáns Markúsar Sívarssonar, en jafnframt af hálfu ákæruvalds á hendur báðum ákærðu. Ákæruvaldið krefst þyngingar á refsingu ákærða Kristjáns Markúsar. Þá er þess krafist að ákærði X verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar. Ennfremur er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um upptöku fíkniefna.

Ákærði Kristján Markús krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði X krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms.

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 21. mars 2006, þar sem ákærðu var gefið að sök fíkniefnabrot með því að hafa ,,miðvikudaginn 9. nóvember 2005 í félagi haft í vörslum sínum 70,58 g af hassi og 0,75 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögreglumenn fundu við leit á heimili ákærða Kristjáns Markúsar að undanskildum 5,49 g af hassi sem fundust við leit á honum.“ Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Kristján Markús sakfelldur samkvæmt ákæru, en ákærði X sýknaður.

Í frumskýrslu lögreglu kom fram að ákærði Kristján Markús hafi framvísað við húsleit á heimili hans 9. nóvember 2005 þeim fíkniefnum sem voru í kommóðuskúffu. Fyrir dómi staðfesti ákærði og tveir lögreglumenn þetta. Ákærði Kristján Markús sagði fyrir dómi að meðákærði hafi komið í heimsókn daginn áður en húsleitin fór fram og beðið sig um að geyma fyrir hann pakka. Hann hafi sagt meðákærða að koma pakkanum fyrir í einhverri hillu, en ekki grunað að um væri að ræða fíkniefni. Kvaðst hann hafa vitað að meðákærði væri í ,,veseni“, en með því ætti hann við að meðákærði væri „kannski í neyslu”. Aðspurður um hvernig tóbaksblandað hass hefði komist á borð í stofu þar sem það fannst við húsleit kvað hann einhvern hafa verið að reykja þarna og að það hefði örugglega verið meðákærði eða annar nafngreindur maður. Við leitina fundust hluti fíkniefnanna í vasa á buxum sem hann var í. Þegar framburður ákærða og framangreindar aðstæður eru virtar er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða Kristjáni Markúsi hlaut að vera ljóst að pakkinn kynni að innihalda fíkniefni. Þrátt fyrir það kannaði hann ekki innihaldið heldur lét sér það í léttu rúmi liggja. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði Kristján Markús hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæru. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun eftir uppsögu héraðsdóms vegna fíkniefnabrots 17. febrúar 2005 með greiðslu 28.000 króna sektar. Sú ákvörðun hefur ekki áhrif á refsingu ákærða í máli þessu. Með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna vegna sakaferils ákærða og þess að hann rauf reynslulausn með broti sínu.

Ákærði X hefur játað að vera eigandi umræddra fíkniefna og að hafa beðið meðákærða um að geyma þau fyrir sig 8. nóvember 2005. Hafði ákærði X því fíkniefnin í vörslum sínum þann dag og afhenti þau meðákærða. X er hins vegar ekki ákærður fyrir þessa háttsemi heldur er honum gefið að sök að hafa haft fíkniefnin í vörslum sínum 9. nóvember, er lögregla gerði húsleit á heimili meðákærða, og hefur allur málatilbúnaður ákæruvaldsins miðast við það. Af hálfu ákæruvaldsins hefur því verið haldið fram að ákærði X hafi haft vörslur fíkniefnanna síðarnefndan dag þar sem hann hafi verið eigandi þeirra og haft fullan aðgang að þeim á heimili meðákærða. Ekki er fram komið í málinu að ákærði X hafi dvalið á heimili meðákærða eða að hann hafi átt að því aðgang að eigin vild. Er ekki unnt að fallast á með ákæruvaldinu að hugtakið varsla í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni taki til þessara aðstæðna. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða X af sakargiftum samkvæmt ákæru.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Í yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað kemur fram að enginn sakarkostnaður hafi verið vegna áfrýjunar málsins. Eftir framgreindum úrslitum málsins verður ákærði Kristján Markús dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, en málsvarnarlaun verjanda ákærða X fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði og eru þau ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 21. mars sl. á hendur ákærðu, Kristjáni Markúsi Sívarssyni, kt. 231080-4499, Skúlagötu 62, Reykjavík, og X, kt. [...],Reykjavík, „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 9. nóvember 2005 í félagi haft í vörslum sínum 70,58 grömm af hassi og 0,75 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögreglumenn fundu við leit á heimili ákærða Kristjáns Markúsar, að undanskildum 5,49 grömmum af hassi sem fundust við leit á honum.

Ákæruvaldið telur þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. lög nr. 13,1985, og lög nr. 68,2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 848,2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001.”

Ákærðu krefjast þess að verða sýknaðir af refsikröfu.

Málavextir

Samkvæmt staðfestri skýrslu Jens Gunnarssonar rannsóknarlögreglumanns, var það síðdegis miðvikudaginn 9. nóvember 2005 að lögreglumenn héldu að heimili ákærða, Kristjáns Markúsar, í leit að föður hans. Reyndist faðir Kristjáns ekki vera í íbúðinni en lögreglumenn sáu á stofuborði efni sem ákærði sagði vera tóbaksblandað hass. Ákærði kvað A vera eiganda íbúðarinnar og samþykkti hún húsleit. Ákærði framvísaði fíkniefnum sem voru í kommóðuskúffu í stofu. Þá fundust fíkniefni í buxnavasa hans.

Fíkniefnin voru rannsökuð hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík. Niðurstaðan var að í buxnavasa ákærða hefðu verið 5,49 grömm af hassi, 65,09 grömm í stofuskáp, og tóbaksblandað hass á stofuborði vó 0,75 grömm.

Lögregla tók skýrslu af ákærða, Kristjáni Markúsi, seinna sama dag. Ákærði sagði vin sinn, X, eiga öll fíkniefnin sem fundust hjá ákærða, hann hefði komið með þau daginn áður og beðið sig að geyma þau. Ákærði kvað X aldrei hafa beðið ákærða um að geyma fyrir sig fíkniefni fyrr, og sagðist ekki vita hvers vegna hann bað hann um það.  

Lögregla tók skýrslu af ákærða, X, þennan sama dag.  Viðurkenndi hann að vera eigandi hassins sem fannst við leit hjá meðákærða. Kvaðst hann hafa farið heim til meðákærða 8. nóvember, og sett hass í skúffu í stofunni, án þess að meðákærði vissi af því. Hefðu þetta verið um 70 til 80 bútar af hassi. Þá hefði ákærði skipt um buxur heima hjá Kristjáni Markúsi og sex hassbútar verið í vasa á buxum sem hann skildi eftir. Kvað ákærði þetta hafa verið um 70 grömm af hassi alls. Ákærði sagðist hafa keypt 100 gramma plötu umrætt sinn og borgað um 150.000 krónur fyrir, hefði hann verið búinn að reykja um það bil 20 grömm af því sem hann keypti. Ákærði kvað efnin hafa verið ætluð til einkaneyslu.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði, Kristján Markús, neitar sök.  Hann kveðst hafa dvalið í íbúðinni sem um ræðir á þessum tíma.  Hann kveðst ekki hafa haft vitneskju um þessi fíkniefni.  Hann segist hafa vísað á það sem meðákærði hafði beðið hann um að geyma.  Segir hann meðákærða hafa komið í heimsókn og haft með sér tösku.  Hafi hann fengið að skipta um buxur hjá ákærða og beðið hann um að “geyma eitthvað”.  Kveðst ákærði ekki hafa velt fyrir sér hvað var í þessum pakka sem hann samþykkti að geyma.  Hafi hann sagt meðákærða að setja þetta í hillu eða skúffu.  Hann skýrir tóbaksblandað hass á borðinu með því að einhver hafi verið “að reykja þarna”, meðákærði eða einhver annar.  Sjálfur segist hann ekki nota kannabisefni eða fíkniefni.  Hann segist hafa vitað að meðákærði væri í “veseni” en ekki að hann væri í fíkniefnum.  Hafi ekki hvarflað að honum að meðákærði hefði komið með fíkniefni með sér, enda hefðu þeir verið vinir í 10 ár án þess að annað eins og þetta kæmi uppá hjá þeim.  Hann kveðst ekki hafa vitað að þarna væri um að ræða fíkniefni fyrr en eftir að hann hafði afhent lögreglu þau.  Hann kveðst hafa farið að athuga hvað hann hafði tekið að sér að geyma, enda sé meðákærði vandræðapési.  Um efnin í buxunum segir ákærði að hann hafi verið í fötum af meðákærða og ekki orðið var við efnin.  Hafi þeir haft buxnaskipti, meðákærði og hann.  Ekki viti hann hvers vegna þeir skiptust á buxum.  En þeir eigi til að geri slíkt þar sem þeir séu góðir vinir.  Hafi þessar buxur verið “ótrúlega flottar”. 

Ákærði, X, kveðst hafa átt fíkniefnin sem um ræðir í málinu.  Kveðst hann hafa komið til meðákærða daginn áður og fengið að skipta um föt og beðið meðákærða um að geyma dálítið fyrir sig.  Meðákærði hafi “náttúrulega” ekki vitað að þar hafi verið um að ræða hass.  Þegar hann hafði skipt um buxur hafi hann farið með hassið fram í stofu og sett þar í skúffu.  Hann kveðst aldrei fyrr hafa beðið meðákærða um að gera neitt þessu líkt fyrir sig áður.  Hann segist ekki hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma.  Hafi hann notað fíkniefni um ævina en um það hafi meðákærða ekki verið kunnugt.  Hann kveðst hafa átt fíkniefnin sem fundust í buxunum og á stofuborðinu.  Meðákærði hafi ekki sýnt því neinn áhuga sem ákærði fékk að geyma hjá honum og ekki vitað að það voru fíkniefni. 

Jens Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður, hefur skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hafi verið að leita að föður ákærða, Kristjáns Markúsar, þegar þeir knúðu dyra hjá honum.  Hafi þeim verið hleypt inn og þá séð það sem þeir álitu vera kannabisefni á borði.  Hafi ákærði kannast við þessi efni.  Þegar húsráðandinn, unnusta ákærða, hafði veitt húsleitarheimild hafi þeir spurt ákærða hvort “hann vildi framvísa einhverju” og hafi hann þá framvísað efnum sem voru í hirslu í stofunni.  Þá hafi ákærði verið með sex kannabisbúta í vasanum.  Ákærði hafi hins vegar ekki viðurkennt að eiga þessi efni.  Þegar skýrslan var tekin af ákærða á lögreglustöðinni kveðst lögreglumaðurinn hafa skráð samviskusamlega eftir ákærða það sem hann sagði.  Hann kveðst ekki muna betur en ákærði hafi lesið yfir skýrslu sína áður en hann skrifaði undir hana.  Hafi ekkert komið fram hjá ákærða í þá veru að hann hafi ekki vitað að um fíkniefni væri að ræða. 

Kjartan Ægir Kristinsson rannsóknarlögreglumaður, hefur skýrt frá því að þeir lögreglumenn hafi komið heim til ákærða, Kristjáns Markúsar, að leita að föður hans.  Hafi þeir þá séð á stofuborði það sem þeir töldu vera kannabis.  Hafi þeir fengið heimild til þess að leita í íbúðinni.  Kristján Markús hafi þá verið spurður hvort meiri fíkniefni væru í íbúðinni en það sem var á stofuborðinu og hafi hann þá framvísað efni sem var í skúffu í stofunni.  Hafi hann sagt að þetta væri hass þegar hann vísaði á efnið.   Þá hafi hann einnig reynst vera með á sér fíkniefni.  Hann kveður sig minna að hafa verið viðstaddur yfirheyrslu yfir Kristjáni Markúsi seinna þennan dag en hann kveðst ekki muna hvernig hún fór fram.   

Niðurstaða

Fíkniefnin sem um ræðir fundust í hirslu á heimili ákærða, Kristjáns Markúsar, og í vasa á buxum sem hann var í.  Báðir bera þeir að ákærði, Kristján Markús, hafi ekki vitað um fíkniefnin margnefndu.  Um þetta hefur ákærði, X, verið óstöðugur í skýrslum sínum og framburður ákærðu er auk þess bæði ruglingslegur og ótrúverðugur um þetta.  Þykir saga þeirra um buxnaskiptin kostuleg.  Þá er framburður þeirra í ósamræmi við framburð lögreglumannanna um orð ákærða, Kristjáns Markúsar, og gerðir við húsleitina hjá honum.  Verður að hafna framburði ákærðu um þetta atriði og telja sannað að ákærði Kristján Markús hafi vitandi vits haft í vörslu sinni fíkniefnin sem fundust hjá honum og ákært er fyrir.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum, sem tilfærð eru í ákærunni.

Af hálfu ákærða, X, hefur því verið haldið fram í málflutningi að ákærði hafi ekki haft efnin sem um ræðir í vörslu sinni og eins og ákærunni sé háttað geti ekki komið til greina að sakfella hann í málinu.  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974 er “varsla og meðferð” þeirra ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í 6. gr. laganna, óheimil.  Fyrir liggur í málinu að ákærði var hvorki húsráðandi í íbúðinni né dvaldi hann þar að ekki heldur.  Verður ekki talið að hann hafi haft efnin í vörslu sinni eftir að hann fékk að geyma þau þar.  Álítur dómurinn að athæfi ákærða hafi verið “meðferð” fíkniefna en ekki varsla þeirra og þurfi að lýsa athæfi hans í samræmi við það svo að sakfella megi hann fyrir brot að því leyti.  Ber því að sýkna ákærða af ákærunni.

Viðurlög og sakarkostnaður

Sakaferil ákærða, Kristjáns Markúsar Sívarssonar, má rekja til ársins 1996.  Var hann síðast dæmdur 8. maí 2003 í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði fyrir líkmasárásir, þjófnað og tilraun til þjófnaðar.  Honum var veitt reynslulausn 17. febrúar 2005 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 330 dögum.  Með broti því sem ákærði er nú fundinn sekur um rauf hann skilyrði reynslulausnarinnar. Ber að dæma upp reynslulausn þessa og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Dæma ber að upptæk séu 71,33 g af kannabisefnum.

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði ber að greiða verjanda ákærða, X, Kristjáni Stefánssyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun.  Virðisaukaskattur er innifalinn í málsvarnarlaununum.  Ekki er að sjá að frekari kostnað hafi leitt af málarekstrinum.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X,  er sýkn af ákæru í máli þessu.

 Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði sæti upptöku á 71,33 g af kannabisefnum.

Ákærði Kristján Markús greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist verjanda ákærða X, Kristjáni Stefánssyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun.