Hæstiréttur íslands
Mál nr. 11/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2015. |
|
Nr. 11/2015.
|
Brim hf. (Magnús Helgi Árnason hdl.) gegn Glitni hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna.
Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert skylt samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að leggja fram endurrit nánar tilgreindra símtala. Í dómi Hæstaréttar kom fram að úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila væru tæmandi talin í 2. mgr. 67. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu var úrskurðurinn staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert skylt að leggja fram endurrit nánar tilgreindra símtala. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Skori aðili einkamáls á gagnaðila að leggja fram skjal, sem sá hefur undir höndum, ber gagnaðilanum samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 að verða við þeirri áskorun séu skilyrði lagagreinarinnar að öðru leyti fyrir hendi. Verði gagnaðilinn ekki við slíkri áskorun getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. sömu laga. Úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila eru tæmandi talin á þennan hátt, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 24. mars 1995 í máli nr. 99/1995, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 888, 21. janúar 2002 í máli nr. 14/2002 og 14. desember 2011 í máli nr. 654/2011. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Brim hf., greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2014.
Mál þetta er höfðað af Glitni hf. á hendur Brimi hf. með stefnu áritaðri um birtingu 18. júní 2012 en í málinu gerir stefnandi kröfu um greiðslu á 1.999.395.000 krónum ásamt dráttarvöxtum, eins og frekar er lýst í stefnu, vegna ætlaðra markaðsviðskipta stefnanda við stefnda, samkvæmt afleiðusamningum um gjaldmiðla og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Stefndi krefst aðallega frávísunar en til vara sýknu og til þrautarvara lækkunar á kröfum stefnanda, eins og frekar er lýst í greinargerð, en frávísunarkröfu stefnda í málinu var hafnað í úrskurði 2. apríl 2013.
Í þinghaldi þann 3. nóvember sl., lagði stefndi fram skriflega beiðni um úrskurð, með vísan til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um kröfu hans þess efnis, að vörslumaður afrita símtala, stefnandi þessa máls, verði skyldaður til þess að leggja fram endurrit símtala í samræmi við áskorun stefnda í greinargerð. Vísað er hér til þess að í greinargerð stefnda segi: „Stefndi beinir þeirri áskorun til stefnanda að leggja fram allar upptökur í síma af samskiptum starfsmanna stefnanda við fyrrverandi starfsmann stefnda, Óttar Má Ingvason, í september og október 2008, en símanúmer Óttars hjá stefnda voru 8434118 eða 5804216.“ Þá gerir stefndi enn fremur kröfu um málskostnað. Af hálfu stefnanda, er farið fram á að ofangreindri kröfu stefnda um afhendingu framangreindra gagna með dómsúrskurði, verði hafnað, auk þess sem stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts vegna þessa þáttar málsins. Var framangreind krafa stefnda á hendur stefnanda tekin til úrskurðar í þinghaldi 18. nóvember sl., að loknum munnlegum flutningi um hana.
I.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að hann hafi beint þeirri áskorun til stefnanda í greinargerð sinni frá 22. nóvember 2012, að leggja fram upptökur í síma af samskiptum starfsmanna stefnanda við tilgreindan starfsmann stefnda, í september og október 2008. Stefnandi hafi ekki orðið við þessari áskorun stefnda. Í stefnu komi fram það álit stefnanda að starfsmaðurinn, Óttar Már Ingvason, hafi gert samninga sem umboðsmaður stefnda. Í greinargerð stefnda komi hins vegar fram að umræddur Óttar hafi hætt störfum hjá stefnda um miðjan september 2008. Í endurriti af upptökum sem slitastjórn Landsbanka Íslands hf. (LBI hf.) hafi lagt fram í öðru dómsmáli skýri Óttar, fyrrum starfsmaður stefnda, starfsmanni verðbréfaviðskipta hjá Landsbanka Íslands hf., frá því í símtali, 22. september 2008, kl. 10.00, að hann væri hættur störfum hjá stefnda. Sé því gert ráð fyrir því að Óttar hafi enn fremur greint starfsmönnum stefnanda frá því að hann væri hættur störfum hjá stefnda. Um 85% af dómkröfu stefnanda séu grundvölluð á samningum, sem að mati stefnanda eigi að hafa komist á dagana 6. og 7. október 2008. Ákvæði 101. gr. a, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki ákvarði að framganga stefnanda gagnvart stefnda skuli vera í samræmi við það sem almennt tíðkist hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi. Það að hafna framlagningu á skjölum sem byggi á 5. gr. skilmála fyrir markaðsviðskipti í Íslandsbanka hf. sé ekki í samræmi við það er almennt tíðkist hjá fjármálafyrirtækjum, en þar segi um símaupptökur: „Til að tryggja öryggi viðskiptamanns og bankans og sem tæki til að leiðrétta hugsanlegan misskilning, eru símtöl við markaðsviðskipti bankans hljóðrituð, eða kunna að vera hljóðrituð, án sérstakrar tilkynningar í hvert sinn. Með undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður að slíkar hljóðritanir megi leggja fram í dómsmáli ef upp kemur ágreiningur um hvað samningsaðilum fór á milli, svo sem um forsendur og/eða framkvæmd viðskipta.“
Stefndi vísi enn fremur til þess að í úrskurði frá 2. apríl 2013 hafi frávísun þessa máls verið hafnað á þeim grunni að gagnaöflun væri ekki lokið. Síðan hafi verið fyrirtökur í málinu án þess að stefnandi hafi lagt fram gögn um grundvöll málsins er varði markaðsskilmála og óundirritaða samninga sem stefnandi byggi mál sitt á. Komi meðal annars fram í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti stefnanda, og í almennum skilmálum B vegna markaðsviðskipta stefnanda og stefnda sérstaklega, sem liggi fyrir í málinu, að símtöl séu tekin upp til að tryggja hagsmuni viðsemjanda bankans. Ekkert símtal hafi hins vegar verið lagt fram af hálfu stefnanda þrátt fyrir áskoranir stefnda þar um. Um sé að ræða 31 samning þannig að ætla megi að um sé að ræða nokkur símtöl þar sem stefnandi byggi á því að samþykkis hafi jafnan verið aflað með þeim hætti. Stefndi byggi á því að tregða stefnanda við að leggja fram þessi gögn bendi til þess að þau kunni að leiða í ljós að grundvöllur málsóknar stefnanda á hendur stefnda muni bresta. Með því verði leitt í ljós að af hálfu stefnanda hafi samþykki stefnda verið byggt á samtali við fyrrum starfsmann stefnda sem hafi þá sannanlega verið búinn að láta af störfum fyrir stefnda. Fyrir liggi að umræddur starfsmaður hafi þann 22. september 2008 tilkynnt LBI hf., að hann væri hættur störfum fyrir stefnda, og gengið sé út frá því að hann hafi þá enn fremur tilkynnt stefnanda þessa máls um starfslokin með sambærilegum hætti. Ótækt sé að fjármálafyrirtæki reyni að ná fram kröfu sinni með því að hindra það að umrædd gögn komi fram en hagsmunir í málinu séu verulegir. Af hálfu stefnanda sé byggt á að samþykki eigi að hafa átt sér stað dagana 6. og 7. október 2008, en það sé nokkru eftir að starfsmaðurinn hafi látið af störfum. Erfitt sé fyrir stefnda að halda uppi vörnum þegar lögð séu fram óundirrituð skjöl sem byggt sé á af hálfu stefnanda og vísað til þess að aðili sem hafi starfað hjá stefnda hafi haft umboð til þess að binda stefnda án undirritunar en ekkert liggi fyrir frekar á hverju stefnandi byggi. Að mati stefnda verði að taka þessari tregðu stefnanda við að leggja fram afrit símtalanna svo að þar komi fram það sem máli skipti um samningsgerðina í þá veru sem stefndi haldi fram.
II.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að mál þetta sé höfðað til innheimtu á skuld sem stofnast hafi til á grundvelli samninga sem gerðir hafi verið á tímabilinu frá mars til október árið 2008. Stefndi krefjist nú aðgangs að tilteknum gögnum sem hann telji stefnanda hafa undir höndum. Stefnandi mótmæli hins vegar þeirri kröfu og byggi á því að það sé á forræði stefnanda að ákveða hvaða gögn hann leggi fram í málinu, hann þurfi ekki að leggja fram önnur gögn en hann kjósi. Dómurinn geti hins vegar, ef svo bjóði við að horfa, dregið af því einhverjar ályktanir, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, en 2. mgr. 67. gr. sömu laga, sem skyldi aðila til að leggja fram skjal sem hann hafi undir höndum verði að skýra með hliðsjón af 1. mgr. 68. gr. laganna. Dómurinn eigi ekki að draga ályktanir á grundvelli 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 með úrskurði, enda væri það andstætt meginreglum einkamálaréttarfars ef dómari tæki þannig afstöðu til atriða sem snúi að sönnun undir rekstri málsins, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 14/2002. Synjun málsaðila um að afhenda gögn eigi ekki að hafa aðra þýðingu en þá að dómurinn geti þá mögulega dregið af slíku ályktanir. Ákvæði það sem stefndi byggi hér á komi aðeins til álita þegar gögn séu í vörslu þriðja manns sem ekki eigi aðild að máli, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 654/2011. Framlagning skjals í einkamáli verði því ekki knúin fram með þessum hætti og ákvæði 101. gr. a, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki fái engu breytt í því samhengi, né heldur viðskiptaskilmálar sem stefndi vísi til og liggi fyrir í málinu en þar sé auk þess alls ekki vikið að aðgangi að gögnum. Ef krafa stefnda yrði tekin til greina á þessum grundvelli, sem stefnandi telji ótækt, yrði sönnunarstaða stefnda gerð betri en stefnanda, sem sé í slitameðferð, og myndi slíkt raska jafnræði málsaðila.
III.
Krafa stefnda, um að stefnandi leggi fram umkrafin gögn, er sögð byggð á 1. málslið 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem segir: „Ef vörslumaður skjals verður ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi getur aðili lagt þau gögn, sem getur í 4. mgr. 67. gr., fyrir dómara, ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi.“
Af hálfu stefnda er krafan einkum byggð á því að umrædd gögn, sem skorað hafi verið á stefnanda að leggja fram í málinu í greinargerð stefnda, kunni að vera til þess fallin að leiða í ljós hvort málsgrundvöllur stefnanda, það er varðandi gerð þeirra samninga sem stefnandi byggi mál sitt á hendur stefnda á, fái staðist, en að hagsmunir stefnda af því að leiða þetta í ljós verði að telja afgerandi.
Af hálfu stefnanda hefur tilvist umræddra gagna ekki verið hafnað, enda taki stefnandi almennt upp símtöl af þessu tagi eins og greini í fyrirliggjandi skilmálum. Stefnandi byggir hins vegar á því að það sé á forræði hans sem málsaðila að ákveða hvaða gögn hann leggi fram, en dómurinn geti svo dregið af því ályktanir, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, en 2. mgr. 67. gr. sömu laga, sem skyldar aðila til að leggja fram skjal sem hann hafi undir höndum, verði að skýra með hliðsjón af 1. mgr. 68. gr. laganna, þar sem segi: „Nú verður aðili ekki við áskorun skv. 2. mgr. 67. gr. um að leggja fram skjal sem þykir sannað að hann hafi undir höndum, og getur þá dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. þó 69. gr.“ Með hliðsjón af framangreindu verður að fallast á það með stefnanda að hagsmunir stefnda verði við svo búið að teljast nægilega tryggðir með vísan til 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 og þar af leiðandi séu ekki skilyrði til að verða við kröfu stefnda. Ber samkvæmt því að hafna þeirri kröfu stefnda, að vörslumaður afrita símtala, stefnandi þessa máls, verði með úrskurði skyldaður til þess að leggja fram endurrit símtala í samræmi við áskorun stefnda í greinargerð.
Ákvörðun um málskostnað verður tekin við endanlega úrlausn málsins.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnda með vísan til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, um að vörslumaður afrita símtala, stefnandi þessa máls, verði með úrskurði skyldaður til þess að leggja fram endurrit símtala í samræmi við áskorun stefnda í greinargerð.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.