Hæstiréttur íslands
Mál nr. 382/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Þriðjudaginn 28. september 1999.
Nr. 382/1999. Sýslumaðurinn í Kópavogi
(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)
gegn
X
(Hilmar Ingimundarson hrl.)
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Ekki var talið fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi X. Var gæsluvarðhaldstími styttur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara er krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald reist á a. og c. liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Rökstuðningur sóknaraðila fyrir því að fullnægt sé skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu lýtur að því að rökstuddur grunur sé uppi um að varnaraðili hafi átt hlut að ráni í versluninni Strax í Kópavogi 17. september sl. og sé rannsókn málsins skammt á veg komin. Enn sé ólokið að taka skýrslur af grunuðum og vitnum, auk þess sem fyrirhugaðri sakbendingu og rannsókn sönnunargagna sé ekki lokið.
Með vísan til þess, sem greinir um atvik málsins í héraðsdómi, verður á það fallist að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.
Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila vísar sóknaraðili til þess, að auk framangreinds ráns sé varnaraðili grunaður um aðild að tveimur innbrotum, sem kærð hafi verið til lögreglu 13. og 20. september sl., en þýfi úr þeim hafi fundist á dvalarstað varnaraðila og í bifreið föður hans. Þá séu átta mál varnaraðila óafgreidd samkvæmt málaskrá lögreglu. Sé þar um að ræða ætluð brot á tímabilinu frá apríl til september 1999 varðandi vörslu og neyslu fíkniefna, tékkasvik og þjófnað. Varnaraðili sé heimilislaus, atvinnulaus og háður fíkniefnum og fyrirséð að hann muni halda áfram afbrotum til að standa straum af neyslu sinni og greiða skuldir vegna fíkniefnakaupa.
Í málinu liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um þau brot, sem varnaraðili er borinn sökum um samkvæmt framansögðu, en ákæra hefur ekki verið gefin út á hendur honum vegna þeirra. Að því virtu verður ekki fallist á að fullnægt sé skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt því, sem að framan greinir, er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Ekki eru efni til að ákveða því lengri tíma en til þriðjudagsins 12. október nk. kl. 16.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. október nk. kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 1999.
Sýslumaður í Kópavogi gerði í gær kröfu um að X, [...], verði með skírskotun til a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og vegna ætlaðra brota 244. gr., 248. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gert að sæta gæsluvarðhaldi í 30 daga eða allt til föstudagsins 22. október 1999 kl. 1600.
Málavextir.
Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglunnar í Kópavogi eru atvik þessa máls þessi:
Föstudaginn 17. september s.l. kl. 15.17 barst lögreglunni í Kópavogi símleiðis tilkynning frá versluninni Strax, Hófgerði 30, þess efnis að verslunin hefði verið rænd. Lögregla fór strax á vettvang og hitti þar fyrir starfsfólk verslunarinnar og viðskiptavini sem skýrðu frá því að þrír menn á aldrinum 20-30 ára hefðu komið inn í verslunina og lamið tvo af þremur starfsmönnum hennar í gólfið. Einn viðskiptavinur var í versluninni og var einnig ráðist á hann. Mennirnir fóru í afgreiðslukassa og peningaskáp í skrifstofu og tóku þaðan kr. 112.539 í peningum, greiðslunótur og þrjár töskur merktar Landsbanka Íslands.
[...]
Þegar virt er að S rannsóknarlögreglumaður, sem hefur orðið að hafa töluverð afskipti af kærða, ber kennsl á hann við afspilun af myndbandi úr upptökuvél, sem var í versluninni Strax og kærði hafði svo sem fram kemur í skýrslum G og K fengið upplýsingar um aðstæður og öryggisbúnað í versluninni og hefur heldur ekki getað gert grein fyrir ferðum sínum á fullnægjandi hátt á þeim tíma er ránið var framið, þykir fram kominn það sterkur grunur um að kærði hafi verið þátttakandi í greindu ráni að skilyrði séu til að úrskurða hann í gæslu með vísun til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, en málið er enn á frumstigi rannsóknar og nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að hann torveldi rannsókn málsins.
Þá liggur fyrir að frá því síðla sumars hafi komið a.m.k. 7 kærur um þjófnaði og fíkniefnabrot, sem kærður er talinn viðriðinn og eru a.m.k. tvær þeirra á frumstigi rannsóknar. Þessum málum mun öllum ólokið og má fallast á að töluverð hætta er á að kærði muni halda áfram brotum meðan málum út af brotum þessum er ólokið, en hann er bæði fíkniefnaneytandi og talinn í mikilli skuld við fíkniefnasala, og er því líklegt að hann haldi áfram brotastarfseminni til fjáröflunar vegna þessa. Það þykir því mega taka til greina að kærði sæti og gæsluvarðhaldi með vísun til c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ber að úrskurða kærða X til að sæta gæsluvarðhaldi meðan rannsókn á ætluðum brotum hans er haldið áfram í málunum og þeim lokið og þykir 30 daga gæsluvarðhaldsvist vera nægjanlegur tími, en skemmri tími er óraunhæfur til að ná þessu markmiði.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærður, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi í 30 daga eða allt til föstudagsins 22. október 1999. til kl. 16.00.