Hæstiréttur íslands

Mál nr. 11/2016

Sigurður Hilmar Ólason (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Rannsókn
  • Símahlerun
  • Handtaka
  • Gæsluvarðhald
  • Friðhelgi einkalífs

Reifun

S krafði Í um bætur vegna rannsóknaraðgerða sem hann taldi sig hafa sætt að ósekju í tengslum við rannsókn lögreglu á stórfelldum fíkniefnaviðskiptum. Með hliðsjón af atvikum málsins var talið að S hefði í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála stuðlað að rannsóknaraðgerðum lögreglu gagnvart sér á tímabilinu frá 30. desember 2008 fram að handtöku hans 8. júní 2009, en þær hefðu falist í hlustun símtala S og orðaskipta í heimsóknum hans til fanga á Litla-Hrauni, svo og öflun upplýsinga um notkun síma hans. Hvað varðaði handtöku S og aðgerðir, sem lögregla greip til samhliða og í framhaldi af henni, en þær fólust í gæsluvarðhaldi sem hann sætti frá 8. til 29. júní 2009, leit sem var gerð í húsakynnum sem hann réði yfir og öflun upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárreiður hans, var á hinn bóginn talið að Í hefði ekki í málatilbúnaði sínum vísað til tiltekinnar háttsemi S í aðdraganda þessara ráðstafana, sem gæti talist hafa valdið eða stuðlað að þeim. Þá var ekki fallist á með S að Í gæti borið bótaábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um rannsókn málsins í framhaldi af handtöku hans. Voru miskabætur til S ákveðnar 1.500.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2016. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 5.400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2009 til uppsögu dóms í málinu, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt í héraði.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 14. mars 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi leitar aðaláfrýjandi með máli þessu skaðabóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna rannsóknaraðgerða, sem hann sætti af hendi lögreglu á tímabilinu frá 30. desember 2008 til 29. júní 2009. Samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda fólust þessar aðgerðir í hlustun símtala og öflun upplýsinga um símanotkun hans, upptöku samtala við heimsóknir hans til nafngreinds fanga í fangelsinu á Litla-Hrauni, húsleit hjá aðaláfrýjanda, öflun upplýsinga um fjármál hans frá fjármálafyrirtækjum, handtöku hans 8. júní 2009 og gæsluvarðhaldi frá þeim degi til 29. sama mánaðar. Óumdeilt er að lögregla felldi málið niður að hluta 17. maí 2010 og síðan að öðru leyti í kjölfarið á því.

Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 á maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, rétt til bóta úr hendi gagnáfrýjanda ef mál hans er fellt niður, en í 2. mgr. sömu lagagreinar er tekið fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði fyrstu málsgreinarinnar eru fyrir hendi. Þar er þó einnig tekið fram að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem krafa hans er reist á. Í málinu liggur fyrir að aðaláfrýjandi sætti aðgerðum samkvæmt X., XI., XIII. og XIV. kafla laga nr. 88/2008 í þágu rannsóknar á máli, sem var síðan fellt niður gagnvart honum. Hann á því rétt til skaðabóta frá gagnáfrýjanda vegna þessara aðgerða nema því aðeins að telja megi hann sjálfan hafa valdið eða stuðlað að þeim.

Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi fallið frá kröfu, sem hann gerði í héraði um bætur fyrir fjártjón, og krefst hann nú eingöngu miskabóta.

II

Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn varðandi fyrrnefnda rannsókn gagnvart aðaláfrýjanda en kröfur lögreglu um heimildir til rannsóknaraðgerða, úrskurðir héraðsdóms um þær, sex upplýsingaskýrslur lögreglu í tengslum við málið og samantektir um helsta efni sex skýrslna, sem aðaláfrýjandi gaf hjá lögreglu eftir handtöku og meðan hann sætti gæsluvarðhaldi.

Í fyrstu kröfu lögreglu um heimild til símhlustunar, sem beint var til héraðsdóms 30. desember 2008, var vísað til þess að lögregla hér á landi hafi átt hlut að alþjóðlegu samstarfi um rannsókn á stórfelldum fíkniefnaviðskiptum erlendis, sem einnig væri talið að tengdust ráðagerð um innflutning slíkra efna hingað. Meðal þeirra, sem rannsóknin erlendis hafi beinst að, væri nafngreindur [...] ríkisborgari, sem hafi komið nokkrum sinnum til Íslands. Hann hafi í júlí 2008 heimsótt samlanda sinn, sem hafi afplánað á Litla-Hrauni dóm fyrir innflutning fíkniefna hingað til lands, en komið aftur í desember sama ár og í það sinn heimsótt á Litla-Hrauni í fylgd aðaláfrýjanda Íslending, sem hafi hlotið dóm í sama máli. Lögregla hafi fengið heimild til að hlusta á orðaskipti í þeirri heimsókn. Þar hafi meðal annars komið „fram fyrirhugaður innflutningur á einhvers konar vökva sem blandaður er fíkniefnum og á að vera auðvelt að leysa fíkniefnin úr vökvanum“, svo sem tekið var til orða í kröfu lögreglu. Sagði þar jafnframt að lögregla hafi fengið 17. desember 2008 heimild héraðsdóms til að krefjast upplýsinga um notkun tiltekins íslensks símanúmers, sem talið hafi verið að [...] ríkisborgarinn hafi notað í aðdraganda síðastnefndrar ferðar sinnar hingað og meðan á henni stóð. Hafi komið fram að „það símanúmer var í miklum samskiptum“ við aðaláfrýjanda á þeim tíma. Að auki hafi nafn hans komið upp við rannsókn lögreglu í öðrum löndum á málinu, sem áður var getið. Samkvæmt þessu öllu teldi lögregla að uppi væri rökstuddur grunur um að aðaláfrýjandi væri ásamt öðrum að skipuleggja innflutning fíkniefna til landsins. Héraðsdómur veitti heimild til símhlustunar á grundvelli þessarar kröfu og var sú heimild síðan framlengd koll af kolli fram á þann tíma, sem aðaláfrýjanda var gert að sæta gæsluvarðhaldi. Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá þeim meginatriðum varðandi rannsóknina, sem lögregla taldi hafa komið fram í símtölum aðaláfrýjanda á því tímabili, en á þeim grunni færðist rannsóknin inn á þá braut að hún tók einnig til ætlaðs peningaþvættis hans. Lögregla fékk jafnframt heimild með úrskurðum héraðsdóms 30. desember 2008 og 22. janúar, 18. mars og 5. maí 2009 til að hlusta á samtöl í fjórum heimsóknum aðaláfrýjanda og annarra nafngreindra manna til Íslendingsins, sem afplánaði samkvæmt áðursögðu refsidóm á Litla-Hrauni. Taldi lögregla að við þau tækifæri hafi einnig á nánar tiltekinn hátt verið rætt um atriði, sem tengdust fyrirhuguðum ætluðum brotum.

Þegar framangreint er virt verður að líta svo á að aðaláfrýjandi hafi í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 stuðlað að rannsóknaraðgerðum lögreglu gagnvart sér á tímabilinu frá 30. desember 2008 fram að handtöku hans, en þær fólust sem fyrr segir í hlustun símtala aðaláfrýjanda og orðaskipta í heimsóknum hans til fanga á Litla-Hrauni, svo og öflun upplýsinga um notkun síma hans. Um handtöku aðaláfrýjanda 8. júní 2009 og aðgerðir, sem lögregla greip til samhliða og í framhaldi af henni, en þær fólust í gæsluvarðhaldi sem hann sætti frá 8. til 29. júní 2009, leit sem var gerð í húsakynnum sem hann réði yfir á fimm stöðum og öflun upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárreiður hans, er þess á hinn bóginn að gæta að gagnáfrýjandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum vísað til tiltekinnar háttsemi aðaláfrýjanda í aðdraganda þessara ráðstafana, sem gæti talist hafa valdið eða stuðlað að þeim, en fyrrgreint framferði hans getur ekki talist eitt og sér nægilegt í þeim efnum. Á umfjöllun um rannsókn málsins í fjölmiðlum í framhaldi af handtöku aðaláfrýjanda getur gagnáfrýjandi ekki borið bótaábyrgð, svo sem aðaláfrýjandi hefur haldið fram, en að gættu þessu og öðru því, sem að framan greinir, verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur með þeim vöxtum sem hann krefst fyrir Hæstarétti og í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda verða látin standa óröskuð, en gagnáfrýjanda verður gert að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Sigurði Hilmari Ólasyni, 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2009 til 13. október 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2015

                Mál þetta höfðaði Sigurður Hilmar Ólason, Tjaldanesi, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 30. apríl 2014 á hendur innanríkisráðherra f.h. íslenska ríkisins.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. september sl. 

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 22.825.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 6.975.000 krónum frá 8. júní 2009 til dómsuppsögu, en með dráttar­vöxtum af 22.825.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 10.159.302 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 6.975.000 krónum frá 8. júní 2009 til dómsuppsögu, en með dráttar­vöxtum af 10.159.302krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 9. september 2010. 

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.  Til vara krefst hann lækkunar stefnukrafna og að málskostnaður verði felldur niður. 

 

                Stefnandi krefst í málinu bóta vegna rannsóknaraðgerða lögreglu gegn honum á tímabilinu frá desember 2008 til júní 2009.  Á þesssu tímabili voru símar hans hleraðir, aflað var upplýsinga um símnotkun hans og fjárhagsmálefni og loks leitað á heimili hans og starfsstöðvum og hann látinn sæta gæsluvarðhaldi. 

                Fyrstu aðgerðir lögreglu sem gerð er grein fyrir í skriflegum gögnum málsins eru beiðnir hennar um hlustun og hljóðritun síma stefnanda o.fl. sem var lögð fram í héraðsdómi 30. desember 2008.  Í þeirri beiðni er sagt frá því að í tengslum við sam­starf íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld á sviði rannsókna vegna skipu­lagðrar glæpastarfsemi hafi komið fram upplýsingar um að tiltekinn hópur brotamanna hafi keypt 2,5 tonn af kókaíni í Suður-Ameríku.  Tengist rannsókn þess máls rannsókn þeirri sem lögreglan hér á landi vinni að.  Er það skýrt nánar svo að nafngreindur með­limur hópsins hafi komið nokkrum sinnum hingað til lands og m.a. heimsótt fanga í fangelsinu að Litla-Hrauni.  Hefði þessi maður komið á ný til landsins 8. desember 2008 við annan mann.  Ætluðu þeir að hitta ákveðna aðila hér á landi og tilgangur með heimsókninni tengdist fíkniefnum.  Hefði samtal þeirra og stefnanda við refsifanga sem þeir heimsóttu í fangelsinu að Litla-Hrauni verið hlerað.  Komið hefði fram að þeir hygðust flytja inn vökva sem væri blandaður fíkniefnum.  Þá hefði sími þessa erlenda brotamanns oft verið notaður um nokkurra daga skeið til að hringja í síma stefnanda. 

                Með úrskurði 30. desember 2008 var heimiluð hlustun og hljóðritun allra sím­tala úr og í þrjú tilgreind símanúmer sem talið var að stefnandi hefði umráð yfir allt til 10. febrúar 2009.  Með öðrum úrskurði þann sama dag var fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um símnotkun stefnanda frá 1. janúar 2008 til 10. febrúar 2009.  Enn var þann sama dag heimiluð hlerun samtals sem stefnandi myndi eiga við nafngreindan refsifanga er hann hygðist heimsækja í fangelsið 1. janúar 2009. 

                Heimild til hlerunar síma stefnanda var framlengd nokkrum sinnum á árinu 2009.  Síðast þann 5. júní var heimiluð hlerun til 5. júlí 2009.  Þá var lögreglu einnig veittur aðgangur að upplýsingum um símnotkun stefnanda auk þess sem þrisvar sinnum var heimiluð hlustun samtala í fangelsinu að Litla-Hrauni þegar stefnandi kom þangað í heimsókn.  Þá var heimiluð húsleit á heimili stefnanda og þremur starfs­stöðvum hans.  Loks var lagt fyrir fjármálafyrirtæki með sex úrskurðum að veita upp­lýsingar um viðskipti þeirra við stefnanda og tvö einkahlutafélög sem hann tengist. 

                Stefnandi var handtekinn 8. júní 2009 og sagði hann fyrir dómi að hópur frá Stöð 2 hefði verið á staðnum og tekið handtökuna upp.  Sama dag var þess krafist fyrir héraðsdómi að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi.  Beiðni lögreglunnar hefur ekki verið lögð fram í máli þessu, en í úrskurðinum segir m.a.: 

                „... að lögreglustjórinn hafi til rannsóknar ætlað peningaþvætti, sem talið sé tengjast ætluðum stórfelldum ætluðum fíkniefnabrotum, en talið sé að peningarnir séu ágóði af flutningi á fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Evrópu og dreifingu áfram um Evrópu.  Rannsóknin sé mjög umfangsmikil og talið um að ræða skipulagðan glæpa­hring.“ 

                Því er síðan nánar lýst að stefnandi hafi átt samskipti við tvo erlenda menn og að þeir hafi stofnað og fengið skráð einkahlutafélag hér á landi.  Erlendu mennirnir hafi komið oft hingað til lands og m.a. heimsótt nafngreindan fanga á Litla-Hrauni, sem afpláni dóm vegna innflutnings fíkniefna. 

                Í niðurstöðu úrskurðarins segir að samkvæmt gögnum málsins sé fram kominn rökstuddur grunur um peningaþvætti stefnanda og aðild að stórfelldum fíkniefna­brotum.  Var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. júní og ákveðið að hann skyld vera í einangrun. 

                Stefnandi var leiddur fyrir dóm á ný 19. júní og þess krafist að gæsluvarðhald hans yrði framlengt.  Í beiðni lögreglu kemur fram að hleranir hafi leitt í ljós að stefnandi hefði tekið við samtals 10 milljónum króna frá áðurnefndum útlendingum, en að hann kannist við að hafa tekið við fimm milljónum.  Hafi þeir hitt m.a. nafn­greindan mann sem sé grunaður um að hafa fengið sendan pakka með sex kílóum af amfetamíni.  Þá segir að rannsóknin sé unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og að í málinu hafi verið lagt hald á mörg tonn af sykurvökva sem talið sé að innihaldi hundruð kílóa af kókaíni.  Hafi aðilar verið handteknir bæði í Evrópu og Suður-Ameríku. 

                Þá segir að leit hafi verið gerð í fyrirtækjum stefnanda og á heimili hans.  Hafi m.a. verið lagt hald á tölvur, en mikilvægt sé að fara yfir gögn sem kunni að tengjast málinu. 

                Með úrskurði sama dag var fallist á að framlengja gæsluvarðhald stefnanda til 1. júlí 2009.  Var hann áfram hafður í einangrun. 

                Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann 24. júní. 

                Stefnandi var látinn laus 29 júní 2009 þótt gæsluvarðhaldstími samkvæmt úrskurðinum væri ekki liðinn. 

                Engin eiginleg rannsóknargögn lögreglu hafa verið lögð fram í málinu.  Stefndi hefur lagt fram mikinn fjölda skjala, mest eru það kröfur og greinargerð lög­reglu til dómstóla vegna krafna um heimild til rannsóknaraðgerða.  Þá lagði stefndi einnig fram frásögn lögreglu af samtölum sem voru hleruð og kafla úr skýrslum stefnanda hjá lögreglu.  Megninu af hljóðritununum sem gerðar voru við rannsóknina mun hafa verið eytt. 

                Í lögregluskýrslu dags. 3. júni 2009 er sagt frá samtölum á fundi stefnanda, tveggja erlendra aðila og refsifanga á Litla-Hrauni þann 10. desember 2008.  Þar sé rætt um innflutning á vökva, kókaíni eða amfetamíni, sem sé í undirbúningi.  Er skotið inn upplýsingum sem lögreglan hafi erlendis frá um fyrirhugaðan innflutning á miklu magni af sykurvökva sem innihaldi kókaín.  Segir að stefnandi hafi verið nefndur í því skeyti sem aðili tengdur málinu.  Tveimur dögum síðar berast lögreglu upplýsingar um sendingu á 10 tonnum af fljótandi sykur mixtúru frá Ekvador til Antwerpen.  Segir að stefnandi sé talinn tengjast þessu á einhvern hátt samkvæmt upplýsingum erlendis frá.  Síðan er tiltekinn maður sagður höfuðpaur, en hann hafði verið hér á áðunefndum fundi með stefnanda á Litla-Hrauni.  Er sagt frá upplýsingum um að hann og annar erlendur maður hafi komið með mikið af peningum til að láta þvo hér á landi.  Hald hafi verið lagt á mikið af sykur mixtúru í Ekvador og á Bahama-eyjum í apríl og maí 2009, en kókaíni hafði verið blandað í hana. 

                Í annarri lögregluskýrslu er sagt frá samtali þar sem rætt sé um kaup og sölu fíkniefna.  Þá komi til tals 300 kg af efni sem sagt sé vera tveggja ára gamalt og stefnandi lýsi áhuga á að koma í verð. 

                Í þriðju skýrslunni er rifjað upp samtal stefnanda við nafngreindan Íslending þar sem þeir ræða um húsnæði sem stefnandi mun hafa átt og verið að reyna að selja.  Telur lögreglan að þeir ræði möguleika á að rækta fíkniefni í húsnæðinu.  Þá ræði þeir kaup á einhverjum hlutum sem á pappírum séu keyptir á mun hærra verði en greitt hafi verið fyrir þá.  Segir lögreglan að þeir tali um hvítþvegna peninga í því samhengi. 

                Í fjórðu skýrslunni er sagt frá símtali stefnanda þar sem hann tali um að setja alls konar extra hluti í gám.  Þá er rætt um ýmiss konar flutninga á silfri og lista­verkum.  Þá er rætt um stelpur sem lögreglan telur að þýði aðila sem eigi að hitta vegna fíkniefnaviðskipta. 

                Í fimmtu og síðustu skýrslunni er sagt frá símtali stefnanda þar sem hann ræði um eitthvað sem verði í botninum á gámi og komi á óvart.  Þá er sagt frá samtali þar sem aðilar séu að spá í hvað þeir fái út úr viðskiptum með bíla.  Segi þá félagi stefnanda að gróðinn verði af undirlaginu.  Settir verði fjórir, fimm fleygar í undir­lagið og gróðinn verði ein og hálf milljón af hverjum. 

                Lagðar hafa verið fram skýrslur af yfirheyrslum stefnanda hjá lögreglu.  Fóru þær fram 8., 12, 16., 18. og 29. júní 2009.  Þar skýrir hann samskipti sín við erlendu mennina sem áður getur og refsifangann sem þeir áttu fund með.  Kveðst hann hafa stofnað fyrirtæki fyrir útlendingana til þess að kaupa vörubíla, varahluti, byggingar­krana o.fl.  Hafi hann fengið fimm milljónir króna frá þeim, sem hann hafi notað til innkaupa.  Hann neitar allri aðild að fíkniefnaviðskiptum og neitar að hafa stundað peningaþvætti.  Þá segir hann að tal um ræktun fíkniefna í húsinu sem hann reyndi að selja hafi verið söluræða, en hann hefði ekki ætlað sér að rækta neitt sjálfur. 

                Í stefnu er getið um bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 17. maí 2009, sem hafi borist stefnanda í maí 2010.  Þar er stefnanda tilkynnt að mál á hendur honum er varði aðild að peningaþvætti hafi verið fellt niður.  Í greinargerð lögreglu­stjóra í áðurgreindu máli sem stefnandi höfðaði til að fá afhent rannsóknargögn, kemur fram að stefnandi hafi fengið tvö bréf um niðurfellingu mála á hendur honum.  Þar kemur fram að í fyrstu voru rannsökuð tvö mál, sem síðar voru sameinuð.  Þá segir að málið hafi verið sent ríkissaksóknara til meðferðar í byrjun ágúst 2009. 

                Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi orðið óvinnufær í kjölfar handtöku og gæsluvarðhaldsúrskurðar.  Segir að fjármálastofnanir hafi lokað á viðskipti við hann og hann hafi misst tengsl við félög sem hann hafði tengst.  Þá hafi mikil fjölmiðlaumfjöllun gert honum erfitt fyrir um að afla sér tekna. 

                Stefnandi leitaði til A sálfræðings í ágúst 2009.  Segir í vottorði A að stefnandi hafi komið í fimm viðtöl í ágúst og september 2009.  Hafi hann þá upplifað sterk þunglyndiseinkenni, en líðan hans verið mun betri í síðasta tímanum.  Hann hafi leitað til sín á ný sumarið 2010 og komið í samtals átta viðtöl þá um sumarið og haustið.  Segir í vottorðinu:  „Í þetta skiptið var erfiðara að átta sig nákvæmlega á í hverju vanlíðan hans fólst en að mínu mati mátti mögulega rekja það til gæsluvarðhaldsins en einnig persónulegra þátta, aðstæðna hans sem og heilsufarslegra þátta.“ 

                A staðfesti vottorð sitt fyrir dómi. 

 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi bendir á í upphafi að hann hafi verið handtekinn í viðurvist fjölmiðlafólks sem hafi myndað handtökuna og birt í fréttatímum í sjónvarpi og í dag­blöðum.  Fjölmiðlafólkið hafi verið mætt á staðinn einni klukkustund áður en lög­reglan kom.  Þá hafi lögreglan lýst málinu sem umfangsmiklu eiturlyfja- og peninga­þvættismáli sem teygði anga sína til fjölmargra landa.  Hafi verið ýjað að því að þetta væri stærsta mál sinnar tegunar sem upp hefði komið og því lýst að stefnandi væri lykilmaður. 

                Stefnandi kveðst hafa verið handtekinn og sætt gæsluvarðhaldi, en auk þess hafi hann og fjölskylda hans sætt húsleitum, símhlerunum og öðrum rannsóknum.  Þá hafi verið lagt hald á muni.  Auk þess hafi bankaviðskipti stefnanda verið skoðuð.  Loks hafi listaverkasalar verið krafðir um upplýsingar um listaverkaviðskipti stefnanda. 

                Stefnandi heldur því fram að þau gögn sem honum voru afhent af rannsóknar-gögnum sýni að ekkert tilefni hafi verið til aðgerða lögreglu gegn honum.  Þá hafi enginn fótur verið fyrir þeim upplýsingum sem lögreglan gaf um málið. 

                Stefnandi kveðst hafa verið óvinnufær eftir gæsluvarðhaldsvistina.  Mikil um­ræða hafi spunnist um málefni hans og þau fyrirtæki sem hann tengdist.  Fjármála­stofnanir hafi lokað á viðskipti við hann.  Hann hafi misst tengsl við fyrirtæki sín og ekki fengið nein verkefni í iðn sinni, en hann sé pípulagningameistari.  Lögreglan hafi ekki leiðrétt fram komnar upplýsingar nema með einu bréfi um að málið væri fellt niður.  Það bréf hafi raunar aðeins varðað hluta málsins að því er virtist. 

                Stefnandi byggir kröfu um bætur á því að hann hafi að ósekju sætt gæslu­varðhaldi og eigi því rétt á bótum úr hendi stefnanda.  Hann eigi einnig rétt á bótum vegna annarra rannsóknaraðgerða lögreglu í málinu.  Hann kveðst vera pípulagninga­meistari og hafa orðið af launatekjum á tímabilinu.  Eigi hann rétt á að fá launatap sitt bætt. 

                Þá krefst hann bóta vegna tekjumissis í kjölfar gæsluvarðhalsvistarinnar.  Hann hafi glatað tækifæri til að afla sér tekna með vinnu um langan tíma.  Um sé að kenna aðgerðum lögreglu og umfjöllun um málið.  Við aðgerðir lögreglu hafi ekki verið gætt meðalhófs og þær hafi ekki byggst á málefnalegum grundvelli. 

                Stefnandi kveðst krefjast bóta samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.  Segir hann margt í meðferð lögreglu á málinu benda til þess að tjón stefnanda hafi orðið mun umfangsmeira og alvarlegra vegna atvika sem snerti rannsóknina. 

                Aðgerðir lögreglu séu alvarleg skerðing á mennréttindum. 

                Byggir hann á því að skilyrði 95. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt.  Hann hafi sætt aðgerðum að ósekju.  Hann eigi því rétt á skaðabótum samkvæmt 1. og 2. mgr. 228. gr. laganna, bæði fyrir fjárhagstjón og miska.  Hann bendir á lög­skýringargögn sem sýni að með þessu ákvæði sé réttur til bóta rýmkaður frá því sem gilti samkvæmt lögum nr. 19/1991. 

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi verið undir rökstuddum grun um brot.  Segir hann að það hafi legið fyrir að hann væri ekki sekur um þá háttsemi sem gæslu­varðhald var byggt á.  Hann hafi setið saklaus í gæsluvarðhaldi í 21 dag. 

                Stefnandi segir miska sinn felast í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna rannsóknarinnar, frelsissviptingar og málaferla.  Frelsissvipting sé alvarleg skerðing á mannréttindum auk þess sem hún sé mikil andleg þrekraun.  Hann hafi sætt einangrun á gæsluvarðhaldstímanum, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðla­banni.  Hann hafi því haft áhyggjur af ættingjum og ástvinum sínum og átt við andlega vanlíðan og svefnleysi að stríða.  Bótakröfu byggir hann einnig á því fjárhagslega tjóni sem hann hafi orðið fyrir, en hann hafi tapað tekjum auk þess að missa vinnu sína.  Hafi hann ekki enn fengið vinnu eftir þessa atburði. 

                Stefnandi krefst bóta vegna gæsluvarðhalds í 21 dag, 200.000 króna fyrir hvern dag, samtals 4.200.000 króna. 

                Stefnandi krefst 1.200.000 króna í miskabætur vegna annarra rannsóknar­aðgerða lögreglu. 

                Stefnandi segir tekjutap á gæsluvarðhaldstíma nema 1.575.000 krónum.  Reiknar hann sér 7.500 króna tímakaup sem pípulagningameistari og tíu vinnustundir hvern dag. 

                Tjón sitt á gæsluvarðhaldstímanum telur stefnandi nema samtals 6.975.000 krónum. 

                Stefnandi byggir á því að vegna aðgerðarleysis lögreglu í kjölfar málsins eigi hann rétt á að fá tekjutap sitt bætt, a.m.k. fram til þess að honum barst tilkynning um niðurfellingu málsins, 18. maí 2010.  Reiknar hann tjón sitt á þessu tímabili með áður­greindu tímagjaldi í 11 mánuði, að frádregnum níu vinnudögum, samtals 15.825.000 krónur. 

                Aðalkrafa nemur því 22.825.000 krónum. 

                Varakrafa er reiknuð á sama hátt og aðalkrafa, með þeirri breytingu að tekjutap eftir gæsluvarðhaldsvistina reiknar hann eftir lágmarkslaunum kjarasamnings Meistarasambands byggingamanna og Samiðnar, samtals 3.184.302 krónur.  Vara­krafan nemur því 10.159.302 krónum. 

                Stefnandi krefst vaxta af bótum vegna tjóns á gæsluvarhaldstímanum og vegna rannsóknaraðgerða frá þeim degi sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Hann krefst ekki vaxta af kröfu vegna tekjutaps í kjölfar gæsluvarðhaldsvistarinnar sérstaklega, en krefst dráttarvaxta af heildarkröfu sinni frá dómsuppsögudegi. 

 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi segir að lögreglan hafi í desember 2008 verið að ransaka fyrirhugaðan innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins.  Rannsóknin hafi þá þegar staðið í nokkra mánuði.  Hún hafi verið umfangsmikil og teygt anga sína út fyrir land­steinana.  Lögreglan eigi samstarf við erlend lögregluyfirvöld vegna rannsókna á skipulagðri glæpastarfsemi.  Lögregla í nokkrum löndum hafi á þessum tíma rannsakað skipulagningu hóps manna á flutningi kókaíns í tonnatali frá Suður-Ameríku til Evrópu.  Hafi verið talið að þessi rannsókn hinna erlendu lögregluliða tengdist áðurnefndri rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  [...] ríkis­borgari sem hafi verið talinn tengjast hópnum hefði komið nokkrum sinnum hingað til lands. 

                Stefnandi hefði átt talsverð samskipti við þennan mann í gegnum síma.  Þá hefðu þeir átt fund með öðrum mönnum í heimsóknarrými í fangelsinu að Litla-Hrauni, en sá fundur hefði verið hleraður.  Hafi þeir haft uppi ráðagerðir um flutning á vökva sem væri blandaður fíkniefnum.  Áður hefði lögreglan fengið upplýsingar frá erlendum lögregluyfirvöldum um að til rannsóknar væri fyrirhugaður innflutningur til Evrópu á miklu magni af sykurvökva sem innihéldi kókaín .  Stefnandi hafi verið talinn einn af aðilum málsins. 

                Stefnandi hafi ásamt tveimur mönnum stofnað einkahlutafélagið [...] þann 20. janúar 2009.  Lögreglu hafi grunað að fyrirtækið væri stofnað til þess að þvo peninga sem fengjust með fíkniefnasölu.  Þá hafi hlerun bent til ráðagerða um peningaþvætti.  Stefnandi hafi tekið við fimm milljónum króna frá félögum sínum sem hafi átt að nota til kaupa á bifreiðum í nafni félagsins.  Þetta hafi styrkt grun lögregu um að stefnandi væri ásamt félögum sínum að skipuleggja innflutning fíkniefna og að þvætta peninga. 

                Stefndi vísar til þess að  rannsóknin hafi verið umfangsmikil. 

                Stefndi byggir á því að öllum þeim úrræðum sem beindust að stefnanda hafi verið beitt samkvæmt lögmætum dómsúrskurðum. Bendir hann sérstaklega á að síðari gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi veirð staðfestur í Hæstarétti.  Því hafi skilyrðum 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 augljóslega verið fullnægt.  Mótmælir stefndi því að legið hafi fyrir að ekki væri tilefni til gæsluvarðhalds.  Stefnandi hafi ekki sætt gæslu­varðhaldi eða öðrum þvingunarráðstöfunum að ósekju.  Þá mótmælir hann því að aðgerðirnar hafi verið í trássi við meðalhófsreglu eða valdið því að stefnandi gat ekki fengið vinnu. 

                Stefndi byggir sýknukröfu á því að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 beri að sýkna stefnda á grundvelli 2. mgr. 228. gr.  Stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á.  Hann hafi verið í nánum sam­skiptum við þekkta íslenska og erlenda brotamenn sem hafi ráðgert stórfelldan inn­flutning á ólöglegum fíkniefnum og peningaþvætti.  Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi nokkrum sinnum neitað að svara spurningum.  Þá hafi svör hans verið ónákvæm og þokukennd og borið með sér að hann hafi ekki viljað segja of mikið.   Gera verði þær kröfur til sakbornings að hann upplýsi á eðlilegan hátt um þau atvik sem til rannsóknar eru hverju sinni, sbr. 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008.  Geri hann það ekki hafi hann firrt sig rétti til bóta samkvæmt  228. gr. laganna.  Hann stuðli með því að aðgerðum lögreglu.  Því beri að fella niður bætur í þessu tilviki og sýkna stefnda. 

                Þá segir stefndi að ekki dugi til bótagreiðslu það eitt að gripið hafi verið til rannsóknaraðgerða, enginn rökstuðningur sé í stefnu um aðrar aðgerðir en handtöku og gæsluvarðhald.  Bendir stefndi á að lögreglumenn séu bundnir þagnarskyldu þegar leitað sé í húsum og símtæki hleruð. 

                Stefndi byggir á því að fjárkröfur stefnanda séu órökstuddar.  Ekki hafi verið færð fram sönnun um andlega vanlíðan eða svefnleysi.  Þá sé bótakrafan ekki í sam­ræmi við dómaframkvæmd.  Mótmælir stefndi miskabótakröfum stefnanda. 

                Stefndi mótmælir kröfum vegna fjártjóns.  Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi unnið sjálfstætt sem pípulagningameistari.  Þá vanti upplýsingar um að stefnandi hafi átt kost á vinnu á umræddu tímabili.  Viðmiðanir við útreikning fjárkröfunnar séu fjarri raunveruleikanum.  Hann mótmælir sérstaklega kröfum fyrir tekjutap allt þar til málið var fellt niður.  Þær kröfur séu ósannaðar, það tap sé ekki afleiðing aðgerða lögreglu og úrskurða dómstóla.  Stefnandi hafi ekki gert grein fyrir tekjum sínum eða sannað tekjutap sérstaklega vegna aðgerða lögreglu eða meðferðar sakamálsins.  Fjár­kröfum öllum mótmælir stefndi því sem röngum og ósönnuðum.

                Stefndi byggir á því að hann beri ekki ábyrgð á fréttaflutningi í fjölmiðlum.

                Verði ekki á sýknukröfu fallist er krafist stórfelldrar lækkunar.  Vísar stefndi til mótmæla sinna við einstökum kröfuliðum og að kröfur séu of háar. 

                Loks kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfum stefnanda bæði sem ódóm­hæfum og efnislega.  Upphafstíma vaxta mótmælir hann sérstaklega. 

 

                Niðurstaða

                Eins og áður segir hafa aðilar ekki lagt fram neitt af því sem kalla mætti rannsóknargögn sakamálsins sem rannsakað var á hendur stefnanda.  Til dæmis liggur ekki frammi afrit af þeim tölvupósti sem á að hafa tengt stefnanda við miklar áætlanir um flutning á kókaíni frá Suður-Ameríku til Evrópu. 

                Samkvæmt frásögn lögreglu átti aðili sem kom til Íslands og átti samskipti við stefnanda nokkrum sinnum aðild að þessum áætlunum um flutning á kókaíni.  Stefnandi stofnaði einkahlutafélag í nafni þessa aðila og tók við fé, sem hann segir hafa verið ætlað til kaupa á bílapörtum o.fl.  Þessi samskipti stefnanda við aðila sem tengdist stóru fíkniefnamáli erlendis gáfu lögreglu eins og á stóð tilefni til að taka stefnanda til sérstakrar skoðunar.  Verður því talið að stefnandi hafi verið undir rök­studdum grun um aðild að fíkniefnabroti og peningaþvætti, þótt hann virðist ekki hafa verið sterkur á þessum fyrstu stigum. Var því heimilt að hefja hlerun á síma stefnanda þann 30. desember 2008 samkvæmt 81. sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008. 

                Símtöl og samtöl stefnanda við aðra menn styrktu grun um að hann væri með hugann við fíkniefni og peningaþvætti.  Var heimilt að lögum að halda áfram sím­hlerunum og afla frekari gagna með upplýsingum um fjármál og síðar húsleit á starfs­stöðvum og heimili stefnanda og hjá þeim fyrirtækjum sem hann tengdist. 

                Með hlerunum heyrði lögreglan tal manna um innflutning á allt að 100 kílóum af gömlu efni, sem væri til í [...] og stefnandi virðist hafa talið að mætti nýta.  Þá heyrðist tal stefnanda um möguleika til ræktunar fíkniefna í húsnæði sem hann vildi selja.  Þessar vísbendingar, auk stofnunar einkahlutafélags og móttöku á fimm milljónum króna, voru ekki nægilega skýrar eða ákveðnar til að heimila að stefnandi yrði hnepptur í gæsluvarðhald.  Til þess var grunur lögreglu ekki nægilega sterkur og hugmyndir um brot sem framin hefðu verið eða væru í undirbúningi ekki nægilega skýr.  Grunur lögreglu eða hugmyndir um tengsl stefnanda við stórfelldan flutning fíkniefna frá Suður-Ameríku virtist hvorki sterkur né rökstuddur.  Var ekki heimilt að handtaka stefnanda og hneppa í gæsluvarðhald eins og gert var.  Rannsóknin hafði heldur ekki rennt frekari stoðum undir þá aðgerð þegar gæsluvarðhaldið var framlengt.  Málið var fellt niður gagnvart stefnanda með bréfi, sem sennilega var sent þann 17. maí 2010.  Stafar það bréf frá Lögreglustjóra. 

                Stefnandi átti samtöl við menn sem virtust snúast um fíkniefnabrot og peninga­þvætti.  Mátti af þeim ráða að stefnandi hygðist standa að einhvers konar brotum.  Ekki var þó augljóst samhengi milli þessa tals og þeirra fyrirætlana sem lögregla lýsti í beiðnum til héraðsdóms um flutning á kókaíni frá Suður-Ameríku.  Þetta tal var ekki svo skýrt og ákveðið að fallast megi á það með stefnda að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að handtöku sinni og gæsluvarðhaldsvist í skilningi 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Verður að dæma stefnanda bætur vegna handtöku þann 8. júní og gæslu­varðhaldsvistar frá 9. til 29. júní 2009, sbr. 1. mgr. 228. gr. laganna. 

                Ósannað er að lögregla hafi boðið sjónvarpsmönnum að vera viðstaddir er stefnandi var handtekinn, eða veitt þeim upplýsingar um fyrirhugaða handtöku á annan hátt.  Verður ábyrgð á fréttaflutningi fjölmiðla af málinu ekki felld á ríkissjóð. 

                Stefnandi krefst bóta fyrir fjártjón.  Hann telur sig hafa misst af tekjum við pípulagnir, en hann sé pípulagningameistari.  Engin gögn liggja frammi um tekjuöflun stefnanda yfirleitt.  Lögmaður stefnanda sagði fyrir dómi að stefnandi hefði ekki skilað skattframtölum síðustu árin.  Stefnandi heldur því ekki fram að hann hafi stundað vinnu í iðngrein sinni og segir ekkert um hvaða tekna hann aflaði síðustu mánuðina áður en hann var handtekinn  Vinnutekjutap stefnanda er því ósannað og verður þessum kröfulið hafnað. 

                Þá krefst stefnandi bóta vegna launa sem hann telur sig hafa farið á mis við vegna vanrækslu lögreglustjórans á að fella mál hans niður.  Þessi vanræksla hafi orðið til þess að hann hafi glatað tækifæri til að stunda vinnu og afla sér tekna.  Þessum kröfulið verður einnig að hafna þar sem vinnutekjutap stefnanda er ósannað, bæði á meðan hann sætti varðhaldi og eftir það.  Það skiptir ekki máli eftir hvaða launatöxtum stefnandi reiknar tap sitt.  Tapið er ósannað.  Því verður einnig að hafna varakröfu stefnanda sem miðar við lágmarkslaun byggingamanna. 

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda um miskabætur vegna handtöku og gæsluvarðhaldsvistar í 21 dag.  Öðrum liðum bæði í aðal- og varakröfu er hafnað. 

                Miskabætur eru ákveðnar að álitum og í samræmi við dómvenju.  Stefnandi var í einangrun í gæsluvarðhaldinu.  Líta verður til þess að stefnandi hefur glímt við þunglyndi sem að hluta til skýrist af varðhaldsvistinni.  Eru miskabætur ákveðnar 950.000 krónur. 

                Mótmæli stefnda við vaxtakröfu eru ekki skýr.  Dæma verður stefnda til að greiða vexti af bótafjárhæðinni eins og stefnandi krefst, þó þannig að vextir reiknast frá þeim degi er stefnanda var sleppt úr varðhaldi.  Reiknast vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. júní 2009 til dómsuppsögu, en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Stefndi ber ekki fyrir sig fyrningu. 

                Stefnanda var veitt gjafsókn 9. september 2010.  Hann höfðaði fyrst mál til heimtu bóta á árinu 2013.  Það mál var fellt niður 21. mars 2014 og krafðist stefnandi þess ekki að gjafsóknarkostnaður yrði þá ákveðinn.  Höfðaði hann í kjölfarið þetta mál.  Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði.  Ákveðst málflutningsþóknun 800.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sigurði Hilmari Ólasyni, 950.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. júní 2009 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.