Hæstiréttur íslands

Mál nr. 558/2009


Lykilorð

  • Samningur
  • Húsaleiga
  • Skuldajöfnuður
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 18. nóvember 2010.

Nr. 558/2009.

JBS ehf.

(Jóhannes B. Björnsson hrl.)

gegn

Heimshótelum ehf.

(Hilmar Magnússon hrl.)

og gagnsök

Samningur. Húsaleiga. Skuldajöfnuður. Endurgreiðsla oftekins fjár. Matsgerð.

J leigði fasteignina Hafnarstræti 11 af eiganda hennar frá árinu 2003 til reksturs á veitingastað. Á árinu 2004 var leigusamningurinn endurnýjaður allt fram til ársins 2012. J hafði á árinu 2003 keypt jarðhæð og kjallara fasteignarinnar að Hafnarstræti 9 en árið 2005 keypti H Hafnarstræti 9 og 11, að undanskyldum eignarhluta J. H hugðist nýta fasteignir sínar til hótelreksturs og óskaði eftir því við J að hann flytti veitingarekstur sinn yfir í eignarhluta J að Hafnarstræti 9. Af þeim sökum gerðu málsaðilar með sér samning 10. mars 2006 þar sem kveðið var á um skiptingu á fasteigninni Hafnarstræti 9, lok leigusamnings vegna Hafnarstrætis 11 og skiptingu kostnaðar vegna framkvæmda á fasteignunum tveimur í framangreindum tilgangi. J höfðaði mál þetta vegna meintra vanefnda á samningnum en deila aðila laut einkum að því hvort J hefði borið að greiða leigu frá gerð samningsins þar til H voru afhent umráð fasteignarinnar að Hafnarstræti 11, hvernig reikna bæri samningsbundnar bætur fyrir lokun á veitingastað J að Hafnarstræti 11 og hvort H bæri að greiða fyrir nýtt loftræstikerfi sem sett var upp á veitingastað J að Hafnarstræti 9. J hafði greitt leigu til handa H í tiltekinn tíma eftir gerð samningsins en þar sem J greiddi leiguna án fyrirvara taldi Hæstiréttur ekki skilyrði til þess að taka til greina kröfu hans um endurgreiðslu leigufjárhæðarinnar. H gerði á hinn bóginn meðal annars kröfu um skaðabætur vegna afhendingardráttar með því að J hefði haldið húsnæðinu að Hafnarstræti 11 ólöglega fyrir H frá 1. desember 2006 fram til júlí 2007. Hæstiréttur taldi að H hefði ekki tekist sönnun um að hann hefði beðið tjón vegna framangreinds afhendingardráttar og því hefðu ekki verið skilyrði til þess að fallast á heimild H til skuldajafnaðar á móti kröfum J. Þá krafði J H meðal annars um greiðslu samningsbundinna bóta vegna lokunar á veitingastað hans í tilefni af framkvæmdum af hálfu H. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þess efnis að J hefði þegar fengið greiddar bætur vegna þessa. Loks krafði J H um greiðslu vegna kaupa og uppsetningar J á loftræstikerfi, á veitingastað hans að Hafnarstræti 9, samkvæmt samningi málsaðila þar sem kveðið var á um að H skyldi greiða fyrir flutning á núverandi loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús ásamt tilheyrandi loftstokkum. H taldi sér á hinn bóginn einungis skylt að greiða fyrir flutning á framangreindum búnaði og að ný tæki, innréttingar og búnaður væri á kostnað J sjálfs. Hæstiréttur taldi að með matsgerð dómkvaddra matsmanna hefði verið sýnt fram á að J hefði valið ódýrari leið við framkvæmd sína með því að kaupa nýja loftstokka í stað þess að nota hina gömlu, en að J yrði að bera áhættuna af því hvort hægt hefði verið að nota önnur tæki sem voru í Hafnarstræti 11 á nýja staðnum að Hafnarstræti 9. Var H að framansögðu og með hliðsjón af samningnum 10. mars 2006 gert að greiða J fyrir smíði og uppsetningu á lofstokkum, auk vinnu við raflagnir á loftræstikerfi J.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. október 2009. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða 12.156.829 krónur með vöxtum samkvæmt   1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 137.294 krónum frá 3. mars 2006 til 3. apríl sama ár, af 339.966 krónum frá þeim degi til 8. maí sama ár, af 492.638 krónum frá þeim degi til 8. júní sama ár, af 645.310 krónum frá þeim degi til 2. júlí sama ár, af 1.102.810 krónum frá þeim degi til 19. febrúar 2007, af 11.036.317 krónum frá þeim degi til 21. mars sama ár, af 11.559.711 krónum frá þeim degi til 26. maí sama ár, en af 12.156.829 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 8. júní 2007 að fjárhæð 6.260.798 krónur sem skuli dragast frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 1. desember 2009. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Að sögn aðaláfrýjanda hóf hann rekstur á veitingastaðnum Nonnabita í Hafnarstræti 18 í Reykjavík árið 1993. Hann kveðst hafa flutt  veitingastaðinn að Hafnarstræti 11 árið 2003 og gert þá leigusamning um húsnæðið til 31. mars 2004 en umsamin leiga hafi þá verið 140.000 krónur á mánuði. Á árinu 2003 hafi aðaláfrýjandi keypt jarðhæð og kjallara í húsinu við hliðina, að Hafnarstræti 9, sem þá hafi verið í útleigu, með það fyrir augum að geta stækkað veitingastaðinn síðar. Árið eftir endurnýjaði aðaláfrýjandi leigusamninginn um Hafnarstræti 11 til átta ára eða til 31. maí 2012 og hækkaði leigan í 190.000 krónur á mánuði en aðaláfrýjandi átti þá einnig að fá afnot af geymsluskúr sem staðsettur var við bakhlið hússins.

Vorið 2005 keypti gagnáfrýjandi Hafnarstræti 9 og 11 fyrir utan eignarhluta aðaláfrýjanda í fyrrnefnda húsinu. Gagnáfrýjandi kynnti aðaláfrýjanda áform sín um að breyta efri hæðum Hafnarstrætis 9 og 11 þannig að þar yrðu útbúin hótelherbergi sem bætt yrði við hótelið sem félagið hafði opnað að Pósthússtræti 2. Þetta kallaði hins vegar á breytingar á öllu lagnakerfi húsanna. Var meðal annars nauðsynlegt að leggja lagnir um það húsnæði sem aðaláfrýjandi hafði á leigu að Hafnarstræti 11. Þá óskaði gagnafrýjandi einnig eftir að fá að leggja lagnir um eignarhluta aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 9. Ennfremur óskaði gagnáfrýjandi eftir að aðalafrýjandi flytti veitingastaðinn úr Hafnarstræti 11 yfir í Hafnarstræti 9. Loks fór hann fram á breytta eignaskiptingu á milli þeirra að Hafnarstræti 9. Aðaláfrýjandi taldi mikinn kostnað hljótast af flutningi veitingastaðarins en félagið hafði þá nýlega varið miklu fé í að koma staðnum upp að Hafnarstræti 11 og átti eftir tæp sjö ár af umsömdum leigutíma. Andri Már Ingólfsson, fyrirsvarsmaður gagnáfrýjanda, tók fram í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hefði að fyrra bragði boðið aðaláfrýjanda að bera kostnaðinn af því að flytja tæki og tól sem hann ætlaði að nota í nýju húsnæði. Hefðu tillögur hans verið ræddar mánuðum saman. Hefði fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda loks tjáð honum rétt fyrir áramótin 2005/2006 að hann myndi ganga til samninga við hann. Upplýst er að verktakar á vegum gagnáfrýjanda hófu framkvæmdir við lagnir í kjallara á eignarhluta aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 9 í janúar 2006. Björk Þorleifsdóttir, fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda, bar að verktakar gagnáfrýjanda hefðu tekið lítið tillit til veitingareksturs aðaláfrýjanda og truflað hann með hávaða, sóðaskap og átroðningi. Loforð hefðu verið gefin um úrbætur en þau ítrekað verið svikin. Þá hefði aðaláfrýjandi þurft að loka tvisvar á verktaka gagnáfrýjanda. Af framangreindum ástæðum hefðu samskipti aðila orðið mjög stirð.

Fyrir milligöngu Kristins Alexanderssonar tæknifræðings hjá VSÓ ráðgjöf ehf., sem hafði eftirlit með framkvæmdum fyrir hönd gagnáfrýjanda, gerðu aðilar málsins með sér samning 10. mars 2006 um skiptingu á fasteigninni Hafnarstræti 9 í tengslum við framangreindar framkvæmdir, lok leigusamnings milli málsaðila um Hafnarstræti 11 og um kostnaðarskiptingu ákveðinna verkþátta framkvæmdarinnar. Um aðdragandann að gerð samningsins bar Kristinn að komin hefði verið upp kergja í samskiptum aðila þegar enn átti  eftir að fjalla um breytta skiptingu á sameign og makaskipti. Hefði hann komið með drög að samningi og báðir aðilar gert athugasemdir við þau. Að undangengnum breytingum hefðu aðilar síðan gert samninginn 10. mars 2006. Þar var kveðið svo á að meðan á framkvæmdum stæði yrðu haldnir samráðsfundir með aðaláfrýjanda, verktaka ásamt eftirlitsmanni gagnáfrýjanda, áðurnefndum Kristni Alexanderssyni hjá VSÓ ráðgjöf ehf., þar sem farið yrði meðal annars yfir stöðu verks, samræmingu, umgengni o.fl. Í skýrslu Andra Más Ingólfssonar fyrir dómi kom fram að hann hefði ekki rætt samningsdrögin við fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda áður en samningurinn var undirritaður og hann hefði heldur ekki átt nein samskipti við þá eftir gerð samningsins, enda hefðu þeir verið mjög ósáttir við hann. Kristinn Alexandersson hefði því annast samskiptin við þá .

Deila aðila snýst einkum um hvort aðaláfrýjanda hafi borið að greiða leigu frá því umræddur samningur var gerður þar til gagnáfrýjanda voru afhent umráð húsnæðisins að Hafnarstræti 11, hvort gagnáfrýjanda beri að greiða fyrir nýtt loftræstikerfi sem sett var upp á veitingastað aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 9 og hvernig reikna beri samningsbundnar bætur fyrir lokun á veitingastað aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 11.

II

Aðaláfrýjandi krefst endurgreiðslu á leigu fyrir Hafnarstræti 11 samtals 645.310 krónur. Með samningi aðila frá 10. mars 2006 hafi verið samið um riftun á leigusamningnum, afhendingu húsnæðisins og fjárhagslegt uppgjör vegna þessa. Feli samningurinn þannig í sér fullnaðaruppgjör. Í honum sé ekki vikið að greiðslu leigu eftir samningsgerð enda feli hann í sér að aðilar hafi fengið gagnkvæman aðgang að húsnæði hvors annars. Aðaláfrýjandi hafi þó greitt leigu í fjóra mánuði af ótta við að gagnáfrýjandi krefðist útburðar yrði leiga ekki greidd en samskipti aðila hafi verið mjög stirð á þeim tíma. Gagnáfrýjandi telur sig á hinn bóginn eiga rétt til leigu fyrir Hafnarstræti 11 frá gerð samningsins 10. mars 2006 þar til honum voru afhent umráð hins leigða í júnímánuði 2007. Synjar hann endurgreiðslukröfu á þessari forsendu en byggir einnig á því að aðaláfrýjanda hafi greitt leiguna án fyrirvara.

Í áðurnefndum samningi aðila er mælt fyrir um gagnkvæman aðgang þeirra að húsnæði hvors annars. Þannig er upplýst að gagnáfrýjandi fékk aðgang að húsnæði aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 9 í janúar 2006 og framkvæmdum hans þar var ekki lokið fyrr en í júlí sama ár. Af gögnum málsins verður ráðið að verktakar gagnáfrýjanda hafi notað húsnæði aðaláfrýjanda fyrir vinnuaðstöðu og geymslu. Þá er upplýst að aðaláfrýjandi flutti veitingastað sinn 1. desember 2006 úr Hafnarstræti 11 í Hafnarstræti 9.

Í ljósi efnis samningsins frá 10. mars 2006, um gagnkvæman aðgang að húsnæði aðila, og þeirrar staðreyndar að í samningnum er ekki mælt fyrir um greiðslu leigugjalds, verður fallist á með aðaláfrýjanda að honum hafi ekki borið að greiða gagnáfrýjanda leigu fyrir afnot sín af húsnæðinu að Hafnarstræti 11, sem voru í samræmi við ákvæði framangreinds samnings, til 1. desember 2006, en þá var það skilyrði samningsins komið fram að aðaláfrýjandi hafði aflað sér tilskilinna leyfa til reksturs veitingastaðar í Hafnarstræti 9. Það haggar ekki þessari niðurstöðu að áætlanir beggja aðila hafi gert ráð fyrir að framkvæmdir tækju skemmri tíma en raun varð á. Er þar í fyrsta lagi til þess að líta að í skýrslu Kristins Alexanderssonar fyrir dómi kom fram að við samningsgerðina sjálfa hafi þegar verið ljóst að hótelið myndi klárast á undan framkvæmdum aðaláfrýjanda í Hafnarstræti 9 þar sem hann hafi lítið verið byrjaður á sínum framkvæmdum. Þá hafi orðið seinkun á framkvæmdum þar sem gagnáfrýjandi þurfti að gera breytingar á hönnun hótelsins.

Aðspurð um af hverju aðaláfrýjandi hefði hætt að greiða leigu af Hafnarstræti 11 svaraði Björk Þorleifsdóttir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að þá hefði verið búið að skerða leigurýmið að Hafnarstræti 11 með því að taka salernisaðstöðu, ræstikompu og aðstöðu fyrir starfsmenn í burtu. Kvað hún yfirgang hafi verið þvílíkan að engin forsenda hafi verið lengur fyrir því að greiða leigu.

Samkvæmt framansögðu er ekki fullt samræmi í skýringum aðaláfrýjanda á ástæðum þess að leiga hafi verið greidd áfram af leiguhúsnæðinu í Hafnarstræti 11 eftir riftun á leigusamningnum. Eins og mál þetta er vaxið verður að leggja til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi greitt gagnáfrýjanda leigu umrædda fjóra mánuði án þess að vera það skylt. Aðaláfrýjandi greiddi leiguna án fyrirvara. Að því gættu og atvikum málsins að öðru leyti eru ekki fyrir hendi skilyrði til þess að taka kröfu hans um endurgreiðslu hinnar umkröfðu fjárhæðar til greina.

Aðaláfrýjandi gerir til vara kröfu um að hann eigi rétt á endurgreiðslu samtals 100.000 króna vegna leigu á geymsluskúr sem hann hafi aldrei fengið afnot af. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að hafna þessum kröfulið aðaláfrýjanda.

Með bréfi 8. júní 2007 lýsti gagnáfrýjandi skuldajöfnuði á móti kröfu aðaláfrýjanda með 2.162.296 króna kröfu um skaðabætur fyrir drátt á afhendingu á húsnæði hans að Hafnarstræti 11 en hann telur sig ekki hafa fengið húsnæðið til umráða fyrr en í júlí 2007. Aðaláfrýjandi telur sig hins vegar hafa afhent húsnæðið 1. desember 2006 þegar hann rýmdi það og opnaði veitingastaðinn í Hafnarstræti 9. Fullyrðir hann að gagnáfrýjandi hafi haft aðgang að húsnæðinu frá þeim tíma.

Meðal gagna málsins er bréf sem fyrrverandi lögmaður aðaláfrýjanda ritaði gagnáfrýjanda 21. febrúar 2007 þar sem fram kom að aðaláfrýjandi teldi sig ekki skuldbundinn til að afhenda leiguhúsnæðið fyrr en gagnafrýjandi hefði gert upp við hann. Þá ritaði gagnáfrýjandi honum bréf 28. mars 2007 og óskaði upplýsinga um hvenær hann hygðist afhenda húsnæðið að Hafnarstræti 11. Lögmaður gagnáfrýjanda ritaði áfrýjanda loks bréf 9. júlí 2007 og óskaði eftir skýrum svörum um hvort húsnæðið að Hafnarstræti 11 yrði afhent án tafar. Áðurnefnt bréf 21. febrúar 2007 sýnir með ótvíræðum hætti að aðaláfrýjandi taldi sig enn hafa umráð húsnæðisins að Hafnarstræti 11 þótt afnotum hans þar hefði verið hætt. Gegn andmælum gagnáfrýjanda hefur aðaláfrýjandi ekki fært sönnur á að gagnáfrýjandi hafi fengið umráð húsnæðisins fyrr en í júlí 2007.

Hér að framan hefur verið leyst úr því að aðaláfrýjanda hafi ekki borið að greiða leigu fram til 1. desember 2006. Gagnáfrýjandi byggir á því að aðaláfrýjanda beri að bæta honum það tjón sem hlotist hafi af því að aðaláfrýjandi hafi haldið húsnæðinu ólöglega fyrir honum frá 1. desember 2006 allt fram í júlí 2007.

Með samningnum 10. mars 2006 var leigusamningi aðila rift og verður að líta svo á að með honum hafi jafnframt verið samið um uppgjör af því tilefni. Krafa gagnáfrýjanda verður ekki reist á 62. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þar sem ætlaðar vanefndir aðaláfrýjanda um skil á húsnæðinu eftir að hann rýmdi það 1. desember 2006 falla ekki undir neinn af töluliðum 1. mgr. 61. gr. laganna. Eins og áður segir byggir gagnáfrýjandi á því að hann eigi rétt til skaðabóta vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir þar sem hann hafi ekki fengið umráð húsnæðisins á réttum tíma í samræmi við fyrrnefndan samning aðila um uppgjör. Gagnáfrýjandi byggir fjárhæð kröfu sinnar eingöngu á því að miðað sé við þá leigu sem aðaláfrýjandi greiddi áður en leigusamningnum var rift. Gagnáfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni umrætt tímabil eftir 1. desember 2006 og jafnframt hvert tjón hans hafi orðið. Þar sem hann hefur ekki lagt fram gögn um þetta verður að telja tjónið ósannað, sbr. hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. október 2010 í máli nr. 713/2009. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á að gagnáfrýjandi geti skuldajafnað 2.162.296 krónum á móti kröfum aðaláfrýjanda.

III

Aðaláfrýjandi gerir kröfu um að gagnáfrýjandi greiði reikning að fjárhæð 457.500 krónur í tilefni af lokun veitingastaðar hans vegna framkvæmda við hótel gagnáfrýjanda aðfararnótt 30. maí 2006 til klukkan 8:30 að morgni 31. maí 2006.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að aðaláfrýjandi hafi þegar fengið bættan þann tíma sem veitingastaður hans var lokaður vegna framkvæmda gagnáfrýjanda og eigi hann ekki frekari kröfur á hendur honum vegna þessa.

IV

Aðaláfrýjandi krefst þess að gagnáfrýjandi greiði honum 2.915.925 krónur vegna kaupa og uppsetningar aðaláfrýjanda á loftræstikerfi á veitingarstað hans að Hafnarstræti 9. Í samningi aðila 10. mars 2006 komi fram að gagnáfrýjandi skyldi greiða fyrir flutning á þáverandi loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús ásamt tilheyrandi loftstokkum. Aðaláfrýjandi byggir á því að honum hafi verið skylt að haga framgöngu sinni og framkvæmdum við uppsetningu á nýju loftræstikerfi þannig að hann skapaði gagnáfrýjanda ekki óþarfa kostnað eða tjón. Hafi verið ódýrara að kaupa nýja loftstokka og háf og setja upp að Hafnarstræti 9 heldur en að loka veitingastaðnum að Hafnarstræti 11 meðan verið væri að taka niður loftstokkana og háfinn þar og flytja yfir í Hafnarstræti 9, en samkvæmt margnefndu samkomulagi aðila hafi gagnáfrýjanda borið að bæta aðaláfrýjanda 15.000 krónur fyrir hverja klukkustund sem staðurinn væri lokaður vegna slíkra framkvæmda.

Gagnáfrýjandi mótmælir því að honum beri að greiða umræddan kostnað þar sem hann falli ekki undir greiðsluskyldu samkvæmt samningi aðila. Beri honum aðeins að greiða fyrir flutning á loftræstisamstæðu og háfi fyrir eldhús ásamt tilheyrandi loftstokkum. Öll ný tæki, innréttingar og búnaður hafi verið á kostnað aðaláfrýjanda.

Í samningi aðila var kveðið á um skiptingu kostnaðar við framkvæmdir aðaláfrýjanda á veitingastað hans að Hafnarstræti 9. Þar var tekið fram að gagnáfrýjandi „greið[i] fyrir flutning á öllum tækjum yfir á nýja staðinn. Leggja vatnslagnir, frárennslislagnir, gaslagnir og raflagnir að öllum tækjum í eldhúsi í kjallara og afgreiðslu á 1. hæð. Einnig flutning á núv. loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús ásamt tilheyrandi loftstokkum. Öll önnur ný tæki, innréttingar, búnaður og tæki á salernum, kaffistofu og starfsmannaaðstöðu eru á kostnað ...“ aðaláfrýjanda. 

Eins og áður er vikið að samdi Kristinn Alexandersson hjá VSÓ ráðgjöf ehf. drögin að samningi þeim sem aðilar gerðu 10. mars 2006. Í skýrslu hans fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði talið raunhæft að nýta háf og blásara úr loftræstisamstæðu þeirri sem var á veitingastað aðaláfrýjanda að Hafnarstræti 11. Þá kvaðst hann hafa rætt það við fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda að minna mál væri fyrir báða aðila að keyptir yrðu nýir stokkar á veitingastað áfrýjanda að Hafnarstræti 9 í stað þess að rífa stokkanna niður að Hafnarstræti 11 og nota þá. Kristinn útskýrði síðar í skýrslunni að ástæða þessa væri sú að í samningi aðila fælist að gagnáfrýjanda bæri að borga aðaláfrýjanda bætur fyrir hverja klukkustund sem staðurinn væri lokaður en með þessu verklagi og góðu skipulagi hefði verið hægt að flytja háf og blásara á skömmum tíma. 

Í matsgerð dómkvaddra manna 18. nóvember 2008 kemur fram að loka hefði þurft veitingastað aðaláfrýjanda í 12 til 14 daga hefðu stokkar úr loftræstisamstæðu að Hafnarstræti 11 verið notaðir. Í matsgerðinni er miðað við að gagnáfrýjanda hefði þá borið að bæta aðaláfrýjanda 10.000 krónur fyrir hverja klukkustund sem veitingarstaðurinn var lokaður samkvæmt samningi aðila og hefði þannig borið að greiða honum 2.200.000 krónur. Í þessu sambandi ber þess þó að geta að aðilar höfðu breytt samningi sínum á þann veg að miðað skyldi við 15.000 krónur á klukkustund. Hefði umrædd fjárhæð í matsgerðinni orðið 3.300.000 krónur ef við þá fjárhæð hefði verið miðað.

 Með matsgerðinni er nægilega í ljós leitt að greiðsla bóta vegna lokunar á veitingastað aðaláfrýjanda einnar saman hefði numið hærri fjárhæð heldur en krafa hans samkvæmt þessum lið. Er því fallist á með aðaláfrýjanda að hann hafi valið ódýrari leið við framkvæmdina með því að kaupa nýja loftstokka í stað þess að nota hina gömlu. Á hinn bóginn var það á áhættu aðaláfrýjanda hvort hægt væri að nota háf og blásara sem voru í Hafnarstræti 11 á nýja staðnum að Hafnarstræti 9 eins og samningur aðila var úr garði gerður og verður gagnáfrýjanda því ekki gert að taka þátt í kostnaði vegna kaupa á nýjum háf og blásara. Gagnáfrýjanda verður þannig gert að greiða aðaláfrýjanda fyrir smíði á loftstokkum og uppsetningu þeirra 2.217.727 krónur. Þá verður krafa aðaláfrýjanda um greiðslu reiknings vegna vinnu við raflagnir á loftræstikerfi aðaláfrýjanda að fjárhæð 65.639 krónur einnig tekin til greina, enda bar gagnáfrýjanda að greiða fyrir raflagnir að öllum tækjum í eldhúsi í kjallara og afgreiðslu á 1. hæð samkvæmt samningi aðila 10. mars 2006.

V

Samkvæmt öllu framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.162.296 krónur vegna óheimils skuldajöfnuðar, 2.217.727 krónur  vegna loftstokka og 65.639 krónur vegna raflagna. Dráttarvextir reiknast frá og með þeim degi er liðinn var mánuður frá því að aðaláfrýjandi sendi gagnáfrýjanda bréf 19. janúar 2007, þar sem krafist var greiðslu þeirra fjárhæða sem fallist er á í málinu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Að auki er fallist á skyldu gagnáfrýjanda til að greiða dráttarvexti af 6.260.798 krónum frá sama degi, 19. febrúar 2007, til 8. júní 2007 þegar þessi fjárhæð var greidd inn á kröfuna.

Samkvæmt úrslitum málsins verður gagnáfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Heimshótel ehf., greiði aðaláfrýjanda, JBS ehf., 10.706.460 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. febrúar 2007 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 8. júní 2007 að fjárhæð 6.260.798 krónur sem dregst frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 8. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af JBS ehf., kt. 500895-2339, Eyjabakka 26, Reykjavík, með stefnu birtri 4. marz 2008, á hendur Heimshóteli ehf., kt. 5000504-2340, Skógarhlíð 18, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 12.156.829 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 137.294 frá 03.03. 2006 til 03.04. s.á., af kr. 339.966 frá þeim degi til 08.05. s.á., af kr. 492.638 frá þeim degi til 08.06. s.á., af kr. 645.310 frá þeim degi til 02.07. s.á., af kr. 1.102.810 frá þeim degi til 19.02. 2007, af kr. 11.036.317 frá þeim degi 21.03. s.á., af kr. 11.559.711 frá þeim degi til 26.05. s.á., en af kr. 12.156.829 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 08.06. 2007 að fjárhæð kr. 6.260.798 sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í málinu og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að þann 2. júní 2004 gerði stefnandi leigusamning við þáverandi eiganda Hafnarstrætis 11, Húseignina Hafnarstræti 11 sf., um leigu tveggja herbergja á jarðhæð auk salernis að Hafnarstræti 11, Reykjavík.  Leigufjárhæð samkvæmt samningnum var kr. 190.000 á mánuði, og var gildistími samningsins til 31. maí 2012.  Þennan sama dag, 2. júní 2004, undirrituðu aðilar viðauka við leigusamninginn, þar sem stefnanda var veittur fullkominn afnotaréttur af geymsluskúr við jarðhæð Hafnarstrætis 11, til jafnlengdar við leigusamninginn.  Ekki er kveðið á um sérstakt leigugjald fyrir þau afnot í viðaukanum.  Stefnandi fékk hins vegar aldrei afnot af geymsluskúrnum. 

Stefnandi átti á þessum tíma jarðhæð og kjallara að Hafnarstræti 9, sem hann leigði út, en rak veitingastaðinn Nonnabita í hinu leigða húsnæði að Hafnarstræti 11.

Vorið 2005 hafði fyrirsvarsmaður stefnda samband við stefnanda og óskaði eftir viðræðum vegna Hafnarstrætis 11, sem hann hafði hug á að kaupa og stofna hótel, sem nú mun vera hluti af Pósthússtræti 2.  Óskaði hann eftir því, að stefnandi gæfi eftir ræmu af eldhúsinu í Hafnarstræti 11, svo hann gæti útbúið gang til að komast að lyftu fyrir efri hæðirnar.  Kveður stefnandi það hafa þýtt, að hann þyrfti að flytja eldhúsið úr Hafnarstræti 11 í Hafnarstræti 9.  Bauð stefndi á móti að halda stefnda skaðlausum.

Stefnandi og stefndi gerðu með sér samkomulag, dags. 10.03. 2006, vegna framkvæmda í tengslum við þessar breytingar, sem fólust í því að breyta hluta húsnæðisins í hótelrými og færa veitingastað stefnda, Nonnabita, alfarið yfir í Hafnarstræti 9, kjallara og 1.  hæð.  Leyfi fékkst fyrir breytingunum frá borgaryfirvöldum fyrir þeim flutningum.

Í samkomulaginu kemur m.a. fram, að stefndi skuldbindur sig til að greiða stefnanda kr. 750.000 við að hann fari úr húsnæðinu, flutning á öllum tækjum yfir í nýja staðinn, lagningu vatnslagna, frárennslislagna, gaslagna og raflagna að öllum tækjum í eldhúsi í kjallara og afgreiðslu á 1. hæð, flutning á þáverandi loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús ásamt tilheyrandi loftstokkum, auk alls kostnaðar við að hljóðeinangra loft.  Öll önnur ný tæki, innréttingar, búnað og tæki á salernum, kaffistofu og starfsmannastöðu skyldu hins vegar vera á kostnað stefnanda. 

Í samkomulaginu kemur einnig fram, að stefnandi gerir ekki kröfu á stefnda um leiðréttingu á leigu vegna bílskúrs, sem hann hafði ekki fengið tækifæri til að nýta sér, m.a. vegna yfirstandandi framkvæmda.

Einnig er ákvæði í samkomulaginu, þar sem fram kemur að gera megi ráð fyrir að loka þurfi veitingastað stefnanda tímabundið hluta úr degi, en reynt verði eftir fremsta megni að vinna verkið sem mest á lokunartíma staðarins.  Skuldbindur stefndi sig til þess að greiða stefnanda kr. 10.000 fyrir hverja klukkustund, sem staðurinn verður lokaður vegna framkvæmdanna.

Í samkomulaginu er miðað við, að framkvæmdir hefjist þegar í stað og verði að lokið eigi síðar en 15. apríl 2006.

Í samkomulaginu er enn fremur ákvæði, þar sem fram kemur, að aðilar eru sammála um að rifta gildandi leigusamningi fyrir Hafnarstræti 11, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum, m.a. greiðslu til stefnanda við að fara út úr leiguhúsnæðinu, og flutning á tækjum yfir á nýja staðinn, svo sem fyrr er getið.  Var miðað við að leigurýmið yrði afhent á tímabilinu 15. maí – 31. júlí 2006.

Framkvæmdir við húsið drógust nokkuð.  Kveður stefnandi það hafa valdið sér miklum óþægindum.  Mikill hávaði hafi stafað frá framkvæmdunum, auk mikilla óhreininda, sem hafi haft mikil áhrif á rekstur veitingahússins.  Hafi stefnandi fengið Erlend Örn Fjeldsted, starfsmann Línuhönnunar hf., til þess að skoða húsnæðið og hvort þegar unnar framkvæmdir væru í samræmi við framangreint samkomulag frá 10. marz 2006.  Í minnisblaði hans, dags. 27.07. 2006, segir m.a., að á vegg í kjallara sem snýr að Hafnarstræti 11 sé skolplögn neðarlega á vegg og að gera megi ráð fyrir að það þurfi að klæða þennan vegg alveg eða smíða lagnastokk sem nái niður á vegg og skerði þar með notagildi rýmisins verulega, en þessi lagnaleið hafi ekki verið í samkomulagi um lagnaleiðir.  Enn fremur segir þar, að lagnaleið í gangi á 1. hæð sé ekki skilgreind í samkomulagi um lagnaleiðir.  Þá segir einnig, að það sé mat Línuhönnunar, að það sé erfiðleikum háð að flytja þáverandi loftræstikerfi, m.a. vegna lagnaleiða.

Stefnandi kveðst, þrátt fyrir samkomulag um riftun húsaleigusamningsins, hafa greitt húsaleigu út júnímánuð 2006.  Stefndi hafi hins vegar sent honum reikninga vegna húsaleigu út júnímánuð 2007, þ.á m. vegna geymsluskúrs, sem stefnandi hafi aldrei fengið afhentan.  Seinkun á framkvæmdum stefnda hafi orðið til þess, að framkvæmdir stefnanda hafi tafizt allverulega, og hafi nýr veitingastaður Nonnabita í Hafnarstræti 9 ekki verið opnaður fyrr en 1. desember 2006.

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa staðið við samkomulagið milli aðila um að halda stefnanda skaðlausum eða greiða fyrir flutning á veitingastað þeirra.  Stefndi hafi komið hlutunum þannig fyrir, að stefnandi hafi að mestu og nær öllu leyti sjálfur þurft að leggja út fyrir kostnaði af flutningi á veitingahúsinu.

Stefnandi sendi kröfubréf til stefnda, dags. 19. janúar 2007, þar sem hann krefur stefnda um greiðslur í 16 liðum.  Þann 21. febrúar 2007 var fyrra bréf áréttað og viðbótarkröfur settar fram.  Svar barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2007, þar sem tekin var afstaða til krafna stefnanda eða óskað eftir ítarlegri gögnum.  Svar vegna seinna bréfsins barst með bréfi, dags. 14. marz 2007, þar sem kröfum er ýmist hafnað eða óskað nánari skýringa.

Stefnandi sendi stefnda bréf, dags. 26. apríl 2007, þar sem áréttaðar voru fyrri kröfur stefnanda, auk þess sem viðbótarkröfur voru settar fram, jafnframt því sem því var hafnað, að stefnandi skuldi stefnda húsaleigu, með þeim rökum, að réttur stefnda til leigugreiðslna hefði fallið niður við undirritun samkomulagsins frá 10. marz 2006.  Var því óskað eftir fundi með stefnda til þess að ljúka uppgjöri milli aðila.

Á þeim fundi kveður stefnandi ítarlegar skýringar hafa verið lagðar fram af hans hálfu til stuðnings kröfum hans.  Afstaða stefnda til krafna stefnanda komi fram í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 8. júní 2007.  Þar viðurkenni stefndi skuld á kröfum að fjárhæð kr. 8.423.094, en öðrum kröfum hafi ýmist verið hafnað á þeirri forsendu, að þær væru ekki hluti af samkomulagi aðila, á ábyrgð sjálfstæðra verktaka, eða krafan væri of há.  Þá hafi stefndi skuldajafnað kr. 2.162.296 við kröfur stefnanda, vegna þess sem hann hafi nefnt „skaðabætur v/dráttar á afhendingu leigurýmis skv. samkomulagi fyrir tímabilið 01.08.06-31.05.07 - Fjárhæð skv. leigusamningi“.  Hafi stefndi því greitt samtals kr. 6.260.798 til stefnanda.

Með bréfi stefnanda til stefnda, dags. 13. júní 2007, komi fram, að stefnandi hafi talið uppgjör með greiðslu á kr. 6.260.798 algerlega ófullnægjandi.  Hafi skuldajöfnun stefnda við þær kröfum, sem hann viðurkenndi, verið mótmælt harðlega, þar sem skuldajafnaðarkrafan ætti ekki við nein rök að styðjast, auk þess sem stefnandi hafi bent stefnda á, að engir dráttarvextir hefðu verið greiddir.

Stefnandi hafi sent stefnda annað bréf, dags. 2. júlí 2007, þar sem kröfur hans voru ítrekaðar, ásamt því að stefnda hafi m.a. verið bent á, að hann ætti enn eftir að setja upp loftræstingu á starfsmannasalernið að Hafnarstræti 9 og ljós undir skyggnið að Hafnarstræti 9, sem honum bæri að gera. 

Með bréfi, dags. 9. júlí 2007, hafi stefndi svarað bréfi stefnanda, þar sem hann segði, að hann teldi, að fullnaðaruppgjör hefði farið fram, en að hann áskildi sér rétt til heimtu frekari skaðabóta vegna afnotamissis leigurýmisins sem fundarsalar, og að hann teldi, að húsnæði stefnda að Hafnarstræti 11 hefði ekki verið afhent honum og lyklar afhentir.

Því bréfi hafi verið svarað með bréfi stefnanda, dags. 17. júlí 2007.  Þar bendi stefnandi stefnda á, að engar greiðslur hefðu borizt frá stefnda fyrr en stefnandi leitaði aðstoðar lögmanna. 

Samkomulag hafi ekki náðst um ágreining aðila.

Stefndi kveður lagnaframkvæmdir að Hafnarstræti 9 hafa átt að hefjast þegar við undirritun samnings og vera lokið 30. apríl 2006, en leggja hafi átt lagnir í láréttum og lóðréttum stokkum á 1. hæð og í lofti og veggjum kjallara.  Lagnavinnu hafi ekki verið lokið fyrr en í júní vegna ýmissa verkfræðilegra vandamála og erfiðs aðgengis að húsnæðinu.  Framkvæmdir stefnda við lagnir í Hafnarstræti 9 hafi engin áhrif haft á framkvæmdir stefnanda í rýminu, enda hafi engar athugasemdir komið fram um það af hálfu stefnanda.  Stefnandi hafi alfarið séð um að standsetja húsnæði sitt og hafi sjálfur samið við alla framkvæmdaaðila og annazt alla hönnun og arkitektavinnu, líkt og samkomulagið hafi gert ráð fyrir.  Af reikningum iðnaðarmanna að dæma virðist meginframkvæmdir ekki hafa byrjað fyrr en um haustið 2006, og hafi stefnandi ekki flutt rekstur veitingastaðar síns fyrr en undir áramótin út úr leiguhúsnæði stefnda í húsnæði sitt að Hafnarstræti 9.

Lagnaframkvæmdir að Hafnarstræti 11 hafi verið bráðabirgðaframkvæmdir, líkt og skýrlega sé getið um í samkomulaginu, og hafi þeim verið lokið í lok maí 2006 í fullu samráði við stefnanda.  Hafi stefndi samþykkt að koma á móts við kröfur stefnanda um að hækka gjald fyrir lokun úr kr. 10.000 hverja klukkustund í kr. 15.000.

Utanhúsframkvæmdum hafi lokið í byrjun júní 2006, en hótel stefnda hafi opnað um miðjan þann mánuð í húsnæði hans að Hafnarstræti 11, utan leigurýmisins á jarðhæð, sem ekki hafi verið til afnota fyrir stefnda fyrr en um sumarið 2007.

Sé því hafnað, að þessar framkvæmdir stefnda hafi valdið stefnanda óþægindum umfram það, sem búast hafi mátt við og ráð hafi verið fyrir gert í samkomulagi aðila.  Stefnda sé ekki kunnugt um, að kvartanir hafi komið fram af hálfu stefnanda á samráðsfundum með eftirlitsaðila verksins.  Þá hafi minnisblaði Línuhönnunar hvorki verið framvísað við stefnda né eftirlitsaðila, eða nokkurn tímann kynnt þeim.

Stefndi kveður aldrei hafa verið um það samið varðandi riftun leigusamnings aðila, að stefnandi nýtti húsnæði stefnda án nokkurs endurgjalds.  Hafi verið við það miðað, að stefnandi greiddi gjald fyrir afnotin, sem tæki mið af leigugjaldi leigusamningsins.  Hann hafi greitt fyrirvaralaust leigugjald fram til þess tíma, sem hann átti að afhenda leigurýmið.   Hann hafi síðan nýtt rýmið áfram og rekið þar veitingastað sinn.  Það hafi fyrst verið með bréfi lögmanns hans, dags. 19. janúar 2007, að hann hafi áskilið sér rétt til að skuldajafna kröfu sinni um húsaleigu vegna húsnæðisnotkunar verktaka á vegum stefnda við húsaleigukröfur stefnda.  Engar endurgreiðslukröfur hafi verið hafðar þar uppi vegna þegar greidds leigugjalds frá gerð samkomulags aðila.  Hafi slík krafa fyrst komið fram með bréfi núverandi lögmanns stefnanda þann 26. apríl 2007.

Stefndi hafni fullyrðingum stefnanda um, að framkvæmdir stefnda hafi valdið seinkun á framkvæmdum stefnanda.  Lagnaframkvæmdir stefnda að Hafnarstræti 9 hafi verið minniháttar og verði ekki séð, á hvern hátt þær hafi getað tafið framkvæmdir stefnanda, auk þess sem seinkun þeirra um rúman mánuð geti á engan hátt útskýrt 4-5 mánaða seinkun stefnanda á að flytja rekstur sinn.  Hluti skýringanna felist í því, að stefnandi hafi unnið mun umfangsmeiri framkvæmdir en frá sé greint í samkomulaginu, og svo því að öll arkitekta- og hönnunarvinna hafi verið á hendi stefnanda, sem virðist hafa leitt til þess, að vinna við húsnæðið hófst seint og um síðir.

Vegna dráttar á afhendingu húsnæðisins hafi stefndi dregið frá samþykktum verkliðum afnotagjald vegna rýmisins fyrir tímabilið ágúst 2006 til og með maí 2007, kr. 2.162.296, sem sé jafngildi leigugjalds samkvæmt leigusamningi, sem hafði verið í gildi milli aðila.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar og samningaréttar um greiðslu skulda og skuldbindingargildi samninga.

Kröfur stefnanda séu eftirfarandi:

Dskj.

Lýsing kröfu

Upphafst. drv.

Fjárhæð

Afstaða stefnda

  5

Ofgreidd leiga 11. til 31. marz 2006

03.03. 2006

137.294

Hafnað

  6

Ofgreidd leiga í apríl 2006

03.04. 2006

202.672

Hafnað

  7

Ofgreidd  leiga í maí 2006

08.05. 2006

152.672

Hafnað

  8

Ofgreidd leiga í júní 2006

08.06. 2006

152.672

Hafnað

10

Kostnaður vegna lokunar Nonnabita v/framkvæmda við hótel 1919 aðfararnótt 30. 05. 2006 til kl. 8:30 að morgni 31.05. 2006.

02.07. 2006

457.500

Samþykkt kr. 285.000

11

Kostnaður v/pípulagna í Hafnarstræti 9, jarðhæð og kjallari

19.02. 2007

3.155.500

Samþykkt

12

Kostnaður vegna rafmagnslagna í Hafnarstræti 9, jarðhæð og kjallari,

19.02. 2007

3.483.218

Samþykkt

13

Kostnaður vegna loftræstikerfis fyrir Hafnarstræti 9, jarðhæð og kjallari.

19.02. 2007

2.392.531

Hafnað

14

Skaðabætur vegna riftunar leigusamnings, sbr. samkomulag 10.03. 2006.

19.02. 2007

750.000

Samþykkt

15

6 tíma tafir hjá rafvirkjum vegna lélegs frágang á götum á loftaplötum. Boruð of lítil göt.

19.02. 2007

26.145

Samþykkt

16

Skaðabætur vegna skemmdarverks smiða á nýmúraðan vegg.

19.02. 2007

5.200

Samþykkt

17

Gaslagnir fyrir Nonnabita í Hafnarstræti 9 og aftenging á gasi í Hafnarstræti 11, vegna flutnings Nonnabita úr Hafnarstræti 9 í Hafnarstræti 11.

19.02. 2007

80.611

Samþykkt

18

Auglýsingakostnaður vegna lokunar Nonnabita vegna framkvæmda í Hafnarstræti 11.

19.02. 2007

40.302

Samþykkt

19

Vinna við raflagnir vegna lagfæringa á loftræstikerfi.

21.03. 2007

65.639

Hafnað

20

Viðbót við loftræstikerfi vegna Nonnabita. Vinna við blásara.

21.03. 2007

457.755

Hafnað

29

Viðbótarkröfur vegna pípulagna

26.05. 2007

394.843

Samþykkt

29

Viðgerð á gluggum

26.05. 2007

138.275

Samþykkt

21

Flóð í eldhúsi 1. des 2006. Sjálfsábyrgð á einkamunum eigenda stefnanda.

26.05. 2007

14.000

Samþykkt

22

Flóð í eldhúsi. Sjálfsábyrgð. Kostnaður

 vegna flóðs 1. des.

26.05. 2007

50.000

Samþykkt

Samtals samþykkt af stefnda

8.423.094

Samtals greitt af stefnda

6.260.798

Samtals mismunur vegna óheimils skuldajafnaðar.

2.162.296

Samtals nemi kröfur stefnanda á hendur stefnda kr. 12.156.829, að frádreginni innborgun stefnda þann 08.06. 2007 að fjárhæð kr. 6.260.798, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi skuldin ekki fengizt greidd af stefnda, og sé málshöfðun þessi því nauðsynleg.

Ofgreidd leiga - samtals kr. 645.310, sbr. dskj. nr. 5-8

Stefnandi og stefndi hafi gert með sér samkomulag, dags. 10.03. 2006 um riftun leigusamnings fyrir húsnæðið að Hafnarstræti 11, og hafi riftunin miðazt við undirritun samkomulagsins.  Við það hafi allur réttur stefnda til leigugreiðslna fallið niður, en stefnandi hafi samt sem áður greitt út júnímánuð 2006.  Beri stefnda að endurgreiða hina ofgreiddu leigu samkvæmt meginreglu kröfuréttarins um endurgreiðslu á ofgreiddu fé.  Verði ekki fallizt á, að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu að öllu leyti, byggi stefnandi á því, að hann eigi að fá endurgreiddar samtals kr. 100.000, eða kr. 50.000 fyrir hvorn mánuð, marz og apríl 2006, sem hann hafi greitt fyrir leigu á geymsluskúr, sem stefndi hafi aldrei afhent stefnanda, heldur hafi hann veitt verktökum aðstöðu þar, meðan á framkvæmdunum stóð.

Eftirstöðvar reiknings nr. 219, samtals kr. 172.500, sbr. dskj. nr. 10

Í samkomulagi milli stefnanda og stefnda segi, að stefndi greiði stefnanda kr. 10.000 fyrir hverja klukkustund, sem staðurinn verði lokaður vegna framkvæmdanna.  Skömmu síðar hafi aðilar samið um, að miðað yrði við kr. 15.000.  Stefnandi byggi á því, að greiða eigi reikning, að fjárhæð 457.500, fyrir kostnað vegna lokunar Nonnabita v/framkvæmda við hótel 1919 aðfararnótt 30.05. 2006 til kl. 8.30 að morgni 31.05. 2006 að fullu, ásamt dráttarvöxtum, en staðurinn hafi verið lokaður í 30,5 klukkustundir.  Samkvæmt bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 8. júní 2007, viðurkenni stefndi þar greiðsluskyldu að fjárhæð kr. 285.000, eða 19 klukkustundir, þar sem framkvæmdir hafi varað í styttri tíma en reikningur stefnda tilgreini.  Þessu sé hafnað af hálfu stefnanda, enda hafi ekkert verið lagt fram, sem styðji þennan rökstuðning.  Komi einnig fram í tölvupósti stefnanda til stefnda, að miðað skyldi við, að vinna hæfist kl. 2.00 aðfararnótt þriðjudagsins 30.05. 2006, og að vinnu yrði lokið kl 8.30 hinn 31.05. 2006, sbr. dskj. nr. 6.  Þar segi einnig, að stefnandi líti svo á, að fyrirtækið teljist lokað frá þeim tíma, sem vinna hæfist, þ.e. kl. 2.00, þar til vinnu lyki, enda fyrirtækið lokað stefnanda á þeim tíma, m.a. til hefðbundinna undirbúningsstarfa.  Engar athugasemdir hafi borizt við tölvupóstinum.

Kostnaður vegna loftræstikerfis, samtals kr. 2.915.925, sbr. dskj. nr. 13 og 19-20

Í samkomulaginu komi fram, að stefndi skuli greiða fyrir flutning á núverandi loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús, ásamt tilheyrandi loftstokkum.

Stefndi hafi hafnað kröfum vegna kaupa og uppsetningar stefnanda á loftræstikerfi, þar sem það hafi ekki verið hluti af samkomulagi aðila.  Um sé að ræða kostnað vegna loftræstikerfis fyrir Hafnarstræti 9, jarðhæð og kjallara, að fjárhæð kr. 2.392.531, kostnað vegna vinnu við raflagnir vegna lagfæringa á loftræstikerfi, að fjárhæð kr. 65.639, og viðbót við loftræstikerfið í Hafnarstræti 9, þar sem unnið hafi verið við blásara, að fjárhæð kr. 457.755.  Þegar að því hafi komið að setja upp loftræstikerfið, hafi þeir sérfræðingar, sem fengnir hafi verið til verksins, talið, að dýrara yrði að flytja loftræstikerfið úr Hafnarstræti 11 yfir í Hafnarstræti 9 og jafnvel ómögulegt.  Þeir hafi talið, að jafnvel þótt reynt yrði að flytja hluta af loftræstikerfinu yfir, þyrfti alltaf að endursmíða stærstan hluta kerfisins vegna þess hve ólík húsnæðin hafi verið.  Engar athugasemdir hafi borizt á þeim tíma frá þeim, sem fylgzt hafi með verkinu fyrir hönd stefnda, um að samkomulagið væri efnt á þennan hátt.  Stefndi hafi gefið loforð um, að stefnandi yrði skaðlaus vegna framkvæmda sinna, og geti skuldbinding stefnda um að kosta flutning á loftræstikerfinu ekki fallið niður, þrátt fyrir að efndir samkomulagsins hafi verið með breyttum hætti.  Sama niðurstaða fengist með því að víkja þessum lið samkomulagsins til hliðar og breyta honum með vísan til 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, enda bersýnilega ósanngjarnt, að stefnandi taki á sig þennan kostnað.

Óheimill skuldajöfnuður

Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 8. júní 2007, hafi stefndi skuldajafnað við kröfur stefnanda samtals kr. 2.162.296 vegna skaðabóta vegna dráttar á afhendingu leigurýmis samkvæmt samkomulagi.  Fjárhæðin hafi verið fundin út samkvæmt leigusamningi fyrir tímabilið 01.08. 2006-31.05. 2007.  Stefnandi byggi á því, að stefnda sé ekki tækt að skuldajafna meinta leiguskuld við kröfur stefnanda, enda sé um tilbúna skuld að ræða, sem eigi við engin rök að styðjast.  Allur réttur stefnda til leigugreiðslna hafi fallið niður með samkomulagi frá 10.03. 2006 milli stefnanda og stefnda um riftun leigusamnings um Hafnarstræti 11.  Flutningur veitingastaðarins Nonnabita hafi farið fram 1. desember 2006, og hafi stefndi haft aðgang að Hafnarstræti 11 frá þeim tíma, og því eigi sú framsetning hans að óska eftir afhendingu á húsnæðinu í formi afhendingar á lyklum ekki við nein rök að styðjast.  Ekki hafi verið unnt að flytja veitingastaðinn fyrr vegna hins mikla dráttar, sem hafi orðið á framkvæmdum stefnda.  Allar tafir á flutningi veitingastaðarins hafi því verið, og séu, á ábyrgð stefnda.

Dráttarvextir

Samkvæmt samkomulaginu milli stefnanda og stefnda hafi stefndi undirgengizt að greiða þann kostnað, sem stefnandi hlyti af framkvæmdunum.  Stefndu (sic) hafi lagt út fyrir kostnaðinum og gert stefnda reikninga fyrir kröfunum.  Byggi stefnandi á því, að stefndi eigi að greiða dráttarvexti af skuld sinni við stefnanda.  Aldrei hafi komið neinar greiðslur frá stefnda fyrr en stefnandi hafði leitað aðstoðar lögmanna við innheimtu krafna sinna.  Stefnandi byggi á því, að stefndi eigi að greiða dráttarvexti mánuði frá útgáfudegi reikninga, en til hagræðis séu dráttarvextir í fyrsta lagi miðaðir við þær dagsetningar, þegar húsaleiga var ofgreidd, sbr. greiðslukvittanir.  Í öðru lagi séu þeir miðaðir við mánuð frá dagsetningu reikningsins vegna lokunar Nonnabita v/framkvæmda við hótel 1919 aðfararnótt 30.05. 2006 til kl. 8.30 að morgni 31.05. 2006.  Í þriðja lagi reiknist þeir mánuði frá dagsetningu kröfubréfa stefnanda til stefnda.  Verði ekki fallizt á að miða dráttarvexti vegna hinnar ofgreiddu leigu við greiðsludag, byggi stefnandi á því, að miða eigi við mánuð frá dagsetningu kröfubréfs, þegar krafan var fyrst höfð uppi, eða 26.05. 2007.  Um allt ofangreint vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.

Um lagarök vísist til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um greiðslu skulda og skuldbindingargildi samninga, endurgreiðslu á ofgreiddu fé og skaðabætur innan samninga, og til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna.  Þá vísist til meginreglna kröfuréttarins og leiguréttar um riftun og skuldajöfnuð.

Kröfur um málskostnað styðji stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Um dráttarvexti vísi stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. 

Málsástæður stefnda

Ofgreidd leiga.

Þessum kröfulið sé hafnað.  Þó að aðilar hafi slitið fyrirliggjandi leigusamningi, hafi ekki verið um það samið, að ekki yrði greitt fyrir afnot af eign stefnda.  Hafi stefndi talið það skilning beggja, enda hafi stefndi haldið áfram að rukka fyrir afnotin og stefnandi að greiða, án athugasemda.  Hafi verið við það miðað, að gjaldið yrði það sama og verið hafði samkvæmt leigusamningi.  Engar athugasemdir hafi komið fram um fjárhæð gjaldsins af hálfu stefnanda.

Hvað varði afnotarétt stefnanda af bílskúr, þá skyldi samkvæmt samningi ekki greiða sérstakt gjald fyrir það.  Þá hafi stefnandi skuldbundið sig í samkomulagi aðila að gera ekki sérstaka kröfu á hendur stefnda vegna skúrsins, m.a. vegna yfirstandandi framkvæmda.  Verði ekki séð, á hvaða grunni krafa stefnanda um 50.000 króna leigugjald á mánuði sé reist, enda sé hún í engu rökstudd.  Sé sömuleiðis óljóst, í hverju meint tjón stefnanda sé fólgið, en hann beri sönnunarbyrðina um það.

Eftirstöðvar reiknings nr. 219.

Varðandi þennan kröfulið greini aðila á um túlkun samkomulagsins, þar sem fram komi, að „Heimsferðir ehf. greiði leigutaka kr. 10.000 fyrir hverja klukkustund, sem staðurinn verður lokaður vegna þessara framkvæmda.“

Stefndi hafi stuðzt við mat sitt á staðfestingu umsjónarmanns verksins, Kristins Alexanderssonar, sbr. tölvupóst hans þann 31. maí 2007, á dskj.nr. 40.  Þar komi fram, að staðurinn hafi verið lokaður í 19 klst., og taki stefndi undir það mat.  Sé á því byggt af hálfu stefnda, að einungis skuli greitt fyrir þann tíma, sem staðurinn sé lokaður, þ.e. þegar ekki sé hægt að stunda þar rekstur, en taki fráleitt til þess tíma nætur, þegar engin rekstur sé.  Túlkun lögmanns stefnda í tölvupósti á dskj. nr. 9 sé hafnað, en þegar þáverandi lögmaður stefnanda sá póstinn, hafi framkvæmdir verið um garð gengnar.

Kostnaður vegna loftræstiskerfis.

Stefndi hafi alfarið hafnað að greiða umræddan kostnað, þar sem hann falli ekki undir greiðsluskyldu stefnda, heldur stefnanda, samkvæmt skýru orðalagi samningsins.  Stefnda beri, samkvæmt samkomulaginu, að greiða fyrir flutning á öllum tækjum yfir á nýja staðinn í Hafnarstræti 9, þ.e. frá  gamla staðnum í Hafnarstræti 11, og einnig fyrir flutning á núverandi loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús, ásamt tilheyrandi loftstokkum.  Öll önnur ný tæki, innréttingar, búnaður o.s.frv. skyldu vera á kostnað stefnanda.

Stefndi telji orðalag samningsins skýrt og sanngjarnt.  Stefnandi hafi kosið að kaupa nýja loftræstisamstæðu og nýta ekki þá, sem fyrir var.  Þar hafi verið um sjálfstæða ákvörðun stefnanda að ræða, sem stefndi hafi ekkert með að gera, enda hafi það ekki verið í verkahring stefnda að hlutast til um það, með hvaða hætti stefnandi fylgdi samkomulaginu, þ.e. að flytja gömlu samstæðuna yfir, eða kaupa nýja, og því síður hvaða kröfur stefnandi gerði til veitingastaðar síns.  Umrædd ákvörðun og framkvæmd hafi þannig alfarið verið á ábyrgð stefnanda og ekki hlutverk eftirlitsaðila að ákvarða, með hvaða hætti stefnandi fullnægði samkomulaginu.

Þá hafi stefnda aldrei verið kynnt minnisblað Línuhönnunar ehf. um mat á flutningi samstæðunnar.  Matið sé án rökstuðnings og enginn samanburður gerður á kostnaði, eftir því hvor leiðin yrði farin.

Stefndi bendi einnig á, að hann hafi borið allan kostnað við að taka niður loftræstikerfi það, sem stefnandi skildi eftir í Hafnarstræti 11, svo og allan förgunarkostnað, en með því telji hann sig hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu.

Þá bendi stefndi á, að samkvæmt framlagðri sundurgreiningu á kostnaði á dskj. nr. 43 hafi fjárhæð efnisliðs samstæðunnar numið kr. 1.563.032.  Geti stefndi ekki borið ábyrgð á þeim kostnaði samkvæmt samkomulaginu, auk þess sem stefnandi hafi, með þessari aðgerð sinni, fengið nýja samstæðu í stað eldri, en engin tilraun sé gerð til að meta þann ávinning stefnanda.

Tilvísun stefnanda til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi hér ekki við.  Verði samkomulaginu ekki heldur vikið til hliðar með stoð í 2. mgr. greinarinnar.  Samningurinn sé sanngjarn og aðilar hafi staðið jafnt við gerð samkomulagsins.  Engin þau atvik hafi komið upp síðar, sem réttlætt hafi breytingu á honum, þar sem stefndi hafi einn átt að bera þann kostnað, sem hefði hlotizt af flutningnum, þó að það hefðu orðið dýrara en t.d. að kaupa nýja samstæðu.  Geti það vissulega ekki talizt ósanngjarnt í garð stefnanda.  Við samninga skuli standa, og eigi það jafnt við stefnanda og stefnda.

Óheimill skuldajöfnuður

Stefndi telji, að honum hafi verið heimilt að skuldajafna við kröfu stefnanda bótum vegna afnota stefnanda af húsnæði hans fyrir þann tíma, sem stefnandi hafði rekstur í húsnæðinu og eftir að reksturinn flutti, eða allt fram til maí 2007.

Stefnandi hafi, eftir gerð samkomulags, greitt afnotagjald, sem hafi verið jafngildi leigufjárhæðar samkvæmt leigusamningi, sem hafi verið í gildi milli aðila.  Engin rök séu fyrir því, að stefnanda beri ekki að greiða fyrir afnot sín, sem hann þó hafi viðurkennt í verki, með því að greiða fyrir afnotin allt fram á mitt sumar 2007.

Í bréfi lögmanns stefnanda í janúar 2007 hafi stefnandi áskilið sér rétt til að skuldajafna húsaleigukröfum stefnda við kröfur, sem stefnandi hafi talið sig eiga á hendur stefnda vegna meintrar notkunar verktaka á húsnæðinu.  Í áskilnaðinum hafi falizt viðurkenning á kröfum stefnda um afnotagreiðslur.

Þá liggi fyrir í bréfi lögmannsins frá febrúar 2007, að stefnandi myndi ekki afhenda húsnæðið fyrr en við uppgjör, og hafi hann þar byggt á túlkun sinni á samkomulaginu.  Hvergi í samkomulagi aðila sé kveðið á um þetta atriði, heldur aðeins að stefnandi skuli afhenda húsnæðið í síðasta lagi 31. júlí 2006.  Því sé það rangt, sem fram komi í stefnu, að húsnæðið hafi verið afhent stefnda þann 1. desember 2006.  Beri stefnandi bótaábyrgð á tjóni stefnda vegna slíkar ólögmætrar gjörðar a.m.k. frá 1. desember 2006, en stefnda hafi, af þessum sökum, verið ókleift að nýta fasteign sína allt fram í júlí 2007, þegar bréf lögmanns stefnanda barst.

Dráttarvextir.

Dráttarvaxtakröfum stefnanda sé sérstaklega mótmælt.  Kröfur stefnanda hafi fyrst komið fram  í janúar 2007.  Hafi stefndi óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum til að geta metið greiðsluskyldu sína vegna þess að mun meira hafi verið framkvæmt en honum hafi borið að greiða fyrir.  Hafi leiðréttingar borizt með bréfi lögmanns 26. apríl 2007 auk viðbótarkrafna.  Hafi verið haldinn fundur með lögmönnum aðila í maí 2007, þar sem skýringar hafi verið gefnar á einstökum reikningum og fjöldi umfangsmikilla fylgigagna afhentur, en hluti þeirra sé lagður fram með greinargerð stefnda í máli þessu.

Það hafi verið þá fyrst, sem forsendur hafi legið fyrir til að geta metið umfang greiðsluábyrgðar stefnda, og hafi stefndi gengið frá uppgjöri þann 8. júní 2007, þ.e. um mánuði eftir fund lögmanna.  Telji stefndi, að meðan kröfur hafi ekki verið settar fram með nægjanlegum skýrum hætti og útilokað að taka afstöðu til einstakra kröfuliða, geti kröfur stefnanda ekki borið dráttarvexti.

Þá sé dráttarvaxtaviðmiði vegna meintrar ofgreiddrar leigu hafnað, en krafan hafi fyrst komið fram með bréfi lögmanns stefnanda,  dags. 26. apríl 2007.

Stefndi vísi til meginreglna leigu-, samninga- og kröfuréttarins.  Krafa um málskostnað sé byggð á ákvæðum laga nr. 91/1991, XXI. kafla.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Björk Þorleifsdóttir, einn eigenda stefnanda, Andri Már Ingólfsson, fyrirsvarsmaður og eigandi stefnda, Kristinn Alexandersson tæknifræðingur og matsmennirnir, Sverrir Kristinsson fasteignasali og Hákon Ólafsson verkfræðingur.

Kröfur stefnanda eru vegna ofgreiddrar leigu, samtals kr. 645.310, kostnaðar vegna loftræstikerfis fyrir jarðhæð og kjallara Hafnarstrætis 9, kr. 2.392.531, vinnu við raflagnir vegna lagfæringa á loftræstikerfi, kr. 65.639, viðbótar við loftræstikerfi, kr. 457.755, eftirstöðva bóta vegna lokunar Nonnabita aðfaranótt 30.05. 2006 til kl. 8.30 að morgni 31.05. 2006, kr. 172.500 og óheimils skuldajafnaðar stefnda, kr. 2.162.296, eða samtals kr. 5.896.031.  Verður nú fjallað um einstaka kröfuliði.

Ofgreidd leiga

Stefnandi byggir á því, að með samkomulagi aðila frá 10. marz 2006 hafi aðilar m.a. komið sér saman um að rifta gildandi leigusamningi fyrir húsnæðið að Hafnarstræti 11.  Við það hafi réttur stefnda til leigugreiðslna fallið niður.  Stefnandi hafi engu að síður greitt leigu út júnímánuð 2006 og krefur stefnda um endurgreiðslu leigunnar, þar sem hann hafi greitt umfram skyldu.

Ágreiningslaust er að samningnum var rift.  Það er einnig ágreiningslaust, að þrátt fyrir riftunina nýtti stefnandi áfram húsnæðið að Hafnarstræti 11 og greiddi, án nokkurs fyrirvara, leigugjald fyrir afnotin, eins og verið hafði fram til þess að samningnum var rift.  Hvergi í samkomulagi aðila er þess getið, að riftunin hafi einungis átt að taka til réttar stefnda til greiðslu fyrir afnot af húsnæðinu.  Með því að stefnandi rýmdi ekki húsnæðið við riftunina, bar honum að greiða stefnda fyrir afnotin.  Var það enda augljóslega skilningur beggja aðila fyrstu mánuðina, eða þar til stefnandi hætti að greiða leigu, að leigufjárhæðin skyldi taka mið af því, sem áður var. 

Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi samið um endurgjaldslaus afnot af húsnæðinu eftir að samningnum var rift, er þessum kröfulið hafnað.

Stefnandi gerir til vara kröfu um, að hann eigi rétt á endurgreiðslu, samtals kr. 100.000, vegna leigu á geymsluskúr, sem hann hafi aldrei fengið afnot af.

Í leigusamningi frá 2. júní 2004 er leiga vegna húsnæðisins ákvörðuð, en afnot af bílskúr eru ekki í þeim samningi.  Í viðauka við samninginn, dags. sama dag, er stefnanda heimilaður afnotaréttur af skúrnum, án þess að séð verði, að það hafi haft áhrif á leigugjaldið til hækkunar.  Í samkomulagi aðila frá 10. marz 2006 er enn fremur svohljóðandi ákvæði:  „JBS ehf. gerir ekki kröfu á Heimsferðir um leiðréttingu á leigu vegna bílskúrs sem JBS ehf. hefur haft rétt á, en ekki fengið tækifæri til að nýta sér hann m.a. vegna framkvæmda sem nú standa yfir.“  Verður að telja ákvæði þetta taka af allan vafa um það, að stefnandi hafi afsalað sér öllum rétti til að krefja stefnda bóta vegna afnotamissis skúrsins.  Er þessum kröfulið stefnanda því alfarið hafnað.

Eftirstöðvar reiknings vegna lokunar veitingastaðarins, kr. 172.500

Ágreiningslaust er, að stefndi skuldbatt sig til að greiða stefnanda kr. 15.000 fyrir hverja klukkustund, sem veitingastaðurinn var lokaður vegna framkvæmdanna.  Þá er ágreiningslaust, að vinna fór fram á staðnum frá kl. 2 aðfaranótt 30. maí 2006 til kl. 8.30 að morgni 31. maí, eða í 30,5 klukkustundir.  Stefndi greiddi stefnanda vegna lokunar í 19 klukkustundir, eða kr. 285.000.  Kemur skilningur stefnanda á samkomulagi aðila fram í tölvubréfi lögmanns stefnanda á dskj. nr. 9, þar sem litið er svo á, að fyrirtækið teljist lokað frá þeim tíma, sem vinna hefst og þar til vinnu lýkur, þar sem fyrirtækið sé m.a. lokað vegna hefðbundinna undirbúningsstarfa.

Í samkomulagi aðila segir, að stefndi skuli greiða kr. 10.000 fyrir hverja klukkustund, sem staðurinn verði lokaður vegna framkvæmda stefnda.  Aðilar sömdu síðar um fjárhæðina kr. 15.000 fyrir hverja klukkustund.  Er ekki fallizt á, að samningurinn feli í sér, að stefnanda beri bætur fyrir þann tíma, sem staðurinn var ekki í rekstri, enda þótt framkvæmdir stæðu þá yfir á vegum stefnda, enda staðurinn þá ekki lokaður vegna framkvæmdanna.

Stefnandi hefur ekki gert grein fyrir því í málatilbúnaði sínum, hverjir hafi verið opnunartímar veitingastaðarins eða á hvaða tíma dagsins vinna hófst.  Þar sem fyrir liggur, að framkvæmdir hófust að næturlagi hinn 30, maí og unnið var fram til morguns hinn 31. maí, þykja 11,5 klukkustundir ekki ósennilegur tími, sem ætla má, að staðurinn hefði hvort eð er ekki verið opinn eða vinna farið þar fram.  Er því fallizt á með stefnda, að stefnandi hafi þegar, með greiðslu á kr. 285.000, fengið bættan þann tíma, sem staðurinn var lokaður vegna framkvæmda stefnda, og á hann ekki frekari kröfur á hendur honum vegna þessa.

Kostnaður vegna loftræstikerfis, samtals kr. 2.915.925

Í samkomulagi aðila frá 10. marz 2006 kemur fram, að stefndi skuldbindur sig til að greiða fyrir flutning á „núverandi“ loftræstisamstæðu og háf fyrir eldhús, ásamt tilheyrandi loftstokkum.

Stefnandi byggir á því, að flutningur á eldri samstæðu hefði orðið mun dýrari en kostnaður við nýja samstæðu og ósanngjarnt, að hann þurfi að bera þann kostnað.

Húsnæði það, sem stefnandi flutti í, er mun stærra en leiguhúsnæðið að Hafnarstræti 11, og er m.a. á tveimur hæðum, þannig að eldri loftræstisamstæðan passaði engan veginn inn í hið nýja húsnæði.  Matsmaðurinn, Hákon Ólafsson verkfræðingur, bar m.a. fyrir dómi, að það hefðu verið betri möguleikar á því að flytja kerfið á milli staðanna, hefði nýi staðurinn verið á einni hæð í stað tveggja.  Hönnun nýja kerfisins hafi tekið mið af þörfum staðarins, sem séu ekki alveg þær sömu og á eldri staðnum, og hefði ekki verið hægt að skella gamla kerfinu upp á annarri hæðinni og smíða síðan viðbætur.

Það liggur fyrir, að stefnandi tók sjálfur þá ákvörðun, að nýta ekki loftræstisamstæðu þá, sem var í Hafnarstræti 11, heldur kaupa nýja.  Er ósannað, að sú ákvörðun hafi verið tekin í samráði við stefnanda, eða með samþykki hans um að bera kostnað af kaupum og uppsetningu á nýrri samstæðu.  Þá liggur fyrir samkvæmt framansögðu, að nýja samstæðan var mun stærri, enda um stærra húsnæði að ræða.  Þá kom fram í framburði fyrirsvarsmanns stefnda, Andra Más Ingólfssonar, að stefnandi hefði skilið gamla loftræstikerfið eftir í Hafnarstræti 11, og hefði stefndi borið kostnað af því að taka það niður og farga því.

Er ekki fallizt á, að það verði leitt af samningi aðila, að stefnda beri að greiða fyrir nýja loftræstisamstæðu eða uppsetningu á henni, eða að það verði talið ósanngjarnt, með vísan til 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, að stefnandi beri einn þann kostnað.  Er kröfum vegna kostnaðar við loftræstikerfi því alfarið hafnað.

Óheimill skuldajöfnuður

Stefndi skuldajafnaði ógreiddri leigu fyrir tímabilið 1. ágúst 2006 til 31. maí 2007 við þær greiðslur, sem honum bar að greiða samkvæmt samkomulagi aðila frá 10. marz 2006.  Námu greiðslurnar samtals kr. 2.162.296, og er fjárhæðin óumdeild.

Stefnandi byggir á því, að um tilbúna skuld sé að ræða, sem ekki eigi við rök að styðjast, en allur réttur stefnda til leigugreiðslna hafi fallið niður við riftun leigusamningsins skv. samkomulagi aðila frá 10. marz 2006.

Svo sem rakið er hér að framan, þar sem fjallað er um kröfur stefnanda vegna meintrar, ofgreiddrar leigu, er ósannað, að riftun leigusamningsins hafi falið í sér endurgjaldslaus afnot stefnanda af húsnæðinu.             

Samkvæmt bréfi lögmanns stefnanda, dags. 17. júlí 2007 til lögmanns stefnda, hafði stefnandi á þeim tíma ekki afhent stefnda lykla að hinu leigða húsnæði. 

Annar eigandi stefnanda, Björk Þorleifsdóttir, skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, að stefnandi hefði farið úr húsnæðinu í desember 2006.  Spurð um afhendingu á leigurýminu með vísan til bréfs þáverandi lögmanns stefnanda á dskj. nr. 25, dags. 21. febrúar 2007, kvað hún það hafa verið skilning eigenda stefnanda, að afhending á leigurýminu og greiðsla stefnda fyrir afhendinguna samkvæmt samkomulagi aðila frá 10. marz 2006 færi saman.  Þau hefðu hins vegar ekki haldið húsnæðinu, þar sem iðnaðarmenn hefðu haft aðgang að rýminu.  Þau hefðu farið út í desember 2006.  Spurð, hvort skilja megi framangreint bréf svo, þar sem fram komi, að þau hefðu ekki talið sig skuldbundin til að afhenda húsnæðið eða greiða leigu, hvort það fælist ekki í þessu yfirlýsing um, að þau hefðu ekki verið búin að afhenda það, svaraði hún því játandi, en kvað þau samt ekkert hafa verið að sitja á húsnæðinu.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst, að stefnandi var ekki búin að afhenda stefnda leiguhúsnæðið í júlí 2007, og er ekki fallizt á, að það jafngildi afhendingu, að iðnaðarmenn hafi getað haft aðgang að því um tvennar dyr.  Bera gögn málsins með sér, að stefnandi hafi haldið húsnæðinu í því skyni að knýja fram efndir af hálfu stefnda, sem þau töldu hann ekki hafa staðið við.  Ber stefnanda því að greiða stefnda bætur, sem svara til leigugreiðslu fyrir það tímabil, sem hann hafði yfirráð yfir leiguhúsnæðinu, og var stefnda því heimilt að skuldajafna þeirri fjárhæð við kröfur stefnanda á hendur honum, enda kröfurnar bærar til skuldajafnaðar og leigufjárhæðin óumdeild.

Samkvæmt framansögðu er stefndi sýkn af öllum kröfum stefnanda á hendur honum í máli þessu.  Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Heimshótel ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, JBS ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.