Hæstiréttur íslands

Mál nr. 739/2015

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Mirjam Foekje van Twuijver (Björgvin Jónsson hrl.) og Atla Frey Fjölnissyni (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Tilraun

Reifun

M og A voru ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, M með því að hafa staðið að ólögmætum innflutningi á 9.053,55 g af amfetamíni að 69 til 70% styrkleika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrkleika og 10.027,25 g af MDMA að 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni, en A fyrir að hafa tekið á móti pakkningum og tösku frá M sem hann hafði talið að innihéldu öll framangreind ávana- og fíkniefni og fyrir að hafa ætlað að koma þeim áleiðis til ótilgreindra aðila hér á landi. M játaði að hafa veitt fíkniefnunum viðtöku í Hollandi og flutt þau til Íslands með farþegaflugi, en neitaði að hafa haft ásetning til að flytja hingað til lands fíkniefnin sem voru í ferðatösku dóttur sinnar sem einnig var með í för. Að virtri frásögn M um aðdraganda ferðarinnar og með hliðsjón af hinu mikla magni fíkniefna var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að hún hafi vitað eða að minnsta kosti hlotið gera sér grein fyrir að taska dótturinnar hefði að geyma nokkurn veginn sama magn fíkniefna og hennar eigin taska. Var hún því sakfelld samkvæmt ákæru og var brot hennar talið varða við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. A játaði að hafa tekið að sér það verkefni að sækja töskur M, en neitaði að hafa vitað að um fíkniefni væri að ræða. Talið var hafið yfir allan vafa að A hefði mátt vera ljóst að hann væri að leggja fíkniefnainnflutningi lið og hefði hann látið sér í léttu rúmi liggja hvaða efni þetta væru og í hvaða magni. Var hann því einnig sakfelldur samkvæmt ákæru og var brot hans talið varða við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. þeirra. Við ákvörðun refsingar M var fyrst og fremst litið til þess að um var að ræða fádæma mikið magn sterkra fíkniefna sem hún flutti hingað til lands af yfirlögðu ráði, sbr. 1., 3. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá var einnig höfð hliðsjón af því að hlutverk hennar var einvörðungu í því fólgið að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur. Til refsilækkunar kom að hún bauð lögreglu aðstoð og tók síðan að undirlagi hennar þátt í aðgerð til að upplýsa málið frekar, sbr. 8. og 9. tölulið áðurnefndrar málsgreinar. Við ákvörðun refsingar A var litið til þess að þótt hlutur hans í flutningi efnanna á áfangastað hefði verið mun veigaminni en M, væri brot hans stórfellt vegna hins mikla magns sterkra fíkniefna. Var refsing M ákveðin fangelsi í 8 ár en A fangelsi í 4 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærða Mirjam krefst þess að hún verði sýknuð af sakargiftum um að hafa flutt hingað til lands 10.027,25 g af efninu MDMA, en að öðru leyti að refsing hennar verði milduð.

Ákærði Atli Freyr krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, en til vara að refsing hans verði milduð.

I

Í málinu er ákærðu Mirjam gefið að sök að hafa 3. apríl 2015 „að beiðni ótilgreindra aðila, flutt hingað til lands með flugi“ frá Amsterdam í Hollandi „samtals 9.053,55 g af amfetamíni að 69 til 70% styrkleika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrkleika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.“ Þá er ákærði Atli Freyr sakaður um að hafa 7. sama mánaðar við Hótel Frón í Reykjavík „tekið á móti pakkningum og tösku frá ákærðu Mirjam sem hann taldi að innihéldu öll framangreind ávana- og fíkniefni, og fyrir að hafa ætlað að koma þeim áleiðis til ótilgreindra aðila hér á landi til að hægt yrði að koma efnunum í söludreifingu, en lögreglan hafði þá áður lagt hald á efnin og komið fyrir gerviefni í þeirra stað.“ Er háttsemi ákærðu Mirjam talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og háttsemi ákærða Atla Freys við þá grein, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

Málsatvikum er lýst stuttlega í hinum áfrýjaða dómi og þar er gerð ítarleg grein fyrir framburði beggja ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi. Við komuna hingað til lands 3. apríl 2015 voru ákærða Mirjam og dóttir hennar stöðvaðar við tolleftirlit, en hvor þeirra hafði meðferðis eina ferðatösku. Við leit í töskunum kom í ljós mikið magn fíkniefna, sem vógu ásamt umbúðum rúmlega 10 kg í hvorri tösku um sig, og voru mæðgurnar handteknar í kjölfar þess. Við skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir kvaðst ákærða ekki vita hvað hafi verið í töskunum. Spurð hvort hún hafi verið að flytja fíkniefni kaus hún að svara því ekki, en bætti við að hún vildi aðstoða lögregluna eftir bestu getu.

Fyrir héraðsdómi bar ákærða Mirjam að hollenskt par, karl og kona sem hún nafngreindi, hefði beðið sig um að fara þessa ferð og taka með sér „tvo þrjá litla pakka svona kíló hvern“ með einhverju efni sem hún hefði ekki vitað hvað var. Fyrir þetta hafi hún átt að fá greiddar 20.000 evrur. Kvaðst ákærða hafa látið parið fá föt sín og allt dót sitt og dóttur sinnar til ferðarinnar fyrirfram og þau séð um að pakka ofan í ferðatöskurnar sem þeim mæðgum hafi síðan verið afhentar skömmu fyrir innritun á flugvellinum ytra. Samkvæmt gögnum málsins kom ákærða hingað til lands ásamt nafngreindum hollenskum manni í byrjun desember 2014 og aftur í byrjun febrúar 2015. Í bæði skiptin dvöldu þau hér í þrjá daga. Spurð um tildrög fyrri ferðarinnar við aðalmeðferð málsins svaraði ákærða að hún hefði á þeim tíma verið í miklum fjárhagslegum vandræðum, en svo hafi komið „einhver sem ég hélt að væri vinur minn og spurði hvort ég vildi koma með honum til Reykjavíkur og þannig fór ég með í fyrsta skipti en ég var sjálf ekki með neitt þá“. Aðspurð sagðist ákærða hafa fengið 5.000 evrur greiddar fyrir þetta skipti, en var ekki beðin um að skýra frá því fyrir dómi hvort og þá hve mikið hún hefði fengið greitt fyrir síðari ferðina. Hins vegar var ákærða spurð hvort fíkniefni hefðu verið flutt inn í fyrri ferðinni og hvað hún hafi haldið að þau tvö hafi verið að gera. Fyrri spurningunni svaraði hún neitandi, en þeirri síðari þannig: „Fyrsta skipti vissi ég ekki neitt en svo næsta skipti þá fór mig að gruna og þannig kynntist ég líka fólki sem kom til mín seinna meir til þess að spyrja hvort ég vildi fara í þessa ferð.“ Síðar í skýrslu sinni fyrir dómi lét ákærða svo um mælt að hún hafi verið spurð af áðurnefndu pari hvort hún vildi taka með það sama og ferðafélagi hennar hafi verið „búinn að taka tvisvar sinnum og þegar þar að kom vissi ég að hann hafði tekið ... tvo þrjá litla pakka svona kíló hvern og ég vissi ekki hvaða efni það var“.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi skýrði ákærða lögreglu frá því strax eftir að hún var handtekin að hún ætti að fara á ákveðið hótel og hringja í tiltekið símanúmer. Meðal gagna málsins er skýrsla lögreglu um aðgerðir, sem gripið var til af hennar hálfu í kjölfarið til að leitast við að upplýsa málið frekar, auk endurrits af því sem fram kom í símtölum ákærðu við aðra meðan hún dvaldi á hótelinu næstu daga. Þá hefur verið lögð fyrir Hæstarétt samantekt um umræddar aðgerðir. Í þessum skjölum kom meðal annars fram að ákærða hafi viljað vinna með lögreglu og láta sem hún hefði ekki verið handtekin. Fíkniefnin voru fjarlægð úr ferðatöskunum og gerviefni komið fyrir í annarri þeirra, svo og í gjafapakka sem verið hafði í hinni. Mörg símtöl og smáskilaboð fóru milli ákærðu og annarra á tímabilinu frá 3. til 7. apríl 2015, en síðastnefnda daginn var henni skipað að fara með aðra töskuna og pakkann út í bifreið sem senn yrði ekið að hótelinu. Ákærða fór að fyrirmælunum og í framhaldi af því var ökumaður bifreiðarinnar, ákærði Atli Freyr, tekinn höndum af lögreglu. Einn af þeim lögreglumönnum, sem kom að handtökunni, bar vitni fyrir dómi og var meðal annars spurður hvort ákærði hefði verið undir áhrifum lyfja eða fíkniefna eða hvort vitnið hefði tekið eitthvað eftir því. Vitnið svaraði: „Ég tók nú ekki eftir því, en honum var bara brugðið og ... náfölnaði og var smeykur.“

Samkvæmt matsgerðum, sem lagðar hafa verið fram og gerð er grein fyrir í héraðsdómi, var magn og styrkleiki fíkniefnanna, sem fundust í ferðatöskum mæðgnanna, sá sami og greindur er í ákæru. Í matsgerð 30. apríl 2015 var tekið fram að úr amfetamíninu, sem var falið í tösku ákærðu Mirjam, væri unnt að búa til efni með venjulegum neyslustyrkleika sem væri tæplega 42 kg að þyngd. Þá mætti búa til úr kókaíninu 430 g af efni með algengum neyslustyrkleika. Loks væri þess kostur að framleiða um 85.000 töflur af MDMA úr því efni, sem komið hafði verið fyrir í töskunni hjá dóttur ákærðu, miðað við meðalstyrkleika í slíkum töflum sem seldar væru til neyslu. Má varlega ætla að verðmæti alls þess magns fíkniefna, sem fannst í töskunum tveimur, hafi numið á bilinu frá 400.000.000 til 600.000.000 krónum.   

II

Eins og áður greinir fannst fádæma magn fíkniefna með miklum styrkleika í ferðatöskum þeim sem ákærða Mirjam og dóttir hennar höfðu meðferðis við komuna hingað til lands 3. apríl 2015. Skipti verðmæti fíkniefnanna sem fyrr segir hundruðum milljónum króna.

Ákærða heldur því fram að hún hafi aðeins haft ásetning til að flytja hingað til lands fíkniefnin sem voru í ferðatösku sinni en ekki í tösku dóttur sinnar. Svo sem að framan er rakið bar ákærða meðal annars fyrir héraðsdómi að hún hafi þegið 5.000 evrur fyrir að fara fyrstu ferðina til landsins í byrjun desember 2014. Kvaðst hún ekki hafa verið „með neitt þá“ og ekki vitað af því að fíkniefni hefðu verið með í för í það skipti, en sig hafi farið að gruna að svo hafi verið í næstu ferð sem farin var í byrjun febrúar 2015. Ákærða sagðist hafa viljað taka með sér í ferðina, sem mál þetta er sprottið af, „tvo þrjá litla pakka“ af fíkniefnum „svona kíló hvern“. Að sögn hennar lét hún hollenska parið fá föt og aðra persónulega muni sína og dóttur sinnar og sá parið um að pakka niður í töskurnar sem þeim mæðgum voru afhentar skömmu fyrir innritun í flugið frá Amsterdam. Sé þessi frásögn ákærðu lögð til grundvallar og jafnframt litið til þess hve fíkniefnin, sem fundust í hvorri tösku, voru þung og fyrirferðarmikil er hafið yfir skynsamlegan vafa að hún vissi eða að minnsta kosti hlaut að gera sér grein fyrir að taska dótturinnar hefði að geyma nokkurn veginn sama magn fíkniefna og hennar eigin taska. Ennfremur að svo mikið magn fíkniefna væri ætlað til sölu í ágóðaskyni. Samkvæmt því verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og felur í sér brot gegn 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga.

Í hinum áfrýjaða dómi var ranglega dregin sú ályktun af fyrrgreindum vitnisburði lögreglumannsins, sem kom að handtöku ákærða Atla Freys, að ekki hafi verið talið að ákærði hefði verið undir áhrifum lyfja eða annarra efna þegar hann var handtekinn. Eins og rakið hefur verið kom einungis fram hjá vitninu að hann hafi ekki tekið eftir því hvort ákærði hafi verið undir slíkum áhrifum. Þótt ákærði hafi verið undir áhrifum nautnalyfja umrætt sinn, svo sem hann sjálfur heldur fram, veldur það ekki refsileysi þeirrar háttsemi sem hann er ákærður fyrir, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga. Að því gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 173. gr. a. sömu laga, sbr. 1. mgr. 20. gr. þeirra.

  Samkvæmt 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga varðar það þann fangelsi allt að 12 árum sem gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni flytur inn eða tekur við slíkum efnum í því skyni að afhenda þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt. Við ákvörðun refsingar ákærðu Mirjam verður fyrst og fremst að líta til þess að um var að ræða fádæma mikið magn sterkra fíkniefna, sem hún flutti hingað til lands af yfirlögðu ráði, sbr. 1., 3. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Einnig ber að hafa hliðsjón af því að hlutverk hennar var einvörðungu í því fólgið að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur. Til refsilækkunar kemur að ákærðu hefur ekki áður verið gerð refsing fyrir brot svo að vitað sé. Einnig lýsti hún því yfir strax eftir handtöku að hún vildi veita lögreglu aðstoð og tók síðan að undirlagi hennar þátt í aðgerð til að upplýsa málið frekar, sbr. 8. og 9. tölulið áðurnefndrar málsgreinar. Þótt aðgerðin bæri ekki tilætlaðan árangur verður ákærðu ekki um það kennt. Samkvæmt öllu þessu er refsing hennar ákveðin fangelsi í 8 ár og kemur gæsluvarðhald, sem hún hefur sætt, til frádráttar refsingunni eins og í dómsorði greinir. Vegna hins mikla magns sterkra fíkniefna, sem um var að ræða, er brot ákærða Atla Freys stórfellt þótt hlutur hans í flutningi efnanna á áfangastað hafi verið mun veigaminni en ákærðu Mirjam. Að teknu tilliti til þess og að ákærði, sem á að baki nokkurn sakaferil, á sér engar málsbætur er refsing hans ákveðin fangelsi í 4 ár og kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti um tíma, til frádráttar refsingunni eins og fram kemur í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærðu gert að greiða helming af áfrýjunarkostnaði málsins, þar með talin af málsvarnarlaunum skipaðra verjenda sinna sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða Mirjam Foekje van Twuijver sæti fangelsi í 8 ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 4. apríl 2015.

Ákærði Atli Freyr Fjölnisson sæti fangelsi í 4 ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 8. til 22. apríl 2015.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærða Mirjam greiði 480.550 krónur af áfrýjunarkostnaði málsins, sem eru helmingur af málsvarnarlaunum verjanda hennar, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 930.000 krónum og ferðakostnaði hans 31.100 krónum. Ákærði Atli Freyr greiði 465.000 krónur af áfrýjunarkostnaði málsins, sem eru helmingur af málsvarnarlaunum verjenda hans, hæstaréttarlögmannanna Bjarna Haukssonar 558.000 krónum og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar  372.000 krónum. Jafnframt greiði ákærðu óskipt 35.979 krónur sem eru helmingur af öðrum áfrýjunarkostnaði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 8. október 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 26. júní 2015, á hendur Mirjam Foekje van Twuijver, hollenskum ríkisborgara, fæddri [...], og Atla Frey Fjölnissyni, kennitala [...], Sundlaugavegi 12, Reykjavík,  „fyrir að hafa bæði staðið að stórfelldu fíkniefnalagabroti á árinu 2015:

1. Gegn ákærðu Mirjam, með því að hafa föstudaginn 3. apríl, á Keflavíkurflugvelli að beiðni ótilgreindra aðila, flutt hingað til lands með flugi FI-501 frá Amsterdam Hollandi, samtals 9.053,55 g af amfetamíni að 69 til 70% styrkleika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrkleika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Efnin flutti ákærða hingað til lands falin í tveimur ferðatöskum.

2. Gegn ákærða Atla Frey, fyrir að hafa þriðjudaginn 7. apríl, við Hótel Frón, Laugavegi 22a, Reykjavík, tekið á móti pakkningum og tösku frá ákærðu Mirjam sem hann taldi að innihéldu öll framangreind ávana- og fíkniefni, og fyrir að hafa ætlað [að] koma þeim áleiðis til ótilgreindra aðila hér á landi til að hægt yrði að koma efnunum í söludreifingu, en lögreglan hafði þá áður lagt hald á efnin og komið fyrir gerviefni í þeirra stað.

Telst háttsemi ákærðu beggja varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001 og sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar ákærða Atla Frey.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk þau fíkniefni sem hald var lagt á, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“ 

Ákærða Mirjam kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játaði að hafa flutt inn til landsins þau fíkniefni sem fundust í farangri hennar en neitar að hafa átt þátt í því að hafa flutt inn þau fíkniefni sem fundust í farangurstösku dóttur hennar sem kom með henni til landsins. Ákærði Atli Freyr játaði fyrir dóminum að hafa verið á staðnum eins og segir í ákæru en neitar sök að öðru leyti.

Krafðist ákærða Mirjam sýknu vegna þeirra fíkniefna sem fundust í farangri dóttur hennar og vægustu refsingar sem lög leyfa vegna þeirra efna sem hún hefur játað að hafa komið með til landsins. Ákærði Atli Freyr krafðist sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun og að þau verði greidd úr ríkissjóði. 

Málsatvik.

Upphaf máls þessa er að ákærða Mirjam Foekje van Twujiver, ásamt dóttur sinni A, kom til Íslands með flugi frá Hollandi þann 3. apríl sl. Voru þær með sína ferðatöskuna hvor og voru stöðvaðar við tolleftirlit. Kom í ljós að umtalsvert magn fíkniefna var í hvorri tösku. Voru þær handteknar í kjölfarið. Kvaðst ákærða Mirjam eiga að hringja í ákveðið símanúmer og hitta mann sem myndi taka við töskunni hennar og neitaði að hafa haft vitneskju um að fíkniefni hafi verið í tösku dóttur hennar. Í framhaldi fylgdi lögreglan þeim á hótel þar sem Mirjam hitti ákærða Atla Frey og afhenti honum fíkniefnin.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði Atli Freyr kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í samkvæmi þar sem hann hafi hitt mann. Sá hafi kynnt sig sem B og sagst vera hollenskur. Sá hafi beðið sig um að sinna ákveðnu verkefni. B hafi látið sig hafa síma og 160.000 þúsund krónur fyrir viðvikið og síðan átti hann að fá einhverja greiðslu þegar hann væri búinn að skila töskunni. Hann hafi átt að fara að Hótel Frón á Laugavegi og taka á móti töskum. Ákærði kvaðst hafa hitt B um viku áður en mæðgurnar komu. Ekki hafi hvarflað að sér eina mínútu að það væru fíkniefni sem hann átti að sækja. Hann hefði aldrei farið á staðinn ef hann hefði grunað að um fíkniefni væri að ræða, hann hafi talið þetta vera stera. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki notað sinn eigin síma kvað hann manninn hafa látið sig hafa síma sem hann hefði átt að nota. Maðurinn hafi sent sér skilaboð í símann og m.a. um að tímaáætlun hefði breyst. Ákærði hafi átt að taka upp á Hótel Frón mæðgur og töskurnar þeirra og fara með þær á Grand Hótel. Alla vega hafi hann átt að sækja töskurnar og fara með þær á Grand Hótel en hann mundi ekki hvað hann átti að gera við mæðgurnar. Ákærði hafi þar átt að fá viðbótargreiðslu, gæti verið tvö til þrjú hundruð þúsund krónur. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir fyrstu skýrslutökunni hjá lögreglu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það hvers vegna hann hafi ekki sagt lögreglunni strax frá því að hann hafi talið að um stera væri að ræða. Ákærði kvaðst [...]. Þá hafi ákærði farið í margar meðferðir á Vog en hann hafi verið undir áhrifum ýmissa lyfja þegar hann var handtekinn. Ákærði kvaðst vera atvinnulaus og ekki í skóla en hann væri í sambúð með barnsmóður sinni.

                Ákærða Mirjam kvaðst fyrir dóminum játa að hafa vitað af fíkniefnum í farangurstösku sinni en ekki hafa vitað að fíkniefni væru í tösku dóttur sinnar. Ákærða kvaðst hafa verið í mjög erfiðum aðstæðum heima hjá sér. Hún hafi misst allt og ekki átt neitt þannig að dóttir hennar hafi þurft að búa hjá vinkonu sinni. Ákærða hafi verið í erfiðu sambandi með karlmanni. Þá hafi hún kynnst manni, C, sem hafi boðið henni að koma með sér til Reykjavíkur, sem hún hafi gert í tvígang. Hún hafi fengið um fimm þúsund evrur greiddar fyrir fyrri ferðina en tíu þúsund evrur fyrir seinni ferðina. Ákærða hafi ekki vitað í fyrstu ferðinni að verið væri að flytja fíkniefni til Íslands en í næstu ferð hafi hana farið að gruna það. Ákærða kvaðst hafa pakkað sjálf farangri sínum í þeim ferðum.

Síðar hafi hún kynnst D og E, [...] sé viðurnefni, sem hafi beðið hana að fara í þessa ferð. Þau hafi komið nokkrum sinnum heim til ákærðu. Ákærða hafi verið í það miklum fjárhagsvandræðum að hún hafi bara átt tvo kosti, annars vegar að fara í vændi og hins vegar að fara í svona ferð. Þau hafi spurt hana hvort ákærða gæti tekið sama magn af fíkniefnum og hún hafði þegar farið með í tvígang, þ.e. um tvö til þrjú kíló, en hún hafi ekki vitað hvaða efni það voru. Ákærða hafi spurt þau hvort dóttir hennar mætti koma með þar sem þær hefðu átt svo erfitt tímabil og aldrei farið tvær saman í frí. Ákærðu hafi því langað til að nota ferðina sem einhvers konar lokun á erfiðu tímabili. Ákærða kvaðst hafa bókað flugið fyrir þær sjálf en fengið peninga til þess frá D og E. Ákærða hafi einnig valið hótelið sjálf. Ákærða kvaðst hafa átt að fá tuttugu þúsund evrur fyrir ferðina. Ákærða kvað ferðina hafa verið ákveðna með viku fyrirvara. D hafi komið heim til ákærðu í nokkur skipti í þeirri viku. Ákærða hafi ekki átt neitt og ekki ferðatösku heldur. D hafi því sagt að þau gætu séð um að pakka niður fyrir ákærðu og dóttur hennar og ákærða þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Ákærða kvaðst hafa ítrekað spurt þau hvort hún væri ekki að fara með sama magn og ákærða hafði farið með áður með C og hún hafi einnig ítrekað að dóttir hennar ætti ekki að vera viðriðin innflutninginn. D hafi komið kvöldið áður og ákærða látið hana hafa fatnað fyrir ferðina af sér og dóttur sinni. Mikið hafi verið að gera hjá ákærðu á þessum tíma, þetta hafi verið mjög skrítinn tími og hún hafi treyst D og E. E hafi komið seint um morgun, sótt þær og ekið þeim á flugvöllinn. Hann hafi látið þær hafa töskurnar á flugvellinum og tekið fram hvor átti hvaða tösku. Hún hafi því treyst því að engin fíkniefni væru í tösku dóttur hennar. E hafi sagst ætla að fylgjast með þeim í innritun og tíminn hafi verið naumur. Ákærða hafi því ekki haft tíma til að skoða í tösku dóttur sinnar. Hún hafi ekki talið sig þurfa að spyrja E hvort fíkniefni væru í tösku dótturinnar, hún hafi áður verið búin að segja honum að dóttir hennar ætti að vera fyrir utan þetta. Hún hafi því treyst honum. Ákærða lýsti erfiðu lífi sínu fyrir dóminum. Ákærða kvaðst hafa liðsinnt lögreglu eins og hún gat við rannsókn málsins, fundið Facebook-síðu D og E auk þess að finna út hvar þau bjuggu. Þá hafi hún tekið þátt sem tálbeita eftir að hún var handtekin hér á landi. Ákærða kvað afleiðingar þess að hafa liðsinnt við rannsókn málsins vera að hún gæti aldrei farið í heimabyggð sína aftur þar sem hún óttist um líf sitt. Hún hafi fengið hótanir. Þá hafi vinir hennar snúið baki við henni vegna málsins. Ákærða kvaðst aðspurð fyrst hafa séð töskurnar þegar þær komu á flugvöllinn en rangt væri haft eftir dóttur hennar hjá lögreglu að hún hafi séð töskuna fyrst heima hjá þeim. Ákærða kvaðst hafa látið þau D og E hafa föt fyrir sig og dóttur sína fyrir helgarferðina en það hafi ekki allt skilað sér í töskurnar. Dóttir hennar sé [...] ára og þurfi því mikið af fötum. Ákærða kvaðst ekki muna hvor þeirra tók töskurnar af færibandinu í Keflavík, þær hafi gert það saman. Þá hafi ákærða ekkert velt því fyrir sér að hvor taska hafi verið um tíu kíló, þær voru bara svo fegnar að vera komnar til Íslands og hlökkuðu til helgarinnar. Aðspurð um framburð ákærðu hjá lögreglu um að hún hafi átt að fá þrjátíu til fimmtíu þúsund evrur fyrir ferðina, kvað ákærða það vera rangt, hún hafi átt að fá þá greiðslu ef hún hefði farið til landsins með húsbíl.   

                Vitnið A gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Vitnið nýtti sér rétt sinn um að svara ekki spurningum varðandi móður sína. Aðspurt kvaðst vitnið staðfesta að rétt væri eftir því haft í lögregluskýrslum sem liggi fyrir í málinu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð töskurnar fyrr en á flugvellinum, ekki væri rétt að það hafi séð þær heima hjá sér.

                Vitnið F, móðir ákærða Atla Freys, kom fyrir dóminn og lýsti erfiðri æsku ákærða Atla og meðferðarúrræðum sem hann hafi reynt að nýta sér.

                Vitnið G, aðalvarðstjóri hjá Tollstjóra, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft afskipti af ákærðu eftir gegnumlýsingu á töskunum. Vitnið hafi tekið stúlkuna og skoðað innihald tösku hennar en annar tollvörður hafi skoðað innihald tösku ákærðu Mirjam. Stúlkan hafi verið mjög hissa á því að vera stöðvuð og hafi orðið meira undrandi þegar innihald töskunnar kom í ljós. Stúlkan hafi strax sagt að hún hafi ekki pakkað sjálf í töskuna. Vitnið var í beinu sambandi við tollvörðinn sem skoðaði tösku móðurinnar. Móðirin hafi verið í miklu uppnámi og kvaðst ekkert kannast við innihald töskunnar. Vitnið kvaðst hafa reynt að róa móðurina niður og útskýrt fyrir henni að enn sem komið var væri bara um grun að ræða. Þegar stikkprufa hafi sýnt að um fíkniefni væri að ræða hafi lögreglan verið kölluð til. Stúlkan hafi sagt móður sína hafa séð um að láta pakka niður. Stúlkan hafi sagt við vitnið að hún tryði því ekki að móðir hennar væri að gera sér þetta. Stúlkan kvaðst ekki hafa komið til Íslands áður. Móðirin hafi sagt tollverðinum sem skoðaði innihald hennar tösku að þetta væri fyrsta ferð hennar til landsins en við skoðun hafi komið í ljós að hún hafði komið tvisvar til landsins áður.

                Vitnið H rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvað mæðgurnar hafa komið til landsins í byrjun apríl. Þegar lögreglan kom að málinu hafi verið búið að finna mikið af fíkniefnum í töskum þeirra. Ákærða hafi strax útskýrt að hún ætti að fara á ákveðið hótel og ætti að hringja í ákveðið númer. Framburður þeirra beggja hafi verið á þá leið að stúlkan hafi ekki vitað af efnunum en móðirin hafi ætlað að flytja inn fíkniefni. Ákærða hafi sagst hafa komið tvisvar áður með C til Íslands en hann hafi þá verið að flytja inn fíkniefni. Skýrsla hafi verið tekin af C í Hollandi og hafi hann sagt að það hafi verið ákærða sem hafi flutt inn fíkniefni í þeim ferðum sem hann fór með henni til Íslands. D og E hafi verið flutt til Spánar þegar lögreglan reyndi að finna þau. Vitnið kvað töskurnar hafi verið innritaðar í Amsterdam, önnur á stúlkuna og hin á ákærðu.

                Vitnið I rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að málinu eftir handtöku ákærðu. Vitnið hafi tekið þátt í að skipta út fíkniefnum á hótelinu. Á hótelinu hafi verið símasamskipti þannig að móðirin hafi verið beðin að koma út með pakkann og tösku, sem hún hafi gert. Ákærði Atli Freyr hafi verið í bifreiðinni og tekið á móti þessu. Þegar ákærða Mirjam hafi verið komin inn á hótelið aftur hafi ákærði Atli verið handtekinn.

Vitnið J lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að handtöku ákærða Atla. Honum var greinilega brugðið við handtökuna. Ákærði hafi verið búinn að setja pakkann og töskuna í skottið á bílnum sínum þegar hann var handtekinn. Vitnið kvaðst ekki hafa séð sérstaklega að ákærði hafi verið undir áhrifum lyfja eða fíkniefna en honum hafi greinilega verið brugðið.

Vitnið K kom fyrir dóminn og útskýrði þær matsgerðir sem liggja fyrir í málinu. Kvað vitnið matsgerð II sýna aðferðarfræðina við að reikna út hugsanlegan götustyrk efnanna og magn. Séu þessir útreikningar byggðir á rannsóknum sem hafi verið gerðar, bæði hérlendis og erlendis. Vitnið kvað amfetamínið sem kom til rannsóknar hafa verið mjög rakt en nánast hreint amfetamín.

Matsgerðir.

Í gögnum málsins liggja fyrir þrjár matsgerðir frá Rannsóknastofu í lyfja- og efnafræði við Háskóla Íslands.

Í matsgerð frá 22. apríl 2015 kemur fram að eitt sýni af MDMA hafi verið sent til rannsóknar. Hafi styrkur MDMA í því sýni verið 78% sem samsvaraði 93% af MDMA-klóríði. Tvö sýni af amfetamíni voru send til greiningar. Reyndist innihald amfetamínbasa í sýninu vera 69% sem samsvaraði 94% af amfetamínsúlfati. Eitt sýni af kókaíni var tekið til rannsóknar og reyndist styrkur kókaíns vera 64% sem samsvaraði 72% af kókaínklóríði.

                Í matsgerð frá 16. júní 2015 kemur fram að tvö sýni af MDMA voru send til rannsóknar. Reyndist styrkur efnisins vera 79%, sem samsvaraði 94% af MDMA-klóríði. Sjö sýni af amfetamíni voru send til rannsóknar. Var styrkur amfetamínbasa í sex sýnum 71% sem jafngilti 97% af amfetamínsúlfati. Eitt sýnið innihélt 72% af amfetamínbasa sem samsvaraði 98% af amfetamínsúlfati.

Í matsgerð II frá 30. apríl 2015 segir að úr því magni af MDMA-klóríði sem flutt var inn hafi mátt framleiða 85.014 töflur sem innihaldi 92 mg af MDMA og er þá miðað við meðalgildi styrkleika þeirra taflna sem komu til rannsóknar á tímabilinu 1. janúar 2010 til ársloka 2014. Úr því magni af amfetamínsúlfati sem kom til landsins mátti framleiða tæplega 42 kg af efni sem væri 5,8% að styrk. Í forsendum þeirrar niðurstöðu var miðað við rannsókn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á götustyrk amfetamíns sem lagt var hald á á árunum 2005 og 2006. Úr því kókaínefni sem flutt var til landsins var reiknað út að úr mætti framleiða 430 g af neysluskömmtum sem væru að meðaltali 29% að styrkleika. Í þeim forsendum var gengið út frá dönskum rannsóknum á neyslustyrkleika kókaíns árið 2013.

Forsendur og niðurstöður.

Eins og fram kemur í matsgerðum Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands var MDMA-efnið sem ákærða flutti til landsins mjög sterkt efni sem mátti framleiða rúmlega 85.000 töflur úr í neysluskömmtum. Þá var amfetamínið nánast hreint amfetamínsúlfat eftir þurrkun og mátti framleiða úr því rúmlega 42 kíló af efninu í neyslustyrk. Þá mátti framleiða um 430 g af kókaíni í neysluskömmtum úr því efni sem ákærða flutti inn. Var hér um að ræða mjög sterk efni sem framleiða mátti úr fjölmarga neysluskammta. Ljóst þykir að slíkt magn er um að ræða að það hafi verið ætlað til sölu og dreifingar.

Engin gögn liggja fyrir um sakaferil ákærðu erlendis en hún hefur ekki áður gerst brotleg við íslensk lög. Ákærða játaði að hafa komið með 9.053,55 g af amfetamíni og 194,81 g af kókaíni til landsins en neitaði að hafa vitað um 10.027,25 g af MDMA-dufti í farangurstösku dóttur sinnar. Ákærða hefur játað að hafa ætlað að flytja fíkniefni inn til Íslands umrætt sinn en það hafi átt að vera tvö til þrjú kíló og hafi hún átt að fá greiddar tuttugu þúsund evrur fyrir. Ákærða lýsti því svo að hún hafi ekki átt neina ferðatösku til að pakka niður persónulegum eigum fyrir helgarferðina til Íslands né fyrir dóttur sína og því látið D hafa föt til fararinnar en hún hafi boðist til að pakka þeim niður fyrir þær. Hún hafi treyst henni og manni hennar en þau hafi verið vinir sínir.

Ákærða kvaðst hafa séð farangurstöskur þeirra fyrst á flugvellinum og treyst því að engin fíkniefni væru í tösku dóttur hennar. Ákærða innritaði sig og dóttur sína á flugvellinum og lét töskurnar á færiband. Hvor taska um sig, sem voru að svipaðri stærð samkvæmt ljósmyndum og leyfðar eru í handfarangri, voru um tíu kíló. Ákærða gaf þá skýringu á vigt taskanna að dóttir hennar hafi þurft mikið af snyrtivörum, hárblásara o.fl. sem henni hafi verið næg skýring á þunga taskanna. Þó svo að „[...]“ hafi sagst ætla að fylgjast með þeim þar til þær væru innritaðar, þá var hann vinur ákærðu og er það engin skýring á því að ákærða gekk ekki úr skugga um innhald tösku dóttur sinnar strax á flugvellinum. Mátti ákærðu vera ljóst að þyngd taskanna hafi verið það mikil að annað og meira en tvö til þrjú kíló af fíkniefnum væru í þeim auk klæða til helgarferðar. Ákærða Mirjam móttók efnin á flugvellinum án þess að ganga úr skugga um hvers kyns fíkniefni um væri að ræða eða hversu mikið magn. Þótt ásetningur hennar hafi ekki staðið til annars en að flytja tvö til þrjú kíló af fíkniefnum til landsins, ber hún refsiábyrgð á flutningi þeirra efna sem þær mæðgur voru með þar sem hún lét sér í léttu rúmi liggja hvaða efni eða hversu mikið af efnum var í töskunum og gekk ekki úr skugga um það sjálf. Mátti hún því gera ráð fyrir hverju sem er í þessum efnum. Tók hún því áhættuna á því sem í töskunum var og bar ábyrgð á þeim. 

Með vísan til þess að ákærða lét þriðja aðila pakka niður í töskur fyrir bæði sig og dóttur sína, sem er [...] ára, ásamt því að ákærða vissi að hún átti að flytja fíkniefni til landsins, hafði hún sérstaka ástæðu til að kanna innihald tösku dóttur sinnar. Mátti  henni vera ljóst eða í það minnsta hefur hún látið sér það í léttu rúmi liggja hvort fíkniefni voru einnig í tösku dóttur hennar. Telur dómurinn að með aðgerðarleysi sínu varðandi tösku dóttur hennar og vitneskju hennar um að ákærða væri að fara að flytja fíkniefni í farangri sínum, sé skilyrði 18. gr. almennra hegningarlaga um ásetning uppfyllt. Þó svo að ákærða haldi því fram fyrir dóminum að hún hafi talið að um tvö til þrjú kíló hafi verið að ræða, þá er það með ólíkindum að ákærðu hafi ekki orðið það ljóst strax á flugvellinum í Amsterdam að um meira magn var að ræða þar sem töskurnar voru báðar rúm tíu kíló. Er skýring ákærðu um að þyngdin hafi m.a. legið í snyrtivörum, hárblásara og flíkum fyrir dóttur hennar að engu hafandi, enda er það algjör firra að halda slíku fram og samræmist ekki lýsingu ákærðu á fátækt þeirra og neyð í heimalandinu.

Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærðu hafi mátt vera ljóst, eða í öllu falli látið sér í léttu rúmi liggja, hvort eða hversu mikið af fíkniefnum var í ferðatöskum hennar og dóttur hennar en ákærða bar ábyrgð á dóttur sinni vegna ungs aldurs hennar. Verður ákærða því sakfelld fyrir innflutning á þeim efnum sem lýst er í ákærulið 1. Ekkert annað hefur sannast en að ákærða hafi verið burðardýr í umrætt sinn og átt að flytja efnin frá einum aðila til annars. Ákærða lýsti fyrir dóminum fjárhagskröggum sínum og öðrum vandamálum sem knúðu hana til að taka verkið að sér. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta þær  frásagnir. Til þess er litið, ákærðu til refsimildunar, að hún veitti lögreglu liðsinni eftir að hún var handtekin og játaði að nokkru leyti, og ekki er vitað um að hún hafi sakaferil að baki. Til refsiþyngingar verður hins vegar að líta til einbeitts ásetnings ákærðu, en þessi ferð var þriðja ferð hennar til landsins í þeim tilgangi að flytja inn fíkniefni eða aðstoða við það, og þess mikla magns og styrkleika efnanna sem ákærða flutti til landsins.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið og með hliðsjón af þeim dómum sem gengið hafa um sambærileg sakarefni á liðnum árum, er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í ellefu ár. Gæsluvarðhald er ákærða hefur sætt frá 4. apríl 2015 skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærði Atli Freyr játaði að hafa tekið að sér það verkefni að sækja töskur á hótel í Reykjavík og gert það um viku áður en mæðgurnar komu til landsins. Ákærði neitaði hins vegar að hafa vitað að um fíkniefni væri að ræða. Ákærði fékk í þessum tilgangi sérstakan síma svo að þriðji aðili, „B“, gæti haft samband við hann og gefið honum fyrirmæli. Þá átti ákærði að fara með töskurnar á Grand Hótel og afhenda þær þriðja aðila þar. Tók Atli við tösku og pakka fyrir utan Hótel Frón, sem hann mátti vita að væru fíkniefni, sem ætluð væru til söludreifingar hér á landi, en lögreglan hafði skipt þeim út fyrir gerviefni. Þá liggur fyrir að ákærði hafi tekið þátt í undirbúningnum í um viku áður en hann var handtekinn og einnig að hann fékk skilaboð um breyttan komutíma mæðgnanna sem frestaði komu hans á hótelið. Ákærði talaði um það fyrir dóminum að hann ætti að hitta mæðgur. Var ákærða því ekki ókunnugt um hluta af ferlinu. Þá fékk ákærði greiðslu fyrir þátt sinn strax í upphafi og átti síðan að fá viðbótargreiðslu þó svo að ekki liggi fyrir hversu mikla, þegar hann afhenti efnin. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa talið að hann væri að sækja stera og að refsilaust væri að hafa stera undir höndum. Samrýmist ekki sú frásögn hans því að hann hafi á sama tíma fengið háar greiðslur fyrir milligöngu sína og þá ekki þeim öryggisráðstöfunum að vera með sérstakan síma til verksins. Er það seinni tíma skýring og að engu hafandi. Fram kom fyrir dóminum að ákærði á sér langa sögu vegna neyslu fíkniefna og ýmissa lyfja. Kvaðst hann hafa verið mjög lyfjaður umrætt sinn og ekki vitað hvað hann var að gera. Samkvæmt vitninu J, sem stóð að handtöku Atla, var ekki talið að Atli hafi verið undir áhrifum lyfja eða annarra efna þegar hann var handtekinn. Telur dómurinn hafið yfir allan vafa að ákærða hafi mátt vera ljóst að hann var að leggja fíkniefnaflutningi lið og lét hann sér í léttu rúmi liggja hvaða efni hann ætlaði að flytja og í hvaða magni. Er framburður hans um annað ótrúverðugur. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og honum gerð refsing fyrir. Þrátt fyrir erfiðleika ákærða og veikindi í langan tíma verður það ekki metið honum til refsilækkunar. Ákærði á sér því engar málsbætur. Er brot ákærða réttilega heimfært til 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga, eins og kemur fram í ákærunni. Þrátt fyrir að um tilraun sé að ræða af hálfu ákærða Atla, stóð ásetningur hans til að sækja raunveruleg efni. Hefur það ekki áhrif við ákvörðun refsingar að honum sé refsað fyrir tilraun. 

Ákærði Atli Freyr á sér nokkurn sakaferil frá árinu 2008 en þá gekkst hann tvisvar undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Á árinu 2009 var ákærði dæmdur í þrjátíu daga fangelsi, skilorðsbundið í eitt ár, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði gekkst tvisvar á því ári undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og ölvunarakstur. Þá gekkst ákærði undir sátt í nóvember 2012 fyrir brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni og 8. október 2013 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hefur ákærða því sex sinnum áður verið gerð refsing fyrir fíkniefnalagabrot. Með vísan til þess sem að framan er rakið er refsing ákærða Atla Freys ákveðin fangelsi í fimm ár. Skal gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 7. apríl til 22. apríl 2015 dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað ber ákærðu að greiða óskipt 1.013.198 krónur sem er vegna rannsóknar á efnunum, matsgerða og rannsóknar á ákærðu Mirjam. Þá er ákærðu Mirjam gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hdl., samtals 2.598.420 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar vegna ferða og aksturs, samtals 227.512 krónur.

Ákærði Atli Freyr greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Jóns Egilssonar hdl., 204.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 13.920 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 613.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

                Upptæk eru gerð 9.053,55 g af amfetamíni, 10.027,25 g af MDMA og 194,81 g af kókaíni.

Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærða, Mirjam Foekje van Twujver, sæti fangelsi í ellefu ár. Til frádráttar refsingunni dregst gæsluvarðhald sem ákærða hefur sætt frá 4. apríl 2015 að fullri dagatölu.

                Ákærði, Atli Freyr Fjölnisson, sæti fangelsi í fimm ár. Til frádráttar refsingunni dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 7. apríl sl. til  22. apríl 2015.

                Ákærðu greiði óskipt 1.013.198 krónur í sakarkostnað.

Ákærða Mirjam greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hdl., 2.598.420 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað, samtals 227.512 krónur.

Ákærði Atli Freyr greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Jóns Egilssonar hdl., samtals 204.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað, 13.920 krónur. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 613.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Upptæk eru gerð 9.053,55 g af amfetamíni, 10.027,25 g af MDMA og 194,81 g af kókaíni.