Hæstiréttur íslands

Mál nr. 642/2012


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Skuldskeyting
  • Reglugerðarheimild
  • Lagaheimild


                                     

Fimmtudaginn 21. mars 2013.

Nr. 642/2012.

Egilsson ehf.

(Marteinn Másson hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Skuldamál. Skuldskeyting. Reglugerðarheimild. Lagaheimild.

Deilt var um það hvort OR væri heimilt að gera þann áskilnað fyrir orkusölu til E ehf. að skuld T ehf., sem tekið hafði verið til gjaldþrotaskipta, yrði greidd með vísan til 8. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006. OR taldi að E ehf. og T ehf. teldust nákomnir aðilar samkvæmt ákvæði reglugerðarinnar, en E ehf. hafði keypt hluta verslana sem T ehf. rak, sami maður var eini stjórnarmaður í E ehf. og T ehf. auk þess sem starfsemi E ehf. var í sama húsnæði og starfsemi T ehf. áður. E ehf. bar því hins vegar við að reglugerðarákvæðið hefði ekki lagastoð. Í dómi Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að hvorki í lögum um stofnun OR né lögum á sviði orkumála væri að finna heimild til að leggja skuld vegna orkukaupa á þriðja mann og breytti þar engu þótt hann væri í tengslum af einhverju tagi við orkukaupanda. Skylda af því tagi sem mælt væri fyrir um í 8. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 yrði ekki lögð á með reglugerð án þess að fyrir því væri ótvíræð lagastoð. Í þeim efnum nægði ekki almenn reglugerðarheimild. Taldi Hæstiréttur að lagastoð brysti fyrir reglugerðinni að þessu leyti og féllst á kröfu E ehf. um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem félagði hafði greitt, með fyrirvara, inn á skuld T ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2012 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2011 var bú Tékklistans ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið hafði rekið verslanir undir nafninu Office 1 og þegar búið var tekið til skipta stóð það í skuld við stefnda vegna kaupa á rafmagni og heitu vatni. Rekstrinum var haldið áfram á vegum þrotabúsins, en 8. júlí sama ár mun áfrýjandi hafa keypt hluta verslana af búinu. Sami maður var eini stjórnarmaður í bæði áfrýjanda og Tékklistanum ehf.

Hinn 13. júlí 2011 var skuld Tékklistans ehf. við stefnda vegna orkukaupa, samtals að fjárhæð 1.748.770 krónur, færð yfir á áfrýjanda og var honum tilkynnt það samdægurs. Í kjölfarið var hafist handa um að innheimta skuldina og mun starfsmaður stefnda hafa komið á starfsstöð áfrýjanda 3. ágúst sama ár í því skyni að loka fyrir rafmagn. Til að komast hjá því greiddi áfrýjandi samdægurs 500.000 krónur inn á skuldina með fyrirvara. Eftirfarandi samskipti aðila eru rakin í hinum áfrýjaða dómi.

Sú ráðstöfun stefnda að færa skuld Tékklistans ehf. yfir á áfrýjanda var reist á 8. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 um Orkuveitu Reykjavíkur, en þar segir að stefnda sé heimilt að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna orkunotkunar. Í niðurlagi ákvæðisins segir að skilgreining á orðinu nákomnir sé sú sama og í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefnda hafi verið heimilt að gera þann áskilnað fyrir orkukaupum gagnvart áfrýjanda að skuldin yrði greidd og hvort reglugerðarákvæðið eigi sér lagastoð.

II

Krafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að ekki hafi verið leyst úr þeirri málsástæðu hans að 8. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 skorti viðhlítandi lagastoð. Í hinum áfrýjaða dómi segir að reglugerðin hafi verið sett með stoð í 45. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Héraðsdómur tók þannig afstöðu til málsástæðunnar og verður því ekki fallist á ómerkingarkröfuna.

III

 Í 21. gr. reglugerðar nr. 297/2006 segir að reglugerðin, sem samþykkt hafi verið af stefnda, sé staðfest samkvæmt lögum 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, orkulögum nr. 58/1967 og raforkulögum nr. 65/2003. Í 82. gr. orkulaga og 45. gr. raforkulaga er að finna almenna heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð. Í niðurlagi 11. gr. laga nr. 139/2001 er aftur á móti að finna ákvæði sem lýtur sérstaklega að stefnda, en þar segir að setja skuli nánari ákvæði um starfsemi hans í reglugerðum, sem ráðherra staðfesti. Í þeim skuli meðal annars kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.

 Samkvæmt 43. gr. raforkulaga eru gjöld fyrir raforku, flutning og dreifingu, sem innheimt eru samkvæmt lögunum, aðfararhæf án dóms eða sáttar samkvæmt 10. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Einnig er heimilt að stöðva afhendingu raforku ef ekki er staðið í skilum með greiðslur þessara gjalda. Hliðstætt ákvæði er í 79. gr. orkulaga, en þar segir að gjöld samkvæmt lögunum og reglugerðum og gjaldskrám settum samkvæmt þeim megi taka lögtaki á kostnað gjaldanda og stöðva afhendingu á hitaorku ef ekki er staðið í skilum á settum gjalddaga. Aftur á móti er hvorki í þessum lögum né öðrum lögum á sviði orkumála að finna heimild til að leggja skuld vegna orkukaupa á þriðja mann og breytir þar engu þótt hann sé í tengslum af einhverju tagi við orkukaupanda.

Svo sem áður er rakið segir í 8. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 að stefndi geti neitað að skrá einhvern fyrir orkunotkun á sama stað, ef orkukaupandi honum nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna orkunotkunar. Af þessu leiðir að gera verður upp skuld fyrri orkukaupanda ef einhver honum nákominn hefur tekið við húsnæði og óskar eftir að fá orku keypta frá stefnda. Skylda af þessu tagi, sem felur það í sér í reynd að þriðji maður taki við skuld sem annar hefur stofnað til, verður ekki lögð á viðkomandi með reglugerð án þess að fyrir því sé ótvíræð lagastoð. Í þeim efnum nægir ekki sú almenna heimild sem er að finna í þeim lagaákvæðum sem áður eru rakin um heimild til að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd tiltekinna laga. Samkvæmt framansögðu brestur lagastoð fyrir reglugerðinni að þessu leyti og verður því fallist á kröfu áfrýjanda um að stefnda verði gert að endurgreiða þá fjárhæð sem áfrýjandi innti af hendi með fyrirvara inn á skuld Tékklistans ehf. Krafa áfrýjanda um dráttarvexti verður tekin til greina frá 5. september 2011, en þá var mánuður liðinn frá því stefndi var krafinn um endurgreiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði áfrýjanda, Egilsson ehf., 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. september 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Egilsson ehf., Köllunarklettsvegi 10, Reykjavík á hendur Orkuveitu Reykjavíkur sf., Bæjarhálsi 1, Reykjavík, með stefnu birtri 7. nóvember 2011.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. greinar III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 500.000 krónum frá 3. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Stefnandi, Egilsson ehf., var stofnað í Reykjavík í lok maí 2011. Stofnendur og stjórnendur voru skráð hjónin Egill Þór Sigurðsson og Sigrún Edda Jónsdóttir. Hinn 8. júlí 2011 keypti stefnandi rekstur þrotabús Tékklistans ehf., en Egill Þór var eini stjórnarmaður Tékklistans ehf. Það félag hafði verið úrskurðað gjaldþrota í byrjun júní 2011. Tékklistinn ehf. rak á sínum tíma verslanir undir nafninu Office 1 og yfirtók stefnandi rekstur hluta þeirra verslana sem Tékklistinn ehf. hafði áður rekið og hélt starfseminni áfram á sömu starfsstöð, þ.e. á Köllunarklettsvegi 10, Reykjavík.

Hinn 13. júlí 2011 er stefnanda tilkynnt að honum beri að greiða skuld þá er tilheyrði fyrri notanda og var vísað til 18. greinar reglugerðar nr. 297/2006. Stefnandi kveður að sér hafi verið hótað lokun ef ekki yrðu gerð skil á skuldum þrotabúsins.

Hinn 3. ágúst 2011 greiddi stefnandi hina umkröfðu fjárhæð með fyrirvara. Stefnandi kveður að þá hafi starfsmaður stefnda verið mættur á starfsstöð stefnanda til að loka fyrir rafmagnið.

Hinn 5. ágúst 2011 mótmælti lögmaður stefnanda framkomu stefnda og krafðist endurgreiðslu á þeim fjármunum sem stefnda voru greiddir. Kröfunni var hafnað hinn 11. ágúst 2011. Sama gerði stefnandi hinn 24. ágúst 2011, jafnframt því að senda stefnda innheimtubréf.

Hinn 9. september 2011 mætti starfsmaður stefnda enn á ný á starfsstöð stefnanda að Köllunarklettsvegi 10 með lokunarheimild frá stefnda. Stefnandi kveður að fjármálastjóri stefnanda hafi hringt til stefnda og krafið hann um skriflega lokunarheimild og útskýringar á því á hvaða rökum sú heimild byggðist. Stefnandi kveður að hinn 20. september 2011 hafi starfsmaður stefnda hringt í fjármálastjóra stefnanda og tilkynni um fyrirhugaða lokun og hafi þá enn á ný verið krafinn um skriflega lokunarheimild.

Stefnandi kveður að hinn 4. október 2011 hafi starfsmaður stefnda hringt til fjármálastjóra stefnanda og kynnt sig sem lokunarmann og hótað enn einu sinni lokun. Þann sama dag hafi fjármálastjóri stefnanda haft samband við stefnda og ítrekað beiðni um að fá skriflega kröfu frá stefnda varðandi lokun og útskýringar á því á hvaða heimildum sú krafa væri reist.

Hinn 7. október 2011 sendi stefndi bréf til stefnanda um yfirfærslu skuldar. Er þar tilkynnt að eftirstöðvar skuldar, Tékklistans ehf., með kostnaði hinn 7. október 2011 nemi 1.281.931 krónu og er þar gert ráð fyrir innborguninni frá 5. ágúst 2011. Í bréfi þessu tilkynnir stefndi að skuld þb. Tékklistans ehf. hafi verið færð yfir á Egilsson ehf. Þá kemur fram að neiti stefnandi að taka við viðkomandi skuld geti stefndi neitað að taka Egilsson ehf. í viðskipti.

Í kjölfariðið fóru fram tölvusamskipti milli málsaðila. Stefndi neitaði að endurgreiða kröfuna og er mál þetta því höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á því að umkrafin fjárhæð, sem greidd var stefnda með fyrirvara hinn 3. ágúst 2011, hafi verið þvinguð fram með ólögmætum hætti, það er með þeirri hótun að lokað yrði fyrir orkusölu til stefnanda vegna skulda Tékklistans ehf., sem tekinn hafi verið til gjaldþrotaskipta fyrr um sumarið. Stefnandi hafi þegar í stað mótmælt framferði stefnda og kröfu hans, en hafi að endingu greitt stefnda 500.000 krónur með fyrirvara um lögmæti kröfunnar.

Stefnandi telur, að þær þvingunaraðferðir sem stefndi hafi beitt séu með öllu óheimilar. Stefndi hafi talið stefnanda trú um að yrði ekki greitt, yrði lokað fyrir afhendingu orku. Stefndi hafi ekki veitt stefnanda þær upplýsingar sem honum hafi þó borið skylda til að gera, þ.e. að stefnandi þyrfti að samþykkja yfirtöku á eldri skuld, en verða neitað um orku ella. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að stefnandi hafi greitt stefnda, að fram hafi komið að stefnandi þyrfti að samþykkja yfirfærsluna samanber bréf 7. október 2011.

Þá telur stefnandi að það reglugerðarákvæði sem stefndi byggi kröfu sína á hafi ekki lagastoð og sé reglugerðarákvæðið því haldlaust með öllu. Skýra lagastoð þurfi til að breyta þeim leikreglum sem lög 21/1991 um gjaldþrotaskipti kveði á um, varðandi rétthæð krafna. Stefndi geti ekki með setningu reglugerðar, þvingað fram greiðslur með þeim hætti sem hann hafi gert í máli þessu og beitt þvingunarúrræðum sem séu algerlega á skjön við það sem aðrir almennir kröfuhafar hafi. Sérstaklega eigi þetta við þar sem stefndi sé í þeirri stöðu að geta lokað fyrir alla starfsemi lögaðila vegna skulda gjaldþrota lögaðila og geti þannig þvingað fram greiðslu. Stefndi verði að sætta sig við að lýsa kröfu í bú gjaldþrota félags eins og aðrir kröfuhafar og sæta þeirri rétthæð sem krafa þeirra taki til. Það sé skiptastjóra í viðkomandi þrotabúi að ákvarða hvar í rétthæð krafa sé sett sem og að meta riftunarmöguleika þeirra gerninga sem gerðir séu á vegum viðkomandi þrotabús. Stefndi geti með engu móti byggt reglugerðarákvæði sitt á skilgreiningu gjaldþrotalaganna um hvaða aðila stefndi telji sér þóknanlegt að neita um raforkusölu eða ekki. Sú skilgreining sem vísað sé til í reglugerð OR eigi við um riftunarmöguleika skiptastjóra og geti því aldrei orðið lagastoð fyrir reglugerðarákvæði fyrirtækja eða opinberra aðila um hverjum þeir geti neitað um sölu á vöru eða þjónustu. Ákvæði í 18. grein reglugerðarinnar byggi auk þess eingöngu á því að hægt sé að neita hinum og þessum um raforkusölu. Reglugerðin fjalli ekki á neinn hátt um það að hægt sé að flytja skuldir á milli lögaðila. Eitt sé að neita lögaðilum um raforkusölu, en annað að flytja skuld gjaldþrota félags yfir á nýjan lögaðila með ólögmætum þvingunaraðgerðum. Til að beita slíkum úrræðum þurfi mjög skýra lagaheimild. Einhliða flutningar á skuld yfir á annan lögaðila sé einfaldlega ekki heimil. Nefnt reglugerðarákvæði geti ekki til um slíka heimild heldur eingöngu um það að stefnda sé heimilt að neita tengdum aðilum um sölu á orku. Einhliða flutningur á skuld gjaldþrota lögaðila yfir á annan lögaðila sé með öllu óheimill og með ólíkindum að stefndi skuli beita aðferðum af þessu tagi.

Þá byggir stefnandi kröfu sína á því að beiting þeirra þvingunarúrræða sem stefndi hafi beitt stefnanda sé brot á lögum nr. 57/2005, lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sérstaklega III. kafla laganna. Þá vísar stefnandi einnig til þess að háttsemi stefnda sé brot á samkeppnislögum nr. 44/2005. Ljóst sé að stefndi hafi einokunaraðstöðu varðandi sölu á heitu vatni og sé markaðsráðandi varðandi sölu á rafmagni. Þau þvingunarúrræði sem stefndi hafi beitt geti ekki samrýmst lögum nr. 44/2005. Nægi að vísa til 11. greinar laganna d-liðar 1. mgr.

Þá byggir stefnandi á því að háttsemi sú sem stefndi hafi viðhaft brjóti í bága við 75. grein stjórnarskrárinnar, varðandi atvinnufrelsi. Atvinnufrelsi megi ekki skerða eða takmarka nema með beinu eða ótvíræðu lagaboði. Þó að þvingun sú sem stefndi hafi beitt hafi beinst gegn lögaðila sé ljóst að þvingunin snerti alla þá, hátt í 100 starfsmenn, sem starfi hjá stefnanda, og varði því atvinnufrelsi starfsmanna félagsins sem og félagið sjálft. Verði háttsemi sú sem stefndi viðhafði liðin brjóti slíkt gegn atvinnufrelsi með því að hindra eðlilegan rekstur fyrirtækja á jafnréttisgrundvelli. Kröfur um dráttarvexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, 1. mgr. 6. greinar. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Vegna misskilnings sem virðist gæta í stefnu um uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins tekur stefndi í upphafi fram að samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 m.s.br. skiptist raforkukerfið í fernt; framleiðslu, sem sé samkeppnisstarfsemi, flutning, sem sé bundin sérleyfi og Landsnet hf. annast, dreifingu, sem einnig sé bundin sérleyfi og dreifiveitur annast, og sölu, sem sé samkeppnisstarfsemi. Orkuveita Reykjavíkur framleiðir, dreifir og selur raforku. Eins og áður segir er raforkudreifing sérleyfisstarfsemi, sbr. 13. gr. raforkulaga 65/2003, m.s.br., þar sem segir: „Leyfi ráðherra þarf til að reisa og reka dreifikerfi á tilteknu dreifiveitusvæði og til að hætta slíkum rekstri. Í leyfinu felst einkaréttur og skylda til dreifingar á viðkomandi svæði.“ Þar sem um einkarétt og -skyldu til dreifingar sé að ræða hefur Orkustofnun eftirlit með rekstri dreifiveitna og setur þeim m.a. tekjumörk, sem takmarka heimildir til innheimtu gjalda fyrir dreifinguna, sbr. 17. gr. raforkulaga. Rekstur dreifiveitna sé bókhaldslega aðskilinn samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins og dreifiveita raforku geri upp sérstaklega undir eftirliti Orkustofnunar. Vegna þessarar sérstöku aðstöðu séu einnig í raforkulögum veittar víðtækari heimildir til innheimtu en almennt gerist, sbr. ákvæði 43. gr., þar sem segir að gjöld fyrir raforku, flutning og dreifingu, sem innheimt séu samkvæmt lögunum, séu aðfararhæf án dóms eða sáttar skv. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Heimilt sé að stöðva afhendingu raforku ef ekki er staðið í skilum með greiðslu þessara gjalda.

Í reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur séu svo heimildirnar útfærðar nánar, sbr. ákvæði 18. gr., þar sem segir að heimilt sé að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil séu vegna orkunotkunar. Skilgreining á orðinu nákominn sé bundin við maka, foreldra og börn, en hvað varðar félög sé skilgreining sú sama og í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að krafa um greiðslu vangoldins kostnaðar vegna dreifingar og sölu raforku sé fullkomlega lögmæt og heimil samkvæmt reglugerð nr. 297/2006 og raforkulögum nr. 65/2003. Heimildir dreifiveitna raforku til að stöðva orkuafhendingu vegna vanskila séu ótvíræðar í 43. gr. raforkulaga, en þær heimildir væru lítils virði ef nægilegt væri að skrá annan aðila, jafnvel nátengdan, fyrir raforkunotkuninni og sleppa þannig við greiðslu. Því sé heimild 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 til að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hafi verið skráður þar og vanskil séu vegna orkunotkunar, fullkomlega eðlilegt framhald og útfærsla ákvæðis raforkulaga. Óumdeilt sé að stjórnarformaður stefnanda og prókúruhafi hafi verið stjórnarmaður í Tékklistanum ehf. og eiginkona hans sé varamaður í stjórn Egilsson ehf., sbr. hlutafélagaskrá. Þar sé því um nákomna aðila að ræða skv. 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 og ákvæði 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 uppfyllt.

Stefndi kveðst þegar hinn 13. júlí 2011 hafa upplýst stefnanda um heimild fyrirtækisins skv. 18. gr. reglugerðar nr. 297/2006 til að neita aðilum að skrá sig fyrir orkunotkun. Því mótmælir stefndi þeim málsástæðum stefnanda sem snúi að ófullnægjandi upplýsingagjöf af hálfu stefnda.

Stefndi byggir á því að það sé vegna eðlis raforku sem söluvöru, að veittar séu sérstakar laga- og reglugerðarheimildir vegna vanskila. Kostnaði við dreifingu raforku sé deilt á notendur á viðkomandi dreifiveitusvæði, sem sé það svæði sem viðkomandi dreifiveita hafi einkarétt og -skyldu til dreifingar á skv. raforkulögum. Verði vanskil veruleg leiði þau til hærri gjaldskrár og þar með kostnaðar annarra notenda á viðkomandi dreifiveitusvæði, þar sem tekjumörk dreifiveitu byggjast, skv. 17. gr. laga nr. 65/2003 m.a. á kostnaði dreifiveitu og gjaldskrá dreifiveitu skuli skv. 17. gr. a í sömu lögum, vera í samræmi við tekjumörk. Því sé ljóst að vanskil hækki kostnað annarra notenda sem standi undir rekstri viðkomandi dreifiveitu og sé sérstökum heimildum vegna vanskila ekki síst ætlað að lágmarka slíkar hækkanir, þar sem notendum sé ekki heimilt að leita til annarra um dreifingu raforkunnar.

Engu máli skipti af hvaða sölufyrirtæki raforkan sé keypt og hefði stefndi gert sömu kröfur til stefnanda þótt hann hefði allt frá ársbyrjun 2006 keypt raforku af öðru sölufyrirtæki en stefnda. Stefnandi komist hins vegar aldrei hjá því að greiða fyrir dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem sé starfandi á hans svæði, í þessu tilviki stefnda.

Stefndi mótmælir því að með heimild í reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur, sem eigi sér stoð í raforkulögum, sé verið að breyta þeim leikreglum sem lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti kveði á um. Þvert á móti sé með ákvæðinu heimiluð sérstök þvingunarúrræði til handa fyrirtæki sem hafi skyldu til að dreifa raforku á ákveðnu svæði og verði að geta brugðist við vanskilum til að koma í veg fyrir kostnaðarhækkanir annarra viðskiptavina á sama svæði. Sérstaklega sé vísað til laga um gjaldþrotaskipti varðandi það til hvaða aðila úrræðið nái, þ.e. tengdra aðila í skilningi gjaldþrotalaga. Almennt séu kröfuhafar í þeirri aðstöðu að geta valið að hefja eða hætta viðskiptum við þá aðila sem þeir kjósi. Dreifiveitur raforku hafi skyldu til að tengja alla sem það kjósa og uppfylla ákveðin skilyrði og veita þeim þjónustu á meðan viðskiptavinir standi í skilum. Á móti þeirri skyldu veiti löggjafinn og stjórnvöld sem handhafar reglugerðarsetningarvalds, þessum sömu fyrirtækjum rýmri heimildir vegna vanefnda en almennt gerist.

Stefndi mótmælir því sem fram komi í stefnu að stefndi „geti með engu móti byggt reglugerðarákvæði sitt á skilgreiningu gjaldþrotalaganna hvaða aðila stefndi telji sér þóknanlegt að neita um raforkusölu eða ekki“. Þetta sé fráleit fullyrðing, eins og að framan sé rakið. Vanefndaúrræði raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerðar nr. 297/2006 séu á engan hátt byggð á gjaldþrotalögum, þangað sé aðeins sótt viðmiðun um skilgreiningu á því hvað teljist tengdir aðilar. Það sé augljóst hversu mikið kostnaður skilvísra raforkunotenda myndi hækka ef einstaklingar og lögaðilar kæmust almennt upp með það að færa raforkunotkun heimila og fyrirtækja milli einstaklinga innan fjölskyldna eða stjórna fyrirtækja eða skipta um nafn og kennitölu fyrirtækis og komast með því hjá greiðslu gjalda fyrir notkunina.

Stefndi mótmælir órökstuddum fullyrðingum í stefnu varðandi það að lög- og reglugerðarbundin þvingunarúrræði, sem stefnda séu heimil, séu brot á lögum nr. 57/2005. Viðskiptahættir stefnda séu hvorki óréttmætir eða villandi. Hin umdeildu vanefndaúrræði séu þvert á móti til þess fallin að vernda heildarhagsmuni raforkunotenda á veitusvæði stefnda.

Stefndi mótmælir einnig vísun til þess að brotið sé gegn samkeppnislögum nr. 44/2005. Eins og áður hafi komið fram hafi stefnanda hvenær sem var frá 1. janúar 2006 verið heimilt að kaupa raforku frá öðrum raforkusölum en stefnda. Stefnanda hafi hvenær sem var verið frjálst að hætta kaupum á raforku af stefnda. Einkaleyfi stefnda til dreifingar fari hins vegar ekki eftir samkeppnislögum, heldur raforkulögum, eins og áður hafi komið fram.

Sérstaklega mótmælir stefndi vísunum í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og umfjöllun stefnanda um atvinnufrelsi. Atvinnufrelsi stefnanda feli ekki í sér rétt til að greiða ekki reikninga vegna kostnaðar við rekstur sameiginlegs dreifikerfis fyrir raforku og auka með því kostnað annarra notenda dreifikerfisins. Það sé alfarið á valdi stefnanda sjálfs að trygga nauðsynleg aðföng til rekstrar fyrirtækis síns, s.s. raforku með því að greiða gjaldfallna reikninga.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefndi telur skilyrði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til að krefjast dráttarvaxta, ekki uppfyllt. Upphafsdagur dráttarvaxta geti í fyrsta lagi verið mánuði eftir birtingu stefnu, skv. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi krefst þess að stefndi endurgreiði honum greiðslu er hann innti af hendi með fyrirvara hinn 3. október 2011. Um er að ræða innáborgun vegna orkunotkunar Tékklistans ehf., sem varð gjaldþrota í júní 2011. Ágreiningur málsins lýtur einungis að því hvort réttmætt sé að stefnandi greiði gjaldfallna skuld Tékklistans ehf. vegna orkunotkunar þess félags. Stefnandi telur að þar sem orkunotkunin tilheyrir rekstri Tékklistans ehf. beri stefnda, eins og öðrum kröfuhöfum, að lýsa kröfu sinni í þrotabúið.

Fyrir liggur í málinu að stefnandi er á sömu starfsstöð og Tékklistinn ehf. hafði fram að gjaldþroti þess félags. Þá liggur einnig fyrir að stefnandi tók yfir hluta rekstrar Tékklistans ehf. Þá er það einnig ágreiningslaust að annar eigandi stefnanda, Egill Þór Sigurðsson, var eini stjórnarmaður Tékklistans ehf. og prókúruhafi þess fyrirtækis. Ljóst er því að rekstur þessara tveggja fyrirtækja er mjög samofinn, en sömu starfsmenn, sama starfsstöð og sömu stjórnendur voru og eru í báðum fyrirtækjunum.

Frá og með 1. janúar 2006 hefur sala rafmagns verið á samkeppnismarkaði og orkukaupendum verið frjálst að beina raforkuviðskiptum sínum til hvaða orkusala sem er, sbr. lög nr. 149/2004 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003. Leggja verður til grundvallar að stefnandi hafi óskað eftir áframhaldandi orkukaupum hjá stefnda, enda hefur stefnandi haldið því fram að hann hafi á þessum tíma ekki vitað til þess að um aðra seljendur væri að ræða. Engin lagaskylda hvílir á stefnda að kynna stefnanda lögbundnar heimildir hans til að skipta um raforkusala áður en til aðgerða kemur vegna vanskila.

Samkvæmt 43. gr. raforkulaga nr. 65/2003 er gert ráð fyrir víðtækari heimildum til innheimtu skulda vegna orkunotkunar en almennt gerist. Samkvæmt nefndu ákvæði eru gjöld sem innheimt eru samkvæmt raforkulögum aðfararhæf án dóms eða sáttar skv. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Sérstaða gildir um innheimtu þessara gjalda enda er um sérstaka þjónustu að ræða. Reglugerð nr. 297/2006 um Orkuveitu Reykjavíkur er sett með stoð í 45. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um heimild stefnda til lokunar fyrir rafmagn vegna vanskila. Í 8. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið svo á að stefndi geti neitað aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna orkunotkunar. Skilgreining á orðinu nákominn er bundin við maka, foreldra og börn, en hvað varðar félög er skilgreining sú sama og er í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Eins og að framan greinir er skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Stefnandi er skráður til heimilis þar sem vanskil Tékklistans ehf. urðu og fallast verður á að um nákomna aðila sé að ræða þar sem sami aðili stendur að báðum félögunum.

Því er hafnað að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Einungis er vísað til III. kafla þeirra laga án þess að reifað sé í hverju ætlað brot stefnda sé fólgið. Sama er að segja um ætluð brot gegn samkeppnislögum nr. 44/2005. Vanreifað er á hvaða hátt stefndi á að hafa brotið gegn d-lið 1. mgr. 11. gr. þeirra laga. Þá er tilvísun til 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og umfjöllun stefnanda um atvinnufrelsi haldlaus miðað við ágreiningsefni málsins.

Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, er sýknuð af kröfum stefnanda, Egilssonar ehf. Stefnandi greiði stefnda 450.000 kr. í málskostnað.