Hæstiréttur íslands
Mál nr. 6/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Skuldskeyting
|
|
Föstudaginn 14. janúar 2005. |
|
Nr. 6/2005. |
Þrotabú Guðmundar Benjamínssonar(Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.) gegn Olíuverslun Íslands hf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skuldskeyting.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem krafa O var viðurkennd sem almenn krafa við skipti á þrotabúi GB.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2004, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 9.461.869 krónur var viðurkennd sem almenn krafa við skipti á þrotabúi Guðmundar Benjamínssonar. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og breytt á þann veg, að almennri kröfu varnaraðila í þrotabúið verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Guðmundar Benjamínssonar, greiði varnaraðila, Olíuverslun Íslands hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Rétt endurrit staðfestir.
Gjald kr. 300. Greitt:
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. desember 2004.
Mál þetta barst dóminum 28. maí 2004 og var tekið til úrskurðar 20. nóvember sama ár. Sóknaraðili er Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2 í Reykjavík, en varnaraðili er þrotabú Guðmundar Benjamínssonar, Skeifunni 11a í Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 9.461.869 krónur, sem lýst var í þrotabúið, verði viðurkennd sem almenn krafa við skiptin. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og honum gert að greiða þrotabúinu málskostnað.
I.
Bú Guðmundar Benjamínssonar, kt. 011252-2149, Árnatúni 2 í Stykkishólmi var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 24. júní 2003. Innköllun vegna skiptanna var gefin út og birt og var sex kröfum lýst í búið samtals að fjárhæð 30.413.526 krónur. Þar á meðal lýsti sóknaraðili kröfu í búið vegna vöruúttekta, en kröfuna sundurliðaði sóknaraðili þannig:
Höfuðstóll kr. 7.787.315
Dráttarvextir til 24/6 ´03 kr. 4.578.382
Banka og stimpilkostnaður kr. 520
Innheimtuþóknun kr. 353.126
Kröfulýsing kr. 4.500
Vextir af kostnaði kr. 2.019
Samtals kr. 12.725.862
Innborgun kr. (3.269.393)
Samtals kr. 9.456.469
Kröfulýsing kr. 5.400
Alls kr. 9.461.869
Í kröfuskrá skiptastjóra var kröfu sóknaraðila hafnað. Var þeirri afstöðu til kröfunnar mótmælt af sóknaraðila á skiptafundi 31. mars 2004 og lögð fram frekari gögn til stuðnings kröfunni. Með bréfi skiptastjóra 11. maí 2004 var sóknaraðila tilkynnt að haldið væri fast við fyrri afstöðu til kröfunnar. Því erindi svarði lögmaður sóknaraðila með símbréfi 17. sama dag þar sem andmæli sóknaraðila voru áréttuð. Sama dag hélt skiptastjóri skiptafund og tók þá ákvörðun að leita úrlausnar dómsins um ágreininginn á grundvelli 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Málinu var síðan beint til dómsins með bréfi skiptastjóra 26. maí 2004, sem barst 28. sama mánaðar, eins og áður er getið.
II.
Þrotamaður hefur um árabil rekið fyrirtæki á sviði vöruflutninga. Á árunum 1993-1995 var þrotamaður með reksturinn í eigin nafni, en árið 1995 stofnaði hann hlutafélagið Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar ehf. sem tók yfir reksturinn.
Áður en þrotamaður flutti reksturinn yfir á hlutafélagið hóf hann viðskipti við sóknaraðila og tók út vörur í reikning. Eftir að þrotamaður stofnaði hlutafélagið héldu viðskipti áfram, en málsaðilar deila um hvort vörur hafi verið teknar út í nafni þrotamanns eða hlutafélagsins.
Með kröfulýsingu sóknaraðila fylgdi viðskiptayfirlit fyrir tímabilið 1. júní 1999 til 31. október 2000, en þar er skuldari tilgreindur Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar auk þess sem fram kemur kennitala þrotamanns. Upphafsstaða á viðskiptayfirlitinu nemur 2.236.427, 60 krónum, en við lok tímabilsins nam skuldin 5.702.432 krónur að teknu tilliti til innborgana og vaxta. Samtals nemur úttekt á þessu tímabili 7.787.315 krónum sem svarar til höfuðstóls lýstrar kröfu.
Áður en bú þrotamanns var tekið til skipta eða 22. júní 2001 hafði gengið úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi Vöruflutninga Guðmundar Benjamínssonar ehf. Við skipti á því búi lýsti sóknaraðili kröfu sinni samtals að fjárhæð 8.164.364 krónur. Þar af nam höfuðstóll kröfunnar 7.599.231 krónur. Var krafan reist á sama viðskiptayfirliti og fylgdi kröfulýsingu þeirri sem beint var að vararaðila. Eins og áður getur nam niðurstaða þess 5.702.432 krónur miðað við síðustu færslu 31. október 2000. Til viðbótar var einnig lýst kröfu að höfuðstól 1.448.764 krónur samkvæmt viðskiptayfirliti Vöruflutninga Guðmundar Benediktssonar ehf. vegna vöruúttekta í febrúar og mars 2001. Krafa sóknaraðila var samþykkt sem almenn krafa í bú hlutafélagsins en ekkert fékkst greitt upp í kröfuna við skiptalok.
III.
Sóknaraðili vísar til þess að viðskiptayfirlit hans beri með sér að þrotamaður hafi persónulega tekið út vörur í reikningi hjá sóknaraðila, enda sé kennitala þrotamanns tilgreind á viðskiptayfirlitinu. Þessu til staðfestingar hefur sóknaraðili lagt fram fimm reikninga dagsetta 31. október 1993, 29. febrúar 1996, 31. október 1997, 31. janúar 1998 og 31. janúar 2000, sem allir séu gefnir út á hendur þrotamanni með tilgreiningu á kennitölu hans.
Sóknaraðili bendir á að þrotamaður hafi verið í föstum viðskiptum við sóknaraðila um árabil. Í samræmi við það hafi honum verið sendir reikningar og viðskiptayfirlit, en athugasemdum hafi hvorki verið hreyft af því tilefni né óskir komið fram um að viðskiptin yrðu færð yfir á aðra kennitölu.
Sóknaraðili telur engu breyta þótt hann hafi lýst kröfu í bú Vöruflutninga Guðmundar Benjamínssonar ehf., sem að hluta til byggist á sama grundvelli og krafa sú sem beint var að varnaraðila. Til að skuldskeyting verði þurfi að liggja fyrir skýr yfirlýsing um samþykki kröfuhafa. Sóknaraðili hafi aldrei gefið slíkt samþykki, enda þótt hann hafi samhliða beint kröfunni að þrotabú hlutafélagsins. Við munnlegan flutning málsins var því einnig hreyft af hálfu sóknaraðila að Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar ehf. hafi verið samskuldari kröfunnar með þrotamanni.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið heldur sóknaraðili því fram að kröfunni hafi ekki verið beint að röngum aðila og því verði henni ekki hafnað af þeim sökum.
IV.
Varnaraðili byggir á því að ekki sé um að ræða skuld þrotamanns heldur fyrirtækisins Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar ehf. Í samræmi við það hafi skuldari á reikningum og viðskiptayfirlitum sóknaraðila verið tilgreindur Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar. Fái engu breytt í þessu tilliti þótt kennitala þrotamanns komi einnig fram, enda hafi hann kvittað fyrir viðskiptin sem starfsmaður hlutafélagsins.
Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili hafi aldrei krafið þrotamann um greiðslu skuldarinnar eða lýst þeirri skoðun sinni að hann væri skuldari en ekki hlutafélagið. Bendir varnaraðila á að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun fyrir skuldinni og ætluðu samningssambandi við þrotamann.
Varnaraðili telur að allar athafnir sóknaraðila bendi til að hann hafi litið svo á að skuldari kröfunnar væri Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar ehf. Þannig hafi sóknaraðili lýst kröfu sinni í bú félagsins og hún verið samþykkt þar sem almenn krafa. Einnig bendir varnaraðili á að félaginu hafi verið sent innheimtubréf 5. júlí 2001 áður en búið var tekið til skipta. Þá andmælir varnaraðili því að félagið og þrotamaður hafi verið samskuldarar gagnvart sóknaraðila.
V.
Í málin liggur fyrir að þrotamaður tók út vörur í reikning hjá sóknaraðila allt til ársins 1995 þegar þrotamaður stofnaði hlutafélagið Vöruflutningar Guðmundar Benjamínssonar ehf. Eftir það héldu viðskiptin áfram en málsaðilar deila um hvort þrotamaður eða hlutafélagið hafi tekið út vörur hjá sóknaraðila. Um annað er ekki ágreiningur með aðilum. Þannig er fjárhæð kröfunnar óumdeild, auk þess sem því er ekki haldið fram að hluti skuldarinnar sé til kominn vegna vöruúttekta áður en hlutfélagið var stofnað.
Þrotamaður gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði munnlega tilkynnt umboðsmanni sóknaraðila frá því að vöruúttektir yrðu framvegis á vegum hlutafélagsins eftir að það var stofnað. Einnig sagði þrotamaður að innborganir inn á skuldina upp frá þessu hefðu verið greiddar með ávísunum frá hlutafélaginu og með skuldajöfnuðu vegna flutninga félagsins fyrir sóknaraðila. Þá kvaðst þrotamaður ekki hafa verið krafinn um greiðslu eftir að hlutafélagið tók við rekstrinum fyrr en með kröfulýsingu sóknaraðila í bú hans.
Í viðskiptayfirliti úr bókhaldi sóknaraðila er skuldari sagður „Vörufl. Guðmundar Benjamínssonar“ en auk þess er kennitala þrotamanns tilgreind sem númer viðskiptamanns. Þá hefur sóknaraðili lagt fram afrit af reikningum bæði fyrir og eftir að þrotamaður stofnaði hlutafélag um rekstur sinn þar sem skuldari er tilgreindur með sama hætti. Um viðskiptin nýtur ekki við frekari gagna, svo sem kvittana vegna innborgana eða annarra gagna sem bendi til að sóknaraðili hafi samþykkt að vörur yrðu teknar út í reikning hjá hlutafélagi sem þrotamaður hafði stofnað. Verður því ekki talið sannað að sóknaraðili hafi samþykkt með athöfnun sínum eða athafnaleysi að nýr skuldari tæki við viðskiptunum. Í þeim efnum nægir ekki það eitt að sóknaraðili sendi Vöruflutningum Guðmundar Benjamínssonar ehf. innheimtubréf og lýsti kröfunni í bú félagsins, sbr. til hliðsjónar Hrd. 1997/2307.
Samkvæmt þessu verður krafa sóknaraðila viðurkennd sem almenn krafa í búið. Það athugast að því hefur ekki verið hreyft af hálfu varnaraðila að kröfuliður að fjárhæð 5.400 krónur vegna kröfulýsingar sé eftirstæð krafa við skiptin.
Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Krafa sóknaraðila, Olíuverslunar Íslands hf., að fjárhæð 9.461.869 krónur er viðurkennd sem almenn krafa við skipti á þrotabúi Guðmundar Benjamínssonar.
Varnaraðili, þrotabú Guðmundar Benjamínssonar, greiði sóknaraðila 90.000 krónur í málskostnað.