Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Fjárslit
- Opinber skipti
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 475/2011.
|
M (Einar Hugi Bjarnason hdl.) gegn K (Valborg Snævarr hrl.) |
Kærumál. Hjón. Fjárslit. Opinber skipti.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kveðið var á um að opinber skipti til fjárslita milli hans og K skyldu fara fram. Aðilar gerðu með sér samning um slit á hjúskap 14. september 2010. Þar var m.a. ákvæði um kaup M á íbúð fyrir K innan tiltekins tíma sem K myndi velja en ella félli samningurinn niður. Ekki varð af þessum kaupum. Í héraðsdómi var fallist á að samningurinn væri úr gildi fallinn og uppfyllt væru skilyrði til opinberra skipta. Þótti orðalag 98. gr. laga nr. 20/1991 ekki standa í vegi fyrir því að fram færu opinber skipti til fjárslita milli aðila þrátt fyrir að þeim hefði þegar verið veittur skilnaður að borði og sæng. Ekki væri annað séð en nægar eignir væru í búinu til að standa straum af skiptakostnaði. Í Hæstarétti var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2011, þar sem kveðið var á um að opinber skipti til fjárslita milli aðila skyldu fara fram. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um opinber skipti og henni gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2011.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. janúar sl., krafðist sóknaraðili K, kt. [...], með lögheimili að [...], [...], en dvalarstað að [...], [...], þess að opinber skipti færu fram til fjárslita milli hennar og M.
Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili, M, kt. [...], [...], [...], krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila svo og að tillit verði tekið til skyldu varnaraðila til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannskostnaði.
Málavextir
Málsaðilar voru í hjúskap. Að sögn sóknaraðila tilkynnti varnaraðili henni, 21. ágúst 2010, að hann óskaði skilnaðar og hafi sóknaraðila brugðið verulega, enda hafi hún ekki átt von á slíkri kröfu. Hinn 24. ágúst hafi málsaðilar farið á fund prests en þá hafi verið ljóst að sættir yrðu ekki með málsaðilum og hafi hann því gefið út lögbundið sáttavottorð. Viku síðar, 31. ágúst, hafi málsaðilar farið, að frumkvæði varnaraðila, til Sýslumannsins í Reykjavík. Hafi sóknaraðili þá verið afar illa á sig komin enda hafi hún fengið mikið áfall vegna ákvörðunar varnaraðila og þess þrýstings sem hann hafi beitt hana fram að fyrirtökunni. Málinu hafi verið frestað til framlagningar fjárskiptasamnings en að sögn fulltrúa sýslumanns hafi málsaðilar lýst yfir eignaleysi, sem fulltrúinn lagði ekki trúnað á. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju 14. september. Þegar málsaðilar gengu inn til sýslumanns hafi varnaraðili fyrst sýnt sóknaraðila fjárskiptasamning, sem hann ætlaðist til að hún undirritaði. Vegna ítrekaðra hótana varnaraðila fram að fyrirtökunni og vegna gríðarlegs andlegs áfalls hafi sóknaraðili undirritað samninginn. Hafi hún ekki notið neinnar aðstoðar lögmanns í tengslum við skilnaðarmálið.
Sóknaraðili telur að krefjast megi ógildingar hjónaskilnaðarsamnings, sem verði til á þennan hátt og sé svo bersýnilega ósanngjarn sem þessi samningur sé, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga 31/1993. Hefði það verið gert ef ekki kæmi til ákvæði 7. gr. samningsins þar sem segi að maðurinn muni kaupa fasteign handa konunni innan tveggja mánaða frá dagsetningu samningsins en verði ekki af þeim kaupum falli hann niður og þurfi aðilar að semja um fjárslit að nýju. Maðurinn hafi ekki enn fest kaup á fasteign handa konunni og því hafi samningur þeirra fallið niður 14. nóvember 2010. Þar sem maðurinn hafi ekki fengist til að ganga til samninga um fjárslitin að nýju verði ekki hjá því komist að krefjast opinberra skipta.
Varnaraðili hafnar með öllu málavaxtalýsingu sóknaraðila og mótmælir henni í heild sinni. Hann mótmælir því harðlega að hjónaskilnaðarsamningur þeirra hafi verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað. Enn fremur sé rangt að varnaraðili hafi þrýst mjög á sóknaraðila að samþykkja skilnað og skilnaðarkjör. Þá sé einnig alrangt að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila miklu andlegu ofbeldi í kjölfarið, bæði fyrir og eftir skilnað að borði og sæng.
Að sögn varnaraðila gengu báðir málsaðilar af fúsum og frjálsum vilja til samningsgerðarinnar og hafi með samningnum verið færður í letur vilji þeirra til skiptingar eigna og skulda vegna skilnaðar þeirra að borði og sæng. Samningurinn hafi verið undirritaður í viðurvist fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík. Það sé rangt, ósannað og óskiljanlegt að því sé haldið fram, án nokkurs rökstuðnings, löngu eftir að samningurinn var undirritaður, að sóknaraðili hafi ekki verið í neinu ástandi til að átta sig á efni samningsins né þýðingu hans.
Varnaraðili mótmælir því enn fremur sem röngu að verulega halli á sóknaraðila fjárhagslega samkvæmt samningnum. Hið rétta sé að þær eignir sem varnaraðili hafi fengið í sinn hlut samkvæmt samningnum hafi undantekningarlaust verið yfirveðsettar. Hins vegar hafi varnaraðili átt, samkvæmt 7. gr. samningsins, að kaupa íbúð handa sóknaraðila að verðmæti 22.000.0000 til 23.000.000 kr. Þegar litið sé til þess sem í hans hlut eigi að koma sé nær sanni að varnaraðili hafi borið skarðan hlut frá borði. Fullyrðingum um hið gagnstæða er mótmælt sem röngum, rakalausum og ósönnuðum.
Varnaraðili kveðst frá upphafi hafa haft bæði vilja og getu til að efna sinn hluta samningsins en sóknaraðili hafi aftur á móti gert allt sem í hennar valdi hafi staðiði til að aftra því að varnaraðili gæti efnt samningsskuldbindingu sína, í þeim eina tilgangi að freista þess að fella hjónaskilnaðarsamninginn.
Stuttu eftir samningsgerðina hafi sóknaraðili fundið íbúð sem hún hafi verið hrifin af og vildi gera tilboð í. Varnaraðili hafi haft samband við fasteignasölu sem hafi haft milligöngu um að gert yrði tilboð í íbúðina að fjárhæð 22.500.000 kr. Sjá megi af A- og B-liðum kauptilboðsins, dags. 27. september 2010, að greiða hafi átt tæpar 7.500.000 kr. með peningum við undirritun kaupsamnings og eftirstöðvar kaupverðsins með yfirtöku á áhvílandi veðskuldum. Þessu tilboði hafi verið hafnað sökum þess að seljandinn hafi talið að á íbúðinni hvíldu hagstæð lán sem hann vildi taka með sér yfir á nýja fasteign sem hún hugðist kaupa.
Sama dag, 27. september 2010, hafi varnaraðili, vegna framangreindrar afstöðu seljanda, gert annað tilboð í umrædda íbúð að beiðni sóknaraðila. Eins og kauptilboðið sýni hafi átt að greiða kaupverðið annars vegar með reiðufé, 6.500.000 kr., við undirritun kaupsamnings, og hins vegar með láni frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 16.000.000 kr. Málsaðilar hafi þá sammælst um að sóknaraðili tæki lán fyrir þeirri fjárhæð hjá Íbúðalánasjóði en varnaraðili yrði greiðandi að láninu og gæfi út tryggingarbréf með veði í [...] til tryggingar á réttum efndum lánssamningsins. Seljandinn hafi samþykkt kauptilboðið, 28. september 2010, með þeim fyrirvara að tilboð hennar í aðra fasteign gengi eftir og skyldi staðfesting þar að lútandi liggja fyrir innan tíu daga frá samþykki kauptilboðs.
Eftir samþykki kauptilboðsins hafi sóknaraðili komið að máli við varnaraðila og lýst yfir því að hún væri ekki tilbúin að efna það samkomulag að hún tæki lán að fjárhæð 16.000.000 kr. þar sem hún teldi það of mikla áhættu. Varnaraðili hafi undrast breytta afstöðu sóknaraðila, ekki síst þar sem fyrir hafi legið samþykkt kauptilboð. Þessi breytta afstaða hafi leitt til þess að ekki hafi verið gengið frá kaupsamningi um íbúðina eins og til hafði staðið og kauptilboðið féll niður.
Varnaraðili hafi verið áfram um að reyna að leysa málið í góðu samkomulagi við sóknaraðila og úr hafi orðið að sóknaraðili færi í greiðslumat og tæki lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 6.000.000 kr. sem varnaraðili myndi síðan greiða af. Í samræmi við framangreint samkomulag hafi sóknaraðili undirgengist greiðslumat sem hún hafi staðist.
Í kjölfarið hafi varnaraðili aflað þeirra fjármuna sem upp á vantaði, samtals 16.500.000 kr. meðal annars með því að taka lán að fjárhæð 10.000.000 kr. með veði í einbýlishúsi málsaðila, eins og alltaf hafi staðið til að gera og 7. gr. hjónaskilnaðarsamningsins geri beinlínis ráð fyrir. Sóknaraðili hafi ritað undir veðleyfi þessu samfara til samþykkis veðsetningunni. Varnaraðili mótmælir því sem staðlausum stöfum að sóknaraðili hafi ekki verið í neinu ástandi til að hafna því að skrifa undir veðleyfið og að hann hafi þröngvað henni til að undirrita það.
Eftir að sóknaraðili hafi undirritað veðleyfi vegna skuldabréfsins hafi hún, af einhverjum ástæðum, skipt um skoðun og neitað að skrifa undir lánið hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 6.000.000 kr. eins og málsaðilar hafi þó samið um. Varnaraðili hafi þá fyrst skynjað að tilgangur sóknaraðila væri að gera allt sem í hennar valdi stæði til að fella hjónaskilnaðarsamninginn. Þrátt fyrir að afstaða sóknaraðila gengi þvert á það sem samkomulag hafði náðst um, hafi varnaraðili ákveðið að gera allt sem í hans valdi stæði til að efna samkomulagið. Hafi varnaraðili þegar í stað hafist handa við að útvega þá fjármuni sem út af stóðu, þ.e.a.s. 6.000.000 kr. Það hafi tekist og hafi varnaraðili haft fjármunina til reiðu seinni hluta október 2010. Hinn 22. október 2010, hafi varnaraðili ritað, fyrir hönd sóknaraðila, undir þriðja kauptilboðið í íbúðina. Samkvæmt kauptilboðinu skyldi greiða 15.000.000 kr. með reiðufé við undirritun kaupsamnings og 7.500.000 kr. með reiðufé við undirritun afsals 20. desember 2010.
Fasteignasali, sem hafi haft milligöngu um sölu íbúðarinnar, hafi sagt varnaraðila að hann myndi ekki bera síðastnefnt kauptilboð undir seljanda íbúðarinnar fyrr en endanlega lægi fyrir að sóknaraðili ætlaði sér að halda fast við tilboðið. Ástæða þessa hafi verið, að sögn fasteignasalans, að honum hafi verið orðið ljóst að ágreiningur væri með málsaðilum og hann vildi ekki bera þriðja kauptilboðið upp við seljandann snerist sóknaraðila hugur eins og reynslan sýndi að gæti gerst.
Að sögn fasteignasalans hafi hann haft samband við sóknaraðila eftir að varnaraðili hafi undirritað nefnt kauptilboð og óskað eftir því að hún kæmi sjálf á skrifstofu fasteignasölunnar og undirritaði kauptilboðið. Sóknaraðili hafi óskað eftir fresti til að íhuga málið en hafi svo haft samband við fasteignasalann að nýju í lok október 2010 og tjáð honum að hún myndi ekki undirrita kauptilboðið og hafi borið fyrir sig að hún treysti því ekki að varnaraðili stæði við að greiða lokagreiðsluna 20. desember 2010 eins og tilboðið gerði ráð fyrir. Sóknaraðili hafi enn fremur nefnt við fasteignasalann að varnaraðili yrði að staðgreiða íbúðina og myndi hún þá mæta á starfsstöð fasteignasalans og undirrita kauptilboð þar að lútandi.
Þegar þarna var komið hafi varnaraðili endanlega meðtekið að sóknaraðili hefði þann einlæga ásetning að fella hjónaskilnaðarsamning þeirra. Eftir nokkurra daga íhugun hafi varnaraðili ákveðið að fallast á að staðgreiða íbúðina, meðal annars til að forðast ágreining í líkingu við þann sem nú er kominn upp.
Varnaraðili hafi, 5. nóvember 2010, að nýju haft samband við fasteignasalann og óskað eftir því að hann hefði samband við sóknaraðila þannig að unnt yrði að ganga frá kauptilboði sem gerði ráð fyrir staðgreiðslu íbúðarinnar. Sóknaraðili hafi tjáð fasteignasalanum að hún vildi ekki mæta til fundar til að undirrita kauptilboðið. Fasteignasalinn hafi tilkynnt varnaraðila afstöðu sóknaraðila samdægurs og hafi varnaraðili beðið fasteignasalann að ganga frekar á eftir því að málið yrði klárað. Fasteignasalinn hafi haft samband við sóknaraðila að nýju 8. nóvember 2010 og enn á ný óskað eftir því að mætt yrði til fundar á fasteignasölunni í því skyni að ganga frá undirritun kauptilboðsins. Svar sóknaraðila hafi hins vegar verið það sama og áður, að hún ætlaði sér ekki að undirrita kauptilboðið, án þess að ástæður þess væru tíundaðar frekar.
Framangreind atburðarás sýni að varnaraðili hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að efna samninginn af sinni hálfu. Sóknaraðili hafi hins vegar beitt öllum brögðum til þess að fella samninginn.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila á 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991. Skilyrðum ákvæðisins sé að öllu leyti fullnægt þar sem ekki sé neinn fjárskiptasamningur í gildi á milli málsaðila og skiptum því ólokið. Af þeim sökum beri brýna nauðsyn til annaðhvort að koma á nýjum samningi eða fá úrskurð um opinber skipti. Fullreynt sé að aðilar muni ná samkomulagi um fjárskipti sín á milli og sá samningur sem hafi verið gerður sé bersýnilega ósanngjarn í garð sóknaraðila. Hann verði ekki endurnýjaður enda hafi verulega hallað á sóknaraðila við samningsgerðina.
Sóknaraðili vísar til þess að einstök ákvæði samningsins verði að skoða í ljósi aðdraganda þess að samningurinn var gerður. Samningurinn sé víða óskýr og verðmæti einstakra eigna ekki tilgreint í fjárhæðum. Sóknaraðili hafi ekki haft neina yfirsýn yfir verðmæti eigna búsins, enda hafi varnaraðili ávallt annast þau mál, og að auki hafi sóknaraðili ekki verið í neinu ástandi til að ganga til samninga vegna andlegs ástands síns á þeim tíma þegar samningurinn var gerður. Varnaraðli hafi þrýst mjög á hana að samþykkja skilnað og þau skilnaðarkjör sem hann ræddi einhliða yfir henni á þeim örfáu dögum sem liðu frá því varnaraðili tilkynnti sóknaraðila að hann hygðist skilja við hana þar til frá hvoru tveggja var gengið. Hafi sóknaraðili fyrst séð samninginn þegar hún mætti hjá Sýslumanninum í Reykjavík 14. september 2010 og hafi hún undirritað hann þar, án þess að gera sér grein fyrir því hvað í honum fólst í heild sinni. Hafi hún ekki gert sér neina grein fyrir því að samningurinn gerði ráð fyrir því að varnaraðili fengi, án verðmats, meginþorra eignanna og að verulega hallaði á hana við skiptin. Þá hafi hún ekki heldur gert sér neina grein fyrir verðmæti þeirra eigna sem samningurinn taki til.
Henni hafi þó verið ljóst að hún skyldi fá í sinn hlut íbúð að eigin vali að verðmæti 22-23.000.000 króna innan tveggja mánaða frá dagsetningu samningsins. Í 7. gr. samningsins segi: „Verði ekki af þeim kaupum fellur samningur niður og þurfa aðilar að semja um fjárslit að nýju.“ Í þessu ákvæði hafi verið helsta trygging sóknaraðila á þeim tíma er samningur var gerður og hafi þetta ákvæði orðið til þess að hún skrifaði undir samninginn. Hafi ákvæðið verið ákvörðunarástæða hennar og hafi varnaraðila verið það ljóst. Sóknaraðili hafi ekki talið sig vera að skrifa undir endanlegan samning heldur ætti eftir að koma í ljós hvernig færi með það.
Enn hafi ekki verið keypt nein eign og því teljist samningurinn fallinn niður samkvæmt berum orðum hans. Ekki skipti neinu hver ástæða þess sé enda sé ákvæði samningsins afar skýrt. Samkvæmt því hafi varnaraðili átt að kaupa eign að tilteknu verðmæti að vali sóknaraðila. Tækist þessi fyrirætlan ekki á þeim tíma sem gefinn var, skyldi samið um skilnaðarkjör á nýjan leik.
Sóknaraðili áréttar að til greina hefði komið að krefjast ógildingar á skilnaðarsamningnum á grundvelli 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga þar sem samningurinn hafi verið bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma sem hann var gerður. Hins vegar verði ekki séð að hægt sé að krefjast ógildingar á samningi sem sé þegar fallinn úr gildi, vegna sérákvæðis 7. gr. samningsins. Rétt aðferð, til þess að sanngjörn og eðlileg skilnaðarkjör fáist, sé því að krefjast opinberra skipta þannig að samið verði að nýju eða eftir atvikum að dómur gangi um einstök atriði varðandi skilnaðarkjörin.
Sóknaraðili byggir á því að samningurinn sé gildur og vísar til þeirrar meginreglu samningaréttarins að orð skuli standa. Telur sóknaraðili að jafnframt beri að líta til aðdraganda samningsgerðarinnar og stöðu hennar við samningsgerðina, við túlkun samningsákvæðisins, og að túlka beri ákvæðið henni í hag. Sóknaraðili hafi verið niðurbrotin andlega og tilfinningalega enda hafi hún fengið taugaáfall þegar varnaraðili tilkynnti henni fyrirvaralaust að hann hygðist skilja við hana. Hafi hann beitt hana miklu andlegu ofbeldi í kjölfarið bæði fyrir og eftir skilnaðinn. Hafi varnaraðili verið kominn með aðra konu og hafi sú kona flutt inn á sameiginlegt heimili aðila eftir að varnaraðili hafi vísað sóknaraðila á dyr. Sóknaraðili hafi verið heimilislaus síðan og búið inni á börnum sínum og eigi hún því mikla hagsmuni af því að fjárskiptin verði tekin upp að nýju og hún fái þær eignir sem hún eigi að lögum rétt til.
Við skoðun samningsins skipti máli efni hans og framsetning, þar sem allar talnalegar forsendur skorti og útilokað hafi verið fyrir sóknaraðila á þeirri stundu að átta sig á því að hún bæri verulega skarðan hlut frá borði. Eigi því að líta svo á að samningurinn sé fallinn niður með vísan til 7. gr. hans og að forsendur hans séu brostnar. Því þurfi að taka skiptin upp að nýju, samkvæmt berum orðum samningsins, og sé það nú gert með kröfu um opinber skipti til fjárslita aðila á milli. Skilyrðum 98. gr. skiptalaga nr. 20/1991 sé fullnægt með því að skilnaðar hafi verið krafist, og því beri að fallast á kröfu sóknaraðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að skilyrði 98. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. séu ekki uppfyllt þannig að óhjákvæmilegt sé að hafna kröfu sóknaraðila um opinber skipti. Í 1. mgr. ákvæðisins komi fram að hafi annað hjóna eða þau bæði sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng, en sammæli hafi ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi, geti annað þeirra eða bæði krafist þess að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra, enda séu ekki leiddar að því líkur að umsókn um leyfi til skilnaðar kunni að verða hafnað.
Í þessu máli hafi málsaðilar mætt til fundar hjá Sýslumanninum í Reykjavík 14. september 2010. Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók sýslumanns hafi málsaðilar, á þessum fundi, komist að samkomulagi um fjárskipti sín í milli, eins og samningur um slit á hjúskap, dags. 14. september 2010, beri með sér og undirritaður hafi verið í viðurvist fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík.
Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfu um opinber skipti, enda sé það skilyrði samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991 að sammæli hafi ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi. Samkvæmt framansögðu sé augljóst að þetta skilyrði lagaákvæðisins sé ekki fyrir hendi og því beri að hafna kröfunni, enda liggi fyrir í málinu gildur samningur um skilnaðarkjör milli málsaðila.
Varnaraðili hafi haft bæði vilja og getu til að kaupa fasteign handa sóknaraðila innan tveggja mánaða frá dagsetningu fjárskiptasamningsins í samræmi við 7. gr. hans. Staðreyndin sé hins vegar sú að sóknaraðili hafi gert allt sem í hennar valdi hafi staðið til að aftra því að varnaraðili gæti efnt samningsskuldbindingu sína, allt í þeim tilgangi að freista þess að fella fjárskiptasamninginn. Undir þeim kringumstæðum sé óhugsandi að líta svo á að samningur aðili hafi fallið niður 14. nóvember 2010.
Niðurstaðan sé því að málsaðilar hafi gert gildan fjárskiptasamning sem hafi ekki verið ógiltur með dómi. Af því leiði að ekki séu uppfyllt skýr skilyrði 98. gr. laga nr. 20/1991 og því beri að hafna kröfu um opinber skipti.
Skýrsla fyrir dómi
Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst ekki hafa séð þau þrjú kauptilboð sem varnaraðili hefði gert í íbúðina að [...] fyrr en seinna meir þegar hún hafi fengið þau send í tölvupósti frá lögmanni varnaraðila fyrir milligöngu lögmanns síns. Hún kvaðst hafa fengið augastað á íbúðinni og hafi hún ýtt á varnaraðila að reyna að kaupa hana.
Kvað hún fyrsta tilboðið hafa verið ógilt en annað tilboðið hafa fallið á tíma þar sem varnaraðili hefði ekki lagt fram nauðsynleg gögn frá endurskoðanda sínum. Vegna þess tilboðs kvaðst hún ekki hafa samþykkt þá tilhögun að hún tæki lán hjá Íbúðalánasjóði sem næmi 16 milljónum króna. Ekki hafi verið rætt um að hún færi í greiðslumat fyrr en vegna þriðja og síðasta tilboðsins. Þá hafi varnaraðili neytt hana til að fara í Íbúðalánasjóð. Þá loksins hafi varnaraðili komið með launaseðla hennar, en öll þeirra skjöl séu í húsinu sem áður var sameiginlegt heimili þeirra. Hún hafi farið í Íbúðalánasjóð og niðurstaðan hafi verið sú að hún gæti fengið átta milljón króna lán.
Sérstaklega að því spurð kvaðst hún ekki vita hvort hún hafi gert sér grein fyrir því að hún ætti að vera lántaki að láninu frá Íbúðalánasjóði en varnaraðili greiðandi gegn tryggingarbréfi sem hvíldi á einbýlishúsinu sem þau eigi saman.
Það hafi hins vegar rifjast upp fyrir henni að í 8. gr. samningsins standi að „Skuldir sem stofnað hefur verið til eftir samvistarslit greiðast af þeim sem til skuldarinnar hefur stofnað“. Ekki hafi komið til greina að hún færi að stofna til skuldar sem varnaraðili segðist ætla að borga. Honum væri ekki treystandi. Hann greiddi frekar dráttarvexti af þeim 50.000 króna lífeyri, sem hann ætti að greiða henni mánaðarlega, heldur en að greiða hann á réttum tíma. Hún ynni á leikskóla og sæi ekki fram á að geta greitt af láni, stæði varnaraðili ekki við sitt. Hafi hún því, að ráði lögmanns síns, ekki skrifað undir neitt lán.
Sóknaraðili kvaðst hafa legið veik heima, hjá dóttur sinni þar sem hún búi, með hita og lungnabólgu þegar varnaraðili hafi ruðst inn án þess að kveðja dyra. Hafi hún bugast undan fyrirganginum í honum og skrifað undir leyfi til að veðsetja sameiginlegt íbúðarhús þeirra vegna láns til íbúðarkaupanna.
Í samtali við fasteignasalann, eftir að varnaraðili hafi undirritað þriðja tilboðið, hafi hún sagt að hún gæti ekki fallist á þriðja tilboðið þar sem hún gæti ekki greitt af lánum sem þyrfti að taka til kaupanna.
Sóknaraðili kvaðst ekki kannast við að fasteignasalinn hafi í byrjun nóvember minnst á fjórða tilboðið við hana þar sem varnaraðili ætlaði að staðgreiða kaupverð íbúðarinnar. Varnaraðili hefði ekki heldur minnst á neitt slíkt tilboð við hana.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort fram skuli fara opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt því ákvæði getur annað hjóna eða þau bæði krafist þess að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra, hafi annað þeirra eða þau bæði sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng, en sammæli hafa ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi.
Meðal gagna málsins er svonefndur samningur um slit á hjúskap, undirritaður hjá fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík, 14. september 2010. Í samningnum eru meðal annars ákvæði um það hvaða eignir og skuldir hvor málsaðila skuli taka yfir við fjárslit milli þeirra. Af tveimur fasteignum, tveimur fyrirtækjum og þremur bifreiðum kemur ein bifreið í hlut sóknaraðila. Varnaraðili tekur að sér greiðslu allra skulda. Að auki er í samningnum ákvæði þess efnis að varnaraðili muni kaupa handa sóknaraðila íbúð að verðmæti 22-23 milljónir króna innan tveggja mánaða frá undirritun samningsins.
Samkvæmt samningi þessum varðandi uppgjör þá mun M kaupa íbúð handa K að verðmæti 22.000.000 til 23.000.000 kr. innan tveggja mánaða frá dagsetningu samnings þessa. Mun K velja þá íbúð. Verði ekki af þeim kaupum fellur samningur niður og þurfa aðilar þá að semja um fjárslit að nýju.
Séu áhvílandi skuldir á ofangreindri íbúð þá mun M gerast greiðandi af þeim skuldum gegn útgáfu tryggingarbréfs útgefið af M sem hvíla mun á fasteigninni að [...].
Þetta ákvæði verður ekki skilið á annan hátt en þann að sóknaraðili hafi átt að fá í sinn hlut íbúð án þess að sóknaraðili tæki jafnframt á sig einhverjar skuldbindingar vegna hennar.
Kauptilboðin eru þannig úr garði gerð að sóknaraðili er skráður kaupandi en varnaraðili undirritar þau fyrir hönd sóknaraðila eftir umboði. Það er því sóknaraðili sem er skuldbundinn til að greiða seljanda samkvæmt kauptilboðunum en ekki varnaraðili. Samkvæmt málavaxtalýsingu varnaraðila reyndi hann að fá sóknaraðila, oftar en einu sinni, til að aðstoða sig við að standa við fjárslitasamninginn með því að hún tæki lán hjá Íbúðalánasjóði. Sóknaraðila bar ekki nein skylda til að taka lán hjá Íbúðalánasjóði enda hefði skylda til greiðslu lánsins alltaf hvílt á henni sem lántaka jafnvel þótt til hafi staðið að varnaraðili greiddi af því. Sóknaraðila bar ekki heldur nein skylda til að fallast á kauptilboð sem gerði hana ábyrga fyrir greiðslu 1/3 hluta af kaupverði íbúðar við útgáfu afsals, stæði varnaraðili ekki við munnlegt loforð sitt í því efni.
Varnaraðili heldur því fram að hann hafi gert tilboð í íbúðina þar sem átti að greiða kaupverðið út í hönd. Þetta hefur hann ekki sannað og ekki hafa komið fram neinar skýringar á því, úr því varnaraðili taldi sig hafa þetta fjárhagslega svigrúm, af hverju hann gerði ekki tilboð þessa efnis í upphafi.
Varnaraðili hefur ekki sannað að hann hafi gert tilboð í íbúðina, sem ekki fól í sér neinar skuldbindingar fyrir sóknaraðila og þar með ekki heldur að sóknaraðili hafi hafnað slíku tilboði. Því verður ekki fallist á þá málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hafi komið í veg fyrir það að varnaraðili gæti, eigi síðar en 14. nóvember 2010, staðið við þann samning sem málsaðilar undirrituðu hjá sýslumanni 14. september það ár. Þar sem íbúð að vali sóknaraðila, sem ekki lagði neinar skuldbindingar á hana, var ekki keypt eigi síðar en 14. nóvember 2010 er fallist á það með sóknaraðila að samningur málsaðila sé fallinn úr gildi.
Þar fyrir utan kemur hvergi fram í margnefndum samningi málsaðila að það hafi þýðingu við mat á því hvort hann sé fallinn úr gildi hver sé ástæða þess að ekki hafi náðst að kaupa íbúð að vali sóknaraðila á tilskildum tíma.
Þar sem fallist er á það að samningur málsaðila undirritaður 14. september 2010 sé fallinn úr gildi er einnig fallist á það að uppfyllt séu skilyrði 98. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Orðalag ákvæðis 98. gr. þykir ekki standa í vegi fyrir því að fram fari opinber skipti til fjárslita milli málsaðila þrátt fyrir að þeim hafi þegar verið veittur skilnaður að borði og sæng, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/1983. Þar sem ekki verður annað séð en nægar eignir séu í búinu til að standa straum af skiptakostnaði, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991, verður fallist á kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur og er virðisaukaskattur þá meðtalinn.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Opinber skipti skulu fara fram til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 450. 000 krónur í málskostnað.