Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/1999
Lykilorð
- Banki
- Opinberir starfsmenn
- Vinnusamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2000. |
|
Nr. 371/1999. |
Landsbanki Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Eggerti Konráðssyni (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Bankar. Opinberir starfsmenn. Vinnusamningur. Uppsögn.
E hafði starfað sem húsvörður hjá bankanum LÍ í nær tuttugu ár, þegar honum var sagt upp fyrirvaralaust. Ástæður uppsagnarinnar voru tilgreindar þær að E hefði gefið upp rangar fjárhæðir varðandi launagreiðslur til starfsmanns sem vann við ræstingar hjá LÍ, en umrædd upplýsingagjöf var ekki talin í verkahring E. Talið var að um uppsögn E ætti að fara eftir sérreglum kjarasamninga, sbr. lög nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins. Hefði átt að segja E upp með sex mánaða fyrirvara og gefa honum kost á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn væri tekin, nema hann hefði brotið starfsreglur bankans í verulegu atriði. Talið var að röng upplýsingagjöf E yrði ekki rakin til ásetnings til að blekkja í lögskiptum, heldur hefði verið um mistök að ræða. Þóttu mistök hans ekki réttlæta fyrirvaralausa uppsögn úr starfi og var þá jafnframt litið til langs starfsaldurs E hjá LÍ og þess að hann hafði aldrei verið áminntur vegna starfa sinna. Þá var talið ósannað að gætt hefði verið andmælaréttar við uppsögn E. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að LÍ bæri að greiða E bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, en ekki var fallist á kröfu E um miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 20. september 1999. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málinu var gagnáfrýjað 9. nóvember 1999. Gagnáfrýjandi gerir eftirfarandi kröfur:
„A) Að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur
aðallega að fjárhæð kr. 19.913.400,- með 0,65% ársvöxtum frá 1.11.1995 til 1.10.1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.1.1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1.5.1997, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 16.5.1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags;
til vara að fjárhæð kr. 3.172.639,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 446.854,- frá 1.12.1995 til 1.1.1996, af kr. 678.548,- frá þeim degi til 1.2.1996, af kr. 910.242,- frá þeim degi til 1.3.1996, af kr. 1.489.477,- frá þeim degi til 1.4.1996, af kr. 1.721.171,- frá þeim degi til 1.5.1996, af kr. 1.952.865,- frá þeim degi til 1.6.1996, af kr. 2.245.863,- frá þeim degi til 1.7. 1996, af kr. 2.477.557,- frá þeim degi til 1.8.1996, af kr. 2.709.251,- frá þeim degi til 1.9.1996, af kr. 2.940.945,- frá þeim degi til 1.10.1996, en af kr. 3.172.639,- frá þeim degi til greiðsludags; og
til þrautavara að fjárhæð kr. 1.721.171.- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 446.854,- frá 1.12.1995 til 1.1.1996, af kr. 678.548,- frá þeim degi til 1.2.1996, af kr. 910.242,- frá þeim degi til 1.3.1996, af kr. 1.489.477,- frá þeim degi til 1.4.1996, en af kr. 1.721.171,- frá þeim degi til greiðsludags.
B) Að aðaláfrýjandi verði í öllum framangreindum tilvikum dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. með 0,65% ársvöxtum frá 1.11.1995 til 1.10.1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.1.1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1.5.1997, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 16.5.1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.“
Loks krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands tók Landsbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands 1. janúar 1998.
I.
Gagnáfrýjandi krefur aðaláfrýjanda um bætur vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi. Aðila greinir jafnframt á um hvort gagnáfrýjandi hafi notið réttarstöðu opinberra starfsmanna. Gagnáfrýjandi hafði starfað við húsvörslu hjá Landsbanka Íslands, aðalbanka, frá 2. mars 1976 og sem yfirhúsvörður frá 1. janúar 1986 þegar honum var sagt upp fyrirvaralaust 26. október 1995 með því að honum var afhent uppsagnarbréf sem dagsett var deginum áður. Ástæður uppsagnarinnar voru tilgreindar þær að gagnáfrýjandi hefði í nafni Landsbanka Íslands gefið Vátryggingafélagi Íslands hf. upp rangar fjárhæðir varðandi launagreiðslur til konu sem vann í bankanum við ræstingar. Var talið að það hefði ekki verið í verkahring gagnáfrýjanda heldur starfsmannahalds bankans að gefa upplýsingar um launakjör starfsmanna. Kona þessi hafði lent í umferðarslysi í september 1993 og hafði gagnáfrýjandi verkstjórn yfir henni. Hafði hann undirritað tvær yfirlýsingar, 14. desember 1993 og 12. janúar 1995, til tryggingarfélagsins um launakjör hennar í bankanum og vinnutekjutap. Yfirlýsingar þessar hafði starfsstúlkan lagt fyrir hann til undirskriftar.
II.
Í lögum nr. 10/1928 um Landsbanka Íslands sagði í 1. gr. að bankinn væri sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins undir sérstakri stjórn. Samkvæmt 45. gr. laganna skyldi framkvæmdastjórn bankans ráða alla þá starfsmenn sem bankaráðinu væri eigi sérstaklega falið að ráða og segja þeim upp. Starfsmenn bankans skyldu að jafnaði ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þegar lögin voru endurútgefin með lögum nr. 33/1957 sem lög nr. 63/1957 var efnislega samhljóða ákvæði í 41. grein þeirra. Í 13. gr. laga nr. 11/1961 um Landsbanka Íslands sagði að bankaráð réði tiltekna forstöðumenn en alla aðra starfsmenn réði bankastjórnin og segði þeim upp. Um laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans svo og eftirlaun færi eftir ákvörðun bankaráðs. Með heimild í 44. gr. reglugerðar nr. 30/1962 um bankann voru þessar ákvarðanir teknar í svonefndum reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna. Var þar meðal annars mælt fyrir um ýmis starfskjör bankamanna svo sem uppsagnarfrest. Efni þessara reglugerða og breytingar á þeim munu hafa orðið til í viðræðum bankanna og Sambands íslenskra bankamanna. Voru þessar reglugerðir gefnar út sameiginlega af öllum bankaráðum í landinu og gilti einu hvort þeir voru í eigu ríkisins eða ekki. Í þessum reglugerðum voru ákvæði um ráðningar og starfskjör bankamanna. Samningsréttur starfsmanna í þjónustu ríkisbankanna var fyrst formlega viðurkenndur með lögum nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins og lögðust þá þessar ákvarðanir af.
Engin breyting var gerð á lagaákvæðum um uppsagnarfrest bankastarfsmanna við gildistöku laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur voru þau óbreytt í lögum nr. 63/1957. Í athugasemdum með frumvarpi því sem samþykkt var og varð að lögum nr. 11/1961 kemur ekki fram að ætlunin hafi verið að breyta ráðningarkjörum starfsmanna Landsbankans. Er ekki annað fram komið en að þeir hafi alltaf verið ráðnir með uppsagnarfresti. Hefur sú framkvæmd verið óslitin að minnsta kosti frá samþykkt laga nr. 11/1961 að mæla fyrir um starfskjör fyrst í launaákvörðunum bankaráða og síðar í kjarasamningum sem höfðu ákvæði um uppsagnarfrest. Í 1. gr. laga nr. 38/1954 sagði að ákvæði í lögum sem öðruvísi mæltu fyrir um einstaka flokka starfsmanna skyldu haldast. Af þessu ákvæði laganna og óslitinni framkvæmd um starfskjör bankastarfsmanna þykir leiða að ákvæði laga nr. 38/1954 hafi gilt nema öðruvísi væri mælt fyrir um í lögum og ákvörðunum bankaráðanna settum með heimild í lögum. Verður og í þessu sambandi að líta til þess að ríkisbankarnir sinntu atvinnurekstri í samkeppni við aðrar bankastofnanir en voru ekki hefðbundnar stjórnsýslustofnanir og starfsmenn þeirra bjuggu við launakjör, sem um margt voru frábrugðin því er tíðkaðist um aðra ríkisstarfsmenn.
Starfsmenn Landsbanka Íslands hafa þannig verið ráðnir með uppsagnarfresti samkvæmt lögum eða reglum sem settar voru með heimild í lögum og um uppsögn þeirra og uppsagnarfrest giltu sérreglur. Verður að fallast á það með aðaláfrýjanda að um uppsögn gagnáfrýjanda fari að þessum sérreglum, sem nú eru í kjarasamningum, sbr. lög nr. 34/1977, en ekki liggur fyrir að skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við hann. Fram er komið að annar maður var ráðinn í starf gagnáfrýjanda og er ósannað að starf hans hafi verið lagt niður. Reynir því ekki á hvort ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 eigi við um gagnáfrýjanda.
III.
Um starf gagnáfrýjanda gilti kjarasamningur Sambands íslenskra bankamanna, sbr. 1. gr. laga nr. 34/1977. Átti samkvæmt þeim að ákveða laun og önnur starfskjör starfsmanna með kjarasamningum milli Sambands íslenskra bankamanna og sameiginlegrar nefndar sem bankaráð ríkisbankanna skipuðu. Samkvæmt grein 11.2.3 í gildandi kjarasamningi bar að segja áfrýjanda upp með sex mánaða fyrirvara. Þá átti samkvæmt grein 11.2.4 að gefa honum kost á að tala máli sínu áður en lokaákvörðun um uppsögn tæki gildi. Í grein 11.2.5 sagði að hefði starfsmaður brotið starfsreglur bankans í verulegu atriði, mætti víkja honum úr starfi fyrirvaralaust og félli launagreiðsla þá niður þegar í stað.
Því er lýst í héraðsdómi að gagnáfrýjandi sýndi af sér óvarkárni þegar hann staðfesti umbeðnar yfirlýsingar sem honum voru fengnar til undirritunar og gerði það einn í nafni bankans. Hins vegar er ekki annað fram komið en að hann hafi vísað starfsstúlkunni til starfsmannahalds bankans um frekari upplýsingar. Fallast ber því á það með héraðsdómi að ekki hafi verið um ásetning að ræða hjá honum til að blekkja í lögskiptum, heldur bendi allt til þess að honum hafi orðið á mistök, þegar hann undirritaði yfirlýsingarnar. Mistök hans, þótt alvarleg væru, þykja ekki hafa réttlætt fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Er þá jafnframt til þess litið hversu lengi gagnáfrýjandi hafði starfað í þjónustu bankans og að hann hafði aldrei verið áminntur vegna starfa sinna. Ósannað er einnig að gætt hafi verið samningsbundins andmælaréttar hans. Ber að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að honum beri bætur vegna ólögmætrar uppsagnar, svo sem hann hefur krafist.
Við bótaákvörðun ber að hafa hliðsjón af því að segja mátti gagnáfrýjanda upp með sex mánaða uppsagnarfresti, og líta verður til þeirra launakjara sem kröfugerð og gögn málsins gefa til kynna að hann hafi notið. Með þetta í huga teljast bætur hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur með vöxtum svo sem ákveðið er í dómsorði.
Gagnáfrýjandi hefur auk kröfu fyrir fjárhagstjón uppi kröfu til miskabóta. Byggir hann á því að brottvikningin, ástæðan sem gefin var fyrir henni og eftirfarandi sakamálarannsókn, hafi valdið honum ærumissi. Meint brot gagnáfrýjanda var rannsakað af rannsóknarlögreglu ríkisins í kjölfar kæru Vátryggingafélags Íslands hf. á hendur honum án þess að það leiddi til ákæru. Ber aðaláfrýjandi ekki ábyrgð á þeim málarekstri. Þykja viðbrögð bankans við brotum gagnáfrýjanda á starfsreglum bankans ekki réttlæta sérstakar miskabætur.
Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Landsbanki Íslands hf., greiði gagnáfrýjanda, Eggerti Konráðssyni, 2.000.000 krónur með 0,6% ársvöxtum frá 1. nóvember 1995 til 1. mars 1996, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október sama ár, með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní sama ár, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september sama ár, með 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1998, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama ár, með 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama ár og með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 16. maí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, og samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eggerti Konráðssyni, kt. 110434-4809, Hjallabrekku 24, Kópavogi, með stefnu birtri 19. júní 1998 á hendur hendur Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 19.913.400, með 0,65% ársvöxtum frá 01.11.1995 til 01.10.1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01.1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05. s.á., með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 16.05.1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda, að fjárhæð kr. 3.172.639 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 446.854 frá 01.12.1995 til 01.01.1996, af kr. 678.548 frá þeim degi til 01.02. s.á., af kr. 910.242 frá þeim degi til 01.03. s.á., af kr. 1.489.477 frá þeim degi til 01.04. s.á., af kr. 1.721.171 frá þeim degi til 01.05. s.á., af kr. 1.952.865 frá þeim degi til 01.06. s.á., af kr. 2.245.863 frá þeim degi til 01.07. s.á., af kr. 2.477.557 frá þeim degi til 01.08. s.á., af kr. 2.709.251 frá þeim degi til 01.09. s.á., af kr. 2.940.945 frá þeim degi til 01.10. s.á., en af kr. 3.172.639 frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 1.721.171, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 446.854 frá 01.12.1995 til 01.01.1996, af kr. 678.548 frá þeim degi til 01.02. s.á., af kr. 910.242 frá þeim degi til 01.03. s.á., af kr. 1.489.477 frá þeim degi til 01.04. s.á., en af kr. 1.721.171 frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilfellum krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 500.000, með 0,65% ársvöxtum frá 01.11.1995 til 01.10.1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01.1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05. s.á., með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 16.05.1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, og við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II.
Málavextir:
Stefnandi starfaði við húsvörzlu hjá Landsbanka Íslands, aðalbanka, frá 2. marz 1976 og sem yfirhúsvörður frá 1. janúar 1986. M.a. fólst í starfi hans verkstjórn við ræstingar í húsnæði aðalbankans. Hann gaf starfsmannasviði bankans upplýsingar í tilefni af ráðningu nýs fólks til ræstinga og hver væri vinnutími fólks, sem starfaði við ræstingar, þ.m.t. tímafjöldi vegna aukavinnu, en um starfsskyldur hans liggja ekki fyrir óumdeildar upplýsingar.
Í september 1993 lenti einn þeirra starfsmanna, sem stefnandi hafði verkstjórn yfir, Guðrún Bjarnþórsdóttir, í umferðarslysi. Bar Vátryggingafélag Íslands hf. bótaábyrgð á tjóni hennar. Fór Guðrún þess á leit við stefnanda, að hann gæfi út yfirlýsingar um tekjur hennar hjá stefnda, vegna bótakröfu á hendur tryggingafélaginu. Undirritaði stefnandi af því tilefni tvær yfirlýsingar til tryggingafélagsins um launakjör Guðrúnar hjá bankanum og vinnutekjutap. Eru yfirlýsingarnar dagsettar 14. desember 1993 og 12. janúar 1995.
Þann 26. október 1995 var stefnanda vikið fyrirvaralaust úr starfi og afhent uppsagnarbréf þar að lútandi, sem dagsett var þann 25. sama mánaðar. Ástæður brottvikningarinnar voru tilgreindar þær, að stefnandi hefði, f.h. Landsbanka Íslands, gefið Vátryggingafélagi Íslands upp rangar fjárhæðir varðandi launagreiðslur ræstingarkonu bankans. Það væri ekki í verkahring stefnanda að svara slíkum fyrirspurnum.
Stefnandi var 61 árs, þegar honum var vikið frá störfum. Hann tók laun samkvæmt launaflokki 143, auk þess sem hann fékk 17% álag vegna starfsaldurs.
Ágreiningur í máli þessu snýst um bótakröfu stefnanda vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi og hvort stefnandi hafi notið réttarstöðu opinberra starfsmanna skv. l. nr. 38/1954.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveður stjórnunarlega ábyrgð sína hafa verið umtalsverða, meðan hann starfaði í bankanum og vísar um starfsskyldur sínar m.a. til erindisbréfs dags. 3. janúar 1986, sbr. dskj. 4, og starfslýsingar, sbr. dskj. 5.
Stefnandi kveðst hafa talið sér rétt og skylt að verða við beiðni Guðrúnar Bjargþórsdóttur, og hafi hann gefið út umræddar yfirlýsingar til tryggingafélagsins með það í huga að greiða götu Guðrúnar í samskiptum hennar við félagið. Um tildrög þess, að yfirlýsingarnar voru gefnar og atvik því tengd, vísi stefnandi til skýrslu, sem lögregla tók af honum vegna málsins, sbr. dskj. nr. 6. Í greindum yfirlýsingum gefi að finna mat stefnanda á hugsanlegu tekjutapi hennar vegna slyssins, og beri yfirlýsingarnar það glögglega með sér, á hvaða forsendum matið byggist. Stefnandi tekur fram, að yfirlýsingar hans hafi fráleitt verið einu gögn félagsins, þegar greiddar voru bætur. Að minnsta kosti hafi stefnandi enga ástæðu haft til að ætla, að svo væri.
Stefnandi hafi ekkert frétt af bótamáli Guðrúnar, eftir að hann gaf yfirlýsingarnar, fyrr en hann var kallaður heim úr fríi þann 26. október 1995 og honum var vikið frá störfum án fyrirvara
Stefnandi kveður nýjan mann ekki hafa verið ráðinn í sinn stað eftir brottvikninguna.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að brottvikningin hafi verið ólögmæt. Hann hafi ekki brotið af sér í starfi. Hann hafi sýnt undirmanni sínum lágmarks kurteisi og hjálpsemi á erfiðum tímum. Með því hafi hann ekki farið út fyrir starfssvið sitt og engar starfsreglur brotið, sem honum hafi verið gert að fylgja. Hann hafi aldrei áður verið áminntur eða ávíttur vegna áratugalangra starfa hjá Landsbanka Íslands. Hann hafi aldrei orðið var við annað en mikla og ríka ánægju með störf sín hjá bankanum. Áður en til brottvikningarinnar kom, hafi hvorki honum né fulltrúa starfsmanna verið gefinn kostur á að tjá sig. Brottvikningin beri það með sér að byggjast á þeim misskilningi, að stefnandi hafi, á sviksamlegan hátt, veitt Vátryggingafélagi Íslands hf. rangar upplýsingar um tekjur Guðrúnar fyrir slysdag. Slíku hafi ekki verið fyrir að fara. Þennan misskilning hefði stefnanda átt að reynast auðvelt að leiðrétta. Í stað þess að gefa stefnanda kost á því, hafi honum verið vikið frá störfum fyrirvaralaust og málið kært til lögreglu. Stefnandi hafi því að ástæðulausu þurft að sæta sakamálarannsókn, sem að sjálfsögðu hafi svo verið felld niður, eftir að stefnandi hafði skýrt sjónarmið sín.
Stefnandi hafi ítrekað krafizt bóta fyrir það fjártjón og þann miska, sem hann hafi beðið vegna hinnar ólögmætu frávikningar. Landsbanki Íslands, og nú stefndi, hafi ekki viljað koma til móts við stefnanda. Sé stefnandi því knúinn til að höfða mál þetta. Málinu sé beint gegn stefnda, þar sem hann hafi yfirtekið allar skyldur og öll réttindi Landsbanka Íslands, sbr. lög nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar svo:
Aðalkrafa:
|
Verðmæti launagreiðslna til 70 ára aldurs |
Kr. 18.438.300 |
|
Töpuð lífeyrisréttindi |
kr. 1.475.100 |
|
Samtals |
kr. 19.913.400 |
Stefnandi kveður aðalkröfuna vera byggða á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 14. apríl 1998. Útreikningurinn liggur fyrir á dskj. nr. 21. Er þar reiknað með launamissi stefnanda frá 1. nóvember 1995 til 70 ára aldurs hans í apríl 2004. Er miðað við, að grunnlaun hans hafi verið kr. 128.230 og fastar aukagreiðslur kr. 75.136 á mánuði. Þá er reiknað með því, að stefnandi hafi, sem bankastarfsmaður, átt rétt til greiðslu grunnlauna fyrir þrettánda mánuðinn þann 1. desember ár hvert. Auk þess er reiknað með orlofsframlagi og orlofsuppbót þann 1. júní ár hvert, kr. 61.304, tveggja mánaða fastra launa á 20 ára starfsafmæli þann 2. marz 1996 og 2 1/2 mánaða aukalauna á 25 ára starfsafmæli þann 2. marz 2001. Enn fremur er reiknað með 8% mótframlagi stefnda í lífeyrissjóð.
Við útreikning höfuðstólsverðmætis eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir frá 1. nóvember 1995. Varðandi dánarlíkur er miðað við reynslu áranna 1976-1980.
1. Ráðningarkjör stefnanda hafi falið í sér, að óheimilt hafi verið að segja honum upp starfi, þ.e. að hann hafi notið svokallaðrar æviráðningar og réttar að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessa hafi ekki verið gætt við brottvikninguna.
2.Ráðningarkjör stefnanda hafi falið í sér, að óheimilt hafi verið að segja honum upp starfi nema á málefnalegum grundvelli, að gættu meðalhófi og andmælarétti. Þessa hafi ekki heldur verið gætt við brottvikninguna.
Í báðum tilfellum verði að miða við, að stefnandi hefði haldið starfi sínu til 70 ára aldurs. Sökum þess að hann var á brottvikningartíma kominn nokkuð á aldur hafi honum gengið mjög erfiðlega að fá starf við hæfi. Næstum 3 ár hafi verið liðin frá brottvikningunni, þegar málið var höfðað, og stefnanda hafi enn ekki lánazt að finna starf. Með hliðsjón m.a. af þessu verði að miða við, að stefnanda muni ekki auðnast að finna starf við hæfi, það sem eftir lifi starfsævi hans.
Varakrafa:
|
Laun fyrir 12. 1995 |
Kr. 223.427 |
|
Laun fyrir 1. 1996-10. 1996 |
kr. 2.316.940 |
|
1 1/2 mán. v/20 ára starfsafm. til gr. í marz 1996 |
kr. 347.541 |
|
13. mán. til gr. í desember 1995 |
kr. 223.427 |
|
Orlofstillag og orlofsuppbót skv. gr. 4.2.1 í kjarasamn. til greiðslu 1.6.1996 |
kr. 61.304 |
|
Samtals |
kr. 3.172.639 |
Fallist dómurinn ekki á þau sjónarmið, sem búi að baki aðalskaðabótakröfunni, sé sett fram varakrafa. Hún miðist við bætur fyrir launagreiðslur, sem stefnandi hefði fengið, ef hann hefði haldið áfram störfum næstu 12 mánuði eftir brottvikninguna. Hér sé verið að krefjast biðlauna samkvæmt reglum laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en fyrir liggi, að staða stefnanda hafi verið lögð niður, eftir að honum var vikið frá störfum. Miðist krafan við, að með þeirri tylliástæðu, sem gefin hafi verið fyrir uppsögninni, hafi vakað fyrir bankanum að komast hjá kostnaði samfara greiðslu biðlauna. Með öðrum orðum hafi verið beðið eftir smávægilegum misfellum, sem gætu réttlætt uppsögn, meðan fyrir bankanum vakti í reynd að leggja niður stöðu stefnanda.
Þrautavarakrafa:
Fallist dómurinn hvorki á aðal- né varakröfu um skaðabætur, sé sett fram þrautavarakrafa, sem miðist við launagreiðslur, sem stefnandi hefði fengið, ef hann hefði haldið áfram störfum næstu 6 mánuði eftir brottvikninguna. Sé hér miðað við gagnkvæman uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi starfsmanna bankamanna fyrir tímabilið 1. apríl 1995 til 31. desember 1996.
|
Laun fyrir 12. 1995 |
Kr. 223.427 |
|
Laun fyrir 1. 1996-4. 1996 |
kr. 9.26.776 |
|
1 1/2 mán. v/20 ára starfsafm. til gr. í marz 1996 |
kr. 347.541 |
|
13. mán. til gr. í desember 1995 |
kr. 223.427 |
|
Samtals |
kr. 1.721.171 |
Að því er varði starfskjör stefnanda á tíma brottvikningarinnar sé tekið fram, að grunnlaun hans hafi verið kr. 128.230, föst yfirvinna kr. 41.665, bifreiðastyrkur kr. 19.075, föst aukagreiðsla til að mæta skattskyldu bifreiðastyrks kr. 8.963, orlof kr. 8.944 og 8% tillag bankans í eftirlaunasjóð kr. 16.550. Þá hefði stefnandi átt rétt til greiðslu “þrettánda mánaðarins“, sem og greiðslu, sem jafngilti 1½ mánaðarlaunum við 20 ára starfsaldursafmæli sitt hjá Landsbanka Íslands í marz 1996.
Miskabætur:
Stefnandi krefji stefnda í öllum tilfellum um miskabætur að fjárhæð kr. 500.000, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sé sú krafa hófleg, enda hafi brottvikningin, brottvikningarástæðan og eftirfarandi sakamálarannsókn valdið stefnanda verulegum ærumissi.
Vaxtakrafa:
Í aðalkröfu um skaðabætur sé krafizt almennra sparisjóðsvaxta fyrst um sinn og dráttarvaxta mánuði frá kröfubréfi. Þótt hér sé verið að krefja greiðslna, sem falli í gjalddaga á umsömdum degi, sé þessi háttur hafður á, þar sem inni í tölunni felist enn fremur ógjaldfallnar greiðslur. Í vara- og þrautavarakröfu um skaðabætur sé krafizt dráttarvaxta frá umsömdum gjalddaga launa fyrir einstaka mánuði. Að því er varði vaxtakröfu af miskabótum sé miðað við reglur um skaðabætur utan samninga.
Málskostnaðarkrafa:
Þess sé krafizt að stefndi haldi stefnanda skaðlausum af málarekstrinum í samræmi við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Lagarök:
Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, almennra reglna stjórnsýsluréttar, laga nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna bankanna, almennra reglna vinnuréttar, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttarins, vaxtalaga nr. 25/1987 og XXI. kafla laga um nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Af hálfu stefnda er því haldið fram, að stefnandi hafi, við upphaf starfa sinna hjá stefnda, af því tilefni undirritað umsókn um starf, sbr. dskj. nr. 27, sem síðan hafi verið árituð af starfsmannastjóra bankans. Einnig hafi stefnandi undirritað, hinn 2. marz 1976, skuldbindingu starfsmanna, sbr. dskj. nr. 28. Það sé hins vegar rangt hjá stefnanda, að hann hafi, við upphaf starfs síns hjá Landsbanka Íslands, gert ráðningarsamning eða undirrituð hafi verið önnur gögn af hálfu aðila en umsókn stefnanda um starfið og skuldbinding um trúnað, eins og lýst sé að framan.
Vegna tilvísunar stefnanda til erindisbréfs á dskj. nr. 4 og starfslýsingar á dskj. nr. 5 sé tekið fram, að það sé rétt, að hinn 3. janúar 1986 hafi húsverði í Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands verið sett það erindisbréf, sem fram komi á dskj. nr. 4, en tilurð dskj. nr. 5 eigi sér nokkra sögu. Í byrjun árs 1991 hafi verið gerð úttekt á húsvörzlu aðalstöðva bankans, en eins og segir í upphafi dskj. nr. 29, hafi hún beinzt að helstu verkefnum húsvarða, vinnugæðum, starfsanda o. fl. Í framhaldi af þessu hafi starfsmannasvið Landsbanka Íslands unnið drög að starfslýsingu húsvarða í bankanum. Hafi þær verið sendar á alla staði, þar sem húsverðir voru starfandi, og hafi hlutaðeigandi yfirmenn átt að fara yfir þær með viðkomandi húsverði. Í tilviki stefnanda hafi farið svo, að hann hafnaði tveimur fyrstu drögunum, sem lögð voru fyrir hann, en í framhaldi af því hafi verið efnt til tveggja funda til að freista þess að ná samkomulagi um starfslýsingu hans. Um mánaðamótin apríl/maí 1991 hafi verið talið, að samkomulag lægi fyrir, og hafi starfslýsing verið útbúin í samræmi við það og dagsett 2. maí 1991, sbr. dskj. nr. 5. Hafi stefnandi átt að undirrita starfslýsinguna hjá afgreiðslustjóra aðalbanka, en reyndin hafi orðið sú, að hann hafnaði þessum texta frá 2. maí 1991. Síðari tilraunir til að koma saman starfslýsingu, þannig að samkomulag næðist við stefnanda, hafi ekki borið árangur.
Í stefnu segi, að “frá fyrstu tíð” hafi verið “ljóst að um starfskjör” stefnanda “skyldu gilda lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.” Stefndi mótmæli þessu og þá sérstaklega, að í hinum meinta ráðningarsamningi hafi berum orðum verið tekið fram, að umrædd lög skyldu gilda um starfskjör stefnanda. Lagalegt umhverfi ráðningar-, launa- og starfskjara starfsmanna Landsbanka Íslands hafi mjög lengi verið annað en stefnandi haldi fram. Sé óhjákvæmilegt að gera hér nokkra grein fyrir lagalegri þróun þeirra mála og framkvæmd innan Landsbanka Íslands.
Í lögum nr. 10/1928 um Landsbanka Íslands hafi í 1. gr. sagt, að bankinn væri sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, undir sérstakri stjórn, svo sem nánar væri ákveðið í V. kafla laganna. Meðal ákvæða V. kafla hafi verið 45. gr., en þar hafi sagt, að framkvæmdastjórn bankans réði alla þá starfsmenn bankans, sem bankaráðinu væri eigi falið sérstaklega að ráða, samkvæmt 43. gr., og segði þeim upp. Síðan hafi sagt: “Starfsmenn bankans skulu að jafnaði ráðnir með 3 mánaða uppsagnarfresti.” Samhljóða ákvæði hafi verið í 41. gr. laga nr. 63/1957 og í 13. gr. laga nr. 11/1961 um Landsbanka Íslands hafi sagt, að bankaráð réði tiltekna forstöðumenn, en: “Alla aðra starfsmenn ræður bankastjórnin og segir þeim upp . .. . Um laun bankastjóra og annarra starfsmanna bankans, svo og eftirlaun, fer eftir ákvörðun bankaráðs.” Hafi þessar ákvarðanir verið teknar í svonefndum reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna, en efni þeirra og breytingar hafi síðar orðið til í viðræðum bankanna og Sambands íslenskra bankamanna, þó svo að sjálfstæður samningsréttur starfsmanna banka í eigu ríkisins kæmi ekki til fyrr en með lögum nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.
Stefndi bendi á, að engin breyting hafi orðið á lagareglum um ráðningar og starfskjör starfsmanna Landsbanka Íslands við tilkomu l. nr. 38/1954, og í reglugerðum um störf og launakjör starfsmanna bankanna, síðar samningum um þau kjör eða framkvæmd, hafi ekki verið vísað til eða byggt á lögum nr. 38/1954. Það sé því afstaða stefnda, að starfsmenn Landsbanka Íslands hafi, að því marki sem þeir teldust hafa verið ráðnir “í þjónustu ríkisins með föstum launum”, fallið undir það sérákvæði 1. gr. laga nr. 38/1954, að ákvæði í lögum, sem öðruvísi mæltu fyrir um einstaka flokka starfsmanna, skyldu haldast. Rétt sé að vekja athygli á því, að lög nr. 60/1945 um laun starfsmanna ríkisins, sem felld voru úr gildi með lögum nr. 38/1954, sbr. 37, gr., hafi ekki tekið til starfsmanna Landsbanka Íslands. Lög nr. 92/1955 um laun starfsmanna ríkisins hafi heldur ekki tekið til starfsmanna Landsbanka Íslands. Þá sé tekið fram, að lög um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana nr. 97/1974 hafi aldrei verið beitt um starfsmenn Landsbanka Íslands.
Stefndi bendi á, að allt frá árinu 1928 hafi verið í gildi sjálfstæðar reglur lögum samkvæmt um þriggja mánaða uppsagnarrétt gagnavart starfsmönnum Landsbanka Íslands, og þessar reglur hafi gilt áfram, þrátt fyrir tilkomu ákvæða laga nr. 38/1954 um svonefnda æviráðningu og biðlaun í því tilviki að staða starfsmanns væri lögð niður.
Í reglugerð um störf og launakjör starfsmanna bankanna frá júlí 1974, sem hafi verið í gildi við upphaflega ráðningu stefnanda til Landsbanka Íslands í marz 1976, hafi í 8. gr. verið sérstök ákvæði um uppsagnarfrest starfsmanna, sbr. dskj. nr. 30. Þessi reglugerð hafi verið leyst af hólmi með reglugerð frá júlí 1976, sbr. 5. gr. dskj. nr. 31, en hin nýja reglugerð hafi verið sett á grundvelli samkomulags, sem náðst hafi um störf og launakjör starfsmanna bankanna 18. júní 1976, sbr dskj. nr. 32, en því samkomulagi hafi m.a. fylgt bókun um svonefnt réttarstöðumál, en meginefni hennar hafi verið, að bankarnir lofuðu að beita sér fyrir því, að tekin yrði í lög heimild til þess, að laun og önnur kjör starfsmanna ríkisbankanna yrðu ákveðin í kjarasamningum milli bankanna og heildarsamtaka bankamanna. Það hafi gengið eftir með setningu laga nr. 34/1977. Fyrsti kjarasamningurinn á grundvelli laganna hafi verið gerður 1. nóvember 1977, og í ákvæðum gr. 11.2 hafi verið ákvæði um uppsagnarfrest, sbr. dskj. nr. 33, og séu þau nánast samhljóða reglum þess kjarasamning aðila um þessi mál, sem í gildi hafi verið við uppsögn stefnanda, sbr. dskj. nr. 18.
Eins og fram komi á dskj. nr. 11, hafi stefnanda verið sagt upp störfum hjá Landsbanka Íslands samkvæmt heimild í grein 11.2.5 í þágildandi kjarasamningi bankamanna. Tilefni uppsagnarinnar hafi verið, að bankanum höfðu borizt bréflegar staðfestingar á því, að stefnandi hefði, í nafni bankans, gefið rangar upplýsingar til Vátryggingafélags Íslands hf. um launakjör ræstingarkonu, sem starfaði hjá bankanum. Hafi verið tekið fram, að það væri ekki í hans verkahring að svara slíkum fyrirspurnum af hálfu bankans. Stjórnendur bankans hafi talið, að stefnandi hefði brotið starfsreglur bankans í svo verulegu atriði, að heimilt væri og rétt að víkja honum úr starfi fyrirvaralaust og fella niður launagreiðslur frá næstu mánaðamótum að telja.
Stefnandi hafi starfað sem húsvörður í aðalbanka Landsbanka Íslands, og sem slíkur hafi hann haft með höndum verkstjórn við ræstingar í húsnæði aðalbankans. Sem húsvörður hafi hann gefið starfsmannasviði bankans upplýsingar í tilefni af ráðningu nýs fólks til ræstinga og hver væri vinnutími fólks, sem starfaði við ræstingar, þ.m.t. tímafjöldi vegna aukavinnu. Laun ræstingafólks ráðist af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags, og starfsmannasvið bankans hafi alfarið séð um útreikninga og útborgun allra launa ræstingafólks. Sú starfsregla hafi gilt hjá Landsbanka Íslands, eftir að komið var á fót sérstöku starfsmannahaldi, síðar starfsmannasviði, að starfsmannastjóri bankans og starfsfólk á starfsmannasviði hafi eitt heimild til að veita upplýsingar um launagreiðslur til starfsmanna bankans, ef slíkt sé þá á annað borð heimilt. Þetta hafi stefnandi vitað mæta vel, eins og yfirlýsing Guðrúnar Bjarnþórsdóttur á dskj. nr. 16 beri með sér. Hann hafi bent henni á að snúa sér til starfsmannasviðs bankans til að fá upplýsingar um laun hennar eitt ár aftur í tímann fyrir slysið. Þrátt fyrir þetta hafi hann engu að síður talið sig síðar geta vottað um árslaun Guðrúnar, sbr. dskj. nr. 7.
Eins og stefnandi lýsi í lögregluskýrslu á dskj. nr. 7, hafi yfirlýsingar þær, sem hann gaf á dskj. nr. 6 og 7 ekki verið samdar af honum, þrátt fyrir að um væri að ræða bréf, stíluð á Vátryggingafélag Íslands hf., og með þeirri vélrituðu undirritun, að þau væru f.h. Landsbanka Íslands, aðalbanka. Eins og sjá megi t.d. á dskj. nr. 4, 11, 12, 14 og 15, eða öllum bréfum, sem lögð séu fram í málinu og ætluð séu til sendingar frá Landsbanka Íslands, séu þau jafnan undirrituð af tveimur starfsmönnum bankans. Það sé löng og venjuhelguð regla fyrir því innan Landsbanka Íslands, að tveir starfsmenn bankans þurfi sameiginlega að skrifa undir bréf og annað, sem bankinn sendi frá sér. Þó að stefnandi hafi starfað sem húsvörður hjá Landsbanka Íslands og viðfangsefni hans hafi verið umsjón með húsnæði aðalbankans, hafi hann enga heimild haft, hvorki til að staðfesta í nafni bankans upplýsingar um launagreiðslur til einstakra starfsmanna né rita almennt undir yfirlýsingar f.h. Landsbanka Íslands, aðalbanka.
Stjórnendur Landsbanka Íslands hafi talið það mjög alvarlegt brot á starfsreglum bankans af hálfu stefnanda að gefa út yfirlýsingar á dskj. nr. 6 og 7 og sem jafnframt hafi að efni til ekki verið réttar, og yfirlýsingunum hafi verið beint til tryggingafélags vegna bótakrafna starfsmanns bankans. Stefndi sé banka- og fjármálafyrirtæki og því skipti það hann miklu að varðveita trúverðugleika fyrirtækisins og því, að menn geti treyst upplýsingum, sem frá því berist. Í þessu efni sé einnig mikilvægt, að tekið sé á brotum starfsmanna að þessu leyti af festu til að hindra, að slík brot endurtaki sig.
Þegar efni yfirlýsinga þeirra, sem stefnandi gaf á dskj. nr. 6 og 7, sé borið saman við upplýsingar um launagreiðslur bankans til Guðrúnar á tímabilinu september 1992 til september 1993, sbr. dskj. nr. 34, sjáist, að talan kr. 80.000 vegna “fastra aukastykkja í ræstingu, sem borguð eru eftir mælingu og mæling vegna aukastykkja” eða “föst yfirvinna” upp á kr. 5.451, passi ekki við launagreiðslur til Guðrúnar og þar af leiðandi heldur ekki “heildarlaun kr. 134.830.-” Fullyrðingar stefnanda um vinnutekjutap Guðrúnar í október til desember 1993 og um “vinnutekjuskerðingu framvegis” hafi því ekki verið réttar og sama gildi um mánaðarlaun og árslaun samkvæmt yfirlýsingu stefnanda á dskj. nr. 7.
Þessar upplýsingar, sem gefnar voru af hálfu stefnanda, hafi orðið Vátryggingafélagi Íslands hf. tilefni til að kæra stefnanda til lögreglu, og það sé því rangt, sem lesa megi út úr stefnu, að Landsbanki Íslands hafi kært stefnanda.
Í stefnu segi, að ekki hafi verið ráðinn nýr maður í stað stefnanda. Þetta sé ekki rétt, því við starfslok stefnanda hafi Ágúst Haraldsson tekið við starfi yfirhúsvarðar.
Vegna orða í stefnu, að stefnandi hafi aldrei orðið var við annað en mikla og ríka ánægju með störf sín hjá bankanum, sé bent á, að eins og fram komi í greinargerð á dskj. nr. 29, hafði á árinu 1991 gætt óánægju með störf húsvarðar í aðalbanka, og áður hafi verið lýst tilraunum til að koma á nýrri starfslýsingu vegna starfs stefnanda, en þar hafi strandað á afstöðu stefnanda.
Sýknukrafa stefnda sé byggð á því, að hann hafi haft fulla heimild til að segja stefnanda upp störfum, og uppsögnin hafi verið réttilega framkvæmd. Tilefni hinnar fyrirvaralausu uppsagnar hafi verið verulegt og alvarlegt brot stefnanda á starfsreglum og starfsskyldum hans í þágu stefnda. Stefnandi hafi í heimildarleysi sent frá sér yfirlýsingar í nafni bankans, sem jafnframt hafi að efni til verið rangar, um launagreiðslur til starfsmanns bankans. Grein 11.2.5 í kjarasamningi bankamanna veiti heimild til fyrirvaralausrar uppsagnar í slíku tilviki, og ákvæði 11.2.4 um, að starfsmanni skuli veittur kostur á að tala sínu máli, áður en lokaákvörðun um uppsögn sé tekin, eigi ekki við, þegar um fyrirvaralausa brottvikningu sé að ræða, eins og sjá megi af því, að ef ákvæði 11.2.4 ætti við slíka uppsögn, væru lokaákvæði greinar 11.2.5 um, að gefa formanni starfsmannafélags kost á að fylgjast með málsmeðferð, óþörf í því ákvæði. Áminning hafi heldur ekki verið skilyrði fyrir því, að heimildinni til fyrirvaralausrar uppsagnar væri beitt.
Stefndi mótmæli því, að stefnandi hafi notið svokallaðrar æviráðningar og réttar að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 38/1954. Því hafi áður verið lýst, að bæði lög og kjarasamningar hafi kveðið skýrt á um, að starfsmenn Landsbanka Íslands væru ráðnir með uppsagnarfresti og heimild til fyrirvaralausrar brottvikningar við brot á starfsreglum bankans. Að því marki, sem stefnandi kunni að teljast hafa verið ráðinn “í þjónustu ríkisins með föstum launum”, sé á því byggt af hálfu stefnda, að í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 38/1954, hafi tilvist þeirra laga í engu breytt þeim sérstöku reglum, sem voru í lögum um starfsmenn Landsbanka Íslands, þ.m.t. um ráðningarkjör þeirra og uppsögn, eins og áður hafi verið lýst.
Sú ákvörðun stjórnenda Landsbanka Íslands að segja stefnanda upp fyrirvaralaust hafi verið byggð á því málefnalega mati, að brot stefnanda á starfsreglum bankans, og þar með starfs- og trúnaðarskyldum stefnanda gagnvart bankanum, væri svo verulegt og alvarlegt, að nauðsynlegt væri að neyta heimildar greinar 11.2.5 í kjarasamningi bankamanna til uppsagnar stefnanda. Vegna alvarleika brots stefnanda og þess, hversu mjög stjórnendur bankans hafi talið, að hinar heimildarlausu og röngu yfirlýsingar hefðu orðið til að skaða trúverðugleika starfsmanna bankans, hafi það verið niðurstaða þeirra, að ekki væru lengur skilyrði fyrir því, að stefnandi sinnti starfi sínu hjá bankanum. Hafi þar einnig komið til, að sem húsvörður hafði stefnandi mjög víðtækan aðgang að starfsstöðvum bankans og því brýnt, að fullur trúnaður ríkti milli hans og stjórnenda bankans, jafnt sem annarra starfsmanna hans.
Vegna aðalkröfu stefnanda ítreki stefndi mótmæli sín við því, að stefnandi hafi notið svokallaðrar æviráðningar, eða að miða megi við, að hann hefði haldið starfi sínu til 70 ára aldurs. Stefnandi hafi verið ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti í samræmi við lög og kjarasamninga, og þar hafi einnig verið heimild til fyrirvaralausrar uppsagnar í tilefni af brotum í starfi.
Stefndi mótmæli því, að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur honum á þeim grundvelli, sem varakrafa stefnanda byggi á. Stefndi ítreki, að ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi ekki gilt um ráðningu og starfslok stefnanda hjá stefnda. Tilkoma laga nr. 38/1954 hafi engu breytt um, að starfsmenn Landsbanka Íslands hafi áfram verið ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti, og reglur um biðlaunagreiðslur eigi því ekki við í þeirra tilviki. Ákvæði laga nr. 38/1954 um biðlaunagreiðslur verði að skoða í ljósi þess, að þau lög hafi kveðið á um, að starfslok þeirra starfsmanna, sem lögin tóku til, gætu aðeins orðið með ákveðnum hætti. Lögin hafi ekki heimilað uppsögn og hafi því veitt starfsmönnum hina svonefndu æviráðningu, og til að tryggja, að ekki væri hægt að fara í kringum þann rétt, hafi þessum starfsmönnum verið veittur biðlaunaréttur, enda tekið fram í skýringum með því ákvæði við setningu þess, að því væri ætlað að tryggja starfsmönnum laun, sem svöruðu ríflegum uppsagnarfresti. Stefndi ítreki, að lögum nr. 38/1954 hafi ekki verið fylgt um réttindi starfsmanna Landsbanka Íslands, heldur hafi þau ráðizt af hinum sérstöku lagareglum um starfsmenn bankans og kjarasamningum.
Verði það niðurstaða dómstóla, að ákvæði laga nr. 38/1954 hafi tekið til stefnanda, sé því haldið fram af hálfu stefnda, að starf það, sem stefnandi gegndi við uppsögnina, þ.e. starf yfirhúsvarðar, hafi ekki verið lagt niður í kjölfar uppsagnarinnar. Nýr maður hafi verið ráðinn í starf yfirhúsvarðar. Því sé harðlega mótmælt af hálfu stefnda, að uppsögn stefnanda hafi verið tylliástæða til “að komast hjá kostnaði samfara greiðslu biðlauna.”
Stefndi mótmæli því, að stefnandi hafi átt kröfu til sex mánaða uppsagnarfrests í tilefni af þeirri uppsögn, sem tilkynnt hafi verið stefnanda 26. október 1995. Sú uppsögn hafi verið byggð á sérstakri heimild í grein 11.2.5 í kjarasamningi bankamanna um fyrirvaralausa uppsögn vegna brots á starfsreglum bankans, og þar sé mælt fyrir um, að þá falli launagreiðsla niður þegar í stað.
Um starfskjör stefnanda taki stefndi fram, að greiðslu bifreiðastyrks sé ætlað að mæta útgjöldum við bifreiðanotkun í þágu vinnuveitanda og því geti ekki verið um slíka greiðslu að ræða, eftir að viðkomandi hafi látið af störfum. Sama gildi um sérstaka aukagreiðslu, að fjárhæð kr. 8.963, til að mæta skattskyldu bifreiðastyrks. Þá mótmæli stefnandi því, að orlof eigi að teljast með, komi til greiðslna á grundvelli kröfugerðar stefnanda. Sama gildi um tillag bankans til eftirlaunasjóðs. Slík tillaga greiðist aðeins, ef um launagreiðslur á tilteknum tíma sé að ræða og þá til eftirlaunasjóðs, en ekki starfsmanns. Stefndi byggi á því, að þær ástæður, sem liggi til grundvallar greiðslu á svonefndum “þrettánda mánuði”, þ.e. óregluleg vinna við frágang í dagslok og uppgjör án sérstakrar yfirvinnugreiðslu, eigi ekki við, eftir að viðkomandi hafi hætt störfum í bankanum. Stefndi mótmæli því sérstaklega, að stefnandi eigi, vegna starfsloka sinna hjá Landsbanka Íslands, rétt á því, sem nefnt sé í stefnu “1 og 1/2 mánaðarlaunum við 20 ára starfsaldursafmæli sitt hjá Landsbanka Íslands í marz 1996.” Forsenda slíkra greiðslna hafi í framkvæmd verið, að viðkomandi hafi verið í starfi hjá bankanum á þessum tímamótum. Með sama hætti sé því mótmælt, að inn í útreikning tryggingafræðings til grundvallar aðalkröfu stefnanda séu teknar slíkar afmælisgreiðslur, auk þess sem þar sé ranglega farið með tölur. Þá sé því mótmælt, að “föst mánaðarlaun” stefnanda séu rétt tilgreind í skjölum sóknaraðila, sbr. t.d. dskj. nr. 22, og “fastar aukagreiðslur” í mati tryggingafræðings á dskj. nr. 21.
Stefndi mótmæli sérstaklega miskbótakröfu stefnanda, bæði að því er varði lagagrundvöll og fjárhæð. Stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum, með fullri heimild í kjarasamningi, vegna brota stefnanda í starfi. Tilvitnuð “sakamálarannsókn” sé stefnda með öllu óviðkomandi.
Vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda sé mótmælt, sérstaklega upphafstíma þeirra. Fjárkröfur af hálfu stefnanda hafi fyrst verið settar fram í kröfubréfi lögmanns hans, dags. 16. apríl 1998, og stefnandi geti aldrei átt kröfu til dráttarvaxta, fyrr en mánuður sé liðinn frá dagsetningu þess.
Lagarök:
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi til þeirra lagaákvæða og réttarreglna, sem vísað hafi verið til hér að framan, auk almennra reglna um trúnaðarskyldur starfsmanns gagnvart vinnuveitanda sínum og afleiðingar brota á þeim.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Enn fremur gáfu skýrslu Arndís Sigurðardóttir, bankaritari, Karl Hallbjörnsson, svæðisstjóri útibús Landsbankans og Kristín Rafnar, starfsmannastjóri Landsbankans.
Enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda, þegar hann hóf störf í bankanum, og eru allar fullyrðingar um annað ósannaðar. Ber stefndi hallann af því, að sönnun skortir um þau ráðningarkjör, sem stefnandi skyldi njóta.
Ágreiningur er um það með aðilum, hvort stefnandi hafi notið réttarstöðu opinberra starfsmanna, sbr. l. nr. 38/1954, sem starfsmaður Landsbanka Íslands.
Fram til þess að framangreind lög tóku gildi voru engin heildarlög til hér á landi um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Með setningu laganna var því fengin mikilvæg réttarbót fyrir alla opinbera starfsmenn. Hins vegar skera lögin ekki úr um það á óyggjandi hátt, hverjir skuli teljast opinberir starfsmenn. Í 1. gr. laganna segir svo: "Lög þessi taka til hvers manns, sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins með föstum launum, meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf." Hvergi í lögum er tekið skýrt á því, hvort starfsmenn ríkisbankanna falli undir starfsmannalögin.
Einn af höfundum frumvarpsins til laga nr. 38/1954, Gunnar Thoroddsen, ritaði grein í Úlfljót, tímarit laganema, í október 1954, þar sem hann segir svo m.a.: "Lögin taka til starfsmanna í þjónustu ríkisins, hvort sem er á sviði framkvæmdavalds, dómstóla eða Alþingis; einnig til starfsmanna við stofnanir ríkisins, t.d. Póst og síma ., Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands." Af þessum orðum verður ráðið, að það hafi verið ætlan höfunda frumvarpsins, að starfsmenn ríkisbankanna skyldu falla undir lögin. Telja verður og, að eðlisrök mæli með því, að orðin "í þjónustu ríkisins" í 1. gr. starfsmannalaganna eigi ekki einungis við um þá, sem starfa og taka laun hjá hinum eiginlega ríkissjóði, heldur einnig þá, sem starfa hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum, þ.á.m. ríkisbönkunum, og hefði þurft að taka það skýrt fram í lögunum, hefði svo ekki átt að vera. Hæstiréttur hefur og komizt að þeirri niðurstöðu í nokkrum dómum sínum, að starfsmannalögin taki til starfsmanna ríkisbankanna, sbr. t.d. Hrd. 1974:660. Stefnandi telst því hafa verið ríkisstarfsmaður í skilningi l. nr. 38/1954.
Í 1. mgr. l. nr. 38/1954 segir, að ákvæði í lögum, sem öðruvísi mæli fyrir um einstaka flokka starfsmanna, skuli haldast.
Stefndi byggir á því, að allt frá því að l. nr. 10/1928 um Landsbanka Íslands voru sett, hafi verið í gildi sjálfstæðar reglur lögum samkvæmt um 3ja mánaða uppsagnarrétt gagnvart starfsmönnum Landsbanka Íslands, og hafi þær reglur gilt áfram, þrátt fyrir tilkomu ákvæða l. nr. 38/1954 um æviráðningu og biðlaun.
Þegar stefnandi réðst til starfa hjá stefnda voru í gildi l. nr. 11/1961 um Landsbanka Íslands. Í þeim lögum er ekki að finna nein ákvæði um uppsagnarfrest, en einungis segir þar í 13. gr., að alla aðra starfsmenn en þá, sem greindir eru í 1. málslið 1. mgr., ráði bankastjórnin og segi þeim upp starfi. Er því ekki fallizt á, að uppsagnarréttur stefnda hafi verið lögbundinn, þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda. Þá er ekki fallizt á, að ákvæði um uppsagnarfrest í kjarasamningum skerði lögbundin réttindi samkvæmt starfsmannalögunum.
Samkvæmt framansögðu telst stefnandi hafa notið svokallaðrar æviráðningar samkvæmt l. nr. 38/1954.
Í uppsagnarbréfi er stefnanda gefið að sök að hafa gefið upp launakjör ræstingarkonu við bankann, þar sem upphæðir eru ranglega tilgreindar og enn fremur að hafa farið út fyrir verkahring sinn, með því að svara slíkum fyrirspurnum. Uppsögnin var fyrirvaralaus, annars vegar tæpum tveimur árum eftir og hins vegar rúmum 9 mánuðum eftir að umdeildar yfirlýsingar stefnanda voru gefnar.
Þær starfslýsingar frá stefnda, sem lagðar hafa verið fram í málinu, gefa ekki óyggjandi til kynna, að stefnanda hafi mátt vera ljóst, að það væri utan hans verkahrings að veita upplýsingar um launakjör þeirra starfsmanna, sem hann hafði umsjón með, væri eftir því leitað, en fram hefur komið, að hann hélt utan um aukastörf þeirra, reiknaði út aukavinnu og sá um að koma upplýsingum vegna þeirra til starfsmannahalds.
Það kemur fram í gögnum málsins, að fjárhæðir þær, sem stefnandi staðfesti sem rétt laun starfsstúlkunnar, Guðrúnar Bjargþórsdóttur, voru rangar, og fór fram lögreglurannsókn vegna meintra tryggingasvika í kjölfar kæru Vátryggingafélags Íslands hf. Sú rannsókn leiddi ekki til ákæru.
Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram, að starfsstúlkan hefði komið með yfirlýsingarnar tilbúnar til undirskriftar til hans, og hefði hann talið þær upplýsingar réttar, sem þar komu fram, samkvæmt gögnum þeim, sem hann hafði með höndum, og því hefði hann undirritað þær. Kom fram, að ekki hefði vakað fyrir honum að aðstoða við neins konar svik gagnvart tryggingafélaginu, enda hefði hann vísað stúlkunni á að afla launaseðla hjá starfsmannahaldi, sem tryggingafélagið hafði óskað eftir. Tilgangur hans einn hefði verið sá, að aðstoða stúlkuna. Var framburður stefnanda trúverðugur. Þá liggur fyrir í málinu á dskj. nr. 16, yfirlýsing starfsstúlkunnar, þar sem hún staðfestir, að stefnandi hafi bent sér á að leita til starfsmannahaldsins, og enn fremur kemur þar fram, að auk þess að afla framantalinna gagna, hafi hún lagt skattframtöl sín 3 ár aftur í tímann fyrir tryggingafélagið. Yfirlýsingu þessari hefur ekki verið mótmælt, hvorki sem rangri né óstaðfestri, og verður því á henni byggt. Styður hún þær fullyrðingar, sem fram hafa komið, að ekki hafi vakað fyrir stefnanda annað en greiðasemi við stúlkuna, og að hann hafi verið í góðri trú, jafnframt því sem þessar upplýsingar benda ekki til þess, að stúlkan hafi haft í hyggju að blekkja tryggingafélagið með aðstoð stefnanda.
Í framburði Karls Hallbjörnssonar, svæðisstjóra útibús Landsbankans, þáverandi svæðisstjóra aðalbanka Landsbankans, kom fram, að lengi hefði verið óánægja með störf stefnanda í bankanum, án þess þó, að hann hefði fengið tiltal, og kvað svæðisstjórinn umdeilt atvik hafa verið dropann, sem fyllti mælinn. Svæðisstjórinn, sem undirritaði uppsagnarbréfið ásamt Ara F. Guðmundssyni, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs bankans, kvaðst ekki hafa haft vitneskju um meint brot stefnda, þegar hann undirritaði bréfið. Hann kvað Ara hafa hringt í sig þá um morguninn og boðað hann til sín og beðið hann jafnframt að kveðja stefnanda á fundinn. Af framburði svæðisstjórans þykir mega ráða, þegar jafnframt er litið til þess, hvernig staðið var að uppsögninni, að bankinn hafi þarna gripið tækifærið til að losa sig við, að sínu mati, óæskilegan starfsmann.
Stefnandi sýndi af sér óvarkárni, þegar hann staðfesti umbeðnar yfirlýsingar, með því að hann aflaði sér ekki óyggjandi upplýsinga um, að rétt væri farið með uppgefnar fjárhæðir. Hins vegar er ósannað, svo sem að framan er rakið, að um ásetning hafi verið að ræða í blekkingarskyni, heldur benda gögn málsins og sönnunarfærsla til þess, að honum hafi orðið á mistök, þegar hann undirritaði yfirlýsingarnar. Þau mistök þykja ekki réttlæta fyrirvaralausa uppsögn úr starfi svo löngu eftir hið meinta brot, þar sem lögbundinn andmælaréttur hans var auk þess ekki virtur. Ber þá jafnframt að líta til þess, að stefnandi hafði aldrei verið áminntur vegna starfa sinna. Er því fallizt á, að stefnda beri að bæta stefnanda tjón það, sem hann varð fyrir vegna uppsagnarinnar.
Bótakrafa stefnanda er annars vegar um skaðabætur og hins vegar um miskabætur. Verður fyrst fjallað um skaðabótakröfuna.
3. mgr. 11. gr. l. nr. 38/1954 mælir fyrir um, hvernig meta skuli bætur vegna óréttmæts stöðumissis. Ber samkvæmt greininni að hafa til hliðsjónar ástæður starfsmanns, svo sem aldur og atvinnumöguleika, sem og fram komnar málsbætur stöðuveitanda.
Stefnandi heldur því fram, að hann hafi ekki fundið atvinnu frá því að honum var sagt upp störfum, og hefur sú fullyrðing ekki verið vefengd af hálfu stefnda. Stefnandi var rúmlega 61 árs að aldri, þegar honum var sagt upp störfum. Fallast má á það með honum, að vegna aldurs hafi verið minnkandi líkur á því, að hann fengi starf við hæfi, og vegur sá þáttur þungt, þegar bætur til hans eru metnar. Enn fremur má telja líklegt, að hann myndi þurfa að sætta sig við verr launað starf en hann hafði hjá stefnda, en framlagðir launaseðlar bera með sér, að föst mánaðarlaun hans, þ.m.t. föst yfirvinna, fastur bifreiðastyrkur og föst greiðsla til að mæta skattgreiðslum vegna bifreiðastyrks, hafa verið um kr. 198.000 auk orlofs. Þá fékk hann enn fremur greitt fyrir sérstaka yfirvinnu. Á hinn bóginn ber einnig að líta til þess, að ætla verður, að stefnandi hafi átt þess kost að taka eftirlaun frá fyrri tíma en 70 ára aldri, og ber að líta til þess við ákvörðun bóta. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um hugsanlegar atvinnuleysisbætur stefnanda og verður að gera ráð fyrir því, að hann hafi átt rétt til slíkra bóta. Að öllu athuguðu ákveðast hæfilegar bætur til handa stefnanda kr. 5.000.000, sem bera vexti eins og greinir í dómsorði.
Miskabótakröfuna byggir stefnandi á því, að brottvikningin, ástæða hennar og eftirfarandi sakamálarannsókn hafi valdið honum verulegum ærumissi.
Meint brot stefnanda var rannsakað í kjölfar kæru vátryggingafélagsins á hendur honum. Ber stefndi enga ábyrgð á því. Þá er ekki fallizt á, að uppsögn stefnanda eða ástæður hennar hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ber því að hafna kröfum stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda.
Samkvæmt þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 650.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Landsbanki Íslands, greiði stefnanda, Eggerti Konráðssyni kr. 5.000.000 með 0,65% ársvöxtum frá 01.11.1995 til 01.10.1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01.1997, með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05. s.á., með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 16.05.1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Enn fremur greiði stefndi stefnanda kr. 650.000 í málskostnað.