Hæstiréttur íslands

Mál nr. 205/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármögnunarleiga
  • Innsetningargerð


                                                                                              

Mánudaginn 31. mars 2014.

Nr. 205/2014.

Plast - miðar og tæki ehf.

(Magnús H. Magnússon hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Fjármögnunarleiga. Innsetningargerð.

L hf. krafðist þess að félaginu yrði með beinni aðfarargerð afhentir þrír nánar tilgreindir munir sem P ehf. hafði í sínum vörslum samkvæmt fjármögnunarleigusamningi aðila. Ágreiningur aðilanna laut öðrum þræði að því hvort umræddur samningur hefði verið um leigu eða lán, líkt og P ehf. hélt fram, og þar með háður banni 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um að fjárhæð peningaláns í íslenskum krónum verði bundin við gengi erlends gjaldmiðils. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að þegar litið væri til efnis samningsins og samskipta aðilanna í aðdraganda hans yrði að leggja til grundvallar að samningurinn teldist vera leigusamningur en ekki lánssamningur sem klæddur hefði verið í búning leigusamnings. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 stæðu því þannig ekki í vegi að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. L hf. hefði því verið heimilt að rifta samningnum. Fyrir Hæstarétti hélt P ehf. því einnig fram að félaginu væri ekki unnt að afhenta einn munanna, sem krafa L hf. um innsetningargerð laut að, þar sem að honum hefði verið fargað vegna eðlilegs slits. Þá vísaði P ehf. til þess að öðrum munanna, sem deila aðilanna stóð um, hefði verið skeytt við umfangsmikla prentvél í eigu P ehf. og yrði ekki fjarlægður nema með talsverðum kostnaði. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram í því sambandi að í málinu væri aðeins til úrlausnar hvort skilyrði væru til að veita L hf. heimild til að leita atbeina sýslumanns til að taka umrædda muni úr vörslum P ehf. Að veittri slíkri heimild yrði á það að reyna við framkvæmd innsetningargerðar hvort slíkar hindranir gætu staðið því í vegi að L hf. fengi munina í sínar hendur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nánar tilteknir lausafjármunir yrðu teknir með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengnir varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins leitar varnaraðili heimildar til að fá þrjá nánar tilgreinda muni tekna úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð, en um þá gerðu aðilarnir fjármögnunarleigusamning 7. apríl 2006, þar sem hinu leigða var lýst á eftirfarandi hátt: „Cortron lýsingarbekkur, þurrkari og Edale, árg:2006, skv. reikn. seljanda nr. 72069, dags. 28.3.2006. Snr. 01066005A, F07.10-202 D995/210“. Óumdeilt er að sóknaraðili greiddi til loka umsamins grunnleigutíma mánaðarlega leigu að fjárhæð 90.518 krónur, sem bundin var við gengi tveggja tilgreindra erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Að loknum grunnleigutímanum greindi varnaraðili sóknaraðila frá því með bréfi 26. júlí 2010 að honum stæði til boða að eignast framangreinda muni með því að greiða svonefnt lokagjald að fjárhæð 274.044 krónur eða hafa þá að öðrum kosti á framhaldsleigu gegn gjaldi, sem næmi 1/12 af fjárhæðinni sem greidd var á grunnleigutíma. Þessu svaraði sóknaraðili með ósk um að „lokagreiðsla verði fryst“ í ljósi óvissu um hvort heimilt hafi verið að tengja skuldbindingu sína við gengi erlendra gjaldmiðla á þann hátt sem gert var og varð varnaraðili við þeirri ósk. Í október 2012 mun varnaraðili á hinn bóginn hafa krafið sóknaraðila um framhaldsleigu allt frá lokum grunnleigutímans, sem sóknaraðili hafnaði að greiða. Varnaraðili lýsti yfir riftun samnings þeirra 18. janúar 2013 og krafðist skila á leigumununum, sem sóknaraðili varð ekki við, og lagði sá fyrrnefndi 20. ágúst sama ár beiðni fyrir héraðsdóm um innsetningargerð til að fá munina tekna úr vörslum þess síðarnefnda. Mál þetta var þingfest af því tilefni 28. október 2013.

Í upphafi niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar kemur réttilega fram að ágreiningur aðilanna lúti að því hvort fyrrnefndur samningur þeirra 7. apríl 2006 hafi verið um leigu, svo sem varnaraðili haldi fram, eða um lán, eins og sóknaraðili beri fyrir sig, og þar með háður banni samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu við því að fjárhæð peningaláns í íslenskum krónum verði bundin við gengi erlends gjaldmiðils. Þótt í forsendum hins kærða úrskurðar hafi í framhaldi af þessu öðrum þræði verið rætt um ágreining aðilanna eins og hann stæði um það hvort samningur þeirra hafi verið leigusamningur eða kaupsamningur verður að líta svo á að úrlausnin hafi tekið mið af framangreindri afmörkun á deiluefni þeirra. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að samningur aðilanna hafi verið um fjármögnunarleigu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013, svo og að varnaraðila hafi verið heimilt að rifta honum.

Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er því meðal annars borið við að einum af þeim þremur munum, sem krafa varnaraðila um innsetningargerð lýtur að, hafi verið fargað sökum þess að hann hafi verið úr sér genginn vegna eðlilegs slits eftir áralanga notkun. Sóknaraðili kveður þetta hafa verið upplýst við munnlegan flutning málsins í héraði. Þá hefur hann einnig vísað til þess að öðrum af þeim munum, sem hér um ræðir, hafi verið skeytt við umfangsmikla prentvél í eigu sinni og verði hann ekki fjarlægður nema með talsverðum kostnaði, auk þess sem sérfræðingar á vegum erlends framleiðanda vélarinnar verði að leysa það verk af hendi. Um þessar varnir er til þess að líta að í málinu er aðeins til úrlausnar hvort skilyrði séu til að veita varnaraðila heimild til að leita atbeina sýslumanns til að taka munina, sem beiðni hans snýr að, úr vörslum sóknaraðila. Að veittri slíkri heimild verður á það að reyna við framkvæmd innsetningargerðar hvort slíkar hindranir, sem sóknaraðili heldur fram að fyrir hendi séu, geti staðið því í vegi að varnaraðili fái munina í sínar hendur. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Plast - miðar og tæki ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014.

Þetta mál var þingfest 28. október 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. janúar sl.

Sóknaraðili er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík, en varnaraðili er Plast-miðar og tæki ehf., Krókhálsi 1, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að Corton lýsingarbekkur, PL Prepress Equipm. þurrkari og Edale viðbót í prentvél, nánar tiltekið fimmti litur í fjögurra lita prentvél, allt samkvæmt reikningi nr. 72069, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og afhent sóknaraðila. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað, til vara að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðri dóms liggur fyrir, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Hinn 7. apríl 2006 gerðu aðilar málsins með sér samning, sóknaraðili sem leigusali og varnaraðili sem leigutaki, sem er auðkenndur nr. 132635-636 og ber fyrirsögnina ,,fjármögnunarleigusamningur“. Samningurinn er í 35 greinum og ber með sér að um staðlað samningsform sé að ræða, þar sem efni fyrstu tíu greinanna sé fyllt út, eftir því sem við á, en aðrar greinar hans eru staðlaðar. Í 1. gr. samningsins er því lýst að hið leigða sé Cortron lýsingarbekkur, þurrkari og Edale, árgerð 2006, samkvæmt reikningi seljanda nr. 72069, dags. 28. mars 2006. Í 15. gr. kemur fram að sóknaraðili sé eigandi hins leigða.

Samkvæmt 2. gr. samningsins er ,,leigugrunnur“ 4.036.763 krónur og virðisaukaskattur 989.007 krónur, samtals 5.025.770 krónur. ,,Skipting leigugr.“ var þannig ákveðin að fjárhæðin var í jöfnum hlutföllum ,,tengd JPY“, miðað við gengi 0,597 og ,,tengd CHF“, miðað við gengi 53,71 og var ,,erlend mynt“ tilgreind 3.380.874 japönsk jen og 37.579 svissneskir frankar. Í 3. gr. er varnaraðili tilgreindur sem seljandi. Í 4. og 5. gr. segir að ,,grunnleigutími“ sé frá 15. maí 2006 til 14. maí 2010, fyrstu leigugreiðslu skyldi greiða 15. maí 2006, en fjöldi greiðslna væri 48, sem skyldi greiða mánaðarlega, hver að fjárhæð 90.518 krónur án virðisaukaskatts. Fram kemur í 6. gr. samningsins að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokun grunnleigutíma 15. maí 2010 og ,,leiga tengd JPY“ sé 3.734 krónur og ,,leiga tengd CHF“ sé 3.810 krónur, samtals 7.543 krónur án virðisaukaskatts. Í 10. gr. samningsins er m.a. tekið fram að LIBOR-vextir á samningsdegi séu 0,61% auk 3,2% álags. Í 12. gr. segir m.a. að leigutaki geti ekki sagt samningnum upp á grunnleigutíma. Að grunnleigutíma loknum framlengist hann ótímabundið, sbr. 6. gr. Leigutaki geti sagt upp hinum framlengda leigusamningi skriflega með eins mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.

Ekki er um það deilt að varnaraðili átti frumkvæði að gerð þessa samnings. Varnaraðili lýsir aðdragandanum að samningsinsgerðinni þannig að vegna starfsemi sinnar hafi hann ákveðið að fjárfesta í Corton lýsingarbekk, þurrkara og viðbótarbúnaði (fimmti liturinn) fyrir Edale prentvél, árgerð 2006. Varnaraðili hafi haft samband við seljandann um kaup á umræddum tækjum og búnaði og í kjölfarið hafi hann leitað til sóknaraðila um fjármögnun.

Aðilar málsins eru sammála um að samningurinn var gengistryggður og allar fjárhæðir hans bundnar við gengi japansks jens og svissnesks franka.

Hinn 26. júlí 2010 sendi sóknaraðili varnaraðila tilkynningu þess efnis að grunnleigutíma fjármögnunarleigusamningsins lyki 15. júlí 2010. Í bréfinu kom fram að við lok samningsins fengi varnaraðili sendan reikning fyrir lokagjaldi auk eigendaskiptatilkynningar, væri um skráningarskyldan leigumun að ræða. Í bréfinu var fjárhæð lokagjaldsins tilgreind 274.044 krónur án virðisaukaskatts, miðað við gengi og/eða vísitölu þann dag sem tilkynningin var dagsett, en sem tæki breytingu til skuldfærsludags. Jafnframt sagði í bréfinu að hefði varnaraðili ekki hug á að fá reikning fyrir lokagjaldi þyrfti hann að hafa samband við þjónustuver sóknaraðila innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins og yrði samningurinn þá settur á framhaldsleigu, sem væri 1/12 af leigugreiðslu þar til leigumun væri skilað eða hann keyptur gegn greiðslu lokagjalds. Þá sagði í bréfinu að um leið og samningur ásamt lokagjaldi væri að fullu greiddur og eigendaskiptatilkynning undirrituð og send sóknaraðila væri leigumunurinn að fullu kominn í eigu varnaraðila.

Sóknaraðili gaf út reikning til varnaraðila 6. ágúst 2010 fyrir framangreindu lokagjaldi og var reikningurinn með gjalddaga 16. ágúst 2010. Fjórum dögum eftir útgáfu reikningsins hafði framkvæmdastjóri varnaraðila samband við þjónustuver sóknaraðila með tölvuskeyti og óskaði eftir því að lokagreiðslan yrði fryst í ljósi nýgengins dóms Hæstaréttar sem dæmdi gengistryggð lán ólögmæt. Óskað var eftir því að lokagreiðslan yrði fryst þar til endanleg niðurstaða fengist um hvernig meðhöndla ætti gengistryggð lán en að mati varnaraðila hefði hann ofgreitt gerðarbeiðanda af láninu og ætti því rétt á endurgreiðslu frá sóknaraðila. Daginn eftir, 11. ágúst 2010, svaraði sóknaraðili tölvuskeytinu og staðfesti að útgáfa lokagjalds hefði verið fryst þar til niðurstaða væri fengin um meðhöndlun á gengistryggðum fjármögnunarleigusamningum.

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í máli nr. 652/2011 24. maí 2012, þar sem leyst var úr ágreiningi um fjármögnunarleigusamning sóknaraðila. Hinn 4. september 2012 bakfærði sóknaraðili umræddan reikning fyrir lokagjaldi. Reikningar fyrir framhaldsleigunni fyrir árin 2010, 2011 og 2012 voru síðan gefnir út 25. október 2012. Varnaraðili kveðst hafa staðið í þeirri trú að lokagreiðslan væri enn í frystingu í ljósi óvissu með samning aðila. Þegar framkvæmdastjóri varnaraðila innti sóknaraðila skýringar á þessu með tölvuskeyti 30. október 2012 svaraði sóknaraðili því til með tölvuskeyti sama dag að hann teldi umræddan dóm fordæmisgefandi um alla fjármögnunarleigusamninga sóknaraðila og þeir yrðu því ekki endurreiknaðir að svo stöddu. Framhaldsleiga væri nú þegar hafin og varnaraðili þyrfti að óska sjálfur eftir því skriflega við sóknaraðila ef hann óskaði eftir því að fá að kaupa leigumuninn. Sóknaraðili myndi þá meta slíka beiðni og ef hún væri samþykkt yrði varnaraðila gert sölutilboð í framhaldinu.

Óumdeilt er að varnaraðili hefur ekki greitt greiðsluseðla sem sóknaraðili hefur sent honum fyrir framhaldsleigu umræddra tækja. Hinn 18. janúar 2013 rifti sóknaraðili samningi aðila með skeyti til varnaraðila. Varnaraðili mótmælti riftun sóknaraðila með bréfi, dags. 22. janúar 2013.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi leigt varnaraðila umrædd tæki með fjármögnunarleigusamningi 7. apríl 2006. Samkvæmt samningnum hafi varnaraðili átt að greiða sóknaraðila tiltekið leigugjald mánaðarlega út grunnleigutíma samningsins, sbr. 4. og 5. gr. samningsins. Að þeim tíma loknum hafi varnaraðila borið að greiða sóknaraðila tiltekið framhaldsleigugjald, sbr. 6. gr. samningsins. Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi leigugrunnur samningsins verið settur saman úr myntkörfu og hafi fjárhæð samningsins verið bundin japönskum jenum og svissneskum frönkum í jöfnum hlutföllum.

                Sóknaraðili byggir á því að samningur aðila sé leigusamningur í skilningi IAS 17 – Alþjóðlegs reikningsskilastaðals sem hafi lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, um bann við gengistryggingu, stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 40. gr. samningsins um frjálst flæði fjármagns.

                Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður sóknaraðila því að samningur aðila benti til þess að um væri að ræða lán. Með dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, þar sem fjallað hafi verið um sambærilegan samning, hafi rétturinn staðfest að umþrættur samningur væri leigusamningur eins og heiti hans benti til. Því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki þótt girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Lögmaðurinn sagði við munnlegan flutning málsins að samningur aðila væri á sama samningsformi. Skýrt sé í samningnum að um sé að ræða leigu. Samningstími og endurgjald á grunnleigutíma miði við að sóknaraðili fái kaupverð tækjanna endurgreitt auk fjármagnskostnaðar sóknaraðila. Varnaraðili hafi greitt miðað við leigugrunn og virðisaukaskatt. Hvergi komi fram í samningnum að varnaraðili greiði vexti. Eftir lok grunnleigutíma samkvæmt 4. gr. samningsins hefjist framhaldsleigutími, sbr. 6. gr. Samkvæmt 34. gr. samningsins skuli breytingar á samningnum aðeins vera skriflegar. Samkvæmt áletruðum texta á eftir 35. gr. samningsins staðfesti varnaraðili efni samningsins og sé sáttur við það. Varnaraðila hafi verið mögulegt að gera athugasemdir við og strika út einstök ákvæði samningsins ef hann var ekki sáttur við þau og setja inn ný ákvæði.

                Varnaraðili hafi ekki beðið um að kaupa umrædd tæki. Bréf varnaraðila til sóknaraðila, dags. 26. júlí 2010, sanni ekki að samið hafi verið um kaup tækjanna í upphafi. Í samningi aðila hafi ekki verið samið um kauprétt og engin lokagreiðsla sé tilgreind. Sóknaraðili meti það hverju sinni hvort tæki séu seld. Sóknaraðili hafi sett fram tímabundið sölutilboð. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 hafi verið kveðinn upp þremur mánuðum áður en sóknaraðili afturkallaði umrætt sölutilboð. Varnaraðili hafi aldrei samþykkt tilboðið, hafi aldrei boðið fram greiðslu eða gefið til kynna vilja sinn til að kaupa tækin. Sóknaraðili hafi haft hagsmuni af því að varnaraðili tilkynnti honum samþykki tilboðs innan skamms tíma. Framhaldsleiga hafi því stofnast. Ákvæði um kauprétt myndi samt sem áður ekki breyta eðli þessa samnings.

                Dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fjalli um önnur samningsform og hafi því ekki fordæmisgildi fyrir úrlausn þessa máls. Samningur aðila sé leigusamningur samkvæmt IAS 17 – Alþjóðlegum reikningsskilastaðli og sé því ekki endurreiknaður. Staðallinn geri ráð fyrir framhaldsleigu þar til leigumunur er ónýtur. Þá undirstriki staðallinn að sérstakt kaupákvæði þurfi að vera í samningi til þess að hann teljist vera samningur um kaupleigu. Loks mótmælir sóknaraðili varakröfu varnaraðila þar sem ákvæði 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 eigi bara við ef tjón af aðfarargerð er ófjárhagslegt.

                Leigugreiðslur samkvæmt samningnum séu í vanskilum allt frá júlí 2010. Hinn 2. ágúst 2013 hafi heildarvanskil varnaraðila vegna áðurnefnds samnings numið 1.140.196 krónum, að meðtöldum vöxtum en án lögfræðikostnaðar. Varnaraðili hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna. Sóknaraðili hafi af þeirri ástæðu rift samningnum 18. janúar 2013 samkvæmt heimild í 28. gr. samningsins.

                Þar sem varnaraðili hafi ekki staðið í skilum samkvæmt samningnum og hafi neitað að afhenda varnaraðila eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili byggir á því að samningur aðila sé ekki leigusamningur, heldur lánssamningur sem klæddur sé í búning leigusamnings og því hafi verið óheimilt í upphafi að binda fjárhæð greiðslna samkvæmt samningnum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samningurinn sé því ólögmætur vegna gengistryggingar, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Varnaraðili hafi því greitt sóknaraðila meira en honum hafi borið á grundvelli samnings aðila og því sé verulega varhugavert að fallast á kröfu sóknaraðila.

                Umræddur samningur sé 35 greinar sem sé skipt niður í sérstakan hluta og almennan hluta. Fyrstu tíu greinar samningsins myndi hinn sérstaka hluta sem breytist frá samningi til samnings en greinar 11-35 myndi hinn almenna hluta og séu þau ákvæði samningsins stöðluð.

                Varnaraðili telur einsýnt að umræddur samningur sé í raun lánssamningur en ekki leigusamningur, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Þar að auki hafi sóknaraðili gert ráð fyrir því við lok samnings aðila að varnaraðili yrði eigandi tækjanna gegn lokagreiðslu og það þrátt fyrir að samningur aðila hafi ekki kveðið á um slíkt. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 hafi ekki verið sýnt fram á að samið hefði verið um að leigutaki myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans. Því hafi stofnast ótímabundin leiga gegn verulega lægra leigugjaldi og talið var að samningurinn í því máli væri leigusamningur en ekki lánssamningur. Þessi sjónarmið eigi ekki við í þessu máli.

                Í 2. gr. samningsins sé talað um leigugrunn. Vandséð sé hvaða hlutverki upplýsingar um leigugrunn hafi að gegna í samningi aðila, annað en að tilgreina höfuðstól lánsins. Sé umræddur samningur leigusamningur þurfi ekki að tilgreina leigugrunn eða höfuðstól, en slíkt þurfi eðli máls samkvæmt að gera í lánssamningum eins og gert sé í samningi aðila. Fjallað sé um framhaldsleiguna í 6. gr. samningsins en samkvæmt greininni framlengist samningurinn ótímabundið eftir grunnleigutímann, sbr. 12. gr. samningsins. Þetta bendi til þess að samningurinn eigi að teljast vera lánssamningur því að forsenda sóknaraðila hafi verið sú að kaupverðið sé að fullu greitt eftir 48 mánuði og eftir það séu tækin eign varnaraðila.

                Ákvæði 13. gr. heimili sóknaraðila að endurreikna greiðslur samkvæmt breytingum sem verða á LIBOR-vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan er tilgreind í. Þetta bendi til þess að umræddur samningur sé lánssamningur en ekki leigusamningur, því að greiðslurnar hafi borið vexti en slíkt tíðkist ekki í leigusamningi. Leigugreiðslur séu inntar af hendi fyrir afnot leigumunar og slíkar greiðslur beri ekki vexti.

                Samkvæmt 16. gr. beri varnaraðili skyldu kaupanda samkvæmt lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem ekki eigi við um leigusamninga. Í 17. gr. segi að sóknaraðili beri enga ábyrgð á leigumun og varnaraðili beri áhættuna af því hið leigða farist, skemmist eða rýrni eftir að seljandi hefur afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 39/1922 og/eða öðrum réttarreglum. Þetta bendi eindregið til þess að fremur sé um lánasamning en leigusamning að ræða. Í venjulegum leigusamningum beri leigusali áhættuna af þeim atvikum sem samningurinn tilgreinir eftir að afhending þeirra hefur farið fram.

Fram komi í 19. gr. að varnaraðila beri að greiða samningsfjárhæðina áfram þótt seljandi vanefni samninginn. Samkvæmt þessu hafi ekki verið neitt samhengi á milli greiðslna varnaraðila og afnota hans af tækjunum. Í leigusamningum sé gagnkvæm skylda leigusala til þess að láta í té afnot af samningsandlögum og skylda leigutaka til þess að greiða leigu fyrir þau afnot. Ekkert slíkt samhengi sé í samningi aðila. Samkvæmt 20., 23. og 26. gr. hafi varnaraðili átt að annast allt viðhald á tæki, tryggingar, skatta og gjöld en slík ákvæði eigi ekkert skylt við leigusamning.

Í 30. gr. sé fjallað um uppgjör vegna loka samningsins en þar komi fram í 1. tl. 1. mgr. að varnaraðila sé skylt að greiða alla ógjaldfallna leigu frá uppgjörsdegi, þótt samningi sé rift eða honum slitið af öðrum ástæðum. Frá uppgjöri skuli draga verðmæti „leigumunar“, sbr. 4. tl. Væri um raunverulega leigu að ræða kæmi verðmæti leigumunar ekki til frádráttar kröfum sóknaraðila og þá ætti hann ekki lögvarða kröfu til greiðslu ógjaldfallinnar leigu, eftir riftun samningsins. Í lok ákvæðisins komi fram að myndist hagnaður hjá sóknaraðila við uppgjör á leigusamningi, skuli sá hagnaður tilheyra varnaraðila. Eignamyndun á samningstímanum tilheyri því varnaraðila en ekki sóknaraðila og því sé augljóslega um lánssamning að ræða en ekki leigusamning.

Varnaraðili álítur að framangreind ákvæði beri það með sér að samningur aðila hafi frá upphafi verið lánssamningur en ekki leigusamningur, en sóknaraðili hafi ákveðið að klæða samninginn í búning leigusamnings. Í samskiptum varnaraðila við starfsmann sóknaraðila 28. mars 2006 vegna þeirra tækja og búnaðar sem hér er til umfjöllunar hafi starfsmaður sóknaraðila tekið fram að sóknaraðili hafi ekki getað fjármagnað uppsetningu en hins vegar hafi hann fjármagnað kaupverðið á tækjunum. Umrædd samskipti bendi til þess að sóknaraðili hafi frá upphafi samnings litið svo á að eina hlutverk hans væri að fjármagna kaup á tilteknum tækjum, þ.e.a.s. sóknaraðili væri eingöngu að lána varnaraðila fjármagn til þess að hinn síðarnefndi gæti keypt tækin en væri ekki raunverulega að leigja þau út. Hafi sóknaraðili ætlað að leiga varnaraðila tækin hefðu samskipti aðila borið þess merki. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili eingöngu komið að kaupunum sem lánveitandi þrátt fyrir að samningur aðila beri einhver merki þess að um leigusamning sé að ræða, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 652/2011.

Framangreind samskipti beri jafnframt með sér að varnaraðili hafi átt frumkvæðið að kaupunum. Sóknaraðili hafi í raun eingöngu keypti umrædd tæki og búnað að beiðni og frumkvæði varnaraðila, gagngert í þeim tilgangi að fela varnaraðila umráð þeirra. Sóknaraðili hafi því ekki komið að kaupunum á tækjunum að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi þeirra á reikningum seljanda. Eignarhaldið hafi því verið hjá þriðja aðila í upphafi og bendi slíkt til þess að samið hafi verið um lán til kaupa á tækjunum en ekki um leigu þeirra. Sóknaraðili hafi eingöngu verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi en slíkt feli ekki í sér raunverulegt eignarhald. Þetta sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist í leigusamningum en þar leigir leigusali út hlut sem hann sé raunverulegur eigandi að. Auk þess hafi varnaraðili gengið að því vísu eftir gerð samningsins að þau tæki sem þar voru tilgreind væru eign hans en ekki leigumunir. Í því sambandi hafi varnaraðili fært tækin til eignar í bókhaldi sínu.

Sóknaraðili byggi aðallega á dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 en í umræddu máli hafi Hæstiréttur Íslands staðfest að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur samkvæmt efni sínu og því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki þótt girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að samningur yrði gengistryggður. Samkvæmt umræddum dómi Hæstaréttar sé ljóst að það fari eftir atvikum hverju sinni og efni máls hvort samningar sem þessir séu lánssamningar eða eignaleigusamningar. Ákvæði samningsins verði að virða í heild sinni í samræmi við samning aðila og önnur gögn málsins. Einnig skipti málsástæður aðila máli. Hér sæki sóknaraðili rétt sinn eftir 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og hafi því ríkari sönnunarbyrði en um hefði verið að ræða í hæstaréttarmálinu.

Varnaraðili telur að grundvallarmunur sé á þeim lögskiptum sem voru á milli aðila þessa máls og í hæstaréttarmálinu nr. 652/2011. Í þeim dómi hafi verið komið inn á að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu við fjármögnunar-leigusamninga. Þrátt fyrir það hafi rétturinn tekið fram að nokkur ákvæði í samningi aðila væru hliðstæð samningi aðila í hæstaréttarmáli nr. 282/2011, þar sem fjármögnunarleigusamningur aðila var talinn vera lánasamningur. Í báðum málunum hafi gerðarbeiðanda verið heimilt að reikna leigugjald til samræmis við breytingar sem kynnu að verða á millibankavöxtum af tilteknum myntum, gerðarþoli hafi sem leigutaki borið áhættu af því að hið leigða færist, skemmdist eða rýrnaði og honum hafi að auki verið skylt að greiða fjárhæð, sem svaraði til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum yrði rift. Hins vegar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í máli nr. 652/2011 að samningur sá sem málið varðaði væri leigusamningur en ekki lánasamningur með þeim rökum að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, væri ósannað að samið hefði verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og lægi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki hefði stofnast ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda væri heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar væri mælt fyrir um í samningi aðila.

Það greini á milli framangreinds dóms Hæstaréttar og þessa máls að í þessu máli sé sannað að samið hafi verið um að eignarréttur tækjanna og búnaðarins samkvæmt samningi aðila skyldi færast yfir til varnaraðila að samningstíma loknum gegn greiðslu gagngjalds og það þrátt fyrir ákvæði 12. gr. samningsins um að við lok grunnleigutímans framlengdist samningurinn ótímabundið. Varnaraðili vísar því til stuðnings til bréfs gerðarbeiðanda til gerðarþola, dags. 26 júlí 2010, og samskipta aðila í kjölfarið. Í umræddu bréfi hafi sóknaraðili vakið athygli varnaraðila á því að grunnleigutíma samningsins væri að ljúka 15. júlí 2010. Því næst hafi sóknaraðili tekið fram að „við lok samnings færðu sendan reikning fyrir lokagjaldi auk eigandaskiptatilkynningar ef um skráningarskyldan leigumun er að ræða. Athugið að samningurinn þarf að vera í skilum við útgáfu reiknings vegna lokagjalds.“ Í kjölfarið hafi fjárhæð lokagjaldsins verið tilgreind samtals 274.044 krónur án virðisaukaskatts miðað við gengi og/eða vístölu þann dag sem bréfið er dagsett.

Í þessu samhengi mótmæli varnaraðili fullyrðingu sóknaraðila í aðfararbeiðni að varnaraðila hafi borið að greiða sóknaraðila tiltekið framhaldsleigugjald, sbr. 6. gr. samnings aðila. Af framangreindu bréfi og samskiptum aðila megi ráða að sóknaraðili hafi gert ráð fyrir því frá upphafi að varnaraðili myndi eignast samningsandlagið við lok samningstímans gegn greiðslu á ákveðnu gagngjaldi. Sóknaraðili hafi þannig ekki gert ráð fyrir því að samningur aðila myndi framlengjast sjálfkrafa við lok grunnleigutímans eins og samningur aðila gerði ráð fyrir. Þessi í stað hafi varnaraðili þurft að bregðast við bréfi sóknaraðila innan tíu daga ef hann hefði ekki „hug á að fá reikning fyrir lokagjaldi“. Varnaraðili hafi haft samband við sóknaraðila innan umrædds frests eða 6. ágúst 2010, í kjölfar útgáfu reikningsins fyrir lokagjaldinu og óskað eftir frystingu á því. Sóknaraðili hafi samþykkt það 11. ágúst 2010. Aðilar hafi átt í frekari samskiptum um lokagjaldið og endurútreikning á framangreindum samningi. Í umræddum samskiptum hafi viðskiptastjóri sóknaraðila staðfest 1. nóvember 2012 að sóknaraðili hafi ætlað sér að selja varnaraðila umrædda muni gegn lokagjaldi.

Varnaraðili vísar til þess að viðtal hafi verið tekið við Börk Grímsson, ráðgjafa á fyrirtækjasviði sóknaraðila, sem hafi birst í 9. tölublaði Frjálsrar verslunar árið 2006. Þar komi fram að „í lok leigutíma á sérfræðingurinn húsnæðið skuldlaust en hann getur líka endurnýjað samninginn á tímabilinu, þjóni það hagsmunum hans betur“. Í sömu grein sé fjallað um að sóknaraðili væri að sækja fram inn á markað fasteignafjármögnunar en þar segir: „Lýsing vinnur stöðugt að þróun og útfærslu á vörum sínum og því er mjög líklegt að samningarnir muni í framtíðinni fela í sér ýmsa þjónustuþætti tengda fasteigninni auk fjármögnunar á sjálfu kaupverðinu.“ Samkvæmt framansögðu sé ljóst að aðilar hafi gengið að því vísu við gerð fjármögnunarleigusamninga sóknaraðila að leigutakar hafi ávallt átt þess kost að kaupa samningsandlagið að samningstíma loknum og því hafi sóknaraðili í raun eingöngu veitt varnaraðila lán til kaupa á tækjunum. Í lok samningstímans hefði varnaraðili tækifæri til þess að endurgreiða sóknaraðila lánið og í kjölfarið yrði hann formlegur eigandi tækjanna eins og aðilar hafi gert ráð fyrir í upphafi.

Sú athugasemdalausa venja af hálfu sóknaraðila að heimila viðskiptavinum að eignast hið leigða í lok leigutíma bendi til þess að um sé að ræða lánssamning, enda hafi viðskiptavinir sóknaraðila beinlínis átt kröfu til þess að eignast hið leigða við lok samningstímans gegn ákveðinni greiðslu. Málsaðilar hafi áður gert fjármögnunarleigusamning nr. 105170 vegna prentvélar frá Edale. Umrædd vél hafi verið uppfærð með viðbótarbúnaðinum sem varnaraðili hafi keypt með þeim samningi sem hér er til umfjöllunar. Varnaraðili hafi leitað til seljanda vélarinnar um kaup á prentvélinni og í framhaldinu haft samband við sóknaraðila um fjármögnun á vélinni. Varnaraðili hafi greitt 61 greiðslu og í kjölfarið hafi verið gefinn út reikningur til hans fyrir lokagjaldinu, samtals 216.190 krónur með virðisaukaskatti. Reikningurinn hafi verið greiddur 1. október 2006 og í kjölfarið hafi varnaraðili eignast umrædda vél. Varnaraðili telur því einsýnt og yfir allan vafa hafið að umrædd viðskipti aðila hafi ávallt byggst á lánafyrirkomulagi og frá upphafi hafi verið samið um að varnaraðili myndi eignast viðkomandi tæki og það fyrirkomulag hafi alla tíð verið viðhaft í viðskiptagerningum aðila.

Samkvæmt þessu sé sannað að um hafi verið samið að eignarréttur hlutanna samkvæmt samningi aðila skyldi færast yfir til varnaraðila að samningstíma loknum gegn greiðslu lokagjalds og sóknaraðili hafi með bréfum sem og samskiptum gengið út frá því allan tímann að varnaraðili myndi eignast tækin að samningstíma loknum fyrir umsamið verð. Samningur aðila sé því lánssamningur líkt og var í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011.

Varnaraðili hafnar því að samningur aðila sé leigusamningur með vísan til ákvæða alþjóðlega reiknisskilastaðalsins IAS 17, sem hafi verið lögfestur hér á landi með reglugerð nr. 180/2006 27. janúar 2006. Fjármögnunarleigusamningur sé skilgreindur í 4. gr. staðalsins: „Fjármögnunarleiga er leigusamningur þar sem svo til öll áhætta og ávinningur sem fylgir eignarhaldi á eign er yfirfærð. Eignaréttur ýmist færist eða færist ekki á milli aðila að lokum.“ Í 6. grein komi fram staðfesting á því að ekki sé raunverulegur munur á kaupleigu- og fjármögnunarleigusamningum en þar segi að „Skilgreining á leigusamningi tekur til samninga um leigu á eign sem fela í sér ákvæði sem gefa leigutaka kost á að öðlast eignarétt á eigninni þegar umsamin skilyrði eru uppfyllt. Slíkir samningar eru stundum nefndir kaupleigusamningar.“ Í 20. gr. staðalsins segi að „leigutaki“ eigi að færa fjármögnunarleigusamning sem eignir og skuldir og í 21. gr. staðalsins segi að „Viðskipti og aðrir atburðir eru færðir og settir fram í samræmi við efni þeirra og efnahagslegan veruleika en ekki eingöngu í samræmi við lagalegt form þeirra“. Augljóst sé af framangreindum reikningsskilastaðli að fjármögnunarleigusamningar séu í raun samningar um lán til kaupa á eign og ekkert nema heiti þeirra bendi til að um leigusamninga sé að ræða.

Varnaraðili vísar til þess að samningur aðila hafi verið saminn einhliða af sóknaraðila og að stór hluti hans sé staðlaðir samningsskilmálar. Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglunni við túlkun ákvæða samningsins, en samkvæmt reglunni skuli óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða sem ráðið hafi þeim atriðum til lykta sem ágreiningi geta valdið. Löggerningi skuli í samræmi við þetta túlka þeim í óhag sem átt hafi að hlutast til um skýrara form samnings eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði.

Ólögmætt hafi verið að gengisbinda samning aðila samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. gr. sömu laga. Þar sem slík gengistrygging sé ólögmæt hafi allar greiðslur til sóknaraðila, sem hafi tekið mið af breytingum á höfuðstóli lánsins, á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar, verið ranglega af varnaraðila hafðar. Varnaraðili eigi því kröfu á sóknaraðila um endurútreikning á samningi aðila. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um að aðfararbeiðnin nái fram að ganga.

Mikill vafi sé einnig um meint vanskil, þar sem umræddur samningur sé með ólögmætri gengistryggingu og óskað hafi verið eftir því að umrædd lokagreiðsla yrði fryst þar til endanlega væri ljóst hvernig ætti að meðhöndla gengistryggð lán. Sóknaraðili hafi samþykkt það 11. ágúst 2010. Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili ákveðið að láta samning aðila á framhaldsleigu. Meint vanskil varnaraðila séu byggð á þessum greiðsluseðlum. Samkvæmt bréfi sóknaraðila til varnaraðila, 26 júlí 2010, hefði varnaraðili þurft að taka sérstaklega fram ef hann hefði ekki hug á að greiða lokagreiðsluna en í kjölfarið yrði samningur aðila settur á framhaldsleigu. Varnaraðili hafi með ósk um að lokagreiðslan yrði fryst hvorki hafnað greiðslunni né samþykkt að samningur aðila yrði settur á framhaldsleigu.

Á sínum tíma hafi sóknaraðili því sent varnaraðila reikninga fyrir framhaldsleigunni og jafnframt verið með virkt sölutilboð í gangi allt þar til tilboðið var bakfært 4. september 2012. Slíkt hafi verið mjög ruglingslegt fyrir varnaraðila og því eðlilegt að umræddir greiðsluseðlar hafi ekki verið greiddir í ljósi þess að varnaraðili hafi beðið eftir endurútreikningi á samningi aðila. Sóknaraðili hafi rift samningnum vegna ætlaðra vanskila varnaraðila en varnaraðili telur sig vera búinn að gera upp umræddan samning að stórum hluta, enda liggi ekki fyrir endurútreikningur sóknaraðila. Varnaraðili hafi endurreiknað samning aðila í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Að mati varnaraðila nemi ofgreiðslan 2.976.185 krónum en ekki liggi fyrir upplýsingar frá sóknaraðila um hvernig ofgreiðslunni hafi verið skipt niður á höfuðstól og vexti. Af þeim sökum sé varhugavert að láta aðfarargerðina fara fram, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.

Varnaraðili hafi staðið í þeirri trú að umrætt lán yrði í frystingu þar til endurútreikningur færi fram. Því hefði aldrei átt að senda út umrædda greiðsluseðla. Varnaraðili hafi ávallt mótmælt innheimtu sóknaraðila og krafist þess að sóknaraðili endurreikni umræddan samning. Slík óvissa hafi verið uppi við riftun að ekki séu uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989, sem leiði til þess að varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga.

Til vara krefst varnaraðili þess að gerðinni verði frestað þar til Hæstiréttur Íslands hafi komist að niðurstöðu í málinu. Varnaraðili noti umrædd tæki í atvinnustarfsemi sinni og því sé það gríðarlega íþyngjandi fyrir hann að láta þau af hendi, sérstaklega ef haft er í huga að ekki liggi afdráttarlaus niðurstaða fyrir um að samningur aðila sé löglegur.  

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 13. kafla laganna, og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum VI. kafla laganna. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Aðilar málsins gerðu 7. apríl 2006 samning um fjármögnunarleigu þeirra tækja sem kröfugerð sóknaraðila tekur til, sem bar yfirskriftina fjármögnunarleigusamningur. Ekki er um það deilt að varnaraðili átti frumkvæði að gerð samningsins, valdi umrædd tæki og leitaði til sóknaraðila um fjármögnun þeirra. Aðilar málsins eru einnig sammála um að samningurinn var gengistryggður og allar fjárhæðir hans bundnar við gengi japansks jens og svissnesks franka. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort um leigusamning er að ræða, eins og sóknaraðili byggir á, eða lánssamning sem sóknaraðili hafi kosið að klæða í búning leigusamnings, eins og varnaraðili heldur fram.

Í 3. tl. 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er eignaleiga skilgreind þannig að átt sé við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 161/2002 segir m.a. um þennan tölulið að úr skilgreiningu á eignaleigu sé fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skuli skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu sé gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala. Lagt sé til að starfsemin nefnist eignaleiga í stað eignarleigu. Eignarleiga sé ekki réttnefni fyrir þá starfsemi sem orðið á að lýsa. Eignarleiga merki leigu á einhverju sem leigutaki eignist síðan. Eignaleiga merki hins vegar leigu á eign, óháð því hvort leigutaki eignist hið leigða í lok samningstíma.

Í dómi Hæstaréttar Íslands 20. október 2011 í máli nr. 282/2011 var leyst úr ágreiningi aðila um það hvort samningur þeirra, sem bar yfirskriftina fjármögnunarleigusamningur, væri lánssamningur eða leigusamningur. Rétturinn taldi að þegar ákvæði sérstakra og almennra skilmála samningsins væru virt í heild yrði að telja að þótt samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Yrði að líta svo á að í raun hefði verið veitt lán til kaupa á vinnuvél, sem lánveitandi hefði kosið að klæða í búning leigusamnings.

Í dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 var sömuleiðis leyst úr ágreiningi um það hvort fjármögnunarleigusamningur sem sóknaraðili, sem var áfrýjandi málsins, hafði gert við stefnda þess máls, væri lánssamningur eða leigusamningur. Í dómi Hæstaréttar er því slegið föstu að samningurinn sé í ýmsum atriðum frábrugðinn þeim samningi, sem fjallað var um í dómi réttarins í máli nr. 282/2011. Í dóminum segir að stöðluð ákvæði samningsins í því máli séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þá sé í samningnum fjallað um leigu og sé áfrýjandi málsins þar ítrekað nefndur leigusali. Nokkur ákvæði í samningnum séu þó hliðstæð samningnum sem dómur í máli nr. 282/2011 tók til. Milli þessara tilvika skilji þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, sé ósannað í þessu máli að samið hafi verið um að stefndi málsins myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda sé heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða. Sé því ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu. Af þeim sökum girði ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.

Afrit samningsins sem deilt var um í síðarnefndum dómi Hæstaréttar er meðal gagna málsins. Sá samningur er greinilega á sama staðlaða samningsformi og sá samningur sem aðilar þessa máls gerðu. Fyrstu tíu greinar beggja samninganna bera sömu fyrirsagnir og eru fylltar út með sambærilegum hætti. Þá eru greinar 11 til 35 beggja samninganna samhljóða. Að mati dómsins hefur umræddur dómur Hæstaréttar ótvírætt fordæmisgildi um úrlausn þessa máls. Verður því ekki á það fallist með varnaraðila að ákvæði samnings aðila ein og sér bendi til þess að um lánssamning sé að ræða sem sóknaraðili hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Tilvísun varnaraðila til andskýringarreglu samningaréttar getur ekki hnekkt þessari ályktun. Þessi ályktun fær einnig skýra stoð í fyrrnefndum 3. tl. 1. gr. laga nr. 161/2002 og athugasemdum við það ákvæði.

Varnaraðili vitnar til tölvuskeytis frá starfsmanni sóknaraðila til varnaraðila 28. mars 2006. Það má taka undir það með varnaraðila að efni tölvuskeytisins bendi til þess að sóknaraðili hafi litið svo á að hans hlutverk væri að fjármagna kaup á umræddum tækjum. Ummæli, um að sóknaraðili væri búinn að greiða tiltekna fjárhæð vegna tækjanna, að allir reikningar ættu að vera skráðir á sóknaraðila og að þá þurfi að framselja varnaraðila og að varnaraðili verði að útbúa reikning á sóknaraðila, benda til þess að sóknaraðili hafi keypt tækin. Sú ályktun styður fremur þá málsástæðu sóknaraðila að hann hafi leigt varnaraðila umrædd tæki, enda vandséð af hverju sóknaraðili ætti að kaupa umrædd tæki í eigin nafni ef staðið hefði til að varnaraðili keypti tækin, eins og hann byggir á.

Það fyrirkomulag viðskipta málsaðila, sem eins og fyrr segir er óumdeilt, að varnaraðili átti frumkvæði að gerð samningsins, valdi umrædd tæki og leitaði til sóknaraðila er eitt og sér ekki tilefni til ályktana um samningssamband aðila, hvort samningur þeirra teljist vera kaupsamningur eða leigusamningur, enda eru ekki að lögum lagðar hindranir við því að leigusali kaupi leigumun að frumkvæði og ábendingu væntanlegs leigutaka og leigi síðan til hans. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvílir sönnunarbyrði á þeim sem heldur fram venju. Sú málsástæða varnaraðila að þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist í leigusamningum er ekki studd gögnum og er því ósönnuð. Þá verður ekki heldur annað ráðið af formi samnings aðila, sem er eins og áður segir að verulegu leyti staðlaður, en að sambærilegir samningar hafi staðið öðrum en varnaraðila til boða.

Með vísan til alls þessa er það ályktun dómsins að ekkert í framlögðum gögnum frá þeim tíma þegar aðilar gerðu umræddan samning bendi til annars en að ætlun aðila hafi verið sú að varnaraðili tæki umrædda muni á leigu af sóknaraðila, eins og skýrlega kemur fram í skilmálum samnings aðila.

Blaðaviðtal við nafngreindan starfsmann sóknaraðila, sem varnaraðili vísar til, fjallar samkvæmt efni sínu um fjármögnunarleigu fasteigna. Ákvæði fjármögnunarleigusamnings aðila eiga illa við um fjármögnunarleigu fasteigna. Þannig vísa 3. mgr. 15. gr., 16. til 24. gr., 26. gr., 28. gr. og 29. gr. skýrlega til leigumunar og laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í málinu liggja ekki fyrir skilmálar fjármögnunarleigu fasteigna og er ekki upplýst að hvaða leyti slíkir samningar séu líkir eða ólíkir samningi aðila þessa máls. Er því ekki hægt að líta til efnis þessa viðtals.

Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf 26. júlí 2010, þar sem honum var tilkynnt að grunnleigutíma fjármögnunarleigusamningsins lyki 15. júlí 2010. Í bréfinu kom fram að við lok samningsins fengi varnaraðili sendan reikning fyrir lokagjaldi auk eigendaskiptatilkynningar, væri um skráningarskyldan leigumun að ræða. Í bréfinu var fjárhæð lokagjaldsins tilgreind 274.044 krónur án virðisaukaskatts, miðað við gengi og/eða vísitölu þann dag sem tilkynningin var dagsett, en sem tæki breytingu til skuldfærsludags. Jafnframt sagði í bréfinu að hefði varnaraðili ekki hug á að fá reikning fyrir lokagjaldi þyrfti hann að hafa samband við þjónustuver sóknaraðila innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins og yrði samningurinn þá settur á framhaldsleigu. Sú fyrirætlun sóknaraðila, sem birtist í bréfinu, að senda varnaraðila reikning fyrir kaupum á umræddum munum, nema varnaraðili bæði sérstaklega um að svo yrði ekki gert, er ekki í samræmi við 6. og 12. gr. samnings aðila, þar sem fram kemur að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist við lok grunnleigutíma, og í samningnum er ekki tekið fram að varnaraðili hafi rétt til að kaupa umrædda muni eftir lok grunnleigutíma. Gegn andmælum sóknaraðila sannar þetta bréf eitt og sér að mati dómsins þó ekki að aðilar samningsins hafi í upphafi samið um það að varnaraðili myndi kaupa umrædd tæki, enda fær slík ályktun ekki, eins og fyrr segir, stoð í gögnum frá þeim tíma þegar samningurinn var gerður. Það eitt að sóknaraðili sendi umrætt bréf getur ekki að mati dómsins haft þau réttaráhrif að samningur aðila breytist úr því að vera leigusamningur yfir í að vera kaupsamningur, enda væri það þá á valdi sóknaraðila eins að ráða efni samnings aðila að þessu leyti.

Varnaraðili vísar til eldri fjármögnunarleigusamnings aðila sem sönnun á því að til staðar sé athugasemdalaus venja af hálfu sóknaraðila um að heimila viðskiptavinum að eignast muni í lok leigutíma. Varnaraðili hefur lagt fram ljósrit af umræddum eldri samningi aðila. Ljósritið er einungis ein blaðsíða og ber með sér að vera einungis af hluta samningsins. Þá liggja ekki fyrir nein gögn um samskipti aðila í aðdraganda eða við lok þess samnings. Er því ekki hægt að byggja á honum sönnun á venju um réttarsamband aðila.

Samkvæmt 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga er með alþjóðlegum reikningsskilastaðli átt við reikningsskilastaðla (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt samkvæmt 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Fram kemur í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 að félög samkvæmt 1. gr. laganna skuli semja ársreikning í samræmi við lögin, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við eigi, og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal ársreikningur gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé. Í 1. mgr. 88. gr. laganna segir að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin sé lögfest. Í 90. til 92. gr. er fjallað um skyldu og heimild félaga til þess að beita  alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings og ársreiknings.

Markmið alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 17 kemur fram í 1. lið og er ,,að mæla fyrir um viðeigandi reikningsskilaaðferðir sem skal beita og upplýsingagjöf í reikningsskilum leigutaka og leigusala vegna leigusamnings“. Í 20. lið staðalsins segir m.a. að í upphafi leigtíma skuli ,,leigutakar færa fjármögnunarleigusamninga sem eignir og skuldir í efnahagsreikningi sínum með fjárhæðum sem eru jafnvirði gangvirðis leigðu eignarinnar eða, ef þær eru lægr, með lágmarksleigugreiðslum á núvirði, sem hver um sig er ákvörðuð þegar leigusamningurinn er gerður“. Í 21. lið staðalsins, sem er í kafla um leigusamninga í reikningsskilum leigutaka, er hins vegar tekið fram að ,,Viðskipti og aðrir atburðir eru færðir og settir fram í samræmi við efni þeirra og efnahagslegan veruleika en ekki eingöngu í samræmi við lagalegt form þeirra. Þó að lagalegt form leigusamnings geti verið með þeim hætti að leigutaki öðlist ekki eignarrétt yfir leigðu eigninni er efnið og efnahagslegur raunveruleiki með þeim hætti, þegar um er að ræða fjármögnunarleigu, að leigutakinn fær efnahagslega ávinninginn af notkun leigðu eignarinnar megnið af hagrænum endingartíma hennar gegn því að skuldbinda sig til að greiða fyrir þennan rétt fjárhæð sem svarar, þegar leigusamningurinn er gerður, u.þ.b. til gangvirðis eignarinnar og tengds fjármagnskostnaðar.“ Af þessu leiðir ljóslega að ekki þarf að vera samræmi á milli þess hvernig samningur er færður í reikningsskilum leigutaka samkvæmt staðlinum og þess hvort viðkomandi samningur telst að lögum vera leigusamningur eða kaupsamningur. Geta ákvæði staðalsins því ekki komið til skoðunar við mat á því hvort samningur aðila teljst leigusamningur eða kaupsamningur.

Þegar litið er til efnis samnings aðila og þeirra samskipta sem áttu sér stað á milli aðila í aðdraganda þess að hann var gerður er það niðurstaða dómsins að samningurinn teljist vera leigusamningur en ekki kaupsamningur, sem klæddur hefur verið í búning leigusamnings. Málsástæður varnaraðila sem að framan eru reifaðar geta ekki breytt þeirri niðurstöðu. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 girða þar af leiðandi ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Að þessu virtu verður ekki séð að tölulegur ágreiningur sé um fjárhæð þeirrar framhaldsleigu sem sóknaraðili krefur varnaraðila um.

Fyrir liggur að varnaraðili óskaði eftir því að sá reikningur fyrir lokagreiðslu sem sóknaraðili sendi honum 6. ágúst 2010 yrði frystur og féllst sóknaraðili á það 11. sama mánaðar. Hinn 4. september 2012 bakfærði sóknaraðili umræddan reikning fyrir lokagjaldi og 25. október 2012 gaf hann út reikninga fyrir framhaldsleigunni fyrir árin 2010, 2011 og 2012. Ekki verður annað ráðið af tölvuskeyti sem starfsmaður sóknaraðila sendi framkvæmdastjóra varnaraðila 11. ágúst 2011 en að fallist hefði verið á frystingu ótímabundið. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila um það fyrir fram að til stæði að bakfæra reikninginn, eða tilkynnt honum þá afstöðu sína að með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 hefði verið leyst úr álitamálum varðandi samning aðila fyrr en með tölvuskeyti 30. október 2012. Þótt taka megi undir það með varnaraðila að þessi háttsemi sóknaraðila sé aðfinnsluverð stendur þó eftir að varnaraðili hefur hvorki greitt umkrafða framhaldsleigu né boðið fram greiðslu á kaupverði umræddra tækja.

Samkvæmt 28. gr. samnings aðila var sóknaraðila heimilt að rifta honum án fyrirvara ef leigutaki greiddi ekki tilskildar greiðslur á umsömdum gjalddögum og vanskil stæðu lengur en í fimmtán daga. Riftun sóknaraðila á samningnum 18. janúar 2013 var því lögmæt og umráðaréttur varnaraðila yfir umræddum tækjum því niður fallinn. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eru þar af leiðandi uppfyllt. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.

Ákvæði 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 hefur í réttarframkvæmd verið túlkað til samræmis við þau ummæli sem fram koma í athugasemdum við 84. gr. frumvarps sem varð að þeim lögum, á þann veg að sú regla eigi við tilvik þar sem hagsmunir gerðarþola af málefni eru ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, ef gerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu við héraðsdómara. Þeir hagsmunir sem varnaraðili hefur af því að gerðinni verði frestað þar til Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu í málinu eru einvörðungu fjárhagslegs eðlis. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á varakröfu varnaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sóknaraðila, Lýsingu hf., er heimilt að fá Corton lýsingarbekk, PL Prepress Equipm. þurrkara og Edale viðbót í prentvél, nánar tiltekið fimmta lit í fjögurra lita prentvél, allt samkvæmt reikningi nr. 72069, tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Plast-miða og tækja ehf.

Málskot til æðra dóms frestar ekki aðför samkvæmt þessum úrskurði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.