Hæstiréttur íslands
Mál nr. 582/2007
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2008. |
|
Nr. 582/2007. |
Stjarnan ehf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Halldóru Theodórsdóttur(Anton B. Markússon hrl.) |
Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn. Sératkvæði.
H var ein við störf á veitingastaðnum S er hún opnaði skáp sem brauðbakkar voru ofan á og féllu þeir niður háls hennar. Varð hún fyrir tjóni. Deilt var um sakarábyrgð vegna slyssins. Hæstiréttur taldi að um tilkynningarskylt slys hefði verið að ræða. Þar sem S sinnti ekki skyldu sinni um að tilkynna það til V og engin rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi var S látin bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem gátu haft áhrif á sakarmat og voru talin óljós. Var fallist á með héraðsdómi að við það yrði miðað að á þessum tíma hefði ekki verið auðvelt um vik að geyma tóma bakka annars staðar en ofan á skápnum, nokkuð yfir höfuðhæð H. Var því lagt til grundvallar að S hefði ekki nægjanlega sinnt skyldum sínum við að tryggja öryggi á vinnustaðnum og félagið því talið bera fébótaábyrgð á tjóni H. Á hinn bóginn var talið að H ætti sjálf nokkra sök á slysinu og hún því látin bera helming tjóns síns sjálf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefndu og að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar hennar hér fyrir dómi.
I.
Í héraðsdómi var krafa stefndu tekin til greina „með vöxtum“ af tilgreindum fjárhæðum fyrir tímabil frá 10. maí 2003 til 13. júní 2006, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Var það í samræmi við orðalag sem stefndi hafði á kröfugerð sinni í stefnu í héraði, þó þannig að krafa hans um „vexti“ náði yfir styttra tímabil eða frá 10. maí 2003 til 24. mars 2005, en eftir það skyldu dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 leggjast við dæmda fjárhæð. Stefndi gat þess þó síðar í stefnunni að krafist væri vaxta fyrir tímabilið frá 10. maí 2003 til 24. mars 2005 samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var þetta ítrekað á skjali stefnda lögðu fram við aðalmeðferð málsins og tiltekið að krafist væri 4,5% ársvaxta af tilgreindum fjárhæðum fram til 24. mars 2005 en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 skyldu leggjast á kröfufjárhæðina frá þeim tíma. Þessa var hins vegar ekki getið þegar gerð var grein fyrir kröfu stefnda í héraðsdómi og ekki í dómsorði eins og áður greinir. Samkvæmt framanrituðu verður að skilja dómsorð héraðsdóms svo að átt sé við 4,5% ársvexti eins og kveðið er á um í umræddri grein skaðabótalaga á þeim tíma sem um ræðir.
II.
Aðilar máls eru sammála um að málsatvik hafi verið með þeim hætti að stefnda hafi verið að opna skáp í veitingastaðnum Subway í Grafarvogi er brauðbakkar, sem ofan á honum voru, féllu niður á háls hennar með þeim afleiðingum sem greinir í matsgerð dómkvaddra manna. Deilt er um sakarábyrgð vegna slyssins en ekki er ágreiningur um afleiðingar þess og bótafjárhæðina.
Fram er komið að stefnda var ein við störf í veitingastaðnum umrætt sinn og hafði tíðkast fyrir slysið að viðhafa það vinnulag að leggja brauðbakka upp á hitaskáp enda hafi það verið hendi næst, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Þetta mun hafa verið hluti af margvíslegum öðrum störfum hennar hjá áfrýjanda. Um þetta sagði starfsmannastjóri áfrýjanda fyrir dómi: „Það hefur aldrei verið nein regla með það að segja krökkunum hvar þau eiga að raða bökkunum í rauninni en frekar að segja þeim að þeir eigi ekki að vera sjáanlegir tómir viðskiptavinum. Þannig að það í rauninni bara eftir því hvað manni finnst kannski best að gera þegar maður er í afgreiðslu og mikið er að gera þá setur maður þá kannski þar sem manni finnst best að setja þá.“ Hún sagði jafnframt að tíðkast hafi að setja bakkana upp á þennan skáp þótt hún teldi það ekki hafa verið vel séð af yfirmönnum. Þá er nægilega fram komið með framburði annars samstarfsmanns stefndu fyrir dómi að eftir slysið hafi verið breytt um vinnulag hjá áfrýjanda hvað þetta varðar.
Fallist er á með héraðsdómi að um tilkynningarskylt slys hafi verið að ræða. Þar sem áfrýjandi sinnti ekki skyldu sinni um að tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins og engin rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi verður hann látinn bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og eru talin óljós, eins og að framan greinir. Til að mynda voru hvorki umræddir bakkar skoðaðir né það hvort brauðskápurinn var valtur. Þá voru ekki athuguð atriði varðandi verkferli á staðnum, sem eins og áður segir munu hafa breyst eftir slysið. Stefnda var ein við vinnu þegar slysið varð, en hvorki er upplýst hversu lengi svo hafði verið né hvort aðrir starfsmenn höfðu sett einhverja af þeim bökkum sem um ræðir upp á skápinn. Ekki verður fullyrt um gerð og þyngd bakkanna en stefnda telur þá líklega hafa verið um hálft kg hver að þyngd og úr stáli. Þá er óljóst hversu margir bakkar féllu á stefndu en hún telur að þeir hafi verið 5-10. Verður fallist á með héraðsdómi að við það verði miðað að á þessum tíma hafi ekki verið auðvelt um vik að geyma tóma bakka annars staðar en ofan á skápnum, nokkuð yfir höfuðhæð stefndu. Verður því lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki nægjanlega sinnt skyldum sínum við að tryggja öryggi á vinnustaðnum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á með stefndu að áfrýjandi beri fébótaábyrgð á tjóni hennar.
Á hinn bóginn verður að telja stefndu einnig eiga nokkra sök á slysinu, en hún mun að líkindum sjálf hafa sett flesta ef ekki alla umrædda brauðbakka upp á skápinn. Henni bar að gæta að sér við vinnu sína eftir því sem sanngjarnt og eðlilegt verður talið. Hún hafði unnið á staðnum um töluverðan tíma, var því kunnug aðstæðum og bar að sýna aðgæslu við verkið sem var einfalt. Verður stefnda samkvæmt þessu látin bera helming tjóns síns sjálf.
Ekki er ágreiningur um heildartjón stefndu, 1.563.984 krónur. Af því ber áfrýjanda að greiða henni helminginn eða 781.992 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði en fyrir Hæstarétti er ekki ágreiningur um vexti, eins og áður segir.
Dæma ber áfrýjanda til að greiða 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Staðfest verður gjafsóknarákvæði héraðsdóms en gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Stjarnan ehf., greiði stefndu, Halldóru Theodórsdóttur, 781.992 krónur með 4,5% ársvöxtum af 188.463 krónum frá 10. maí 2003 til 10. júlí 2003, en af 781.992 krónum frá þeim degi til 13. júní 2006, en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði 800.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Antons Björns Markússonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Áfrýjandi hefur viðurkennt að stefnda hafi látið stjórnanda matsölustaðarins vita um slysið sama dag og það átti sér stað. Stefnda var svo frá vinnu í nokkra daga vegna þeirra meiðsla sem hún hlaut. Áfrýjanda bar því samkvæmt 1. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skylda til að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins innan viku frá slysdegi. Þetta gerði hann ekki og var slysið ekki tilkynnt fyrr en í september 2003. Engin rannsókn fór fram af hálfu vinnueftirlitsins. Þetta leiðir til þess að frásögn stefndu af atvikum að slysinu verður lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu um þau og ekki valda ágreiningi.
Stefnda byggir skaðabótakröfu sína á því að aðbúnaður við starf það sem hún vann hafi verið óforsvaranlegur og megi rekja slysið til þess. Ekki hafi verið forsvaranlegt að geyma brauðbakka ofan á geymsluskáp þeim sem um ræðir í málinu. Hann hafi verið á hjólum. Þess vegna hafi hann getað komist á hreyfingu þegar unnið var við hann og þá skapast hætta á að bakkar féllu af skápnum á viðkomandi starfsmann. Þetta sé það sem gerst hafi umrætt sinn.
Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af nefndum skáp og bökkum af þeirri gerð sem féllu á stefndu. Skápurinn er lítillega hærri en stefnda en þó ekki hærri en svo að ekki var neinum vandkvæðum bundið fyrir hana að leggja bakka frá sér ofan á hann. Flöturinn ofan á skápnum er nægilega stór til að þar megi leggja frá sér bakka án þess að hætta sé á að þeir falli af skápnum ef þeim er komið þar fyrir með þeim hætti að leggja þá hvern ofan í annan og gæta þess að þeir standi ekki tæpt. Þetta er einfalt verk og var ekki þörf neinnar sérþekkingar til að inna það hættulaust af hendi.
Stefnda hefur ekki haldið því fram að aðrir starfsmenn áfrýjanda hafi komið bökkunum, sem á hana féllu, fyrir ofan á skápnum, enda er óumdeilt að hún var ein við störf á matsölustaðnum, þegar slysið varð. Þegar litið er til aðstæðna verður ekki annað fyrir en slysið verði rakið til þess að stefnda hafi lagt bakka frá sér ofan á skápinn án þess að gæta nægilega vel að hættu á að þeir féllu út af skápnum þegar unnið væri við hann. Ég tel ekki unnt að fallast á með stefndu að eitthvað hafi verið athugavert við það vinnulag að leggja tóma bakka ofan á skápinn eða að þörf hafi verið sérstakra leiðbeininga vinnuveitandans um hvernig standa ætti að því verki. Ég er því ósammála meirihluta dómara um að skilyrði séu til að leggja bótaskyldu á áfrýjanda vegna slyss stefndu og tel að sýkna beri áfrýjanda af kröfu hennar og fella niður málskostnað á báðum dómstigum. Ég er sammála meirihlutanum um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007.
Mál þetta er höfðað 8. júní 2006 og dómtekið 25. september 2007. Stefnandi er Halldóra Theódórsdóttir, Dyrhömrum 2, Reykjavík. Stefndi er Stjarnan ehf., Suðurlandsbraut 46, Reykjavík. Upphaflega var málið höfðað gegn stefnda og Vátryggingafélagi Íslands hf. til greiðslu óskiptra bóta. Undir rekstri málsins var hins vegar fallið frá kröfum á hendur félaginu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.563.984 kr., ásamt vöxtum af 376.925 kr. frá 10. maí 2003 til 10. júlí 2003 og af 1.563.984 kr. frá 10. júlí 2003 til 24. mars 2005. Einnig krefst stefnandi dráttarvaxta af allri stefnufjárhæðinni frá 24. mars 2005 til greiðsludags, samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að sök verði skipt, dómkröfur lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
I.
Stefnandi vann hjá stefnda á matsölustaðnum Subway í Spönginni, Grafarvogi. Er hún var við vinnu sína hinn 10. maí 2003 varð hún fyrir því að brauðbakkar, sem hún hafði staflað ofan á skáp, féllu á höfuð hennar.
Samkvæmt læknisvottorði Guðmundar Inga Georgssonar, frá 3. október 2003, leitaði stefnandi hinn 12. maí til Heilsugæslu Grafarvogs, tveimur dögum eftir slysið, vegna verkja í hálsi. Stefndi tilkynnti um slysið til Vinnueftirlits ríkisins hinn 23. september 2003. Þá undirrituðu aðilar hinn 6. október sama ár tilkynningu um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 6. apríl 2004, var óskað eftir því við Vátryggingafélag Íslands hf. að það viðurkenndi bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir, þar sem slysið væri að rekja til þess að sú aðferð sem notuð hafi verið við að geyma bakkana hafi ekki verið rétt. Félagið svaraði erindinu með tölvuskeyti 28. júlí 2004 og var bótaskyldu hafnað.
Stefnandi leitaði eftir því við Sigurjón Sigurðsson lækni að hann mæti afleiðingar slyssins. Í niðurstöðu hans, dags. 24. febrúar 2005, mat hann varanlegan miska stefnanda 5% og varanlega örorku 5%. Þá taldi hann að stefnandi hefði ekki getað vænst frekari bata eftir 10. júlí 2003.
Fyrir liggur vottorð Júlíusar Valssonar, sérfræðings í gigtarlækningum, dags. 9. febrúar 2007. Þar kemur fram að stefnandi hafi leitað til hans í fyrsta sinn 18. febrúar 2004 og kvartað undan verkjum í hálsi, herðum og höfði, sem hún rakti til slyssins. Var læknirinn í meginatriðum sammála niðurstöðu Sigurjóns Sigurðssonar læknis um afleiðingar slyssins.
Samkvæmt tjónskvittun Vátryggingafélags Íslands, frá 14. apríl 2005, greiddi félagið stefnanda 251.730 kr. í bætur úr slysatryggingu launþega.
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. febrúar 2007, var stefnanda tilkynnt að hún ætti rétt á bótum vegna slyssins. Um væri að ræða sjúkrahjálp, dagpeninga og örorkubætur ef örorka væri meiri en 10%. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. apríl 2007, segir svo að ekki verði um greiðslu örorkubóta að ræða þar sem örorka hennar taldist undir 5% að mati stofnunarinnar. Var mat þetta byggt á matsgerð Guðmundar Björnssonar, sérfræðings í endurhæfingarlækningum.
Undir rekstri máls þessa óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar slyssins. Matsmennirnir Atli Þór Ólason læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður skiluðu matsgerð, dags. 2. apríl 2007. Niðurstaða þeirra var sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% í tvær vikur. Tímabil þjáningabóta vegna rúmlegu væri ekkert, en batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, væri tvær vikur. Varanlegur miski væri 5% og varanleg örorka 5%. Stöðugleikatímapunktur væri hinn 10. júlí 2003.
II.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Einnig kom fyrir dóminn Hulda Björk Halldórsdóttir, sem hefur verið verslunarstjóri hjá stefnda í 10 ár og var starfandi í eitt ár á umræddum veitingastað, á þeim tíma er slysið varð. Þá kom fyrir dóminn Eva Guðríður Guðmundsdóttir sem vann hjá stefnda á þeim tíma er slysið varð.
Fyrir dóminum lýsti stefnandi atvikum þannig að hún hafi verið að taka brauð út úr skápnum og greinilega hrist hann eitthvað þannig að bakkarnir hrundu af honum og á hana. Þeir hefðu verið 7-10 talsins. Hún kvaðst hafa klárað vaktina og verið í vaktafríi næstu tvo daga. Hún hefði þá komið aftur til vinnu og farið á heilsugæslu sem var við hliðina á veitingastaðnum. Hún hefði svo greint Huldu Björk vaktstjóra frá því að samkvæmt læknisráði þyrfti hún að vera frá vinnu í tvær vikur. Stefnandi sagði að umræddur skápur hefði verið 170-180 sm hár og notaður til að geyma brauð. Þegar brauðbakki tæmdist hafi hann verið tekinn úr skápnum og yfirleitt settur ofan á skápinn, en það hefði verið þægilegast. Þegar nokkrir bakkar söfnuðust saman hefði verið farið með þá bakatil. Fjöldi bakka sem söfnuðust hefði farið eftir því hversu mikið var að gera. Stefnandi kvaðst hafa viðhaft þetta verklag þau fjögur ár sem hún vann þar og allir hafi gert þetta. Engar sérstakar verklagsreglur hefðu gilt um þetta, en þetta hefði ekki sætt athugasemdum. Eftir slysið hefði hins vegar verið rætt um það milli starfsmanna að það væri bannað að setja bakka ofan á skápinn og þeir settir ofan á örbylgjuofn, sem var við hliðina á brauðskápnum, við endann á afgreiðsluborðinu, eða bakatil en oft hafi verið of mikið að gera til þess að það væri hægt.
Eva Guðríður Guðmundsdóttir kvaðst hafa komið til vinnu slysdaginn og stefnandi greint sér frá því að hún hefði meitt sig stuttu áður við það að hún fékk á sig bakka ofan af brauðskápnum. Eva Guðríður sagði að engar sérstakar verklagsreglur hefðu gilt um hvað ætti að gera við bakkana, en starfsfólk hefði sett þá upp á skápinn þar sem það hefði verið þægilegast. Þetta hefði verið eini staðurinn þar sem pláss var fyrir þá. Vitnið kannaðist ekki við að það hefði verið illa séð að hafa bakkana þar, en eftir slysið hefðu verið gefin fyrirmæli um það að setja bakkana ekki upp á skápinn heldur á vinnuborð.
Hulda Björk Halldórsdóttir kvaðst hafa fengið vitneskju um slysið sama dag og það varð. Þá kom fram að henni var kunnugt um það að stefnandi var í kjölfarið frá vinnu um tíma vegna þess og þurfti að leita sjúkraþjálfunar. Hulda Björk gat ekki gefið skýringu á því af hverju slysið var ekki strax tilkynnt Vinnueftirlitinu. Hún mundi ekki sérstaklega hver venjan hafi verið að geyma bakkana. Þeir hefðu fremur verið settir á örbylgjuofninn, á borð, eða farið með þá beint bakatil því ekki hefði verið vel séð að bakkarnir væru viðskiptavinum sýnilegir. Þegar mikið var að gera hefði hins vegar ekki verið hægt að fara með einn og einn bakka bakatil og þeim því safnað saman. Engin regla hefði verið um það hvar starfsfólk átti að setja þá, en þeir hefðu ekki átt að vera sýnilegir. Það hafi verið háð mati hverju sinni, þegar mikið var að gera, hvar best var að setja þá. Hún sagði að í dag væri brauðskápurinn jafn hár bakaraofninum og hann því of hár til að setja bakka ofan á hann.
III.
Stefnandi byggir bótakröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993. Hún telur að aðbúnaði á vinnustaðnum hafi verið ábótavant og hún eigi ekki sök á slysi því sem hún varð fyrir. Eigi hún því ekki að bera hluta tjónsins sjálf.
Stefnandi bendir á að hvorki liggi fyrir skýrsla Vinnueftirlitsins né lögreglu og beri stefndi hallann af sönnunarskorti sem af því hljótist. Stefndi beri ábyrgð á því að vinnusvæði uppfylli skilyrði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða reglum tengdum þeim. Stefndi hafi ekki gætt þess með fullnægjandi hætti. Stefnandi kveðst hafa lotið húsbóndavaldi stefnda eða starfsmanna hans. Ljóst sé að slysið megi rekja til þess að aðferð sú sem notuð hafi verið til þess að geyma bakka hafi ekki verið forsvaranleg. Bakkana hefði átt að geyma nær jörðu svo ekki væri um mikla slysahættu að ræða. Auk þess hafi skápurinn verið á hjólum og því líklegra en ella að það sem sett væri ofan á hann kæmist á hreyfingu. Þrátt fyrir þessa augljósu hættu hafi engar ráðstafanir verið gerðar af hálfu stefnda til þess að varna því að bakkarnir féllu af skápnum. Aðstæður hafi því verið óforsvaranlegar og til þess fallnar að valda tjóni. Hafi stefndi borið ábyrgð á þessu en ekki stefnandi.
Stefnandi vísar til 41. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segi að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Telur stefnandi ljóst að stefndi hafi brotið þessa skyldu. Þá segi í 79. gr. sömu laga að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verði óvinnufær í einn eða fleiri daga. Í mattsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis komi fram að stefnandi hafi verið óvinnufær í tvær vikur. Þrátt fyrir óvinnufærni hennar og skyldu stefnda til að tilkynna um slysið hafi það ekki verið gert fyrr en löngu síðar og sé það ástæða þess hversu óljós málsatvik séu. Stefnda hafi verið í lófa lagt að láta rannsaka slysið en ekki gert það. Verði að meta það stefnanda í hag, enda hafi það jafnan verið metið vinnuveitanda til gáleysis að vanrækja þessa skyldu sína.
Stefnandi telur að slysið verði ekki rakið til óhappatilviljunar þar sem skilyrði fyrir því séu ekki uppfyllt. Skilyrðin séu m.a. að tjón megi ekki rekja til gáleysislegrar háttsemi eða annarrar háttsemi sem uppfylli huglæg og hlutlæg skilyrði sakarreglunnar, eða háttsemi sem falli undir víðtækari ábyrgðarreglur. Ástæða slyssins sé óforsvaranleg aðferð við geymslu á bökkum og breyti það engu um skaðabótaábyrgð stefndu þó ekki sé hægt að staðreyna hvaða starfsmaður vinnuveitanda það hafi verið sem olli skaðaverki með athöfn eða athafnaleysi sínu, sbr. regluna um nafnlaus mistök. Stefnandi, sem var ófaglærður starfsmaður, hafi ekkert haft um það að segja hvernig aðstæður á vinnustaðnum hafi verið. Stefndi hafi haft yfirumsjón með vinnustaðnum og beri því fulla ábyrgð á aðstæðum gagnvart starfsmönnum sínum.
Stefnandi telur að af framansögðu leiði að stefndi beri fulla ábyrgð á tjóni því sem hún hafi orðið fyrir í umræddu slysi og ekki sé grundvöllur til að skipta sök. Stefnandi vísar því alfarið á bug að hún hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu eða að slysið megi rekja til eigin sakar hennar að nokkru leyti.
Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína, að fjárhæð 1.563.984 kr., með eftirfarandi hætti:
|
Þjáningabætur: 60 dagar á 1.090 kr. (dagar án rúmlegu) |
65.400 kr. |
|
Varanlegur miski (5%): 5% af kr. 6.230.500 kr. |
311.525 kr. |
|
Varanleg örorka (5%): |
1.187.059 kr. |
Stefnandi hafi verið með lág laun sl. 3 ár fyrir slys. Því sé byggt á lágmarkslaunum, þ.e. árslaunum að upphæð 1.637.500 kr., sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
1.637.500 kr. x 17,573 x 5% = 1.438.789 kr. Frá dragist greiðsla Vátryggingafélags Íslands hf. að fjárhæð 251.730 kr.
Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vegna miska og þjáninga frá tjónsdegi 10. maí 2003 til 24. mars 2005 og vegna varanlegrar örorku frá stöðugleikapunkti 10. júlí 2003 til 24. mars 2005. Þá er krafist dráttarvaxta frá 24. mars 2006 til greiðsludags, samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar sem gilt hafi á slysadegi svo og almennu sakarreglunnar. Þá er vísað til meginreglna um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka sem rekja megi til ásetnings eða gáleysis og/eða vanrækslu starfsmanna. Jafnframt er vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi málskostnað er vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um dráttarvexti er byggð á 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
IV.
Stefndi hafnar því að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiða eigi til þess að hann beri skaðabótaábyrgð á meintu líkamstjóni stefnanda. Telur stefndi að slysið hafi orðið vegna eigin sakar stefnanda, svo og óhappatilviljunar.
Stefndi segir að ein af meginreglum skaðabótaréttarins sé sú að tjónþoli þurfi að sanna að hann hafi orðið fyrir tilteknu tjóni, að það sé vegna háttsemi sem er skaðabótaskyld að lögum og að tjónið sé afleiðing af þeirri háttsemi. Stefndi hafnar því í fyrsta lagi að sönnun hafi tekist um að meint líkamstjón stefnanda hafi orðið vegna skaðabótaskyldrar háttsemi stefnda. Í öðru lagi er því hafnað að meint líkamstjón stefnanda sé vegna framangreindrar háttsemi, þ.e. stefndi telur líkamstjón stefnanda ekki sannað.
Stefndi vísar til þess að stefnandi byggi á því að stefndi beri ábyrgð vegna þess að aðbúnaði á vinnustað hafi verið ábótavant. Í stefnu sé málavöxtum lýst þannig að stefnandi hafi opnað hurð geymsluskáps og við það hafi brauðbakkar, sem voru ofan á honum, fallið ofan á höfuð stefnanda. Í tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar ríkisins sé málsatvikum lýst á annan hátt. Þar segi að stefnandi hafi verið að taka bakka ofan af bakaraofni og fengið bakkana í höfuðið. Þessa atvikalýsingu staðfesti stefnandi með undirritun sinni.
Stefndi segir að ljóst sé að stefnandi hafi fengið brauðbakka, sem voru ofan á skáp eða bakaraofni, í höfuðið, en hún hafi sjálf sett bakkana þar upp á. Ekki hafi verið ætlast til þess að bakkarnir væru settir upp á skápinn/ofninn heldur hafi verið nóg pláss annars staðar. Þá er því hafnað að sérstök slysahætta hafi skapast við að geyma bakkana þarna ofan á.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að brotið hafi verið gegn settum lögum eða reglugerðum. Stefnandi vísi eingöngu til almenns ákvæðis í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 41. gr., en það eigi líklega að vera gr. 42. Þar sé ekki að finna neinar leiðbeiningar um hegðun eða háttsemi sem beri að viðhafa, heldur sé um að ræða almenna viljayfirlýsingu um það hvernig löggjafinn vilji hafa vinnustaði almennt. Í 42. gr. laganna segi að vinnustaður skuli vera þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Svo verði að sanna með einhverjum hætti að brotið hafi verið gegn þessu almenna ákvæði. Það hafi ekki tekist að mati stefnda.
Stefndi segir að aðferðin sem stefnandi hafi notað til þess að geyma bakkana hafi ekki verið viðurkennd af hálfu stefnda. Stefnandi hafi sjálf ákveðið að geyma bakkana á skápnum/ofninum. Ekki hafi verið um fyrirskipun að ræða hjá stefnda um að geyma brauðbakkana með þessum hætti, heldur hafi stefnandi tekið þetta upp hjá sjálfri sér. Þótt stefndi hefði fyrirskipað þessa geymsluaðferð telur hann að ekkert athugavert sé við hana og engin sérstök hætta skapist af henni. Ljóst sé að stefnandi hljóti að hafa misst bakkana og hafi það ekkert með geymsluaðferðina að gera. Hefði það getað gerst hvort sem er. Engu máli skipti heldur þótt hjól hafi verið á skápnum því ekki sé byggt á því að slysið hafi orðið vegna þeirra.
Stefndi vísar til 1. málsl. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 þar sem segi að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlitsins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Tilkynningarfrestur sé sólarhringur í þeim tilvikum sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. laganna. Stefndi telur ósannað að stefnandi hafi tilkynnt honum strax um slysið. Stefnandi hafi hætt vinnu nokkrum klukkutímum eftir slysið, eða aðeins fyrr en hún hafi átt að gera. Hún hafi komið til vinnu daginn eftir en mætt svo 12. maí 2003 og unnið frá klukkan 18:45 til 22:00. Hún hafi verið fjarverandi frá 13. maí 2003 til og með 23. maí 2003, eða í 11 daga. Ekkert liggi fyrir um að hún hafi skýrt frá því að hún væri frá vinnu vegna slyssins.
Því er alfarið hafnað að meint brot á tilkynningarskyldu hafi einhverja þýðingu í málinu. Í fyrsta lagi hefði málið ekki verið betur upplýst ef Vinnueftirlitinu hefði verið tilkynnt strax um slysið. Í öðru lagi er því hafnað að það hefði einhverja þýðingu fyrir málið ef það hefði verið betur upplýst. Ljóst sé að stefnandi fékk brauðbakka í höfuðið og telur stefndi það vera henni sjálfri að kenna.
Stefndi mótmælir því að líkamstjón stefnanda teljist sannað með matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Telur stefndi að hún hafi ekkert sönnunargildi. Stefnandi hafi óskað eftir matinu einhliða, án þess að stefndi fengi tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri. Dragi það úr sönnunargildinu. Matið sé unnið af lækni sem lögmenn almennt leiti mjög mikið til. Stefnandi ráði því hvaða gögn læknirinn fái í hendur og geti komið með athugasemdir á matsfundi. Stefndi hafi hins vegar ekki getað haft áhrif á framlagningu gagna og ekki verið boðaður á matsfund. Stefndi telur marga ágalla vera á matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Í fyrsta lagi sé í verulegum atriðum eingöngu byggt á frásögn stefnanda sjálfs án þess að gögn styðji þá frásögn. Hafi Hæstiréttur í þeim tilvikum hafnað matsgerð sem sönnunargagni. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn um fyrra heilsufar þrátt fyrir sögu um vefjagigt og þunglyndi. Læknirinn hafi heldur ekki aflað þeirra gagna og viti því ekki nákvæmlega hvaða einkenni stefnandi hafði fyrir slysið. Geti hann því ekki metið sjálfstætt hvort einkenni hafi breyst eitthvað. Rýri það sönnunargildi matsins að verulegu leyti. Í þriðja lagi sé rökstuðningi matsins verulega ábótavant, sérstaklega um varanlega örorku stefnanda, en hann sé í einni setningu. Í fjórða lagi voru engin gögn frá gigtarlækni stefnanda lögð fram þrátt fyrir að hún hafi verið í meðferð hjá honum bæði fyrir slysið og eftir slysið. Vegna þessa hafi allar staðreyndir málsins ekki verið lagðar fram við matið.
Stefndi telur meint líkamstjón vegna umrædds slyss ekki nægilega sannað og því verði að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er þess krafist að sök verði skipt í málinu og að kröfur verði lækkaðar. Ljóst sé að stefnandi beri sjálf að verulegu leyti sök á meintu líkamstjóni vegna slyssins. Þegar slysið varð 10. maí 2003 hafi hún verið búin að vinna hjá stefnda í tæp fjögur ár, eða frá því í ágúst 1999. Ekki hafi verið ætlast til þess að hún setti bakkana upp á skápinn, en hún hafi samt gert það. Hún hafi svo verið staðin að því sama nokkru eftir slysið. Nóg sé af plássi til þess að geyma bakkana annars staðar, þannig að ekki hafi verið nauðsynlegt að geyma þá uppi á skápnum. Að öðru leyti er um rökstuðning fyrir varakröfu vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Upphafsdagur dráttarvaxta 24. mars 2005 sé ekki rökstuddur. Beri því að miða við dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Þá er þess krafist að bætur sem stefnandi kann að hafa fengið frá Tryggingastofnun ríkisins komi til frádráttar.
Um málskostnað vegna aðalkröfu er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vegna varakröfu til 3. mgr. 130. gr. sömu laga.
V.
Í máli þessu er deilt um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi sem stefnandi varð fyrir er brauðbakkar féllu á hana ofan af skáp sem notaður var til að geyma brauð. Einnig er ágreiningur um það hvort líkamstjón stefnanda sé sannað.
Stefnandi var ein við störf umrætt sinn og enginn sjónarvottur að slysinu. Starf hennar var í sjálfu sér einfalt. Fyrir dómi sagði hún að engar sérstakar reglur hafi gilt um það hvar ætti að setja tóma bakka en það hafi verið þægilegast að setja þá ofan á brauðskápinn. Þegar nokkrir bakkar höfðu safnast saman hafi verið farið með þá bakatil en það hefði farið eftir því hversu mikið var að gera. Hafi starfsfólk viðhaft þetta fyrirkomulag og það ekki sætt athugasemdum, en verið bannað eftir slysið. Er þetta í samræmi við vitnisburð Evu Guðríðar Guðmundsdóttur sem var starfsstúlka hjá stefnda. Fyrir liggja ljósmyndir af aðstæðum eins og þær voru á slysdegi. Af þeim sést að ekki er auðvelt um vik að geyma tóma bakka og liggur beinast við að setja þá ofan á skápinn. Augljóslega er það vandkvæðum háð að fara með einn og einn bakka bakatil, sérstaklega þegar annasamt er eða starfsmaður er einn að störfum.
Stefnandi hefur lýst því að skápurinn hafi eitthvað hrist þannig að bakkarnir hrundu af honum. Fram hefur komið að Hulda Björk verslunarstjóri vissi um slysið sama dag og það varð og að stefnandi hafi í kjölfarið verið óvinnufær um nokkurn tíma. Var þannig fullt tilefni til að tilkynna án tafar um vinnuslys stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það var ekki fyrr en rúmum fimm mánuðum eftir slysið sem það var tilkynnt, en þá fór rannsókn ekki fram. Ef stefndi hefði gætt lagaskyldu um að hlutast til um rannsókn á slysinu án ástæðulausrar tafar hefði verið hægt að leiða í ljós orsök þess að bakkarnir duttu og þá hvort skápurinn kunni að hafa verið óstöðugur, en fyrir liggur að hann var á hjólum. Verður stefndi að bera hallann af óvissu um orsök þess að bakkarnir féllu og hann látinn bera skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda. Að mati dómsins sýndi stefnandi ekki af sér ógætni þannig að um meðábyrgð hennar geti verið að ræða.
Eins og áður segir er í málinu ágreiningur um það hvort tjón stefnanda sé sannað. Undir rekstri málsins voru dómkvaddir matsmenn. Í fyrirliggjandi matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns segir að stefnandi hafi fyrir slysið verið greind með vefjagigt, en hún hafi verið vinnufær. Eftir slysið hafi hún haft aukna verki í höfði, hálsi, herðum og niður eftir baki og séu einkenni staðfest hjá lækni tveimur dögum eftir slysið. Einkenni og og niðurstaða þeirrar skoðunar sé í samræmi við síðari gögn og skoðun á matsfundi. Telja matsmenn að hluta af núverandi einkennum stefnanda megi tengja slysinu 10. maí 2003. Við mat á varanlegum miska var m.a. tekið tillit til einkenna frá stoðkerfi fyrir slysið. Stefndi hefur ekki hnekkt matinu og verður niðurstaða þess, um 5% varanlegan miska stefnanda og 5% varanlega örorku hennar, lögð til grundvallar í málinu.
Ekki er deilt um útreikning skaðabótakröfu stefnanda. Ágreiningur er hins vegar um upphafstíma dráttarvaxta. Stefnandi miðar upphafstíma þeirra við 24. mars 2005, en mat Sigurjóns Sigurðssonar læknis um afleiðingar slyssins er dagsett mánuði áður, 24. febrúar. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að krafa hafi verið gerð á hendur stefnda með ákveðinni fjárhæð fyrr en við birtingu stefnu í málinu 8. júní 2006. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu dráttarvextir reiknaðir frá þingfestingu málsins 13. júní 2006. Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.563.984 krónur auk vaxta og dráttarvaxta, eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 836.300 krónur í málskostnað, er renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, alls 836.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Er þar um að ræða þóknun lögmanns hennar, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 373.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Útlagður kostnaður vegna matsgerðar er samtals 462.800 krónur.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Stjarnan ehf., greiði stefnanda, Halldóru Theódórsdóttur, 1.563.984 krónur, með vöxtum af 376.925 krónum frá 10. maí 2003 til 10. júlí sama ár og af 1.563.984 krónum frá þeim degi til 13. júní 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði 836.300 krónur í málskostnað, er renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 836.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 373.300 króna málflutningsþóknun lögmanns hennar, Bergrúnar Elínar Benediktsdóttur héraðsdómslögmanns.