Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Þriðjudaginn 5. maí 2015.

Nr. 285/2015.

Hús fyrir Epal ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. gegn L hf. var vísað frá dómi á þeim grundvelli að H ehf. hefði hvorki í stefnu né með framlagningu útreikninga eða annarra gagna sýnt fram á fjárhagslega hagsmuni sína af viðurkenningardómi í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kröfugerð H ehf. í héraðsdómsstefnu bæri skýrlega með sér að hann leitaði viðurkenningardóms um að þau ákvæði samningsins um tengingu greiðslna samkvæmt honum við gengi erlendra gjaldmiðla, sem fjárkrafa L hf. væri reist á, færi í bága við 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og væru því þar af leiðandi óskuldbindandi fyrir hann. Hefði hann því lögvarða hagsmuni að fá úr þessu skorið, enda réðist fjárhagslegt uppgjör málsaðila samkvæmt samningnum af niðurstöðu þar um. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði gerir sóknaraðili þá dómkröfu í máli þessu að viðurkennt verði að fjárkrafa samkvæmt samningi 8. nóvember 2004, sem ber yfirskriftina Fjármögnunarleigusamningur um fasteign og fylgifé, sem sóknaraðili yfirtók 25. apríl 2005, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi nánar tilgreindra erlendra gjaldmiðla feli í sér ólögmæta gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og sé því óskuldbindandi fyrir sóknaraðila.

Fram er komið í málinu að sóknaraðili hætti í júní 2012 að inna af hendi greiðslur til varnaraðila samkvæmt umræddum samningi. Kröfugerð sóknaraðila í héraðsdómsstefnu ber skýrlega með sér að hann leitar viðurkenningardóms um að þau ákvæði samningsins um tengingu greiðslna samkvæmt honum við gengi erlendra gjaldmiðla, sem fjárkrafa varnaraðila er reist á, fari í bága við 14. gr. laga nr. 38/2001 og séu þar af leiðandi óskuldbindandi fyrir hann. Hefur hann lögvarða hagsmuni af því að fá úr þessu skorið, enda ræðst fjárhagslegt uppgjör málsaðila samkvæmt samningnum af niðurstöðu þar um. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður  felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Eftir úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Lýsing hf., greiði sóknaraðila, Húsi fyrir Epal ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 13. mars 2015, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 2. júní 2013, af Húsi fyrir Epal ehf., Skeifunni 6, Reykjavík, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Kröfur aðila:

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að fjárkrafa samkvæmt samningi málsaðila sem beri heitið „fjármögnunarleigusamningur“ nr. 115337-1153408 frá 8. nóvember 2004 og stefnandi hafi yfirtekið, 25. apríl 2005, og þá fengið númerið 3045 hjá stefnda, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi evru (EUR), bandaríkjadollara (USD), japanskra jena (JPY) og svissneskra franka (CHF) feli í sér ólögmæta gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og sé óskuldbindandi fyrir stefnanda. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf.

Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Þann 13. mars s.l. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda. Er sá þáttur málsins hér til úrskurðar. Stefndi er sóknaraðili í þessum þætti málsins en stefnandi varnaraðili. Dómkröfur stefnanda eru að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið en ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.

Atvik máls:

Hinn 25. apríl 2005 yfirtók stefnandi réttindi og skyldur Grandvarar ehf. við stefnda skv. fjármögnunarleigusamningi um fasteign og fylgifé, dags. 8. nóvember 2004. Andlag samningsins var verslunar og lagerhúsnæði ásamt skrifstofuaðstöðu á 1. hæð húseignarinnar Skeifunni 6 í Reykjavík. Staða samningsins við yfirtökuna var 56.909.794 krónur og var sú fjárhæð við yfirtökuna sundurliðuð í evrur (EUR), Bandaríkjadali (USD), japönsk jen (JPY) og svissneska franka CHF).

Í 2. gr. fjármögnunarleigusamningsins kemur fram að samningurinn sé ótímabundinn en grunnleigutími sé 15 ár. Samningnum ljúki 9. desember 2019 en þá taki við framhaldsleiga skv. 6. gr. samningsins. Í 3. gr. kemur m.a. fram að leigugrunnur sé  62.000.000 króna og er sú fjárhæð á ákvæðinu umreikuð í erlenda gjaldmiðla þ.e. evrur, Bandríkjadali, japönsk jen og svissneska franka. Þá segir í ákvæðinu að mánaðarleg leigufjárhæð, sem tilgreind er í íslenskum krónum, sé í tilgreindum hlutföllum tengd gengi framangreindra gjaldmiðla. Í 4. gr. samningsins kemur m.a. fram að sé samningurinn gengistryggður séu allar greiðslur og gjöld, að undanskyldu stofngjaldi og vöxtum af útborguðu fé, gengistryggð miðað við myntkörfu skv. 3. gr. Leigugjaldið taki því breytingum eftir gengi hinna erlendu gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Á hverjum gjalddag skuli leigutaki greiða leigusala jafnvirði þeirrar fjárhæðar miðað við sölugengi hins eða hinna erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir séu í 3. gr. gagnvart íslenskri krónu samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Þá segir ennfremur í ákvæðinu að Lýsingu hf. sé á útgáfudegi reiknings heimilt að endurreikna leigugjald það, sem gengistryggt sé, samkvæmt breytingum sem verði á Libor-vöxtum eins og þeir séu á þeim erlenda eða erlendu gjaldmiðlum sem tilgreindir séu.

Ekki er ástæða til að rekja ákvæði samningsins frekar, í málavaxtalýsingu þessari, en að framan greinir að því undanskildu að hinn 9. september 2009 gerðu stefnandi og stefndi samkomulag um breytingu á samningnum. Í breytingunni fólst m.a. að tengingu leigugreiðslna við gengi svissneska franka var breytt í evrur.

Í mái þessu greinir aðila á um hvort framangreind tenging leigugreiðslna við gengi hinna tilgreindu gjaldmiðla brjóti í bága við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og sé af þeirri ástæðu ólögmæt.

Málsástæður stefnanda skv. stefnu og tilvísun til réttarheimilda:

Stefnandi kveður ágreining aðila eiga rætur sínar að rekja til greiðslna og uppgjörs skv. fjármögnunarleigusamningi aðila, sem nú sé nr. 3045. Samningsfjárhæð við yfirtöku stefnanda hafi verið 56.909.794 krónur, auk lokagjalds 1.673.062 krónur og virðisaukaskatts. Samningurinn hafi frá yfirtökudegi átt að gilda í 175 mánuði og renna út 9. desember 2019. Í júní 2012 hafi stefnandi hætt að greiða af samningnum vegna óvissu um lögmæti ákvæða samningsins um tengingu greiðslna við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þann 16. júní 2010 hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að kaupleigusamningar innihéldu ólögmæt gengistryggingarákvæði, sbr. dóma réttarins í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, uppkveðnum 16. september 2010, hafi síðan verið kveðið á um hvaða vexti slíkir samningar skyldu bera. Samkvæmt útreikningum stefnanda hafi hann þegar greitt stefnda meira en honum beri samkvæmt samningnum. Stefndi telji á hinn bóginn að stefnandi skuldi honum háar fjárhæðir ennþá samkvæmt samningnum og byggi þá afstöðu á því að ákvæði samningsins um gengistryggingu séu fullkomlega lögmæt. Í þessu máli reyni á það álitaefni hvort samningur nr. 3045 sé lánssamningur í skilningi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfur stefnanda séu á því reistar að umræddur samningur sé lánssamningur í skilningi laganna og því séu ákvæði hans um gengistryggingu ólögmæt og ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Á því sé byggt af hálfu stefnanda, að hvað sem líður heiti samningsins, þá sé um lánssamning að ræða, sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Stefnandi hafi þar af leiðandi ofgreitt stefnda þar sem ólögmætt hafi verið af stefnda að gengistryggja kröfur sínar samkvæmt honum. Samningur milli málsaðila beri heitið „fjármögnunar-leigusamningur“. Samningurinn sé í 15 tölusettum greinum, en 15. gr. innihaldi almenn ákvæði í stafliðum A-P. Fyrstu 3 greinar samningsins innihaldi sérstaka skilmála um þessi viðskipti, en aðrar greinar hans innihaldi almenna skilmála stefnda fyrir slíka löggerninga. Í sérstaka hluta samningsins, 1. gr., sé samningsandlagið skilgreint. Í 2. gr. sé „grunnleigutími“ tilgreindur þannig að samningurinn sé ótímabundinn en grunnleigutími sé 15 ár og ljúki 9. desember 2019. Þar komi og fram að gjalddagi fyrstu leigugreiðslu sé 10. desember 2004. Þar segi ennfremur að eftir lok grunnleigutímans taki við framhaldsleiga, sbr. 6. gr., en í þeirri grein segi ekki annað um framhaldsleiguna en að hún verði 1/12 af leigu á grunnleigutíma. Í 3. gr. séu „grunnleigugreiðslur“ tilgreindar í íslenskum krónum og skipting leigugrunnsins og tenging við einstaka gjaldmiðla sundurliðuð (EUR, USD, JPY og CHF).  Í þessari grein sé einnig svohljóðandi ákvæði um endurgjald til stefnda:

„Í desember á ári hverju ber leigutaka að greiða leigusala gjald sem er jafnhátt þeim eignarskatti sem leigusali þarf að greiða vegna samnings þessa. Sú upphæð er reiknuð út með því að draga eftirstöðvar samnings í árslok hverju sinni frá opinberu fasteignamati og margfalda þann mismun með viðeigandi eignarskattsprósentu og deila með 0,82 (l – tekjuskattsprósenta).“

Stefnandi muni sýna fram á að þrátt fyrir texta 2. og 6. gr. samningsins hafi verið um það samið að stefnandi eignaðist tækin gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok umsamins grunnleigutíma, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 20. október 2011 í máli nr. 282/2011. Í beinum tengslum við gerð samkomulags um yfirtöku samningsins hafi stefndi gefið upplýsingar um þau kjör sem gilt hafi um samninginn, þ. á m. um fjárhæð svokallaðs lokagjalds sem stefndi telji jafngilda svokallaðri framhaldsleigu samkvæmt þessum greinum samningsins.  Skilmála stefnda verði að skilja þannig að við lok umsamins grunnleigutíma hafi lokauppgjör átt að fara fram milli aðila með þeim hætti að gegn lokagreiðslu samkvæmt skilmálum stefnda ætti sér stað framsal eignaréttar yfir eigninni frá stefnda til stefnanda. Í 4. gr. samningsins sé fjallað um gengistryggingu en þar segi m.a.:

„Ef samningur er gengistryggður eru allar greiðslur og gjöld sem tilgreind eru í samningi þessum að undanskildu stofngjaldi og vöxtum af útborguðu fé gengistryggð miðað við myntkörfu skv. 3. gr. Leigugjaldið tekur því breytingum eftir gengi hinna erlendu gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Á hverjum gjalddaga skal leigutaki greiða leigusala jafnvirði þeirrar fjárhæðar miðað við sölugengi hins eða hinna erlendu gjaldmiðla eða gjaldmiðils sem tilgreindir eru í 3. gr. gagnvart íslenskri krónu samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands.“ 

Samkvæmt B-lið 15. gr. beri leigutaki allan reksturskostnað af hinni leigðu fasteign, allan kostnað af viðhaldi hennar, jafnt utandyra sem innan, húsgjöld, vátryggingar, fasteignagjöld og önnur opinber gjöld, hverju nafni sem nefnist, tillögu til sameiginlegs viðhalds á fasteigninni eða endurbóta, hvort sem sé á séreign eða sameign, þ. m. t. lóð.  Áhættuna, ef hið leigða farist, skemmist eða rýrni, eftir að leigusali hafi afhent hið leigða eða áhættan flust frá leigusala til leigutaka samkvæmt lögum um lausafjárkaup og öðrum réttarreglum.  Samkvæmt H-lið sömu greinar skuli leigutaki á sinn kostnað gera úrbætur á eigninni sem kunni að koma til vegna ríkari krafna opinberra aðila til einstakra þátta, t. d. samkvæmt reglum um heilbrigði, brunavarnir, rafmagnseftirlit o. s. frv. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að samningur málsaðila sé samkvæmt efni sínu lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um sé að ræða lánssamning sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamnings. Stefnandi byggi á því að ákvæði samningsins verði að virða í heild sinni, í samræmi við samkomulag aðila og í samræmi við raunverulega tilhögun og gögn um aðdraganda að samningsgerð málsaðila. Til stuðnings því að samningur aðila sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, en ekki leigusamningur, vísi stefnandi m.a. til forsendna dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011 og 652/2011 og eftirtalinna atriða:

  1. Leiguverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði stefnda en ekki verðmæti samningsandlagsins.
  2. Greiðslur samkvæmt samningnum beri vexti.
  3. Greiðsluskylda stefnanda hafi ekki verið tengd afnotum af hinu leigða.
  4. Við riftun hafi stefndi getað krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstíma.
  5. Á samningstíma sé eignamyndun hjá stefnanda.
  6. Stefnandi eignist hið „leigða“ við lok samnings.

Þá bendi stefnandi á eftirtalin atriði til stuðnings þeirri málsástæðu að samningurinn sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamningur. 

Í fyrsta lagi hafi leiguverð eingöngu verið ákvarðað út frá kostnaði stefnda við fjármögnun kaupanna, en ekki raunverulegu verðmæti fasteignarinnar sem samningur málsaðila byggi á. Greiðslur stefnanda til stefnda hafi falið í sér endurgreiðslu á upphaflegum höfuðstól, þ.e. láni sem veitt hafi verið til kaupa á eigninni. Stefnda hafi verið ljóst frá upphafi að stefnandi greiddi hluta kaupverðs eignarinnar beint til upphaflegs viðsemjanda stefnda og hafi tekið að sér að greiða svokallað lokagjald samkvæmt gjaldskrá stefnda. Þessi tilhögun svari til endurgreiðslu á láni, en ekki til leigu. Stefnandi byggi á því að réttarstaða hans gagnvart stefnda sé að öllu leyti hin sama hvort sem samningur hafi borið heitið fjármögnunarleigusamningur eða kaupleigusamningur. Þá hafi efnisleg meðferð kaupleigusamninga og fjármögnunar-leigusamninga ennfremur verið hin sama. Í báðum tilvikum hafi stefnandi orðið eigandi munar gegn greiðslu á umsömdu lokagjaldi. Samningur aðila hafi verið útfærður sem leigusamningur vegna þess að trygging stefnda fyrir endurgreiðslu hafi verið í formi eigendaskráningar fasteignarinnar sem verið var að fjármagna kaup á.

Að sama skapi sé vandséð hvaða hlutverki upplýsingar um „leigugrunn“ gegni í samningi aðila annað en að tilgreina höfuðstól láns. Ekki sé venja að tilgreina leigugrunn eða höfuðstól í leigusamningum líkt og nauðsynlegt sé að gera í lánasamningum. Leigugrunnur í samningnum vísi til þess að fjármagn hafi verið leigt stefnanda, en leiga á fjármagni sé eðli máls samkvæmt lán og ekkert annað. Í öðru lagi byggi stefnandi á því að þar sem greiðslur samkvæmt samningi málsaðila beri vexti sé um lán að ræða en ekki leigugreiðslur. Alkunna sé að leigugreiðslur beri ekki vexti.

Í 3. gr. samningsins séu tilgreindir Libor vextir á samningsdegi auk vaxtaálags. Þá segi í 4. gr. samningsins að stefnda sé heimilt að endurreikna gengistryggðar greiðslur samkvæmt breytingum sem verði á Libor vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að í samningi aðila hafi ekki verið samhengi milli greiðslna stefnanda annars vegar og afnota hans af fasteigninni hins vegar. Þegar um leigusamning sé að ræða sé gagnkvæmni milli skyldu leigusala til að láta í té afnot af samningsandlögum og skyldu leigutaka til að greiða leigugreiðslu fyrir þau afnot. Í samningi aðila sé greiðsluskylda stefnanda óháð afnotum af samningsandlaginu. Þannig sé gert ráð fyrir að stefnandi greiði leigu þó svo að seljandi vanefni samning sinn við stefnda, sbr. 9. gr. samningsins. Stefnanda sé gert að greiða fulla leigu af samningsandlaginu hvort sem það sé í nothæfu ástandi eða ekki og þá segi að stefndi geti ekki ábyrgst ástand þess á nokkurn hátt, sbr. 8. gr. samningsins. Ennfremur sé stefnanda skylt að greiða leigu til loka samningstímans þó svo að samningi sé rift eða honum slitið af öðrum ástæðum, sbr. 12. gr. samningsins. Þó sé í 3. mgr. 12. gr. ákvæði þess efnis að verði endursöluverð eignar hærra en svo að nægi til fullra efnda á skuldbindingum leigutaka skuli mismunurinn greiðast til leigutaka. Eignamyndun á samningstíma tilheyri því stefnanda samkvæmt þessu en ekki stefnda og sé því augljóslega um lánssamning að ræða en ekki leigusamning.

Skylda stefnanda skv. samningi málsaðila hafi ekki verið fólgin í því að greiða fyrir afnot fasteignarinnar heldur að endurgreiða það fé sem stefndi hafi lánað til kaupa á eigninni, auk vaxta. Í fjórða lagi sé stefnda samkvæmt 12. gr. samningsins heimilt, þó svo að samningi aðila sé rift á grundvelli vanefnda eða slitið af öðrum ástæðum, að innheimta fullar leigugreiðslur til loka samningstímans. Samkvæmt skilmálunum beri stefnanda að greiða ógjaldfallna leigu samningsins, skatta og gjöld, vátryggingar og allan annan kostnað af hinu leigða ásamt dráttarvöxtum frá uppgjörsdegi.  Samkvæmt 3. tl. sömu greinar hafi leigutaka jafnframt borið að greiða allan kostnað vegna uppsagnar eða riftunar samnings og innheimtuaðgerða, þ.m.t. málskostnað lögmanns.

Stefnandi byggi á því að sú staðreynd að stefndi geti við vanefndir rift samningi og jafnframt krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans sýni fram á að um sé að ræða lánssamning en ekki leigusamning. Við riftun yrði stefnanda gert að greiða ógjaldfallnar eftirstöðvar samnings, líkt og þegar lán sé gjaldfellt vegna vanskila. Stefnandi telji að gera verði skýran greinarmun á rétti leigusala til að krefjast bóta fyrir missi leigutekna og fortakslausri skyldu til að greiða eftirstöðvar samnings að fullu eins og áskilið sé í samningi aðila. Í fimmta lagi byggi stefnandi á því að þrátt fyrir ákvæði 2. og 6. gr. skilmála samningsins hafi verið um það samið í upphafi viðskipta aðila að stefnandi eignaðist fasteignina gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu við lok samningstíma. Í skuldayfirlitum sem stefnandi hafi fengið í hendur frá stefnda og viðskiptabanka hans, í aðdraganda samningsgerðar aðila, áður en stefnandi hafi yfirtekið samninginn, sé m. a. tiltekinn höfuðstóll og eftirstöðvar samningsins. Þar sé tiltekinn sérstaklega liðurinn „lokagjald“. Stefnandi telji að það hljóti að vera óumdeilt, að þessi gögn hafi verið skýrð þannig af öllum sem málið varðaði að gegn uppgreiðslu samningsfjárhæðarinnar og greiðslu lokagjaldsins myndi stefndi afsala fasteigninni til greiðandans. Hafi þessi háttur verið viðhafður á viðskiptum stefnda um langt árabil og alþekkt venja í hliðstæðum viðskiptum.  Hafi því ávallt verið gengið út frá að stefnandi eignaðist eignina við lok samningstíma eða eftir atvikum fyrr, ef aðilar semdu um að ljúka uppgjöri fyrr, enda sé áskilnaðurinn um lokagreiðslu ekkert annað en loforð um að afsala tækinu þegar greiðslan berist. Allt frá yfirtöku samningsins hafi stefnandi móttekið greiðsluseðla frá stefnda, þar sem skilmerkilega sé tilgreint hvað ætlast sé til að hann greiði. Jafnframt hafi eftirstöðvar verið tilgreindar samkvæmt samningnum, en sá texti verið lengst af tilgreindur þannig:

Núvirði ógreiddrar leigu án vsk/lokagjalds eftir greiðslu [fjárhæð].

Stefnandi telji að þessi athugasemd á greiðsluseðlinum sé í fullu samræmi við það sem hann haldi fram um skilmálana sem samið hafi verið um í upphafi, bæði þegar Grandavör ehf. hafi samið við stefnda og þegar stefnandi hafi yfirtekið samninginn. Eftir að dómar hafi gengið stefnda í óhag á árinu 2010 hafi sú breyting orðið á tilgreiningu eftirstöðva leigugjalds á greiðsluseðlum að orðið lokagjald hafi verið tekið út. Nú séu eftirstöðvarnar tilgreindar þannig:

Núvirði ógreiddrar leigu án vsk eftir greiðslu [fjárhæð].  

Stefnandi telji að þetta sé til marks um að stefndi vilji freista þess að afneita þýðingu áskilnaðarins um lokagjald eða þýðingu þess fyrir samning aðila. Stefnandi telji þetta vera einhvers konar yfirklór og benda til þess að stefndi sé ekki í góðri trú varðandi þýðingu lokagjaldsins fyrir úrslit málsins. Í sjötta lagi vísi stefnandi til þess að stefndi hafi boðið upp á og auglýst fjármögnunarleigu sem hagstæðan kost við fjármögnun. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda hafi þúsundir slíkra samninga verið gerðir. Í sjöunda lagi hafi samningur aðila verið saminn einhliða af stefnda og sé meginhluti ákvæðanna staðlaðir samningsskilmálar hans. Þá liggi fyrir að stefndi sé fjármálafyrirtæki, sbr. samnefnd lög nr. 161/2002, með síðari breytingum. Samkvæmt viðurkenndum túlkunarviðmiðum samningaréttarins beri að beita andskýringarreglu við túlkun óljósra samningsákvæða. Feli reglan í sér að ákvæðin skuli túlkuð þeim aðila í óhag sem samið hafi þau einhliða og án samráðs við gagnaðila. Í áttunda lagi byggi stefnandi á því að samkvæmt ársreikningum stefnda hafi verið gengið út frá því að formleg skráning eignarhalds væri aðeins til tryggingar á efndum lánasamnings en ekki raunverulegt eignarhald. Þegar ársreikningar stefnda séu skoðaðir sjáist að stefndi færi ekki til eignar samningsandlög vegna fjármögnunarleigusamninga og annarrar eignarleigu, sem félagið hafi gert við viðskiptamenn sína, heldur eingöngu kröfuréttindin sem í samningunum felist. Að mati stefnanda bendi þetta ótvírætt til þess að „fjármögnunarleigusamningur“ stefnda og stefnanda sé lánssamningur en ekki leigusamningur samkvæmt eigin skilgreiningu stefnda sjálfs. Auk framangreinds byggi stefnandi á eftirfarandi. Megininntak umrædds samnings sé að stefndi láni upphaflegum viðsemjanda sínum peninga til kaupa á fasteign. Þegar stefnandi hafi yfirtekið samninginn hafi hann greitt hærra verð en svaraði til lánsins frá stefnda. Stefndi hafi þannig ekki fjármagnað kaup á eigninni að öllu leyti. Stefndi fái þau lán endurgreidd, auk vaxta, en trygging hans fyrir endurgreiðslu sé formleg skráning eignarhalds. Ljóst sé að samningur aðila sé í eðli sínu mjög frábrugðinn leigusamningum og beri öll megineinkenni lánssamnings. Að öllu framanvirtu telji stefnandi að leggja verði til grundvallar að hér hafi verið um lánssamning að ræða í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um eðli umrædds löggernings sé á því byggt af hálfu stefnanda að löggerningurinn sé í raun samkvæmt efni sínu lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, sem klæddur hafi verið í búning leigusamnings. Samningurinn hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og falli því undir VI. kafla laga nr. 38/2001. Um sé að ræða lánssamning í íslenskum krónum sem gengistryggður sé eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans. Höfuðstóll skuldarinnar sé tiltekinn í íslenskum krónum, kaupverð tækjanna hafi verið í íslenskum krónum og afborganir verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Á forsíðu samningsins sé auk þess tiltekið að samningurinn sé gengistryggður. Þá sé í 14. gr. samningsins kveðið á um að við útreikning afborgana skuli hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum skv. ákvörðun stefnda við útgáfudag reiknings. Telji stefnandi það ótvírætt sýna að lánið hafi verið í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun veitt í erlendri mynt. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Verðtryggingarákvæði lánssamningsins við gengi erlendra gjaldmiðla séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda.

Um lagarök vísist til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna. Um málskostnaðarkröfu vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður  og lagarök stefnda til stuðnings frávísunarkröfu:

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til þess að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af málssókninni. Engir útreikningar séu í málinu sem sýni að það sé hugsanlega hagstæðara fyrir stefnanda að hinn umþrætti samningur aðila verði frá upphafi reiknaður sem lánssamningur í íslenskum krónum. Þannig sé skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki fullnægt en samkvæmt ákvæðinu hafi stefnandi í viðurkenningarmáli sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu. Sé málatilbúnaður stefnanda því ekki í samræmi við skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 eins og ákvæðið hafi verið skýrt, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Telji stefndi því að vísa beri kröfum stefnanda frá dómi. Þessu til viðbótar megi nefna að í dómkröfunni virðist stefnanda verða á þau mistök að horfa fram hjá því að í september 2009 hafi fjármögnunarleigusamningurinn, sem á reyni í málinu, fengið nýtt samningsnúmer og honum þá verið myntbreytt á þá leið að CHF hluta samningsins hafi verið breytt í EUR. Að öllu framangreindu virtu telji stefndi að mjög skorti á að málatilbúnaður stefnanda uppfylli meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað, sbr. d- og e- lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hái þetta mjög vörnum stefnda. Sé kröfugerð stefnanda svo óljós og óskýr að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Málástæður og lagarök stefnanda til stuðnings því að frávísunarkröfu

stefnda verði hrundið:

Af hálfu stefnanda er, hvað framangreinda frávísunarkröfu varðar, á því byggt, eins og fram komi í stefnu, að samkvæmt útreikningum stefnanda hafi hann þegar greitt stefnda meira en honum beri samkvæmt samningi aðila. Stefnandi telji á hinn bóginn að stefnandi skuldi honum háar fjárhæðir ennþá samkvæmt samningnum og byggi þá afstöðu sína á því að ákvæði samningsins um gengistryggingu séu fullkomlega lögmæt. Stefnandi hafi því verulega lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu sinni í málinu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda myndi hann, ef á hana yrði fallist, eiga, gegn greiðslu svonefnds lokagjalds, kröfu til afsals fyrir þeim hluta húseignarinnar Skeifunni 6 í Reykjavík, sem sé andlag samnings aðila. Hvað varði breytingu á númeri fjármögnunarleigusamningsins og myntbreytingu hafi slíkt ekkert með hagsmuni að gera heldur sé um að ræða ónákvæmni í stefnu. Þá sé ljóst af málatilbúnaði stefnda að þessi ónákvæmni hafi ekki staðið í vegi fyrir málatilbúnaði hans.

Forsendur og niðurstaða

Eins og áður er rakið byggir frávísunarkrafa stefnda aðallega á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu sinni í málinu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda er hvað þessa fravísunarástæðu varðar á því byggt að hagsmunir hans af viðurkenningardómi í málinu séu augljósir og felist m.a. í kröfu hans um viðurkenningu á ólögmæti gengistryggingar skv. samningi aðila og þeim afleidda rétti hans, ef málið vinnist, að fá afsal fyrir þeim hluta húseignarinnar Skeifunni 6, sem falli undir samning aðila, gegn greiðslu umsamins lokagjalds enda sýni útreikningar stefnanda að hann hafi þegar greitt stefnda meira en honum beri.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Á stefnandi hvílir sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að dómur gangi um viðurkenningarkröfu hans í málinu.

Stefnandi hefur hvorki í stefnu, né með framlagningu útreiknings eða annarra gagna sýnt fram á fjárhagslega hagsmuni sína af viðurkenningardómi í máli þessu. Er með vísan til þessa fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi, Hús fyrir Epal ehf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 450.000 krónur í málskostnað.