Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2005


Lykilorð

  • Landamerki


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. september 2005.

Nr. 47/2005.

Ása Árnadóttir

Helga S. Árnadóttir

Guðríður Sveinsdóttir

Nikulás Sveinsson

Sólborg Sveinsdóttir

Þuríður Sveinsdóttir

Sigurður Egilsson

Sveinbjörn Egilsson

Klemens Egilsson

Guðrún Egilsdóttir

Sæmundur Egilsson

Aðalgerður Guðlaugsdóttir

Elísabet Guðlaugsdóttir

Magnús Guðlaugsson

Pálína Þ. Waage

Særún Jónsdóttir

Sigríður S. Jónsdóttir

Ólafur Þór Jónsson og

Óskar Eyjólfsson

(Páll Arnór Pálsson hrl.

 Ragnar Baldursson hdl.)

gegn

Sólveigu Bragadóttur

Stefáni Árnasyni

Guðmundi Óskarssyni

Aðalsteini Sigursteinssyni

Ágústi Þór Guðbergssyni

Steinari Smára Guðbergssyni

Eignarhaldsfélaginu Gullsjó ehf.

Eggerti Kristmundssyni

Elínu Kristmundsdóttur

Gísla Kristmundssyni

Lárusi Kristmundssyni

dánarbúi Þorkels Kristmundssonar

Magnúsi Ágústssyni

Ragnari Ágústssyni

Guðríði Gísladóttur

Hrefnu Gísladóttur

Lóu Guðrúnu Gísladóttur

Elínu Björgu Gísladóttur

Þorgerði Þorleifsdóttur

Símoni Kristjánssyni

Önnu Kristmundsdóttur

Grétari I. Hannessyni

Vatnsleysustrandarhreppi og

Ólafi Karli Brynjarssyni

(Ólafur Björnsson hrl.

 Jón G. Valgeirsson hdl.)

 

Landamerki.

Í málinu var deilt um landamerki milli jarða í Vogatorfu og Brunnastaðahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi. Snerist deilan um staðsetningu tveggja kennileita, sem getið var í landamerkjabréfum frá 1890 og eldri heimildum, þ. á m. um staðsetningu á vörðu, sem samkvæmt landamerkjalýsingunum stóð við tiltekinn veg. Talið var að vörðunni hafi ekki verið haldið við eftir að vegurinn lagðist af sem samgönguleið og merki fallið í gleymsku. Engar haldbærar skýringar lágu fyrir um hvers vegna girðing, sem eigendur jarða í Vogatorfunni reistu árið 1928, og eigendur jarða í Brunnastaðahverfi töldu rétt að miða landamerkjalínuna við, var ekki reist í þeirri línu sem þeir fyrrnefndu vildu leggja til grundvallar. Þessarar girðingar var getið í landskiptagerð frá 1940, þar sem óskiptu landi í Vogatorfunni var skipt. Kom þar fram  að tiltekið landsvæði innan torfunnar skyldi afmarkast af landamerkjalínu hennar og Brunnastaðahverfis frá kennileitinu Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu í vörðu sem málsaðilar voru sammála um að línan lægi um. Óháð því hvar hin gömlu merki kunni að hafa verið var því talið að eigendur Vogajarða hafi á þeim tíma sem girðingin var reist lagt þann skilning í fyrirliggjandi lýsingu merkjanna að landamerkjalínan lægi því sem næst í beinni línu frá Vatnsskeri í umrædda vörðu, eins og eigendur jarða í Brunnastaðahverfi töldu rétt að leggja til grundvallar. Var því fallist á kröfugerð þeirra síðarnefndu um legu landamerkjanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2005 og krefjast þess, að viðurkennt verði að landamerki milli óskipts lands Vogajarða, sem er í þeirra eigu, og óskipts lands jarða í Brunnastaðahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, eign stefndu, skuli vera sem hér segir: Frá sjó úr Dýpsta-ósi í Djúpavogi, punktur nr. 1 (334491,64 m 392147,00 m) í vörðu fyrir sunnan Presthóla, punktur nr. 3 (335553,39 m 391717,99 m) þaðan í kennileitið Leif Þórð, punktur nr. 4 (336781,64 m 390110,94 m), allt samkvæmt uppdrætti sem unninn var af Sigurgeiri Skúlasyni landfræðingi, þaðan í Markhól og þaðan í Vatnskatla á nyrðri brún Fagradals-Vatnsfells. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt nýtt skjal sem er ofangreindur uppdráttur.  Á hann eru markaðar kröfulínur aðila að kennileitinu Leifi Þórði ásamt hnitaskrá, en þar koma fram hnit og merkingar punkta á kröfulínum.

Dómarar Hæstaréttar hafa gengið á vettvang ásamt lögmönnum aðila.

I.

Deila aðila, sem eru eigendur jarða í Vogatorfu og Brunnastaðahverfi, lýtur að tveimur fyrstu merkjapunktunum í landamerkjalínu milli þeirra, sem dregin er úr fjöru til fjalls samkvæmt landamerkjabréfum frá 1890.

Svo sem í héraðsdómi greinir reisa áfrýjendur kröfu sína á merkjalýsingum í hinum þinglesnu landamerkjabréfum frá 1890, sem afmarka land milli jarða í Vogatorfu og Brunnastaðahverfi. Í eldra heimildarbréfi, sem er frá 20. ágúst 1840 og varðar jörðina Stóru-Voga, er merkjum lýst þannig:

„Úr Djúpavogi sjónhendingu í vörðu við ... eningsveginn fyrir sunnan Presthól ... þaðan í ... sem stendur á Hrafnargjárbarmi og kölluð er Leifur Þórður þaðan í Markhól; þaðan sjónhending uppí Fjall.“

Í landamerkjabréfi fyrir Brunnastaðahverfi frá 22. maí 1890 er merkjum lýst þannig:

„Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið.“

Í landamerkjabréfi fyrir Stóru- og Minni-Voga frá 23. maí 1890 segir:

„Að norðan og austan, úr Dýpsta ós í djúpavogi sjónhending í vörðu við almenningsveginn fyrir sunnan presthóla; þaðan í vörðu sem stendur á Hrafnagjárbarmi, og kölluð er leifur Þórður, þaðan í Markhól, þaðan sjónhending uppí fjall.“

Í málinu greinir ekki frá skriflegum heimildum um landamerki eftir að bréf þessi voru gerð þar til 1921, að þess er getið í landamerkjalýsingu fyrir Brunnastaðahverfi að enginn ágreiningur sé á milli jarða, hvorki um tún né fjörumörk, en þar er um landamerki milli hverfa vísað til „sýslubókana frá 16. júní 1890, þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda.“

Fyrir liggur að árið 1928 settu bændur í Vogum upp girðingu úr Djúpavogi og upp í land en sú girðing var endurnýjuð 1976 með girðingu Landgræðslu ríkisins, sem framlengd var upp fyrir Strandarveginn en tók svo aðra stefnu rétt þar hjá, inn á land Vogajarða. Næsta skriflega heimildin í málinu er landskiptagerð á Vogatorfunni frá júní 1940. Í endurriti úr gjörðabók landskiptanefndar Gullbringusýslu kemur fram að oddamaðurinn hafi verið útnefndur af sýslumanni þegar í mars 1929. Einnig, að landið, sem til skipta ætti að koma, hafi verið skoðað af landskiptanefnd að viðstöddum eigendum jarðanna. Segir í endurritinu, að hinn 5. júní 1940 hafi á fundi nefndarinnar landskiptin verið ákveðin þannig:

„Minni-Vogatorfan fær sameiginlega 36,37 ha. er takmarkast að norðan af landamerkjalínu Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfisins frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í vörðu, er stendur í Hrafnargjárbarmi „Viðaukur“ sem kölluð er „Leifur hepni“. Austurtakmörk landsins frá girðingarhorni neðan þjóðvegar fylgi girðingu að vegi niður í Voga.“

Stefndu hafa reist kröfu sína á þessari línu og var á hana fallist í héraði. Deila aðila lýtur að því hvort landamerkjabréfin frá 1890 marki aðra línu, sem telja beri réttari.

II.

Af framangreindum skriflegu heimildum um landamerki má leiða að því líkum, að 1890 hafi menn í báðum hverfum, Voga og Brunnastaða, sett landamerki í Djúpavogi, sem hefur verið nokkurn veginn miðja vegu milli hverfanna, en bréfin frá 1890 bera ekki með sér að merkin hafi verið ákvörðuð þá heldur miklu fyrr. Af bréfunum frá 1840 og 1890 má telja líkur fyrir því að menn hafi verið ásáttir um að setja mörkin beint upp af ströndinni inn til lands og síðan eftir nefndum kennileitum alla leið upp í fjall. Má því gera ráð fyrir að línan hafi brotnað í fyrsta kennileiti frá ströndinni en ekki legið beina leið í vörðuna, sem sögð var standa á barmi Hrafnagjár. Presthóll eða –hólar hafa verið vel sýnilegir frá upphafsstaðnum í Djúpavogi og valin hefur verið sem merkjapunktur varða við almenningsveginn, sem farinn var eftir Vatnsleysuströnd, en hann var aðeins vegarslóði. Við gerð bréfsins 1840 má gera ráð fyrir því að varðan hafi verið sýnileg úr Djúpavogi. Fimmtíu árum síðar, 1890, hefur í landamerkjabréfum upphafsstaðurinn í Djúpavogi verið nánar tilgreindur sem „dýpsti ós“. En þegar girðing var sett úr þessum upphafsstað frá strönd inn í land af bændum í Vogum 1928, var hún í línu, sem ekki var beint upp af ströndinni heldur nokkuð til suðurs, eins og lína sú sem stefndu hafa haldið fram og fallist var á í héraðsdómi.

Þegar þetta er virt kann að vera að upphaflega hafi sem merki verið valin varða við almenningsveginn, eins og áfrýjendur halda fram. Hins vegar er alls óvíst hvaða varða það hafi verið, en í gögnum málsins er getið um þrjár vörður sem stóðu við veginn sunnan Presthóla. Þegar vegurinn lagðist af sem samgönguleið var hvorki honum né vörðunum haldið við og merki féllu í gleymsku. Þegar síðan bændur í Vogum reistu girðingu úr Djúpavogi og inn í land árið 1928 lögðu þeir hana frá klöpp á Vatnsskeri sjónhending eftir línu er stefndi í vörðu sem málsaðilar hafa fallist á að sé kennileitið „Viðaukur“ eða „Leifur Þórður“. Þessarar girðingar er getið í þeirra eigin landskiptagerð frá 1940, sem eigendur jarða í Brunnastaðahverfi komu hvergi nærri, en þar er sagt að Minni-Vogatorfan fái sameiginlega 36,37 ha er takmarkast að norðan af landamerkjalínu Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfisins frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í nefnda vörðu. Engin haldbær skýring hefur komið af hálfu áfrýjenda á því hvers vegna þessi girðing var ekki reist í þeirri línu sem þeir halda fram í málinu, en aðstæður á vettvangi bentu ekki til þess að það hefði átt að vera sérstökum erfiðleikum bundið. Óháð því hver hin gömlu merki kunni að hafa verið hafa eigendur jarða í Vogahverfi í verki lagt þann skilning í fyrirliggjandi lýsingu merkjanna að landamerkjalínan lægi því sem næst í beinni línu frá Vatnsskeri í vörðu við Viðauk þegar girðingin var reist 1928 og til hennar var vísað í landskiptagerð 1940 og hún endurreist á þessum stað frá sjó 1976. Vegna þessa verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað, sem rétt er að aðilar beri hver fyrir sig í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2004.

Aðalstefnendur og gagnstefndu eru eftirtaldir eigendur óskipts lands í Vogatorfu Vatnsleysustrandarhreppi.

Eigendur Austurkots ( 11.50% ) (2 af 3):

Ása Árnadóttir               kt.[...] Egilsgötu 11, 190 Vogum

Helga S. Árnadóttir        kt.[...] Brekkubyggð 87, 210 Garðabæ

 

Eigendur Hábæjar ( 6.55% ):

Guðríður Sveinsdóttir     kt. [...] Kleppsvegi 120, 104 Reykjavík

Nikulás Sveinsson          kt. [...] Furugrund 22, 800 Selfossi

Sólborg Sveinsdóttir       kt. [...] Sléttuvegi 17, 103 Reykjavík

Þuríður Sveinsdóttir        kt. [...] Skúlagötu 70, 105 Reykjavík

 

Eigendur Minni – Voga (22.90%):

Sigurður Egilsson           kt. [...]Hólagötu 1, 190 Vogum

Sveinbjörn Egilsson        kt. [...] Aragerði 15, 190 Vogum

Klemens Egilsson           kt. [...] Melbæ 1, 110 Reykjavík

Guðrún Egilsdóttir          kt. [...] Austurgötu 5, 190 Vogum

Sæmundur Egilsson        kt. [...] Kársnesbraut 51A, 200 Kópavogi

 

Eigendur Nýjabæjar ( 4.35% ):

Dánarbú Guðlaugs Aðalsteinssonar

Umboðsmaður Halldór H Backman hdl.Lágmúla 7, 108 Reykjavík

 

Eigandi Stóru – Voga (37.50% ):

Pálína  Þ.Waage               kt. [...]  Austurvegi 15, 710 Seyðisfirði

 

Eigendur Suðurkots (12.85% ):

Særún Jónsdóttir              kt. [...] Vogagerði 33, 190 Vogum

Sigríður S. Jónsdóttir       kt. [...] Arnarsmára 24, 201 Kópavogi

Ólafur Þór Jónsson           kt. [...] Birkihlíð 26, 105 Reykjavík

Eigandi Tumakots ( 4.35% ):

Óskar Eyjólfsson              kt. [...] Vallargerði 22, 200 Kópavogi

 

Aðalstefndu og gagnstefnendur eru eftirtaldir eigendur óskipts lands í Brunnastaðahverfi, Vatnsleysustrandarhreppi.

Vegna Austurkots:

Sólveig Bragadóttir             kt. [...] Austurkoti

Stefán Árnason                    kt. [...] Dalsmynni 116, Reykjavík

Guðmundur Óskarsson       kt. [...] Skólavegi 28,  230 Keflavík

Aðalsteinn Sigursteinsson   kt. [...] Sólhaga 190 Vatnsleysustrhr.

Ágúst Þór Guðbergsson       kt.[...] Háaleiti 31,  230 Keflavík

Steinar Smári Guðbergsson kt. [...] Smáratúni 190, Vatnsleysustrhr.

Eignarhaldsfél. Gullsjór ehf. kt. [...] Vesturgötu 113, 300 Akranesi

 

Vegna Efri – Brunnastaða:

Eggert Kristmundsson kt. [...] Efri – Brunnastöðum

Elín Kristmundsdóttir  kt. [...] Efri – Brunnastöðum

Gísli Kristmundsson    kt. [...] Efri – Brunnastöðum

Lárus Kristmundsson   kt. [...] Efri – Brunnastöðum

Db. Þorkels Kristmundssonar kt. [...] Efri – Brunnastöðum

 

Vegna Halakots:

Magnús Ágústsson      kt. [...] Hafnargötu 9, 190 Vogum

Ragnar Ágústsson        kt. [...] Halakoti

 

Vegna Naustakots:

Guðríður Gísladóttir     kt. [...] Austurgerði 7,  200 Kópavogi

Hrefna Gísladóttir          kt. [...] Vallartröð 1,  200 Kópavogi

Lóa Guðrún Gísladótti  kt. [...] Sandabraut 10,  300 Akranesi

Elín Björg Gísladóttir     kt. [...] Álfaskeiði 64,  220 Hafnarfirði

Þorgerður Þorleifsdóttir kt. [...] Huldubraut 1,  200 Kópavogi

 

Vegna Neðri – Brunnastaða:

Símon Kristjánsson        kt. [...] Neðri-Brunnastöðum

 

Vegna Skjaldarkots:

Eggert Kristmundsson    kt. [...] Efri –Brunnastöðum .

 

Vegna Suðurkots:

Anna Kristmundsdóttir   kt. [...] Suðurkoti

Grétar I. Hannesson          kt. [...]Suðurkoti og

Vatnsleysustrandarhreppur kt. [...] Iðndal 2, Vogum, (v.Skólatúns)

 

Vegna Traðarkots:

Ólafur Karl Brynjarsson  kt. [...] Vallarbyggð 4,  220 Hafnarfirði

 

Lögmaður aðalstefnenda og gagnstefndu er Páll Arnór Pálsson hdl., en lögmaður aðalstefndu og gagnstefnenda er Ólafur Björnsson hrl.

 

I.Dómkröfur.

A.Aðalsök.

1. Aðalstefnendur gera þær kröfur að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli óskipts lands Vogajarða og óskipts lands jarða í Brunnastaðahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi verði sem hér segir:

Frá sjó úr Dýpsta-ósi í Djúpavogi (hnit 63°59'34'' n.brd, 22°22'58'' v.lgd) í vörðu fyrir sunnan Presthóla (hnit vörðu 63°59'22'' n.brd, 22°21'39'' v.lgd), þaðan í kennileitið Leif Þórð (hnit 63°58'33'' n.brd, 22°20'01'' v.lgd), þaðan í Markhól (hnit 63°56'48'' n.brd, 22°17'35'' v.lgd ) og þaðan í Vatnskatla á nyrðri brún Fagradals-Vatnsfells (hnit 63°55'23'' n.brd, 22°16'02'' v.lgd). Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, þ.m.t. alls kostnaðar við gagnaöflun.

2.  Aðalstefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af öllum dómkröfum aðalstefnenda í málinu, og að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðanna vogatorfu og Brunnsastaðahverfis umþrætta svæði, séu: úr Dýpsta ós í Djúpavogi (um Vatnsskersbúðir) (pkt. nr. 11, GPS staðsetning: N63°59,563' og V22°23,121') sjónhending eftir girðingu að núverandi Vatnsleysustrandarvegi (nr. 420) og áfram í beina línu upp í vörðu sunnan Presthóla (pkt. nr. 12, GPS staðsetning: N63°59,099' og V22°21,668' ; og þaðan í Viðugg eða Viðauk, (það er pkt. 4,) (sem er þar sem stefnendur telja að kennileitið Leifur-Þórður sé) (hnit 63°58'33'' n.brd, 22°20'01'' v.lgd), þaðan í Markhól pkt.5(hnit 63°56'48'' n.brd, 22°17'35'' v.lgd ) og þaðan í Vatnskatla pkt.8,á nyrðri brún Fagradals-Vatnsfells (hnit 63°55'23'' n.brd, 22°16'02'' v.lgd). pkt.8

Til vara er þess krafist að merkin séu úr Dýpsta ós í Djúpavogi (um Vatnsskersbúðir) (pkt. nr. 11, GPS staðsetning:  N6°59,563' og V22°23,121') sjónhending eftir girðingu að núverandi Vatnsleysustrandarvegi (nr. 420) og áfram í beina línu upp í vörðu sunnan Presthóla (pkt. nr. 12, GPS staðsetning: N63°59,099' og V22°21,668'; og þaðan í Viðugg eða Viðauk, (það er pkt. 4,) (sem er þar sem stefnendur telja að kennileitið Leifur-Þórður sé) (hnir 63°58'33" n.brd. 22°220'01" v.lgd), þaðan í Markhól  pkt.5 (hnit 63°56'48" n.brd, 22°17'35 v.lgd) og þaðan í Vatnskatla pkt. 8, á nyrðri brún Fagradals-Vatnsfells (hnit 63°55'23" n. brd, 22°16'02" v.lgd)

Dómkröfurnar eru afmarkaðar á hnitsettum uppdrætti sem lagður hefur verið fram í málinu.

Þá krefst aðalstefndi málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda samkvæmt mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað sem af málinu leiðir, en málskostnaðarreikningur hefur áður verið lagður fram í málinu.

 

B.  Gagnsök.

1.Gagnstefnendur gera kröfu um að viðurkennt verði með dómi, að rétt landamerki milli jarðanna Vogatorfu og Brunnastaðahverfis á hinu umþrætta svæði eins og þeim er lýst í aðal- og varakröfu þeirra í greinargerð í aðalsök.  Jafnframt eru gerðar kröfur um málskostnað sem þar og vísað í hnitsettan uppdrátt.

2.Gagnstefndu krefjast sýknu af öllum kröfum gagnstefnenda og að gagnstefndu verði gert að greiða þeim in solidum málskostnað að skaðlausu að meðreiknuðum virðisaukaskatti á lögmannsþjónustu.

Við upphaf aðalmeðferðar breyttu aðalstefndu og gagnstefnendur kröfugerð sinni bæði í aðalsök og gagnsök.  Þeir kröfðust áfram sýknu af kröfum aðalstefnenda og viðurkenningu á því að rétt landamerki milli jarðanna Vogatorfu og Brunnastaðahverfis á hinu umþrætta svæði verði eins og þeim er lýst í varakröfu þeirra í aðalsök og gagnsök.  Þá var bókað, að ekki væri ágreiningur milli aðila um merki milli jarðanna frá punkti 4 Viðuggur, Viðaukur eða Leifur Þórður um Markhól í punkt 8, Vatnskatla á uppdrætti merkt dskj. nr. 45.

Málsatik og málsástæður eru þær sömu í aðalsök og gagnsök og því tilgreind í einu lagi hér á eftir.

 

II.  Málavextir.

Ágreiningur hefur verið um nokkurt skeið um landamerki milli eigenda Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfis á Vatnsleysuströnd og er í því sambandi m.a. vísað til landamerkjabréfa jarðanna frá 1890.

Í landamerkjabréfi fyrir Brunnastaðahverfi frá 22. maí 1890 eru merki milli óskipts lands Brunnastaðahverfis og óskipts lands og óskipts lands Vogajarða talin vera;  "Úr dýpsta ós, sem til sjávar fellur í Djúpavogi upp í vörðu sem stendur fyrir sunnan Presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er Leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu upp í fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið."

 Landsmerkjabréf fyrir Stóru- og Minni Voga frá 23. maí 1890 er nær samhljóða, en þar stendur:  "Að norðan og austan úr dýpsta ós, í Djúpavogi sjónhending í vörðu við almenningsveginn fyrir sunnan Presthóla; Þaðan í vörðu, sem stendur á Hrafnagjárbarmi og kölluð er Leifur Þórður, þaðan í Markhól, þaðan sjónhending upp í fjall."  Landamerkjabréf fyrir sömu jarðir frá 1840 eru á sama veg.

Um túlkun á bréfunum vísa gagnstefnendur til gjörðabókar landskiptanefndar Gullbringusýslu 5. júní 1940, er ákvörðuð voru landskipti í Vogatorfunni, en þar segir m.a. "Minni Vogatorfan fær sameiginlega 36,37 ha. er takmarkast að norðan af landamerkjalínu Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfisins frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingunni er stefni í vörðu, er stendur á Hrafnagjárbarmi "Viðaukur" sem kölluð er Leifur heppni.  Austurtakmörk landsins frá girðingarhorni neðan þjóðvegar fylgi girðingu að vegi niður í Voga."

Árið 1976 var sett niður girðing á vegum Landgræðslu ríkisins er náði þvert yfir Reykjanesið.  Girðingin var ekki að öllu leyti sett niður á mörkum jarðanna, heldur þó nokkuð suðvestan þeirra og þar með inn í land Vogajarðanna.  Gagnstefnendur telja hins vegar ljóst að gamla girðingin neðan Vatnsleysu-strandarvegar hafi verið á mörkum sbr. bókun landskiptanefndar frá 5. júní 1940. Landgræðslugirðingin fylgi gömlu girðingunni að hluta, en beygi svo til suðvesturs inn í land Vogajarða.

Aðalstefnendur fengu Hilmar Egil Sveinbjörnsson landfræðing til þess að fastsetja með G.P.S. staðsetningartækjum merkjapunkta þá, sem fram koma í áðurnefndum landamerkjabréfum og fór hann rækilega um landsvæðið og merkti jafnframt á landfræðikort þessa merkjapunkta ásamt öðrum kennileitum, sem til greina koma.  Gagnstefnendur hafa ekki viljað kannast við að merkin séu á þeim stöðum sem aðalstefnendur halda fram, heldur hafa þeir haldið fast við þau merki sem fram koma í kröfum þeirra.  Gagnstefnendur vísa til þess að upplýsingar um haustsmölun bendi til þess að merkin séu þar sem þeir telja þau vera.  Venjuleg smalamennska á heiðinni hafi farið þannig fram, að smalar úr hverfinu söfnuðust við Kánabirgi og biðu þar hver eftir öðrum.  Þaðan var gengið upp í Heiði og Brúnir allt til Fjalls. Við smölun til byggða hafi smalamönnum verið raðað upp og kom syðsti maður, sem lengi var Símon á Neðri-Brunnastöðum niður við Leif Þórð á mörkum Brunnastaðahverfis og Vogatorfu.

Með bréfi dags. 7. desember 2001 fór lögmaður aðalstefnenda þess á leit við sýslumanninn í Keflavík að reynt yrði að fastsetja merkin milli landa aðila og boðaði eigendur jarðanna til sáttafundar í því skyni sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. 6. gr. laga nr. 92/1991.  Sýslumaður hélt sáttafund með aðilum 14. janúar 2002 og reyndi að ná sáttum en án árangurs.  Þá voru tilnefndir þrír úr hvorum landeigendahóp til frekari sátta auk lögmanns aðalstefnenda og Magnúsar Ólafssonar, jarðfræðings, sem mætti fyrir gagnstefnendur.  Reyndar höfðu verið sættir með aðilum með fundum og bréfaskriftum fram eftir árinu, en þær tókust ekki.

 

III.  Málsástæður og lagarök.

A.  Aðalsök.

1.A. Stefnendur segjast byggja kröfur sínar á óumdeildum þinglýstum landamerkjabréfum beggja megin frá og á kennileitum sem talin séu í landamerkjabréfunum sem og á þeim stöðum, sem krafa stefnenda nái til svo sem lýst er hér á eftir.

Dýpsti-ós. Í landamerkjabréfi segir: “Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í Djúpavogi”.  Stefnendur telja að Dýpsti-ós sé staður á ströndinni þar sem sjórinn eða sjávarlónið skerst dýpst inn í landið en sá staður sé greinilegur á vettvangi og kortum. Þessi staður er merktur sem punktur nr. 1 á korti Hilmars Egils og eru dómkröfur við hann miðaðar.

Í Orðabók Háskólans – ritmálsskrá sé að finna 4 skýringar á orðinu ós. Þrjár eru hefðbundnar og tengjast straumvötnum en sú fjórða gæti skýrt það fyrirbrigði sem sé að finna í landamerkjabréfinu, enda sé ekkert straumvatn við Dýpsta-ós: "Í Skaftafellssýslu og víðar á Suðurlandi merki orðið ós lón þau, er víða myndast innan við sjávarkampana, þar sem vötn falla til sjávar, en þar, sem vatnið fellur í sjó, kallast útfall." Stefnendur telja að kröfur þeirra fái stuðning í þessum orðskýringum en fullyrðingar stefndu að ós sé sund milli skerja eigi sér ekki stoð í gögnum. Ósa sé getið í nokkrum landamerkjalýsingum á Reykjanesskaga og komi þær lýsingar heim og saman við þær orðskýringar sem stefnendur styðjist við og nefndar séu hér að ofan.

Því sé haldið fram af stefndu að landamerkjalýsingar nefni fjörumörk og það séu landamerkin milli jarðanna. Þetta standist ekki enda ljóst af landamerkjabréfunum sjálfum og öðrum heimildum að landamerki séu eitt og fjörumerki annað, enda gátu jarðir átt fjöruítak í annars manns landi.

Í landamerkjalýsingu fyrir Brunnastaðahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dags. þann 20.desember árið 1921 segi:

“Þangfjörumörk fyrir Halakot eru úr Vatnsskersbúðum norðan til, eftir laut sem liggur milli Skerja og úr þeirri laut er rás, sem rennur í sjó fram, alla leið út úr Djúpavogi.”

Í sama landamerkjabréfi segir einnig:

 “Engin ágreiningur sé milli jarða, hvorki með tún njé fjörumörk.  En landamerki milli hverfa vísast til sýslubókana frá 16.júní 1890”.

Sé alveg ljóst af landamerkjabréfinu að landamerkin eru ekki á sama stað og fjörumörk.

Stefnendur  telja að áðurnefnd skiptagerð Landaskiptanefndar Gullbringusýslu 1940 sé ekki ákvarðandi um merki milli jarðanna  en stefndu hafa mikið byggt sinn málatilbúnað á henni.

Ljóst megi vera á upptalningu á þeim skjölum sem lögð voru fram við landskiptin að landskiptamenn höfðu ekki landamerkjabréfið frá 1890 fyrir framan sig enda voru þeir eins og fram komi í endurritinu að skipta landi innan heimagirðingar. Sú girðing hafi verið sunnan við merkin og frá stað í fjörunni  sem hægast var að hefta för sauðfjár.

Þegar landið þarna sé skoðað á flóði, fjöru og miklum ágangi megi vera ljóst að girðing úr dýpsta ós hefði ekki haldið neinum skepnum auk þess sem stanslaust viðhald hefði þurft til að hún þjónaði tilgangi sínum.  Þessi girðing var notuð til þess að girða af heimaland Vogajarða og sé ekki né hafi verið landamerkjagirðing.

Í bréfi  sem eigendur Vogatorfu sendu til að mótmæla girðingu Landgræðslu ríkisins komi fram að þeir samþykkja ekki girðinguna frá sjó og að Strandarvegi.

Í yfirlýsingu sem þeir undirrita 16.maí 1977 segir “..að landgræðslugirðing sú sem upp er komin af hálfu Landgræðslu ríkisins ræður alls ekki landamerkjum milli Voga og Brunnastaðahverfis.

Hvergi séu Vatnsskersbúðir eða Vatnssker nefnd í landamerkjalýsingum frá 1890 en stefndu hafa haldið því fram að þessi kennileiti séu ákvarðandi um merki.

Varða sunnan Presthóla.  Stefnendur telja að "Varða sunnan Presthóla" sé sú varða sem næst sé sunnan Presthóla en óumdeilt sé hvar Presthólar eru þótt þeir hafi verið settir á rangan stað á sumum útgefnum kortum.  Sé varðan merkt sem punktur 3 á áðurnefndu korti Hilmars Egils en Presthólar merktir nr. 2.

Almenningsvegur sé á milli Presthóla og liggur áleiðis til Voga og sjást þar við gatnamótin niður í Voga.  Í bókinni "Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi", eftir Sesselju Guðmundsdóttur sé fjallað um þennan veg á bls. 120 en Almenningsvegurinn sé gamli gönguvegurinn frá Vogum til Hafnarfjarðar og sé hann auðfundinn.  Sesselja segir að vegurinn liggi milli Presthólanna, sem séu tveir ílangir hólar sem beri við himinn.  Almenningsvegur þess sé einnig merktur á kort nr. 8, Örnefni í neðri hluta Strandarheiðar, sem fylgir ritgerðinni "Örnefni í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd" eftir Gunnar Hauk Ingimundarson. Rétt sunnan þessara hóla sé greinileg varða, skammt frá Almenningsveginum, sem stefnendur telja að óyggjandi sé landamerkjavarðan sem landamerkjabréfið greinir frá.

Stefndu hafi talið að "varða sunnan Presthóla" sé varða sem sé mun sunnar og vestar en áðurnefnd varða og hafa bent á vörðu rétt norðan við svokallaða Gíslaborg.

Hvergi sé minnst á Gíslaborg og eða  vörðu norðan Gíslaborgar í þeim heimildum um landamerki og telja stefnendur að nokkuð langsótt sé að tengja vörðu sem stendur svo nærri Gíslaborg við Presthóla.

Á korti nr. 8 sem fylgir ritgerðinni “Örnefni í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd” eftir Gunnar Hauk Ingimundarson séu landamerki Vogatorfu og Brunnastaðahverfis merkt  inn úr dýpsta ós sem til sjávar fellur í vörðu sunnan Presthóla nánast eins og landamerkjapunktar stefnenda eru skilgreindir og kortmerktir. 

Heimildamenn Gunnars séu allir úr Brunnastaðahverfi þannig að líta megi á staðsetningu þessa sem staðfestingu á sjónarmiðum stefnenda.

Leifur Þórður .  Stefnendur telja að Leifur Þórður sé varða á Hrafnagjárbarmi er standi á áberandi klettasnös skammt frá Hrafnagjárbarmi á stað sem nefndur sé Viðaukur eða Viðuggur á kortum og uppdráttum af svæðinu.

Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðis í Vatnsleysustrandarhreppi, segi á bls. 59.

“Viðaukur, Viðuggur eða Viðaugur er örnefni á þessum slóðum skammt austan Vogaafleggjarans og rétt ofan Reykjanesbrautar.  Ekki er fullvíst hvort það á við nokkuð áberandi hóla sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margklofna klöpp fast ofan hólanna.  Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m.  neðan Hrafnagjár. (sjá hér á eftir).  Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga þ.e. Leifur Þórður en hennar er getið í landamerkjalýsingum og sögð standa á Hrafnagjárbarmi.”

Ofangreindar tilvitnanir styðja frekar að landamerkjavarðan Leifur Þórður sé á þeim stað sem stefnendur halda fram og jafnframt skal bent á að Sesselja gjörþekkir staðhætti og leitaði fanga víða að, ekki einungis úr Vogum enda fer hún ítarlega yfir allt landssvæðið í bók sinni.

Árið 1992 hafi Hitaveita Suðurnesja lokið við lagningu 132 kw háspennulínu frá Hamranesi í Hafnarfirði til Fitja í Njarðvík og borgað þá lagningu fyrir hvert  stauravirki sem sett var í land þeirra.  Til að geta gefið upp hvað staurarnir voru margir í landi Vogatorfu fóru Magnús Ágústsson frá Halakoti, Egill Sæmundsson í Minni-Vogum og Jón Bjarnason í Vogum að Leif Þórði og þar voru  Magnús og Egill sammála um að þar væri Leifur Þórður.  Út frá því voru staurarnir taldir og gefnir upp til Hitaveitu Suðurnesja og greitt samkvæmt því.  Staurarnir frá Leif  Þórð að mörkum Grindavíkur eru 16.  1.7.1993 var síðan greitt fyrir staurana 15.000 - pr. stauravirki,  samtals 240.000 kr. Þetta staðfestir að óumdeilt hafi verið á þeim tíma hvar landamerkin voru.

Markhóll. Stefnendur telja að Markhóll sé hóll með vörðu á sem stendur mitt á milli Gamla-Vogasels  og  Brunnastaðasels. Ekki sé nú ágreiningur  um þetta kennileiti milli aðila.

Fjall.  Stefnendur telja að endamerkjapunktur milli jarðanna lengst frá sjó sé í svonefndum Vatnskötlum en það eru litlir gígar á nyrðri brún Fagradals-Vatnsfells.  Það mun svo vera "fjallið" sem nefnt er í landamerkjabréfum. Vatnskatlar eru mest áberandi kennileitið á þessu svæði og jafnframt hafa eldri menn á svæðinu talið mörkin vera í Vatnskötlum.

Stefnendur vitna til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda, einnig til 1.-6. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. 6. gr. laga nr. 92/1991. 

 

2. Stefndu byggja kröfur sínar á þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna.

Samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Brunnastaðahverfi frá 22. maí 1890 séu merki milli óskipts lands Brunnastaðahverfis og óskipts lands Vogajarða talin vera: "Úr dýpsta ós sem til sjávar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er Leifur Þórður, þaðan í Markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandahreppsland er talið".

Landamerkjabréf  fyrir Stóru- og Minni-Voga frá 23. maí 1890 sé nær samhljóða en þar stendur: "Að norðan og austan úr Dýpsta ós í djúpavogi sjónhending í vörðu við almenningsveginn fyrir sunnan Presthóla; þaðan í vörðu sem stendur á Hrafnagjárbarmi, og kölluð er Leifur Þórður. þaðan í Markhól, þaðan sjónhending uppí fjall." Landamerkjalýsing fyrir sömu jarðir frá 1840 er á svipuðum nótum.

Megin ágreiningur aðila lúti að því hvar sé að finna punkt nr. 11, Dýpsti ós í Djúpavogi (Vatnsskersbúðir,) punkt nr. 12, varða sunnan Presthóla og punkt nr. 13, varðan Leifur Þórður, en stefndu séu stefnendum ekki sammála um hvar þessi örnefni séu, nema þeir hafa við meðferð málsins fallist á að punkt 4, sem viðmiðun um Leif Þórð.

Landeigendur í Brunnastaðahverfi telja Dýpsta Ós (um Vatnsskersbúðir) vera þar sem þeir hafa merkt pkt. nr. 11,) sjónhending eftir girðingu að núverandi Vatnsleysustrandarvegi (nr. 420) og áfram í beina línu upp í vörðu sunnan Presthóla (pkt. nr. 12,) (mynd nr 1), taka þar stefnu í vörðu sem stendur á Hrafnagjárbarmi, og kölluð er Leifur Þórður (pkt. nr. 13) (mynd nr. 2 stefna þaðan í Markhól (pkt. 5) og og þaðan á fjall upp að Vatnskötlum (pkt.8) Er ekki ágreiningur um síðustu 2 punktana.

Dýpsti ós í Djúpavogi, pkt nr. 11.( um Vatnsskersbúðir)

Í landamerkjalýsingunni sé talað um “dýpsta ós sem til sjávar fellur í Djúpavogi”. Ós merkir sem kunngt er oftast ármynni þar sem á rennur út í sjó. Hér sé talið átt við dýpstu rásina (“ósinn”) í skerin beint fram af klöppinni sem Vatnsskersbúðir standa á og jafnframt í girðingarstefnunni. Ósinn sjáist vel á landakorti.

Í undirrituðu plaggi frá 28. des 1921 (dskj. 6) um fjörumörk Minni Voga, Austurkots og Norðurkots standi m.a.: “Fjörumörk Minni Voga byrja við gamalt byrgi á Vatnsskeri í Djúpavogi og liggja í ós fram, ...”  Þetta passi alveg við skilninginn að ofan og staðsetningu girðingarinnar.

Í undirrituðu plaggi um fjörumörk í Brunnastaðahverfi frá 7. mars 1922 (dskj. 8) standi m.a.: "... Halakoti eru úr Vatnsskersbúðum norðan til, eftir laut sem liggur á milli skerja og úr þeirri laut er rás, sem rennur í sjó fram, alla leið út úr Djúpavogi, er segir til um stórstraumsfjöru."

Í sambandi við það hvers konar fyrirbæri orðið "ós" er og hvernig það er notað þá er bent á bókina "Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð", sem gefin var út af Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík 1960.  Þar er lýst nákvæmlega skerjum, sundum, skorum og ósum á strandlengjunni sunnan og vestan á Reykjanesskaga.  Ósnöfn koma víða fyrir og til dæmis verið þrír ósar á Rifinu utan við Hópið í Grindavík.  Það sé greinilegt að algengt sé að nota orðið ós um frekar lítið eða grunnt sund, líkt og sundið á milli skerja fram af klöppinni sem Vatnsskersbúðir í Djúpavogi standa á.

Girðingin frá sjó upp að Vatnsleysustrandarvegi sé mjög mikilvæg. Að sögn stefnda, Símonar Kristjánssonar á Neðri Brunnastöðum (fæddur 1916) sé hún  girt af Vogamönnum fyrir 1930, síðan er í landsskiptagerð frá 5. júní 1940 (dskj. 9) sagt beinum orðum að þessi girðing sé á landamerkjum : “... er takmarkast að norðan af landamerkjalínu Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfis frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í vörðu, er stendur í Hrafnagjábarmi ...".

Símon segist muna eftir því að hafa heyrt talað um það sem barn eða unglingur að samþykkt hafi verið munnlega  af forsvarsmönnum stefndu þá, að Vogamenn færðu girðinguna aðeins norður fyrir háklöppina á Vatnsskeri af því þar hefði verið betri festa fyrir girðinguna. Hann telur landamerkin í reynd vera á miðri klöppinni. Þetta mun hafa verið á árunum 1925 til 1930. Aðaltilgangur girðingarinnar hafi verið að koma í veg fyrir að fé rásaði úr Djúpavogsheiðinni niður í fjöru og lenti síðan þar á flæðiskerjum. Algengt hafi verið að þannig tapaðist nokkurt fé árlega.

Hafa ber í huga að þegar þetta var gert voru aðeins liðin 35 til 40 ár frá undirritun landamerkja-bréfa fyrir Vogatorfuna og Brunnastaðahverfið (1890). Það sé ótrúlegt að þá hafi viðkomandi landeigeindur ekki þekkt til landamerkja. Þeir sem girtu voru sumir hverjir afkomendur (synir) þeirra sem skrifuðu undir landamerkjanréfin. Engin gögn bendi til annars en að þá hafi verið girt á mörkum Vogatorfu og Brunnastaðahverfis.

Það sé afar sérkennilegt ef umrædd girðing hefur ekki verið girt á landamerkjum. Þarna sé almennt um flatt land að ræða og hægt að girða hvar sem er.

Það sé síðan staðfest 1940, að girðingin sé á merkjum.

Girðingin ofan Vatnsleysustrandarvegar, sem girt var 1976 sé hins vegar ekki á merkjum. Raunar hafi girðingin neðan vegarins verið endurgirt á sama stað og áður árið 1976. Girðingarstæðið ofan vegarins var valið með hliðsjón af landinu en því var þá mótmælt að girðingin væri færð úr landamerkjum og er það fært til bókað á þeim tíma. Þetta bendi til að sá sem mótmælti, hafi talið merkin vera eins og hér sé rökstutt.

Til sé yfirlýsing frá sameiginlegum fundi hreppsnefndar Vatnsleysu-strandarhrepps og landeigenda í Vogum þann 13. maí 1976 um "Landgræðslugirðingu". Frá sjó, við Vatnsskersbúðir, og upp að Strandavegi var gamla girðingin endurgerð og enginn ágreiningur þar um. Þegar halda átti áfram með girðinguna sunnan Strandavegar með stefnu í Viðugga gerði stefndi Símon Kristjánsson athugasemd við þá stefnu, það væru ekki landamerki. Jafnframt hafi komið í ljós að girðingarstæðið á þeirri leið var mjög erfitt og eftir nokkurt þóf (jafnvel hafði Landgræðslan á orði að hætta við að girða og fara í upphaflega girðingarstæðið sunnan Voga) hafi verið ákveðið að færa girðinguna úr mörkum ofan Strandavegar til suðurs inn í Vogaland.

Við það gerðu stefnendur athugasemdir. Til að árétta að girðingin var færð úr mörkum ofan (sunnan) Strandavegar var yfirlýsing sú er að ofan getur samþykkt á fundi þann 13. maí 1976. Hér sé rétt að ítreka að stefnendur gerðu engan ágreining um endurgerð girðingarinnar frá Vatnsskersbúðum upp að Strandavegi.

 

Varða sunnan við Presthóla, (pkt. nr. 12.)

Hólar þeir sem nú eru kallað Presthólar eru við pkt. 2 (á dskj, nr 3) og er ekki ágreiningur um það. Athyglisvert er að á korti landmælinga er nafnið Presthólar mun sunnar. Líklega er staðsetning nafnsins tekin af eldri kortum en ekki hefur unnist tími til að skoða það nánar. Þarna sé almennt lítið um kennileiti og svæðið sunnan Presthóla geti verið nokkuð stórt, og margar vörður og vörðubrot séu á svæðinu m.a. annars við pkt. 3 og 12. Það verði því að nota allar tiltækar vísbendingar til að finna réttu vörðuna. Varðan, eða vörðubrotið við pkt. 3 (sjá mynd 3), standi lágt og hafi verið lítil, sem er furðurlegt fyrir landamerkjavörðu. Hún standi hins vegar við gamlar götur og gæti t.d. hafa verið vegvísir þó að ekkert verði um það fullyrt.

Vörðubrotið við pkt. 12 standi á mjög áberandi stað, og þarna hafi því verið um stóra reglulega hlaðna vörðu að ræða, sem sjáist á neðsta hluta hennar og steinahrúgunni. Það sé einnig hægt að lýsa staðsetningu þessara vörðu  með því að segja norðan Gíslaborgar, sem sé gróinn hóll norðan við stóra bláa nýbyggða skemmu (vélsmiðja) á svæðinu. Ragnar í Halakoti, einn stefndu, segir að faðir sinn hafi sagt við sig; “mundu að merkin eru við vörðu rétt fyrir norðan Gíslaborg”.

Þessi varða sé einnig mjög nærri beini línu, sem fæst við að framlengja girðingarlínuna neðan Vatnsleysustrandarvegar þarna upp eftir. Varðan sé í hásuður frá Presthólum en varða við pkt. nr. 3 í suðvestur. Almannavegurinn hafi líklega legið suður á Stapa og var því líklega nærri pkt. nr 12, þó að hann hafi ekki fundist þar.  Af framanskráðu sjáist að þessi varða sé mun líklegri kostur en varða við pkt. 3.

 

Almannavegur.  Í Vogabréfinu sé talað um að landamerkjavarðan sunnan Presthóla sé við Almenningsveginn. Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, sé fjallað um þessa gömlu leið og sagt að hún liggi frá Presthólum í stórum dráttum í stefnu á vegamót Strandavegar og Vogavegar. Leiðin sé víðast mjög óglögg, en þó má líklega finna hann á nokkrum stöðum.  Við þessa leið má finna a.m.k. þrjár vörður, pkt. nr 3, pkt. nr. 14 (GPS hnit N63°59,339' og V22°21,887') og pkt. nr. 15 (GPS hnit N63°59,242' og V22°22,257'). 

Allar séu þessar vörður sunnan Presthóla enda málvenja að tala um að fara suður í Voga, þó að stefnan sé ekki í hásuður. Í sjálfu sér fullnægja allar vörðurnar orðalaginu í landamerkjalýsingunni.  Sú syðsta, nr. 15 nærri prílum yfir núverandi girðingu, hafi líklega verið stærst. Hún sé auk þess mjög nærri línu sem dreginn væri í framhaldi af gömlu girðingarlínunni neðan Vatnsleysustrandarvegar, en þó aðeins fyrir sunna hana.  Allar þessar þrjár vörður (nr. 3, 14 og 15), sem séu með álíka millibili, gætu vel verið gamlir vegvísar, en ein af þeim síðan notuð líka í landamerkjalýsingu. Syðsta varðan, sú nr.15, komi þannig vel til greina sem landamerkjavarða.

Varðan á pkt. nr. 12 á hól "norðan eða norðaustan" Gíslaborgar sé þó sú sem stefndu telja réttasta, og einn stefndu, Ragnar í Halakoti telur mjög ákveðið að það sé varðan á mörkum Brunnastaðahverfis og Vogatorfunnar.

Stefndu séu sammála um að Gíslaborg sé í landi Vogatorfunnar, en ef dregin væri lína frá vörðu nr. 15 að Leifi Þórði, vörðu nr. 13, þá lægi hún nánast um Gíslaborg.  Syðsta varðan (nr. 15) við Almannaveginn sé nánast á landamerkjalínu, eða mjög nærri henni, sé hún dregin frá pkt. nr. 11, Vatnsskersbúðum að vörðu norðan Gíslaborgar, nr. 12.  Með öðrum orðum megi segja að báðar þessar vörður nr. 12 og 15 séu nánast á landamerkjalínunni.

 

Leifur  Þórður.

Stefndu hafa fallist á að miða við Viðugg eða Viðauk og vörður þar hjá sem Leif Þórð punktur nr. 4 á landakortinu og landamerkjaskjalinu frá sjó haldi stefnu sem snúi frá gömlu girðingunni að þessum stað.  Þetta byggist á landaskiptagjörðinni frá 5. júní 1940 og þeirri staðreynd að stefnan frá Dýpsta ós um Vatnssker (p.11) eftir gömlu girðingunni að Standavegi um (p.12) sem sé varða sunnan Presthóla stefndi beint að Viðugg og þaðan fari svo línan beint um Markhól í stefnu á Vatnskatla og þannig verði aðeins eitt brot á landamerkjalínunni, en þær séu yfirleitt mjög beinar milli jarða á þessum stöðum.

Um punkt nr. 5, Markhól og punkt nr. 8, Vatnskatla á nyðri brún Fagradals-Vatnsfells er ekki gerður ágreiningur.

Um Þangfjörumörk sé vísað til lýsinga frá 1921 Lýsingum (1921) á Þangfjörumörkum fyrir Brunnastaðahverfi, Halakot, annars vegar og Vogatorfuna, Minni Voga, hins vegar ber ágætlega saman. Þar komi skýrt fram að mörkin liggja um Vatnsskersbúðir. Enginn ágreiningur sé varðandi staðsetningu búðanna. Þessi mörk fari jafnframt saman við lýsingu í landamerkjabréfi frá 1890. Í lýsingu fyrir þangfjörumörk í Brunnastaðahverfi séu síðan útlistuð nákvæmlega þangfjörumörk hvers býlis og kots fyrir sig, en varðandi nánari lýsingu á landamerkjum milli Brunnastaðahverfis og Vogatorfu og Hlöðuness er vísað í landamerkjabréf frá 1890. Þær upplýsingar sem liggja fyrir sýna eindregið að landamerki og þangfjörumörk fara saman um dýpsta ós í Djúpavogi og Vatnsskersbúðir, enda hafa engin gögn eða rök verið lögð fram sem sýni annað.

 

Lagarök.

Vísað er til landamerkjalaga nr. 5/1882 og nr. 41/1919 og til meginreglna eignarréttar varðandi túlkun landamerkjabréfa og til 72. gr. stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar.  Vísað til einkamálalaga, m.a. XXI. kafla varðandi málskostnaðarkröfu.

 

B.  Gagnsök.

1.  Stefnendur í gagnsök byggja kröfur sínar í gagnsök á sömu málsástæðum og lagarökum og í aðalsök.

2.  Stefndu í gagnsök vísa til málsástæðna og lagaraka í aðalsök um staðsetningu landamerkjapunktar, en þessi rök eru sett fram gegn kröfum og málsástæðum gagnstefnenda.

Í gagnstefnu sé á því byggt að Dýpsti ós sé dýpsta rásin í eða við skerin beint fram af klöpp þeirri sem Vatnsskersbúðir standa á. Brunnastaðahverfingar hafa ekki verið á einu máli um hvar landamerkin eiga að vera og sumir viljað hafa þau á klöppinni við Vatnsskersbúðir eins og fram komi reyndar í gagnstefnunni.  Þótt skilningur gagnstefnenda sé réttur um rásina við skerin breytir það engu um landamerkjalínu aðalstefnenda þar sem framlengd landamerkjalína aðalstefnenda, sem liggur frá Dýpsta-Ósi skv. þeirra skilningi og í þeirra vörðu sunnan Presthóla, endar allt að einu í rásinni.

Eins og haldið er fram í frumstefnu sé  alveg ljóst af landamerkjabréfum að landamerki eru ekki á sama stað og fjörumörk.  Gagnstefnendur slíti landamerkjabréfin hins vegar úr samhengi og líti alveg hjá hinni viðurkenndu skilgreiningu eignaréttar á fjörumörkum.

Gagnstefnendur leggi mikið upp úr staðsetningu girðingarinnar sem reist var um 1925-1930 og liggur frá klöppinni við Vatnsskersbúðir.  Af hálfu aðalstefnenda er því haldið fram að ekki hafi verið girt á merkjum heldur hafi heimaland jarða í Vogatorfu verið girt af með henni og jafnframt hafi verið valin hagkvæmasta staðsetning girðingarinnar við sjó.  Staðsetning girðingarinnar sé í algerri andstöðu við landamerkjabréfin og sé ekki til nokkur áreiðanleg heimild um að merkin eigi að vera á þessum stað. Tilvísun til landskiptagerðar frá 1940, sem Brunnastaðahverfingar áttu enga aðild að, dugir ekki til að breyta þinglýstum merkjum. Miklu máli skipti að gögn sem voru að baki landskiptunum finnist ekki en þau eru nauðsynleg til þess að draga einhverjar ályktanir af því sem bókað var.  Það skuli áréttað að landeigendur mótmæltu staðsetningu allrar girðingarinnar árið 1976 en ekki bara staðsetningu hennar ofan vegar.

Í landamerkjabréfi segi að varða sunnan Presthóla sé við Almenningsveginn. Almenningsvegurinn liggi ekki nálægt Gíslaborg þannig að hugrenningar gagnstefnenda um að landamerkjavarðan sé þar nálægt séu alls ekki með traust rök í bakgrunni.  Almenningsvegur liggi hins vegar milli Presthóla og um það sé líklega enginn ágreiningur.  Þá hafi aldrei verið efi um það að Gíslaborg er í landi Vogatorfunnar og engin greinileg kennileiti þar nálægt sem gætu komið heim og saman við landamerkjabréfin.

Varðandi kennileitið Leif Þórð vísist til þess sem segir í frumstefnu og ekkert í gagnstefnu fái haggað þeim staðreyndum sem fram hafi komið af hálfu gagnstefndu.  Rétt sé að taka fram að landamerkjalínan frá vörðu sunnan Presthóla um Leif Þórð í Markhól þurfi ekki að vera bein enda segir í landamerkjabréfum "…sunnan Presthóla, þaðan í …..Leifur Þórður, þaðan í Markhól.."  Misvísandi fullyrðingar af hálfu gagnstefnanda um staðsetningu þessa kennileitis og óöruggar heimildir dugi skammt til að hnekkja því sem fram sé komið af hálfu aðalstefnenda um staðsetninguna.  Rétt sé að taka fram að örnefnið Viðuggur sé ekki viðmið af hálfu aðalstefnenda, aðeins Leifur Þórður enda ekki sama kennileitið.

Gagnstefnendur byggi rétt sinn m.a. á hefð. Því sé mótmælt af hálfu aðalstefnenda að nokkur hefðarréttur hafi myndast. Eignarréttur geti ekki myndast við afnot ef þinglýstar heimildir bendi til að eignarréttur sé fyrir hendi og enn síður ef nýting á landi hefur ekki verið einhlít af hálfu hefðenda eða girðingum mótmælt eins og í þessu tilviki.  Nýtingin verði að vera "átölulaus".  Vísað er til Hrd. 1991 bls. 1444 þar sem m.a. komi fram að órækar heimildir væru fyrir landamerkjum og væru því eigi efni til að fallast á það með eiganda nágrannajarðar, að fullnægt sé skilyrðum 3. gr. laga nr. 46/1905 fyrir því að hann hafi öðlast eignarrétt fyrir hefð að landspildu innan merkjanna. 

Gagnstefnendur vitna til 25. og 26. gr. laga nr. 39/1979 um rétt þinglýsts eiganda og einnig til 1.-6. gr. laga nr. 41/1919 sbr. 6. gr. laga nr. 92/1991 kröfum sínum til stuðnings.

 

IV.  Sönnunarfærsla og umfjöllun um framlögð sönnunargögn.

Í málinu gáfu skýrslu hér fyrir dómi af hálfu aðalstefnenda 1. Jón Bjarnason, kt. 270428-5689, Brekkubyggð 87, Garðabæ, en hann er eiginmaður Helgu Árnadóttur, sem er einn eigenda Austurkots í Vogum og kvaðst hafa verið með umboð eigenda margra Vogajarða í alls konar deilumálum.  2. Guðrún Egilsdóttir, kt. 310554-2869, Austurgötu 5, Vogum, einn af eigendum Minni Voga, Vogum.  3. Særún Jónsdóttir, kt. 230249-49-2299, Vogagerði 33, Vogum vegna eigenda jarðarinnar Suðurkots.

Af hálfu gagnstefnenda gáfu skýrslu.  1. Steingrímur Magnús Ágústsson, kt. 250522-3209, Hafnargötu 9, Vogum, sem er ásamt Ragnari Ágústssyni eigandi að Halakoti, Brunnastaðahverfi.  2.  Magnús Ólafsson, kt. 131252-2939, Skólagerði 67, Kópavogi vegna eiganda jarðarinnar Naustakosts.  3.  Grétar Ingi Símonarson, kt. 181058-2189, Hraunbæ 6, Reykjavík, en faðir hans er Símon Kristjánsson, Neðri Brunnastöðum.

Í málinu báru vitni Sesselja Guðlaug Guðmundsdóttir, kt. 301147-4229, Urðarholti 5, Mosfellsbæ og Gunnar Haukur Ingimundarson, kt. 110758-3349, Safamýri 34, Reykjavík og Hilmar Egill Sveinbjörnsson, kt. 190169-4649, Vogagerði 8, Vogum.

Jón Bjarnason vísaði í Egil Sæmundsson um þá punkta sem hann væri með í höfðinu varðandi ágreininginn um landamerki.  Hann kvaðst hafa búið í Vogunum í um 46 ár og komið að ýmsum deilumálun varðandi merki er sveitarfélagið var að kaupa ýmsa bletti af landeigendum.  Hann kvað hafa verið sögusagnir um ágreining um landamerkin í nær 200 ár, en þessi ágreiningur hafi komið upp á yfirborðið þegar komið hafi að svonefndri skógræktargirðingu. Hann kvað landeigendur hafa samþykkt með sveitarfélögunum á Suðurnesjum að girðingin lægi frá Hábjalla og Snorrastaðatjörnum inn með Reykjanesbraut að  landamerkjum milli Brunnastaða-hverfis og Vogahverfis og þaðan beint niður í sjó eftir merkjum milli Brunnastaðahverfis og Vogahverfis.  Þegar það hafi svo komið á daginn að ekki hafði verið girt þannig hafi risið upp ágreiningur og komið til bréfaskrifta og hafi landeigendur skrifað m.a. Landgræðslunni og látið fylgja bráðabirgðateikningu um skoðun sína á því hvernig landamerkin ættu að vera.  Hann kvað girðinguna fram í Vatnssker hafa verið komna í Voga og hafi hún á sínum tíma verið gerð vegna ágangs sauðfjár í fjörurnar og verið til þess að forða því, að það flæddi þar út á skerjum.  Hann kvað girðingum hafa verið eitthvað við haldið og svo hafi verið gert 1928.  Hann kvaðst aldrei hafa heyrt að þetta væri landamerkjagirðing og í bókum hreppsnefndar hafi komið fram, að svonefnd skógræktargirðing væri ekki landamerkjagirðing og mótmæli vegna hennar hafi bæði átt við girðinguna ofan og neðan Strandavegar.  Hann kvaðst lítið geta sagt  um vörðu sunnan Presthóla sem merkt sé nr. 3 í framlögðum landakortum. Honum hafi verið bent á Presthóla en aldrei verið bent sérstaklega á vörðu sem landamerkjavörðu, en um vörðu sem merkt er punktur 4 vísaði hann til samnings við Hitaveitu Suðurnesja um bætur vegna staura og mastra, sem sett höfðu verið niður í landi Vogajarða og Brunnastaðahverfis og hafi hann ásamt Magnúsi Ágústssyni átt nokkra fundið með forráðamönnum hitaveitunnar og hafi náðst gott samkomulag og hafi verið farið að vörðu merkt punktur 4 eða Leifi Þórði og þaðan hafi verið talið í báðar áttir stauravirkin sem átti að bæta fyrir.  Hann kvaðst skilja að dýpsta ós, sé þar sem sjórinn skerst dýpst inn í fjörðinn eða Voginn og vísaði til deilna sem komið hafi upp í Hraunsfirði á Snæfellsnesi, en þarna renni vatn í ósinn.

Guðrún Egilsdóttir kvaðst hafa vitneskju sína um landamerkin frá föður sínum Agli Sæmundssyni, en hann hafi talað um ósinn sem skerst inn í landið, en þaðan væri landamerkjalína að 1. vörðu sunnan Presthóla og hafi hann farið með hana að þeim og sýnt henni vörðuna.  Þá hafi hún verið viss um vörðuna sem kölluð sé Leifur Þórður,  þ.e. punktur 4.  Hún kvað föður sinn hafa verið fæddan árið 1918 og verið með í málinu frá upphafi.  Hann hafi verið með allt á hreinu varðandi þetta mál og talið 1. vörðu sunnan Presthóla vera landamerkjavörðu.  Hann hafi ekki talið ákvörðun landaskiptanefndar frá 1940 neinu breyta þar um, þar sem þar væri verið að tala um heimagirðingu innan Vogahverfis.  Hún kvað hann hafa talað um mótmæli vegna girðingarinnar og hafi verið haldinn fundur í Glaðheimum vegna þess.  Hún kvað girðinguna frá 1918 aldrei hafa verið merkta sem landamerkjagirðingu og hafi Egill alltaf talað um að utan hennar væri land Austurkots og Minni-Voga óskipt.

Særún Jónsdóttir kvaðst hafa fengið vitneskju um umdeild landamerki eftir að mál þetta kom upp, en faðir hennar Jón Benediktsson, sem fæddur var 1904 og dó 1984 hafi verið í hreppsnefnd frá 1938, og oddviti hreppsnefndar um tíma og allt til 1954 og hafi svo verið áfram í hreppsnefnd til 1974 og því inni í þessum málum.  Hann hafi talað um landamerkin í Djúpavog og talað um ágreining um landgræðslugirðinguna og mótmæli við henni og vísaði til segulbandsspólu, sem hún kvað hann hafa talað inn á og lögð hefur verið fram í málinu, en komið hafi fram hjá honum að það væri heimagirðing, sem getið er í landskiptagerð frá 1940.

Steingrímur Magnús Ágústsson gaf skýrslu sem gagnstefnandi og staðfesti greinargerð, sem hann hafði gert um málið og lögð hefur verið fram í málinu.  Hann kvað Vogagirðinguna hafa staðið eins á þeim stað sem hún er núna eins lengi og hann muni og hann litið svo á að hún væri landamerkjagirðing.  Hann kvað forsögu þess, að lögð var girðing frá Grindavík inn fyrir Voga hafi verið ákvörðun um að friða Reykjanesskaga fyrir ágangi búfjár, sérstaklega sauðfjár.  Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið oddviti hreppsnefndar.  Hann sagði að er komið hafi til að leggja girðinguna eftir landamerkjum og í samræmi við vörslugirðinguna hafi þeir, sem að því stóðu,  viljað hætta við þar sem landið væri svo erfitt til lagningar girðingar ef fylgja ættu landamerkjum.  Hann kvaðst hafa ákveðið að færa fyrirhugað girðingarstæði til svo að girðingin yrði lögð.  Hann kvað Jón Benediktsson og Egil Sæmundsson hafa mótmælt legu girðingarinnar strax og svo hafi verið haldinn fundur í samkomuhúsinu Glaðheimum, Vogum og hafi þar verið bókað að girðingin réði ekki mörkum, en ekki hafi verið ágreiningur um að girðingin neðan Strandavegar réði mörkum, þó að láðst hafi að bóka um það.

Um "Dýpsta ós", vísaði hann til þess, að allar ár renni að ósi, en þarna væri því ekki til að dreifa að á rynni að Djúpavogi og hann taldi að alls ekki yrði miðað við ósinn væri þar sem fjaran skerst lengst inn í landið.  Um punkta um landamerki að neðsta endapunkti við byrgi í Vatnsskeri vísaði hann til fjörumarkalýsingu frá 1921.

Hann kvað ekki hafa verið mikið talað um landamerki í Vogunum, en allir hafi vitað um Vogagirðinguna sem landamerki.  Þá hafi menn þekkt Markhól og Vatnskatla og Strákavörður hafi verið þekktar meðal smalamanna.  Hann kvaðst hafa vísað í landamerkjalýsingu Vogamanna frá 1940 um Viðugg í viðræðum við Jón Bjarnason.  Hann taldi Presthóla geta verið fjölheiti á hólum.  Um vörðu við Gíslaborg vísaði hann í greinargerð sína og umsögn Ragnars bróður síns og Lárusar Kristmundssonar dskj. nr. 41 og 42 um að þarna væri landamerkjavarða.  Hann kvaðst aldrei hafa gengið svonefndan Almenningsveg og vissi sáralítið um hann og kvaðst ekkert vita um vörðu sunnan Presthóla merkt punktur 3. Hann kannaðist ekki við að hafa séð bréf merkt dskj. 16, mótmæli Vogamanna við Landgræðslu ríkisins.

Magnús Ólafsson kom fram fyrir eigendur Naustahóls, en tengdamóðir hans er einn eigenda jarðarinnar og honum hafði verið falið að vinna að máli þessu fyrir eigendur jarða í Brunnastaðahverfi.

Varðandi endanlega kröfu stefndu tók hann fram, að upphafspunktur landamerkja milli aðila væri við Vatnssker og þaðan eftir Vogagirðingunni í sjónhendingu að Viðugg og væri punktur sem væri merktur nr. 12 á landakorti dskj. nr. 45, landamerkjavarða á þeirri leið.  Hann kvaðst hafa rætt við marga eldri menn í hreppnum og vitnaði þar á meðal í Lárus Kristmundsson, Ragnar og Magnús Ágústssyni og Símon Kristjánsson í sambandi við landamerki og þá ekki síður um þau, eins og þau væru talin í upphaflegri aðalkröfu stefndu.  Hann vísaði til þess, sem haft er eftir Ara Gíslasyni í gömlum örnefnaskrám fyrir Vogahverfið, en þar komi fram að Gíslaborg sé skammt innan merkja.  Hann kvaðst ekki geta lagt mat á hvar Presthólar eigi að vera og þá hvar varðan sunnan Presthóla eigi að vera.  Hann kvað Vogagirðinguna alltaf hafa verið talda vera í mörkum og Símon Kristjánsson hafi sagt hana hafa verið færða að austurgirðingunni 1940 og var þá verið að girða landamerkjagirðingu.

Grétar Ingi Símonarson, kvaðst hafa verið í sáttanefnd fyrir föður sinn og kvað hann föður sinn hafa sagt sér að Vogagirðingin væri landamerkjagirðing sem sett hafi verið á árunum 1926-1928 og hafi girðingin verið færð norður fyrir Vatnssker niður við sjóinn til að fá betri festu fyrir girðingarstaurana.

Hann sagði er endurgirt hafi verið árið 1976 hafi gamla girðingin ekki staðið uppi nema að litlu leyti og nýja girðingin fylgt henni neðan Strandavegar, en ofan vegarins hafi hún sveigt inn í land Vogamanna og því ekki verið þar í merkjum.

Um örnefnið "Dýpsta ós" tók hann fram, að líklega hefði orðið þarna landbrot en upp úr stæðu klappir, þar  sem landið væri fast fyrir svo sem við Vatnssker, en þar fyrir framan væri djúpur ós.  Hann kvaðst telja að ós væri þar sem vatn rennur til sjávar, en hins vegar væru víða uppsprettur af ferskvatni í fjörunni, sem kæmi undan klöppunum og var hann ekki viss um hvort af því gæti myndast einhver ós.  Hann kvaðst geta ímyndað sér, að þar sem sjórinn væri dýpstur næst landi væri dýpstur ós.

Vitnið Sesselja Guðmundsdóttir staðfesti að hafa skrifað bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi sem vitnað er til í málinu.  Vitnið sagði bændur í hreppnum hafa sagt sér til um örnefnin og þeir sem væru nefndir í nafnalista bókarinnar hafi fengið spurningalista til að svara.  Um vörðu sunnan Presthóla, sem talað er um í landamerkjabréfi frá 1890, sagði vitnið að Presthólar væru tveir ílangir hólar, þar sem almenningsvegur, sem nefndur sé í bréfinu hafi verið lagður á milli og liggi hann inn í Breiðagerði og þessi vegur sé settur inn á kort 1831 af Birni Gunnlaugssyni.  Vitnið kvað víða vera vörðubrot við veginn og hann verið varðaður, en varða sem merkt er nr. 3 á kortinu, hafi verið og sé mjög myndarleg og geti verið landamerkjavarða, en þær séu oftast mjög myndarlegar og af slíkum vörðum við veginn sé hún næst Presthólum og þannig fyrsta greinilega varðan sunnan Presthóla.  Það kvað vafamál með aðrar vörður, sem hafi verið tilgreindar sem landamerkjavörður á þessu svæði.  Það kvað aðra vörðu sunnan við þessa og við almenningsveginn geta m.v. stærð verið landamerkjavarða, en hún hafi ekki verið skoðuð í vettvangsskoðun og sama gildi um vörðu við veginn við svonefndar prílur við girðinguna, en hún væri það langt fyrir sunnan miðað við vörðu merkta nr. 3 á kortinu, að hún kæmi vart til greina.  Varðan við Gíslaborg tengdist ekki Almenningsveginum og vart inni í myndinni.

Vitnið kvað menn ekki hafa verið sammála um hvar varðan Leifur Þórður væri, en flestir hafi bent á að Viðuggur eða Viðaukur væru á því svæði sem merkt er nr. 4 á framlögðum landakortum og skoðað var í vettvangsgöngu.

Vitnið Gunnar Haukur Ingimundarson kvaðst hafa samið ritgerðina "Örnefni í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd", merkt dskj. nr. 18, árið 1982 og því muni það nú óglöggt eftir atvikum á bak við ritgerðina.   Það kvað landamerki ekki hafa verið megin viðfangsefni ritgerðarinnar, heldur staðsetning þekktra örnefna og hafi það þá aðallega stuðst við Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti og örnefnalýsingar hans.

Vitninu voru sýndir uppdrættir sem fylgdu ritgerðinni og kallast örnefni í efri hluta Strandarheiðar og örnefni í neðri hluta Strandarheiðar, en þeir hafi verið lagðir fram og eru merktir dskj. nr. 47 og 48.  Vitnið kvaðst á sínum tíma hafa lagt mikla vinnu í að gera þessa uppdrætti og hafi það notast við kort frá Landmælingum Íslands, kort frá bandarísku kortagerðarstofunni AMESS og svo loftmyndir af svæðinu frá Landmælingum Íslands.  Þá hafi það haft ljósrit af landamerkjabréfi og fengið ábendingar frá heimamönnum um staðsetningar.  Vitninu var bent á merkta línu frá Djúpavogi að vörðu ofan Strandavegar og þaðan í stað sem merktur er Leifur Þórður ofan Reykjanesbrautar.  Það mundi ekki sérstaklega eftir þessari vörðu, en kvaðst hafa mælt eða staðsett hana og sett inn á kort að beiðni Sigurjóns í Traðarkoti og það ekki gert sér grein fyrir mikilvægi hennar sem landamerkis og ekki fjallað um hana í málinu.  Því var bent á að þarna hafi verið önnur varða nokkru sunnar og vestar, en það kvaðst ekki muna hvor varðan það var, en merkt umrædda vörðu inn á loftmyndina.  Það mundi heldur ekki eftir að hafa skoðað vörður við svonefndar prílur.

Það kvað vörðuna sem merkt er Leifur Þórður hafa skipt meira máli fyrir Sigurjón.  Það kvaðst hafa miðað punktinn í Djúpavogi við landamerkjabréfin og ábendingar frá Sigurjóni.  Það kvaðst hafa reynt að átta sig á vettvangi á Dýpsta ósi út frá þeirri sýn sem virtist blasa við og þá væri Dýpsti ós, þar sem rennan inn í Djúpavog væri dýpst, þar lægju landamerki, þ.e. rás sem myndar dýpstu rennu í átt að landi.  Það kvaðst ekki hafa miðað við Innri rás eða skoruna sem gengur lengst inn í landið.  Það kvaðst hafa talið dýpsta ós hafa verið þar sem rásin eða rennan hafi verið dýpst á  stórstraumsfjöru.  Það vísaði í mynd nr. 18 á bls. 96 í riti þess og sagði að hún kunni ef til vill að hafa verið tekin þannig að girðingin hafi markað sýnina út í þennan dýpsta ós og miðað við loftmyndina, sem það hafi merkt inn á væri það ekki fjarri lagi.  Því sýndist að þau sker eða tangi sem væru ofarlega til hægri á loftmyndinni, sem sýnd var í réttinum (sérunnið kort með tölvutækni) væru norðan við dýpsta ós og í því sambandi var og er talað um Voghólssker.  Það taldi að það hafi reynt að staðsetja rennuna út frá því hvað girðingin sýndi því og það þannig markað Dýpsta ós.  Það mundi ekki hvort hvort Sigurjóns hafi talið girðinguna, þ.e.Vogagirðinguna í merkjum, en taldi líklegt miðað við að hún hafi verið höfð í forgrunni, að Sigurjón hafi talið hana í merkjum, en hann hafi farið með því að athuga aðstæður við Dýpsta ós, sem og á aðra staði sem það hafi staðsett.  Það kvað Sigurjón hafa talið vörðuna, sem það hafi merkt á loftmynd ofan Strandavegar við Einingaveg vera landamerkjavörðu, en vitnið minntist þess ekki að hafa séð eða tekið sérstaklega eftir Einingavegi eða Almenningsvegi.

Vitnið Hilmar Egill Sveinbörnsson, landfræðingur, kvaðst hafa sett niður merki á korti dskj. nr. 3, fyrir afa sinn Egil Sæmundsson.  Það kvaðst hafa stuðst við landabréf fyrir Vogatorfuna og hafi afi þess og fleiri staðkunnugir bent því á vörðu sunnan Presthóla, sem það hafi merkt nr. 3 á dskj. nr. 3.  Þetta hafi verið fyrsta varðan sunnan Presthóla og verið talin vera landamerkjavarða miðað við lýsingu í landamerkjabréfinu.  Þetta hafi verið gömul varða og mosavaxin og það tekið niður hnit hennar.  Það kvaðst hafa séð Almenningsveginn, sem hafi verið gamall vegur og það sést af því hve vel hann var sorfinn ofan í klöppina sumsstaðar.  Það kvaðst ekki hafa athugað vörðu við Gíslaborg og þótt langsótt að hún væri landamerkjavarða, þar sem hún væri sunnar og ekki við Almenningsveg.  Það kvað hafa verið litið svo á, að Dýpsti ós væri rásin þar sem hún gengur lengst inn í landið, sem það hafi merkt sem punkt 1 á kortið.  Það kvað engan af gangstefnendum eða  neinn af þeirra hálfu hafa komið að þessum merkingum.  Það kvaðst ekki hafa athugað sérstaklega hvort varðan hafi sést frá sjó eða punkti 1, en hún hafi þá verið það lá, að hún hafi vart sést þaðan.

Við upphaf aðalmeðferðar var farið í vettvangsgöngu og skoðuð þau landamerki sem deilt er um og gengið að þeim landamerkjapunktum sem aðilar byggja kröfur sínar á.  Þann 6. maí sl. fóru svo dómendur málsins aftur á staðinn til að kanna aðstæður nánar, en þá var háfjara og hugsanleg lega svonefnds dýpsta ós könnuð miðað við að þá var alveg fallið út.  Einnig var athugað hvernig vörðurnar við Almenningsveg bæru við, séð frá merktum punktum við Djúpavog, einkum  varða merkt punktur 3 og næsta varða sunnan við hana nr. 14.  Ennfremur var athugað með sjónlínuna á vörðuna við Gíslaborg merktur punktur 12 og einnig í vörðu norðan hennar. Stóð einn dómenda við merkta staði hjá Djúpavogi en hinir gengu að vörðunum og stóðu við þær, er horft var á milli.

Eftir að vitnaleiðslur höfðu farið fram hér fyrir dómi 22. september s.l. var enn farið í vettvangsgöngu.  Höfðu þá verið settar veifur á stöng, sem var mannhæðar há við vörður sem merktar hafa verið nr. 3,  nr. 14, nr. 12 og nr. 4 og þá sérstaklega kannað hversu vel þær bæru eða blöstu við frá upphafsstöðum aðila við Djúpavog og notuðust menn við sjónauka þegar horft var frá þessum stöðum. Í Vatnsskerinu sást veifan hjá vörðunni við Gíslaborg vel og einnig veifan við vörðu nr. 14, en veifan við vörðu nr. 3 sást vart eða ekki.  Þá mátti og sjá veifu sem sett hafði verið niður við Viðugg.  Þegar horft var frá punkti 1 við Innri rás sást veifan við vörðu 3 vel, en veifan við vörðu nr. 14, bar ekki eins vel við og sást illa.  Veifurnar við vörðu hjá Gíslaborg og veifa við Viðugg sáust líka.  Á þeim tíma sem vettvangskönnunin fór fram var að fjara út, en ekki var stórstraumsfjara.  Þá kom fram að Djúpi ós væri út af Vatnsskerinu og Dýpsti ós gæti verið hjá Ósskerjunum austan við Grænutanga.

Í málinu er fyrst og fremst byggt á landamerkjabréfunum frá 1890, sem lýst er hér að framan og einnig yfirlýsingu Jóns Daníelssonar frá 20. ágúst 1840 um Stóru- og Minni Voga, eru bréf þessi og yfirlýsing að mestu samhljóða, en þó er upphafspunkturinn í yfirlýsingunni Djúpivogur, en án nánari tilgreiningar.

Þá er sérstaklega vísað af hálfu aðalstefndu og gagnstefnenda til landaskiptagerðar frá 4. og 5. júní 1940, en þar komi fram að landamerkjalína Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfisins að norðan nái frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í vörðu er stendur í Hrafnagjárbarmi "Viðaukur", sem kölluð er Leifur heppni.

Í sambandi við þessa landaskiptagerð er þó rétt að vísa til svarbréfs Pálma Einarssonar formanns Landaskiptanefndar Gullbringusýslu, dags. 20. ágúst 1953  við bréfi Kristjáns Guðlaugssonar hrl., þar sem óskað er eftir kortum vegna skiptanna um eignina Stóru-Voga vegna misklíðar, sem fram höfðu komið um mörk jarðarinnar.

Í svarbréfinu kemur fram að samkv. 8. gr. landaskiptalaga hafi uppdráttur verið gerður af hinu skipta landi og á þá færð landamerki eins og þau voru ákveðin í skiptagerðinni.  Hann kvað landamerkin glötuð og yrði um að kenna vanrækslu aðila sjálfra sem væri refsiverð.  Greindir uppdrættir hafa ekki verið lagðir fram í máli þessu.

Verður þá vikið að einstökum landamerkjapunktum sem deilt er um.

Upphafspunkturinn er Dýpsti ós í Djúpavogi skv. landamerkjabréfum frá 1890. Gleggsta lýsingin um þetta efni kemur fram í örnefnaskrá eftir Gísla Sigurðsson, þar sem vísað er í samantekt Ara Gíslasonar, en hún byggir m.a. á upplýsingum frá Baldvini Oddssyni frá Grænuborg og er landslagi og aðstæðum við Vatnssker m.a. lýst þannig: (Sleppt tilvísun í nafnaskrá)...

“Sjávargatan liggur heiman að niður á Kampinn, en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör.  Á Kampinum er Sjávarbyrgið eða Grænuborgarbyrgi. Grænu-borgarós liggur vestan Grænuborgartanga og fram af ósnum eru Ósskerin. Í tanganum er Grænuborgarlón.  Hnallasker er hérna fram af og Manndrápssker, er líklegt að þar hafi orðið mannskaði, þó að þar um sé engin sögn.  Frá Grænuborgarvör liggja Austurkotsfjörur allt út undir Djúpaós.  Þar taka við Minni-Vogafjörur Eystri allt að Syðri  Rás.  Yst í Djúpaós er Dýpstiós.  Nokkru innar er Vatnssker, þar upp af er Vatnskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör.  Einnig Djúpavogvör.  Austan við hólmann sem Vatnsskersbúðir eru á er svo Innri Rás og skerst hún nokkuð lengra inn í landið en Syðri Rás. Frá Grænuborgarvör og allt inn að Syðri Rás var á sjávarkampinum  Sjóvarnargarður. Var hans oft ærin þörf, því í háflæðum rann sjórinn inn yfir Austurtúnið"...................

I

Í örnefnaskrá frá 1950 um Voga eftir Ara Gíslason, sem skráð er eftir Árna Kl. Hallgrímssyni, hreppstjóra, Ólafi Péturssyni, Knarrarnesi, einhverjum í Grænuborg o.fl. er þessi lýsing:

........"Svo er Búðarvör, þar hefur verið sjóbúð.  Svo er fátt auðkennt með sjó fyrr en kemur að töngunum fyrir framan Grænuborg en þeir heita Grænuborgartangar.  Í þeim eru klappir sem heita Manndrápssker.  Norður af Minni Vogavör er klettur upp úr klöpp, sem heitir Apsalon.  Og hér norður með ströndinni heita Ósasker.  Nokkuð innan við Grænuborg er smávogur, sem heitir Djúpivogur.  Þar eru merkin móti Brunnastaðahverfi í dýpsta ós.  Þar er Vogamegin Vatnsskersbúðir sem kallað er, en þar er Vatnsrenna með ósöltu vatni, sem kemur þar fram undan klapparhæð niðri við Voginn"....... 

Þá er vísað til Þangfjörumarka fyrir Halakot í Brunnastaðahverfi annars vegar og Vogatorfunnar Minni Voga hins vegar, sem sýni eindregið að landamerki og þangfjörumerki fari saman um dýpsta ós í Djúpavogi og Vatnsskersbúðir. Um fjörumörk í Brunnastaðahverfi frá 1922 stendur m.a:

...."Halakoti eru úr Vatnsskersbúðum norður til eftir laut, sem liggur milli skerja og úr þeirri laut er rás, sem rennur í sjó fram alla leið út úr Djúpavogi er segir til um stórstraumsfjöru"....

Í framburði Magnúsar Ágústssonar og Grétars Inga Símonarsonar er nokkuð í samræmi við þessar lýsingar, að dýpsti ós sé undan Vatnsskeri og telur  Grétar jafnvel að þarna hafi ós getað myndast við að þarna væru víða ferskvatnsuppsprettur í fjörunni, sem kæmu undan klöppunum á Vatnsskerinu.

Á teikningu, sem fylgdi dskj. nr. 16 er upphafspunktur landamerkjalínu talin vera við Dýpsturás í Djúpavogi að vörðu sunnan við Strandaveg og þaðan í Viðaukur.  Í merkingunni á kortum sem fylgdu riti Gunnars Hauks er merkjalínan frá svipuðum stað, en þó nær Vatnsskerinu í vörðu við Eningsveg sunnan Strandavegar.  Ljóst þykir að Dýpstarás skv. teikningunni er sami staður og Innri rás skv. framangreindum lýsingum í örnefnaskránum.

Á framangreindri teikningu sem fylgdi dskj. nr. 16 er lína dregin frá stað sem merktur er dýpsta rás og getur verið Innri rás skv. framanrituðu og sögð vera um 80 metra norðaustan við Vatnsskerið að vörðu sem sögð er vera 150 metra norðaustan við línu sem dreginn er frá Vatnsskeri að Viðauki eða vörðunni Leifi Þórði og svo til 200 metrum ofan við Strandaveg.

Á framangreint kort sem fylgdi riti Gunnars Hauks Ingimundarsonar, er lína dregin frá punkti Vatnsskersins við girðinguna þar samanber framburð hans hér, að þeirri vörðu sem er um 300 metra norðaustan sömu línu frá Vatnsskeri að Leifi Þórð og við Almenningsveginn

Þá kemur til álita hvaða vörðu ofan Strandavegar og sunnan Presthóla ber að miða við sem landamerkjavörðu Voganna, sem sé í sjónhendingu við Dýpsta ós. Af landamerkjabréfunum er ljóst að varðan er við svonefndan Almenningsveg eða Eningsveg.  Við vettvangsgönguna 21. apríl s.l. og svo vettvangsskoðun dómenda 6. maí s.l. voru skoðaðar 3 vörður við veginn, sem koma vegna stærðar til álita sem landamerkjavörður. Það er varða merkt nr. 3 á framlögðum landakortum og aðalstefnendur miða við sem landamerkjavörðu.  Varða sem er nokkru sunnar og vestar og mun hafa verið merkt nr. 14 og svo varða við svokallaður prílur hjá girðingunni merkt nr. 15.  Varðan við Gíslaborg merkt nr. 12 á landakortum var og skoðuð en þótti það langt frá veginum að hún gæti vart fallið að lýsingu landamerkjabréfanna um vörðu við Almenningsveginn eins og hann er talinn hafa legið skv. framlögðum gögnum.  Þessar þrjár vörður við Almenningsveginn hafa líklega allar staðið uppi er landamerkjabréfin voru gefin út og einnig er Jón Daníelsson samdi framangreinda yfirlýsingu um landamerki Stóru-Voga árið 1840.  Í þessum skjölum er talað um eina vörðu, án þess að hún sé staðfærð nánar miðað við að sunnan Presthóla eru þrjár vörður við Almenningsveginn upp af upphafsstaðnum, sem ástæða var til m.v. aðstæður að aðgreina.

Þá er og til þess að líta að í landamerkjabréfinu fyrir Stóru- og Minni Voga stendur ; ...”norðan og austan úr Dýpsta ós í  djúpavogi sjónhendingu í vörðu við almenningsveginn..” Sú stefna sem er næst þessu miðað við þær merkjalínur, sem tilgreindar hafa verið hér að framan, er stefna Vogagirðingarinnar frá Vatnsskeri að syðstu vörðunni við svonefndar prílur. 

 

V. Niðurstöður.

Í gjörðarbók Landskiptanefndar Gullbringusýslu frá 5. júní 1940 er ákvörðuð voru landskipti í Vogatorfunni kemur fram, að landamerkjalína Vogatorfunnar og Brunastaðahverfis liggi frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í vörðu er stendur á Hrafnagjárbarmi,  "Viðaukur" sem kölluð er Leifur heppni.  Ef þessari línu er fylgt er ljóst að eina varðan sem kemur til greina hjá "Viðauki" er varðan sem skoðuð var í vettvangsgöngu 21. apríl s.l. og er hún talin vera varðan Leifur Þórður.

Í vettvangsgöngunni 22. september s.l.  var sett stöng með veifu hjá "Viðauk" og sást hún frá Vatnsskerinu og er nú ágreiningslaust að miða við hana sem landamerkjavörðu.  Af gögnum málsins verður ekki séð að á þessum tíma hafi komið nein mótmæli við þessari landamerkjalýsingu, en bréf Kristjáns Guðlaugssonar til Landskiptanefndar virðist fyrst og fremst varða mörk milli Stóru Voga og Minni Voga.

Það er svo ekki fyrr en 1976, að deilumál rísa um landamerki í tengslum við landgræðslugirðingu og legu hennar og töldu Vogamenn hana ekki vera í merkjum og ganga inn á land þeirra svo sem fram kemur í bréfi þeirra til Landgræðslu ríkisins dskj. nr. 16, en á sameiginlegum fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps og landeigenda í Vogum  þann 13. maí 1976 var samþykkt "að girðingin gengi inn á þeirra land, þannig að hún kæmi úr efra horni skógræktargirðingarinnar sem nú er og liggi í beina línu þangað sem Reykjanesbraut sker mörk Voga og Brunnastaðahverfis og fylgi þeim mörkum til sjávar."

Miðað var við landskiptagerðina frá 1940, sem Vogamenn höfðu samþykkt verður að ætla að þau mörk, sem átt hafi að fylgja væri línan frá vörðunni Leifi Þórð við Viðauk að Vatnsskeri. Girðingunni hafði verið sveigt til vesturs frá þessum mörkum ofan Strandavegar vegna þess að þar þótti girðingarstæðið betra og í yfir-lýsingu landeigenda og hreppsnefndar frá 16. maí 1977 er áréttað að þessi girðing ráði ekki í landamerkjum.

Á þessum fundi varð og samkomulag um að landeigendur Voga og Brunnastaðahverfis gengju á landamerki og síðan yrðu sett upp varanleg merki milli Voga og Brunnastaðahverfis, þegar landeigendur væru búnir að finna merkin, sem getið er um í landamerkjalýsingum  frá 1890.

Ekki er fram komið, að landeigendur hafi í framhaldi af þessu gengið saman á merki og sett upp varanleg merki, heldur eru landeigendur eða afkomendur þeirra hver í sínu lagi, löngu síðar að reyna að átta sig á landamerkjum eftir lýsingunni í landamerkjabréfunum og komast að mismunandi niðurstöðum svo sem áður er fram komið.

Í málinu hafa allir punktar, sem deilt er um verið mældir með staðsetningartækjum, eða hnitamerktir og þeir færðir inn á landakort (hnattstöðu-viðmið VGS 84).  Presthólar eru merktir sem punktur nr. 2 og er ágreiningslaust með aðilum að þar séu Presthólar, sem vísað er til í merkjabréfunum, en merking þeirra sunnar á sum kort er talin ónákvæm og ekki rétt.

Eftir ítrekaðar vettvangsgöngur og svo kannanir á framlögðum handritum um örnefni og ritgerð Gunnars Hauks Ingimundarsonar, sem og vætti hans, þykir ekki fara á milli mála að Dýpsti ós er í Djúpaósi, sem er renna út af Vatnsskeri og upphafsstaðir þeir sem aðilar byggja á og eru merktir nr. 1 og 11 á landakortum geta báðir verið réttir, þar sem merkjalínur frá vörðunum nr. 3 og 12, skerast síðast í Dýpsta ósi og lægi þá fyrri línan um Innri rás, en sú síðari um Vatnssker.

Þá kemur til álita hvaða varða ofan Strandavegar í sjónhendingu frá Dýpsta ósi er landamerkjavarða, miðað við lýsingarnar í landamerkjabréfunum og önnur gögn.  Um sjónhendingu er vísað til þess sem fram kom í vettvangsgöngu 22. september s.l. og lýst er hér að framan.

Í landamerkjabréfum Vogamanna er talað um Almenningsveg eða Einingaveg til viðmiðunar og í öllum bréfunum er talað um Hrafnagjá eða Hrafnagjárbarm, en bæði Hrafnagjáin og Almenningsvegurinn ganga þvert á landamerkjalínurnar, sem deilt er um.

Í landamerkjabréfi Brunnastaðahverfis er einungis talað um vörðu sunnan Presthóla og fellur sú lýsing að vörðu nr. 12, sem er í nær hásuður (ssv) frá Presthólum. Varða þessi stendur hátt og  virðist vera vel hlaðin,  en hrunin að hluta. Hún sést vel frá upphafspunkti gagnstefnenda á Vatnsskeri  Einnig er framburður Magnúsar Ágústssonar ásamt greinargerð hans og bróður hans Ragnars Ágústssonar, um að faðir þeirra, sem fæddur hefur verið fyrir 1900, hafi bent á vörðu 12 sem landamerkjavörðu og beðið þá að muna hana vel.  Þá er í greinargerð Lárusar Kristmundssonar vísað til þess, að Ólafur Pétursson í Knarrarnesi, sem þaulkunnugur hafi verið örnefnum og kennileitum á Strandarheiði, hafi bent á vörðu 12 sem landamerkjavörðu milli Voga og Brunnastaðahverfis.  Bæði Ragnar og Lárus voru það sjúkir að þeir treystu sér ekki til að koma fyrir dóm til að staðfesta greinargerðir sínar.  Texti bréfsins gefur og til kynna að línan úr Dýpsta ósi upp til fjalls, brotni einungis um vörðu við Leif Þórð.

Í landamerkjabréfum Vogamanna er og talað um vörðu sunnan Presthóla, en jafnframt er talað um að hún sé við Eningsveginn eða Almenningsveginn og byggja aðalstefnendur á því að varða nr. 3, sé sú varða sem falli að þessari lýsingu.   Hún stendur við Almenningsveginn eins og skýrt kom í ljós við vettvangsgönguna og er næst Presthólum af þeim vörðum sem uppi standa sunnan Presthóla, en er þó töluvert fallin og hefur ekki verið haldið við.  Um að þessi varða sé landamerkjavarða er framburður Guðrúnar Egilsdóttur, sem kvað föður sinn Egil Sæmundsson, hafa bent sér á þessa vörðu, sem landamerkjavörðu, en hann skrifar ásamt fleirum undir bréfið til Landgræðslu ríkisins, dags. 12. maí 1977, þar sem landgræðslugirðingunni var mótmælt sem landamerkjagirðingu.  Á teikningu sem fylgdi bréfinu, er þó varðan merkt sunnar og nær vörðu nr. 14.  Þar er og gert ráð fyrir að Innri rás sé Dýpsti ós.  Varða nr. 3 og vörðurnar sunnan við hana nr. 14 og 15 eru allar í  suðvestur frá Presthólum. Þær eru allar löngu fallnar og virðist ekki hafa verið haldið við svo að áratugum skiptir. Víst er að allar hafa þær verið leiðarvörður og engin ummerki gefa til kynna að ein þeirra hafi annarri fremur verið landamerkjavarða. Ef ein af þessum vörðum hefur verið landamerkjavarða, hefði verið eðlilegt að taka skýrt fram í landamerkjabréfi um hverja var að ræða.

Vísað er til þess sem að framan getur um vettvangsgöngu 22. september sl., en þá varð ljóst, að varða nr. 3 í mannhæð, hefur sést vel frá Innri rás, en varða nr. 14 hefur sést vel frá Vatnsskeri, sem er sá upphafspunktur, er Gunnar Haukur miðaði við.

 

Ályktun réttarins.

Þegar allt er dregið saman, sem rakið er hér að framan, þykja rökin og gögnin sem mæla með því að krafa gagnstefnenda sé tekin til greina sterkari.  Þannig þykir ljóst, að Dýpsti ós er beint út af Vatnsskerinu, þar eru og fjörumörk, milli Minni-Voga og Halakots, sem fara saman við landamerkjalínu frá Dýpsta ós í vörðu 12  í beina línu á Leif Þórð.   Landskiptagerðin frá 1940, sem Vogamenn undirrituðu eru ótvíræð um að landamerki Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfis séu í beinni línu frá Vatnsskeri í Viðauk eða Leif Þórð,  en ef ætlunin var að afmarka bara heimalönd Vogamanna var óþarfi að draga hana alveg að Viðauk.  Þá þykir þessi lína geta fallið að báðum landamerkjabréfum en svo sem fyrr getur fellur hún alveg að lýsingum í landamerkjabréfi Brunnastaðahverfis, en einnig að hluta að lýsingu í landamerkjabréfum Vogamanna, en í bréfunum er talað um að mörkin séu norðan og austan úr dýpsta ósi í Djúpavogi, og fellur það að landamerkjum frá Vatnsskeri í beina línu að Viðauk, en öllu síður að línu frá Innri rás að vörðu 3.

Þá þykir mega skýra að við Almenningsveg sé sama og í námunda við Almenningsveg eða hjá honum og að Almenningsvegur og Hrafnagjá séu næstu þverlínur, sem unnt var að miða við, en þarna eru töluverðar fjarlægðir og álíka langt er frá Hrafnagjá að Viðauk og frá Almenningsvegi að vörðu nr. 12.

Loks er varða nr. 12 vel varðveitt varða og fyrir liggur umsögn og vísun til manna sem þekktu vel til staðhátta, en lína frá Vatnsskeri að henni er svo í beinu framhaldi að Viðauk.  Hins vegar hafa vörðurnar við Almenningsveginn grotnað og fallið niður að mestu samfara því að hann lagðist af, en þetta voru vörður sem vörðuðu veginn og verður að telja ólíklegt að ein þeirra hafi verið valin sem landsmerkjavarða, án þess að vera skýrar afmörkuð og skortir frekari gögn um vörðu nr. 3 til þess að hún, þrátt fyrir það sem að framan segir, yrði talin landamerkjavarða, sem markaði þau landamerki sem um er deilt. Að hún sé landamerkjavarða er nær eingöngu byggt á skýringum Egils Sæmundssonar á landamerkjabréfunum, en vísar ekki í neinn sem stóðu að gerð landamerkjabréfanna eða landskiptagerðinni eða aðra sem til þekktu, um að þarna hafi verið landamerkjavarða  og uppi voru á timabilinu frá 1890-1940, sem staðfestu það, né er fram komið að Brunnastaðamenn hafi á sínum tíma fengið að tjá sig um þessar merkingar.

Aðalstefndu eru því sýknaðir af kröfum aðalstefnenda, en endanlegar kröfur aðalstefndu og gagnstefnenda teknar til greina.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber því að dæma aðalstefnendur til að greiða málskostnað í aðalsök og gagnsök, sem ákveðst 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveða upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari,  Guðmundur Guðjónsson landfræðingur og Magnús Thoroddsen, hæstaréttarlögmaður, sem er með sératkvæði.

 

DÓMSORÐ

Landamerki milli jarða Vogatorfu og jarða Brunnastaðahverfis í Vatnsleysustrandarhreppi skulu vera frá Dýpsta ós í Djúpavogi út af Vatnsskeri punktur 11  (hnit 63° 59.563´n. 22° 23.121´v.) þaðan að vörðu við Gíslaborg punktur nr. 12 (hnit 63° 59.099´n. 22° 21.668´v.), þaðan að vörðunni Leifi Þórð við Viðauk punktur nr. 4.  (hnit 63° 58.550´n-22°. 20.017´v),  þaðan í Markhól punktur nr. 5 (hnit 63° 56.900´n. 22° 17. 583´v.) og þaðan í Vatnskatla punktur nr. 8 (hnit 63° 55. 383'n.  22° 16.033´v.), allt í samræmi við uppdrátt dskj. nr.45 sbr.36.

Aðalstefnendur, Ása Árnadóttir o.fl. greiði óskipt gagnstefnendum, Sólveigu Bragadóttur o.fl. 700,000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Sératkvæði

Magnúsar Thoroddsen

Ég er ósammála atkvæði meirihlutans varðandi staðarákvörðun landamerkjavörðu sunnan Presthóla af ástæðum þeim, er hér greinir:

Í landamerkjabréfi Stóru-Voga, dags. 20. ágúst 1840, segir um þetta svo:  "Norðan og austan:  Úr djúpavogi og sjónhendingu í vörðu við ..... eningsveginn fyrir sunnan Presthóla......"

Í landamerkjabréfi fyrir Stóru- og Minni-Voga, dags. 23. maí 1890, segir svo um þetta:  "Að norðan og austan, úr Dýpsta ós í djúpavogi sjónhending í vörðu við almenningsveginn fyrir sunnan Presthóla...."

Ég lít svo á, að í báðum þessum landamerkjabréfum sé átt við almenningsveginn, sem var vegarslóði milli Voga og Hafnarfjarðar á þessum tímum.

Í landamerkjabréfi fyrir Brunnastaðahverfið, dags. 22. maí 1890, segir svo:  Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru:  Úr dýpsta ós sem til sjávar fellur í djúpavogi, upp í vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla...."

Öllum þessum landamerkjabréfum er það sammerkt að tilgreina vörðu "fyrir sunnan presthóla" (eða -hól.)

Í engu þessara landamerkjabréfa segir, að varða þessi sé í hásuður frá Presthólum.  Því verður ekki sagt, að ósamræmi sé á milli bréfanna, hvað þetta varðar.  Hins vegar er staðarákvörðun vörðunnar nákvæmari í landamerkjabréfum Voga heldur en í bréfi Brunnastaðahverfis, þar eð í fyrrnefndu bréfunum er varðan staðsett við almenningsveginn (eða .... eningsveginn, sem verður að telja sama vegarslóðann, svo sem fyrr getur.)

Þegar tilgreind er varða fyrir sunnan Presthóla, þá lít ég svo á, að þar sé átt við fyrstu vörðu fyrir sunnan Presthóla, sem komið getur til greina, sem landamerkjavarða, úr því að eigi er annars getið. Þá vörðu tel ég vera vörðu, sem aðalstefnendur tilgreina í kröfugerð sinni með hniti:  63°59´22" n. brd, 22°21´39" v. lgd.

Yfirlýsingin á sameiginlegum fundi Hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps og landeigenda í Vogum, þann 13. maí 1976 varðandi staðsetningu landgræðslugirðingarinnar (sbr. dskj. nr. 13), svo og bréf landeigenda í Vogum til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, Rangárvallasýslu, dags. 12. maí 1977, ásamt viðfestum "lauslegum uppdrætti" (dskj. nr. 16) styður ennfrekar framangreinda niðurstöðu.

Landskiptagerðin frá 5. júní 1940 breytir engu hér um, þar sem í henni er hvergi minnzt á vörðu fyrir sunnan Presthóla né heldur Dýpsta ós í djúpavogi, heldur segir svo í gerð þessari:  "Minni-Vogatorfan fær sameiginlega 36,37 ha er takmarkast að norðan af landamerkjalínu Vogatorfunnar og Brunnastaðahverfisins frá Vatnsskeri sjónhending eftir girðingu er stefni í vörðu, er stendur í Hrafnagjárbarmi "Viðaukur" sem kölluð er "Leifur heppni." (dskj. nr. 9).

Þessi lýsing landamerkja er alls ekki í samræmi við tilgreiningu merkja, eins og þeirra er getið í framangreindum landamerkjabréfum jarðanna, enda  höfðu landskiptamenn þau eigi undir höndum samkvæmt upptöldum skjölum í landskiptagerðinni.

Þá er og á það að líta, að landskiptauppdráttur landskiptanefndarinnar hefir eigi fundizt samkvæmt bréfi Pálma Einarssonar, oddamanns landskiptanefndarinnar, til Kristjáns Guðlaugssonar, hæstaréttarlögmanns, dags. 2. september 1953 (dskj. nr. 11).

Samkvæmt þessum úrslitum teldi ég rétt að dæma gagnstefnendur til að greiða aðalstefnendum óskipt  700,000 krónur í málskostnað, auk virðisaukaskatts.