Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2010
Lykilorð
- Ákæra
- Skjalafals
- Skilorð
|
|
Þriðjudaginn 21. desember 2010. |
|
Nr. 275/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn Ragnari Tómasi Matthíassyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Ákæra. Skjalafals. Skilorð.
R var í héraði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga um skjalafals vegna fimm tilvika með því að hafa ýmist svikið eða reynt að svíkja út vörur úr nánar tilgreindum verslunum með því að framvísa fölsuðum beiðnum nánar tilgreindra fyrirtækja, sem beiðenda um úttekt í reikning eða um afhendingu á vöru. Ákærði undi sakfellingu héraðsdóms vegna eins ákæruliðs en krafðist sýknu af hinum fjórum fyrir Hæstarétti. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans og þess að brot þau, sem ákærði væri borinn sökum um, væru öll framkvæmd með sama hætti og að sérstök einkenni við fölsun úttektarbeiðnanna væru svo keimlík í öllum tilvikunum að það veitti vísbendingu um að sami maður hefði átt þar hlut að máli. Ákærði hafði í einu af framangreindum tilvikum aðhafst með þeim hætti að hafa fengið sendibifreiðastjóra til þess að framvísa úttektarbeiðni á lager verslunar, gegn afhendingu vara, og hélt því fram í málinu að verknaðarlýsing ákæru færi í bága við þá háttsemi hans, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Talið var að brot ákærða hefði verið fullframið og skipti ekki máli um sakfellingu hans, hvort hann framvísaði beiðninni sjálfur eða fæli það grandlausum þriðja manni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæruliðum 1, 2, 4 og 5 í ákæru. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð, ákvörðuð sem hegningarauki og skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst hann endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um skaðabætur til A ehf., B ehf. og C hf., aðallega þannig að skaðabótakröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara þær lækkaðar.
Í máli þessu er ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals vegna fimm tilvika á tímabilinu frá 10. desember 2005 til 2. júlí 2006, en við meðferð málsins í héraði var fallið frá 6. ákærulið um ætluð fjársvik á árinu 2004.
Í ákæru er verknaðarlýsingu hagað svo, að ákærði er sakaður um að hafa svikið ,,út vörur í eftirgreindum verslunum með því að framvísa þar ... beiðnum um úttektir á vöru, sem ákærði hafði falsað frá rótum á almenn úttektareyðublöð með því að stimpla eyðublöðin með nöfnum og kennitölum ýmissa fyrirtækja sem beiðenda um úttekt í reikning ... og náð þannig að svíkja út vörur að verðmæti alls [4.156.462] kr., sem skuldfærðar voru á viðskiptareikning fyrirtækjanna og reynt að svíkja út vörur að verðmæti 1.895.000 kr. með framvísun falsaðs skjals ...“. Að því búnu eru í ákæru rakin í fimm liðum einstök tilvik, sem ákært er fyrir.
Eins og greinir að framan unir ákærði sakfellingu héraðsdóms samkvæmt 3. lið ákæru, en krefst sýknu af hinum fjórum ákæruliðunum. Brot þau, sem ákærði er borin sökum um, voru öll framkvæmd með sama hætti, eins og lýst er í almennum kafla ákærunnar. Sérstök einkenni við fölsun úttektarbeiðnanna eru svo keimlík í öllum tilvikunum að það veitir vísbendingu um að sami maður hafi átt þar hlut að máli.
Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, er fallist á sakfellingu hans samkvæmt ákæruliðum 1, 4 og 5.
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á 2. ákærulið meðal annars á því að verknaðarlýsing í ákæru sé röng og ekki rúmist innan 2. málsliðar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að leggja til grundvallar sakfellingu að sendibifreiðarstjóri, er ákærði fékk til þess, framvísaði úttektarbeiðninni á lager verslunarinnar og fékk vörurnar afhentar. Þótt ákærði hafi afhent grandlausum þriðja manni úttektarbeiðni, sem ákærði hafði sjálfur falsað, hagnýtt sér verk mannsins til að koma fram blekkingu sinni og þetta hefði mátt koma fram í verknaðarlýsingu ákæru, verður ekki talið að á ákærunni séu annmarkar, sem hafa eigi þau áhrif sem ákærði krefst. Brot ákærða var fullframið og skiptir ekki máli um sakfellingu hans, hvort hann framvísaði beiðninni sjálfur eða fól það grandlausum þriðja manni. Verður sakfelling ákærða samkvæmt þessum ákærulið staðfest með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna.
Sakaferli ákærða er nægilega lýst í héraðsdómi. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var hann dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júní 2010 fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, en ekki gerð sérstök refsing. Forsendur og niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða og skilorðsbindingu hluta hennar verður staðfest, svo og niðurstaða um skaðabótakröfur auk vaxta. Málsástæður ákærða um lækkun skaðabótakrafna vegna virðisaukaskatts og smásöluálagningar fela í sér andmæli gegn einkaréttarkröfum tjónþola, sem lúta reglum XXVI. kafla laga nr. 88/2008, eru of seint fram komnar og verður ekki á þær fallist.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ragnar Tómas Matthíasson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 402.772 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. apríl sl., á hendur Ragnari Tómasi Matthíassyni, kt. 041266-4229, Hringbraut 119, Reykjavík, fyrir fjársvik og skjalafals framið í Reykjavík á árunum 2004 til 2006, þegar hann sveik út vörur í eftirgreindum verslunum með því að framvísa þar, nema samkvæmt síðasta ákærulið, beiðnum um úttektir á vöru, sem ákærði hafði falsað frá rótum á almenn úttektareyðublöð með því að stimpla eyðublöðin með nöfnum og kennitölum ýmissa fyrirtækja sem beiðenda um úttekt í reikning, tilgreina vöruheiti og undirrita beiðnirnar ýmist í eigin nafni eða með upphafsstöfum úr nafni sínu og náð þannig að svíkja út vörur að verðmæti alls 4.825.966 kr., sem skuldfærðar voru á viðskiptareikning fyrirtækjanna og reynt að svíkja út vörur að verðmæti 1.895.000 kr. með framavísun falsaðs skjals svo sem rakið er:
1.
Þann 10. desember 2005 svikið út hjá verslun A, [...], þrjú sjónvarpstæki að verðmæti alls 1.207.403 kr. með því að símsenda versluninni falsaða úttektarbeiðni, stimplaða með nafni D hf., kt. [...] um afhendingu á LCD skjám vegna [...], dags. sama dag.
2.
Þann 13. febrúar 2006 svikið út í verslun E ehf., [...], 2 sjónvarpstæki, 2 fartölvur, tölvuprentara og 2 heimabíókerfi samtals að verðmæti 884.706 kr. með því að framvísa í versluninni falsaðri úttektarbeiðni, dags. sama dag, stimplaðri með nafni D hf., kt. [...], um afhendingu á vöru að andvirði 1.087.364 kr. samkvæmt tilboði nr. 173852 vegna [...].
3.
Þann 16. febrúar 2006 reynt að svíkja út hjá versluninni F, [...], 4 sjónvarpstæki, myndavél, 2 farsíma og hljómtæki allt að verðmæti 1.895.900 kr. með því að símsenda versluninni falsaða úttektarbeiðni, dags. sama dag, stimplaða með nafni D hf. um afhendingu á vöru að verðmæti 1.895.000 kr. vegna [...] en lögregla handtók ákærða í versluninni.
4.
Þann 21. júní 2006 svikið út í verslun B ehf., [...], 3 sjónvarpsskjái og 2 hljóðkerfi að verðmæti alls 655.980 kr. með því að framvísa þar falsaðri úttektarbeiðni í nafni Ístaks, kt. 540671-0959, vegna [...], dags. sama dag.
5.
Þann 2. júlí 2006 svikið út hjá verslun C hf., [...], Reykjavík 3 sjónvarpstæki, heimabíókerfi, 2 fartölvur og 3 kvikmyndavélar að verðmæti alls 1.758.691 kr. með því að framvísa þar falsaðri úttektarbeiðni í nafni G þar sem vísað er til sölutilboðs frá C nr. 306074, dags. sama dag.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
6.
Fyrir fjársvik með því að hafa, þann 24. nóvember 2004 svikið út hjá verslun H hf. [...], Reykjavík verkfæri að verðmæti 319.186 kr. með því að láta færa andvirðið heimildarlaust í reikning hjá lögmannsstofunni I ehf., kt. [...].
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu krefjast eftirgreindir þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
A ehf., kt. [...], skaðabóta að fjárhæð 562.244.979 (svo) krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. desember 2005 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
B ehf., kt. [...], skaðabóta að fjárhæð 655.980 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. júní 2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags auk lögmannskostnaðar að mati dómsins.
C hf., kt. [...], skaðabóta að fjárhæð 1.408.373 krónur auk áfallandi dráttarvaxta og viðbótarkostnaðar hverju sinni til greiðsludags.
J hf., skaðabóta að fjárhæð 319.186 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. nóvember 2004 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Við aðalmeðferð málsins féll sækjandi frá þeim hluta 5. ákæruliðar þar sem ákærða er gefið að sök að hafa svikið út tvær fartölvur. Er ákærða því gefið að sök að hafa svikið út vörur að verðmæti 1.408.373 krónur samkvæmt þeim ákærulið. Þá féll sækjandi frá 6. ákærulið. Breytast fjárhæðir í inngangskafla ákæru sem þessu nemur.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af 1., 2., 4. og 5. ákærulið, en að honum verði að öðru leyti gerð vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin. Þá er þess krafist að skaðbótakröfum verði vísað frá dómi. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
Ákæruliðir 1. og 3.
Þann 13. desember 2005 mætti K, afgreiðslumaður í verslun A ehf. í Reykjavík, til lögreglu og lagði fram kæru vegna notkunar á meintri falsaðri úttektarbeiðni frá D hf. til kaupa á fimm flatskjáum þremur dögum fyrr. Samkvæmt skýrslu lögreglu skýrði K svo frá að þann 9. desember hefði maður komið inn í verslunina, kynnt sig sem Ragnar Matthíasson og óskað eftir tilboðum í fimm flatskjái. Hefði Ragnar sagst vera frá D hf. og tengdust kaupin því að unnið væri að því að gera upp íbúð við Bergstaðastræti þar sem ættu að vera fundarsalir og aðstaða fyrir yfirmenn. Hefði hann haft skilríki um hálsinn sem merkt voru D. K hefði gert manninum tilboð, sem hann hefði samþykkt í símtali síðar sama dag. Daginn eftir, laugardaginn 10. desember, hefði Ragnar haft símasamband og fengið uppgefna nákvæma fjárhæð. Hefði Ragnar sagt að beiðnin væri á leiðinni og að menn væru á leiðinni að sækja sjónvarpstækin á lager verslunarinnar. Hefðu þrjú tæki verið afgreidd, einn Philips 42“ flatskjár og tvö Philips plasma 50“. Þau tvö tæki sem eftir voru hefðu ekki verið til og hefði átt að afhenda þau í janúar. Hefði beiðnin með nafnrituninni Ragnar Tómas borist í símbréfi frá Hótel Leifi Eiríkssyni. Engin greiðsla hefði komið fyrir tækin, heldur hefði þetta verið fært á reikning. Þann 13. desember hefði maður að nafni L hringt í verslunina og sagt K að honum hefði verið boðinn til sölu flatskjár af gerðinni plasma 50“ og hefði hann fengið hann afhentan. Hefði L sagst eiga eftir að greiða fyrir tækið, en vildi kanna hvort það væri illa fengið. Sagðist K hafa haft samband við skrifstofu D, en ritari þar hefði ekki kannast við beiðnina. Hefði verið hringt frá D síðar sama dag og upplýst að reynt hefði verið að framvísa falsaðri beiðni frá félaginu í verslun M í Reykjavík. Skýrslu lögreglu fylgir símbréf með umræddri úttektarbeiðni með undirskriftinni Ragnar Tómas, dagsett 10. desember 2005. Þá fylgir pöntunarseðill, dagsettur sama dag, þar sem kvittað er með upphafsstöfunum RTM fyrir móttöku þriggja sjónvarpstækja. Þá kemur fram í lögregluskýrslu að starfsmenn A hefðu sótt tvö Philips plasma 50“ sjónvarpstæki heim til L, að hans beiðni. Hefði komið fram hjá L að hann hefði greitt fyrir sendibifreið sem sótti sjónvarpstækin á lager verslunarinnar þann 10. desember. Ræddi lögregla við L, sem reyndist vera [...] Hótels Leifs Eiríkssonar. Sagði hann ákærða hafa dvalið á hótelinu síðustu daga og staðfesti að ákærði hefði boðið honum tvö sjónvarpstæki til kaups.
Meðal gagna málsins er afrit tveggja skráningareyðublaða Hótels Leifs Eiríkssonar, þar sem kemur fram að Ragnar Tómas Matt hafi verið skráður á hótelið 7. til 10. desember og 11. til 14. desember 2005.
Ritaðar hafa verið lögregluskýrslur um myndflettingu sem K, N, starfsmaður á lager Heimilistækja, og O, sendibifreiðastjóri sá sem upplýst var að hefði sótt umrædd sjónvarpstæki á lagerinn, tóku þátt í dagana 15. og 16. mars 2006, en mynd af ákærða var meðal þeirra mynda sem þeir skoðuðu. Í skýrslum lögreglu um myndflettinguna kemur fram að K og O sögðust ekki þekkja á myndum manninn sem hefði komið í verslunina og komið á lager hennar í umrætt sinn. N benti hins vegar á mynd af ákærða, sem hann sagði vera líkastur þeim sem kom inn á lagerinn og fékk afhent sjónvarpstækin sem um ræðir.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 16. febrúar 2006 höfðu starfsmenn verslunarinnar F í Kringlunni í Reykjavík, samband við lögreglu og létu vita um að von væri á manni sem hefði lagt inn pöntun á vörum að verðmæti 1.895.900 krónur fyrir D hf. Til staðfestingar pöntuninni hefði borist símbréf frá D, sem sent hefði verið frá pósthúsi við Grensásveg. Hefði beiðnin verið undirrituð með nafninu Ragnar Tómas og væri nú von á honum í verslunina að sækja vörurnar. Fór lögreglumaður í verslunina og beið átekta. Eftir stutta stund kom ákærði í verslunina, sagðist vera að sækja vörurnar og kvittaði fyrir móttöku þeirra. Var ákærði þá handtekinn. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið með úttektarbeiðnina sem um ræðir í fórum sér og er hún meðal gagna málsins, sem og pöntunarstaðfesting. Eru skjölin bæði með undirskriftinni Ragnar Tómas. Kemur fram í pöntunarstaðfestingunni að pantaðar hafi verið þær vörur sem rakið er í ákæru.
Í málinu liggur fyrir skýrsla Haraldar Árnasonar skjalarannsakanda, dagsett 19. júlí 2008, á fyrrgreindum pöntunarseðli merktum A, dagsettum 10. desember 2005, um afhendingu þriggja sjónvarpstækja til móttakanda í nafni D, en móttakandi kvittaði fyrir móttöku tækjanna með árituninni RTM. Tók rannsóknin einnig til fyrrgreinds símbréfs með úttektarbeiðni með undirskriftinni Ragnar Tómas, sem framvísað hafði verið í verslun A. Voru áritanir á skjölin borin saman við rithandarsýni ákærða. Var niðurstaða rannsóknarinnar sú að miklar líkur væru á því að ákærði hefði ritað á skjölin.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu eftir handtöku í versluninni F 16. febrúar 2006. Viðurkenndi ákærði þá að hafa reynt að svíkja út vörur í þeirri verslun, en neitaði því að hafa svikið út vörur úr verslun A 10. desember 2005. Sagðist hann hafa dvalist á meðferðarheimilinu að Hlaðgerðarkoti frá því um miðjan nóvember til 14. desember 2005. Ákærði sagði menn sem hann vildi ekki nafngreina hafa fengið sig til þess að reyna að svíkja út vörur úr verslun F, en hann hefði skuldað þessum mönnum fé.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök samkvæmt öllum liðum ákæru og sagðist ekki muna atvik þar sem hann hefði verið í óreglu á þeim tíma sem um ræðir, auk þess sem langt væri um liðið. Bar ákærði fyrir dóminum að hann myndi ekki eftir því að hafa dvalið á Hótel Leifi Eiríkssyni í desember 2005.
Vitnið Haraldur Árnason gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á skjölum í málinu. Útskýrði vitnið að niðurstaðan „miklar líkur“ þýddi að skriftarlegir þættir bentu eindregið til þess að viðkomandi hefði skrifað tiltekna skrift, en skjalarannsakandi teldi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega góð eða næg að magni, til að gefa verkefninu niðurstöðuna „yfirgnæfandi líkur“. Í þeim tilvikum sem hér var um að ræða hefði annars vegar komið til skoðunar skjal í ljósriti, en hins vegar hefði áritun einungis verið upphafsstafir. Aðspurður svaraði vitnið því til að ekkert gæfi tilefni til að efast um að ákærði hefði skrifað þetta.
Vitnið K sagði tvo menn hafa komið í verslun A við [...] í umrætt sinn og sagst vera á vegum D. Úttektarbeiðni hefði borist með símbréfi, en áður hefði hann rætt við manninn sem sendi hana og hefði hann sagst vera staddur á hótelherbergi. Vörurnar hefðu verið afgreiddar í framhaldinu. Síðan hefði það gerst að hann hefði fengið símtal frá manni sem hefði sagst vera með tvö af þessum sjónvarstækjum undir höndum og spurt hvort málið hefði verið kannað hjá Samherja.
Vitnið P sagðist hafa ekið sendibifreið og verið kallaður að Hótel Leifi Eiríkssyni. Hefði maður komið í bifreiðina þar, sem hann hefði ekið að lager A við [...]. Þar hefði maðurinn tekið á móti sjónvarpstækjum. Hefðu þeir flutt tvö tækjanna á hótelið, en það þriðja í einbýlishús í Fossvogi. Hefði hann svo ekið aftur á hótelið, en þar hefði starfsmaður þess, sem staddur var í móttöku, greitt fyrir ferðina.
Vitnið N sagðist hafa verið að störfum á lager A þegar maður hefði komið með nótu frá versluninni og hefði hann afgreitt til hans þrjú sjónvarpstæki. Síðar hefði hann komist að því að maðurinn hefði verið að svíkja út tækin. Vitnið sagðist hafa þekkt manninn aftur við myndsakbendingu hjá lögreglu. Sagðist hann vera þess fullviss að myndin sem hann benti á var af manninum sem kom á lagerinn.
Vitnið L sagðist hafa verið [...] Hótels Leifs Eiríkssonar á þeim tíma sem um ræðir. Hefði ákærði gist á hótelinu svo sem gögn um bókanir bæru með sér. Fullyrti vitnið að ákærði hefði gist á hótelinu þá daga sem tilgreindir væru í bókun. Vitnið kannaðist við að ákærði hefði boðið honum sjónvarstæki til kaups. Þá kannaðist hann við að hafa greitt fyrir sendibifreið sem flutti sjónvarpstækin fyrir ákærða.
Vitnið Ingólfur Bruun lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti lögregluskýrslu sem hann hafði ritað um atvik sem leiddu til handtöku ákærða í verslun F 16. febrúar 2006. Sagði vitnið ákærða hafa verið handtekinn eftir að hafa kvittað fyrir móttöku á vörunum í versluninni. Þá sagðist vitnið hafa rætt við forstöðumann Hlaðgerðarkots sem hefði upplýst að ákærði hefði dvalist á vistheimilinu frá 25. nóvember til 7. desember 2005 og aftur 14. til 19. desember þar á eftir. Hann hefði þó fengið nokkur bæjarleyfi á meðan hann dvaldist á vistheimilinu.
Vitnið Baldvin Einarsson lögreglufulltrúi gerði grein fyrir aðkomu sinni að handtöku ákærða í verslun F. Sagði vitnið að ákærði hefði verið búinn að kvitta fyrir móttöku á vörunum þegar hann var handtekinn.
Niðurstaða
Ákæruliður 1.
Ákærði neitar sök og kveðst ekki muna atvik frá þessum tíma. Fram er komið að úttektarbeiðni, stimpluð með nafni D hf., sem ritað var undir með nafni ákærða, barst verslun A ehf. með símbréfi sem sent var frá Hótel Leifi Eiríkssyni þann 10. desember 2005. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna að ákærði var skráður á hótelinu á þessum tíma. Hefur L [...] jafnframt borið að ákærði hafi dvalist á hótelinu. Skýrði L frá því að ákærði hefði boðið honum tvö sjónvarpstæki til kaups og hefði vitnið greitt fyrir sendibifreið sem flutti tækin sem um ræðir frá lager verslunarinnar. Hefur P sendibifreiðarstjóri borið með sama hætti um atvik að þessu leyti. N benti á mynd af ákærða við myndsakbendingu og sagðist fyrir dóminum vera þess fullviss að myndin hefði verið af manninum sem sótti sjónvarpstækin á lagerinn í umrætt sinn. Þá var niðurstaða skjalarannsóknar Haraldar Árnasonar sú að miklar líkur væru á því að ákærði hefði ritað á úttektarbeiðnina og kvittað fyrir móttöku. Sagði vitnið fyrir dómi að ekkert gæfi tilefni til að efast um að ákærði hefði ritað þetta. Samkvæmt framansögðu er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að ákærði hafi svikið út vörur hjá versluninni í umrætt sinn og notað til þess falsaða úttektarbeiðni svo sem lýst er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.
Ákæruliður 3.
Framburður ákærða fyrir dómi verður skilinn svo að hann neiti sök samkvæmt þessum ákærulið, en ákærði hefur borið að hann muni ekki atvik að þessu leyti. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. febrúar 2006 viðurkenndi ákærði hins vegar að hafa reynt að svíkja vörur úr verslun F svo sem lýst er í ákæru. Var ákærði handtekinn í versluninni og hafa tveir lögreglumenn borið að hann hafi þá verið búinn að kvitta fyrir móttöku á vörunum sem um ræðir. Er sama undirskrift á úttektarbeiðninni og móttökustaðfestingunni, en ritað er undir skjölin með nafni ákærða. Þykir samkvæmt framansögðu sannað að ákærði hafi reynt að svíkja vörur úr versluninni og notað til þess falsaða úttektarbeiðni eins og lýst er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.
Ákæruliður 2.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 24. mars 2006 barst þann dag kæra fyrir hönd E ehf., vegna fjársvika. Kemur fram að 13. febrúar 2006 hefði maður komið í verslun Svartækni og kynnt sig sem Ragnar. Hefði hann rætt við Q sölumann og beðið um tilboð í ýmis raftæki. Hefði hann sagst vera starfsmaður D hf. og vera að kaupa þessar vörur fyrir nýja skrifstofu D í Reykjavík. Tveimur dögum síðar hefði maðurinn hringt og sagst ætla að taka tilboðinu. Myndi sendibifreiðarstjóri koma að sækja vörurnar og væri hann með beiðni vegna þeirra. Þann 13. febrúar hefði sendibifreiðarstjóri komið á lager verslunarinnar. Hefði hann haft beiðni meðferðis og fengið afhent tvö sjónvarpstæki, tvær fartölvur, tölvuprentara og heimabíókerfi. Hefði beiðnin sem sendibifreiðarstjórinn framvísaði verið stimpluð með nafni D hf. og tilgreint að tekið væri út vegna [...], en þar átti skrifstofa D að vera til húsa samkvæmt téðum Ragnari. Var beiðnin dagsett sama dag og afhending fór fram og undir hana ritað með nafninu Ragnar Tómas Matt. Hefði starfsmaður D haft samband við verslunina eftir að reikningur barst fyrir vörukaupunum og sagt að þarna hlyti að hafa verið um svik að ræða. Nefnd úttektarbeiðni fylgir skýrslu lögreglu.
Í málinu liggur fyrir skýrsla um myndsakbendingu sem Q sölumaður hjá E tók þátt í 1. mars 2007. Kemur fram að vitnið sagðist þekkja ákærða á mynd sem þann mann sem hefði komið í verslunina í umrætt sinn og fengið tilboð í vörurnar. Í sömu skýrslu kemur fram að R, sem ekið hefði sendibifreið sem flutti vörurnar af lager verslunarinnar, hefði ekki þekkt ákærða á myndum sem þann mann sem óskaði eftir flutningnum.
Þann 12. júlí 2006 var ákærði yfirheyrður um meint fjársvik og skjalafals framin í verslun E í umrætt sinn. Sagðist ákærði ekkert kannast við þetta og hefði hann ekki pantað þessar vörur. Borin var undir ákærða nefnd úttektarbeiðni, dagsett 13. febrúar 2006, þar sem í reit fyrir undirskrift hefur verið ritað Ragnar Tómas Matt. Sagðist ákærði kannast við að hafa skrifað þessa beiðni og að þetta væri hans undirskrift. Þá sagðist ákærði kannast við þær vörur sem teknar hefðu verið út í umrætt sinn og að hann vissi hvert þær hefðu farið. Teldi hann þær hafa farið á heimili manns sem hann vildi ekki nafngreina, en byggi á Selfossi. Sagðist ákærði ekki hafa sent sendibifreiðarstjóra eftir vörunum.
Sem fyrr segir neitaði ákærði sök fyrir dómi og hefur borið fyrir sig minnisleysi. Þó sagðist ákærði ekki draga í efa það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu, að hann hefði vitað hvað varð um þær vörur sem sviknar voru út í umrætt sinn. Þá kannaðist ákærði við skrift sína á úttektarbeiðninni sem um ræðir.
Vitnið Q lýsti samskiptum við manninn sem kom í verslunina og óskaði eftir tilboði, sem hann síðar samþykkti og voru vörurnar afhentar í framhaldi af því. Sagðist vitnið strax hafa þekkt þennan mann aftur við myndsakbendingu hjá lögreglu. Væri hann alveg viss um að myndin sem hann benti á var af manninum sem kom í verslunina.
Niðurstaða
Ákærði hefur borið fyrir sig minnisleysi um atvik í umrætt sinn, en hefur þó kannast við undirritun sína á úttektarbeiðni sem um ræðir og segist ekki draga í efa það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu að hann hafi vitað hvað varð um þær vörur sem sviknar voru út úr versluninni. Er brot það sem hér um ræðir framið með samskonar hætti og þau brot sem talið hefur verið sannað að ákærði hafi framið samkvæmt 1. og 3. ákærulið. Þá hefur Q borið kennsl á ákærða við myndsakbendingu sem þann mann sem kom í verslunina og óskaði eftir tilboði í vörurnar sem síðar voru afhentar samkvæmt fyrrgreindri úttektarbeiðni. Þegar til þessa er litið er að mati dómsins komin fram óvefengjanleg sönnun þess að ákærði hafi ritað hina fölsuðu úttektarbeiðni í því skyni að svíkja út þær vörur sem í ákæru greinir. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að ákærði framvísaði ekki úttektarbeiðninni í versluninni, eins og lýst er í ákæru, heldur hafi sendibifreiðarstjóri framvísað úttektarbeiðninni á lager verslunarinnar og fengið vörurnar afhentar. Af því sem rakið hefur verið þykir hins vegar ekki óvarlegt að álykta að það hafi verið fyrir tilhlutan ákærða sem vörurnar fengust afhentar með þeim hætti. Þykir ekki vera um svo veigamikið atriði í verknaðarlýsingu ákæru að ræða að standi í vegi fyrir sakfellingu ákærða, enda hefur vörn málsins ekki verið áfátt þess vegna, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Að því virtu verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæðis.
Ákæruliðir 4. og 5.
Þann 10. júlí 2006 barst lögreglu kæra lögmanns C hf. vegna meintra auðgunarbrota ákærða. Í kæru kemur fram að þann 30. júní 2006 hefði maður komið inn í verslun C og pantað í nafni G hf. þrjá 40“ LCD skjái, heimabíókerfi, tvær fartölvur og þrjár myndbandsupptökuvélar. Hefði búnaðurinn verið sóttur mánudaginn 3. júlí, nema fartölvurnar, sem voru ekki tilbúnar. Hefði maðurinn sjálfur hringt eftir sendibifreið og látið aka búnaðinum að [...], Hafnarfirði. Hefði hann óskað eftir því við sendibifreiðarstjórann að reikningnum fyrir aksturinn yrði framvísað hjá G. Þar á bæ hefði hins vegar enginn kannast við kaup á þessum búnaði. Hefði grunur fallið á ákærða eftir að skoðaðar hefðu verið ljósmyndir úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar, auk þess sem komið hefði í ljós að ákærði væri fyrrum starfsmaður G. Kærunni fylgja gögn um umrædda pöntun og afhendingu varningsins, auk nefndra ljósmynda, sem bera með sér að vera teknar daginn sem vörurnar voru pantaðar og þekkist ákærði á myndunum þar sem hann sést ræða við sölumann í versluninni. Þá er beiðnin sem um ræðir meðal gagna málsins, en í reit fyrir undirskrift hefur verið ritað R.T.M.
Þann 25. júlí 2006 barst lögreglu svo kæra B ehf. vegna ætlaðra fjársvika í verslun félagsins 21. júní. Kemur fram að þann dag hefði karlmaður sem kynnti sig sem starfsmann verktakafyrirtækisins G, komið í verslunina. Hefði maðurinn framvísað úttektarbeiðni frá G og sölumaður gengið frá pöntun þriggja LCD sjónvarpsskjáa af gerðinni Palladine og tveggja Yamaha hljóðkerfa, samtals að fjárhæð 655.980 krónur. Undir úttektarbeiðnina hefði ritað Ragnar Tómas Matthíasson. Síðar sama dag hefði sendibifreið komið á vegum mannsins og sótt vörurnar á lager verslunarinnar. Í framhaldinu hefði reikningur verið sendur til G vegna úttektarinnar. Þann 7. júlí hefði hins vegar borist bréf S tæknifræðings fyrir hönd G hf., þar sem kom fram að úttektarbeiðnin væri félaginu óviðkomandi og að móttakandi vörunnar, Ragnar Tómas Matthíasson, væri ekki starfsmaður þess. Kærunni fylgir ljósrit umrædds reiknings og úttektarbeiðni, sem ber undirskriftina R. Tómas Matt. Bera reikningurinn og beiðnin með sér að úttektin sé vegna [...].
Ritaðar hafa verið lögregluskýrslur um myndflettingu sem P sendibifreiðastjóri, sem upplýst var að hefði ekið bifreiðinni sem sótti vörur á lager A, og S sendibifreiðarstjóri, sem sótti vörur á lager B, tóku þátt í 27. febrúar 2007, en mynd af ákærða var meðal þeirra mynda sem þeir skoðuðu. Hvorugur sagðist þekkja á myndum manninn sem hefði óskað eftir akstri í umrædd sinn.
Meðal gagna málsins er skýrsla um skjalarannsókn Haraldar Árnasonar, dagsett 24. september 2008, vegna fyrrgreindra úttektarbeiðna sem framvísað hafði verið í verslununum tveimur. Var niðurstaða rannsóknarinnar sú að yfirgnæfandi líkur væru á því að ákærði hefði fyllt út og undirritað handskrifaða þætti á beiðnunum. Nánar tiltekið þýði það að skjalarannsakandi sé sannfærður um að viðkomandi hafi skrifað tiltekna skrift og telji aðra ekki koma til greina.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 12. júlí 2006 og neitaði þá að svara spurningum um meint fjársvik og skjalafals í verslun B. Þá sagðist ákærði ekki kannast við úttektina í verslun C.
Sem fyrr segir neitaði ákærði sök samkvæmt öllum liðum ákæru fyrir dómi og bar fyrir sig minnisleysi. Hann kannaðist þó við að hafa unnið fyrir G við byggingu hjúkrunarheimilisins [...].
Vitnið Haraldur Árnason kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir niðurstöðum skjalarannsóknar sinnar.
Vitnið U sendibifreiðarstjóri sagðist hafa verið beðinn um að flytja vörur frá lager C við [...]. Þegar þangað kom hefði verið þar maður að kaupa vörur. Hefði vitnið flutt vörurnar að [...] í Hafnarfirði. Hefði maðurinn komið þar út ásamt öðrum manni og hefði hann aðstoðað þá við að bera vörurnar inn í húsið. Hefði maðurinn sagst myndu hafa samband daginn eftir og greiða fyrir flutninginn. Það hefði hins vegar ekki gengið eftir. Hefði vitnið þá reynt að grennslast fyrir um manninn og haft sambandi við V, sem hann hefði sagst vera að vinna fyrir. Hefði hann fengið þau svör að þessum manni hefði verið sagt upp störfum einhverju fyrr. Minnti vitnið að maðurinn hefði sagst heita Ragnar.
Vitnið S sagðist hafa ráðið ákærða í vinnu fyrir G og hefði hann unnið við byggingu hjúkrunarheimilisins [...] um nokkurra daga skeið í apríl eða maí 2006. Hefðu félaginu síðar borist reikningar með undirskrift hans, sem hefði verið hafnað að greiða.
Niðurstaða
Ákæruliður 4.
Ákærði neitar sök og ber fyrir sig minnisleysi. Í málinu liggur fyrir úttektarbeiðni sem framvísað var í verslun B ehf. í umrætt sinn og er niðurstaða skjalarannsakanda á þann veg að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði hafi fyllt út og undirritað beiðnina. Ber beiðnin stimpil G hf. og er ritað á hana að úttekið sé vegna [...]. Hefur ákærði sjálfur kannast við að hafa unnið fyrir félagið við byggingu hjúkrunarheimilisins [...], en samkvæmt framburði S var það í apríl eða maí 2006. Er að mati dómsins nægilega sannað að ákærði hafi svikið út vörur í verslun B með því að framvísa falsaðri úttektarbeiðni svo sem lýst er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 5.
Ákærði neitar sök og kveðst ekki muna eftir þessu atviki. Í málinu liggur fyrir beiðnin sem framvísað var í verslun C hf. í umrætt sinn og er niðurstaða skjalarannsakanda á þann veg að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði hafi fyllt út og undirritað beiðnina. Þekkist ákærði á myndum úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar sem teknar voru 30. júní 2006, daginn sem vörurnar voru pantaðar. Ber beiðnin stimpil G hf. og bar sendibifreiðastjóri sem flutti vörurnar að maðurinn sem óskaði eftir flutningnum hefði sagst vinna fyrir það félag. Hefur ákærði kannast við að hafa unnið fyrir það félag, svo sem áður getur. Samkvæmt framansögðu er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi svikið út hjá verslun C hf. þær vörur sem um ræðir með því að framvísa þar falsaðri úttektarbeiðni svo sem lýst er í ákæru. Við aðalmeðferð málsins féll ákærandi frá því ákæruefni að 2 fartölvur hefðu verið sviknar út úr versluninni með þessum hætti. Að öðru leyti verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur í desember 1966 og á hann nokkurn sakaferil að baki. Í apríl 1996 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir skjalafals. Í maí 1998 var ákærði annars vegar dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti í tólf mánuði fyrir ölvunarakstur og hins vegar í sex mánaða fangelsi fyrir skjalafals. Var dómurinn frá 1996 dæmdur með í þeim dómi. Í september 1998 var ákærði dæmdur í fangelsi í einn mánuð fyrir fjársvik. Í september 1999 gekkst hann undir greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot. Á árunum 2001 og 2002 hlaut ákærði tvo sektardóma fyrir umferðarlagabrot. Í mars 2004 var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals. Þá var ákærði þann 10. mars 2008 dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik, en þar var um hegningarauka að ræða og var því dómurinn frá í mars 2004 tekinn upp og dæmdur með. Með hliðsjón af 60. gr., sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, verður skilorðsdómurinn frá 10. mars 2008 tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi fyrir öll málin. Verður refsing tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að brot hans vörðuðu verulegum fjárhæðum. Þá sýndi ákærði einbeittan brotavilja. Á móti kemur að langt er um liðið síðan brotin voru framin. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur bakað sér bótaábyrgð vegna þess tjóns sem hlaust af brotum hans. Skaðabótakröfur sem greinir í ákæru voru hafðar uppi fyrir gildistöku laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og verður því leyst úr þeim samkvæmt eldri lögum, sbr. d-lið II. bráðabirgðaákvæðis þeirra laga. Verður ákærði dæmdur til að greiða A ehf. skaðabætur að fjárhæð 562.244 krónur, sem nemur andvirði sjónvarpstækis sem ekki komst til skila. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða B ehf. 655.980 krónur vegna vöru sem svikin var úr verslun félagsins. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða C hf. 1.276.627 krónur í skaðabætur, sem nemur andvirði þeirrar vöru sem svikin var út úr verslun félagsins, auk bóta vegna lögfræðikostnaðar, sem nemur 131.746 krónum. Bætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála verður skaðabótakröfu J hf. vísað frá dómi, en af hálfu ákæruvalds hefur verið fallið frá þeim ákærulið.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 422.304 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 37.350 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Tómas Matthíasson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði A ehf. skaðabætur að fjárhæð 562.244 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. desember 2005 til 17. mars 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B ehf. skaðabætur að fjárhæð 655.980 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. júní 2006 til 25. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C hf. skaðabætur að fjárhæð 1.408.373 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. júlí 2006 til 25. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Skaðabótakröfu D hf. er vísað frá dómi.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 422.304 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 37.350 krónur.