Hæstiréttur íslands

Mál nr. 345/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. júní 2009.

Nr. 345/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason skaskóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009 klukkan 16 og honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 9. júní 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009, kl. 16.00. Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan hafi til rannsóknar ætlaðan stórfelldan innflutning á fíkniefnum til Íslands og að talið sé að innflutningurinn tengist flutningi á fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Evrópu og dreifingu áfram um Evrópu. Þá sé til rannsóknar ætlað peningaþvætti á ætluðum ágóða af fíkniefnabrotum. Þá segir að rannsóknin sé mjög umfangsmikil og að talið sé að um sé að ræða skipulagðan glæpahring.

Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að kærði X hafi ítrekað verið í samskiptum við hollenska ríkisborgarann A og ísraelska ríkisborgarann B. Hafi þeir stofnað saman fyrirtækið [...], þann 20. janúar 2009. Grunur lögreglu beinist að því að greint fyrirtæki hafi verið stofnað í þeim tilgangi að þvo þar peninga, sem séu ætlaður ágóði af stórfelldum fíkniefnabrotum.

A og B hafi ítrekað komið hingað til lands og meðal annars heimsótt Y, sem afpláni nú fangelsisdóm í fangelsinu að Litla-Hrauni vegna innflutnings á fíkniefnum til Íslands. Þá hafi Xeinnig heimsótt Y á afplánunartímanum, en X hefur greint svo frá að þeir Y séu vinir. Auk þeirra hafi Z heimsótt Y. Hafi lögregla á grundvelli úrskurða héraðsdóms hlustað á og tekið upp greindar heimsóknir og hafi þar komið fram upplýsingar, sem séu taldar benda til aðildar framangreindra að fíkniefnabrotum.

Í þágu rannsóknarinnar og á grundvelli úrskurða héraðsdóms hafi lögregla hlustað á og tekið upp samtöl í skrifstofuhúsnæði kærða X. Í samtali aðila, sem taldir séu vera X, A, B og C, og sem fram fari á ensku, sé rætt um að þvo peninga.

Áðurgreindir A og B hafi komið hingað til lands í maí sl. ásamt þriðja aðila og hafi lögregla fylgst með er þeir hittu fyrir Z og tóku við ætluðum peningagreiðslum frá honum. Hafi mennirnir þrír allir verið handteknir við komu þeirra til Hollands frá Íslandi. Z hafi í kjölfarið verið handtekinn hér á landi, en hann sé grunaður um aðild að hinu stórfellda fíkniefnabroti og meðal annars að hafa fengið sendan hingað til lands pakka sem innihaldið hafi yfir 6 kg af amfetamíni. Áðurgreindur C sé grunaður um að koma að sendingu pakkans hingað til lands.

Kærði X hafi greint svo frá að hann þekki A og B, en hann hafi kynnst þeim í gegnum Y. Hafi hann borið um að hafa tekið við greiðslu að fjárhæð 5.000.000 króna frá þeim, sem nota hafi átt til kaupa á bifreiðum á vegum fyrirtækisins [...].

Í upptöku af fundi í skrifstofuhúsnæði X hafi komið fram hjá honum að hann hefði fengið afhentar 2 x 5.000.000 króna í pokum.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að rannsóknin hafi verið unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og hafi verið haldlögð í málinu mörg tonn af sykurvökva, sem talinn sé innihalda hundruð kílóa af kókaíni. Aðilar hafi verið handteknir bæði í Evrópu og Suður-Ameríku í þágu rannsóknarinnar, þar á meðal þeir menn sem ætlað er að hafi tekið við peningagreiðslum frá Z. Frá erlendum lögregluyfirvöldum hafi borist upplýsingar um tengingar á milli símanúmers, sem Z hafi kannast við að hafa notað, og aðila sem talinn sé umfangsmikill í fíkniefnabrotum og skipulagðri glæpastarfsemi, en greindur aðili hafi verið handtekinn í Hollandi í þágu rannsóknar málsins. Þá liggi fyrir upplýsingar um einhvers konar “kóða” sem aðilar noti sín á milli. Er Z hafi verið handtekinn í þágu rannsóknar annars stórfellds fíkniefnamáls hér á landi í október sl. hafi fundist sambærilegur kóði í skrifstofuhúsnæði hans. Sé talið að um sé að ræða samskiptaleið á milli aðila í skipulagðri glæpastarfsemi.

Rannsókn lögreglu snúi að þáttum er varði aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Yfirheyrslur hafi farið fram yfir öðrum sakborningum og vitnum í málinu og standi yfirheyrslur enn yfir í þágu rannsóknarinnar. Rannsóknin sé unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og hafi hluti af gögnum tengdum þeirra hluta í rannsókninni borist hingað til lands. Hluti gagnanna hafi ekki borist, enda standi rannsóknin enn yfir. Þá hafi borist beiðnir erlendis frá um upplýsingar í tengslum við rannsóknina hér á landi.

X hafi verið handtekinn hinn 8. júní sl. og leit gerð í fyrirtækjum á hans vegum og á heimili hans. Meðal þess sem haldlagt hafi verið séu tölvur, en mikilvægt sé talið að fara yfir gögn þar sem kunni að tengjast málinu.

Rökstuddur grunur sé um peningaþvætti og aðild X að stórfelldu fíkniefnabroti. Nauðsynlegt sé talið að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að hann geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafa ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti áfram gæsluvarðhaldi og að hann verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Loks segir í greinargerðinni að til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.

Samkvæmt gögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldum fíkniefnabrotum og peningaþvætti og geta brot hans varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins stendur enn yfir og er í fullum gangi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu er hætta á því að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburð vitna og annarra sakborninga, eða komi sönnunargögnum undan. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti áfram gæsluvarðahaldi. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 er jafnframt fallist á að kærði skuli látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009, kl. 16.00.

Kærði skal látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.