Hæstiréttur íslands

Mál nr. 544/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

Reifun

Ríkislögreglustjóri (Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Miðvikudaginn 21

 

Miðvikudaginn 21. desember 2005.

Nr. 544/2005.

Ríkislögreglustjóri

(Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Talið var óheimilt að framlengja gæsluvarðhald yfir X samkvæmt 18. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum um lengri tíma en tvær vikur frá því að fyrra gæsluvarðhald hans rann út, sbr. 15. gr. sömu laga. Með vísan til 18. gr laganna, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/199 um meðferð opinberra mála, og með hliðsjón af þeim alvarlegu sakargiftum sem beindust að X í Grikklandi, varð það niðurstaða Hæstaréttar að framlengja skyldi gæsluvarðhaldið í tvær vikur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 15. desember 2005 var fallist á  beiðni grískra dómsmálayfirvalda um að varnaraðili yrði framseldur til Grikklands. Í 2. málslið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er mælt fyrir um að sé sá sem óskast framseldur ekki í haldi megi handtaka hann og úrskurða í gæslu uns hann er afhentur eða takmarka frelsi hans með öðrum hætti eftir því sem segi í lögum um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal úrskurður um þvingunaraðgerðir þó ekki gilda lengur en í 30 daga eftir að endanleg ákvörðun um framsal hefur verið tekin. Þegar sérstaklega stendur á er þó heimilt að beita þvingunarráðstöfunum í lengri tíma. Í 15. gr. laganna er enn fremur fjallað um þvingunaraðgerðir, sem lög um meðferð opinberra mála heimila, í tengslum við rannsókn vegna framsalsbeiðna. Í 2. mgr. segir að slíkum aðgerðum megi beita uns úr því sé skorið hvort framsal skuli fara fram og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað. Síðan segir í málsgreininni: „Ef kveðinn er upp úrskurður um gæsluvarðhald, skal því ekki markaður lengri tími en 3 vikur. Þyki nauðsyn bera til að lengja gæsluvarðhaldstímann, skal það gert með úrskurði á dómþingi, þar sem gæslufanginn er viðstaddur. Ekki má framlengja gæsluvarðhaldstímann um meira en 2 vikur í senn.“

Líta verður svo á að síðastnefndar tímatakmarkanir eigi ekki aðeins við um gæsluvarðhald vegna rannsóknar í tilefni af framsalsbeiðni heldur einnig um gæsluvarðhald samkvæmt 18. gr. laga nr. 13/1984 eftir að fallist hefur verið á slíka beiðni. Samkvæmt þessu er nú óheimilt að framlengja gæsluvarðhald varnaraðila um lengri tíma en tvær vikur frá því að fyrra gæsluvarðhald hans rann út.

Með vísan til 18. gr. laga nr. 13/1984, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, og með hliðsjón af hinum alvarlegu sakargiftum sem beinast að varnaraðila í Grikklandi, skal hann samkvæmt framansögðu sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. janúar kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. janúar kl. 16.

 

              

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2005.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, fd. [...] 1972, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 14. janúar 2006 kl. 16.00. Vísað er til 2. mgr. 18. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13, 1984 og til b.-liðar  1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að kærði hafi komið til landsins með flugi [...] frá [...] þann 20. september sl. Við komuna til landsins hafi kærði framvísað fölsuðum skilríkjum, nánar tiltekið fölsuðu albönsku vegabréfi og fölsuðu grísku nafnskírteini og var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 45 daga fangelsi þann 30. september sl.  Kærði hóf afplánun dómsins þann sama dag og var dómurinn fullnustaður þann 14. nóvember sl.  

Vegna framsalsbeiðni grískra dómsmálayfirvalda frá 9. nóvember sl. hafi kærði, meðan mál hans hafi verið til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum, verið í gæsluvarðhaldi allt frá 14. nóvember sl., sbr. hjálagða dóma Hæstaréttar nr. 479/2005 og 513/2005. Samkvæmt framsalsgögnunum er kærða gefið að sök manndráp, skv. 1. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. 16.-18. gr., 1. mgr. 26. gr., 51.-52. gr., 59.-60. gr., 63. gr., 79. gr. og 1. mgr. 299. gr. grískra hegningarlaga, með því að hafa í Þessalóníku hinn 25. desember 2004 af ásetningi skotið til bana A, albanskan ríkisborgara. Háttsemin myndi varða ákærða refsingu skv. 211. gr. almennra hegningarlaga nr 19/1940. 

Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 15. desember sl. hafi ríkislögreglustjóra verið kynnt að dómsmálaráðuneytið hefði þann sama dag tekið ákvörðun um að verða við framangreindri beiðni grískra dómsmálayfirvalda og framselja kærða til Grikklands. Í erindinu hafi verið óskað eftir að kærða yrði kynnt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins og réttur hans skv. lögum nr. 13, 1984 til að krefjast úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi sem og réttur hans til að fá skipaðan verjanda í því skyni. Þá var jafnframt óskað eftir að ríkislögreglustjóri hlutaðist til um framlengingu gæsluvarðhalds  um 30 daga skeið sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna.

Fyrir þinghaldið mun kærða verða kynnt niðurstaða dómsmálaráðuneytisins og fyrir dómi verður leitað eftir afstöðu hans til frekari málsmeðferðar hjá íslenskum yfirvöldum.

 Til að tryggja nærveru kærða meðan framsalsmálið er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna er þess krafist að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald  með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 13, 1984 og b.-lið 1. mgr. og 2. mgr.  103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.   

Að gefnu tilefni vill ríkislögreglustjórinn taka fram að frestur sá sem getið er í 4. mgr. 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. desember 1957 og vikið er að í niðurlagi Hæstaréttardóms nr. 513/2005 á einungis við um framsendingu gagna frá framsalsbeiðanda til þess ríkis sem óskað er framsals frá. 

Að öðru leyti með vísan til gagna málsins sem fylgja í ljósriti er kröfu þessari beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Frá því að Hæstiréttur Íslands staðfesti gæsluvarðhald kærða sbr. dóm Hæstaréttar frá 7. desember 2005, sjá mál nr. 513/2005, hafa íslensk yfirvöld hinn 15. desember sl. samþykkt að framselja kærða til Grikklands. Með vísan til þess og í ljósi alvarleika þess brots sem kærði er grunaður um að hafa framið í Grikklandi 25. desember sl. er fallist á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða hér á landi. Ekki þykir rétt, eins og atvikum er háttað, að beita vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi til að tryggja nærveru hans.

Með hliðsjón af 2. mgr. 18. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og einnig til b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarð­haldi allt til föstudagsins 13. janúar 2006 kl. 16.00.