Hæstiréttur íslands
Mál nr. 750/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Fasteign
- Sameign
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2017, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi við opinber skipti á dánarbúum D og E. Kæruheimild var í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að til skipta úr dánarbúunum hvoru um sig komi einn sjöundi hluti í óskiptri sameign á um 8 hektara landspildu úr landi jarðarinnar [...] í [...]. Þá krefst hún þess aðallega að varnaraðilunum B og dánarbúi C verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.
Varnaraðilarnir B og dánarbú C krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Dánarbú D, dánarbú E, F og G hafa ekki látið málið til sín taka hér fyrir dómi.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði og þá einnig þeim dómum og úrskurðum er gengið hafa vegna deilna málsaðila sem staðið hafa um alllanga hríð. Eins og greinir í úrskurði héraðsdóms eignuðust hjónin D og E og börn þeirra, G, A, F, B og C hvert um sig 1/7 hluta, eða 11.428,5 fermetra í spildu úr landi jarðarinnar [...] samkvæmt afsali 23. maí 1968. Er landið í óskiptri sameign og munu standa á því nokkur sumarhús. Ágreiningur máls þessa, sem niðurstaða hins kærða úrskurðar lýtur að, er um hversu stór hluti landsins skuli koma til skipta úr dánarbúum D og E. Nánar tiltekið annars vegar hvort varnaraðilinn B hafi 31. maí 2013 fengið til viðbótar eignarhlut sínum afsalað frá föður sínum 6.000 fermetrum af landinu en hins vegar hvort varnaraðilinn C hafi fengið afsalað 5.000 fermetrum lands frá móður sinni.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að með kaupsamningi og afsali 31. maí 2013 hafi varnaraðilinn B eignast 6.000 fermetra af hluta föður síns í hinu óskipta landi.
Í hinum kærða úrskurði er því lýst að sumarhús, sem nefnt er [...], hafi komist í eigu E við fjárslit hennar og D í kjölfar skilnaðar þeirra og hvernig skráningum á sumarhúsinu og 5.000 fermetra lóð var háttað hjá Fasteignamati ríkisins. Þá er rakið efni ódagsetts bréfs eða minnisblaðs E um að C hafi á árinu 2001 fengið sem fyrirfram greiddan arf „[...], sumarbústað“, en ekki er getið í bréfinu að lóð hafi átt að fylgja. Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað yfirfærsla eignarréttar á hluta af landi E til C. Þegar af þeim sökum er ekki unnt að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms hvað þetta varðar og kemur þessi hluti því undir skipti dánarbús E.
Eftir þessum úrslitum og að virtum málsatvikum í heild sinni er rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð hvað varðar málskostnað til handa varnaraðilanum B og dæma sóknaraðila jafnframt til að greiða honum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður skal að öðru leyti falla niður.
Dómsorð:
Til skipta á dánarbúum D og E eiga að koma 16.857 fermetrar í óskiptu landi [...].
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um málskostnað til handa varnaraðilanum B.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilanum B 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2017.
Með bréfi skiptastjóra dánarbús D og E, dagsettu 17. nóvember 2015, var ágreiningi milli erfingja hinna látnu, um fasteignina [...], vísað til héraðsdóms til úrlausnar skv. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Sóknaraðilar eru B, kt. [...],[...],[...] og db. C, kt. [...], síðast til heimilis að [...],[...], en C lést meðan á rekstri málsins stóð og er dánarbú hans nú aðili málsins.
Varnaraðilar eru G, kt. [...],[...],[...], A, kt. [...],[...],[...], F, kt. [...],[...],[...], db. D, kt. [...], og db. E, kt. [...],[...],[...].
Sóknaraðili B, gerir þá kröfu aðallega að staðfestur verði eignarréttur hans á 17.428,5 m² í hinu óskipta landi [...], en til vara að staðfestur verði eignarréttur hans á 11.428,5 m². Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila óskipt að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.
Sóknaraðili db. C, krefst þess aðallega að staðfestur verði eignarréttur hans á 16.428,5 m² í hinu óskipta landi [...], en til vara að staðfestur verði eignarréttur hans á 11.428,5 m². Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila óskipt að skaðlausu, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.
Varnaraðili G hefur ekkert látið málið til sín taka.
Varnaraðili A krefst þess að staðfestur verði jafn eignarréttur hennar og annarra málsaðila að 1/7 hluta í hinu óskipta landi [...]. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til skyldu varnaraðila til greiðslu virðisaukaskatts, skv. framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Varnaraðili F krefst þess í endanlegum dómkröfum sínum að hafna beri því að sóknaraðilar, B og db. C, hafi fengið aukinn hlut umfram 1/7 hluta í hinu óskipta landi [...], og eigi þeir hlutir að tilheyra dánarbúunum. Þá er krafist málskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila, auk virðisaukaskatts skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðilar db. D, og db. E, gera ekki sjálfstæðar kröfur í málinu. Enginn erfingja fékk heimild skiptastjóra skv. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 til að halda uppi hagsmunum dánarbúanna í eigin nafni til hagsbóta búinu.
Málið var tekið til úrskurðar þann 13. október 2017.
I
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 12. ágúst 2014 var dánarbú hjónanna D og E tekið til opinberra skipta. Sama dag var Helgi Birgisson hrl. skipaður skiptastjóri dánarbúanna.
Á skiptafundi þann 11. nóvember 2015 hafði skiptastjóri sett upp skiptingu óskiptrar landspildu [...], á eftirfarandi hátt:
Db. E 11.428,5 – 5.000 = 6.428,5 m².
Db. D 11.478,5 – 6.000 = 5.428,5 m².
A 11.428,5 = 11.428,5 m².
F 11.428,5 + 10.000 = 21.428,5 m²
C 11.428,5 + 5.000 = 16.428,5 m².
B 11.428,5 + 6.000 = 17.428,5 m².
G 11.428,5 – 10.000 = 1.428,5 m².
Samtals: 80.000,0 m²
A lýsti því yfir á skiptafundinum að hún teldi þessa skiptingu ranga og að öll systkinin og dánarbúin ættu að eiga jafnan eignarhlut. Umboðsmaður F vefengdi að B hefði eignast 6.000 m² til viðbótar af landinu fyrir afsal frá föður sínum og taldi að C gæti ekki lagt fram fullnægjandi eignarheimild fyrir þeim 5.000 m² sem hann segði að hefðu komið frá móður þeirra. B sagðist þá jafnframt vefengja eignarrétt F.
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2015, krafðist skiptastjóri þess að Héraðsdómur Reykjaness leysti úr framangreindu. Í kröfu skiptastjóra segir: „Með vísan til framanritaðs er þess óskað að héraðsdómur leysi úr ágreiningi erfingja um eignarétt þeirra til 80.000 fm. Landspildu úr jörðinni [...],[...], og úrskurði hvað teljist vera eignarhluti dánarbúsins og hvers erfingja um sig í hinu óskipta landi jarðarinnar.“
Með afsali, dags. [...], eignuðust aðilar þessa máls 8 hektara í hinu óskipta og umþrætta landi, þannig að hver þeirra varð eigandi að 1/7 hluta, eða 11.428, m². Hið óskipta land er skráð í skrám Fasteignamats ríkisins sem [...]. Óskipta landið er þinglýst eign allra sameigenda skv. nefndu afsali.
Á hið óskipta land, sem í reynd mun hafa verið keypt árið 1963, setti D heitinn fyrst niður lítið sumarhús, nefnt [...]. Síðar byggðu D og E heitin annað sumarhús á landinu, [...], sem gengur undir nafninu [...], auk þess sem G, A og F byggðu sér sumarhús á hinu óskipta landi og skráðu með þeim land.
D og E skildu að borði og sæng á árinu 1999. Í skilnaðarsamningi þeirra kemur meðal annars fram að í hlut D komi sumarhúsið [...] en í hlut E komi [...]. „Allt sumarbústaðaland og geymsla í landi [...] er hins vegar sameign D, E og barna þeirra.“ E mun hafa það sama ár byggt sér nýtt sumarhús á hinu óskipta landi og skráð með því 4.250 m² lóð.
Í gögnum málsins liggur fyrir ódagsett bréf E um að hún hafi á árinu 2001 greitt C [...] sem fyrirframgreiddan arf metið á 1.300.000 krónur. Ekki er getið um í bréfinu að sumarhúsinu hafi fylgt 5.000 m² lóð.
Með kaupsamningi, dags. 1. apríl 2012, milli G og F, keypti sú síðarnefnda sumarhús G, ásamt 10.000 m² lands úr hinu óskipta landi með samþykki allra eigenda.
Með kaupsamningi og afsali, dags. 31. maí 2013, seldi D til B sumarhúsið [...] ásamt eignarlóð 6.000 m². Kaupverð var 7.500.000 krónur, þar af skyldu 3.500.000 krónur greiðast við kaupsamning og 4.000.000 króna með útgáfu skuldabréfs til fjögurra ára með 5% ársvöxtum. E ritaði undir skjalið sem samþykk sölunni sem maki og C sem annar vottanna.
D og E munu hafa gifst að nýju í mars á árinu 2013, án þess að varnaraðilar hafi vitað af því. D lést þann 4. febrúar 2014 en E þann 10. júní 2014.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 13. júlí 2016 var hafnað kröfu A um dómkvaðningu matsmanns um mat á markaðsvirði sumarhússins [...] og lóðar sem D hafði selt til B. Var úrskurðurinn staðfestur af Hæstarétti í máli nr. 539/2016.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 24. mars 2017 var hafnað kröfu A um framlagningu fjögurra sjúkraskráa látinna foreldra aðila, og framlagningu matsbeiðni þar sem þess var farið á leit að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta löggerningshæfi sömu aðila, miðað við 31. maí 2013.
Með úrskurði dómsins þann 31. maí 2017 var málinu vísað frá án kröfu. Með dómi Hæstaréttar nr. 379/2017 var sá úrskurður ómerktur. Hæstiréttur féllst á að það hefði ekki þýðingu við úrslausn málsins að ákvarða hvort F hefði keypt 10.000 m² landsins af G en á „hinn bóginn þarf að taka afstöðu til þess hversu stór hluti fasteignarinnar [...] skuli teljast til dánarbúanna svo unnt sé að skipta þeim eftir lögum nr. 20/1991.“
Snýr ágreiningur málsins nú að því hvort framangreindum lóðarspildum, annars vegar 5.000 m² og hins vegar 6.000 m² sem sóknaraðilar byggja á að sé þeirra eign, hafi verið ráðstafað þeim frá foreldrum þeirra, eða hvort þær spildur eigi að tilheyra dánarbúunum og komi til skipta úr þeim.
Aðilaskýrslur fyrir dómi gáfu sóknaraðilar, B og H, sonur C heitins og fyrirsvarsmaður dánarbúsins, og varnaraðilarnir A og F. Vitnaskýrslur gáfu I hrl. og J, löggiltur fasteignasali.
II
Málstæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili db. C byggir á því að hann hafi orðið eigandi að 5.000 m² í hinu óskipta landi þegar móðir hans hafi með ódagsettu bréfi ráðstafað til hans sumarhúsinu [...] sem fyrirfram greiddum arfi árið 2001. Samhliða því hafi verið ráðstafað 5.000 m² lóð af hluta móður hans til hans, sem eiga að koma til viðbótar við þá 11.428,5 m² sem hann eigi skv. afsali frá 23. maí 1968. Sóknaraðili hafnaði þeirri málsástæðu varnaraðila sem of seint fram kominni að nefndir 5.000 m² hefðu komið úr eignarhluta hans sjálfs.
Sóknaraðili telur að ekki sé ágreiningur um að bréf móður hans frá árinu 2001 sé ritað af henni. Jafnframt telur sóknaraðili að ekki sé ágreiningur um eignarrétt hans að sumarhúsinu [...], enda hafi það komið fram í skýrslu varnaraðilans F fyrir dómi að svo hefði verið. Í samskiptum C við móður sína um framangreint hafi hún sérstaklega tiltekið að [...] fylgdi ½ hektari lands, enda hafi ekki verið gert ráð fyrir því að sumarhúsið yrði flutt þar sem það væri varanlega skeytt við landið í skilningi meginreglna eignarréttarins og 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Vísar sóknaraðili þessu til stuðnings til framlagðra gagna frá Fasteignamati ríkisins þar sem fram komi að þann 23. apríl 2001 hafi sóknaraðili eignast matshluta [...], þ.e sumarhúsið [...] auk lóðar. Sé sama dagsetning skráð á afsalið frá 23. maí 1968 um þau eigendaskipti. Jafnframt komi fram í skattframtölum sóknaraðila, um eigur hans í árslok 2001, að matshluti [...] hafi verið skráður sem hans eign. Fram kæmi á heildaryfirliti matseininga FMR frá 2. júlí 1998 að matshlutanum fylgdi 50.000 m² lóð, en þar væri augljóslega um prentvillu að ræða þar sem lóðin væri 5.000 m².
Sóknaraðili kveðst hafa greitt í samræmi við eignarhald hans skatta og gjöld af eigninni, þ.m.t. af lóðinni, í öll þau ár sem liðin væru. Bæri því að líta til tómlætis varnaraðila að koma fyrst fram með mótmæli á skiptafundi í dánarbúunum. Jafnframt var því mótmælt að sóknaraðili hefði ekki greitt skatta og gjöld af eigninni eins og fram hefði komið hjá varnaraðilum.
Sóknaraðili bendir á að verðmæti [...] auk lóðar hafi í skilnaðargagni foreldra hans frá árinu 1998 verið metið á 1.200.000 krónur. Í nefndri yfirlýsingu móður hans hefði [...] verið metið á 1.300.000 krónur. Sú fjárhæð auk viðbótargreiðslu, 300.000 króna sem einnig komi fram í yfirlýsingu móður hans, sé samanlagt svipuð þeirri fjárhæð sem mat á [...] auk lóðar hafi verið á þeim tíma. Á sama tíma hefði móðir hans ráðstafað til hans 1.500.000 krónum aukalega í fyrirframgreiddan arf en aðrir lögerfingjar hennar hafi á sama tíma ýmist fengið peningagreiðslur að fjárhæð 3.000.000 króna eða verið greitt með öðrum hætti. Hafi framangreind ráðstöfun móður hans í bréfinu um sumarhúsið [...] auk lóðar þannig vegið á móti útgreiðslu fyrirfram greidds arfs til annarra lögerfingja.
Sóknaraðili byggir á því að framangreindar upplýsingar úr opinberum skrám Fasteignamats ríkisins, afdráttarlaus yfirlýsing arfláta og önnur gögn málsins sanni að eignarréttindi þau sem um ræði hafi flust frá móður sóknaraðila til hans. Því sé bæði sumarhúsið [...] og 5.000 m² lands eign sóknaraðila sem ekki skuli koma til skipta við opinber skipti á dánarbúi móður hans. Þá megi draga þá ályktun af dómi Hæstaréttar nr. 539/2019 að sömu forsendur eigi við um ráðstöfun E og ráðstöfun D á sömu óskiptu eign, að ráðstöfunin hafi verið gild og að hún hafi sjálf getað ákveðið hvaða endurgjald kæmi fyrir eignina.
Sóknaraðili bendir jafnframt á að B hafi látið bóka á skiptafundi í dánarbúunum að hann gæti vottað að móðir hans hefði látið 5.000 m² lands fylgja með [...] á sínum tíma. C heitinn gæti ekki vottað að hann hafi fengið umþrætta lóð en hann hafi staðið á því hún hafi fylgt. Sonur hans, H, hefði staðfest fyrir dómi að aldrei hefði verið rætt um annað en að nefndur hálfur hektari hafi fylgt [...]. Þá hefði varnaraðili G staðfest í tölvupósti til skiptastjóra að ½ hektari lands hefði fylgt með [...]. Komi sami skilningur, um að hálfur hektari lands skuli fylgja hverju sumarhúsi, fram í bréfi sóknaraðila A, dags. 18. apríl 2012. Telur sóknaraðili að meirihluti lögerfingja hafi þar með staðfest að [...] hafi fylgt ½ hektari og verði í því sambandi að telja að framangreindar upplýsingar í bréfi G, sem ekkert hafi látið málið til sín taka, hafi aukið vægi, sbr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, enda henni óhagstætt að umþrætt lóð skuli ekki koma til skipta í búinu og sama eigi við um yfirlýsingu sóknaraðilans B. Auk framangreinds hafi það verið skýr vilji móður sóknaraðila að hann fengi sumarhúsið ásamt lóð og hafi sá vilji einnig komið fram í afstöðu föður sóknaraðila skv. framlögðum annál tryggingarfélagsins VÍS.
Sóknaraðili byggir á því að ráðstöfun eigna með fyrirframgreiddum arfi sé ekki formbundin, frekar en ráðstöfun sem eigi sér stað með kaupsamningi. Samkvæmt almennum reglum sé gildi þeirra ekki háð þinglýsingu. Þeim ½ hektara lands sem fylgdi [...] hafi ekki verið þinglýst þar sem landið var í óskiptri sameign og ráðstöfunin því ekki tæk til þinglýsingar, skv. ákvæðum þinglýsingarlaga nr. 39/1978, en sé gild engu að síður. Sóknaraðili mótmælti þeirri túlkun varnaraðila að samþykki allra hefði þurft til þeirra ráðstafana.
Sóknaraðili byggir á því að verði ekki fallist á það að framangreind ráðstöfun hafi verið fyrirframgreiddur arfur, hafi verið um gjöf til hans að ræða í skilningi ákvæða erfðalaga nr. 8/1962. Séu slíkir örlætisgerningar í lifanda lífi heimilir. Verðmæti sumarhússins og lóðar geti ekki með nokkrum hætti talist úr hófi miðað við efni dánarbúanna, sbr. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Eigi að öðru leyti við sömu málsástæður og að framan hafi verið rakið.
Sóknaraðili telur ljóst af atvikum málsins, gögnum þess og opinberum skjölum, ásamt skýrum vilja móður hans, að sannað sé að ½ hektari úr hinu óskipta landi sem um sé deilt sé hans eign. Hafi ráðstöfun á þeirri eignarhlutdeild verið heimil, og eigi hún því ekki að koma til skipta samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., úr dánarbúi móður hans. Að öllu virtu sé eignarréttur sóknaraðila samkvæmt framangreindu ótvíræður og skýr samkvæmt meginreglum eignar- og erfðaréttar sem njóti verndar ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Sóknaraðili mótmælti sérstaklega málskostnaðarkröfum varnaraðilanna A og F sem allt of háum. Telur sóknaraðili að jafnframt verði að líta til þess við ákvörðun málskostnaðar á hendur varnaraðilum að G og dánarbúin hafi ekki látið málið til sín taka. Málið hafi dregist mjög á langinn vegna aðgerða varnaraðilanna A og F, sem hefðu hafnað því að eignin færi aftur til dánarbúsins gegn endurgreiðslu greiddra skatta og gjalda.
Sóknaraðili vísar til almennra reglna eignarréttarins og eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, til erfðalaga nr. 8/1962, einkum ákvæða II. og V. kafla laganna, en einnig til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Krafan um málskostnað byggist á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Sóknaraðili B byggir á því að hann hafi orðið eigandi að 6.000 m² úr hinu óskipta landi með kaupsamningi og afsali, dags. 31. maí 2013, til viðbótar við þá 11.428,5 m² sem hann átti fyrir skv. afsali frá 23. maí 1968. Hafi samningurinn verið undirritaður af föður hans með samþykki móður hans og ekkert í gögnum málsins bendi til þess að eitthvað óeðlilegt hafi verið við þann gerning. Í því sambandi skipti andlegt ástand móður þeirra á þeim tíma engu máli. Sóknaraðili kvað föður sinn hafa haft frumkvæði að gerð nefnds samnings og leitað til lögmannsins I hrl. í þeim tilgangi og hann gengið frá samningnum. Hefði framangreint verið staðfest af I í skýrslu hans fyrir dóminum. Þá hefði það verið I sem setti sig í samband við J, löggiltan fasteignasala, sem hefði skoðað og metið eignina, eins og staðfest hefði verið í skýrslu hans fyrir dóminum. J hefði mikla reynslu af verðmati sumarbústaðalóða á því svæði sem um ræði og því ekkert annað fram komið en að verðmat hans, 7.500.000 krónur, væri rétt. Jafnframt benti sóknaraðili á að í dómi Hæstaréttar nr. 539/2016 kæmi skýrt fram að föður hans hafi verið í sjálfsvald sett hvaða endurgjald kæmi fyrir hið selda.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi að fullu greitt fyrir sumarhúsið og lóðina með því að greiða með peningum 3.500.000 krónur, og með því að gefa út skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna til föður síns. Það skuldabréf hefði hann nú greitt upp með greiðslu á 4.220.139 krónum. Staðfest væri af skiptastjóra fyrir dómi að skuldabréfið væri að fullu greitt.
Einnig byggir sóknaraðili á því að það hafi verið skýr vilji föður hans að selja honum sumarbústaðinn og lóðina, enda hefði sá vilji hans komið fram í skýrslutökum af I lögmanni og J, löggiltum fasteignasala, fyrir dómi og H sem hefði haft mikil og náin tengsl við afa sinn.
Sóknaraðili mótmælir því að hann hafi beitt föður sinn einhverjum þrýstingi til sölunnar eins og fram hafi komið í máli varnaraðila A og F eða að við ættu ákvæði 33. gr. samningslaga nr. 7/1936 um misneytingu, enda ekki annað komið fram í málinu en að faðir þeirra hafi verið heill heilsu á þessum tíma. Vísaði sóknaraðili í þessu sambandi til þess að engum mótmælum hefði verið hreyft við kaupum hans á eigninni fyrr en á skiptafundi í dánarbúunum. Þá hefði hann reynt sættir með þeim systkinum með því að bjóðast til þess að afhenda eignina inn í dánarbúið, gegn því að fá greitt til baka það sem hann hefði sannarlega greitt, en því hafi verið hafnað af varnaraðilum.
Sóknaraðili kveðst jafnframt hafa greitt alla skatta og gjöld af eigninni eins og fram komi í framlögðum gögnum málsins og þá sé gildi framangreinds samnings ekki háð því hvort hægt sé að þinglýsa honum, sbr. 24. gr. þinglýsingarlaga, og varnaraðilar hafi ekki sýnt fram á að til staðar væri forkaupsréttur þeirra. Breyting á innbyrðis eignarhlutföllum innan hins óskipta lands væri varnaraðilum að bagalausu og sá eignarréttur sem sóknaraðili hefði fengið með framsali á sumarhúsinu og 6.000 m² lóð nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Með vísan til framangreinds væri ljóst að sóknaraðili væri eigandi þeirra eigna og gætu þær þar af leiðandi ekki komið til skipta úr dánarbúi föður málsaðila. Til úthlutunar úr dánarbúi föður þeirra ættu að koma 5.428,5 m² af hinu óskipta landi.
Sóknaraðili taldi óþarft að fjalla um varakröfu sína, enda væri óumdeilt í málinu að allir málsaðilar hefðu eignast 11.428,5 m² í hinu óskipta landi skv. afsali frá 1968.
Sóknaraðili mótmælti sérstaklega málskostnaðarkröfum varnaraðilanna A og F. Hefði málið vegna krafna þeirra dregist mjög á langinn og þá hefði verið staðfest í skýrslum þeirra fyrir dómi að mál þetta snérist um annað en verðmæti þeirra lóða sem um ræði.
Sóknaraðili vísar til meginreglna eignarréttarins og eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga, ákvæða þinglýsingarlaga nr. 39/1978, ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. og erfðalaga nr. 8/1962. Krafan um málskostnað byggist á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Málstæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili A byggir á því að réttur hvers sameiganda í hinu óskipta landi sé jafn. Óskipta sameignin grundvallist á samningi sem hafi ekki verið slitið eða breytt. Sameignin taki til landspildunnar í heild í jöfnun eignarhlutföllum allra, líka sá hluti sem rýrari sé að gæðum eða verðmæti. Engum sameigendanna hafi verið afmarkaður sérgreindur hluti landsins, hvorki að hlutfallstölu, 11.428,5 m², né að hluta. Engum sameigendanna sé samkvæmt almennum reglum eignarréttar um óskipta sameign heimilt að ráðstafa sínum 1/7 hluta án samráðs við og samþykkis hinna sameigendanna, hvorki að hluta né heild, enda væru það meiriháttar ráðstafanir og öðrum ekki að bagalausu. Fái framangreint stuðning í þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við stofnun sameignarinnar sem fjölskyldueignar. Hennar hafi verið aflað til persónulegra nota sameigendanna þannig að hún myndi nýtast öllum jafnt og það beinlínis verið tilgangur sameignarinnar að viðhalda fjölskyldutengslum og vináttu og samstöðu fjölskyldumeðlima.
Varnaraðili byggir á því að öllum sameigendum hafi borið að bjóða öðrum sameigendum sinn hlut ef hann hygðist slíta sameigninni eða ráðstafa sínum brúttóhlut og séu allar ráðstafanir einstakra sameigenda á hluta óskiptrar 1/7 sameignar hvers um sig óskuldbindandi fyrir aðra sameigendur og ógildar. Þurfi formlegt samþykki allra til þess að sú ráðstöfun verði tæk til þinglýsingar, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Í nefndu lagaákvæði komi fram að skorti skriflegt samþykki þess er heimildar nýtur í eigninni, verði skjalinu vísað frá þinglýsingu skv. 7. gr. laganna. Bein tengsl séu á milli þeirrar réttarverndar sem felist í 1. mgr. 24. mgr. þinglýsingarlaga og réttarreglna um sérstaka og óskipta sameign sem leiddar verða af 20. kapítula kaupabálks Jónsbókar og öðrum réttarreglum um óskipta sameign.
Varnaraðili vísar einnig til réttarreglna um grennd, nábýli eða nágrenni um tillitsskyldu málsaðila sem sameigenda til hvers annars um nýtingu landsins og eignarhald á því. Ef sameigendur komi sér ekki saman um þá nýtingu eða skiptingu verði einungis gripið til þess réttarúrræðis sem fram komi í 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Varnaraðili mótmælir því að þær ráðstafanir sem hafi verið gerðar eftir útgáfu afsals þann 23. maí 1968, geti með gildum hætti raskað grundvelli hinnar óskiptu sameignar sem að framan hafi verið lýst, þrátt fyrir að ýmsar framkvæmdir hafi átt sér stað af hálfu einstakra sameigenda, svo sem með byggingu sumarhúsa án nokkurrar afmörkunar eða útsetningar og án samráðs eða samþykkis annarra sameigenda.
Um kröfu db. C sérstaklega vísar sóknaraðili til þess að í máli hans komi fram að landspildan sé í óskiptri sameign og þar með fallist sóknaraðili á dómkröfur varnaraðila í málinu um 1/7 hluta eignarhluta hvers.
Varnaraðili hafnar því sem ósönnuðu að db. C hafi sýnt fram á með gildum og fullnægjandi gögnum að móðir þeirra hafi ráðstafað sumarhúsinu [...] og 5.000 m² lóð sem fyrirframgreiddum arfi til hans. Hafi verið um fyrirframgreiddan arf að ræða þá hafi aldrei verið greiddur af honum erfðafjárskattur og hvað sem öðru líði hafi aldrei verið talað um land í því sambandi. Þegar E hafi síðar greitt C út 1.500.000 krónur í desember 2004, sem fyrirframgreiddan arf, hafi ekki verið minnst á sumarhúsið eða umrædda 5.000 m² spildu. Varnaraðili mótmælir því að greiðsla á fyrirframgreiddum arfi til sóknaraðila í desember 2004 hafi átt að vega upp á móti fyrirframgreiðslu til annarra erfingja eða að verðmæti þess hafi verið sambærilegt. Þá sé því hafnað af sóknaraðila að fyrirframgreiðsla arfs sé ekki formbundinn gerningur.
Varnaraðili mótmælir því að skráning hjá Fasteignamati ríkisins sé sönnun fyrir eignarhaldi eða eigendaskiptum á [...] og 5.000 m² lands. Skráning eignarinnar hjá FMR sé engum gögnum studd og ekki hafi verið upplýst um á hvaða forsendum sú skráning hafi byggst eða að beiðni hvers. Hafi verið haft samband við FMR en engin gögn hafi fundist þar. Varnaraðili mótmælir því að stimpill FMR og dagsetningin 23. apríl 2001 á afsalið frá 23. maí 1968 hafi einhverja þýðingu eða að hann tengist sérstaklega eignaskráningu á nefndu sumarhúsi og landi. Þá er því einnig mótmælt að það hafi þýðingu í málinu að sóknaraðili telji sig hafa haft umráð og vörslur frá árinu 2001 eða fyrr, eða að það hafi þýðingu fyrir málið að sóknaraðili hafi talið eignina fram á skattframtölum og greitt af henni skatta og gjöld.
Varnaraðili mótmælir því að það hafi verið vilji móður þeirra, hvort heldur munnlega eða skriflega, að sóknaraðili fengi 5.000 m² spildu með [...] sem fyrirfram greiddan arf. Engu skjali sé til að dreifa eins og nauðsyn hefði borið til og gerningurinn því ekki formlegur. Ekki hafi reynt á ákvæði þinglýsingarlaga skv. framangreindu, en ljóst væri að gildi umdeildrar ráðstöfunar væri háð þinglýsingu.
Einnig mótmælir varnaraðili því að ummæli sóknaraðilans B á skiptafundi þann 11. nóvember 2015, um að 5.000 m² spilda hafi átt að fylgja [...], hafi þýðingu í málinu og sama eigi við um yfirlýsingu varnaraðilans G í tölvupósti til skiptastjóra. Um skráningu í annál tryggingarfélagsins VÍS, að það hafi verið vilji D að sóknaraðili fengi [...], lægi ekkert fyrir í málinu um hvaða gögn hefðu legið þar að baki. Varnaraðili mótmælir með öllum sömu rökum og að framan greinir, að í ódagsettu skjali hafi E ráðstafað sumarhúsinu [...] ásamt ½ hektara lands til sóknaraðila árið 2001 sem gjöf. Sé skjalinu mótmælt sem röngu, óstaðfestu og þýðingarlausu.
Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðilans B. Fram komi í máli sóknaraðila að landspildan sé í óskiptri sameign og þar með sé fallist á dómkröfur varnaraðila í málinu um 1/7 hluta eignarhluta hvers. Sérstaklega sé því mótmælt að sóknaraðili njóti eignarréttar yfir 6.000 m² spildu til viðbótar við þann eignarhluta sem fram komi í afsali frá 23. maí 1968. Sé kaupsamningur og afsal frá 31. maí 2013 milli varnaraðila og D ógildur og óskuldbindandi fyrir alla aðila þessa máls. Telur varnaraðili að bæði D og E, sem hafi ritað undir skjalið sem maki, hafi skort löggerningshæfi á þeim tíma. Staðfest væri í gögnum málsins að frá árinu 2010 hefði andleg geta E farið minnkandi. Hafi sóknaraðilar krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að E yrði svipt lögræði ótímabundið á þeim forsendum að hún væri andlega skert og með einkenni heilabilunar. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 14. maí 2014, hefði verið fallist á kröfu sóknaraðila, á þeim forsendum að engir annmarkar hafi verið leiddir í ljós um gildi framlagðs læknisvottorðs. Af framangreindri ástæðu einni væri meint sala E til B ekki gild og hafi engan rétt stofnað. Því til stuðnings sé vísað til 1. mgr. 60. gr. og 1. og 2. mgr. 62. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og einnig 1. mgr. 64. gr. þeirra laga þar sem á skjalið hafi skort yfirlýsingu um hjúskaparstöðu þess sem skjalið stafar frá og hvort bústaðurinn væri notaður í atvinnurekstur þeirra hjóna. Jafnframt byggir varnaraðili á því að D hafi á þessum tíma verið háaldraður, á [...] Aldursári, og hafi látist rétt rúmum 7 mánuðum síðar. Hafi hann átt við veikindi að stríða og dvalið fársjúkur á sjúkrahúsi frá 16. janúar til 3. febrúar það ár. Varnaraðili bendir einnig á að í umþrættum löggerningi frá 31. maí 2013 komi fram að um sé að ræða eignarlóð sem væri rangt. Þá hafi söluverðið 7.500.000 krónur verið langt undir sannvirði, sbr. gögn málsins, meðal annars brunabótamat, og dregur varnaraðili í efa að löggiltur fasteignasali sem gaf skýrslu fyrir dóminum hafi í reynd skoðað fasteignina. Þá hafi greiðsluskilmálar verið óeðlilegir og greiðslufrestur veittur án verðtryggingar á meirihluta kaupverðs án nokkurrar tryggingar fyrir greiðslu eftirstöðva og sé á því byggt að kaupverðið sé enn ógreitt. Auk þessa eigi við það sem að framan sé rakið um að samþykki allra hefði þurft til að ráðstöfunin gæti orðið gild og skuldbindandi fyrir aðra sameigendur.
Varnaraðili heldur því fram að framangreint skjal hafi verið gert með leynd og í reynd án aðkomu hlutlausra og utanaðkomandi aðila, svo sem lögmanns og löggilts fasteignasala. Hafi þannig skort á skilyrði 15. og 16. gr. laga um sölu fasteigna og skipa nr. 99/2004, sbr. nú 15. og 16. gr. laga nr. 70/2015, um að salan og skjalagerðin hafi í hvívetna verið leyst af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur í fasteignaviðskiptum bjóði, báðum aðilum liðsinnt og gætt að réttmætum hagsmunum þeirra og að aðilum væru ekki settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum og að öll skjalagerð væri vönduð og hagsmunir beggja tryggðir. Það eigi ekki við í þessu máli og hefðu læknisvottorð D legið fyrir í málinu hefði verið ljóst að hann hefði ekki verið talinn fær um að taka slíkar ákvarðanir. Taldi varnaraðili að gerningurinn hefði verið gerður að frumkvæði sóknaraðilans B sem hefði „sest að foreldrum sínum.“ Hafi samþykki til framangreindrar sölu verið fengið með misneytingu og sé því ógilt samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986. Vegna andlegrar vanheilinda hafi foreldrar málsaðila verið leiðitöm og orðið að setja traust sitt á aðra og hafi undirritun þeirra verið byggð á því trausti sem þau hafi borið til sóknaraðila og vottanna og verið þeim háð. Sóknaraðili geti því ekki borið samninginn fyrir sig, þar sem það yrði talið óheiðarlegt, skv. 33. gr. laga nr. 7/1936, vegna andlegra haga D og E, efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Beri að víkja löggerningnum frá 31. maí 2013 til hliðar í heild þar sem það yrði talið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig eins og atvikum væri öllum háttað, skv. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Hafi báðir sóknaraðilar og vottar verið grandsamir um vanheilindi þeirra og bágt andlegt atgervi.
Varnaraðili mótmælir því að á tómlæti geti reynt í málinu, enda hafi hann ekki vitað um framangreindan löggerning fyrr en eftir að bú foreldra þeirra var tekið til opinberra skipta.
Varnaraðili vísar auk alls framangreinds til meginreglna eignarréttarins og samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga, ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. og erfðalaga nr. 8/1962. Kröfu um málskostnað styður varnaraðili einkum við 1. og 2. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr., og XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfuna um virðisaukaskatt á málskostnað byggir varnaraðili á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili í þessu tilviki.
---
Varnaraðili F byggir á að db. C hafi ekki fengið aukinn hlut, 5.000 m² spildu, frá móður þeirra, enda sé það framsal ekki stutt neinum heimildum. Bendi gögn málsins til þess að [...] hafi ekki átt að fylgja nein lóðarréttindi, sbr. matsgjörð frá 18. september 1998 og lið 3.2 í skilnaðarsamningi foreldra þeirra frá 14. apríl 1999.
Varnaraðili telur að sóknaraðili byggi eignarheimild sína eingöngu á ráðstöfun móður þeirra á fyrirframgreiddum arfi, en um væri að ræða skriflega en ódagsetta og óvottaða yfirlýsingu. Hafnar varnaraðili því að sú yfirlýsing geti orðið grundvöllur að eignarheimild hans, í öllu falli að því landi sem hann segi að hafi átt að fylgja. Í fyrsta lagi uppfylli yfirlýsingin á engan hátt almenn formskilyrði, s.s. um dagsetningu og vottun. Í öðru lagi uppfylli yfirlýsingin ekki formskilyrði laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra laga sé það gildisskilyrði samninga um kaup á fasteign að þeir séu skriflegir og undirritaðir. Sé þetta áréttað með ummælum í athugasemd með frumvarpi því sem síðar hafi orðið að lögum nr. 40/2002 og öðrum lögskýringargögnum. Þá megi og benda á dóm Hæstaréttar nr. 54/2006 í þessu sambandi. Í þriðja lagi þá uppfylli yfirlýsingin ekki skilyrði erfðalaga nr. 8/1962 og laga um erfðafjárskatt nr. 14/2004 um formbindingu fyrirframgreidds arfs og ekki liggi fyrir erfðafjárskýrsla um meinta eign, og sé það í trássi við 2. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að gengið hafi verið mun síðar frá erfðafjárskýrslu til sóknaraðila varðandi greiðslu á 1.500.000 krónum svo og til annarra erfingja og þá með formbundnum hætti.
Varnaraðili telur að þótt hægt væri að fallast á að framangreind yfirlýsing fæli í sér eignarheimild á sumarhúsinu [...] væri hún á engan hátt yfirfærsla á þeirri 5.000 m² spildu sem sóknaraðili hafi haldið fram að hafi fylgt. Í nefndri yfirlýsingu komi hvergi fram að sumarhúsinu hafi átt að fylgja land. Þá hafi það ekki verið á færi móður þeirra að skipta út landinu eða raska því hlutfalli sem hafi verið til staðar í hinni óskiptu sameign.
Varnaraðili hafnar því að það hafi þýðingu við úrslausn málsins hvort sóknaraðili hafi fengið sambærilega fjármuni sem fyrirframgreiddan arf þar sem hann hafi auk þessa fengið aðrar peningagreiðslur en þær 1.500.000 krónur sem gefnar hafi verið upp sem fyrirframgreiddur arfur. Þá sé ekki hægt að líta öðruvísi á en að bústaðurinn hafi einn og sér verið metinn á 1.500.000 krónur. Varnaraðili hafnar því að framlagt dómskjal þar sem getið sé um [...], lóð og sumarbústað og ákveðið verðmat þeirra hafi þýðingu í málinu, þar sem skjalið hafi varðað væntanleg eignaskipti vegna skilnaðar D og E. Beri frekar að líta til undirritaðs skilnaðarsamnings þeirra frá 14. apríl 1999 en þar komi fram að matsverð á [...] sé 1.300.000 krónur. Þá geti sóknaraðili ekki byggt á fasteignamatsverði sumarbústaðar og lands frá árinu 1998 en fasteignamatið endurspegli ekki endilega markaðsverð fasteignarinnar en skapar grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda, sbr. 1. gr. laga nr. 8/2001 um skráningu og mat fasteigna. Varnaraðili hafnar því jafnframt að yfirlit um álagða skatta og gjöld sóknaraðila vegna eignarinnar hafi sönnunargildi, enda fylgi engar greiðslukvittanir þeirra fyrir í málinu.
Varnaraðili hafnar því að fyrir liggi arfleiðsluvilji E um að sóknaraðili hafi átt að fá auk [...] 5.000 m² spildu. Þá liggi ekki fyrir neinar munnlegar eða skriflegar yfirlýsingar annarra málsaðila um meintan vilja móður aðila. Telur varnaraðili að sóknaraðili C hafi slegið eign sinni á umrætt land án þess að hafa til þess lögbæra eignarheimild. Hafi yfirlýsingar aðila málsins, lífs eða liðinna, enga þýðingu í málinu. Hafnar varnaraðili því að yfirlýsing varnaraðila G geti haft aukna þýðingu í málinu, enda uppfylli sú yfirlýsing ekki ákvæði 72. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem hún hafi ekki komið fram fyrir dómi. Varnaraðili hafnar því að skráning hjá Fasteignamati ríkisins hafi einhverja þýðingu í málinu, enda sé skráður eigandi fasteignar sá einn sem hafi þinglýsta eignarheimild, sbr. 22. gr. laga nr. 8/2001 um skráningu og mat fasteigna.
Varnaraðili hafnar jafnframt þeirri málsástæðu að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi erfðalaga. Verði fallist svo á, þá hafi sú gjöf í besta falli falið í sér sumarbústaðinn án lands eins og skýrt komi fram í yfirlýsingu móður aðila. Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili geti byggt rétt sinn á afnotarétti allt frá árinu 1998. Það rétta væri að öll systkinin hefðu haft afnot af bústaðnum. Þá var hafnað framkominni málsástæðu sóknaraðila um tómlæti sem of seint fram kominni, en enginn hafi vitað af því að lóðin hafi verið framseld.
Um kaupsamning og afsal D til sóknaraðilans B, dags. 31. maí 2013, bendir varnaraðili á að sá samningur hafi verið gerður níu mánuðum fyrir andlát D og hafi faðir þeirra þá verið orðinn veikur. Varnaraðili byggir á því að um sé að ræða óuppfylltan kaupsamning. Ekki liggi fyrir fullnaðargreiðslur af hálfu sóknaraðila. Engin staðfesting liggi fyrir um móttöku á peningagreiðslum að fjárhæð 3.500.000 krónur, eingöngu sé handritað á kvittun „Samþ. D“. Hvorki liggi fyrir dagsetning um hvenær þessi peningagreiðsla hafi átt sér stað, og þá sé skjalið ekki vottað. Hafnar sóknaraðili því að þessi peningagreiðsla hafi yfirleitt átt sér stað. Þá liggi fyrir bankakvittun í málinu en samkvæmt henni hafi sóknaraðili millifært 1.500.000 krónur inn á bankareikning föður þeirra þann 26.11.2013. Sé handskrifað á kvittunina að sóknaraðili hafi greitt með peningum 500.000 krónur. Engin staðfesting sé á móttöku þeirrar peningagreiðslu, eingöngu sé handritað á kvittunina: „Samþ. D“. Ekki liggi fyrir hvort sóknaraðili hafi með þessu ætlað að greiða inn á skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna sem sóknaraðili hafi gefið út fyrir eftirstöðvum kaupverðsins, en hafi svo átt að vera hafi greiðslan ekki verið færð inn á skuldabréfið sjálft eins og reglur um viðskiptabréf geri ráð fyrir, sbr. tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1789.
Varnaraðili kvaðst hafna þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi greitt skatta og gjöld af húsi og landi frá því að framangreindur kaupsamningur hafi verið gerður og hafi sóknaraðili ekki lagt fram nein gögn þess efnis. Þá sé í nefndum löggerningi hvergi minnst á geymsluskúr, kaldavatnsholu, tvö gróðurhús og heitan pott sem geti engan veginn fallið undir samninginn þótt hann yrði talinn fullgildur að öðru leyti um sumarhúsið. Þá telur varnaraðili að hafi land átt að fylgja sumarhúsinu, þá hefðu þeir 6.000 m² átt að koma frá eignarhluta sóknaraðila sjálfs.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að ekki hafi verið leitað eftir samþykki annarra eigenda að hinu óskipta landi þegar framangreindur löggerningur hafi verið gerður, eins og gert hefði verið þegar hún keypti sumarhús og 10.000 m² lands af G. Varnaraðili mótmælti túlkun sóknaraðila á dómi Hæstaréttar í máli nr. 539/2016 um að í honum komi fram lögmæti þess að D hafi selt sóknaraðila sumarhúsið. Taldi varnaraðili með vísan til framangreinds að hafna bæri því að sóknaraðilar, B og db. C, hefðu fengið aukinn hlut umfram 1/7 hluta í hinu óskipta landi [...], og eigi þeir eignarhlutar að tilheyra dánarbúunum.
Varnaraðili byggir á lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup, lögum nr. 8/2001 um þjóðskrá, erfðalögum nr. 8/1962, lögum nr. 14/2004 um erfðafjárskatt, einnig fyrri lögum um erfðafjárskatt nr. 83/1984, eftir því sem við eigi, einnig vísar varnaraðili til almennra reglna samninga-, eigna- og kröfuréttar og til tilskipunar um áritun á skuldabréfi frá 9. febrúar 1789.
Varnaraðili gerir kröfu um óskiptan málskostnað úr hendi sóknaraðila. Við það mat verði að hafa í huga að sóknaraðilar hafi verið óviljugir til þess að leita lausna til skipta á landinu. Málskostnaðarkrafan er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr. Kröfuna um virðisaukaskatt á málskostnað byggir varnaraðili á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og sé honum því nauðsyn að fá skattinn sér dæmdan úr hendi sóknaraðila.
---
Varnaraðili dánarbú D og E bendir á að ágreiningur málsins sé afmarkaður við það hver sé eignarhluti dánarbúanna og ekkert annað. Séu þannig aðeins tvö álitaefni sem þurfi að taka afstöðu til í málinu, annars vegar hvort db. C hafi eignast 5.000 m² lands frá móður sinni og hins vegar hvort B hafi eignast sumarhús og 6.000 m² frá föður sínum, eða hvort þeir eignarhlutar eigi að tilheyra dánarbúunum. Í því sambandi verði að hafa í huga að heimilt sé samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar að ráðstafa eignarhlutdeild í óskiptri sameign. Þá liggi fyrir að kaupsamningur, dags. 31. maí 2013 til B, hafi ekki verið ógildur með dómi.
Varnaraðili staðfesti undirritun sína á framlagt dómskjal um að sóknaraðili B hefði greitt upp veðskuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna útgefið vegna kaupa hans á sumarhúsi föður hans og 6.000 m² lóðar. Varnaraðili staðfesti að hann hefði fengið tölvupóst frá varnaraðilanum G þar sem fram komi að C heitinn hefði fengið [...] og 5.000 m² lands sem fyrirframgreiddan arf, metið á 1.500.000 króna og rest með peningum. Þá staðfesti skiptastjóri að í fórum hans væri frumrit þeirrar yfirlýsingar sem E hefði ritað um að hafa á árinu 2001 greitt C út [...] sem fyrirframgreiddan arf.
IV
Niðurstaða
Óumdeilt er að skv. afsali, dags. 23. maí 1968, eignuðust sóknar- og varnaraðilar þessa máls 1/7 hluta hver í óskiptu landi [...] í [...], og sé eignarhlutur hvers þeirra samkvæmt afsalinu 11.428,5 m².
Ágreiningur þessa máls snýr að því hvort sóknaraðili db. C hafi til viðbótar við framangreindan eignarhluta sinn eignast 5.000 m² lands frá móður sinni og hins vegar hvort sóknaraðili B hafi til viðbótar sínum eignarhluta eignast sumarhús og 6.000 m² lands frá föður sínum eða hvort þeir eignarhlutar eigi báðir eða annar að koma til úthlutunar úr dánarbúunum ásamt þeim 11.857 m² sem ekki er ágreiningur um að enn tilheyri dánarbúunum.
Ljóst þykir að hverjum sameiganda er heimil nýting og ráðstöfun á sameigninni sem er öðrum að bagalausu þótt réttur hvers erfingja taki til eignarinnar í heild. Í málinu er upplýst að allir varnaraðilar málsins höfðu byggt sér sumarhús á hinu óskipta landi. A og F byggðu sér sumarhús á árunum 1984 og 1985 og lét hvor um sig skrá 10.000 m² með húsunum af hinu óskipta landi. Fengu sumarhús varnaraðila og lóðir fastanúmer hjá Fasteignamati ríkisins (FMR), og urðu þar með sérstakir eignarhlutar og skattstofn sem varnaraðilar borga sjálfir skatta og gjöld af. Af gögnum málsins verður ekki séð að formlegs samþykkis annarra, þ. á. m. sóknaraðila, hafi verið leitað fyrir þeim ráðstöfunum sem þó tóku til einstakra hluta hinnar óskiptu sameignar óháð gæðum eða verðmæti. Framangreindum ráðstöfunum varnaraðila hefur ekki verið þinglýst. Varnaraðilar byggja allt að einu á því að ráðstafanir og framsal á sumarhúsum og landi til sóknaraðila hafi verið ógildar á þeim forsendum að ekki hafi verið leitað samþykkis allra og þeim ekki verið þinglýst, skv. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Í málinu liggur fyrir veðbókarvottorð þar sem allir málsaðilar eru þinglýstir eigendur landsins. Brast aðila því ekki heimild skv. nefndu ákvæði þinglýsingarlaga til ráðstöfunar á sínum eignarhluta og með sama hætti eru uppfyllt ákvæði 22. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá virðast engir samningar hafa staðið til þess að takmörkun væri á framsali sameignarréttindanna og þótt í upphafi hafi hið óskipta land verið hugsað til persónulegra samnota allra eigenda, þá er ljóst að þær forsendur eiga ekki lengur við, með því að varnaraðilar með framangreindum hætti byggðu sér hver sitt hús og skráðu með þeim lóðir. Ráðstöfun á eignarhlutdeild í hinu óskipta landi og framsal til annarra sameigenda var að mati dómsins öðrum að bagalausu og heimil skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Við skilnað D og E var gengið frá skilnaðarsamningi, dagsettum 14. apríl 1999. Í lið 3.2. í þeim samningi kemur fram að D fái stærra sumarhúsið á hinu umþrætta landi eða [...] en E minna húsið, [...]. Allt sumarbústaðaland væri hins vegar sameign þeirra og barna þeirra.
Sumarhúsið [...] og 5.000 m² óskipts lands.
Í málinu liggur fyrir ódagsett og óvottað handritað skjal undirritað af E þar sem fram kemur að hún hafi á árinu 2001 greitt C út sumarhúsið [...] sem fyrirframgreiddan arf sem hafi verið metið milli hennar og D á 1.300.000 krónur. Varnaraðili A telur að þótt hún hafi ekki vitað af tilurð þessa skjals fyrr en löngu síðar, þá sé það ritað af móður þeirra. Varnaraðili F kvaðst hafa vitað af þessari ráðstöfun þegar hún var gerð. Hvað sem líður formlegu gildi þeirrar fyrirframgreiðslu arfs þá hefur það verið vilji E að C eignaðist sumarhúsið. Að mati dómsins stendur ágreiningur þessa hluta málsins eingöngu til þess hvort sumarhúsinu hafi fylgt 5.000 m² óskipt lóð, en hennar er ekki getið í nefndu skjali E. Lóðin var þann 31. desember 2001 skráð á 637.000 krónur hjá FMR.
Sóknaraðili hefur í sínum málflutningi bent á skjal frá ágúst 1998 sem gert var í tengslum við skilnað D og E, þar sem rætt er um [...] ásamt lóð á 1.200.000 krónur og megi af því leiða, í samanburði við þá fjárhæð sem fram komi í bréfi E, að [...] hafi átt að fylgja lóð við fyrirframgreiðslu arfsins. Í gögnum málsins er einnig að finna skjal, dags. 21. september 1998, þar sem [...] er getið án lóðar á 1.300.000 krónur. Í matsvottorði Fasteignamats ríkisins frá 2. júlí 1998 er fasteignamat [...] ásamt lóð metið á 1.631.000 krónur, en húsmatið er 1.062.000 krónur. Í skilnaðarsamningi þeirra hjóna, dags. 14. apríl 1999, er verðmat [...] án lóðar 1.300.000 krónur. Ekki verða dregnar neinar ályktanir af nefndum skjölum um það hvort [...] hafi á árinu 2001 átt að fylgja lóð, en að mati dómsins er um verðmat á sumarhúsinu [...] í bréfi E vísað til endanlegs skilnaðarsamnings, dags. 14. apríl 1999.
Eftir skilnað D og E byggir E sér sjálf sumarhús á hinu óskipta landi árið 1999 og skráir með því 4.250 m² lóð hjá FMR. Ekki liggur fyrir hvernig var staðið að þeirri skráningu en E var þessi ráðstöfun heimil skv. framangreindu. Með sama hætti liggur ekki fyrir hvernig skráningu á [...] var upphaflega háttað, en fram kemur í skjali frá FMR, dags. 2. júlí 1998, að með [...], matshluta 220-8152, sé skráð 50.000 m² lóð. Óumdeilt virðist að þessi stærðarskráning lóðar sé röng og standi ágreiningur málsins til 5.000 m² lóðar, og sé það stærð þeirrar lóðar sem skráð er með [...] í skrám FMR í dag.
Á yfirliti frá FMR um fasteignamat þann 1.12.2000 kemur fram að D er skráður sem eigandi [...], matshluta 220-8152 en ekki E, og í annál frá tryggingarfélaginu VÍS, dags. 12. janúar 2001 kemur fram að D óskar þess að sumarhúsið verði hjá þeim skráð á C. Þar sem D var þá enn formlega skráður sem eigandi matshlutans má leiða að því líkur að D hafi einnig komið að breytingu á eigendaskráningu hans hjá FMR þann 23. apríl 2001.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá FMR þá varð C skráður eigandi að matshluta 220-8152, þ.e. [...] og lóð, þann 23. apríl 2001. Eigendaskráningar þessarar er getið á afsalinu frá 23. maí 1968, með stimpli FMR, sama dag og fyrrgreind skráning fór fram eða 23. apríl 2001. Matshlutinn hefur frá þeim tíma verið skráður á skattframtöl C og álagningarseðlar fasteignagjalda sendir honum.
Af orðalagi í bréfi E um fyrirframgreiddan arf til C verður að útiloka að það bréf hafi legið til grundvallar skráningunni þann 23. apríl 2001. Þar segir: „Árið 2001 fékk hann [...], ... Seinna bætti ég við til hans 300.000.“ Hafa því aðrar forsendur legið að baki skráningunni hjá FMR þann 23. apríl 2001 en nefnt bréf um fyrirframgreiddan arf, en ekkert liggur fyrir um þær forsendur og samkvæmt því sem fram kom í málinu, finnast þær ekki.
Eins og getið var ráðstafaði E einungis 4.250 m² af hinu óskipta landi með sínu sumarhúsi árið 1999 og byggir sóknaraðili á því að E hafi alltaf gert ráð fyrir því að [...] fylgdi lóð. Í tölvupósti varnaraðilans G til skiptastjóra kemur fram að það hafi verið vilji E að C fengi 5.000 m² lóð með [...]. Framangreindar skráðar upplýsingar FMR og áritunin á afsalið frá 23. maí 1968 benda til þeirrar niðurstöðu. Ekki er annað komið fram en að E hafi á þessum tíma verið með fulla heilsu. Þar sem ekki er við önnur gögn að styðjast en að framan greinir, leiðir það að svo komnu máli til þess að C hafi fengið umþrætta 5.000 m² lóð að gjöf. Var gefandi innan þeirrar eignarhlutdeildar sem honum var heimilt að ráðstafa af hinu óskipta landi og verið í sjálfsvald sett hvort eða hvaða endurgjald hafi komið fyrir.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að 5.000 m² lands af 11.428,5 m² í upphaflegri eignarhlutdeild E í óskiptu landi [...] í [...] skuli ekki koma til skipta úr dánarbúi hennar. Koma því til skipta úr dánarbúi hennar 6.428,5 m².
Sumarhúsið [...] og 6.000 m² óskipts lands.
Með kaupsamningi og afsali, dags. 31. maí 2013, afsalaði D til B sumarhúsinu við [...], sem kallað er [...], „og eignarlóð skv. FMR er 6.000 m².“ Undir skjalið ritar E sem maki, sbr. 1. mgr. 58. gr. og 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en D og E munu hafa gifst að nýju það sama ár. Í dómi Hæstaréttar nr. 539/2016 kemur fram að við þessa ráðstöfun hafi D verið í sjálfsvald sett hvaða endurgjald kæmi fyrir hið selda. Þykir því ekki frekar ástæða til að rekja kaupverð eignarinnar eða hvort það hafi verið að fullu greitt.
Á því er byggt að bæði D og E hafi skort löggerningshæfi þegar undirritun þessa samnings átti sér stað. Um löggerningshæfi E liggur fyrir að hún var með dómi Hæstaréttar nr. 280/2014 svipt fjárræði ótímabundið frá 14. maí 2014 að telja. Til grundvallar þeirri sviptingu lá læknisvottorð, dags. 5. mars 2014, þar sem fram kom að hún hefði verið greind með Alzheimer-sjúkdóm og hafi andleg og líkamleg heilsa hennar versnað á umliðnu ári. Ekki liggur fyrir vottorð um hvernig heilsu hennar með tilliti til hæfis var háttað þann 31. maí 2013 eða þegar hún og D giftust að nýju á árinu 2013. Liggur því ekki annað fyrir en að uppfyllt séu ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 1. mgr. 60. gr., 2. mgr. 62. gr. og 1. mgr. 64. gr.
Um andlegt eða líkamlegt hæfi D liggja engin sjúkragögn fyrir. Fram kom í skýrslu fyrir dómi af I hæstaréttarlögmanni að hann hafi rætt við D og B vegna gerðar samningsins, en vitnið þekkti vel til D. Hafi það verið upplifun hans að framangreint hafi verið vilji D og hann hafi því útbúið samninginn og jafnframt fengið löggiltan fasteignasala til þess að verðmeta eignina. Liggur því ekki annað fyrir en að D hafi verið til þess bær að undirrita löggerninginn. Með aðkomu lögmannsins og löggilts fasteignasala er ekki hægt að fallast á það að leynd hafi hvílt yfir þeim gerningi og ekkert er fram komið um að skort hafi á skilyrði 15. og 16. gr. þágildandi laga um sölu fasteigna og skipa nr. 99/2004, um siðferði, viðskiptavenjur og frágang samningsins.
Á því er jafnframt byggt að framangreindur samningur hafi verið fenginn með misneytingu, með því að sóknaraðili hafi sest að foreldrum sínum og beitt þau þrýstingi. Um þetta atriði liggja engin gögn eða skýrslur óháðra aðila og telst það því ósannað. Samkvæmt framangreindu er ekki hægt að fallast á að við eigi ákvæði 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, um að foreldrar málsaðila hafi verið leiðitöm og orðið að setja traust sitt á sóknaraðila eða að það yrði talið óheiðarlegt að bera fyrir sig samninginn, sbr. 33. gr. sömu laga vegna andlegra haga D og E. Þá er með sama hætti ósannað að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samninginn, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 eins og atvikum er öllum háttað.
Ekki er ágreiningur um að sumarhúsið [...] tilheyrði D þegar hann framseldi það til sóknaraðila B. D var heimilt að ráðstafa eigum sínum með framangreindum hætti í hinu óskipta landi, enda var ráðstöfunin innan þeirrar eignarhlutdeildar sem honum tilheyrði.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að 6.000 m² lands af 11.428,5 m² í upphaflegri eignarhlutdeild D í óskiptu landi [...] í [...], skuli ekki koma til skipta úr dánarbúi hans. Koma því til skipta úr dánarbúi hans 5.428,5 m².
Til úthlutunar í opinberum dánarbússkiptum D og E eiga samtals að koma 11.857 m² úr óskiptu landi [...]í [...].
Með vísan til niðurstaðna málsins, 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., verður varnaraðilum A og F gert að greiða sóknaraðila, B óskipt 900.000 krónur í málskostnað og sóknaraðila db. C óskipt 1.100.000 krónur í málskostnað, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð.
Til skipta úr dánarbúum þeirra D og E eiga að koma 11.857 m² í óskiptu landi [...] í [...].
Varnaraðilar A og F greiði sóknaraðila B óskipt 900.000 krónur í málskostnað og sóknaraðila db. C óskipt 1.100.000 krónur í málskostnað.