Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Ökuréttur
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 29. október 1999. |
|
Nr. 438/1999. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn Baldvin Kristjánssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Kærumál. Ökuréttur. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Með dómi héraðsdóms var B sviptur ökurétti. B sótti um leyfi til áfrýjunar dómsins og krafðist þess í kjölfarið að sviptingu ökuréttar yrði frestað samkvæmt 2. málsl. 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms. Talið var að heimild til kæru væri ekki að finna í umferðarlögum. Þá yrði kæra ekki heldur reist á 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda tæki það ákvæði ekki til annarra úrskurða eða ákvarðana en þeirra er um ræddi í þeim lögum. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. október 1999, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um frestun ökuréttarsviptingar. Hann krefst þess að sú krafa verði tekin til greina.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 20. september 1999 var varnaraðila gert að greiða 25.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í einn mánuð frá birtingu dómsins fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var dómurinn birtur varnaraðila 17. október sl. Fór varnaraðili þess á leit við héraðsdóm 19. sama mánaðar að ákveðið yrði með úrskurði að frekari framkvæmd á ökuréttarsviptingu yrði frestað á grundvelli 2. málsl. 104. gr. umferðarlaga. Þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.
Í umferðarlögum er ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms þess efnis, sem hér um ræðir. Kæruheimild verður heldur ekki reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda tekur það ákvæði ekki til annarra úrskurða eða ákvarðana en þeirra, sem um ræðir í þeim lögum. Skortir því heimild til kæru málsins og verður því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. október 1999.
I.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum hinn 20. september sl., var sóknaraðili, Baldvin Kristjánsson, kt. 120173-3919, Réttarholti 5, Selfossi, sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með því að hafa hinn 28. maí sl., ekið þungu bifhjóli með 143 kílómetra hraða miðað við klukkustund vestur Suðurlandsveg þar sem heimilaður hámarkshraði er 90 kílómetrar miðað við klukkustund. Var honum gert að greiða 25.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og sæta ökuréttarsviptingu í einn mánuð frá birtingu dóms að telja.
Sóknaraðili var ekki viðstaddur dómsuppsögu en honum var formlega birtur dómurinn hinn 17. þessa mánaðar. Eigi að síður var það þremur dögum áður, eða hinn 14. þessa mánaðar, að lögmaður sóknaraðila ritaði bréf til Ríkissaksóknara þar sem óskað var eftir að beiðni sóknaraðila um áfrýjunarleyfi meðfylgjandi bréfinu yrði komið til Hæstaréttar Íslands, samkvæmt ákvæðum 150. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1994. Með bréfi til Héraðsdóms Suðurlands mótteknu hinn 19. þessa mánaðar fór sóknaraðili þess á leit að dómari ákveddi með úrskurði að frekari framkvæmd á ökuréttarsviptingu ákærða yrði frestað.
Krafan var tekin til úrskurðar í gær að loknum munnlegum málflutningi.
Við flutning málsins krafðist sóknaraðili einnig þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr ríkissjóði að mati dómsins.
Af hálfu sóknaraðila hefur komið fram að ákærði vinni við smíðar og þurfi þess vegna mjög á bifreið að halda. Þá er vísað til þess að eftir að dómur gekk í máli hans hafi deildarstjóri stærðfræði- og eðlisfræðideildar Fjölbrautarskóla Suðurlands reiknað út að mæling lögreglu á hraða sóknaraðila greint sinn hafi reynst röng. Þó það skjal hafi ekki verið lagt fram við meðferð málsins, hafi þau sjónarmið sem þar eru reifuð komið fram við meðferðina. Sóknaraðili nefnir einnig að ökuréttarsvipting sú sem um ræðir verði jafnvel runnin út áður en sóknaraðili hefur fengið svar Hæstaréttar við beiðni um áfrýjunarleyfi, og örugglega áður en dómur gengur í Hæstarétti, verði leyfið veitt.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 2. málsliðar 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og það jafnframt nefnt að verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila um frestun á framkvæmd ökuréttarsviptingar sé um að ræða brot gegn 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu.
Varnaraðili krefst þess að framkomnum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Er meðal annars á það bent að 2. málsliður 104. gr. umferðarlaga sé undantekningarákvæði og að sóknaraðili hafi fengið úrlausn mála sinna fyrir hlutlausum dómstól. Ekki sé heldur sjálfgefið að Hæstiréttur fallist beiðni sóknaraðila um að fá að áfrýja málinu.
II. Niðurstöður.
Í téðu ákvæði umferðarlaga kemur fram sú meginregla að áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu ökuréttar, fresti ekki verkun hans að því leyti. Þó segir að dómari geti, þegar sérstaklega stendur á, ákveðið að áfrýjun fresti framkvæmd ökuréttarsviptingar. Sóknaraðili var af hliðsettum dómara fundinn sekur um akstur bifhjóls á afar miklum hraða, eða 143 kílómetrum miðað við klukkustund og dæmdur til refsingar og ökuréttarsviptingar. Er raunar ekki víst hvort heimild fáist til að áfrýja þeirri niðurstöðu. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að þarfir sóknaraðila til að nota bifreið séu svo brýnar að þess vegna eigi að fresta framkvæmd ökuréttarsviptingarinnar. Vegna hinnar skýru meginreglu í 104. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um frestun á framkvæmd ökuréttarsviptingar.
Málskostnaður úrskurðast ekki.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Baldvins Kristjánssonar, um frestun á framkvæmd ökuréttarsviptingar er hafnað.
Málskostnaður úrskurðast eigi.