Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Útivist
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Föstudaginn 29. júlí 2011.

Nr. 370/2011.

Kristrún Grétarsdóttir

(Sigurður Gizurarson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Kærumál. Aðild. Útivist. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

K höfðaði mál gegn Í og T. Í héraði varð útivist af hálfu Í við fyrirtöku málsins og var málið því dómtekið að því er hann varðaði, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var kröfum K á hendur Í vísað frá dómi af sjálfsdáðum, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að af kröfugerð K mætti ráða að kröfum hennar hefði einungis verið beint að T. Í stefnu væri ekki að finna skýringu á því hvers vegna Í væri stefnt við hlið T. Hæstiréttur taldi því aðild Í til varnar vanreifaða og staðfesti úrskurð héraðsdóms um að vísa kröfum K á hendur Í frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. júní 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2011, þar sem dómkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og héraðsdómara gert að kveða upp efnisdóm á hendur varnaraðila í málinu „í þeim búningi sem það var í við fyrirtöku þess 8. mars 2011 en til vara 9. maí  2011 og þrautavara 23. maí 2011.“ Til vara krefst hún þess að „málsmeðferð í héraði eftir 8. mars 2011 verði ómerkt og málinu heimvísað til nýrrar dómtöku og löglegrar meðferðar og dómsúrvinnslu og dæmt óháð greinargerð og öðrum afskiptum lögmanns Tryggingastofnunar ríkisins og í þeim búningi sem málið var í gegn kærða við fyrirtöku þess 8. mars 2011, en til vara við upphaf fyrirtöku 9. maí 2011 og vara vara við upphaf fyrirtöku 23. maí 2011.“ Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að „meðferð málsins í héraði verði ómerkt og því heimvísað í nýja meðferð.“ Þá krefst hún aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Í stefnu til héraðsdóms er málið sagt höfðað gegn Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisráðuneyti, félags- og tryggingarmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og íslenska ríkinu. Þykir mega miða við að málið hafi verið höfðað gegn tveimur lögaðilum, Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu. Fallist verður á þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að þingsókn varnaraðila hafi fallið niður 8. mars 2011. Bar þá að fara með málið að því er hann varðar eftir 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Á dómþingi 23. maí 2011 var gerð svofelld bókun: „Dómari málsins upplýsti að hann hefði í hyggju að vísa dómkröfum stefnanda á hendur stefndu heilbrigðisráðuneytinu, félags- og tryggingarmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, íslenska ríkinu og ríkissjóði frá dómi sökum vanreifunar að undangenginni dómtöku málsins á hendur sömu stefndu. Lögmönnum aðila var gefið tækifæri til að tjá sig um frávísunina.“ Að svo búnu fór fram munnlegur málflutningur um þetta að varnaraðila fjarstöddum, enda hafði þingsókn hans fallið niður.

Ekki voru efni til að boða til sérstaks málflutnings um fyrrgreindar fyrirætlanir héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, en í ákvæðinu felst að taka skuli mál til dóms eða eftir atvikum úrskurðar um frávísun í þeim búningi sem það er þegar þingsókn fellur niður. Héraðsdómi var hins vegar rétt að kveða upp hinn kærða úrskurð þegar eftir að þingsóknin féll niður, svo sem hann gerði, í stað þess að bíða málsmeðferðar um kröfu sóknaraðila gegn Tryggingastofnun ríkisins, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki talið að nefndur annmarki á meðferð málsins leiði til ómerkingar hins kærða úrskurðar, enda var það sóknaraðila í sjálfu sér til hagsbóta að fá tækifæri til að tjá sig um fyrirætlanir héraðsdóms um að vísa kröfum hennar á hendur varnaraðila frá dómi.

Eftir að þingsókn varnaraðila var fallin niður 8. mars 2011 gat hann ekki gert kröfur eða átt neina aðild að rekstri málsins. Gildir þetta líka um meðferð þess fyrir Hæstarétti. Koma því kröfur hans og málflutningur ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti. Í málinu er einungis til endurskoðunar hvort héraðsdómi hafi verið rétt að vísa kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila af sjálfsdáðum frá dómi svo sem hann gerði.

II

Sóknaraðili byggir málsókn sína á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið á henni rétt sem hún hafi að lögum átt til greiðslu heimilisuppbótar, sbr. lög nr. 118/1993 um félagslega aðstoð og lög nr. 117/1993 um almannatryggingar, nú nr. 100/2007. Þrátt fyrir að kveðast höfða málið á hendur fyrrgreindum aðilum eru dómkröfur í stefnu orðaðar svo að „stefnda verði dæmt“ til að greiða stefnukröfurnar og þola viðurkenningu á bótaskyldu vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir. Er svo að skilja á þessu að kröfum sóknaraðila hafi einungis verið beint að Tryggingastofnun ríkisins, þó að varnaraðild væri tilgreind með þeim hætti sem að framan greinir. Í stefnunni er ekki að finna skýringu á því hvers vegna íslenska ríkinu sé stefnt við hlið Tryggingastofnunar ríkisins. Síðast nefnd stofnun fullnægir skilyrðum til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Með því að sóknaraðili hefur ekki fært fram sérstök rök fyrir því að varnaraðili þurfi að eiga aðild að málinu við hlið Tryggingastofnunar ríkisins til varnar gegn kröfum hennar telst aðild varnaraðila vanreifuð, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. janúar 1997 í máli nr. 290/1995, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 350. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Kristrúnar Grétarsdóttur, á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu, er vísað frá héraðsdómi.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2011.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 23. maí 2011 var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar 2011. Málið er höfðað af Kristrúnu Grétarsdóttur, Skaftahlíð 34  í Reykjavík, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík, heilbrigðisráðuneytinu, Vegmúla 3, Reykjavík, félags- og tryggingarmálaráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík,  fjármálaráðuneytinu, Arnarhváli við Lindargötu í Reykjavík, íslenska ríkinu og ríkissjóði.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða honum 3.149.933 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2010 til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.484.787 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess ennfremur til vara að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.484.787 krónur með skaðabótavöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2007, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefnda beri bótaskyldu á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vaxta og tapaðra vaxta, vegna greiðsludráttar á umstefndri kröfu, að því hámarki sem lög heimili.

Til þrautavara krefst stefnandi að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir sökum þess að hann hafi þurft að leggja í kostnað vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins hafi hafnað að hann uppfyllti það skilyrði í lögum til heimilisuppbótar, að njóta ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, ásamt að stefnda beri bótaskyldu er nemi fjárhæð vaxta að því hámarki er lög leyfi hverju sinni, af fjárhæð bótakröfu sem stefnandi fái til sín, með því að ofangreind krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda verði tekin til greina, frá 24. febrúar 2007 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, annað hvort skv. málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði  vísað  frá  dómi  og    stefnandi  verði

dæmdur til  að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Í þinghaldi í máli þessu 9. maí 2011 lagði stefnandi fram eftirfarandi bókun, sbr. dómskjal nr. 56:

„Við þingfestingu málsins var mætt af hálfu stefndu. Við fyrirtöku málsins 8. mars s.l. varð hins vegar útivist í málinu af hálfu ráðherra og ráðuneyta sem stefnt var fyrir hönd íslenska ríkisins og ríkissjóðs. Á miðri bls. 4 í „Greinargerð stefnda (eintala)“ Tryggingastofnunar ríkisins, dskj. 22, er auk þess sérstaklega tekið fram að aðeins sé þar höfð uppi málsvörn fyrir Tryggingastofnun. Með bréfi 31. janúar 2007 hafnaði Tryggingastofnun að hún væri að lögum, réttur aðili til greiðslu kröfunnar. Með vísan til þessa er það krafa stefnanda að málið verði þegar dómtekið og dæmt á grundvelli  1. mgr. 96 gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar stefndu sem útivist var hjá. Þess er jafnframt krafist  að krafa Tryggingastofnunar um frávísun málsins verði látin bíða þar til eftir að sá útivistardómur hefur verið upp kveðinn. Skv. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 er stefndu í stefnu réttilega stefnt. Stefnda ísl. ríkið verður síðan sjálft að ákveða það undir hvaða ráðuneyti Tryggingastofnun skuli heyra, þar sem forsjá hennar var og er á reiki milli ráðuneyta, sbr. m.a. dskj. 18-21 og ákveða hvaða ráðherra/ráðuneyti skuli vera í fyrirsvari. Stefnandi gat ekki við málshöfðun ráðið fram úr þessu. Um það að rétt var að beina kröfu, sem stefnan byggir á, að hlutaðeigandi ráðuneytum er svo einnig vísað í bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 4. desember 2007. Fjármálaráðherra og ráðuneyti er stefnt til út greiðslu kröfu f.h. ríkissjóðs.“

Lögmaður stefnda lýsti í þinghaldinu þeirri afstöðu til framangreindrar bókunar að ekki væri rétt að verða við kröfu stefnanda enda hafi Tryggingastofnun ríkisins í dómaframkvæmd verið talinn réttur aðili í dómsmálum sem varði þau mál sem stofnunin hafi með höndum og væri því aðild íslenska ríkisins skv. 1., sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 ofaukið í máli þessu. 

Rétt þykir að taka afstöðu til framkominnar kröfu stefnanda um dómtöku málsins gagnvart öðrum stefndu en Tryggingastofnun ríkisins áður en afstaða er tekin til frávísunarkröfu stefnda Tryggingastofnunar ríkisins.

Í þeim þætti máls þessa sem hér er til úrskurðar gerir stefnandi samkvæmt framangreindu þær dómkröfur að málið verði þegar dómtekið og dæmt á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar aðra stefndu en Tryggingastofnun ríkisins, þar sem útivist hafi orðið hjá þeim við fyrirtöku málsins þann 8. mars 2011. 

Samkvæmt stefnu á dómskjali nr. 1 er mál þetta höfðað á hendur Tryggingastofnun ríkisins,  heilbrigðisráðuneytinu, tryggingarmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, íslenska ríkinu og ríkissjóði. Stefnan er árituð um nægilega birtingu þann 28. desember 2010 af Einari Karli Hallvarðssyni hrl.. Í yfirlýsingu lögmannsins segir með vísan til 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991:

 „Samrit þessarar stefnu hefur verið afhent mér undirrituðum í húsnæði ríkislögmanns að Hverfisgötu 4-6 Reykjavík. Hún er mér nægilega birt f.h. stefnda og hlutaðeigandi fyrirsvarsaðila sem hafa falið mér að sækja þing fyrir sig (sína hönd) við þingfestingu þessa máls.“

Við þingfestingu málsins 11. janúar 2011 er bókað í þingbók að stefnandi málsins sé Kristrún Grétarsdóttir en stefndi Tryggingastofnun ríkisins. Bókað er að af hálfu stefnda hafi sótt þing Ásgeir Björnsson hdl. og stefndi fengið, með samþykki stefnanda, frest til að leggja fram greinargerð til 8. mars 2011. Við fyrirtöku málsins á reglulegu dómþingi 8. mars 2011 er bókað í þingbók að af hálfu stefnda hafi sótt þing Ásgeir Björnsson hdl. og hafi hann m.a. lagt fram greinargerð. Þá er bókað að umboðsmenn aðila hafi fengið sameiginlegan frest til gagnaöflunar um óákveðinn tíma um framkomna frávísunarkröfu en málið hafi að því loknu farið til dómstóra til úthlutunar.

Dómari málsins fékk því úthlutað 1. apríl s.l.

Tilvitnuð greinargerð stefnda er á dskj. nr. 22 og ber hún fyrirsögnina: Greinargerð stefnda, í héraðsdómsmálinu E-53/2011 Kristrún Grétarsdóttir gegn Tryggingastofnun ríkisins o.fl. Í greinargerðinni segir á bls. 4 undir millifyrirsögninni „Málsástæður aðalkröfu“: „Tryggingastofnun ríkisins fer ein með málsvörn í máli þessu. Málshöfðun á hendur öðrum stefndu, heilbrigðisráðuneytinu, félags- og tryggingarmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu f.h. íslenska ríkisins og ríkissjóðs, er með öllu óljós. Óljóst er að hverju er stefnt með aðild þeirra að málinu og jafnvel þó það teldist ljóst ber að sýkna þessa aðila af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“

Fallast ber á það með stefnanda með vísan til þess sem rakið hefur verið um efni áritunar um næga birtingu stefnu, tilgreiningu stefndu í stefnu, bókunar í þingbók málsins 8. mars 2011 og tilgreindra ummæla í greinargerð stefnda Tryggingastofnunar ríkisins á dómskjali nr. 22 að við fyrirtöku máls þessa á reglulegu dómþingi þann 8. mars 2011 hafi orðið útivist af hálfu stefndu heilbrigðisráðuneytisins, félags- og tryggingarmálaráðuneytisins,  fjármálaráðuneytisins, íslenska ríkisins og ríkissjóðs.  Við þá fyrirtöku málsins var þess ekki krafist af lögmanni stefnanda að málið yrði dómtekið á hendur þessum stefndu né var þess gætt ex officio. Ekki var mætt í málinu af hálfu annarra stefndu en Tryggingastofnunar ríkisins við fyrirtöku þess 9. maí s.l.

Með vísan til framanritaðs er mál þetta á hendur öðrum stefndu en Tryggingastofnun ríkisins dómtekið í þeim búningi sem það var við fyrirtöku þess 8. mars 2011, sbr. 2. sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 en ekki er útilokað að mætt hafi verið f.h. allra stefndu við þingfestingu þess 11. janúar 2011, þótt bókun í þingbók gefi ekki ótvíræðar vísbendingar í þeim efnum.

Óljóst er að hverju er stefnt með aðild stefndu heilbrigðisráðuneytisins, félags- og tryggingarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, íslenska ríkisins og ríkissjóðs að máli þessu.                       

Fjárkröfur stefnanda og viðurkenningarkröfur virðist eins og þær eru orðaðar beinast eingöngu að stefnda Tryggingarstofnun ríkisins. Ekki kemur fram í stefnu hvort fjárkröfur á hendur stefndu séu reistar á sjónarmiðum um óskipta ábyrgð þeirra, pro rata ábyrgð eða á öðrum ábyrgðargrundvelli. Málsástæður stefnanda virðast allar beinast að stefnda Tryggingastofnun ríkisins nema hvað því er haldið fram að „ráðuneyti“ hafi látið hjá líða að leiðbeina stefnanda varðandi fjárkröfur hans á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Ekki kemur nánar fram í stefnu hver hlutur einstakra ráðuneyti hafi átt að vera í þeirri upplýsingagjöf og hvernig upplýsingagjöfin eða skortur á henni tengist stefnukröfunni. Málið er hvað stefndu heilbrigðisráðuneytið, félags- og tryggingarmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, íslenska ríkið og ríkissjóð þannig vanreifað, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að ekki er unnt að leggja efnisdóm á  málið, hvað þessa stefndu varðar, og því ekki hjá því komist að vísa því frá dómi ex officio. Með úrskurði þessum er ekki tekin afstaða til framkominnar frávísunarkröfu stefndu Tryggingastofnunar ríkisins. Við samningu úrskurðar þessa hefur verið gætt ákvæða 2. ml. 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991.

Úrskurðinn kvað upp Þórður S. Gunnarsson, settur héraðsdómari.

Úrskurðarorð

Mál þetta er vegna útivistar dómtekið á hendur stefndu heilbrigðisráðuneytinu, félags- og tryggingarmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, íslenska ríkinu og ríkissjóði.

Dómkröfum stefnanda á hendur framangreindum stefndu er vísað frá dómi ex officio.