Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Skuldamál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 29. júlí 2011. |
|
Nr. 371/2011. |
Bjarnfreður H. Ólafsson (Andri Árnason hrl.) gegn Völu Valtýsdóttur Garðari Valdimarssyni og Taxis lögmönnum sf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Skuldamál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Á árunum 2004 og 2005 ráku B, V og G sameignarfélagið T. Opinber gjöld vegna hagnaðar félagsins framangreind fjárhagsár voru lögð á eigendur félagsins persónulega. B hélt því fram að samist hefði svo milli aðila að félagið sjálft skyldi greiða hin opinberu gjöld og krafði B þau V, G og T sf. um greiðslu vegna opinberra gjalda sem hann innti af hendi. Í héraði var málinu vísað frá dómi með vísan til þess að B hefði kært umrædda skattlagningu til skattayfirvalda og niðurstaða þess máls lægi ekki fyrir. Hæstiréttur taldi hins vegar að við efnislega meðferð málsins yrði fyrst að leysa úr ágreiningi aðila um meinta greiðsluskyldu V, G og T sf. af framangreindu tilefni. Meðferð máls B fyrir skattayfirvöldum gæti ekki valdið frávísun málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. júní 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði gerir sóknaraðili í málinu kröfu á hendur varnaraðilum vegna opinberra gjalda sem honum hafi verið gert að greiða vegna hagnaðar af rekstri varnaraðila Taxis lögmanna sf. árin 2004 og 2005, en á þeim tíma ráku sóknaraðili og varnaraðilarnir Vala og Garðar félag þetta saman. Telur sóknaraðili meðal annars að eftir útgöngu sína úr félaginu í árslok 2005 hafi samist svo milli aðila að félagið sjálft skyldi greiða opinber gjöld sem á yrðu lögð vegna reksturs þess ef skattyfirvöld féllust ekki á að félagið teldist sjálfstæður skattaðili, þannig að gjöldin yrðu lögð á eigendurna persónulega. Segir hann að fjármunir hafi verið lagðir til hliðar til að mæta slíkum skuldbindingum.
Fyrir liggur í málinu að umrædd opinber gjöld voru lögð á eigendurna persónulega og greiddi sóknaraðili sín gjöld 31. ágúst 2009, 3.462.993 krónur. Krefur hann varnaraðila um þá fjárhæð. Þá liggur jafnframt fyrir að sóknaraðili hefur með kæru til yfirskattanefndar 30. október 2009 skotið úrskurði skattstjórans í Reykjavík 31. júlí 2009 til nefndarinnar, en með síðast greindum úrskurði var honum gert að greiða umrædd gjöld. Óumdeilt virðist vera að yfirskattanefnd hafi ekki ennþá afgreitt kæru sóknaraðila.
Varnaraðilar kröfðust frávísunar málsins í héraði og byggðu kröfu sína á því „að það sé ósamrýmanlegt að hefja málsókn á hendur stefndu með kröfu um greiðslu skuldar sem haldið er fram að hafi stofnast með því að á stefnanda hafi verið lögð og hann greitt opinber gjöld vegna Taxis lögmanna sf. sem hann hafi þegar kært umrædda skattlagningu til skattyfirvalda og niðurstaða um þá kæru ekki fengist“. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þetta og málinu vísað frá dómi.
Sóknaraðili byggir málsókn sína á því að varnaraðilar séu skuldbundnir til að greiða honum fjárhæð sem jafngildi þeim sköttum sem á hann hafi verið lagðir af framangreindu tilefni og hann greitt. Varnaraðilar hafa mótmælt þessu og telja að fullnaðaruppgjör milli aðila hafi farið fram 25. ágúst 2006. Við efnislega meðferð málsins þarf fyrst að leysa úr þessum ágreiningi. Ef dómurinn féllist á með sóknaraðila að varnaraðilar séu skuldbundnir honum með þeim hætti sem hann heldur fram, yrði dómurinn að taka afstöðu til þess hvort þá sé um að ræða skuldbindingu sem sóknaraðili geti ekki krafið varnaraðila um efndir á, fyrr en að gengnum úrskurði yfirskattanefndar, þannig að sýkna bæri varnaraðila að svo stöddu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Getur þessi aðstaða hins vegar ekki leitt til frávísunar málsins frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði kemur til úrlausnar þar þegar dómur verður felldur á málið.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður kærumálskostnaður látinn niður falla.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2011.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar hinn 6. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 31. ágúst sl.
Stefnandi er Bjarnfreður Ólafsson Suðurhúsum 5, Reykjavík.
Stefndu eru Vala Valtýsdóttir, Langholtsvegi 188, Reykjavík og Garðar Valdimarsson, Flyðrugranda 4, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd sameignarfélagsins Taxis lögmenn sf., Laugavegi 182, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 3.462.993 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2009 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi.
Stefndu krefjast þess til vara þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
Til þrautavara krefjast stefndu þess að þau verði sýknuð að svo stöddu af kröfum stefnanda.
Til þrautaþrautavara krefjast stefndu þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefjast stefndu hvert um sig málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Krafa stefndu um frávísun er til úrlausnar hér.
Stefnandi höfðar mál þetta til endurgreiðslu á fjárhæð sem honum hafi verið gert að greiða samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda er endurákvörðuðu opinber gjöld stefnanda vegna áranna 2004 og 2005. Stefnandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að það hafi verið svo um samið milli málsaðila að ef tekjuskattur vegna hagnaðar stefnda Taxis lögmanna sf. á árunum 2004 og 2005 yrði lagður á eigendur félagsins persónulega í stað þess hann yrði lagður á félagið sjálft, fengi stefnandi til sín hluta af þeirri fjárhæð sem tekin hefði verið frá vegna fyrirhugaðrar greiðslu félagsins á umræddum skatti fyrir tekjuárin 2004 og 2005, í samræmi við álagningu á stefnanda vegna umræddra rekstrarára. Við uppgjör milli málsaðila við innlausn eignarhluta stefnanda í félaginu hafi tilteknir fjármunir verið teknir frá til að greiða umrædda skattskuldbindingu, auk þess sem teknir hafi verið frá fjármunir til að mæta ófyrirséðum kostnaði, samtals kr. 18.000.000. Umræddir fjármunir hafi þannig sérstaklega verið teknir frá í félaginu við uppgjör aðila til að mæta umræddri skattskuldbindingu og vegna annars ófyrirséðs kostnaðar. Í ljósi þess að sameigendur félagsins hafi persónulega þurft að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á þeirri skattskuldbindingu, sem áður var talið að myndi falla á félagið, kveðst stefnandi í samræmi við framangreint samkomulag aðila gera kröfu um að fá afhenta hlutdeild sína í hinum fráteknu fjármunum er nemi þeirri fjárhæð sem hann hafi síðan reynst sjálfur þurfa að greiða.
Aðalkrafa stefndu um frávísun er byggð á því að það sé ósamrýmanlegt að hefja málsókn á hendur stefndu með kröfu um greiðslu skuldar sem haldið sé fram að hafi stofnast með því að á stefnanda hafi verið lögð og hann greitt opinber gjöld vegna tekna Taxis lögmanna sf. þar sem hann hafi þegar kært umrædda skattálagningu til skattyfirvalda og niðurstaða um þá kæru ekki fengist. Ljóst sé að ef stefnandi vinni kærumál sitt myndi álagning sú er leiddi til skattgreiðslu hans falla niður og hann fengi endurgreiðslu þeirra fjármuna frá íslenska ríkinu sem hann endurkrefur stefndu um í þessu máli. Eins og stefnandi hafi kosið að ráðstafa hagsmunum sé nauðsynlegt að fá endanlega niðurstöðu um skattskyldu hans áður en hann geti höfðað mál á hendur stefndu með þeim hætti sem hann gerir. Um frávísunarkröfu stefndu er vísað til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda er kröfu stefndu um frávísun mótmælt og krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Í máli þessu krefur stefnandi um greiðslu úr hendi stefndu sömu fjárhæðar og skattyfirvöld gerðu honum að greiða og hann greiddi en málefni þetta er í kærumeðferð hjá skattyfirvöldum. Stefnandi krefur þannig annars vegar stefndu um endurgreiðslu og krefst jafnframt niðurfellingar álagningar. Málssókn stefnanda er því háð að honum verði gert að greiða umrædd opinber gjöld en hann hefur kært álagningu þeirra í því skyni að fá hana fellda niður. Málssókn stefnanda samrýmist ekki þessum aðgerðum hans og verður máli þessu því vísað frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Bjarnfreður Ólafsson, greiði stefndu Garðari Valdimarssyni, Völu Valtýsdóttur og Taxis lögmönnum sf. 200.000 krónur í málskostnað.